Sagan öll?

Hér eru dregnar saman helstu niðurstöður um sagnaritun á vegum Akraneskaupstaðar frá 1987. Kaupstaðurinn hefur á tæpum 24 árum greitt sem svarar 125 milljónum á núvirði fyrir að láta tvísemja þann hluta sögunnar sem gerist einkum í Hvalfjarðarsveit, þ.e. um tímabilið frá landnámi til 1800.1

Af AkrafjalliLengst af voru hér á Akranesi nokkur tómthús og verbúðir og heldur fámennt, t.d. bjuggu samtals 67 manns á Skaganum seint á 18. öld og voru allir búendur leiguliðar Ólafs Stephensen á Innra-Hólmi.Það segir sig náttúrlega sjálft að ekki er hægt að ætlast til að miklum sögum fari af slíkum stað. Enda hafa sagnaritarar bæjarins gripið til þess að skrifa um „Akranes hið forna“, þ.e. meint landnám Ketils og Þormóðs Bresasona, ásamt Skilmannahreppi Bekans. Þá má leita í fornbókmenntir, sögu Skálholtsstóls og biskupa þar og fjalla um mikilmenni í Innri-Akraneshreppi, sem og frægan smáglæpamann úr Ytri-Akraneshreppi til að ná upp einhverjum sögudampi. Eitthvað fleira úr nágrenninu má tína til, s.s. þjóðsögur. Aftur á móti er spurning hvort þetta sé það merkilegt fyrir okkur Skagamenn, sem borgum brúsann, að þurfi að tvísegja, jafnvel þrísegja ef talinn er með sá fróðleikur sem birtist í Sögu Akraness I og II eftir Ólaf B. Björnsson, útg. 1956 og 1959 á kostnað höfundar.

Eftir þessi 23 ár og 125 milljónir hafa íbúar í Hvalfjarðarsveit sem sagt eignast viðamikla úttekt á sinni sögu. Við greiðendurnir eigum nokkra smábúta innan um, um fólk sem tengdist Görðum (raunar aðallega afkomendur þess fólks utan Akraness, jafnvel í öðrum landsfjórðungum) og eitthvað svolítið um kotin sem á Skipaskaga var að finna (aðallega samt um eigendur þeirra utan Skagans, jafnvel í öðrum landsfjórðungum), stutta jarðsögu svæðisins sem finna má víða annars staðar (jarðsagan kringum Akrafjall hefur ekki breyst nýlega) og fróðleik um nokkur örnefni í kaupstaðnum (sem raunar má einnig finna annars staðar).

Titill færslunnar vísar til þess að þetta er lokafærsla í Sögu Sögu Akraness – í bili.
 

Af hverju ætli Akraneskaupstaður hafi í tæp 24 ár verið svona rausnarlegur í söguritun nágrannasveitarfélaganna? Því verður reynt að svara í þessari færslu og draga fram aðalatriðin í þeirri rándýru sorgarsögu. Vísað er í ítarlegri færslu um einstök atriði í Sögu Sögu Akraness með skammstöfuninni SSA og tölusetningu. Jafnframt vek ég athygli á því að færsluflokkurinn Sagu Sögu Akraness er einungis saminn af áhuga á þeirri sögu; Ég tengist einstaklingum sem um hefur verið rætt ekki nokkurn skapaðan hlut.3
 
 

Árið 1987 bjuggu rúmlega 5.400 manns á Akranesi og hafði bærinn vaxið mjög hratt á nokkrum áratugum. Í apríl það ár samþykkti bæjarstjórn að fela þáverandi bæjarstjóra að semja við einhvern um að skrifa sögu Akraness. Miða átti við þrjú bindi, hvert um 300 síður og skyldi gefa þau út á 50 ára afmæli Akraneskaupstaðar, 1. janúar 1992. Bæjarstjórinn réð Jón Böðvarsson cand. mag til verksins síðsumars 1987 og ritnefnd var skipuð. Jón Böðvarsson var þekktur fræðimaður, jafnt á sviði íslensku sem sagnfræði, ættaður úr Innri-Akraneshreppi og hafði dvalist þar hvert sumar sem barn og unglingur. Auk þess var hann reyndur leiðsögumaður og má ætla að hann hafi þekkt þetta svæði, „Akranes hið forna“, eins og lófann á sér. Launagreiðslur sem samið var um við Jón benda til að sagnaritunin hafi verið hugsuð sem hlutastarf og greiðslur áttu á vera árangurstengdar (SSA II).

Ritnefnd virtist í allra fyrstu þokkalega jákvæð í garð Jóns en snemma varð ljóst að það var lítið lið í ritnefndarmönnum, t.d. var Gunnlaugi Haraldssyni um megn að taka saman skrá um heimildir um sögu Akraness sem til voru á Byggðasafninu en var þó forstöðumaður Byggðasafnsins. Ritnefndin fór fljótlega að ráðskast með Jón og komst snemma á þá skoðun að verkið, ritun sögu Akraness væri sitt verk en ekki hans án þess að hafa hugsað sér að lyfta litlaputta í efnisöflun. Þetta gerðist frekar hratt og við lestur fundargerða veltir maður því fyrir sér hver hefði loft allt lævi blandið. Af fundargerðunum að dæma skín talsverð vanþekking ritnefndarmanna á efninu í gegnum ráðsmennsku þeirra. Ótrúlega náin tengsl voru milli yngra fólksins í ritnefndinni sem myndaði meirihluta frá miðju sumri 1990 án þess að bænum, hvað þá bæjarstjóranum sem var jafnframt formaður Ritnefndarinnar fyrstu átta árin, fyndist neitt athugavert við það (SSA III og Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness frá upphafi til starfsloka Jóns Böðvarssonar sagnaritara, þ.e. 1987-1997. Sjá einnig um hugmyndafræði lítils hóps Íslendinga sem lærði í háskólanum í Lundi í Svíþjóð, seint í SSA I).

Trönur á BreiðinniTil að byrja með vann Jón Böðvarsson af kappi en þegar kom að skilum efnis varð dráttur á verkinu og drógust skilin æ meir sem tímar liðu. Raunar þurfti hann að margskrifa efnið sem hann þó skilaði því ritnefndin var ævinlega óánægð með það og kann það að hafa valdið einhverju um dráttinn. Einungis tókst að koma út einu bindi af sögunni 1992 og það náði frá landnámi til 1885. Jón skilaði handriti að öðru bindinu þegar gerður var við hann starfslokasamningur snemma árs 1997. Það bindi nær frá 1885-1942 og hefur verið í vörslu Gunnlaugs Haraldssonar frá því Gísli Gíslason afhenti honum það í febrúar 1997. Jón virðist ekkert hafa fengið greitt eftir árið 1991 og hefur að líkindum fengið greidda 2/3 af þeirri upphæð sem samið var um í upphafi (og mér sýnist að hann hafi einmitt unnið 2/3 af verkinu). Kostnaður Akraneskaupstaður af þessari sagnaritun, að meðtöldum útgáfukostnaði bókarinnar sem kom út, er rúmlega 15 milljónir, uppreiknað á núvirði. Textinn í bók Jóns er lipurlega skrifaður en umbúnaður útgáfunnar afar fátæklegur. (SSA III).
 

Svo virðist sem Gísli Gíslason bæjarstjóri hafi ráðið Gunnlaug Haraldsson, sem þá var atvinnulaus (SSA IV og nmgr. 8 við SSA XV ), sem sagnaritara áður en starfslokasamningur við Jón Böðvarsson var gerður. Gunnlaugur átti að skrifa þrjú bindi sem næðu yfir 1700-2000. Starfið var ekki auglýst og engin augsjáanleg skýring er á því að Gunnlaug Haraldsson var ráðinn, hafandi hvorki menntun í sagnfræði né reynslu af fræðilegum skrifum (SSA XV). Möguleg skýring er að með ráðningunni hafi Alþýðubandalagsmenn í bæjarstjórn og víðar gert sínum manni greiða (SSA V). Önnur möguleg skýring er að á meðan Gunnlaugur sat sjálfur í Ritnefndinni (1987-1990) hafi honum tekist að sannfæra nefndarmenn um að hann væri snillingur.

Í upphafi virtist Gunnlaugur vinna af kappi. Hann gaf fögur fyrirheit, þ.e. lagði fram lista, minnisatriði, verkáætlanir og eigin „hugleiðingar“ um vinnu sína (Sjá Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011). Hann skilaði meira að segja þó nokkru af texta í upphafi, að vísu löngu á eftir áætlun. Þegar samningstíma lauk taldi Ritnefndin að fyrsta bindi af þeim þremur sem hann átti að skila væri fullunnið en hafði reyndar rangt fyrir sér í því (SSA V).  Þá var gerður viðbótarsamningur við Gunnlaug um nýja skiladaga og átti verkinu að ljúka 2004. Hann skilaði heldur ekki af sér í lok þess samningstíma (SSA VI). Næst tókst honum að fá Akraneskaupstað til að semja um að greiða út árangurstengdu/afraksturstengdu greiðslurnar sem samið var um í upphafi, jafnað niður á rúmt ár, þótt árangurinn/afraksturinn væri enn enginn (SSA VII). Í rauninni er þarflaust að rekja þessi viðskipti nánar enda eru þau rakin í einstökum færslum í Sögu Sögu Akraness. Alls gerðu Akraneskaupstaður og Gunnlaugur Haraldsson með sér tvo grunnsamninga og fjóra viðbótarsamninga. Gunnlaugur stóð aldrei í skilum þótt ævinlega hafi verið kveðið á um ákveðna skilafresti. Árin 2008 og 2009 var hann svo farinn að fá veglegar greiðslur gegn framvísun reikninga (sjá nmgr. 6 við SSA XV). Mér er ókunnugt um fyrir hvað þeir reikningar voru.
 

Frá upphafi var Gunnlaugur á ágætum launum við sagnaritunina enda skyldi hann hafa hana að aðalstarfi, skv. fyrri grunnsamningi (fyrsta samningnum) sem væntanlega gilti allt til 2006. Því fór fjarri að hann stæði við að hafa ritun sögu Akraness að aðalstarfi en e.t.v. hefur Ritnefndin aldrei tekið eftir því (SSA XII). Í báðum grunnsamningum við Gunnlaug Haraldsson voru riftunarákvæði og ákvæði um endurgreiðslukröfu Akraneskaupstaðar stæði sagnaritari ekki skil á verkum skv. tímasetningum í samningunum (SSA V og SSA IX). Þessum ákvæðum var aldrei beitt.
 

Þegar viðskipti Gunnlaugs við Akraneskaupstað og vinnulag hans er skoðað (sjá Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011) vekur það auðvitað furðu að maðurinn skuli ekki fyrir löngu hafa verið leystur frá störfum, krafinn um endurgreiðslu þess fjár sem ekki hafði verið unnið fyrir, starfið auglýst og reynt að ráða hæfan mann í verkið. Og af hverju sögðu bæjarbúar ekki neitt?
 
 

Ég held að skýringarnar séu eitthvað á þessa leið:

Gunnlaugur Haraldsson virðist hafa talsvert háar hugmyndir um eigið ágæti.4 Hann hefur ekki hið minnsta samviskubit yfir að hafa þegið ágætis laun og greiðslur frá Akraneskaupstað í 14 ár án þess að skila neinu sem tækt var í prentsmiðju fyrr en í janúar 2011. Sjálfur segir hann að þetta sé vegna þess hversu vel hann vandi sín verk.Þetta finnst mér sýna meira kaldlyndi en venjulegu fólki er tamt; flestir myndu nú skammast sín að þiggja slíkar fjárhæðir án þess að skila afrakstri. Sömuleiðis hikar hann ekki við að kenna öðrum um drátt á skilum, þ.e. firrir sjálfan sig allri ábyrgð á „hinu langa hlé 2005-2006“.6

Höfrungur gamliÞessi tröllatrú Gunnlaugs á eigin verðleika og fagurgali um framtíðaráform sem ekki stóðust7 virðist hafa villt Ritnefndinni sýn frá upphafi. Af aðdáunarverðri tungulipurð tókst Gunnlaugi hvað eftir annað að afsaka eða skýra hvers vegna hann skilaði ekki á tilsettum tíma. (Oftast er afsökunin tímafrek leit í frumheimildum, sjá t.d. yfirlit í SSA XIV.) Ritnefndin varð sem peð í höndum sagnaritara, a.m.k. spurðu nefndarmenn engra óþægilegra spurninga og voru ekki með neitt vesen þótt verk drægist úr hömlu heldur beitti nefndin sér þæg og góð hvað eftir annað fyrir að frekari samningar væru gerðir þegar greiðslur til sagnaritara stöðvuðust og gerir raunar enn. Ritnefndin var það blinduð af töfrum sagnaritarans að hún virtist ekki einu sinni taka eftir því að það vantaði kafla inn í eina „fullgerða“ handritið sem hún hefur staðfest skil á skv. fundargerðum.8

Gunnlaugur kom sér ekki bara upp peðum sem voru dugleg að gera það sem fyrir þau var lagt, s.s. styðja að viðbótarsamningar væru gerðir um meira fé og leggja eftirlitshlutverk sitt svo til alveg á hilluna, heldur einnig voldugum verndara frá upphafi, bæjarstjóranum sjálfum, sem vildi svo heppilega til að var einmitt formaður Ritnefndarinnar. Bæjarstjórinn mælti með því að gerðir væru samningar við Gunnlaug og skrifaði svo sjálfur undir þá. (Gísli Gíslason skrifaði undir fyrsta grunnsamninginn og tvo viðbótarsamninga.)

Verkið var aldrei unnið fyrir opnum tjöldum: Fundargerðir Ritnefndarinnar bárust seint og illa, ýmist til bæjarráðs eða bæjarstjórnar; fjárveitingar og nýir samningar voru samþykkt svo lítið bar á. Væntanlega hafa einhverjir vitað hvernig í málum lá en þeir voru óvirkir áhorfendur, stóðu hjá og töldu hugsanlega ekki í sínum verkahring að skerast í leikinn. Þegar almenningur gerðist svo djarfur að fara að spyrja út í alla þessa peninga og hvað liði ritun sögu Akraness gekk verndarinn, Gísli Gíslason, fram fyrir skjöldu og varði sinn umbjóðanda, Gunnlaug Haraldsson.9

Þannig gekk þetta til síðla árs 2005. Þá varð sá uggvænlegi atburður að Gunnlaugur sagnaritari sá á bak sínum verndara til annarra starfa. Jafnframt varð töluverð nýliðun í stjórn bæjarins (SSA VIII). En Gunnlaugur náði aftur fótfestu og nýr grunnsamningur var gerður, í þetta sinn útbúinn og útskýrður af lögmanni Akraneskaupstaðar (SSA IX). Það kom þó fyrir lítið, áfram skilaði sagnaritarinn engu sem tækt væri til útgáfu og komst upp með það.
 

Í rauninni dugir um framhaldið að vísa í einstakar færslur um gang sögu Sögu Akraness eða Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011 til að sjá að áfram var ekki staðið við samning og viðbótarsamninga. Gunnlaugur virðist stjórnsamur maður, svo mjög að Ritnefndin kom ekki með neinar yfirlýsingar í dúr við þær sem hún sendi frá sér þegar Jón Böðvarsson reyndi að starfa með henni, né bókaði neitt í líkingu við það sem þá var bókað um drátt á skilum. Eftir því sem sagnaritun Gunnlaugs spannaði fleiri ár varð æ erfiðara að hafa yfirsýn yfir verkið. Að auki breytti Gunnlaugur áætlunum og ruglaði kannski Ritnefndina þannig í ríminu. Eftir að hann náði aftur góðu tangarhaldi á Ritnefndinni og bæjarstjórnarmönnum 2006 var t.d. samið við hann um aukið vinnuframlag þótt hann hefði alls ekki skilað því sem hann var frá upphafi ráðinn til að vinna.10
 

Þegar rennur loks upp fyrir þeim bæjarstjórnarmönnum sem bera hvað mesta ábyrgð á fjáraustri í sagnaritarann allan tímann frá 1997 að þeir hafa verið gabbaðir grípa þeir til þess fyrirséða ráðs að mæra sagnaritarann. Þá blómstra nýjar goðsagnir, sem bætast við þá að Gunnlaugur sé fræðimaður, nefnilega að verkið sé svo ofurvandlega unnið að ekki sé skrítið að vinnslutíminn hafi verið svona ógnarlangur. Yfirlýsingar helstu bæjarstjórnarmanna virðast gefnar að handritunum ólesnum. Sjálfur hafði sagnaritarinn gripið til þess ráðs að klæða verk sitt í óskaplega íburðarmikinn búning; hann breytti sinni hernaðarlist og hóf að sýna einstakar síður í tilvonandi verki, t.d. á glærum, glæsilegar og litskrúðugar. Bæjarstjórnarmenn eygðu von til að afsaka fjárausturinn úr sjóðum bæjarins í verk þar sem afraksturinn var sorglega lítill (SSA XI og SSA XIII) með því að útmála glæsileika verksins. Haldið var áfram að greiða Gunnlaugi myndarlega, gegn framvísun reikninga þegar allir viðbótarsamningar voru útrunnir (SSA XV, nmgr. 6).
 

Þegar handritum fyrri tveggja bindanna var loks skilað eftir 14 ára starf sagnaritarans voru gerðar kröfur um prentgæði sem alla jafna hafa einungis tíðkast í prentun listaverkabóka (SSA XV og Fjórðungsdómur um 18 marka bók).  Enn á eftir að meta hvort stóryrtar yfirlýsingar í auglýsingum standist, t.d. að í þessum bókum sé að finna nýjar hugmyndir sem varði Íslandssöguna alla. Lausleg athugun mín á hluta fyrra bindisins bendir til þess að heldur hafi verið kastað höndum til verksins þótt prentunin sé dýr (Fjórðungsdómur um 18 marka bók og  Körlunum svarað).

Gamli HöfrungurÞótt þeir bæjarstjórnarmenn sem setið höfðu alla sagnaritunartíð Gunnlaugs (SSA IX) hafi vitað hvernig nýir og nýir samningar voru undirritaðir og greiðslur ekki skornar við nögl í meir en áratug en litlu sem engu skilað gilti það ekki um bæjarbúa. Eins og kemur fram í mörgum færslum í Sögu Sögu Akraness fór þetta að mestu fram bak við tjöldin og fundargerðir ritnefndar um sögu Akraness rötuðu seint og illa á vef Akraneskaupstaðar. Svo er enn. Þessum fundargerðum var gjarna safnað saman og þær lagðar fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn nokkrar saman í kippu. Nýir bæjarstjórnarmenn áttu þess vegna kannski líka erfitt með að átta sig á hvernig verkið hefði gengið fyrir sig. Til að flækja málin var og er staða ritnefndar um sögu Akraness afskaplega óljós í stjórnsýslu bæjarins.

Þeir einu úr hópi bæjarstjórnarmanna sem hafa andæft samningagerð við Gunnlaug Haraldsson opinberlega eru: Sigríður Guðmundsdóttir, sem greiddi atkvæði gegn fyrsta samningum (SSA IV, nmgr. 9) og Karen Jónsdóttir, sem neitaði að semja meir við manninn eftir að hafa áttað sig á vinnubrögðum hans og hversu mikið fé bærinn hafði greitt honum, árið 2009 (SSA XI). Af orðum og gerðum Gísla S. Einarssonar bæjarstjóra má ráða að hann hafi séð í gegnum Gunnlaug en ekki verið í aðstöðu til að neita að gera frekari samninga við hann (SSA XI). Mögulegir persónutöfrar og tungulipurð Gunnlaugs Haraldssonar hafa sem sagt ekki hrifið alla.
 
 

Á hvað minnir Saga Sögu Akraness?

Fyrsti hlutinn er sorgleg meðferð nokkurra oflátunga í ritnefnd á fræðimanni. Síðari og lengri hlutinn er dæmi um hvernig einum manni tekst að gera bæjarstjórnendur að sínum strengjabrúðum. Sú saga minnir óneitanlega á meintar stórstjörnur útrásarinnar sem skutust eins og súpernóvur upp á fjármálahimininn fyrir hrunið. Menn kepptust við að mæra þá sem mestu fjármálasnillinga heimsins en svo kom í ljós að aldrei var nein innistæða fyrir því lofi þótt umgjörðin væri vissulega stórkostleg þegar best lét. Saga Sögu Akraness minnir líka á „Nýju fötin keisarans“, sem er ágæt dæmisaga um meðvirkni. Og ákveðnar kenningar, oft tengdar viðskiptum og hruni stórfyrirtækja, falla eins og flís við rass að þessari sögu sagnaritunar Akraneskaupstaðar.

Og hvað gerist svo? Ég spái því að ráðamenn Akraneskaupstaðar haldi að sér höndum um sinn og skrifi svo undir nýjan samning við Gunnlaug Haraldsson með haustinu. Ef þeir þurfa að velja milli þess að játa stórfelld mistök, þ.e. að hafa látið blekkjast árum saman, annars vegar, og hins vegar að reyna að halda haus og lofa verk sagnaritarans enn meir og enn hærri raustu hygg ég að þeir velji seinni kostinn. Því hver vill standa uppi sem flón? Og ég spái því að okkar tiltölulega nýráðni bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, gerist hinn nýi verndari Gunnlaugs Haraldssonar enda hefur hann þegar sýnt tilburði til þess. Gangi kenningar fullkomlega upp fær Gunnlaugur Haraldsson líklega duglega launahækkun í næsta samningi við Akraneskaupstað og verður falin enn meiri ábyrgð á ritun Sögu Akraness.


 

1. Byggt á „Saga Akraness, samantekt 1987-2011“, plaggi fengnu frá Akraneskaupstað 4. maí 2011, að viðbættum þeim tæpum fimm milljónum sem Akraneskaupstaður greiddi væntanlega Uppheimum ehf. við fyrir 236 eintök af hvoru bindi af Sögu Akraness um það leyti sem bækurnar komu út, 19. maí 2011, skv. samningi Akraneskaupstaðar við Uppheima efh. Sjá SSA XV.
 
 

2 Sjá tilvitnun í fyrirlestur Hallgríms Jónssonar í „Frá Akranesi“. Ísafold 27. mars 1889 og SSA I. Væri óskandi að Hallgrímur hefði aldrei flutt fyrirlesturinn „Lífið í Skaganum síðastliðin 100 ár“ (þótt hann næði að safna með honum 30 kr. í byggingu barnaskólahúss sem bráðvantaði) því síðan virðist sagnariturum mjög í mun að reka slyðruorðið af Skaganum; koma Akranesi á Íslandssögukortið, ef svo má segja, og þarf að seilast ansi langt til þess.
 
 

3 Má segja að ég þekki svolítið einn úr ritnefndinni og þann eiganda Uppheima sem býr á Akranesi því ég var um skeið samkennari þeirra. Sagnaritarana Jón Böðvarsson og Gunnlaug Haraldsson þekki ég ekki, ekki heldur formann Ritnefndarinnar frá 2006, Jón Gunnlaugsson. Sumum öðrum persónum, t.d. þeim sem setið hafa í einn og hálfan áratug í bæjarstjórn, er ég nægilega málkunnug til að heilsa á götu. Tveir sem við sögu koma voru nemendur mínir fyrir langa löngu. Ég hef einu sinni tekið í höndina á Árna Múla Jónassyni, nýja bæjarstjóranum, þegar ég var kynnt fyrir honum fyrir tilviljun en man ekkert eftir honum úr íslenskudeild HÍ þótt við höfum væntanlega verið samtíða þar fyrir óralöngu. Sem sagt: Ég stend alveg utan við sagnaritunarævintýri bæjarins og er því mjög fegin. Nema að því leytinu að ásamt öðrum Skagamönnum borga ég af því brúsann. Mér hefur þótt saga Sögu Akraness einkar áhugaverð þær vikur sem ég hef eytt í að setja mig inn í hana, ekki hvað síst seinni og stærsti hluti hennar. Nú er kominn tími á bloggsumarleyfi en eftir það hyggst ég koma þessum færslum fyrir í einu pdf-skjali sem hlaða má niður. Væri því ágætt að fá ábendingar og leiðréttingar fyrir haustið.
 
 

4 Sjá t.d. margítvitnað bréf Gunnlaugs Haraldssonar á spjallþræði Akraneskaupstaðar, 23. febrúar 2005, „Meint ritstífla brestur“, viðtalið „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar“ í Skessuhorni 13. apríl 2011, s. 14-15 og grein Gunnlaugs „Kvittað fyrir fjórðungsdóm“, dags. 5. júní 2011, birtist í Skessuhorni 8. júní 2011 s. 34-35.

Einnig má af formála Sögu Akraness I ráða að Gunnlaugur telur sig hafa unnið merka heimildarannsókn og komist að niðurstöðum sem enginn annar hafði uppgötvað áður:
„Af heimilda- og tilvísanaskrám má ráða, að víða hefur verið leitað fanga, enda byggir ritið að verulegu leyti á minni eigin rannsókn og túlkun frumheimilda. Mín sýn á heimildasnauð tímabil í sögu byggðarinnar og tilgátur þar að lútandi t.d. um landnámið, þróun elstu byggðar og mikilvægi sjósóknar í því samhengi, hafa sömuleiðis kallað á víðtæka efnisleit til stuðnings þeim hugmyndum. Þá hef ég markvisst reynt að kemba öll helstu skjalasögn, þ.á.m. stjórnsýsluembætta landsins á fyrri öldum, og afritað hvaðeina, sem komið hefur í hendur varðandi sögu Akraness.“ Gunnlaugur Haraldsson. 2011. Formáli að Sögu Akraness I, s. 10.
 
 

5 Sjá t.d. „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“ í DV 22. desember 2009 og fyrrnefnt viðtal í Skessuhorni. Einnig bergmála þessar staðhæfingar í orðum bæjarstjórnarmanna, sjá síðari hluta SSA XIII.
 
 

6 „Vegna þessa verklags [að gefa verkið út sem eina heild við verklok en það hefur sem kunnugt er ekki tekist] hlutu óhjákvæmilega ýmsir þeir sem álengdar stóðu að fyllast óþolinmæði og jafnvel efasemdum um að ég lyki verkinu nokkru sinni. Ekki bætti úr skák það langa verkhlé sem varð 2005-2006.“ „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 14.

Sama kemur fram í formála Gunnlaugs að Sögu Akraness I (enda er þetta svokallaða viðtal í Skessuhorni að talsvert stórum hluta formálinn að fyrsta bindinu): „Ekki bætti úr skák það langa verkhlé, sem varð 2005 til 2006, þar sem hverfa þurfti frá hálfköruðu lokabindi verksins.“ Saga Akraness I, s. 9.

Gunnlaugi láist að geta þess að verkhléð var einmitt vegna þess að hann hafði ekki staðið skil á verkum skv. þeim þremur samningum sem Akraneskaupstaður hafði gert við hann.
 
 
 

7 Sjá má glöggt muninn á því sem Gunnlaugur segist vera að vinna og því sem hann skilar með því að skoða Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011.
 
 
 

8 Sjá t.d. SSA XIV þar sem sorgarsaga núverandi óútgefins III. bindis er rakin og Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011.
 
 
 

9 Sjá SSA VII og bréf Gísla Gíslasonar á spjallþræði Akraneskaupstaðar í febrúar 2005.
 
 
 

10  Sjá SSA IX og „Að því búnu og lokinni nauðsynlegri umritun og uppfærslu á ýmsum þáttum ritsins var mér falin umsjón með prentvinnslu þess, þ.e. hönnun, umbroti, kortagerð, ljósmyndun, vinnslu myndrita, myndaritstjórn, prófarkalestri og öðrum verkþáttum, svo að afhenda mætti ritið  fullfrágengið í hendur útgefanda.“ Gunnlaugur Haraldsson. 2011. Formáli að Sögu Akraness I, s. 9.
 

8 Thoughts on “Sagan öll?

  1. Margrét Sig on June 30, 2011 at 00:52 said:

    Það vildi ég óska að fleiri væru eins og þú og hefðu þekkingu, getu og tíma til að fara svona ofan í saumana á fleiri málum hér á landi þar sem oftast er ráðið í störf eftir fjölskyldu- eða vinatengslum frekar en faglega. Við erum orðin svo vön verkum unnum af vanhæfu fólki að við erum orðin samdauna.

  2. Hrafn Arnarson on June 30, 2011 at 13:46 said:

    Mér finnst að bæjarbúar ættu að láta meira í sér heyra um þessi mál. Bæði þeir sem eru með og móti. Eða er flestum kannski alveg sama hvernig saga bæjarins er skráð og hversu mikið það kostar?

  3. Hulda Hákonardóttir on June 30, 2011 at 16:31 said:

    Takk fyrir samantektina! Hörmulegt að sjá hve óheppinn Akranesbær hefur verið með ritnefndir í svo langan tíma. Enn fremur svíður að sjá framkomu þeirra sömu við öðlinginn Jón Böðvarsson. Blessuð veri minning hans.
    Gunnlaugur Haraldsson er greinilega ofurmenni. Gaman væri þá að vita nokkur deili á svo mikilli manneskju. Hvernig lítur ferilskrá svoleiðis mikilmennis út? Skyldi hann vera vel ættaður bæði til blóðs og vina?
    Þvílík skömm fyrir Akranesbæ.

  4. Harpa Hreinsdóttir on June 30, 2011 at 20:45 said:

    Ritun Sögu Akraness er bleiki fíllinn í stofunni okkar hér á Skaganum. Skagamenn eru orðnir það vanir að tipla á tánum kringum þetta eldfima efni og látast ekki sjá vitleysuna að það er ekki hægt að ætlast til að þeir tjái sig mikið við þessar bloggfærslur. En ég fæ þónokkur viðbrögð, svolítið í gegnum FB og nánast alltaf þegar ég hef mig út meðal manna. Það fyndna er að stundum hvíslar fólk sem ég hitti á förnum vegi að mér hversu ánægt það er með þessar færslur. Hvísl, hvísl … Ég hef líka heyrt utan að mér að einhverjir í bænum séu ekki par ánægðir með þá athygli sem þessi sagnaritun hefur fengið upp á síðkastið (eyjan.is hefur verið dugleg að linka í færslurnar, stundum aðrir fjölmiðlar líka og miðað við teljaratölur er ég hæstánægð, held raunar að talsvert fleiri hafi lesið einstakar færslur í Sögu Sögu Akraness en lesendur Sögu Akraness muni nokkru sinni verða). Enginn hefur þó séð ástæðu til að segja eitt orð við mig gegn þessum færslum en aftur á móti lögðu nokkrir karlar (Ritnefndin, bæjarstjórinn og sagnaritarinn) ansi stóran hluta okkar ágæta héraðsblaðs undir harmakvein og reiðilestur í minn garð, núna um daginn. Kannski kunna þeir ekki að kommenta á blogg? 

    Nei, bæjarbúum er hreint ekki sama um kostnaðinn. En hugsanlega hafa einhverjir trúað oflofi bæjarstjórnarmanna og Uppheima um bækur Gunnlaugs og reynt að hugga sig við það. Það er náttúrlega ekki vinsælt að hafa þá huggun af Skagamönnum, reikna ég með, og eins og Eva Joly hefur bent á þá eru þeir sem svipta hulunni af svindli oft gerðir að sökudólgum. Ég hef þó ekki teljandi áhyggjur af því.

    Hulda: Gunnlaugur er ábyggilega af traustum austfirskum ættum – um það veit ég raunar ekki par en reikna með því. Núverandi “vinir hans í pólitík” eru einkum vinstri-grænir því hann sveigðist þangað þegar Alþýðubandalagið leið undir lok (fyrir utan auðsveipa “vini hans” í bæjarpólitík á Skaganum, sem eru úr ýmsum flokkum). Sjá má hluta æviferils hans hér:
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=200031&pageId=3011139&lang=is&q=Gunnlaugur Haraldsson

    Ég myndi nú kalla frammistöðu Ritefndarinnar (sem hefur verið merkilega stabíl í gegnum árin, einna helst að menn deyi úr henni) annað en “óheppni Akranesbæjar” en það er náttúrlega alltaf smekksatriði hvaða orð eru valin.

    Já, þetta sagnaritunarævintýri er skömm fyrir Akranesbæ en ábyrgðina á þeirri skömm bera ekki nema örfáar manneskjur, næstum allt karlar, sennilega rétt um tugur manns. Því miður er líklegt að þeir karlar axli ekki neina ábyrgð. Líklega er þeim um megn að viðurkenna vanmátt sinn og að þeir hafi gert mistök.

  5. Páll Baldvin Baldvinsson á Fréttatímanum skrifaði bókadóm um Sögu Akraness sem er efnislega samhljóða þínum. Nokkur gullkorn:

    “Bókin er merkilegt sönnunargagn um lágt siðferðisstig íslenskrar bókaútgáfu og ætti að verða fyrsta verk sýslumannsins á svæðinu að gera eintök bæjarstjórnarinnar á Akranesi upptæk í svo stóru þjófnaðarmáli. Er ekki lögregla á Akranesi?”

    “Hér hefur tekist herfilega til um framkvæmd og hafi þeir skömm fyrir sem að stóðu. Margt mætti til færa um hvar ranglega er staðið að ályktunum, hlaupið í æsilegum rökleysum að veikum niðurstöðum en rými á þessari síðu dugar ekki til. Það þarf heilt hefti af Sögu eða Skírni til að skoða þetta bindi að gagni og þá munu margar aðleiðslur Gunnlaugs falla eins og spilaborg.

    Akurnesingum var nær að kjósa yfir sig svona dómgreindarlausa stjórnendur og leyfa þeim að komast upp með svona vitleysu. Saga Akraness Fyrsta bindi er merkilegur minnisvarði um vanhugsaðan undirbúning, óvandaða vinnu og ósvífna tilraun til að smíða sögukenningu sem ekki er fótur fyrir.”

    http://www.frettatiminn.is/menning/saga_akraness_eitt/

  6. Harpa Hreinsdottir on July 8, 2011 at 16:57 said:

    Va! En gott ad eg er ekki *hropandinn i eydimorkinni* lengur – thad eru tha fleiri en eg sem koma auga a gallana 😉

  7. Þorvaldur lyftustj on July 8, 2011 at 17:05 said:

    Til hamíngju með kallinn!!

  8. Harpa Hreinsdóttir on July 19, 2011 at 00:13 said:

    Takk, Þorvaldur minn. Karlinn hefur samt ekkert breyst 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation