Vandinn að vinna í sjoppu

Í rauninni fjallar þessi færsla um málfar og málfarsfasisma en þó einnig um sjoppur … eða ætti ég að segja „söluturna“? Það er að því leytinu ankannalegt að sjaldnast er um turna að ræða …

Flestar konur á mínum aldri hafa reynslu af sjoppuvinnu og afgreiðslustörfum ýmiss konar. Í sólbaðinu áðan reyndi ég að rifja upp hvort ég hefði einhvern tíma lent í vandræðum í svoleiðis vinnu og mundi eftir tvennu.

Fyrra dæmið var snemma á vinnumarkaðsferlinum, líklega hef ég verið á fjórtánda ári, þegar ég vann í svokallaðri „kaupfélagssjoppu“ á Laugarvatni. Starfið var fjölþætt í meira lagi: Dæla bensíni, selja olíu, pulsur, mjólkurvörur, sælgæti, þrífa klósett, taka við tómum gaskútum o.fl.  Kúnnarnir voru miskurteisir eins og gengur en yfirleitt allt í lagi … nema Ólafur gamli Ketilsson. Feimin og óframfærin sem ég var hrökk ég í kút þegar hann hreytti í mig: „Skelerð’ekki mælt mál, stelpa?!“ eftir að ég hafði hváð oftar en honum þótti góðu hófi gegna. Karlinn bað um „sker“. Mér var lífsins ómögulegt að reikna út hvað „sker“ gæti mögulega verið. Mig minnir að vinnufélagi minn hafi loks hvíslað að mér að geðvonda gamalmennið ætlaði að kaupa skyr. Mér til málsbóta var að ég hafði aldrei fyrr á ævinni heyrt flámæli. Síðar lærði ég að meta flámæli og fannst unun að hlusta á ekta flámæltan eldri mann hér í bæ en hann er því miður dáinn fyrir mörgum árum. Þetta er svo sjaldgæfur framburður núorðið að það er ómetanlegt að hafa heyrt hann ómengaðan.

Góða helgiHitt dæmið var á háskólaárum mínum, þegar einhverri mömmunni datt í hug að senda krakkann sinn með þúsundkall í Breiðholtssjoppuna á laugardagskvöldi og átti barnið að kaupa „50 aura möndlur“ fyrir féð. Af því það var brjálað að gera á laugardagskvöldum datt mér ekki í hug að telja 2000 rauðar möndlur með matskeið ofaní poka heldur afhenti krakkanum nokkra möndlupoka og handtaldar möndlur sem stemmdu upphæðina af. Móðirin hringdi síðan gersamlega spinnegal yfir þessari leti og ómennsku afgreiðslustúlkunnar. En þessi uppákoma kemur þó efni færslunnar ekkert við, flýtur með af því þetta er blogg og blogg mega vera óskipuleg. Það er þeirra eðli.

Mér varð hugsað til afgreiðsluáranna í dag af því ég las pistilinn „Að heilsast og kveðjast“ eftir Þórð Helgason (í mogga mannsins). Mogginn býður upp á greinarstubba um íslenskt mál á sunnudagskálfinum og yfirleitt finnast mér þeir stubbar mjög fyndnir, t.d. nöldur út í hve íslenska er ófeminísk eða hve mikil spellvirki séu framin á tunguræflinum þegar fólk brúkar ekki ufsilon rétt og fleira í svoleiðis dúr. Mér fannst pistill Þórðar Helgasonar hins vegar ekkert fyndinn enda sá ég fyrir mér vesalings afgreiðslufólkið sem lenti í að afgreiða manninn, heltekinn af rétthugsun um íslenskt mál. Líklega lítið skárra að afgreiða Þórð en Óla gamla Ket (en eins og allir Laugvetningar komnir til vits og ára muna var karlinn hroðalega geðstirður).

Þórður tók sig til og settist niður með afgreiðslumanni sem vogaði sér að segja „og eigðu góða helgi“ við hann. En í gegnum textann skín þó gleði Þórðar yfir að afgreiðslumaðurinn sagðist „finna fyrir óbragði í hvert sinn sem þessi orð hrytu honum af munni“ og „var greinilega feginn að finna í mér bandamann …“ Fyrr má nú vera andskotans viðkvæmnin! Mér finnst „góða helgi“ vera ósköp sæt kveðja og sé ekki að hún sé neitt verri en „góða nótt“, ef út í það er farið, þótt hún sé vissulega yngri. Og að viðskiptavinur sjái ástæðu til að setjast niður með afgreiðslufólki sem óvart hefur ekki alveg sama orðaforða og íslenskukennari á sjötugsaldri finnst mér algerlega út úr kú. (Hér geta málhörundsárir skipt út orðtaki og sett „út í hött“ í staðinn ef þeim líður þá betur.)

Nokkrum árum síðar fór Þórður „síðla kvölds í mikilli súkkulaðiþörf inn í sjoppu eina í Kópavogi.“ Þar bauð hann gott kvöld en unglingsstúlkan sem afgreiddi tók ekki undir svo Þórður greip til eftirfarandi ráðs: „… benti henni á að ég hefði boðið gott kvöld. Stúlkan starði á mig og átti ekki orð.“ Ég er ekki hissa á því! Og það hlakkar í Þórði þegar hann lýsir því hvernig hann margþakkaði fyrir sig, án þess að fá rétt viðbrögð að eigin mati og staldraði síðan við í dyrunum og bauð góða nótt: „Við þessa óvæntu atlögu mátti glöggt sjá að stúlkan fór úr þessu litla jafnvægi sem eftir var.“ Þórði finnst þetta greinilega hafa verið ansi gott hjá sér og voða gaman, hefur líklega haft af þessu Þórðargleði. Ef ég set mig í spor afgreiðslustúlkunnar þá hefði ég væntanlega talið að maður sem léti svona væri ekki með öllum mjalla og haft örlitlar áhyggjur af því upp á hverju viðkomandi tæki næst.

Kannski má allt eins lesa pistil Þórðar Helgasonar frá sjónarhóli afgreiðslufólks: Til að róa manninn sest afgreiðslumaðurinn niður með honum og samsinnir öllu sem hann segir eða afgreiðslumaður reynir að leiða svona kúnna hjá sér og segja ekki neitt. Þannig séð er þetta góður greinarstubbur moggans sem kennir fólki í verslunum eða þjónustufyrirtækjum að fást við erfiða viðskiptavini sem fá útrás fyrir geðvonsku sína með því að hanka mann og annan á málfari eða orðanotkun.
 
 

6 Thoughts on “Vandinn að vinna í sjoppu

  1. Oddur Vilhelmsson on August 6, 2011 at 22:51 said:

    Hressandi og meinfyndinn pistill, kæra frænka! Hafðu þökk fyrir.

  2. svona til að nöldra pínu áfram þá finnst mér kveðjan “góða helgi” fín eins og “góða nótt” en myndi aldrei segja “eigðu góða nótt” og þá ekki helgi heldur :þ

  3. Harpa on August 7, 2011 at 18:55 said:

    Ja … “ha en go’ weekend” segja frændur okkar án þess að blikna. Mér finnst “eigðu góða nótt” svo sem allt í lagi en hef aldrei heyrt það. Eiginlega er það eina sem mér finnst doldið galið þegar afgreiðslufólk, sérstaklega í síma, segir “Gjersovel” sem svar við “takk fyrir”. Það gengur dálítið illa upp. Hin nýmælin, s.s. “þakka ÞÉR” og “góða helgi” eða “eigðu góða helgi” finnast mér í fínu lagi.

    Annars fjallar færslan í og með um það bessaleyfi sem höfundur moggastubbs tekur sér í að leiðrétta fólk utan sinnar kennslustofu. Fyndist mönnum fullkomlega eðlilegt ef sóknarpresturinn stoppaði hvern mann sem vogaði sér að segja “Hæ”, eins og tröllin, og settist niður með viðkomandi til að sannfæra hann um að fólk ætti að heilsa “Sæl / Sæll / komdu sæl / komdu sæll / komdu blessuð / blessuð ….”? Einhverra hluta vegna halda sumir íslenskukennarar að þeir einir stétta megi hafa vit fyrir öðrum 24 tíma á sólarhring. Það er hroki dauðans!

  4. Nákvæmlega nafna!
    Svo er annað mál hvað margir leyfa sér að vera hrikalega leiðinlegir og stundum hreinlega vondir við afgreiðslufólk. Það finnst mér lítilmannlegt.

  5. Baldvin on August 9, 2011 at 09:39 said:

    Vandinn við “gúmorinn” og glaðan haginn.
    Las lika þennan geðstirða pistil í guðspjalli dagsins og varð það á að glotta kvikindislega yfir sálarangist Þórðar, erviðleikum hanns við að kingja “góða helgi”, svo maður tali nú ekki um ef einhver vildi gauka að honum “gleðilegt sólris” svona ca. um það bil 22. desember ár hvert þegar sól tekur hækka flugið, eða “gleðilega hátíð” þegar golfvellir opna iðjagrænir á vorin.

    Hvað skyldi koma fyrir manninn ( andleg hægðateppa, hjartastopp eða eitthvað þaðanaf verra) ef hann heyrði einhverntima “Happy cristmas and a merry new year”, eins og haft er eftir “bítlonum” og mega teljast réttdræpir fyrir.

    Sömuleiðis lærði ég að meta flámæli þegar Lindi vinur minn og skólabróðir frá Fáskrúðsfirði lýsti því með tæru brosi, syndlausu að ekki sæi hann meginmun á því skjari sem menn leggja sér til munnns sem bezt með rjóma og svo hinu skjarinu sem sjómenn eiga það til að steyta á í hafvillum.
    Baldvin Ein

  6. já ég áttaði mig á punktinum, þess vegna :þ merkið sko.

    Vinkona mín vann einu sinni í sjoppu, þangað inn kom heldur eldri gaur og bað um pakka af bjúgls. Varð svo eins og úrgangur í framan þegar vinkonan sótti umyrðalaust Buglespakka upp í hillu. Hafði augljóslega ætlað henni að hiksta og stama og vita ekkert hvað hann var að biðja um úr því hann sagði ekki böggles.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation