Goðsagnir um glæsileika; „Stórasta“ bók í heimi?

Frá því árið 2009 hafa þeir gamalreyndu bæjarstjórnarmenn sem fjallað var um í færslunni glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til, einn bæjarstjóri (hinn bæjarstjórinn virðist beggja blands þegar hann tjáir sig um verkið) og örfáir fleiri sammælst um að hamra á glæsileika Sögu Akraness og urðu lýsingarnar æ hástemmdari eftir því sem biðtíminn eftir útgáfunni lengdist. Þannig hafa þeir reynt að stinga dúsu í bæjarbúa sem kunna að vera óánægðir með fjáraustur í sagnaritarann og skapa ímynd eða goðsögn, með því að skrýða gripinn, ritin sjálf, pelli og purpura. Þessi færsla er aðallega beinar tilvitnanir í tímaröð sem sýna þessa ímyndarþróun og einnig hina afsökunina fyrir fjáraustri og óralöngum meðgöngutíma verksins, sem er hversu mikil fræðimennska og uppgötvanir byggðar á frumheimildum séu í því fólgnar

Saga Sögu Akraness XIII
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I,     Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II,    Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III,   Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV,   Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V,     Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI,    Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VIIHvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX,    … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X,     Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit
Saga Sögu Akraness XI,   glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til
Saga Sögu Akraness XIImikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum sem mér hefðu gefist

Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu).
 

F�flar � túniUpphafið að upphafningunni má rekja til ritnefndar um sögu Akraness, eftir að vonir manna um útgáfu fyrstu tveggja bindanna vorið 2008 brugðust. Gunnlaugur Haraldsson brá nefnilega á það ráð um mitt árið 2008 að sýna Ritnefndinni einstakar blaðsíður (væntanlega á glærum) en ekki einungis minnisblöð um verkstöðu, nýjar vinnuáætlanir eða eitthvað svoleiðis gamalt og þreytt (sbr. töflu unna úr fundargerðum Ritnefndarinnar árið 2008).

Feitletranir í beinum tilvitnunum eru mínar. Nöfn helstu einstaklinga eru auðkennd með litum og feitletrun. Titill færslunnar byggir að hluta á fagnaðarorðum forsetarfrúarinnar þegar Íslendingar stóðu sig vel í handbolta um árið. Athugið að einstaklingarnir sem vitnað er í voru ekki búnir að lesa bækurnar þegar þeir sögðu þetta; langflestir þeirra hafa væntanlega einungis séð örlítið brot af bindi I eða II, sumir jafnvel einungis nokkrar blaðsíður á glærum. Ritnefndin hefur sennilega lesið eitthvað af textanum á ýmsum stigum á þessum 14 árum en vitaskuld varð töluverð endurnýjun í ritnefndinni sem tímar liðu. Undantekningar eru nýjustu tvenn ummælin, þ.e. yfirlýsingar ritnefndarinnar og bæjarstjórans í næstnýjasta Skessuhorni (miðvikudaginn 8. júní 2011); Ég býst við að báðir aðilar hafi lesið eitthvað af bindunum tveimur þegar þau orð eru skrifuð, jafnvel bæði bindi I og II. 

Þá taka við yfirlýsingar bæjarstjórnarmanna og bæjarstjóra:

  • Og verði það gefið út í þeirri mynd sem allt horfir að það verði þá getum við Skagamenn verið stoltir af því. Það sem ég hef séð af þessu … ég held að þetta sé það glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til!
    (Sveinn Kristinsson á bæjarstjórnarfundi 13. október 2009.)
  • Kostnaðurinn er fjárans nógur en það sem ég hef séð af bókinni er geysilega falleg vinna.
    (Gísli S. Einarsson bæjarstjóri í frétt DV  „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“, 22. desember 2009.)
     
     
  • Þetta er eitt hið glæsilegasta verk sem hefur verið unnið á þessu sviði á landinu – ég hef orð prófarkalesarans fyrir því sem að var að skila núna öllum yfirlestrinum og hann er búinn að vera … hefur haft svona verk með höndum fyrir mörg sveitarfélög og hann fullyrti við mig -og hann bað mig ekkert fyrir það – að þetta væri það glæsilegasta verk sem  unnið hefði verið á þennan veg af öllum svei … fyrir öll sveitarfélög á landinu.“
    (Gísli S. Einarsson bæjarstjóri á bæjarstjórnarfundi 25. maí 2010.) 
      
     
  • Þetta er mikið verk og vandað og þegar Akurnesingar og aðrir landsmenn munu fá það í hendur munu menn sjá að þar hefur ekki verið kastað til höndunum heldur hygg ég að þarna sé um einhverja og verði um einhverja glæsilegustu byggðasögu sem rituð hefur verið og gefin út á Íslandi.
    (Sveinn Kristinsson á bæjarstjórnarfundi 25. janúar 2011.)
     
     
  •  … en ég segi um þessa sögu og ég er svo sannfærður um og var sosum farinn að sannfærast þegar ég sá þegar ég sá verkið á síðustu metrunum að þetta verk er hverrar krónu virði og ég er næstum því viss um að einhvern tíma á eftir að tala um það hvað það hafi verið ódýrt!
    (Árni Múli Jónasson bæjarstjóri í fréttum Ríkissjónvarpsins 20. maí 2011.)
     
     
  • Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar sagði þegar hann handlék bækurnar tvær og lofaði um leið, að Þjóðverjar hefðu aldrei byggð Kölnarkirkju ef þeir hefðu vitað hvað það tæki langan tíma og hvað þá að Versalir hefðu þá nokkurn tíma verið byggðir.
    („Fjölmenni á útgáfuhátíð vegna Sögu Akraness“. Skessuhornið 25. maí, s. 16.)
     
     
     

Það helst nokkuð í hendur að því meir sem menn róma glæsileika ritsins því meiri verður líka áherslan á fræðimennsku sagnaritarans, Gunnlaugs Haraldssonar, og einmanalegt starf hins misskilda fræðimanns eða rithöfundar í tæpan einn og hálfan áratug sem megi skýra með mikilli rannsóknarvinnu, merkum uppgötvunum og fræðilegri vandvirkni. Í svoleiðis samhengi beri ekki að horfa í tíma eða peninga. Raunar má rekja þennan anga umræðunnar allt til ársins 2005 þótt hún verði ekki verulega áberandi fyrr en í vetrarbyrjun 2009.
 

  • Hann [Gunnlaugur Haraldsson] hefur þegar lagt fram talsvert efni – en safnað þeim mun meira af ómetanlegum gögnum og heimildum sem hann nýtir við verkið. Heimildavinnan hefur tekið mun meiri tíma en áætlað var, en af þeim texta sem Gunnlaugur hefur skilað til ritnefndarinnar þá er ljóst að vönduð heimildavinna mun skila sér í frábæru efni þegar þar að kemur.
    (Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður ritnefndar um sögu Akraness, á spjallþræði Akraneskaupstaðar 23. febrúar 2005.)
     
     
  • Það hljóta allir að vera sammála um að best sé að skila vönduðu verki í takt við það sem Gunnlaugur er að gera enda mun sú saga standa um ókomin ár.
    (Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður ritnefndar um sögu Akraness á spjallþræði Akraneskaupstaðar 23. febrúar 2005.)
     
     
  •  … að söguritari hefur náð að fara í uppruna okkar jafnvel betur en nokkurn tíma áður hefur verið gert. Það að ýmis örnefni hér í nágrenni okkar … að söguritari hefur áttað sig og rannsakað það þegar að Bresabræður komu. Hann er búinn að finna hvaðan þeir komu! Og örnefni hér … tökum eins og dæmi eins og Esjuna. Það er komið úr því umhverfi sem þeir komu. Og nánast í þeirri röð og í þeirri eyju sem þeir sjálfsagt komu frá. Þetta er í rauninni alveg stórmerkilegt! Við höfum velt fyrir okkur miklu. Af hverju nafnið Akranes er dregið og ýmis örnefni sem hér eru. Við fáum jafnvel bara skýringar á því í þessari söguritun … með hvaða hætti þetta varð til í okkar umhverfi. Og þetta er stórkostlegt!
    (Guðmundur Páll Jónsson á bæjarstjórnarfundi 13. október 2009.)
     
     
  • En það er nú eins og það er að hugverk eru oft litin öðrum augum en steinsteypa og járn … Rithöfundur sem að skrifar … hugmyndir manna um kaup rithöfundar eru kannski aðrar en um kaup verkfræðings sem hefur oft ekkert lengri skólagöngu eða býr ekkert almennt yfir meiri þekkingu en rithöfundurinn.
    (Sveinn Kristinsson á bæjarstjórnarfundi 25. maí 2010.)
     
     
  • Spurður hvort honum finnist réttlætanlegt að bæjarfélagið greiði hátt í hundrað milljónir fyrir ritun sögu Akranesskaupstaðar segir Árni Múli [Jónasson bæjarstjóri] erfitt að leggja á það mat og bendir á að aðeins eru örfáir mánuðir síðan hann tók við sem bæjarstjóri. „Ég hef ekki grænan grun um hvað er eðlilegt í þessu sambandi. Við viljum bara fara að koma þessu út og gleðja bæjarbúa. Það sem ég hef séð af þessu verki heillaði mig. Það er greinilegt að þetta er ekki hrist fram úr erminni,“ segir Árni Múli.
    („Bókin um Akranes kostar 100 milljónir – 23 ár í vinnslu.“ Vísir 22. nóvember 2010.)
     
     
  • En þó að ávinningurinn verði ekki mældur í krónum, vaðmáli og evrum er hann engu að síður mjög mikill; fyrir menninguna og skemmtunina sem hún veitir og ekki síður fyrir það hvernig svona saga styrkir samkenndina og sjálfsmyndina. Ég hef t.d. af  einhverjum ástæðum aldrei heyrt nokkurn mann tala um ritunarkostnaðinn af Njálssögu eða Egilssögu eða þá Heimskringlu. Ég ætla þó ekki að gerast svo djarfur að halda því fram að Njála og Egla muni falla í skugga Akranesssögu þessarar, enda veit ég Gunnlaugur myndi ekki telja það við hæfi, en ég hef fengið örlítinn smjörþef af innihaldi og útliti þessa verks og treysti mér til að fullyrða að það er unnið af mikilli fagmennsku og hæfni að þar liggur afar mikill metnaður að baki, hvort sem litið er til texta eða heimildaöflunar, korta eða ljósmynda. Allt saman framúrskarandi flott og það hafa miklu fleiri en ég séð og vottað.
    (Ávarp Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra sem hann flutti þegar hann veitti viðtöku handritum að I og II bindi Sögu Akraness, dagsett 18. janúar 2011.)1
     
     
  • … en við sáum sem fengum að sjá brot af þessu að hér var bara komið mjög mikið af merkilegum gögnum sem eru bæði uppfræðandi fyrir okkur og okkar framtíð.
    (Gunnar Sigurðsson á bæjarstjórnarfundi 25. janúar 2011.)
     
     
  • Þá hafa  miklar grunnrannsóknir farið fram og það munu þeir sem að eignast bókina eða sjá að handbragð hefur verið vandað bæði varðandi ritun bókarinnar, útlit hennar og þau önnur gögn sem í henni eru.
    (Sveinn Kristinsson á bæjarstjórnarfundi 25. janúar 2011.)
     
     
  • Í viðtali sem þessu verður aðeins tæpt á örlitlu broti af því gífurlega mikla efni, sem Gunnlaugur hefur dregið saman á rúmlega 1100 blaðsíður í firnastóru broti og brátt mun birtast lesendum í tveimur bindum af Sögu Akraness.
    („Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ S
    kessuhornið 13. apríl 2011. Þess ber að geta að Gunnlaugur las sjálfur yfir viðtalið, leiðrétti, breytti og bætti áður en það birtist.)
     
     
  • Þetta tímamótaverk er ótæmandi brunnur upplýsingar um hvaðeina sem snertir sögu Akraness og varpar skíru ljósi á uppruna fólks í landnámi Bresasona. Í lýsingu á þróun og uppbyggingu samfélagsins eru settar fram hugmyndir sem varða sögu landsins alls. […] Bindið í heild [II bindi] geymir yfirgripsmikla og þaulunna lýsingu á samfélagi bænda og sjómanna á átakatímum þegar sjóþorpið Akranes byggðist upp.
    („Saga Akraness kemur út á morgun“. Skessuhornið 18. maí 2011. Þessi texti virðist að miklu leyti unninn upp úr auglýsingum útgáfufyrirtækisins Uppheima.)

     
     
  • Þeir Kristján [Kristjánsson útgefandi] og Gunnlaugur [Haraldsson sagnaritari] kynntu hið nýja ritverk. Ljóst er að þetta verk er glæsilegt og efnistök og allur frágangur er til fyrirmyndar.
    (Fundargerð ritnefndar um sögu Akraness 18. maí 2011.)
     
     
  • [Innskot fréttamanns: Og Árni segir að það sé margt í þessu mikla ritverki sem muni koma mörgum á óvart.]  Hér voru landnámsmenn af keltneskum uppruna og örnefni og annað sem þeir skildu eftir sig, ef svo má segja, hérna eru ótrúlega lík ýmsu því sem eru á eyjum á því svæði.
    (Árni Múli Jónasson bæjarstjóri í fréttum Ríkissjónvarpsins 20. maí 2011.)
     
     
  • Árni Múli Jónasson bæjarstjóri sagði t.d. lesninguna bæði fróðlega og skemmtilega fyrir fólk á öllum aldri, ekkert síður unga en gamla. Þetta væri brunnur sem fólk myndi sækja í og ausa úr. „Þennan brunn þarf ekki að byrgja fyrir börnunum, um að gera að lofa þeim að detta ofan í hann, sagði bæjarstjórinn í gamansömum tón um leið og líkti vinnu höfundarins Gunnlaugs Haraldssonar og þeim sem að honum stóðu [svo] við stórvirki.“
    („Fjölmenni á útgáfuhátíð vegna Sögu Akraness“. Skessuhornið 25. maí 2011, s. 16.)
     
     
  • Árni Múli sagði í samtali við Skessuhorn að hann stæði við það sem hann hefði áður sagt um Sögu Akraness að ritið væri framúrskarandi gott, fræðilegt og skemmtilegt. „Ég er mikill áhugamaður um sögu og hef menntun á því sviði og hef skoðað mörg sagnfræðileg verk áþekk Sögu Akraness. Ég tel mig hafa dómgreind, þekkingu og menntun til að geta fullyrt að Saga Akraness stendur þeim flestum ef ekki öllum framar, bæði hvað varðar efni, texta og framsetningu. … Ég stend við öll þau stóru orð sem ég hef áður haft um þetta glæsilega verk, að það sé höfundinum og þeim sem að því koma til sóma og samfélaginu okkar til upplyftingar og framdráttar,“ segir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri.
    („Stórfurðuleg atlaga að fræðimannsheiðri. Árni Múli Jónasson bæjarstjóri um framkomna gagnrýni á sögu Akraness.“ Skessuhornið 8. júní 2011, s. 2.)
     
     
  • Saga Akraness bindi I-II eftir Gunnlaug Haraldson, er stórt og glæsilegt verk sem lengi hefur verið beðið eftir. … Vandað var til verksins af fremsta megni. En vegna hins gríðarlega umfangs er þess að vænta að finna megi á því einhverja missmíði. … Nefndin lýsir yfir fullu trausti á verðleika höfundar til fræðistarfa og hvetur bæði hann og bæjaryfirvöld til að halda verki áfram.
    („Yfirlýsing frá Ritnefnd um Sögu Akraness.“ Skessuhornið 8. júní 2011, s. 2. Sjá má sömu yfirlýsingu í fundargerð Ritnefndarinnar frá 7. júní 2011)

  
 

Gamli vitinn � hr�ðarbylÖnnur sjónarmið um verkið og vinnu Gunnlaugs hafa sjaldan verið viðruð opinberlega af Skagamönnum og einungis í undantekningartilvikum af ráðamönnum bæjarins. Þó gerðist almenningur svo djarfur að tjá sig á  spjallþræði Akraneskaupstaðar árið 2005, eins og áður hefur verið minnst á. Einnig má benda á þessi orð til mótvægis lofræðunni sem rakin hefur verið:
 
 

Mér þykir þetta svo dýrt að tungan á mér er bólgin. Ég fékk þær skýringar frá höfundi að heimildir frá fyrri tímum hafi einfaldlega verið rangar. Ég get ekki annað en tekið skýringarnar trúanlegar. Við ákváðum að greiða honum áfram í þeirri von að þetta sé lokahnykkurinn. Ég er viss um að við fáum bókina núna.
(Gísli S. Einarsson bæjarstjóri í „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“. DV 22. desember 2009.)
 
 

Þetta er búið að vera í gangi í 12 ár og það finnst mér ansi langur tími. Hann hefur hins vegar ekki skilað af sér því sem honum bar. Auðvitað hefur höfundurinn fært fram sín rök en ég er búin að missa alla trú á hans skýringum. Bókin er orðin ansi dýr og ég vil hætta að borga höfundi laun. Að halda áfram finnst mér bara bruðl en auðvitað er það óskandi að þetta væri klárað. Ég efast um að þetta verði einhvern tímann tilbúið til prentunar og því get ég ekki samþykkt að setja meiri peninga í þetta. Mér finnst nóg komið.
(Karen Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“. DV 22. desember 2009.)
 

Mér finnst tíminn sem þetta hefur tekið vera ótrúlega langur og ekki hægt að afsaka það.
(Stefán Teitsson bæjarbúi á Akranesi í frétt Stöðvar 2, sem krækt í við fréttina  „Nærri 80 milljónir í ritun sögu Akraness“. Vísir 2. janúar 2010.)
 

Mér finnst þetta dáldið skrýtið – dáldið mikill peningur í eina bók.
(Júlía Björk Elvarsdóttir bæjarbúi á Akranesi í sömu frétt og getið er hér að ofan.)
 
 
 
 

Í næstu færslum verður einkum fjallað um orð og efndir sagnaritarans, en einnig tæpt á samningi bæjarins við útgáfufyrirtækið, greiðslum til Gunnlaugs allra síðustu ár, gerð grein fyrir misvísandi upplýsingum um stöðu verksins núna og einhverjum orðum eytt í að svara breiðsíðunni sem ritnefnd, bæjarstjóri og sagnaritari opnuðu á bloggynju og lögðu undir talsvert pláss í síðasta Skessuhorni. Að því búnu má skrifa yfirlitsfærslu(r) yfir sagnaritun Akranesbæjar til dagsins í dag og ganga síðan frá bloggfærslum í Saga Sögu Akraness í þægilegra umbrotið form, t.d. pdf-skrá.


 1 Handrit af ávarpi bæjarstjóra er fengið frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011. Vísað er til annarra heimilda jafnóðum í texta færslunnar.
 
 

2 Thoughts on “Goðsagnir um glæsileika; „Stórasta“ bók í heimi?

  1. Þorvaldur lyftustj on June 17, 2011 at 15:49 said:

    Gleðilega þjóðhátíð!

  2. Harpa on June 17, 2011 at 21:25 said:

    Takk Þorvaldur minn og sömuleiðis!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation