Sagan umfjallaða?

Enn heldur umfjöllun um Sögu Akraness áfram í Skessuhorni í dag (s. 19)!  Þar birtist aðsend grein Jóns Torfasonar, skjalavarðar á Þjóðskjalsasafni Íslands, þar sem hann tekur upp hanskann fyrir Gunnlaug Haraldsson. Greinin heitir „Saga Akraness“, ég kræki í hana á vef Skessuhorns og hvet lesendur míns bloggs til að renna yfir hana. Í grein sinni er Jón Torfason einungis að svara mér því: „Ekki er þörf á að taka tillit til geðvonskulegs nöldurs Páls Baldvins Baldvinssonar í Fréttatímanum 8. júlí síðastliðinn.“

Ég  skil ekki alveg af hverju Jón Torfason vill vera í kompaníi þeirra sem róma Gunnlaug Haraldsson en e.t.v. hefur honum runnið blóðið til skyldunnar því hans er sérstaklega getið í þakkarorðum í formála Gunnlaugs að Sögu Akraness I, e.t.v. einnig í II. bindinu en ég hef ekki opnað það.

Nú hefur Jón Torfason flett upp í ritum sem Gunnlaugur vísar til og finnur ekki annars staðar farið rangt með en þá villu sem ég benti á (um Kjarrá, í Landnámu). Sjálf fletti ég bara upp þremur tilvitnunum og því fer fjarri að ég rengi Jón Torfason í að mjög víða (þ.e. í því efni sem Jón bar saman) fari Gunnlaugur rétt með.

Jón Torfason segir: „Þá er að nefna þá skoðun að jafnan skuli nota samræmda stafsetningu forna, þegar vísað er í fornritin. Það er heldur einstrengislegt viðhorf enda sú stafsetning að mestu leyti nítjándu aldar manna verk.“ Ég er alveg sammála Jóni um þetta og mér er auðvitað kunnugt um hvernig samræmd stafsetning forn kom til skjalanna. Ég er hins vegar dálítið hissa á af hverju hann dregur þetta fram í sinni grein því sé hann að svara mér hef ég hvergi nokkurs staðar haldið því fram að nota eigi þessa stafsetningu öðrum fremur, er raunar fremur í nöp við hana.

Vitarnir á BreiðinniAftur á móti var síðast þegar ég vissi enn gerð sú krafa í framhaldsskólaritgerðum að nemendur vitnuðu stafrétt í heimildir. Hefur það breyst á háskólastigi eða í akademískum skrifum / meintum akademískum skrifum? Ef Gunnlaugur Haraldsson kýs að vitna í Íslenzk fornrit á hann að hafa beinar tilvitnanir stafrétt eftir. (Eða er Gunnlaugur á sérstakri undanþágu hvað þetta og ótal margt annað sem snertir höfundarétt varðar?) Ef Gunnlaug Haraldsson hefði langað til að hafa beinu tilvitnanirnar með nútímastafsetningu hefði honum einnegin verið í lófa lagið að brúka slíkar heimildir, t.d. útgáfu MM (fyrrum Svarts á hvítu, sem Jón Torfason átti einmitt aðild að) eða bara Netútgáfuna, sem er byggð á útgáfu Guðna Jónssonar. En það gerði hann sem sagt ekki, skv. tilvísunum í heimildir.

„Þá hefur verið bent á ónákvæma tilvísun í netmiðla.“ Þetta er stórkostlegur úrdráttur og ég vísa í dæmin sem ég tel upp í Fjórðungsdómnum. Tilvísanir í netmiðla eru hörmung, ekki hvað síst í myndaskrá. Og Jón Torfason hlýtur að vera að grínast þegar hann segir: „Um staðarnafnið Aiginis nálægt Ljóðhúsum í Skotlandi er t.d. tvisvar vitnað í wikipedia.org og þótt viðkomandi slóð vanti þá kemur öll færslan upp þegar örnefnið er slegið inn. Sama á við um tilvísanir í geograph.org.“ Ég reikna með að þessar síður komi líka upp ef maður slær örnefnið inn í Google svo google.com / google.is er þá væntanlega einnig tæk heimildaskráning skv. fræðum Jóns Torfasonar eða hvað? Og gerir Jón Torfason sér enga grein fyrir hve hvikular vefsíður eru og hvers vegna menn vitna í rétta slóð með dagsetningunni þegar síðan var skoðuð? Nú get ég ekki annað en vísað Jóni á einhverja framhaldsskólakennslubók í ritun til að kynna sér hvernig vitna skal í efni á netinu og það hið fyrsta.

„Prentvillu fann ég enga í bókinni …“ Ekki ég heldur enda tók ég það sérstaklega fram. Ég er sammála Jóni Torfasyni að það er gleðilegt en raunar skoðaði ég miklu minni hluta bókarinnar en hann, var heldur ekki Gunnlaugi Haraldssyni innan handar þau 14 ár sem það tók hann að klambra saman þessum bindum (frá snemma árs 1997 til snemma árs 2011) eins og Jón Torfason, sem er hlýlega þakkað fyrir það í formála Gunnlaugs. Af þakkarlistanum í formála er ég þess fullviss að prófarkalesarar eiga hrósið fullkomlega skilið.

Það getur vel verið að Gunnlaugur „hafi dregið fram marga fróðlega hluti“ með elju sinni í að kanna óprentaðar heimildir um 17. og 18. öld eins og Jón staðhæfir. Við skulum vona það. Og við skulum vona að þessir „fróðlegu hlutir“ drukkni ekki í mælginni en vaðall og vanmáttur í að greina milli aðal- og aukaatriða einkennir mjög örnefnahluta I. bindis og hlutann um landnám, sem ég skoðaði. En ég skoðaði ekki meir en það, gafst hreinlega upp á lestrinum og blöskraði meðferð á myndum, heimildum o.fl. Ég hef ekki séð öndvegisritin um byggðasögu Skagafjarðar sem Jón tekur til samanburðar en þætti gaman að vita hvort hafi kostað 110 milljónir að láta rita hálfa sögu Skagafjarðar og gefa hana út. Kannski Jón Torfason geti svarað því næst þegar hann gengur fram fyrir skjöldu Gunnlaugi.

Ég er algerlega ósammála niðurstöðu Jóns Torfasonar: „Það er óhætt að skipa Sögu Akraness í flokk með alfróðlegustu og merkustu verkum á sviði byggðasögu.“ En fúslega má skipa Jóni Torfasyni í flokk karlanna sem rómað hafa verkið allra hæst (yfirleitt án þess að hafa lesið það), það er ekki spurning. Sagnaritaranum veitir ekki af skjaldsveinum og Jón Torfason hefur þó lesið talsvert af því sem hann hefur skrifað.

Satt best að segja hélt ég að Sögu Sögu Akraness væri lokið. (Titillinn vísar í pdf-skjal með samanlímdum bloggfærslum til þessa, heldur handhægara til lestrar en einstakar færslur í þessu bloggumhverfi.) En ef fleiri karlar ætla að leggja undir sig misstóra hluta af Skessuhorni hvað eftir annað til að „verja sinn mann“ þá stefnir í II bindi af Sögu Sögu Akraness.
 

VerksmiðjaLoks má nefna að nú er að verða til nýtt skemmtiefni í bænum okkar sem þarf helst að byggja á kenningum Gunnlaugs Haraldssonar um hið mikla gelíska (nánar tiltekið suðureyska, nánar tiltekið upprunnið úr Ljóðhúsum) landnám hér á Skaga og þess vegna þarf Saga Akraness að vera „með alfróðlegustu og merkustu verkum á sviði byggðasögu“. Þetta sé ég á annarri grein í Skessuhorni. Stjórnandi þess skemmtiverkefnis verður væntanlega Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar og nýorðinn formaður stjórnar Akranesstofu. Verður spennandi að fylgjast með hve háar upphæðir rata úr sjóðum bæjarins í það nýja gæluverkefni og hvort Gunnlaugur Haraldsson verði kannski ráðinn til að stjórna því. Ég kynni þessar spennandi hugmyndir í næstu færslu og felli hana væntanlega undir Sögu Sögu Akraness.

Sagnfræðingar og áhugamenn um byggðasögu ættu endilega að gerast áskrifendur að Skessuhorni til að fylgjast með nýjungum í mati á byggðasögu! Og það er varla tilviljun að stjórnsýsluvefur Akraneskaupstaðar, akranes.is, er í 17. sæti á topp-25 lista Blogggáttarinnar yfir vinsælustu vefritin. Enda eru hér í bæ ritaðar ákaflega merkilegar fundargerðir.
 
 

P.s. Titillinn á þessari færslu er kannski ekki heppilegur því raunverulegir ritdómar eða umfjöllun um Sögu Akraness I og II sem sagnfræðiverks eru mjög af skornum skammti. Þetta geta menn t.d. séð með því að slá inn „Saga Akraness“ í Google. Páll Baldvin skrifaði ritdóm um verkið þar sem hann gaf því eina stjörnu, s.s. Jón Torfason nefnir en kýs að afgreiða sem „geðvonskulegt nöldur“, örstuttur ritdómur birtist í Morgunblaðinu (þar fékk verkið tvær og hálfa stjörnu) en annað er það nú ekki. Fjórðungsdómurinn minn fjallaði einungis um einn fjórða af fyrra bindinu. Grein Jóns Torfasonar er fremur varnarræða fyrir höfundinn en ritdómur. Þannig að þegar allt kemur til alls hafa afar fáir séð ástæðu til að fjalla um þetta meinta stórvirki, þ.e. bindin tvö í Sögu Akraness. Af hverju ætli það sé?
 
 
 
 

4 Thoughts on “Sagan umfjallaða?

  1. Hafrún on August 12, 2011 at 22:22 said:

    Ekki veit ég hvað var verið að kvelja mann með bókum eins og Handbók um ritun og frágang og Gagnfræðakveri handa háskólanemum. Framvegis dugir manni sjálfsagt að benda á 110 miljón króna bókina ef fundið er að heimildaskráningu.
    „… hvað höfðingjarnir hafast að hinir meina sér leyfist það.“ 😉

  2. Já, iss, vitnaðu bara í Google.is og láttu kennarana hafa fyrir að finna greinina – þú gefur bara upp leitarorðin. Þetta einfaldar heimildaskrif alveg heilmikið. Og jafnvel þótt Google væri bannaður er ótrúlegur vinnusparnaður í að setja bara wikipedia.org og láta lesandann sjálfan leita þar. Sömuleiðis reikna ég með að “Bókasafn 811” myndi duga sem tilvísun í ljóðabók, gefur bara titilinn og kennarinn getur sjálfur fundið bókina …

  3. Andrés B. Böðvarsson on August 13, 2011 at 22:57 said:

    Hvers vegna ætti nemandinn svo sem að standa í því að auglýsa Google í gríð og erg? Væri ekki bara nóg að segja „Af netinu“ og láta kennarann sjá um að finna efnið með þeirri leitarvél sem hann kýs sjálfur?

  4. Harpa on August 14, 2011 at 11:07 said:

    🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation