Fleiri kenningar um orð og annað

„Þorvaldur Friðriksson ber saman íslensku og gelísku: Mörg orð og nöfn í íslensku eiga sér enga hliðstæðu í norrænum málun [svo] en finnast í gelísku“ heitir viðtal í Skessuhorni 10. ágúst 2011, s. 22. Þorvaldur þessi er fjölhæfur maður en líklega þekktastur fyrir að vera aðalskrímslafræðingur Íslands, að Þórbergi Þórðarsyni gengnum.

Kenningar Þorvalds eru, eins og kenningar Þórbergs sem lýst var í síðustu færslu, ákaflega skemmtilegar og sniðugar. Má sem dæmi nefna „orð eins og hrútur, sem ekki er til í hinum norrænu málunum, en hrútur þýðir hrútur á gelísku. Svo má nefna gemling, sem er óútskýranlegt orð út frá norrænum málum en auðskýrt með gelísku því gem þýðir vetur og þess vegna kemur þetta orð yfir vetrung á íslensku.“ Gemlufallsheiði heitir og svo af því gem þýðir vetur á gelísku. Sem dæmi um örnefnaskýringar aðrar má taka:

Súðavík er enn eitt dæmið en fjallið þar ofan við heitir kofri [svo]. Megineinkenni þess fjalls er eins konar kassi uppi á fjallinu. Kofer þýðir koffort og súð þýður örlátur eða gjafmildur maður og þaðan kemur Súðavíkurnafnið.

Írskur dans(Raunar næ ég ekki alveg hvort kofer sé gelískt orð en reikna með því, miðað við samhengið í viðtalinu.) Þorvaldur telur þvílíkan fjölda gelískra orða í íslensku, ekki hvað síst í örnefnum, að ég verð bara að benda fólki á að reyna að nálgast Skessuhorn til að lesa allt viðtalið. Hann vitnar til skýringar á gelískumekkinum í niðurstöður dr. Agnars Helgasonar um hátt hlutfall kvenna frá Bretlandseyjum í hópi landsnámsmanna en þær rannsóknarniðurstöður vöktu mikla athygli fyrir nokkrum árum. (Að vísu er keltneska hvatbera-erfðaefnið farið veg allrar veraldar vegna genaflökts og nútíma Íslendingar því ekki skyldari gelískumælandi fólki en hvaða Norður-Evrópubúum sem er … og að vísu voru tennurnar sem dr. Agnar skoðaði nánast allar af miðju Norðurlandi og miðju Suðurlandi … en hengjum okkur ekki í smáatriði hér.) Og ég hefði virkilega notið þessara skemmtilegu kenninga um óhóflegar gelískuslettur í íslensku ef viðtalið endaði ekki svona:

Akraneskaupstaður íhugar nú að koma upp setri í keltneskum fræðum og Þorvaldur fagnar því. Hann segir að ekkert þurfi að deila um þessi mál, aðeins að velta þeim fyrir sér og velta upp hlutum. „Í nýútkominni  Sögu Akraness eftir Gunnlaug Haraldsson er góð undirstaða fyrir örnefnarannsóknir því þar er mjög ítarlega farið í örnefni á þessu svæði. Þetta er mjög þakkarvert og öflugt framtak að semja það rit og gefa út. Á þessu er hægt að byggja áframhaldandi rannsóknir. Í örnefnunum er gríðarlega mikil saga og meiri en við höfum notfært okkur hingað til ef við notum gelískuna til að þýða þau.“

Það er alveg rétt hjá Þorvaldi að Akraneskaupstaður ætlar sér greinilega að koma upp „setri í keltneskum fræðum“ því í fundargerð bæjarráðs frá 7. júlí 2011 segir:

14.  1106156 – Keltneskt fræðasetur á Akranesi
 Tillaga stjórnar Akranesstofu frá 27. júní 2011 þar sem lagt er til við bæjarráð að stofnað verði keltneskt fræðasetur á Akranesi, sem byggir m.a. á þeim hugmyndum sem Þorvaldur Friðriksson, fornleifafræðingur hefur lagt fram um starfsemi, markmið og áherslur slíks fræðaseturs. Horft verði til gömlu húsanna á Safnasvæðinu sem ákjósanlega staðsetningu.
 Bæjarráð samþykkir tillöguna og felur stjórn og verkefnastjóra Akranesstofu að vinna áfram að málinu.

Í sömu fundargerð kemur og fram að nýr formaður stjórnar Akranesstofu er Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar, sá hinn sami og jafnaði ritun Sögu Akraness við Versali og Kölnardómkirkju sem frægt er orðið.

Þorvaldur segir í viðtalinu að hann sé „kominn með mikla bók um þetta“ (væntanlega kenningar sínar um gelísk örnefni). Verður spennandi að sjá hver gefur út svoleiðis bók.  

Egifskur faraóSvoleiðis að þegar saman blandast fræði Gunnlaugs Haraldssonar og áhrif Sveins Kristinssonar við hugmyndir Þorvalds Friðrikssonar er ekki von á góðu því þetta ævintýri verður náttúrlega að stórum hluta fjármagnað af útsvari okkar bæjarbúa eins og hið fyrra ævintýri. Þannig að sniðugheitin og skemmtunin verða dálítið galli blandin í mínum huga. Svo hugsa ég til þess með hryllingi að einhverjir alvöru gelískufræðingar gætu glapst til að dúkka upp á Hinu keltneska fræðasetri á Akranesi, út á nafnið. Eiginlega liggur við að ég hugsi: Fari það í hurðarlaust helvíti! En það er væntanlega af því að í viðtalinu við Þorvald heldur hann því fram að þetta sé gelískuskotið orðtak; „hurð“ er nefnilega gelískt orð 😉

Í rauninni er miklu meiri ástæða til að koma á fót Egifsku fræðasetri eða Koptísku fræðasetri hér á Skaganum, í samræmi við kenningar mannfræðingsins Fräulein Jósefínu Dietrich. Hún hefur í mannfræðirannsóknum sínum fundið merkilegar heimildir á Netinu um að Íslendingar séu að hálfu leyti komnir af Egiftum! Að vísu eru heimildir þær kannski ekki alveg jafn óumdeildar og fræðilegar og sjálf Wikipedia en slaga þó hátt upp það fræðasetur. Og ekki er hægt að saka Fr. Dietrich um að velta ekki fyrir sér, velta við og velta upp hlutum … stundum kútveltist þessi ágæti mannfræðingur sjálfur, af ánægju yfir fræðistörfum. Heimildir hennar eru einkum  Selshamurinn í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (hér krækt í Netútgáfuna) og Símon Jón Jóhannsson. „Hvað má segja um seli sem eru menn í álögum?“. Vísindavefurinn 14.11.2006. (Skoðað 17.8.2011).

 Er ekki kominn tími til að rannsaka koptískuslettur í íslensku?
 
 
 
 
 

2 Thoughts on “Fleiri kenningar um orð og annað

  1. Stefán Dal on August 28, 2011 at 21:38 said:

    Ég las einmitt þessa grein og get ekki annað sagt en að ég sé algjörlega seldur. Býð því spenntur eftir bókinni.

    Þessi mál hafa lengi vakið áhuga minn. Eða síðan þú lést mig lesa Korku sögu haustið 2004;)
    Nú ætla ég hinsvegar að lesa um kenningar Fr. Dietrich.

  2. Harpa on August 29, 2011 at 00:19 said:

    Korku saga er ansi góð … en að hér í nágrenninu, eða öllu heldur á gervöllu landinu, sé allt vaðandi í gelískum örnefnum og ástæða til að splæsa í Keltneskt fræðasetur uppi á Safnasvæði? Dream on!
    Fr. Dietrich viðrar kenningar sínar á Facebook (enda telur hún sig hafa fundið upp Facebook og að fyrirbærið heiti í rauninni Jósefínubók). Undanfarið hefur hún þó einkum verið að yrkja og er einn stofnfélaga í nýstofnuðum Landssamtökum hagyrðinga, skilst mér. Þú finnur Fr. Dietrich á hennar eigin Jósefínubók, http://facebook.com/josefina.dietrich

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation