Í þessari færslu er rakin næsta lota í viðskiptum Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar um sagnaritun. Sú lota stóð í tvö og hálft ár. Afraksturinn var afar lítill en greiðslurnar háar. Titillinn vísar í bókanir í fundargerðum, sjá t.d. töflu yfir aðalatriði funda.
Saga Sögu Akraness VI
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Fyrsti viðaukasamningurinn
Þann 24. janúar 2002 undirrituðu Gísli Gíslason, bæjarstjóri, f.h. Akraneskaupstaðar, og Gunnlaugur Haraldsson „Viðaukasamning um ritun sögu Akraness“. Í formála Viðaukasamningins segir að bæjarstjórn Akraness hafi samþykkt á fundi sínum 11. desember 2001 að „ganga til viðræðna við hann um framlengingu verksins.“ Engin slík samþykkt er bókuð á þessum fundi bæjarstjórnar (929. fundi), einungis að fundargerð ritnefndar hafi verið lögð fram.1 Aftur á móti samþykkti bæjarráð þennan viðaukasamning Akraneskaupstaðar og Hjálmars Gunnlaugs Haraldssonar um ritun sögu Akraness á fundi 20. desember 2001 (2687. fundi).2 Annað hvort er fundargerð bæjarstjórnar eitthvað einkennilega/ónákvæmt rituð eða þessi inngangsklausa í samningnum er röng.
Í fyrstu grein kemur fram að þetta er „viðauki við upphaflega samninginn. Ákvæði samningsins frá 23. apríl 1997 halda gildi sínu eftir því sem við á.“ Aðallega er samið um aðra skiladaga og meiri laun til Gunnlaugs. Nú skrifar Gunnlaugur undir að II. bindi verði fullsamið og búið til prentunar eigi síðar en 1. mars 2003 og III. bindi eigi síðar en 1. maí 2004. Samið er um sams konar greiðslur, þ.e. rífleg mánaðarlaun framhaldsskólakennara með álagi vegna launatengdra gjalda og veglegan bónus þegar hvoru handriti er skilað (uppreiknaðri einni milljón á verðgildi 1997). (2. gr.)
Loks er samið um að Gunnlaugur fái þriggja mánaða laun að þessu loknu til að „fullsemja“ og ganga frá sögu tímabilsins frá landnámi til 1700 og „fella inn í verkið“. (3.gr.) Þetta er einmitt uppástunga Gunnlaugs sjálfs, sjá síðustu færslu, og átti þessi bútur að lenda framan við fyrsta bindið sem ritnefndin hafði samþykkt að væri fullunnið. Gunnlaugi voru þar með tryggðar fastar mánaðargreiðslur í tvö og hálft ár í viðbót, til áframhaldandi ritunar sögu Akraness.
Með þessum samningi tryggði Gunnlaugur sér föst mánaðarlaun líklega frá 1. janúar 2001 til 31. júlí 2004.
Vinna Gunnlaugs og Ritnefnd um sögu Akraness
Vinnubrögð sagnaritans Gunnlaugs eru mjög of hið sama far og meðan hann starfaði eftir fyrsta samningnum. Sjá töflu yfir aðalatriði fundargerða 2002-2004, skv. þessum samningi.
Í mars 2002 skilaði hann inn 21. kafla sem hafði vantað í 1. bindið, alls 47 blaðsíðum. Það er merkilegt í ljósi þess að Ritnefnd um sögu Akraness [hér eftir nefnd Ritnefndin] hafði staðfest fullnægjandi skil á þessu 1. bindi meir en þremur mánuðum áður og Gunnlaugur hafði fengið greidda áfangagreiðslu fyrir einmitt þetta bindi í árslok 2001. Skýringin er væntanlega sú að Ritnefndin hafði alls ekki lesið yfir 1. bindið og hóf yfirferð yfir það seint á árinu 2002, treindi sér svo verkið vel fram yfir áramótin 2003.
Annars skilar hann fullt af áætlunum, sem eru kallaðar „drög að efnisyfirliti“; „vinnuplan að efnisskipan“; „endurskoðuð efnisskipan“; „yfirlit um verkstöðu“ og „minnisblað og verkáætlun“. Hið síðastnefnda lagði hann fram þegar ljóst var að hann gæti ekki staðið við þennan viðaukasamning og vildi semja um lengri tíma og meiri laun, við Akraneskaupstað.
Efni sem Gunnlaugur skilaði á þessum samningstíma var, eins og áður sagði, kaflinn sem vantaði í 1. bindi, 250 síður af 2. bindi (í júní 2003 en það bindi átti að vera tilbúið í maí sama ár) og loks 167 síður af 2. bindi (í febrúar 2004).
Gunnlaugur hélt nefndinni vel upplýstri um allt sem hann var að vinna að, hversu mörgum blaðsíðum af heimildum hann hefði safnað og hvað hann hefði hugsað sér að gera næst. Nefndin virðist hafa fallist á þetta án þess að sjá neinn afrakstur en mikið af áætlunum.
Breytingar á Ritnefndinni voru nokkrar á þessum tíma. Eftir bæjarstjórnarkosningar 2002 fer samfylkingarmaðurinn Hrönn Ríkarðsdóttir út og inn kemur sjálfstæðismaðurinn Sigurður Sverrisson. Sæti hans tekur svo sjálfstæðismaðurinn Jón Gunnlaugsson snemma árs 2004. Þótt vægi Samfylkingarinnar minnkaði í Ritnefndinni og vægi hinnar nátengdu fjölskyldublokkar Gísla, Hrannar og Leós, virtist það ekki skipta neinu sérstöku máli. Ég veit lítil deili á Sigurði Sverrissyni nema hann virðist hafa verið áhugamaður um íþróttir, jafnvel fleiri en knattspyrnu. Jón Gunnlaugsson, sem hefur setið í Ritnefndinni síðan 2004 og er núverandi formaður hennar, hefur unnið fyrir VÍS til fjölda ára. Hann hafði skrifað rit um ÍA í samvinnu við Sigurð Sverrisson og annan mann þegar hér var komið sögu. Það rit kom út í tveimur bindum árin 1984-1986 og heitir Skagamenn skoruðu mörkin. Saga knattspyrnunnar á Akranesi (útg. Hörpuútgáfan á Akranesi). Það má sjálfsagt deila um hversu mikið svona rit telur í reynslu í sagnfræðiritun og ég veit ekki hvort Jón Gunnlaugsson hefur nokkra formlega menntun í sagnfræði.
Allt frá 1987 til 2002 var Ritnefndin annars vegar skipuð fjölskyldublokkinni Gísla, Leó og Hrönn og hins vegar tveimur eldri mönnum, jafnvel öldungum. Þegar öldungarnir dóu voru skipaðir aðrir öldungar í staðinn, yfirleitt virtir menn í bæjarfélaginu og taldir búa yfir góðri þekkingu á sinni tíð og jafnvel eitthvað aftur í tímann. Má rekja þetta þannig: Halldór Jörgensson sat í fyrstu ritnefndinni tæpt hálft ár, þegar hann dó tók Ólafur J. Þórðarson sæti hans. Valdimar Indriðason sat í fyrstu ritnefndinni, þegar hann dó tók Jósef H. Þorgeirsson sæti hans. En nú víkur svo við að þegar Ólafur J. Þórðarson dó, árið 2004, var ekki skipaður öldungur í hans stað heldur framsóknarmaður litlu eldri en hinir nefndarmennirnir, Guðmundur Páll Jónsson. Hann var umsvifamikill í pólitík, fyrir Framsóknarflokkinn, og varð seinna um tíma bæjarstjóri hér í bæ. Guðmundur Páll átti það einmitt sameiginlegt með Jóni Gunnlaugssyni að hafa brennandi áhuga á íþróttum og vera fæddur og uppalinn á Skaganum. Aftur á móti er hann líklega ekkert menntaður í sagnfræði, hefur samvinnuskólapróf frá Bifröst.
Svoleiðis að Ritnefndin breyttist úr fjölskylduhópi með minnihluta vísra öldunga í nefnd þar sem flestir áttu það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á íþróttum, ekki hvað síst fótbolta. Þeir Gísli Gíslason og Leó Jóhannesson voru báðir liðtækir íþróttamenn á sínum tíma og afkomendur þeirra og skyldmenni hafa gert það einkar gott í fótboltanum. Leikni í knattspyrnu hefur löngum þótt góð ávísun á frama hér á Skaganum en er kannski ekki sérlega vænleg til að meta gæði sagnaritunar.
Gunnlaugi Haraldssyni tókst áfram jafn vel að heilla nefndarmenn upp úr skónum, sama úr hvaða flokki þeir komu, þótt sjálfur hafi hann ekki verið orðaður við knattspyrnuiðkun mér vitanlega. Hann virðist hafa ómælda persónutöfra þegar kemur að því að selja vinnu sína og þótt hann skilaði litlu sem engu virtist Ritnefndin trúa því að hann væri í alvöru á kafi í vinnu í sagnaritun fyrir Akranesbæ. Ritnefndin lék hlutverk peðanna sem valda sinn hrók. Því studdi Ritnefndin Gunnlaug í lok samningstímans að gera nýjan samning svo hann gæti verið áfram á launum frá Akraneskaupstað.
Kostnaður af þessari samningslotu Akraneskaupstaðar við Gunnlaug
Laun Ritnefndarinnar (nefndarmenn fengu greidda hverja fundarsetu nema Gísli Gíslason, bæjarstjóri og formaður nefndarinnar) voru fyrir árin 2001-2004 tæplega 211 þúsund kr. Laun Gunnlaugs og endurgreiddur kostnaður við efnisöflun og ferðir voru tæplega 11 og hálf milljón. Annar kostnaður var rúmlega 592 þúsund. Alls kostaði sagnaritunin 12 milljónir og 278 þúsund krónur á árunum 2001-2004, sem á núvirði er rétt tæpar 20 milljónir og 174 þúsund krónur.3
Ég hef kostnað við ritun Sögu Akraness einungis sundurgreindan eftir árum en ekki eftir samningslotum bæjarins og Gunnlaugs. Af því hann gerði svo „Samkomulag“ við Akraneskaupstað seint í ágúst 2004 (sjá Hvers virði er saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig) eru greiðslur frá 1. ágúst til áramóta 2004 taldar með „Viðbótarsamningi“.
Afraksturinn af þessari vinnu var hálfkarað handrit að 2. bindi sögunnar og kafli sem hafði vantað inn í 1. bindið. Ekki var hægt að gefa út 1. bindið því Gunnlaugur hafði sannfært Ritnefndina um að framan á það vantaði forspjall, sem honum hafði auðvitað ekki auðnast að byrja á á samningstímanum.
Í rauninni má segja að rúmar 20 milljónir í viðbót hafi ekki skilað neinu að ráði til útgáfu á Sögu Akraness. Hið meinta ritverk hafði nú kostað um 50 milljónir, vinnan hafði staðið í sex og hálft ár, enn var ekkert tilbúið til útgáfu og raunar var verkið einungis tæplega hálfnað, miðað við samninginn sem gerður var í upphafi.
1 Á þessum fundi bæjarstjórnar var rætt talsvert um fjármál og sátu þrír sjálfstæðismenn hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar bæjarsins en forsvarsmaður þeirra, Gunnar Sigurðsson, lét bóka: „Það er dapurleg staðreynd að nú þegar tekjur Bæjarsjóðs Akraness hafa ekki í annan tíma verið meiri og álögur á bæjarbúa aldrei verið jafnháar, þá er skuldastaðan verri en nokkru sinni áður.“ Einn þremenninganna, Jón Gunnlaugsson, settist svo í Ritnefnd um sögu Akraness snemma árs 2004.
2 Í bæjarráði sátu Guðmundur Páll Jónsson, Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar og Gunnar Sigurðsson. Auk þeirra sátu fundinn bæjarstjórinn Gísli Gíslason og bæjarritarinn Jón Pálmi Pálsson. Sveinn Kristinsson var gamall samherji Gunnlaugs Haraldssonar frá Alþýðubandalagsárunum en nú orðinn samfylkingarmaður, Gunnar Sigurðsson var sjálfstæðismaður og Guðmundur Páll var framsóknarmaður. Guðmundur Páll tók seinna sæti í Ritnefnd um sögu Akraness (í lok ágúst 2004).
Þann 8. janúar 2002 (á 930. fundi) samþykkti svo bæjarstjórn þessa fundargerð bæjarráðs og hefur þá væntanlega sjálfkrafa lagt blessun sína yfir að ganga til samninga við Gunnlaug Haraldsson.
3 Upplýsingar um kostnað og uppreikning hans á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað 4. maí 2011.