Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig

Í þessari færslu verður sagt frá þriðju samningslotu Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar um ritun sögu Akraness. Í þeirri lotu tókst Gunnlaugi að láta Akraneskaupstað greiða sér óinnunnar árangurstengdar greiðslur, dreift á 13 mánuði, án þess að skila neinu. Titill færslunnar er tilvitnun í bréf Gísla Gíslasonar bæjarstjóra og formanns ritnefndar um sögu Akraness, „Sagan“, á umþræðuþræði Akraneskaupstaðar 1. mars 2005. (Sjá nánari umfjöllun um þessa umræðu neðar í færslunni.)

Saga Sögu Akraness VII
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …

Gamli vitinn á AkranesiÞann 26. ágúst 2004 gerðu Akraneskaupstaður og Hjálmar Gunnlaugur Haraldsson með sér „Samkomulag”. Í fyrstu grein þess samkomulags er vísað í „verkáætlun, sem lögð var fram á fundi ritnefndar um sögu Akraness þann 23. ágúst s.l. “og hún „lögð til grundvallar vinnu við ritun sögu Akraness.“ Þessi verkáætlun var einmitt samin af Gunnlaugi sjálfum (sjá 53. og 54. fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness).

Samkomulagið kvað á um að gengið yrði að fullu frá II. bindi (sem hlaut nú að eiga að ná yfir tímabilið 1850-1941 því Ritnefndin breytti tímaskiptingu í síðustu lotu) á tímabilinu ágúst 2004 til janúar 2005; gengið að fullu frá III. bindi (enn gilti samningur um að það dekkaði 1941-2000) og skrifaðir tveir kaflar framan á I. bindi (landnám til 1850) á tímabilinu janúar 2005-september 2005. (1. gr.)

Það ótrúlega í þessu samkomulagi er að með því fellst Akraneskaupstaður á að greiða Gunnlaugi árangurstengdu greiðslurnar sem samið var um í upphafi án þess að árangurinn hafi náðst. Þetta er orðað svona:

„Samkvæmt 4. grein gildandi samnings frá 23. 4. 1997 um ritun sögu Akraness er gert ráð fyrir í 2. tl. að greiða skuli fyrir skil á fullbúnu handriti ákveðnar fjárhæðir. Af þeirri fjárhæð sem greinin kveður á um er ólokið verkþáttum vegna tveggja greiðslna af þremur. Upphafleg samningsfjárhæð var 1,0 mkr. vegna II. bindis og sama fjárhæð vegna III. bindis. Uppreiknuð er fjárhæðin í ágúst 2004 kr. 1.629.461 vegna hvors bindis eða samtals kr. 2.358.922. Samkomulag er um að dreifa umræddum greiðslum á tímabilið frá 1. ágúst 2004 til 30. september 2005 þannig að mánaðarleg greiðsla verður 232.780 og uppfærast [svo] samkvæmt launavísitölu í janúar 2005 með sama hætti og kveðið er á um í gildandi samningi.“ (2. gr.)1

Meta á stöðu verksins í janúar 2005 og maí 2005. „… söguritari skuldbindur sig til að gera það sem í hans valdi stendur til að verklok verði á þeim tíma sem áætlað er.“ (2. gr.) Þetta er merkileg klausa í samningi og væri gaman að vita hvort samsvarandi ákvæði eru almennt í verktakasamningum; Má ætla að byggingarverktaki „skuldbindi sig til að gera það sem í hans valdi stendur“ til að byggja hús fyrir umsaminn tíma og sé síðan fyrirgefið takist honum það ekki? Eða garðsláttufyrirtæki að slá nokkra garða?

„Samkomulag þetta er gert á grundvelli samþykktar ritnefndar um sögu Akraness frá 25. ágúst 2005 og samþykktar bæjarráðs Akraness frá 26. ágúst s.á.“ (2. gr.)2  Hér er meinleg villa í samningnum: Átt er við samþykktir Ritnefndarinnar og bæjarráðs árið 2004! Mér finnst villan benda til þess að sá sem bjó til samkomulagið (Gísli bæjarstjóri?) hafi unnið í flaustri og velti fyrir mér hvort þessi villa ómerki samkomulagið. Altént er ekkert tvínónað við hlutina: Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður Ritnefndar um sögu Akraness og Gunnlaugur Haraldsson skrifa undir samdægurs, þ.e. 26. ágúst 2004.
 

Vinna Gunnlaugs á tímabilinu og starf Ritnefndarinnar

Einungis var haldinn einn fundur í Ritnefnd á þessu tímabili, þann 2. mars 2005 (55. fundur). Í fundargerð kemur fram að Gunnlaugur hefur spjallað við einstaka fundarmenn „um stöðu mála“ en annars sem fram fór í svoleiðis spjalli er ekki getið. Hann nefnir hversu „gríðarlegt verk“ heimildasöfnun fyrir þriðja bindið er enda er hann ekki byrjaður að skrifa það. Gunnlaugur stingur svo upp á því að „hefja undirbúning að forsögunni og 1. bindi og einnig 2. bindi.“

Þetta er illskiljanlegt eftir orðanna hljóðan í fundargerð. En líklega er átt við að reyna skuli að ganga frá 1. og 2. bindi til útgáfu.

Í þessu sambandi má rifja upp að Gunnlaugur hafði fengið greidda árangurstengda greiðslu fyrir 1. bindi árið 2001 enda staðfesti ritnefndin fullnægjandi skil á því þann 19. nóvember 2001. (Sjá lok yfirlitstöflu yfir fundi fyrstu lotu bæjarins og Gunnlaugs.) Á þeim sama fundi læddi Gunnlaugur hugmyndinni um stutt forspjall framan á 1. bindið að Ritnefndinni. Í næstu lotu bæjarins og Gunnlaugs samþykkti Ritnefndin þessa hugmynd um stutta forsögu og átti Gunnlaugur að ljúka henni fyrir 1. ágúst 2004. Það gerði hann ekki. 1. bindið er nákvæmlega jafn óklárað og áður, eftir föst mánaðarlaun í rúma fimm mánuði á samningi til viðbótar (í marsbyrjun 2005).

Ekkert er bókað um að Gunnlaugur hafi skilað nokkrum sköpuðum hlut svo erfitt er að gera sér grein fyrir hvort eitthvað hafi þokast áleiðis í ritun 2. bindis (sem Gunnlaugur átti að skila fullbúnu 1. október 2000, fékk svo frest með Viðaukasamningnum til 1. mars 2003 og er núna, þegar Samkomulagstíminn er tæplega hálfnaður, að hugsa um að fara að vinna að ritun seinni hluta þess.

Verkið var hvorki metið í janúar né maí 2005 eins og átti að gera samkvæmt Samkomulags-samningnum. Nema það mat hafi farið fram fyrir luktum dyrum og hvergi bókaður um það stafkrókur.

Gamli vitinn á AkranesiEn Ritnefndin lætur sig dreyma ljúfa drauma um bækur og fer á sínum eina fundi að ræða „hugmyndir að broti væntanlegrar útgáfu. Ætla má að samtals yrðu fyrstu tvö bindin um 1100 síður í ritmáli og 100 síður með myndefni.“ Kannski má rekja upphafið að draumum Ritnefndar og bæjarstjórnarmanna um glæsilegt flúrað rit í rókókóbúningi til þessa fundar? Ritnefndin taldi, á þessum fundi, að stefna mætti að „að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006“. Henni varð ekki að ósk sinni.

Ritnefndin samþykkti síðan að vinna að því „að fullbúa handrit að 1. og 2. bindi (þ.e. frá landnámi og 1700-1850 annars vegar og 1850-1941 hins vegar [lok sviga vantar] og búa þau undir prentun m.v. að þau verði gefin út vorið 2006“ en annað verði látið bíða.3

Þennan fund sátu einungis fótboltaáhugamenn/einlægir stuðningsmenn ÍA, því Jósef H. Þorgeirsson var fjarverandi: Gísli Gíslason (formaður nefndarinnar), Guðmundur Páll Jónsson, Jón Gunnlaugsson og Leó Jóhannesson. Einnig mætti sagnaritarinn Gunnlaugur Haraldsson.

Nú tekur við eyða í fundarsetum Ritnefndar um sögu Akraness í rúmt ár. Næsti fundur var ekki haldinn fyrr en 9. október 2006. Nærtækasta skýringin á þessu er að almenningur á Akranesi var farinn að spyrja óþægilegra spurninga og menn veltu fyrir sér hvað dveldi Orminn langa, í sagnaritun. Besta ráðið til að forðast óþægilegar spurningar er að þegja og láta sem ekkert hafi gerst … stundum er gripið til þeirrar líkingar að menn staðhæfi að bleiki fíllinn sé ekki til þótt hann blasi við öllum. Þykir þessi aðferð einkum einkenna aðstandendur alkóhólista og annarra fíkla. Ég get mér þess til að Ritnefnd um sögu Akraness, bæjarstjórn og bæjarráð hafi, á þessu samningslotutímabili, verið búin að taka að sér aðstandendahlutverk þegar sagnaritun bar á góma og tolldu í hlutverkinu næstu árin. Mig grunar að þessi eini fundur, 2. mars 2005, hafi einungis verið haldinn af því óþægileg umræða var komin upp á umræðuvef Akraneskaupstaðar. Ella hefðu menn kosið að grafa málið í þögn.
 
 

Greiðslur Akraneskaupstaðar til Gunnlaugs Haraldssonar í þessari lotu

Ég hef kostnað við ritun Sögu Akraness einungis sundurgreindan eftir árum en ekki eftir samningslotum bæjarins og Gunnlaugs. Af því hann gerði þetta „Samkomulag“ við Akraneskaupstað seint í ágúst 2004 eru greiðslur frá 1. ágúst til áramóta 2004 taldar með „Viðbótarsamningi“, sem gerð var grein fyrir í síðustu færslu.4 En fyrir árið 2005 fékk Gunnlaugur greiddar rúmlega 2 milljónir 376 þúsund krónur, Ritnefndin fékk 38.688 kr. fyrir þennan eina fund og annar kostnaður það ár var um 135.000 kr. Samtals voru þetta rúmlega 2 milljónir 550 þúsund krónur sem á núvirði gera rúmlega 3,9 milljónir. Þótt haft sé í huga að upphæðin fyrir alla þrettán mánuðina er mun hærri telst þetta fremur vel sloppið, miðað við aðrar samningslotur við Gunnlaug. Þessar greiðslur voru skv. „Samkomulaginu“ þær árangurstengdu greiðslur sem Gunnlaugur hafði auðvitað ekki fengið því árangurinn var enginn. Líklega töldu menn að akkúrat núna myndi hann standa við sitt og sýna árangur. Svo varð ekki og ég get ekki séð að neinn afrakstur hafi orðið af þessu „Samkomulagi“, þ.e.a.s. ég get ekki séð að Gunnlaugur hafi skilað neinu.
 
 

Kurr í bæjarbúum

Steingrímur Guðjónsson vakti máls á ritun sögu Akraness á umræðuþræði bæjarvefjarins þann 23. febrúar 2005. Hann skrifaði m.a.:

„En mig langar að skrifa um menningu, Árið 1992 átti Akraneskaupstaður 50 ára afmæli og kom þá út fyrsta bindi í sögu Akranes sem Jón Böðvarsson ritaði, verulega velskrifað og framm sett, en eittvað fór í kergju og var Jón látinn víkja og annar söguritari ráðinn í hans stað.
.Í öll þessi ár, síðan að Akraneskaupstaður átti 50 ára afmælið hefur ritnefnd verið starfandi (varla launalaust) og nýr söguritari ráðinn til að taka við af Jóni…en eftir 13 ár…JÁ 13 ár sér ekki enn til annaðs bindis af sögu Akraness.
Hefði ekki verið nær að halda samninginn við Jón?
Sem íbúi bæjarins hlýt ég að spyrja hvað nefndin og söguritari hafa þegið í launa síðan 1992?
Og hvenær er von á 2 bindi af Sögu Akraness?
Hefði ekki verið ástæða til að það kæmi út 2002, tíu árum seinna en fyrsta bindið,á 60 ára afmæli kaupstaðarins, enn er ekki komið að nútímasögu í þessum bindum, eða hvað?“
 

Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður Ritnefndarinnar svaraði að bragði (um hádegi þann 23. febrúar 2005):

„Varðandi sögu Akraness þá hefur Gunnlaugur Haraldsson verið að vinna við það um nokkurt skeið eins og flestir þekkja. Hann hefur þegar lagt fram talsvert efni – en safnað þeim mun meira af ómetanlegum gögnum og heimildum sem hann nýtir við verkið. heimildavinnan hefur tekið mun meiri tíma en áætlað var, en af þeim texta sem Gunnlaugur hefur skilað til ritnefndarinnar þá er ljóst að vönduð heimildavinna mun skila sér í frábæru efni þegar þar að kemur. Ekki ætla ég að fara að rifja hér upp ritferil Jóns Böðvarssonar – en til að fyrirbyggja misskilning þá óskaði hann eftir lausn frá samningi sínum og því var það ekki á hendi bæjarins að halda við þann samning. Þá er að geta þess að Gunnlaugur þiggur laun samkvæmt þeim samningi sem gerður var við hann og með þeim breytingum sem á honum hafa verið gerðar – en ritnefndin sem skipuð er (undirritaður þar undanskilinn) fær nefndarlaun í samræmi við fjölda funda – en þar er um óverlulegar fjárhæðir að ræða. Vonir standa til að á þessu ári verði ákveðnum áföngum í verkefninu lokið þannig að unnt verði að koma þeim hluta í umbrot og vonandi prentun í framhaldi af því – en að svo stöddu er ekki hægt að segja meira um það að sinni.“

Ég vek athygli á því að Gísli, sem er búinn að eiga viðskipti við Gunnlaug Haraldsson síðan 1997, virðist annað hvort trúa því í alvöru eða telja sér trú um að vinna Gunnlaugs sé einkum fólgin í vandaðri heimildavinnu sem „mun skila sér í frábæru efni þegar þar að kemur“. Gunnlaugur er búinn að vera á fullum launum í hartnær sjö ár þegar Gísli skrifar bréfið og hafði skilað einu bindi sem honum tókst svo að sannfæra Ritnefndina um að þyrfti að skrifa „forsögu“ framan við svo það bindi var ekki einu sinni tilbúið. Bærinn er langt kominn með að greiða Gunnlaugi allar árangurstengdu greiðslurnar, þ.e.a.s. eina greiðslu fyrir 1. bindi sem Ritnefndin mat árið 2001 að væri fullbúið (en snérist svo hugur með aðstoð sagnaritarans) og hinum tveimur bónusunum var dreift á árin 2004 og 2005, þótt engu væri skilað. Af fundargerðum Ritnefndarinnar að dæma virðist Gísli segja ósatt um starfslok Jóns Böðvarssonar, eins og ég hef rakið í fyrri færslum. Gísla Gíslasyni kunna að þykja sporslur fyrir fundarsetur vera óverulegar en sé haft í huga að Ritnefndin hafði haldið 25 fundi meðan á „samvinnu“ hennar og Gunnlaugs hafði staðið og alla jafna fengu fjórir nefndarmenn greitt fyrir hvern fund þá held ég að venjulegir Skagamenn hefðu ekki fallist að í kostnaði bæjarins af fundarsetum væri um óverulegar fjárhæðir að ræða.5
 

Næstur tekur til máls annar íbúi Skagans, Hringur Sigurðsson, bendir á að Gísli svari alls ekki spurningum Steingríms og hefur reyndar bréf sitt á að benda á einkennilegt tímaskyn bæjarstjórans:

„Tímaskyn bæjarstjóra er með eindæmum sérkennilegt. Þannig fjallar hann um 13 ára ritstíflu Gunnlaugs sem “nokkurt skeið”. Ekki áralangt eða “alllangt skeið”! Í eðlilegu tímamæli og talmáli íslendinga teljast 13 ár vægast sagt langur tími.“ [Þarna ruglast bréfritari eitthvað því Gunnlaugur hafði fengið greitt fyrir verkið í 7 ár, þar á undan hafði Jón Böðvarsson unnið í 9 og hálft ár, fengið greitt í 4 og hálft ár.]
 

Gísli bæjarstjóri svarar í dæmigerðum aðstandendaklisjum, þ.e. efnislega: a) Þetta er ekki satt; b) Auk þess er þetta ekkert skárra hjá öðrum; c) Auk þess er alveg hægt að afsaka þetta. Það er pínlegt að sjá hve hann, formaður Ritnefndarinnar, er óklár á samningstímabilum í þeim samningum við Gunnlaug Haraldsson sem hann hafði sjálfur skrifað undir, sem bæjarstjóri.6
 

Það myndi æra óstöðugan að rekja efni bréfs sjálfs sagnaritarans, Gunnlaugs Haraldssonar, „Meint ritstífla brestur“, sent inn á þennan umræðuþráð  25. febrúar 2005 kl. 00:54, líklega einkum til að svara Hringi Sigurðssyni sem hafði lagt orð í belg, kannski Steingrími Guðjónssyni líka. Ég hvet lesendur þessarar færslu eindregið til að lesa allt bréfið Gunnlaugs, það segir manni margt um viðhorf hans til eigin verka og viðhorf hans til alþýðu manna, þ.e.a.s. til þorra íbúa Akraness. Ég á sjálfsagt eftir að vitna oftar en einu sinni í þetta bréf þótt ég endursegi það ekki núna. Hér læt ég duga að geta aðeins þess sem hann segir um laun sín og kjör því menn gætu misskilið það:

„1) Ég hef unnið að þessum ritstörfum sem verktaki og voru mánaðarlegar greiðslur til mín við upphaf verks miðaðar við föst laun framhaldsskólakennara að viðbættri ákveðinni prósentu til að mæta svonefndum launatengdum gjöldum. Tiltekinn hluti greiðslna eða heildarfjárhæðar (20%) var hins vegar “afkastatengdur” eða skilyrtur afhendingu handrita, – trúlega í því augnamiði að koma í veg fyrir að ég fylltist “ritstíflu” á meðgöngutímanum! Ýmislegt hefur skekkt þessi viðmið á langri vegferð, en nú um stundir nemur mánaðarleg heildarfjárhæð til mín 232.780 kr. og lýkur í september n.k. Alla starfsaðstöðu með tilheyrandi kostnaði hef ég lagt mér til sjálfur að því undanskildu, að fyrir hverja ferð til Reykjavíkur til vinnu á Þjóðskjalasafni/Þjóðarbókhlöðu fékk ég í fyrstu endurgreitt fargjald með Akraborg skv. afláttarprísum sem þá giltu. Eftir daga þess góða og sártsaknaða farkosts og fara þurfti landleiðina á milli hef ég fengið greiddan akstursstyrk sem nemur 84 km (42 km hvora leið) og endurgreitt veggjald í göngin vegna slíkra ferða.“7

Frá upphafi og lengst af þáði Gunnlaugur ágæt mánaðarlaun framhaldsskólakennara með talsverða yfirvinnu + aukasporslu til að vega upp launatengd gjöld. (Sjá 8. neðanmálsgrein við færsluna Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma.) Afkastatengdu greiðslurnar komu ekki í veg fyrir að hann „fylltist “ritstíflu” á meðgöngutímanum“ því hann fékk einungis einu sinni greitt fyrir afköst, þá raunar tveimur árum eftir að hann átti að skila því bindi (sjá sömu færslu og fyrr var vísað til). Hinar tvær afkastatengdu greiðslurnar stóðu einmitt undir þeim launum sem hann var á þegar hann skrifaði bréfið. Þeim var dreift á 13 mánuði, eins og kemur fram í upphafi þessarar færslu. Afköstin, þ.e. afhending handrita, urðu samt engin.
 

Gamli vitinn á AkranesiSkagamaðurinn Hringur, sem Gunnlaugur svaraði í sínu langa bréfi (það er yfir átta síður útprentað en reyndar er lunginn úr því afrit af einni af mörgum áætlunum eða efnisskipan Gunnlaugs), þakkar strax pent fyrir í bréfinu „gleðilegt“ 22. febrúar 2005: „Það er að sönnu gleðilegt að sá sem málið varðar skuli sjá sér fært að hverfa frá önnum sínum við sagnaritun til þess að svara almúganum hér á akranes.is.  Og það gerir hann vel og skilmerkilega, enda atvinnumaður í skriftum. Hefur a.m.k. verið á kaupi við skriftirnar lengi. Það er og líka ágætt að hann stígur nú niður til pöpulsins eftir að hafa þegið milljónir úr vösum Skagamanna fyrir verkið.“

Hringur benti síðan á augljósar rökvillur í málatilbúnaði Gunnlaugs, sem hann kallar „nauðvörn“:

„Er mér alþýðumanninum stætt á öðru en að segja: Þér var nær! Þú réðst því sjálfur hvort þú skrifaðir undir!

Og svo byrjar Gunnlaugur að telja upp rökin fyrir töfinni. Hann hefur vörn sína á eftirfarandi orðum:

“Heimildaöflun og úrvinnsla þeirra hefur reynst langtum tafsamari og tímafrekari en mig óraði nokkru sinni fyrir, og hafði þó talsverða reynslu að byggja á í þessum efnum…”

En hann óraði fyrir já. Flott. Og er það þá ekki við hann að sakast? Eiga bæjarbúar að greiða fyrir hans eigið vanmat?

Þegar verktaki í byggingariðnaði tekur að sér verk og skilar því ekki á tilsettum tíma koma til dagsektir. Vegna hans eigin vanmats á aðstæðum eða ófyrirséðrar seinkunar. En Gunnlaugur, hvað gerir hann? Fer bara fram á áframhaldandi framfærslu og laun, þrátt fyrir samning um annað!!!

Kostulegt.“
 

Þann 1. mars 2005 skrifaði Steingrímur Guðjónsson aftur á umræðuþráðinn, „Sagan endalausa sem ekki er gefin út“, og sagði:

„Þakka svör frá Gísla bæjarstjóra og söguritara Gunnlaugi Haraldssyni, samkvæmt svörum á að gefa fyrsta bindi út aftur, bók Jóns Böðvarssonar ekki nógu góð, en kostaði um rúmar 9 milljónir miðað við að vera reiknuð út á vísitölu núverðis, en með öllum kostnaði s,s prentun umbrot ofl. og hún var gefin út 1992.
En miðað við að kíkja í ársskýrslur bæjarins á þessum tíma er búið að eyða rúmlega 30 milljónum í skrif Gunnlaugs Haraldssonar og eitt hadrit liggur fyrir að fyrsta bindi (aftur)án prentunarkostnaðar og öllu sem því fylgir, ,s,s fyrsta bók Jóns og fyrsta handrit Gunnlaugs á sömu sögu tæplega 40 milljónir , plús útgáfukostnaður og 2 bindi eftir enn, hljótum við bæjarbúar ekki að fara að krefjast svara frá ritnefnd?“

Svo rakti Steingrímur  tölulegar upplýsingar sem hann hafði tekið saman úr Ársskýrslum Akraness og endaði bréf sitt:

„Með útgáfukostnaði nálgumst við 50 milliónir á endurútgáfu á fyrsta bindi Sögu Akraness,, hvað er ritnefnd að hugsa?? Búið að endurrita bindi 1, en ekki gefið út.
Er þetta að verða hugsjón, hvað þarf hver bók að kosta til að standa undir sér og hversu margir kaupa?
Gaman væri að einhver úr ritnefnd svaraði.“
 

Gísli Gíslason svaraði Steingrími samdægurs, í bréfinu „Sagan“:

„Á stundum flýtur á spjallinu ýmislegt sem þörf er á að leiðrétta því eins og gengur betra að hafa það sem sannara reynist þannig að vitleysan fljóti ekki mann frá manni eins og stundum vill gerast. Undirritaður hefur aldrei sagt eitt eða annað um gæði þess ritverks sem Jón Böðvarsson gaf út, en annað má ætla af orðum Steingríms Guðjónssonar. Í öðru lagi stóð ekki til að gefa út efni frá Gunnlaugi fyrr en heildarmynd er komin á verkið. Varðandi kostnað við verkið frá upphafi er það ekki ritnefndarinnar að svara um efni þeirra samninga sem bæjarstjórn hefur gert, en samningruinn við Jón Böðvarsson var gerður árið 1987 og við Gunnlaug Haraldsson árið 1997. Um fjárhæðir samningsins fer Steingrímur nærri enda hefur því efni verið svarað áður. Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig.“
 

Steingrímur var væntanlega að vísa til orða Gunnlaugs þegar hann nefndi að bók Jóns Böðvarssonar væri ekki nógu góð. (Gunnlaugur sagði m.a. í „Meint ritstífla brestur“: „Í öðru lagi þótti mér að í bók Jóns hefði verið skautað býsna glannalega yfir fjölmarga þætti sögunnar, að því marki sem ég taldi mig þá þekkja til hennar, – einkum á 18. og 19. öld, – heimildanotkun og efnistök einnig gjörólík því sem ég myndi sjálfur kjósa“ og „… því sérhvert tilvik ræðst miklu fremur af aðgengi og tilurð heimilda svo og þeim kröfum sem gerðar eru um úrvinnslu þeirra. Það er hægur vandi að rumpa saman bókartötri á skömmum tíma með því einu að sanka saman gagnrýnislaust samtíningi úr áður útgefnum ritum eins og ýmsir hafa látið sér sæma og mörg eru “einnota” dæmin um í árlegu jólabókaflóði. Ég legg ekki nafn mitt við slíka iðju.“ Það þarf ekkert ofboðslegt hugmyndaflug til að lesa út úr þessu að bók Jóns hafi ekki verið nógu vandlega unnin að mati Gunnlaugs.) Gísli hefur líklega hvergi beinlínis tjáð sig um bók Jóns Böðvarssonar en auðvelt er að ráða í hug Gísla til Jóns og hans sagnaritunar, af fundargerðum og fleiru, sem ég hafi áður rakið.

Útúrsnúningar Gísla eru með ólíkindum: Hann getur ekki svarað um kostnaðinn af því hann er formaður ritnefndar og ritnefnd hefur ekkert með peningana að gera; Það er bæjarstjórnin sem á að svara og skiptir þá ekki máli að Gísli er sjálfur bæjarstjóri, situr bæjarráðs- og bæjarstjórnarfundi og skrifaði undir alla samningana við Gunnlaug, sem bæjarstjóri! Auk þess ítrekar hann að hann hafi svarað þessu áður (í bréfi sem mér hefur ekki tekist að finna á spjallþræðinum en yrði þakklát ef einhver gæti bent mér á hvar það er finna). Miðað við það sem Gísli sagði um samningstímabil í fyrra bréfi sínu trúi ég því samt vel að hann hafi haft takmarkaða hugmynd um hve miklu var búið að eyða í verkið.

Þann 20. apríl 2005 skrifaði Snorri Ö.K. bréf í hálfkæringi sem ég hirði ekki um að rekja og ári síðar (í maí 2006) sendi Magnús Þór Hafsteinsson skilaboð inn á þráðinn en um hans þátt verður fjallað síðar.

Um miðjan desember 2006 skrifaði Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason bréfið „65.000.000 ISK fyrir sögu Akranes“, sem hefði getað orðið upphaf nýs umræðuþráðar. Bréfið er þannig: „Maður les það í fjölmiðlum að á endanum komi saga Akranes til með að kosta 65.000.000 krónur. Maður spyr, af hverju?“

Ásgeiri var ekki svarað.
 
 
 


 1 Í ágúst 2004 voru meðaldagvinnulaun framhaldsskólakennara 239.959 kr. (Sjá Fréttarit KOS nr. 32, s. 36.) Gunnlaugur var með aðeins lægri laun en það. Dagvinnulaun framhaldsskólakennara hækkuðu svo um 19 þúsund í febrúar 2005 en ég veit ekki hvort Gunnlaugur naut góðs af því, a.m.k. heldur hann því fram bréfi á umræðuþræði Akraneskaupstaðar, sem hann skrifaði seint í febrúar 2005, að hann sé enn með 232.780 kr. í mánaðarlaun.
 2  Bæjarráð, fundur nr. 2820, 26.8.2004. „1.1. Fundargerð ritnefndar um sögu Akraness frá 23.8.2004 og 25.8. 2004.
Bæjarráð samþykkir tillögu nefndarinnar og felur bæjarstjóra að afgreiða málið í samræmi við tillöguna.“ Á næsta fundi bæjarstjórnar, fundi nr. 980, 14.9. 2004, var fundargerð bæjarráðs lögð fram og þessi liður samþykktur. Bókað var að Þórður Þ. Þórðarson (sem sat í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn) og Gísli bæjarstjóri hefðu tekið til máls um 1. tl. sögu Akraness, en ekki er rakið hvað þeir sögðu.
 

Fyrrnefndan fund bæjarráðs sátu formaður bæjarráðs Guðmundur Páll Jónsson (framsóknarmaður sem einnig sat í ritnefnd um sögu Akraness), Gunnar Sigurðsson (fyrir Sjálfstæðiflokkinn) og Kristján Sveinsson (varamaður Sveins Kristinssonar, samfylkingarmanns). Bæjarstjórinn Gísli Gíslason (formaður ritnefndar um sögu Akraness) sat einnig fundinn.

Þótt viðstaddir bæjarráðsmenn hafi hver verið úr sínum flokknum áttu þeir það sameiginlegt að vera einlægir unnendur íþrótta, einkum knattspyrnu. Menn skyldu ekki vanmeta svoleiðis tengsl hér á Skaganum, til er dæmi um að hollusta við meistaraflokk ÍA hafi spillt sifjaböndum. Árið 2006 hlaut Gunnar Sigurðsson, sem lengi var formaður Knattspyrnufélags ÍA, æðstu viðurkenningu ÍA, heiðursfélagatitil. Við sömu athöfn hlaut Gísli Gíslason heiðurssilfurmerki ÍA, ásamt Guðmundi Páli Jónssyni. Gísli og Guðmundur Páll höfðu áður hlotið bandalagsmerki ÍA, árið 1996 og Gísli er núverandi formaður aðalstjórnar Knattspyrnufélags ÍA. (Raunar hugsa ég að Guðmundur Páll hafi frekar beitt sér í stuðningi við aðrar íþróttagreinar en fótbolta, innan ÍA en sjálfur sagði hann árið 1999 að aðaláhugamál hans væru „fótbolti og sund“.) Kristján Sveinsson fékk gullmerki knattspyrnufélags ÍA árið 2009.

Sveinn Kristinsson, fjarverandi aðalmaður á þessum bæjarráðsfundi, hefur mér vitanlega ekki verið orðaður við tuðruspark en hann var hins vegar gamall samherji Gunnlaugs Haraldssonar, hugsanlega vinur hans, sjá færsluna Framtakssemi og frumskógarlögmál. Þótt Gunnlaugur hafi eftir að Alþýðubandalagið lagði upp laupana um tíma helgað krafta sína vinstri-grænum (hann sat í stjórn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs á Vesturlandi 1999-2000, sjá æviágrip hans sem fyrrnefnd færsla tengir í) en Sveinn hinsvegar starfað innan vébanda Akraneslistans og síðar Samfylkingarinnar, virðist ekki hafa borið skugga á vinskap þeirra Sveins. Má til þessu til marks taka að Sveinn líkti  Gunnlaugi við Snorra Sturluson og jafnaði sagnaritun hans að nokkru við byggingu Kölnardómkirkju og Versala fyrir örfáum dögum, sjá „Fjölmenni á útgáfuhátíð vegna Sögu Akraness“ á vef Skessuhornsins 20. maí 2011. (Ég hef ekki enn fengið afrit af ræðu Sveins og byggi því samlíkingu hans við Snorra Sturluson á munnlegri heimild nokkurra viðstaddra. Og kannski ætti einhver að benda Sveini Kristinssyni á að alþýða manna var ekki mjög hress yfir byggingu Versala, á sínum tíma, og afhöfðaði húsráðendur í þeirri höll þegar hún var búin að fá nóg af fjáramálaruglinu.)
 

3 Orðrétt er þetta svona í fundargerð:

„Varðandi framgang málsins m.v. framangreinda hugmynd söguritara þá mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006.
 Með vísan til framangreinds samþykkir ritnefndin eftirfarandi:
1.  Þrátt fyrir að heimildaöflun við þriðja bindi sé orðin allnokkur er talsvert enn eftir.  Rétt er að fresta þeim verkþætti meðan öðrum verkefnum er lokið.
2.  Unnið verði að fullbúa handrit að 1. og 2. bindi (þ.e. frá landnámi til 1850 annars vegar og 1850-1941 hins vegar og búa þau undir prentun m.v. að þau verði gefin út vorið 2006.
3.  Frekari heimildaöflun og ritun 3. bindis bíði ákvörðunar næsta haust.“
 

4 Kostnaður við verkið árið 2004 skiptist þannig: Laun fyrir fundarsetur Ritnefndarmanna: 75.869; Annar kostnaður: 1.495 og greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar: 3.569.187 kr. Samtals eru þetta rúmlega 3 milljónir 646 þúsund sem á núvirði gera rétt rúmlega 5,8 milljónir. Langstærstur hluti upphæðarinnar rann í vasa Gunnlaugs eins og glöggt má sjá. Einhver hluti hennar hefur væntanlega verið endurgreiddur kostnaður vegna ljósritunar, myndatöku á Þjóðskjalasafni og ferða.
 

5 Núna greiðir Akraneskaupstaður almennum nefndarmönnum 9.269 kr. fyrir hvern fund sem þeir sitja. Greiðslur hafa verið með svipuðum hætti gegnum tíðina og geta áhugasamir margfaldað með þessari tölu ef þá lystir. Ofan á þessa nefndarlaun bætast núna 17,35% launatengd gjöld sem bærinn greiðir. Ritnefnd um sögu Akraness hélt 29 fundi meðan hún „starfaði með“ Jóni Böðvarssyni og var, þegar hér var komið sögu, búin að halda 54 fundi alls. Sinn 55. fund hélt hún rúmri viku eftir að þessi umræða kviknaði á vef Akraneskaupstaðar.

6 „Ekki kannast ég við það tímatal sem Hringur setur fram í spjalli sínu, en hitt er rétt vafalaust að ritun sagnfræðiegra rita tekur oft langan tíma. Má í því efni horfa til sagnaritunar ýmissa sveitarfélaga. Hvað Akranes varðar þá hefur verk Gunnlaugs dregist og fyrir því eru að sjálfsögðu skýringar af hálfu sagnaritara, sem fjallað hefur verið um í ritnefnd, bæjarráði og bæjarstjórn. Upphaflegur samningur við Gunnlaug var gerður 26. ágúst 1997. Honum átti að ljúka í september árið 2001. Sá samningur var framlengdur til 1. mars 2004, en því miður tókst ekki að ljúka því verki og því var samningnum að nýju breytt til september 2005. Gunnlaugur hafði því upphaflega fjögur ár til verksins. Framlenging samningsins er því 4 ár. Fyrir liggur eitt bindi verksins og hluti annars bindis en á bak við það og fleira liggur gríðarleg gagnaöflun. Ég hef áður svarað beiðnum hér á spjallinu um kostnað af verkinu – en sjálfsagt að taka það að nýju saman. Það hljóta allir að vera sammála um að best sé að skila vönduðu verki í takt við það sem Gunnlaugur er að gera enda mun sú saga standa um ókomin ár. Ritnefndin er jafn óþolinmóð og aðrir sem vilja sjá verkið í heild.
Gísli Gíslason, bæjarstjóri.“

Bæjarstjórinn og formaður ritnefndar fer þarna víða með rangt mál. Skrifað var undir fyrsta samningin við Gunnlaug þann 23. apríl 1997 og í honum sagði:  „Verkið hefst þann 1. apríl 1997 og skal lokið eigi síðar en 30. september 2001.“ (3. gr.) Næsti samningur við Gunnlaug („Viðaukasamningurinn“) var gerður 24. janúar 2002 og lauk 31. júlí 2004. Þriðji samningurinn („Samkomulagið“) var gerður 26. ágúst 2004 og átti að ljúka verkinu 30. september 2005. Gunnlaugur hafði því í upphafi tæp fjögur og hálft ár til verksins. Ekkert hefur verið bókað um óþolinmæði Ritnefndarinnar frá því Gunnlaugur tók við verkinu en nokkrar slíkar færslur mátti finna í fundargerðum meðan Jón Böðvarsson vann að sagnaritun, auk opinberrar yfirlýsingar sem Ritnefndin sendi frá sér á því tímabili.

Mér hefur ekki tekist að finna eldri greinargerð Gísla Gíslasonar um kostnað af verkinu á spjallþráðum Akraneskaupstaðar, þessa sem hann vísar í.

7 Akstursstyrkur er yfirleitt miðaður við akstursgjald ríkisstarfsmanna (ákvarðað af Ferðakostnaðarnefnd Fjármálaráðuneytisins) sem er nú 104 kr. á kílómetra.
 
 
 
 

6 Thoughts on “Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig

  1. Veistu hvort þessi Gunnlaugur Haraldsson stundaði aðra vinnu eða fékk greitt fyrir önnur verk á þeim tíma sem hann hefur verið launaður starfsmaður bæjarbúa? Það er með ólíkindum að lesa hvernig Gísli Gíslason hefur umgengist sjóði bæjarins. Hann er greinilega engu skárri en kollegi hans, Gunnar Birgisson í Kópavogi.

  2. Harpa on May 23, 2011 at 00:23 said:

    Já, hann starfaði við ýmislegt með fram og gerði fleiri samninga um sagnaritun. Mig minnir að hann hafi gert samning við sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju um að skrifa sögu kirkjunnar árið 2003 og enn hefur ekkert birst – er ekki alveg viss um ártalið samt. Ég mun taka saman töflu yfir önnur störf Gunnlaugs meðan hann var á launum frá Akraneskaupstað þegar ég verð búin að rekja alla samningana við hann og fjalla um kostnaðinn við Sögu Akraness.

  3. Sævar Þór Jónasson on May 23, 2011 at 11:58 said:

    Þetta er ótrúlega fræðandi og áhugaverð lesning og ég hlakka bara til að lesa framhaldið eins og góða spennusögu.
    Ég verð að nálgast þessi mögnuðu rit sem skv. núverandi bæjarstjóra eru víst hverrar krónu virði.

    Kveðja,
    fyrrverandi nemandi.

  4. Harpa on May 23, 2011 at 12:11 said:

    Já, þetta er mjög spennandi saga, ég er sammála því. Eiginlega vantar bara morðið til að fá Undirheima til að gefa hana út sem reyfara 😉
    Ég hef ekki enn barið hin mögnuðu rit augum (og hef svo sem hvorki séð Kölnardómkirkju né Versali ef út í það er farið, nema á myndum). En það verður spennandi að skoða bækurnar og gá hvort textinn stendur undir auglýsingum. Sjálfsagt er engu logið um útlitið enda skilst mér að bækurnar séu þvílíkir hlunkar að þær verði ekki lesnar nema sitjandi við sæmilega stórt borð.

    Ég hef ekki hugsað mér að fjárfesta í bókunum meir en ég hef þegar gert í útsvarsgreiðslum til bæjarins.

  5. Ég er búinn að sjá bæði Sögu Akraness og Versali. Þó að það hafi verið rigning þegar ég skoðaði Versali þá verð ég nú að segja að mér þótti meira til þeirra koma þó að bækurnar séu vissulega flottar.

  6. Harpa on May 23, 2011 at 13:38 said:

    Það verður sjálfsagt álitamál hvort Versalir standast samanburð en ég tek þig svo sem trúanlegan með þetta, hafandi hvorugt séð. Var að upplýsa bróður þinn um klósettmál í Versölum á þeirra hátindi. Honum þótti mikið til koma þeirrar lýsingar.

    Áðan heyrði ég frasann “Sjá Sögu Akraness og dey”. Yfirleitt hefur þetta orðtak verið brúkað um Napólí. Ég hef tvisvar dvalið í Napólí en á sem sagt eftir að skoða Sögu Akraness og reikna með að verða langlíf, sé miðað við öll bindin 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation