Glæsir

Undir miðnætti einhvern tímann í vikunni settist ég niður með Glæsi eftir Ármann Jakobsson og hugðist gluggað aðeins í hana undir svefninn. Raunin varð sú að ég gat ekki slitið mig frá bókinni og las hana í beit, hugfangin!

Eins og komið hefur fram í mörgum ritdómum byggir söguþráðurinn á Eyrbyggju og talsvert hefur verið hampað hinni merkilegu stöðu sögumanns, sem er ýmist naut, lifandi maður eða draugur. Nautið heitir Glæsir en maðurinn í lifanda lífi hét Þórólfur og hlaut viðurnefnið bægifótur (vanskapaður fótur) – raunar er Þórólfur haltur á fæti eftir hólmgöngu. Ég var dálítið hugsi yfir því hvort lesandi sem ekki hefur lesið Eyrbyggju myndi botna vel í þessari sögu en skv. ritdómi á Druslubækur og doðrantar er slíkt ekki nauðsynlegt.

Glæsir er enda margslungin saga og ætti hver að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og sinn skilning. Þeir sem hafa lesið einhverjar Íslendingasögur kannast væntanlega við fleira en Eyrbyggju í þessari bók, t.d. er ein glæsiklæðnaðarlýsingin á Arnkeli goða (óskilgetnum syni Þórólfs bægifótar) fengin að láni af Bolla Bollasyni í Laxdælu o.fl. tilvísanir má finna til þeirrar sögu. Fyrir þá trúhneigðu eru tilvísanir í ýmis trúarbrögð, kannski einkum vangaveltur um vald Hvítakrists og hinna gömlu guða, sem og vald örlaganornanna. En þótt Þórólfur margvitni í ýmislegt þess lags virðist hann innst inni algerlega trúlaus (á hvaðeina). Lýsingar á valdabrölti höfðingja við Breiðafjörð minna kannski svolítið á okkar gömlu bissnissmenn, pólitíkusa og útrásarvíkinga. Ekki hvað síst vekja lýsingar á íburði goðanna ungu slík hugrenningatengsl. Og í bakgrunninum er sífelld barátta um völd, eignir og mannaforráð, í samræmi við Eyrbyggju og í samræmi við nýliðna tíma útrásar. Þegar á söguna líður fá unnendur hryllingsbókmennta svo heilmikið fyrir sinn snúð.

Ég las þessa sögu fyrst og fremst sem sögu um illsku. Þótt Ármann gefi því undir fótinn að hrikalegt uppeldi eða fötlun Þórólfs síðar á lífsleiðinni kunni að hafa ýtt undir skapbresti hans upplifði ég Þórólf sem illskuna holdi klædda frá fyrstu stundu. (Menn eru endalaust ósammála um vægi uppeldis og erfða, „nurture versus nature“ og gefur sagan fylgismönnum hvors nægan efnivið til sinnar túlkunar, sem sýnir auðvitað hvað þetta er vel skrifuð saga.) Sögumaður segir sjálfur: „Líf mitt hefur verið einn langur sundurlyndisvetur …“ (s. 28) og má til sanns vegar færa; en sundurlyndinu hefur hann sjálfur valdið.

Frá upphafi er Þórólfur samviskulaust kvikindi, erkisiðblindingi. Hann gerist víkingur á unga aldri, vegur menn og pyntar, karla, konur og börn. En það snertir hann ekkert sérstaklega, hann tekur fram að þetta hafi einfaldlega tilheyrt starfinu og verið unnið eftir skýrri áætlun  Starf víkingsins átti vel við hann enda snérist það fyrst og fremst um að komast yfir fé og dýrgripi. Eiginlega minna lýsingar Þórólfs á víking dálítið á lýsingar nasista af skelfilegum ódæðum sínum; Þetta var nauðsynlegt og dráp og pyndingar tilheyrðu starfinu; þeir voru einungis að framfylgja skipunum (eins og  Þórólfur er einungis að framfylgja góðri starfsáætlun). Og Þórólfur er jafnlangt frá því að vera hetja með hugsjónir og t.d. Adolf Eichmann; Lesandinn kemst á svipaða skoðun og Hanna Arendt eftir að hún var viðstödd réttarhöldin yfir Eichmann til að reyna að skilja eðli illskunnar en uppgötvaði einungis lágkúru illskunnar („Banality of Evil“). Þetta eru smámenni, vesælir karlar með ómerkilegan þankagang en því miður öðluðust þeir vopnavald. Ég er raunar ósammála Arendt sem útilokaði félagsblindingja – sósíópata – í sinni bók en bókin kom úr 1963 og það er ekki fyrr en eftir 1990 sem almennilegur skriður kemst á umfjöllun og flokkun sækópata – siðblindingja.  Ég held að fyrst og fremst séu framantaldir siðblind kvikindi sem telja sér trú um að þeir hafi einhvern málstað en eru einungis að fá útrás fyrir illskuna sem í þeim býr. A.m.k. á það mæta vel við Þórólf bægifót.

Það er m.a. þetta sem veldur því hve erfitt er að lesa Glæsi. Sögumaðurinn er Þórólfur (í ýmsu líki) og sem sækópati er hann auðvitað hraðlyginn og reynir að snúa öllu sér í vil, réttlæta sig og réttlæta eigin ódæði, gera fórnarlömb að sökudólgi og sjálfan sig að fórnarlambi o.s.fr. Það er ekki oft sem maður les bækur þar sem þarf að passa sig á að taka öllum upplýsingum sögumanns með fyrirvara.
 

Kominn til Íslands, um tvítugt, skrúfar Þórólfur upp sjarmann dagstund á Þingvöllum sem dugir honum til að ná sér í konu. En hann reynist henni auðvitað illa eins og öðrum konum í lífi hans, þær eru ekki einu sinni nafngreindar nema dóttir hans Geirríður, fordæðan, sem mögulega líkist föður sínum eitthvað, t.d. í illgirni. Fyrir utan þennan látbragðsleik á Þingvöllum sýnir hann lítil svipbrigði, hann er maðurinn sem aldrei brosir, enda hefur hann fengið þá flugu í höfuðið að raunverulegir höfðingjar tái helst ekki tanna og allt sitt  líf er hann að reyna að herma eftir þessum gömlu höfðingjum (t.d. Þorsteini þorskabít og föður hans, Þórólfi Mostraskegg). Hann langar svo til að vera talinn til höfðingja eða mikilmenna. Aukalega má svo geta þess að eðlileg svipbrigði eru siðblindum erfið af því þeir búa yfir svo fátæklegum tilfinningum. Í ellinni skilur hann ekki nýju höfðingjana, sem brosa gleitt og vingast við mann og annan. Sjálfur vingast hann ekki við neinn en reynir að hanga utan í þeim sem hann telur valdamestan í það og það skiptið, einkum fyrrnefndan Þorstein.

Það sem hann skilur ekki (t.d. skáldskap eða vináttu eða tilfinningatengsl) gefur hann skít í. Það hve illa honum tekst að leika sig mannlegan sem verður til að menn líta hann hornauga skrifar hann á reikning fötlunar sinnar, hann telur sig smækkaðan í fatlaðan fótinn og gerir sér almennt ekki grein fyrir að aðrir forðast hann af því hve geðstirður og illgjarn hann er. Þó skynjar hann að einstaka maður sér í gegn um hann og forðast þá, fremstur þar í flokki er Snorri goði en síðar á ferli Þórólfs er það afgömul karlæg kerling sem veit upp á hár hvernig nautið Glæsir er innrætt, veit að það er í rauninni sækópatinn Þórólfur. Mætti kannski segja að barn (Snorri er tveggja ára þegar þeir hittast fyrst), fárveikt gamalmenni og lífreynd kona, Guðrún Ósvífursdóttir, sjái í gegnum gervi Þórólfs, annars vegar hið mennska gervi yfir illskuna og hins vegar nautshaminn sem hylur illskuna. Sjálfur skynjar Þórólfur líklega mann af sama tagi og hann er sjálfur, Víga-Styrr, sem hann hefur vit á að abbast ekki upp á því það stafaði af honum kulda.

Þórólfur gumar af því að fara betur með þræla sína en aðrir. Það er ekki af mannkærleika, það er vegna þess að þrælarnir eru eign og Þórólfi er, eins og öðrum siðblindingjum, annt um eigur sínar, vill eignast sem mest. Þegar hann telur sig verða að refsa þeim beitir hann útspekúleruðum pyndingum, í anda þess sem hann nam í víking: „Ef refsingin er nógu hrikaleg þarf ekki að  útdeila henni nema örsjaldan. Ég lærði af meisturum.“ (s. 103)

Fyrstu ár sín á Íslandi náði hann landareign með því að skora gamlingja á hólm, Úlfar kappa. Þórólfi var ekkert sérstaklega illa við Úlfar, gamlan kappa úr liði frænda Þórólfs, en: „Ég þurfti land.“ (s. 67) Hólmgangan er skrumskæld háðsútgáfa af hólmgöngu Egils Skallagrímssonar við Úlf inn óarga, meira að segja finnst sveitungum Þórólfs þetta athæfi hans svo ómerkilegt og ómaklegt að enginn mætir til að horfa á. Þórólfur finnur auðvitað skýringu sem honum hentar og er eins og snýtt úr siðblindufræðum: „Yfirleitt var fjölmenni mætt að fylgjast með hólmgöngum en þó að enginn styddi Úlfar hafði honum tekist að æsa fólk upp gegn mér þannig að allir bændur í héraðinu sniðgengu þetta eina einvígi.“ (s. 68.) Það er aldrei neitt Þórólfi sjálfum að kenna. En í þessum ójafna leik brennimerkti Úlfar gamli Þórólf fyrir lífstíð, hann náði að stinga hann í ökklann um leið og Þórólfur hjó hann banahögg. Þórólfur átti nú „eigið land,  fallegan stað. … En í hvert sinn sem ég gekk af stað og þurfti að draga á eftir mér fótinn, fylltist ég vonsku sem dreifðist ört um allan líkamann. Það var sú illska sem að lokum heltók mig. … Síðan var ég Bægifótur. … Um mig var ekkert sagt nema þetta. Ég var fótur minn.“ (s. 69-70). Þótt þessi klausa gefi möguleika á skýringunni að fötlun Þórólfs hafi valdið illskunni er jafnframt gott að hafa í huga að Þórólfur er sjálfur sögumaður eigin sögu og valt að treysta honum um of, hann snýr flestu sér í hag. T.a.m. hafði Þórólfur sjálfur gefið leysingja nokkrum, Úlfari, jörðina Úlfarsfell, en fylltist svo öfund í garð þrælsins því honum búnaðist betur en Þórólfi sjálfum. Þórólfur ákvað að hirða hey Úlfars og magnast af þessu illdeilur. Sjálfur sér Þórólfur ekkert athugavert við að taka nánast gjöfina til baka, fóðrar það fyrir sjálfum sér með að Úlfar sýni sér ekki næga virðingu. Samt hefur hann frásögnina af þessum erjum á: „Ég man ekki lengur hvað mér gekk til. Gekk mér eitthvað til? Er ekki fásinna að halda að allir hafi ævinlega tilgang með gjörðum sínum? Ég var gamall maður. Mér gekk ekkert til. Hins vegar man ég hvernig mér leið.“ (s. 106) Og þrátt yfir miklar yfirlýsingar um hversu góður bóndi hann hafi verið kemur á daginn að Þórólfur hafði aldrei í fjós stigið fyrr en hann lenti sjálfur bundinn á bás, sem naut.
 

Þegar deilurnar við Úlfar á Úlfarsfelli hefjast er Þórólfur orðinn gamall maður og „lifði lífinu aleinn og jafnvel mínir nánustu fyrirlitu mig og smáðu. Oft lá ég andvaka um nætur og hugleiddi einsemd mína. … Hvorug þessara kvenna sem ég gekk að eiga í fljótræði sýnd mér neina rækt í hjónabandinu eftir fyrsta veturinn. Ekki varð ég var við virðingu barna minna“ (s. 102). Hann veltir þessu fyrir sér um nætur og dettur helst í hug að þetta stafi af óvild eða bölvun guðanna (sem hann þó trúir ekki á). „Þannig var ég sanngjarn og mildur húsbóndi. Sannarlega verðskuldaði ég ekki fyrirlitningu minna nánustu“ er niðurstaða hans á næstu síðu (s. 104). Skrifuð hefur verið fræg grein um einsemd sækópata á efri árum og satt best að segja smellpassar Þórólfur í þá lýsingu, sem og greiningarlykla og greinar um sækópata. Hann er illskan holdi klædd, reynir að leika mennskan mann en tekst illa upp, grípur þá til þess ráðs að kenna öllum öðrum um óhamingju sína og gera sjálfan sig að óverðskulduðu fórnarlambi. Eins og ég hef áður nefnt þá þarf lesandinn að vera á sífelldu varðbergi og fylgjast með hártogunum Þórólfs á sannleikanum og hvernig hann snýr honum og skrumskælir sér í hag því hann er sjálfur sögumaður. Og af því bókin er svo vel skrifuð liggur þetta ekki í augum uppi.
 

Eftir dauðann hverfur hið mennska yfirbragð Þórólfs og innrætið, illskan ein, blasir við. Meira að segja Þórólfi sjálfum bregður í brún er hann lítur sjálfan sig í spegli örlítils polls: „… upp úr pollinum reis kolblár vígamaður, heldur ósællegur, andlitið afmyndað af heift, öll mennska úr því horfin. Holdið rotnandi jafnt á höndum sem hálsi. … Nú hrökk ég ekki til baka heldur horfðist í augu við sjálfan mig.“ (s. 147).  Þessi lýsing er Narcissus-sagan með öfugum formerkjum!

Illskan tekur nú öll völd og  Þórólfur þarf ekki lengur að þykjast neitt, hrekur fólk úr dalnum sínum og drepur og safnar í sitt lið hópi afturgenginna fórnarlamba sinna. Eftir dauðann kennir hann samt áfram  öðrum um, í þetta sinn um afturgöngu sína, og finnst heimilisfólkið eiga draugaganginn ógurlega skilinn: „Sjálf voru þau óþokkar. Hvers vegna gátu þau ekki syrgt? Þá hefði ég kannski ekki gengið aftur.“ (s. 151)  Draugagangurinn er einkar magnaður og ætti að falla aðdáendum sígildra hryllingssagna (t.d. aðdáendum Stephens King) mætavel í geð. Þótt lýsingarnar séu  auðvitað að mestu fengnar úr Eyrbyggju.
 

Nú vil ég ekki spilla meiru fyrir lesendum með frekari endursögn. Þó langar mig að benda á hversu hlálegt það er að Þórólfur, sem þráði viðurkenningu og völd (eins og allir sækópatar) en var lengstum aldrei annað en lágvaxinn geðstirður Bægifótur í hugum manna meðan hann var lífs, illmenni og óþokki sem hans nánustu forðuðust, öðlast loks þá tilveru að vera glæsilegur, svo glæsilegur að hann fær heitið Glæsir! En það er ekki fyrr en hið illa innræti (mér er til efs að kalla megi þetta sál, í tilviki Þórólfs) hefur tekið sér bólfestu í nautkálfi og hann dvelur daga langa innan um fretandi kýr! Enn írónískara er þegar rennur upp fyrir Þórólfi /Glæsi, bundnum á sinn bás og ófærum um að tjá sig, að eftirmálinn af þeim verkum sem hann taldi sér trú um að snertu sæmd sína, þegar hann reyndi að ná sér niðri á leysingjanum Úlfari, var í rauninni saminn af öðrum: Þórólfur gamli var flón eða verkfæri í flókinni ráðagerð valdamanns sem var fyrir löngu búinn að reikna Þórólf út, löngu búinn að sjá að karlinn var ekkert nema illskan og illmenni eru oft hvorki skynug né merkileg heldur fyrst og fremst lágkúruleg.

Ég mæli eindregið með bókinni Glæsir enda finnst mér þetta afskaplega glæsilega skrifuð bók. Eins og ég hef rakið geta menn lesið söguna frá mismunandi sjónarhorni og valið sér túlkanir og vísanir. Það er aðall góðra bóka að vera margbrotnar og höfða til mismunandi lesendahópa. Sjálfri fannst mér þetta óhugnalega góð lýsing á holdi klæddri illsku, á sækópata, og það óhugnalegasta er að hún er skrifuð frá sjónarhóli hans. Allir atburðir og persónur eru því séð siðblindum augum. Ég giska á að það hafi tekið mjög á höfundinn að setja sig í þessar stellingar, að þurfa að stíga inn í illskuna sjálfa til að geta sagt söguna á sannfærandi máta. En það hefur honum tekist mætavel.
 
 

P.s. Í lokin bendi ég á útdrátt úr Eyrbyggju sem ég gerði fyrir meir en áratug handa nemendum mínum ef einhver lesandi sem ekki hefur lesið Eyrbyggju skyldi vilja hafa söguþráð og ættrakningar til hliðsjónar í lestri Glæsis. En auðvitað kemur þessi einfaldi útdráttur engan veginn í stað Eyrbyggju sjálfrar sem ég hvet lesendur Glæsis eindregið til að lesa!
 
 
 
 
 
 
 

3 Thoughts on “Glæsir

  1. Ég sperri alltaf eyrun við þegar gagnrýnendur byrja að sálgreina sögupersónur í skáldsögum. Þá hefur höfundi tekist vel upp í persónusköpuninni. Takk fyrir góða umfjöllun og sérstaklega tenginguna við Íslendingasögurnar. Mun sennilega reyna að fá þessa bók lánaða á bókasafninu

  2. Sagan tengist mörgum Íslendingasögum (og Völuspá og Snorra-Eddu o.fl.) en ég var að einbeita mér að aðalpersónunni og fjalla lítið um þetta. Já, þú verður sko ekki svikinn af Glæsi, fáðu hana endilega lánaða! (Og ég hugsa raunar að það sé skemmtilegra að hafa lesið a.m.k. Eyrbyggju fyrst þótt það sé ekki nauðsynlegt.)

  3. Ég er mjög spennt fyrir þessari bók, mun pottþétt lesa hana.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation