Ómunatíð. Saga um geðveiki

Svo nefnist ný bók eftir Styrmi Gunnarsson. Ómunatíð getur vísað til margs. Venjulega er orðið haft um það sem nær svo langt aftur að enginn man hvernig það var áður, eitthvað hefur viðgengist eða verið um ómunatíð. Í þessu tilviki gæti titillinn líka vísað til þess hvernig minni skerðist, til hins langa tíma sem erfitt eða ómögulegt er að muna almennilega. Eða, eins og segir í aðfararorðum Sigrúnar Finnbogadóttur, s. 9:

 Ómunatíð? Er hún til? Er hægt að muna ómunatíð? Er hún upphaf tíma, tími einhvers í lífinu, endir eða bara allur tími, heilt líf, raunveruleiki eða hugarburður? Ég held hún sé allt þetta; það er hún í mínum huga, upphaf og endir alls. Eins og fljót sem streymir fram af mismiklum krafti. Stundum þornar það næstum því upp eða að því er virðist alveg en svo fer að hellirigna. Lækir myndast, fljótið verður dökkt, stækkar og ryðst fram – þar til það eftir óratíma – ómunatíð, eygir ósinn og fellur í hann. Stoppar það þar? – Kemst það til hafs í frelsið?

Ég velti þessu stundum fyrir mér sjálf: Stoppar geðveikin einhvern tíma? Kemst ég einhvern tíma „til hafs í frelsið“? Verður fjölskylda mín einhvern tíma frjáls undan því oki að eiginkonan og mamman er geðveik? En langoftast reyni ég að bægja þessum hugsunum frá mér því þær eru of sárar.

Bók Styrmis er nefnilega saga um geðveiki eins og undirtitill segir, nánar tiltekið saga Sigrúnar Finnbogadóttur, eiginkonu Styrmis, og fjölskyldu þeirra; saga sem spannar meir en fjóra áratugi. Þessi flókna saga er brotin upp af sjúkraskýrslum, umfjöllun, vangaveltum …  og römmuð inn af aðfararorðum Sigrúnar og eftirmála dóttur þeirra. Einnig er sagt frá og vísað í ýmsan fróðleik um geðveiki og læknisráð, einkum geðhvarfasýki og þunglyndi, svo kalla má hluta sögunnar „heimildasögu“. Loks er vitnað í ýmsar ævisögur eða frásagnir af ævi geðsjúklinga og upplifun aðstandenda þeirra, stundum er reynt að bera þetta saman við upplifun þessarar tilteknu fjölskyldu.

Það hefur ekki verið áhlaupsverk að flétta þennan ólíka efnivið saman í heildstætt verk. En það hefur tekist ótrúlega vel. Þegar ég las þessa bók upplifði ég svipaða tilfinningu og þegar ég las Sýnilegt myrkur eftir Styron: Ég gat annars vegar tengt ótrúlega margt við eigin reynslu en jafnfram opnuðust mér nýir heimar og ný sýn, öllu heldur fann ég þarna orðaðar ýmsar fálmkenndar hugrenningar mínar. Ég hef lesið fjölda bóka og greina um geðveiki, aðallega þunglyndi, en þetta er í fyrsta sinn sem ég les um langa reynslu af geðveiki frá sjónarhóli aðstandenda. Það er mikill fengur í þeirri nálgun!  Ég mæli eindregið með því að sem flestir aðstandendur geðsjúkra lesi þessa bók því geðveiki setur mark sitt á alla fjölskylduna, ekki síður en alkóhólismi. Öfugt við greiðan aðgang aðstandenda alkóhólista að sjálfshjálparhópum og viðtalsmeðferð er aðstandendum geðsjúkra afskaplega lítið sinnt, kannski eiginmönnum einna síst. Kannski er ekkert óskaplega algengt að geðsjúklingar eigi eiginmenn – líklega talsvert sjaldgæfara en að geðsjúklingar eigi eiginkonur. En mjög margir geðsjúklingar eiga börn og hvar er aðstoð að finna fyrir þau?

Þótt Styrmir nefni í bókinni að líklega sé aðstandendum sinnt betur nú en fyrir fjörtíu árum held ég að sú bót sé ekki sérlega veigamikil þótt einhver sé. Það sem hefur kannski helst breyst er að brennimarkið, fordómarnir í garð geðsjúkra, hafi minnkað, a.m.k. meðal þeirra sem vilja telja sig sæmilega upplýsta. Ég veit þó ekki hve djúpt slíkt ristir, það dugir að lesa athugasemdadræsur við fréttir netmiðla til að efast um að upplýsingin sé í rauninni svo mikil sem menn vilja vera láta þegar þeir vilja koma vel fyrir. Og hluti þeirra sem hæst gjamma í netheimum les líklega ekki bækur svo þeim verður lítil upplýsing í þessari bók. Þó má vona að bókin slái á fordóma einhverra.

Mér hefur líka þótt umhugsunarvert að skv. rannsóknum verður brennimerkingin meiri, þ.e. fordómarnir aukast, þegar fólki verður ljóst að í flestum tilvikum má rekja geðsjúkdóma til erfða. Einhvern veginn er það þannig að meðan fólk hugsar „þetta kemur ekki fyrir mig“ getur það sýnt skilning og samúð þeim sem „lentu í geðveiki“, líklegast af því að hafa orðið fyrir áfalli eða hagað sér rangt. En þegar rennur upp fyrir mönnum að geðveiki er bundin í genunum og kannski hafa menn lítið um það segja hvort þeir veikjast á geði, alveg eins og menn hafa, þegar öllu er á botninn hvolft, lítið um það að segja hvort þeir fá ýmist krabbamein, þá brýst vörnin fram í fordómum. Og af því stundum er ekki hægt að lækna geðveiki, stundum er ekki einu sinni hægt að halda henni niðri með öllum tiltækum ráðum, eru fordómar í garð geðsjúkra meiri en fordómar í garð alkóhólista sem farið hafa í meðferð og ná að halda sínum sjúkdómi niðri með AA-göngu. Ótrúlegasta fólk, meira að segja fólk í heilbrigðisgeiranum, reynir hvað það getur að gera geðsjúklinginn einan ábyrgan fyrir sjúkdómi sínum vegna þess að það er miklu huggulegri tilhugsun fyrir hina að sjúklingurinn geti sjálfum sér um kennt og að hinir muni „lifa rétt“ og þ.a.l. ekki fá krabbamein eða geðsjúkdóma. (Þetta var útúrdúr – í bloggum leyfast útúrdúrar.)

Efnisins vegna fjallar Ómunatíð. Saga um geðveiki annars vegar um óumræðilegan sársauka og kvöl sjúklingsins og hins vegar hvernig sjúkdómurinn yfirskyggir allt eðlilegt fjölskyldulíf. Af því líðan í þunglyndi er oft talin ólýsanleg, og ég reikna með að sama gildi um oflæti, eru sjúkraskýrslurnar látnar tala. En því fer fjarri að í bókinni sé einhver harmagrátur og blessunarlega er gálgahúmor einnig sleppt. Þetta er lágstemmd umfjöllun, á hógværan hátt reynir höfundur að átta sig á áhrifum sjúkdómsins á fjölskylduna og leitar í önnur verk (fræði, ævisögur) til að finna svör eða samsvaranir. Og mörgum spurningum er velt upp, t.d. hvort rétt hafi verið að gera þetta eða hitt á sínum tíma, hvort hefði átt að bregðast öðru vísi við, hvort einhverjum hafi verið brugðist. Við þessum spurningum finnast ekki svör en þær eru mikils virði í sjálfum sér.
 

Það þarf mikinn kjark til að skrifa svona bók. Þann kjark hafa Styrmir, Sigrún og dóttir þeirra. Og það þarf mikið traust á heilbrigða skynsemi og mannúð lesenda til að birta skrifin. Bókin ber þessa trausts merki. Fyrst og fremst er hún þó skrifuð af mikilli einlægni þar sem ekkert er dregið undan, án þess að dramatísera söguna; Reynt er að segja sögu um geðveiki í fjölskyldu eins látlaust og unnt er, án þess að hlífa nokkrum, án þess að ásaka neinn. Þess vegna hefur bókin ótrúlega sterk áhrif á lesandann. Þess vegna er þetta ómetanleg bók!
 
 
 
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation