Í þessari færslu verður brugðist við ásökunum og harmi nokkurra karla vegna Fjórðungsdóms um 18 marka bók (hér eftir kallaður Fjórðungsdómur); Útdráttur úr honum birtist í Skessuhorni 1. júní sl. en lengri útgáfan á þessu bloggi.1 Ég reikna með að allir séu karlarnir nettengdir og því óþarft að leggja Skessuhorn undir svör mín. Myndin hér að neðan er teiknuð af Bjarna Þór Bjarnasyni og birtist í sama Skessuhorni, s. 6. Hún er birt með leyfi Bjarna Þórs og ritstjóra Skessuhorns. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.
Að sjálfsögðu byrja ég á að svara bæjarstjóranum sjálfum, sem tjáir sig undir fyrirsögninni „Stórfurðuleg atlaga að fræðimannsheiðri. Árni Múli Jónasson bæjarstjóri um framkomna gagnrýni á sögu Akraness“. (s.2) Greinin byrjar svona:
„Mér finnst þetta vera furðulegur sparðatíningur og algerlega tilefnislaus atlaga að fræðimannsheiðri höfundar Sögu Akraness. Með þessari ómaklegu gagnrýni eru í raun einnig settir undir sama hatt þeir sem höfðu það hlutverk að fylgjast með ritun sögunnar, þ.e. þeir sem setið hafa í ritnefnd um söguna og fleiri sem unnið hafa með höfundinum,“ segir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri …
Það er misskilningur Árna Múla að Fjórðungsdómurinn sé sparðatíningur. Þvert á móti er í honum að finna mjög alvarlegar ásakanir um grundvallarmistök í heimildanotkun. Þau eru t.d. að vitna rangt í heimildir (þ.e. ekki stafrétt og jafnvel ekki orðrétt), að misskilja og mistúlka heimildir, að stela myndum og öðrum fróðleik, að vísa rangt til heimilda (einkum mynda) og að enginn greinarmunur er gerður á hvað séu tækar heimildir í sagnfræðirit og hvað ekki (sem sést t.d. í notkun „http://www.wikipedia.org“ og Íslensks söguatlass sem fullgildra heimilda).
Það er líka misskilningur hjá Árna Múla að um fræðimannsheiður sé að tefla. (Sjá síðari hluta færslu XV í Sögu Sögu Akraness. Hér eftir verður vísað til einstakra færsla með skammstöfuninni SSA og tölusetningu.) Sá fræðimannsheiður hlotnast Gunnlaugi Haraldssyni ekki fyrr en þessi bindi verða metin ásættanlegur sagnfræðitexti af fræðimönnum í sagnfræði.
Ég er alveg sammála Árna Múla um ábyrgð Ritnefndarinnar. En mér finnst ekki að draga eigi prófarkalesara, kortagerðarmann, ljósmyndara, umbrotsmann eða umsjónarmann myndvinnslu til ábyrgðar fyrir fúskinu sem ég benti á, nema þá kannski helst að sá síðasttaldi hafi ekki unnið almennilega upp gamlar myndir af Skaganum og umbrotsmaður hafi ekki góðan smekk. Það eru smáatriði. Í Fjórðungsdóminum mínum kemur einmitt fram hrós fyrir glæsileg kort Hans H. Hansen, fallegar ljósmyndir teknar af Friðþjófi Helgasyni og ágætan prófarkalestur. Svoleiðis að ég held að þarna hafi bæjarstjórinn kannski eitthvað misskilið eða mislesið.
Fjórðungsdómurinn var náttúrlega alls ekki tilefnislaus færsla eins og Árni Múli lætur liggja að. Ég var þegar talsvert komin á veg með að skrifa færsluflokkinn Sögu Sögu Akraness þegar ég kíkti í bækurnar hans Gunnlaugs. Og ég kíkti ekki á þessar bækur fyrr en ég áttaði mig á því með lestri fundargerða að Árni Múli, formaður Ritnefndarinnar, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs ætluðu að hunsa algerlega bréf sem ég sendi þeim viku áður.2 Ferill sagnaritara og sagnaritunar, ótrúlegt lof um þetta „stórvirki“, þar sem Árni Múli Jónasson bæjarstjóri nefndi Njálu og Eglu til hliðsjónar handritunum að verkum Gunnlaugs og Sveinn Kristinsson forseti bæjarstjórnar nefndi Versali og Kölnardómkirkju þegar þessi verk voru útgefin (sjá SSA XIII), og alger hunsun á þeirri ósk að bíða dóms sagnfræðinga var tilefni þess að ég fékk Sögu Akraness I og Sögu Akraness II lánaðar til að líta á gripina. Ég opnaði þær ekki með jákvæðum hug en mig grunaði samt aldrei að það sem ég sæi væri jafnhörmulegt og raun bar vitni.
Enn einn misskilningur Árna Múla er að ég hafi leitað með logandi ljósi að villum. Þess gerðist engin þörf því þær eru svo margar og augljósar. Auk þess þótti mér bindi I svo leiðinlegt að ég gafst fljótlega upp á að reyna að lesa það, eins og ég nefndi einmitt í Fjórðungsdómnum og datt ekki í hug að eyða tíma mínum að óþörfu. Ég geri nefnilega þá kröfu til texta að hann sé sæmilega stílaður en ekki samhengislaus rökleysa og hef lítinn áhuga á litskrúðugum glanspappír einum saman. (Hefði ég aðallega áhuga á því síðarnefnda læsi ég auðvitað frekar Söguna alla, Skakka turninn, og Hús og híbýli og væri ekkert að sökkva mér ofan í bækur til að lesa góðan texta.)
Árni Múli er menntaður lögfræðingur. Honum ætti því að vera kunnugt um höfundalög og stafrænan höfundarétt. Það vekur furðu mína að hann kalli það sparðatíning að finna að því að efni sé stolið og gefið út undir merkjum Akraneskaupstaðar. Árni Múli er líka með BA próf í íslensku. Þess vegna er ég einnig mjög hissa á að honum finnist allt í lagi að vitna ekki stafrétt í heimildir og taka „http://www.wikipedia.org“ gilda sem heimild. Sömuleiðis reikna ég með að hann hafi næga undirstöðu til að meta hvernig er farið með heimildir varðandi Bresasyni og kenningar þeirra Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar. Er maður með BA próf í íslensku virkilega að halda því fram að efnistök Gunnlaugs hvað þetta varðar séu góð og gild? Í grein Skessuhorns kemur fram að Árni Múli hafi menntun í sögu og ég giska því á að sagnfræði sé aukagrein hans til BA prófs. Finnst honum, í ljósi þeirrar menntunar, allt í lagi að nota Íslenskan Söguatlas sem heimild hvað eftir annað? Og að rangfeðra myndir? Og taka upplýsingar frá öðrum (sjá svar mitt við langloku Gunnlaugs Haraldssonar hér að neðan) um áteiknuð hús á kort frá 1901 án þess að geta þess sérstaklega?
Ég er í rauninni ennþá meira hissa en Árni Múli Jónasson bæjarstjóri sjálfur: Hvernig getur menntaður maður haldið því fram að þessi vinnubrögð séu bara allt í lagi? Er kannski allt í lagi að stela svo lengi sem enginn kærir? Sú meðferð heimilda sem ég lýsti í Fjórðungsdómnum væri ekki tekin gild í heimildaritgerð á fyrsta ári í framhaldsskóla.
Í rauninni er ekki hægt að svara Árna Múla meir en þetta því hann hefur svo upp svipaða lofrollu og lýst var í SSA XIII. Honum finnst ég líklega heldur vond kona að skrifa svona „niðurrifskennda og tilefnislausa gagnrýni“, eins og hann kallar Fjórðungsdóminn, um bækurnar Gunnlaugs og bæjarsins, í stað þess að taka þátt í halelújakórnum. Á eftir lofrollunni birtist ævintýraleg draumsýn bæjarstjórans um hlutverk þessa framúrskarandi góða, fræðilega og skemmtilega rits, að hans mati. Af því ekki eru allir lesendur bloggsins míns áskrifendur Skessuhorns læt ég draumsýnina um mátt og megin Sögu Akraness I og II fylgja:
Þetta flotta og skemmtilega verk gefur okkur Skagamönnum og þeim sem búa hér í nágrenni við okkur fullt af tækifærum til að styrkja menninguna, söguþekkinguna, ræturnar og sjálfsmyndina hjá okkur öllum, ekki síst hjá unga fólkinu, og verða okkur til ánægju og skemmtunar með ýmsum hætti. Í þessu felast líka margvíslegir möguleikar til að gera bæinn okkar áhugaverðari og eftirsóknarverðari sem búsetukost og til að draga til okkar innlenda og erlenda ferðamenn. Það er undir okkur sjálfum komið að nýta þessi tækifæri og ef okkur tekst það vel mun ekki verða deilt um þann kostnað sem sögurituninni fylgdi.
„Yfirlýsingu frá Ritnefnd um Sögu Akraness“ (s. 2 í fyrrnefndu Skessuhorni) er að finna á Vefnum. Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að nefndin fagni öllum vinsamlegum ábendingum og uppbyggilegri gagnrýni en að nefndin „harmar hins vegar þau stóryrði sem viðhöfð voru um höfundinn og verk hans í blaðagrein í Skessuhorni þann 1. júní 2011 og vísar til föðurhúsa“. Inn á milli er skotið: „Hafa skal það sem sannara reynist.“
Ég tek undir orð sr. Ara, alveg eins og Ritnefndin, en bendi á að öll er málgreinin svona: „En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynist.“3 Ættu þessi orð að vera Ritnefndinni hvatning til að fá óháðan velmenntan sagnfræðing til að taka út bindi I og II af Sögu Akraness áður en gengið verður til frekara samninga við Gunnlaug Haraldson því sjálf hefur nefndin alls ekki axlað eftirlitshlutverk sitt og eru nefndarmenn illa í stakk búnir til að meta hvað missagt kann að vera í Sögu Akraness.4 Ég ráðlegg Ritnefndinni vinsamlega og í uppbyggilegum blíðlegum tóni að fara yfir yfirlitstöflur unnar úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á árunum 1997-2011, skoða hverju sagnaritari hefur skilað, bera saman við það sem sagnaritari hefur sagst vera búinn að vinna og skoða sína eigin vinnu: Ritnefndin ætti sem sagt að líta í eigin barm og hætta að haga sér eins og meðvirkur aðstandandi. Hennar hlutverk er eftirlit með verkinu en ekki að beita sér aðallega fyrir að auknu fé úr sjóðum bæjarins sé veitt til uppihalds Gunnlaugi Haraldssyni.5
Einnig er ritnefndinni góðfúslega bent á að fá að skoða handritið að þriðja bindinu vel og þiggja ráðgjöf sérfróðra í mati á því áður en hún lætur hvarfla að sér að ganga til frekari samninga við Gunnlaug. Loks bendi ég á að þessi yfirlýsing Ritnefndarinnar kostaði rúmar 64.000 krónur, sem fólk eins og ég borgar með útsvarinu sínu. Mér finnst því fé illa varið.6
Gunnlaugur Haraldsson, höfundur þeirrar Sögu Akraness I og II sem Fjórðungsdómurinn fjallar um skrifar ægilega langa grein (eina og hálfa opnu) sem heitir „Kvittað fyrir fjórðungsdóm“, s. 34-35 í Skessuhorni. [Viðbót 27. júní: Ég tók eftir því núna áðan að langhundur Gunnlaugs er kominn á vef Skessuhorns, dagsettur 20. júní, og kræki hér með í hann, svo menn geti lesið um „rætni og meinbægni“ bloggynju í þessum „fáu línum“ sem hann kveðst hafa hripað. Venjulega gerir Skessuhorn þá kröfu að menn skrifi í hæsta lagi eina og hálfa síðu, með 12 p. letri á A-4 síðu, í aðsenda grein en sagnaritarinn hefur fengið undanþágu.] Mun ég reyna að tína út aðalatriðin í máli Gunnlaugs og svara þeim.
Það er ljóst að Gunnlaugur kann engin skil á höfundarétti mynda á Vefnum. Sömuleiðis virðist hann ekki gera sér neina grein fyrir reglum um tilvísanir í efni á Vefnum né vera fær um að meta heimildagildi slíks efnis. Hann skrifar:
Taldi ég fullnægjandi að greina tryggilega frá uppruna þeirra [mynda af Vefnum] með vísan til vefsíðna, t.d. með http://www.valhs.org í Mynda og myndritaskrá (sjá s. 567-568), á sama hátt og ég vísaði í veftexta í fáein skipti. (s. 34.)
Í Fjórðungsdómnum eru nefnd nægilega mörg dæmi sem sýna að Gunnlaugur vísar alls ekki á fullnægjandi hátt til mynda og jafnframt gerð nokkur grein fyrir höfundarétti stafræns efnis á Vefnum. Ég reikna með að „veftextinn“ sem Gunnlaugur nefnir sé heimildin „http://www.wikipedia.org“ því aðrar vefheimildir sá ég ekki vísað í úr texta, í þeim hluta I. bindisins sem ég skoðaði.
Um ófeðraðar og rangfeðraðar myndir segir Gunnlaugur: „Myndirnar tala sínu máli, svo að mér þótti óþarfi að rekja myndefnið eitthvað frekar en gert er í myndatexta.“ Síðan talar hann um óvissu í höfundum gamalla mynda og telur rök fyrir því að ljósmynd sem hann eignaði Auði Sæmundsdóttur en er tekin af Þorsteini Jósepssyni vera að myndin sé eignuð Árna Böðvarssyni í grein um Auði Sæmundsdóttur í Árbók Akurnesinga 2006, s. 122.7 Jafnframt nefnir Gunnlaugur sína sígildu afsökun, tímaskort.8
Til að spara Gunnlaugi dýrmætar mínútur bendi ég vingjarnlega á það er allt rangt sem hann rekur um mynd 133, sem hann segist hafa fengið af Ljósmyndasafni Akraness en er þar ekki; Hún er ekki tekin af Árna Böðvarssyni eins og Gunnlaugur segir í myndaskrá heldur Hansínu Guðmundsdóttur; Myndatexti við þá mynd er heldur ekki réttur því húsið sem sést á myndinni er Skagabraut 40 en ekki Suðurgata 40 eins og segir í bók Gunnlaugs.9
Um kort sem ég minnist á í Fjórðungsdómnum hefur Gunnlaugur langt mál en aðalatriðin eru væntanlega:
Við þá kortagerð [vinnukort ýmis sem Gunnlaugur segist hafa unnið á árunum 1999-2004] lagði ég m.a. til grundvallar áðurnefndan uppdrátt Ólafs og Knuds og endurgerð hans sem ég vann á fyrsta starfsári mínu við Byggðasafnið í Görðum (1979-1980) með því að nafngreina og merkja inn öll íbúðarhús, sem voru í byggð 1901. Þessi endurgerði uppdráttur hefur síðan hangið uppi í sýningarsal safnsins, en ekki uppdráttur Þorsteins Jónssonar, eins og Harpa staðhæfir. Við vinnslu þessa uppdráttar leitaði ég fyrir mér í ýmsum heimildum. Þar trónaði efst hliðstæð endurgerð, sem Ólafur B. Björnsson vann 1958 og birti í tímariti sínu Akranesi, XVII. árg., 2. hefti, apríl-júní 1958 (s. 102-103). Af öðrum heimildum get ég nefnt vélritað og óársett handrit Þorsteins Jónssonar, Hús og býli á Akranesi, sem hann tók trúlega saman 1978 […] Til glöggvunar jók ég einnig við nokkrum eldri bæja- og verbúðaheitum, t.d. Vestra- og Syðra-Sandgerðis (sem lögðust af vegna landbrots á 18. öld), Hestbúð og Leirárbúð. (s. 34)
Gunnlaugur hefur eitthvað mislesið Fjórðungsdóminn því ég staðhæfði ekki að uppdráttur Þorsteins Jónssonar héngi uppi á Byggðasafninu, einungis að uppdrátturinn væri á Byggðasafninu og hafði fyrir því orð Jóns Allanssonar, forstöðumanns Byggðasafnsins og arftaka Gunnlaugs í því starfi.
Ég skoðaði trélitaða kortið hans Gunnlaugs uppi á Byggðasafni þann 17. júní (af því ég var stödd þar hvort sem var af öðru tilefni), skrapp svo á bókasafnið og bar saman kortið í Sögu Akraness I við kortið í Hús og býli á Akranesi og kortið hans Ólafs B. Björnssonar. Niðurstaðan er sú að trélitaða kortið á Byggðasafninu sem sýna á byggðina árið 1901 virðist byggt á uppdrætti Þorsteins Jónssonar af Akranesi 1898 en kortið í Sögu Akraness I er byggt á korti Ólafs B. Björnssonar af Akranesi 1901.10
Ég bið því Gunnlaug Haraldsson afsökunar á því að hafa haldið því fram að hann hefði stolið upplýsingum frá Þorsteini Jónssyni. Hið rétta er að hann stal þessum upplýsingum frá Ólafi B. Björnssyni því Ólafs er að engu getið í myndaskrá og þetta hefti Akraness með korti Ólafs B. Björnssonar er ekki einu sinni að finna í heimildaskrá Sögu Akraness I. Svo bendi ég á að inn á kortið í bókinni hefur Gunnlaugur einnig bætt húsinu Bræðratungu, sem var ekki byggt fyrr en 1905.11
Svoleiðis að þegar allt kemur til alls er myndkort Gunnlaugs Haraldssonar nr. 6 sem á að sýna Skipaskaga og hluta Garðalands árið 1901 byggt á korti Ólafs B. Björnssonar án þess að geta hans að neinu og splæst þar í nokkrum húsum frá 18. öld án þess þau séu sérstaklega auðkennd frá öðrum húsum á kortinu og a.m.k. einu húsi sem var ekki byggt fyrr en 1905. Hversu marktækt er svona kort fyrir þá sem vilja leita sér upplýsinga síðarmeir? Á hinn bóginn lítur kortið sjálft gullfallega út sem er Hans H. Hansen að þakka.
Gunnlaugi Haraldssyni finnst leitt að ég skuli „ekki hafa húmor“ fyrir efnistökum hans, t.d. rökum sóttum í Fornaldarsögur Norðurlanda og Guðbrand Vigfússon:
Því kryddi fannst mér ómögulegt að að sneiða hjá, enda þarf vart „sæmilega fróðan mann“ til að sjá hversu vonlítið það er í byrjun 21. aldar að fá vissu fyrir fæðingarstað og uppruna Bresasona. (s. 35)
Það er alveg rétt hjá Gunnlaugi að ég kom ekki auga á húmorinn í þessu enda brúkar hann einmitt þessi rök til að kasta rýrð á fræðimanninn Jón Böðvarsson (sjá Fjórðungsdóminn) sem mér fannst einstaklega ófyndið. Af því önnur meginuppgötvun sú sem Gunnlaugur Haraldsson þykist hafa gert er einmitt uppruni Bresasona hvarflaði ekki að mér að líta bæri á þá uppgötvun sem brandara. (Sjá t.d. orð Guðmundar Páls Jónssonar í SSA XI og auglýsingar Uppheima um I. bindi Sögu Akraness.) Er þá hin meginuppgötvunin, þessi um miklu meiri fiskneyslu Íslendinga á landnámsöld til þrettándu aldar en fræðimenn hafa almennt talið sem varpa ku nýju ljósi á sögu allrar þjóðarinnar (sjá SSA XV), líka brandari? Er Saga Akraness I þá fyrst og fremst duglega myndskreytt brandarabók á glanspappír?
Gunnlaugur segir ásakanir mínar um hugmyndastuld og vera léttvægar (að vísu skautar hann snyrtilega fram hjá líklegum svoleiðis stuldi frá sjálfri mér). Í rökum hans má lesa að Gunnlaugur er afar einangraður maður, eiginlega svo vorkunn er að:
Vafalaust hefði mátt bæta fleirum í þann hóp fræðimanna, sem fjallað hafa um þetta efni [samsvörun örnefnaraðar á Lewis og Kjalarnesi og Kjós], þótt ég þekki ekki til þeirra rannsókna. Er þá meðtalin sú Landafundasýning sem Harpa nefnir. Um hana hafði ég hvorki vitneskju né sá á sínum tíma. Mér er því óskiljanlegt hvernig ég átti að vitna til þess korts Gísla Sigurðssonar prófessors, sem prýddi sýninguna. Yfir slikri skyggnigáfu bý ég hreint ekki. Hins vegar dreg ég ekki í efa, að það kort var vel unnið og áreiðanlega að einhverju marki byggt á rannsóknum Magne Oftedal. (s. 35)
Ég hélt satt að segja að þúsund ára afmæli Vínlandslandsfundar hefði ekki farið fram hjá nokkrum manni, slík var umræðan árið 2000. Stór þáttur í hátíðahöldum vegna þessa afmælis var Landafundasýningin í Þjóðminjahúsinu. Hún fékk svo að standa næstu tvö árin.12
Hörmuleg meðferð heimilda, sem getið er í Fjórðungsdómnum, telur Gunnlaugur að eigi við að hann hafi „bersýnilega, fyrir misgáning“ bætt inn orði í beina tilvitnun í Íslensk fornrit. Ég tek undir með honum að vonandi sé svoleiðis ónákvæmni ekki „beinlínis dæmigerð fyrir heimildameðferð“ hans en um það veit ég ekki því ég fletti einungis upp þremur tilvitnunum í Íslenskum fornritum. Það er hörmulegra finnst mér að geta haft eina einustu beina tilvitnun í Íslensk fornrit stafrétt eftir en það er mýgrútur af slíkum dæmum. Það er algerlega óafsakanlegt enda kýs Gunnlaugur að nefna þetta ekki í sínum langhundi. Sömuleiðis svarar hann því ekki hvers vegna hann vitnar ekki í frumheimild fyrir tilvitnun í fyrirlestur Hallgríms Jónssonar heldur í Borgfirska blöndu.
Í lok hinnar löngu greinar Gunnlaugs kemur svo á daginn að við erum hjartanlega sammála um eitt atriði. Gunnlaugur skrifar:
Ég tek heilshugar undir þessa ráðleggingu Hörpu [um að Akraneskaupstaður fá sæmilega fróðan mann til að taka út þessi tvö bindi Gunnlaugs og meta vinnubrögð hans áður en frekari samningar verði gerðir við hann], því eigi dómar hennar við rök að styðjast má það sannarlega vera áhyggjuefni og hættuspil fyrir ritnefnd og bæjarstjórn að fela mér að búa meira af samsetningi mínum til prentunar. […] Því sýnist mér hyggilegt, að áður en í það verk verður ráðist [að semja um þriðja bindið] leggi „sæmilega fróður maður“ mat á það, sem út er gefið og ekki verður afturkallað. (s. 35)
Ég fagna þessari niðurstöðu Gunnlaugs enda er um langþráð tækifæri hans til að geta kallað sig fræðimann að tefla. Nú treysti ég því að Gunnlaugur sannfæri Ritnefndina og bæjarráð, sem hvor tveggju hafa ævinlega reynst honum til þjónustu reiðubúin, um að fá óháðan fræðimann í þetta mat, þ.e.a.s. sagnfræðing sem er hvorki tengdur þeim flokksforkólfum, ættum né nefndum sem hingað til hafa skipað hirð sagnaritans, ausið í hann fé og mært hann meir en mestu smjaðrarar í hópi hirðskálda kunnu við í sínu konungalofi forðum tíð.
Jafnframt skora ég á Gunnlaug Haraldsson að afhenda slíkum óháðum fræðimanni handritið að þriðja bindinu (sem hann segir tilbúið) til yfirlestrar, mats og ráðgjafar áður áður en hann svo mikið sem ljáir máls á því að skrifa undir samning um útgáfu þess bindis við Akraneskaupstað.
1 Greinar karlanna er allar að finna í Skessuhorni 8. júní 2011 og er einungis vísað til blaðsíðutala í þessari færslu.
2 Mánudaginn 23. maí 2011 sendi ég bréf í tölvupósti til allra helstu karlanna í bæjarapparatinu sem höndlað hafa samningagerð við Gunnlaug og samþykkt fé honum til handa einhvern tímann síðustu fjórtán árin, þ.e. Árna Múla Jónassonar, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, Jóns Gunnlaugssonar, formanns ritnefndar um sögu Akraness, Sveins Kristinssonar, forseta bæjarstjórnar, Guðmundar Páls Jónsonar, formanns bæjarráðs og Jóns Pálma Pálssonar, bæjarritara. Í bréfinu fór ég fram á að frekari samningsgerð við Gunnlaug Haraldsson yrði frestað uns Saga Akraness I og II hefði verið ritdæmd í fræðilegu tímariti. Ég benti á að í ljósi hins langa tíma sagnaritunar til þessa lægi tæplega mikið á að gera nýjan samning. Einnig benti ég á að flestir íbúar Akraness væru líklega búnir að fá sig fullsadda af kostnaði við vinnuna til þessa.
Þessu bréfi svaraði bæjarstjórinn Árni Múli Jónasson undir eins og sagði að erindi mitt yrði „að sjálfsögðu tekið til umfjöllunar með viðeigandi hætti hjá Akraneskaupstað.“ Þá ég hváði útskýrði hann í öðru bréfi: „Með viðeigandi hætti þýðir hér að erindið fari til kynningar og umfjöllunar hjá viðeigandi nefndum og ráðum, þ.e. miðað við efni þess og verkaskiptingu nefnda og ráða hjá kaupstaðnum. Í þessu tilviki reikna ég helst með að erindið fari til bæjarráðs og/eða Akranesstofu til umfjöllunar.“ Svör Árna Múla eru frá 23. maí 2011.
Lesendum til upplýsingar þá fer Akranesstofa með stjórn menningar- og safnamála, markaðs- og kynningarmála og verkefna á sviði ferðaþjónustu. Ritnefndin heyrir ekki undir hana því skv. skipuriti Akraneskaupstaðar heyrir Ritnefndin ekki undir neinn sérstakan aðila og hefur aldrei fengið erindisbréf. Í áranna rás hefur hún stundum verið sérstakt verkefni bæjarstjórans sjálfs, oftast heyrt að einhverju leyti undir bæjarráð og einstaka sinnum þurft að lúta vilja bæjarstjórnar. Ég veit ekki hvaðan bæjarstjórinn fékk þá flugu í höfuðið að bréf um ritun sögu Akraness hefði eitthvað með Akranesstofu að gera en honum er að því leytinu vorkunn að þessi Ritnefnd er nátttröll frá síðustu öld og varð útundan þegar stjórnssýsla bæjarins var einfölduð 2009. Þess vegna er Ritnefndin meira eða minna sjálfráð, eftirlitslaus og lítið tengd stjórnsýslu bæjarins nema þegar hún þarf að fara fram á aukið fé handa sagnaritaranum.
Af fundargerð bæjarráðs varð svo strax ljóst að ekki yrði minnsta mark tekið á bréfi mínu. Sama sást í fundargerð ritnefndar um sögu Akraness þegar sú fundargerð rataði loks á vefinn, raunar óvenju snemma (en það hefur verið talsvert algengt að fundargerðir Ritnefndar rati ekki á Vefinn fyrr en nokkrum vikum, jafnvel mánuðum, eftir að fundir eru haldnir í þeirri nefnd).
3 Ari fróði Þorgilsson. Formáli að Íslendingasögu. Tekið úr útgáfu Guðna Jónssonar, Íslendingasögur I, Íslendingasagnaútgáfan 1978, s. 1.
4 Í ritnefnd um sögu Akraness sitja þrír Sjálfstæðismenn: Jón Gunnlaugsson, formaður nefndarinnar og umdæmisstjóri VÍS á Akranesi, Guðjón Guðmundsson framkvæmdarstjóri Dvalarheimilisins Höfða og Bergþór Ólason fjármálastjóri Loftorku í Borgarnesi; fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs er Björn Gunnarsson, svæfingalæknir á HVE og loks situr Leó Jóhannesson framhaldsskólakennari fyrir Samfylkinguna. Flestir þeirra hafa setið mörg ár í Ritnefndinni, Leó á metið en hann hefur setið í ritnefnd um sögu Akraness síðan 1990. Hann er jafnframt sá eini nefndarmanna sem hefur einhverja menntun í sögu, samsvarandi íslenskri BA gráðu í faginu. Í fundargerðum ritnefndar kemur hvergi fram að nefndin hafi kallað sagnfræðing til ráðuneytis. (Gunnlaugur Haraldsson virðist hafa fengið sagnfræðing til að lesa yfir hluta handrits af I. bindinu (í október 2007). Óljóst er á hvaða stigi það handrit var. Einnig þakkar Gunnlaugur tveimur sagnfræðingum veitta aðstoð í formála að fyrsta bindinu. Annar þeirra var jafnframt prófarkalesari verksins.)
5 Sé verið að hugsa um framfærslu eingöngu er það væntanlega Reykjavíkurborg sem ber ábyrgð á framfærslu Gunnlaugs Haraldssonar því þar hefur hann verið búsettur frá 2003.
6 Hver óbreyttur nefndarmaður fær greiddar 9.269 kr. fyrir fundarsetu og formaður nefndarinnar fær 17.509 kr. fyrir fundarsetuna. Ofan á þessar greiðslur bætast við 17,35% launatengd gjöld sem Akraneskaupstaður greiðir. Mér finnst að fé Akraneskaupstaðar hefði mátt verja betur en í að semja þessa yfirlýsingu. Þetta var 81. fundur ritnefndar um sögu Akraness. Mér finnst einnig að verja mætti fé okkar útsvarsgreiðenda betur en að reka þessa fimm manna nefnd, sem ekki sinnir neinu eftirlitshlutverki heldur minnir meir á klappstýrur, í meir en áratug (raunar allt frá árinu 1997 þegar Gunnlaugur Haraldsson tók við sem sagnaritari; áratuginn á undan var ritnefndin meir í hlutverki nöldurskjóða).
7 Vissulega er skemmtileg grein eftir Auði Sæmundsdóttur í þessari Árbók Akurnesinga, „Dagur í lífi sveitakonu“. Og undir ljósmyndinni af kúnum á Jaðarsbakka stendur Á.B. Hins vegar gæti sú merking allt eins verið ritstjórans, Kristjáns Kristjánssonar, sem hefur kannski fundist þessi mynd eiga vel við efni greinarinnar. Hvað sem því líður tel ég nú öllu traustara að byggja á upplýsingum Ljósmyndasafns Akraness og afsökun / skýring Gunnlaugs er afar langsótt, svo ekki sé meira sagt.
8 Gunnlaugur skrifar: „Hugsanlega hefðu mér nægt 20 mínútur til viðbótar við að sannreyna uppruna þeirra fjögurra mynda sem Harpa tiltekur í grein sinni. Á það reyndi hins vegar aldrei. Og víst er um það, að mikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum, sem mér hefðu gefist til viðbótar til að þrautkanna sérhvert þeirra fjölmörgu atriða, sem ég var í vafa um við samningu þessa rits.“ (s. 34). Í ljósi þess að það tók Gunnlaug Haraldsson 14 ár að koma saman handritum að fyrri tveimur bindunum um sögu Akraness er þessi yfirlýsing auðvitað sprenghlægileg.
9 Sjá „Úr myndasafni Helga Dan“. Árbók Akurnesinga 1. árg. 2001, s. 160. Ritstjóri Kristján Kristjánsson. Þessar upplýsingar koma líka fram í Ásmundur Ólafsson. 2006. „‚Nú er bjart um Skipaskaga – skín á nes og vör‘ Örnefni við Akranes – Gönguferð með sjónum“. Lionsklúbbur Akraness 40 ára, s. 12. Síðarnefndu heimildina er að finna í heimildaskrá Sögu Akraness I. bindi en þá fyrrnefndu ekki.
Lesendur sem ekki hafa skoðað Sögu Akraness I hefðu kannski gaman af að kíkja á ljósmynd Hansínu Guðmundsdóttur í Ljósmyndasafni Akraness, sem tekin er nokkrum mínútum síðar en myndin sem birtist í bók Gunnlaugs (en á myndinni í Ljósmyndasafninu eru konurnar tvær fremst á myndinni í bókinni komnar niður á Langasand). Ég ráðlegg Gunnlaugi (vingjarnlega) að fara nú rækilega yfir skráningu gamalla mynda af Akranesi, í þessu bindi og þeim sem hann hyggst skrifa einhvern tíma í framtíðinni, sem og annað efni. Eiginlega er það svo að um leið og maður fer að skoða efnið eitthvað nánar (í þessu tilviki hluta I. bindis) kemur í ljós urmull af villum til viðbótar þeim sem sjást glöggt við fyrstu sýn.
10 Þetta sést greinilega séu borin saman bæjarheitin Brekkukot og Brekkubær; Þorsteinn hefur Brekkukot norðar en Brekkubæ, sama sést á korti því sem Gunnlaugur segist hafa gert og hangir uppi á Byggðasafninu, en Ólafur B. Björnsson snýr þessu öfugt, þ.e. Brekkubær er nyrðra húsið og sama sést á korti Gunnlaugs í Sögu Akraness I.
11 Á yfirliti sem skýrir tölusetningar á trélitaða kortinu á Byggðasafninu er svo merkt „89 Hábær I“ og „90 Hábær II (Bræðratunga)“. Þorsteinn Jónsson segir í fjölritinu Hús og býli á Akranesi: „1905 byggir Eyjólfur timburhús á gamla Hábæjarstæðinu og nefnir hann Bræðratungu.“ Ártal og blaðsíðutal vantar. Ólafur B. Björnsson merkir þetta hús (væntanlega torfbæ) sem Hábæ II á sitt kort en Gunnlaugur hefur auðkennt Hábæ II sem íbúðarhús en ekki „torfhús“ (hann kallar torfbæi „torfhús“ í skýringum við litatákn) á trélitaða kortið sitt á Byggðasafninu og er ómögulegt að vita hvort eða hvað hann hefur fyrir sér í því. Í þessu sambandi mætti einnig ræða aldur íbúðar á Hóli II, öðru nafni Hjarðarhóli, miðað við upplýsingar Ólafs B. Björnssonar í „Hversu Akranes byggðist. 5. kafli. Vorhugur og vélaöld gengur í garð“. Akranes 1959 1. hefti (jan.-mars), s. 50 en ég læt hér staðar numið í ókeypis yfirferð yfir kort Gunnlaugs Haraldssonar.
12 Eiginlega minnir þessi einangrun Gunnlaugs mig mest á Múmínpabba í vitanum! Gunnlaugur hefur sjálfur lýst hversu einmanalegt og einangrað starf hins mikla sagnaritara er og það að hafa ekki orðið var við Landafundasýninguna er bara angi af þeirri mýtu: „mega þeir [sagnaritarar] sæta því hlutskipti að sitja einmana og aflokaðir við iðju sína og eru oftast nær einir til frásagnar um það tímafreka puð sem liggur að baki þeim texta sem um síðir mætir lesendanum.“ Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.
Til að spara Gunnlaugi örlítinn tíma í að setja sig inn í kenningar fleiri fræðimanna bendi ég honum góðfúslega á ritið From Starafjall to Starling Hill. An investigation of the formation and development of Old Norse place-names in Orkney sem unnið er upp úr doktorsritgerð Berit Sandnes frá 2003 og gefið út af Scottish Place-Name Society 2010. Þar kemur fram að örnefnin Akranes (Aikerness) Garð og Garða (Garth, Garith o.fl.), Kvíar (Quoys, Curqoy, Fealquoy o.fl.) Mela (The Mello), Bakka (Croo Back) og mörg fleiri, meira að segja tvo hólma (Aikerness Holmies) má einnig finna á litlu svæði á Vesturey í Orkneyjum (Evie héraðinu á Westray). Væri kannski hægt að teikna kort af þeim líka, þó ekki væri nema til að undirstrika brandarann um uppruna Bresasona. Myndir af svæðinu má sjá hér. Sömu örnefni finnast víðar á Bretlandseyjum og náttúrlega í Noregi, Færeyjum og víðar um Norðurlönd.
Þú ert hörkukvendi og þessi gagnrýni þín er afar ítarleg og vel rökstudd. Auðvitað eiga karlarnir lítil svör við henni önnur en einhver kjánaleg komment um sparðatíning og húmorsleysi.
🙂
Það er magnað að lesa þessar úttektir þínar.
Vonandi verður þetta til að opna augu ráðamanna á skaganum.
Takk Kristján. Ég hef raunar ekki nokkra trú á að ráðamenn á Skaganum breyti hegðun sinni þótt þessi saga hafi verið rakin. Ekki nema að þeir reyna væntanlega að semja áfram við sagnaritarann (til að þurfa ekki að viðurkenna að þeir hafi verið gabbaðir, séu flón) ennþá meira í laumi – þannig að sem allra minnst beri á. En ég vona að fjölmiðlar fylgist með og krefji bæjarstjórnendur (sérstaklega forseta bæjarstjórnar, bæjarstjóra og formann ritnefndar) um skýringar ef til samnings kemur og að innihald hugsanlegs næsta samnings við sagnaritarann verði strax opinbert (enda væri slíkt plagg opinbert og hverjum sem er heimilt að fá afrit af slíku, skv. upplýsinga- og stjórnsýslulögum).
Sá í mogganum í gær að Saga Akraness fékk ördóm (styttri gerast ritdómar nú varla) og tvær og hálfa stjörnu (sem er ansi lítið þegar um íslenska bók er að ræða). Þó tókst ritdómara að komast hjá neikvæðni. Raunar var ég mjög sammála þessum ritdómi um að upplýsingar af því tagi sem finna má í sögunni, s.s. kort og örnefnaupplýsingar, eiga auðvitað að liggja frammi á Vefnum. Risahlunkar, eins og þessi tvö bindi eru, eru tímaskekkja.