Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Eins ég gat um í næstsíðustu færslu kærði félagið Vantrú stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir siðanefnd Háskóla Íslands vegna örlítils hluta af kennsluefni í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands á haustönn 2009. Um leið sendi Vantrú kvörtunarbréf til háskólarektors og til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.

Óli Gneisti Sóleyjarson, einn af stofnendum Vantrúar, fékk hluta glæra í námskeiðinu frá vini sínum. Það er ekki óalgengt að nemendur skiptist á glærum í Háskóla Íslands og það hvarflaði ekki að nemandanum, vini Óla Gneista, sem sat námskeiðið að glærurnar yrðu það vopn í höndum Vantrúar sem raun varð. Þá hefði hann aldrei látið þær af hendi enda var þessum nemanda vel til kennarans og taldi sig hafa haft mikið gagn af námskeiðinu. Líklega gera menn því almennt ekki skóna að tveggja manna netspjall milli vina og kennslugögn af lokuðu svæði á Uglu væru svo birt á spjallsvæði sem 200 manns hafa aðgang að, hvað þá að þetta yrði rót illinda sem enn sér ekki fyrir endann á.

Til hvers eru glærur?

Allir kennarar vita að glærur eru notaðar með ýmsum hætti. Fyrir daga PowerPoint skjásýninga og skjávarpa voru glærur notaðar heldur sparlega en núorðið skipa þær æ hærri sess í kennslu. Glærur eru stundum glósur, stundum stikkorð til að draga fram aðalatriði, stundum til að ögra og skapa þannig umræðu eða fá nemendur til að líta námsefnið undir öðru sjónarhorni, stundum til að skýra námsefnið, stundum til að festa námsefni í minni o.m.fl. Eftir tilkomu skjávarpa og með greiðum aðgangi að hvers kyns efni á Vefnum reyna kennarar gjarna að ná athygli nemenda með myndskreytingum eða myndum á glærunum.

Til eru viðmiðunarreglur um glærugerð sem kenndar eru í kennslufræði en ég hef aldrei hitt þann kennara sem fer eftir þeim, t.d. þeirri gullnu reglu að aldrei skuli fleiri atriði en sjö á hverri glæru.

Hver kennari túlkar svo sínar glærur með sínum hætti í kennslustund og miðar auðvitað glærugerðina við sína kennslu og ekki annað. Sé ekki um að ræða glærusýningu sem á að nýtast í fjarkennslu (stundum er einnig talað inn á svoleiðis glærusýningar eða kennslustund í staðnámi er tekin upp og fylgir) er nánast útilokað að meta kennslu út frá glærum eingöngu enda hefur það aldrei tíðkast (raunar engum dottið það í hug nema Vantrú).
 

Hver væru eðlileg viðbrögð þætti fólki eitthvað athugavert við kennsluefni?

Mat á kennsluÞað er væntanlega mismunandi eftir skólastigum hverjir sæju mögulega ástæðu til að kvarta undan kennsluefni. T.a.m. gætu foreldrar kvartað ef um væri að ræða leikskóla, grunnskóla og fyrstu ár framhaldsskóla. Nemendur gætu einnig kvartað á þessum skólastigum en eftir að 18 ára aldri er náð væri einna helst að búast við kvörtunum frá nemendunum sjálfum. Í framhaldsskólum eru lagðar reglulegar kennslukannanir fyrir nemendur, í Háskóla Íslands er kennslukönnun lögð fyrir í lok hvers námskeiðs hjá öllum kennurum (eftir því sem ég best veit, þetta á altént við hugvísindagreinar). Í svona könnunum gefst nemendum færi á að meta kennslu og gera athugasemdir við einstaka þætti hennar ef þeir vilja og það undir nafnleynd.

Í framhaldsskólum er það skýrt að kennari ber ábyrgð á kennslu og námsmati. Ég veit ekki hvort það er kveðið jafn skýrt á um þetta í Háskóla Íslands en eðlilegustu viðbrögðin við því ef kennsluefni þykir í einhverju ábótavant eru væntanlega að tala um það við kennarann sjálfan, til vara mætti snúa sér til deildarforseta viðkomandi deildar. Það er væntanlega ekki ástæða til að snúa sér til siðanefndar Háskóla Íslands vegna kennsluefnis nema menn séu þess fullvissir að kennari hafi brotið siðareglur sama háskóla. Má ætla að slíkt sé afar sjaldgæft því á árunum 2007-2010 tók siðanefnd Háskóla Íslands einungis fjögur mál til umfjöllunar (en vísaði öðrum fjórum frá) og lauk í rauninni aðeins þremur þeirra. Óvíst er að þessi þrjú hafi snúið að kennslu því siðanefnd hefur heykst á því að birta útdrætti úr sínum úrskurðum eins og henni ber að gera og því í rauninni ekki hægt að vita um hvað þessi mál snérust (sjá færsluna Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa).
 

Hverjir geta skipt sér af kennsluefni?

Hér að ofan hefur verið gengið út frá því að nemendur Háskóla Íslands kvörtuðu undan kennslu eða kennsluefni. Ég reikna með að það heyri til algerra undantekninga að félagsskapur úti í bæ kvarti undan umfjöllun um sig í námskeiði sem enginn félagsmanna sat, hvað þá kæri slíka umfjöllun til siðanefndar HÍ. Ef þetta tíðkaðist mætti ímynda sér að útrásarvíkingar eða Samtök sauðfjárbænda kærðu umfjöllun um sig í hagfræðikúrsum, skáld kærðu umfjöllun um sig í bókmenntafræðikúrsum eða stykkju upp á nef sér yfir hvernig rit þeirra væru flokkuð og greind eftir bókmenntastefnum o.s.fr. Það sér hver maður að þetta væri út í hött og hlyti að byggjast á þeim misskilningi að umfjöllun um viðkomandi væri einhvers konar kynning eða auglýsing sem lyti sömu reglum og auglýsingabransinn. Svoleiðis kynningar og auglýsingar eru ekki í verkahring Háskóla Íslands og hafa hingað til ekki verið tengdar akademísku námi og akademískri kennslu.
 

Hafði félagið Vantrú forsendur til að meta glærurnar sem fóru svo mjög fyrir brjóstið á einstökum félagsmönnum?

Það er spurninginSvarið við þessu hlýtur að vera neitandi. Einungis einn félagsmanna hafði tekið svipað námskeið áður og það er ekki ástæða til að ætla að hann hafi átt hlut að máli þegar ákveðið var að kæra kennarann og kvarta undan glærunum. Margir sem hafa setið í stjórn Vantrúar hafa stundað háskólanám til lengri eða skemmri tíma og hafa því reynslu sem nemendur. Ég veit ekki til þess að neinn þeirra hafi reynslu af háskólakennslu (og vonast til að Vantrúarfélagar leiðrétti mig ef þetta er rangt).

Af þessu leiðir að kæra og klögumál Vantrúar byggjast á vanþekkingu og misskilningi, meðal annars þeim misskilningi að ætlun Bjarna Randvers hafi verið að standa fyrir sérstakri kynningu eða auglýsingu á félaginu.

Það kom ekki í veg fyrir að Vantrú sendi kvartanir sínar til siðanefndar HÍ, forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ og rektors HÍ, dags. 4. febrúar 2010, og að formaðurinn, Reynir Harðarson sálfræðingur, setti sig í stellingar Churchill o.fl. og tilkynnti á lokuðum spjallþræði félagsins þann 12. febrúar 2010:

 Áríðandi tilkynning

 Kæru félagar. Klukkan 15:00 í dag lýstum við yfir heilögu stríði á hendur Bjarna Randveri og Guðfræði í Háskóla Íslands. Okkur ber skylda til að verja heiður okkar þegar á okkur er ráðist af svo voldugum andstæðingi að ósekju. Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn. broskarl

 (Sjá skjámynd af ummælum Reynis á vef Vantrúar.)
 

Þess ber að geta að félagar í Vantrú hafa lagt þunga áherslu á að þessari áríðandi tilkynningu hafi fylgt broskarl.
 
 

Til að stytta svolítið einstakar bloggfærslur í þessari færsluröð verður ekki haldið lengra að sinni. Næst mun ég reyna að gera grein fyrir nokkrum þeim klögumálum Vantrúar sem varða þessar glærur og reyna að setja þær í samhengi við efni námskeiðsins. Ég ítreka að athugasemdum sem ekki eru gerðar undir fullu nafni verður eytt.
 
 
 
 

29 Thoughts on “Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti

  1. Guðbergur Ísleifsson on January 19, 2012 at 02:56 said:

    Ein af þeim glærum sem fóru sérlega fyrir brjóstið á Vantrúarfólki og er eitt aðalatriði kærunnar á hendur Bjarna inniheldur tilvitnun í ummæli Matthíasar Ásgeirssonar, eins helsta forystumanns Vantrúar.

    Matthías hafði sagt:

    “Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem halda að þeir geti vaðið uppi í þessu samfélagi, hrópandi yfirlýsingar í allar áttir. Hótandi mönnum heljarvist og eilífðar- kvölum… [sic] og móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.”

    Á glærunni hjá Bjarna stóð þetta:

    “Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem … móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.”

    Vantrúarmenn vilja meina að á þessari glæru hafi Bjarni farið algjörlega yfir strikið og hreint og beint “gjörbreytt” ummælum Matthíasar þannig að merking Matthíasar hafi orðið allt önnur í tilvitnun Bjarna en hún var í ummælum hans.

    Ég get ekki fyrir mitt litla líf tekið undir þetta. Þvert á móti sé ég nánast enga breytingu á merkingunni í upprunanlegu ummælunum og tilvitnuninni. Matthías er orðinn “þreyttur á trúmönnum sem móðgast þegar þeir eru kallaðir hálfvitar bæði í ummælunum sjálfum og í tilvitnuninni í þau. Þannig að … hver er þessi gríðarlega merkingarbreyting sem Bjarni á að vera sekur um samkvæmt kæru Vantrúar? Hana get ég ekki séð. Kjarninn í ummælunum sjálfum og tilvitnuninni er nákvæmlega sá sami.

    Þessi glæra er samt eitt helsta umkvörtunarefni Vantrúar til siðanefndar Háskóla Íslands í kæru þeirra á hendur Bjarna. Sjá t.d. greinargerð á Vantrú um kæruna og á hverju hún er byggð, en einnig má finna fjölda ummæla Vantrúarmann í umræðum um málið þar sem þessi “vinnubrögð” Bjarna vegna þessarar tilteknu glæru eru fordæmd og hann sagður hafa “gjörbreytt merkingu” ummæla Matthíasar til að gefa nemendum vísvitandi ranga mynd af Vantrú. Þessu heldur allt Vantrúarfólk hiklaust fram að eigi að sýna hversu illa Bjarni stóð að námskeiði sínu.

    Þess má geta að ein umræðan sem ég tók þátt í um málið fór fram á vantru.is, en eftir að henni var að fullu lokið tók umræddur Matthías (sá sami og kvartar yfir að Bjarni slíti sín ummæli úr samhengi) sig til, ritskoðaði þráðinn og flutti svo stóran hluta hans, þar á meðal flest mín svör við spurningum Vantrúarfólks og mín rök í málinu, yfir á svonefnt “spjallborð”. Þetta sjá má snemma í þræðinum eins og hann lítur út núna.

    Þessi tiltekni umræðuþráður á vantru.is er því að vísu klipptur úr samhengi hvað mína aðkomu og fleiri varðar, en er samt fróðleg insýn í hvernig Vantrúarfólk espar sig upp út af þessari tilteknu glæru.

    Þess má geta að síðan þessi umræða átti sér stað hefur mér verið meinað að gera fleiri athugasemdir á vantru.is þrátt fyrir margendurtekna yfirlýsingu Vantrúarmanna að “allir” megi gera þar athugasemdir við efni greinanna og gagnrýna þær. Svo sakar þetta fólk aðra um óheilindi?

  2. « Óli Gneisti Sóleyjarson, einn af stofnendum Vantrúar, fékk hluta glæra í námskeiðinu frá vini sínum. Það er ekki óalgengt að nemendur skiptist á glærum í Háskóla Íslands og það hvarflaði ekki að nemandanum, vini Óla Gneista, sem sat námskeiðið að glærurnar yrðu það vopn í höndum Vantrúar sem raun varð. Þá hefði hann aldrei látið þær af hendi enda var þessum nemanda vel til kennarans og taldi sig hafa haft mikið gagn af námskeiðinu. »

    Mér finnst þetta vera féttir, því til þessa hef ég haldið fyrir satt, sem Vantrúarmenn hafa sagt, að þessi nemandi hafi verið til viðtals við þá um kennslu og tíma Bjarna Randver.

  3. Harpa Hreinsdóttir on January 19, 2012 at 11:30 said:

    Carlos: Þessar upplýsingar eru fengnar frá viðkomandi nemanda.
    Guðbergur: Kærar þakkir fyrir upplýsingarnar. Ég gerði mér ekki grein fyrir að akkúrat þessi glæra skipti Vantrúarmenn svona miklu máli. Mun skoða efnið sem þú vísar í þegar ég skrifa næstu færslu, þar sem stiklað verður á stóru um glærurnar sjálfar, gagnrýni Vantrúar og gerð nokkur grein fyrir hvernig glærurnar pössuðu inn í náms- og kennsluefnið.

  4. Harpa Hreinsdóttir on January 19, 2012 at 12:16 said:

    Guðbergur: Það er dálítið óþægilegt hvernig Vantrú færir sumt úr umræðuþráðum yfir á spjallborð – það gerir fólki eins og mér (sem er að reyna að átta mig á ýmsu varðandi félagið með því að skoða vefinn þess) erfiðara að finna heimildir. Glænýtt dæmi um akkúrat þetta má sjá á umræðuþræði við færsluna “Hin stranga og öfgasinnaða Vantrú”, þar sem ein ummæli (Carlos – 17/01/12 14:22 #) hafa verið færð á spjallþráð en önnur standa, sjá um þetta athugasemd Steindórs (Steindór – 18/01/12 21:12 #), sem í augnablikinu er neðst á umræðuþræðinum.

  5. Pétur Pétursson on January 19, 2012 at 13:19 said:

    Þakka þér Harpa þessa grein, Guð laun. Bloggsíða þín hefur eflt þá “trú” mína að umræður á þessum vettvangi geti verið upplýsandi og gagnlegar – og framlag til fræðanna, jafnvel efni sem mætti nota á glærur í háskólakennslu : -) Kennslufræði Siðanefndar H.Í. virðist ganga út á það að ekki megi nota blogg í kennslu og aðeins 7 glærur per 40 mínútur.

    Öðru sinni hefur þú skrifað vandaða grein um þetta mál sem hefur bólgnað út og heldur áfram að gera það þar til farið verður ofan í kjölinn á því efnislega af óhlutdægni sem einkennir þína nálgun. Skýrsla Bjarna er góður grunnur. Vonandi ber Siðanefnd og stjórnsýsla H.Í. gæfu til að gera það. Það verður að mínu mati ekki gert á meðan Þórður Harðarson hefur slík áhrif og raun ber vitni innan H.Í. Hann sagði við mig fyrst þegar við töluðum um glærur Bjarna: “Svona efni á ekki að nota í kennslu við H.Í. og allra síst í Guðfræðideild.” Þórður ávarpaði mig alltaf sem “séra Pétur” eins og hann gengi út frá því að kennarar við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild væru vígðir prestar í Þjóðkirkjunni og að full ástæða væri fyrir því að biðja félagið Vantrú afsökunar á því. Hann gerði sér ekki grein fyrir því að ég er félagsfræðingur og að Nýtrúarhreyfinganámskeiðið sem ég hef umsjón með er kennt á forsendum trúarbragðafélagsfræði. Hvorki kennarar eða nemendur í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild eru játningabundnir og geta verið í hvaða trúfélagi sem er eða utan allra. Af greinargerðinni sem formaður Siðanefndar lét birta í Mbl þá er hann við sama heygarðshornið í þessum efnum. Ég sé ekki betur en að hann hafi 18. aldar sýn á guðfræði og guðfræðikennslu og viti ekkert um það og vilji ekki vita að þýski heimspekingurinn og guðfræðingurinn Friedrich Schleiermacher upphafsmaður nútíma túlkunarvísinda endurskilgreindi hlutverk guðfræðinnar innan evrópskra háskóla í löndum mótmælenda fyrir tveimur öldum. Túlkunarfræði guðfræði- og trúarbragðafræða byggir á sömu forsendum og bókmenntafræði yfirleitt og menningarfræði almennt.

    Það kemur mér ekki á óvart að vinur Óla Gneista, sá sem lét félagið Vantrú hafa glærurnar frægu, hafi haft gagn af námskeiðinu sem Bjarni kenndi. Ég var prófdómari við meistararitgerð þessa nemanda og hann kynnti ritgerð sína á málstofu Trúarbragðafræðistofu sem ég veiti forstöðu og gerði það með prýði.
    Bjarni á mikið gagnasafn um nýtrúarheyfingar sem hann miðlar óspart af í kennslu sinni og powerpoint gefur möguleika á því að koma því á framfæri og vekja athygli á hinum ýmsu álitamálum og auðga þannig kennsluna. Ég hef sjálfur lært af Bjarna í glærugerð og fengið að nota þetta gagnasafn og meiningin er að við skrifum saman kennslubækur í Kirkjudeildafræði og Nýtrúarheyfingum á Íslandi þegar tími gefst til og þá verður þetta gagnasafn ómetanlegt. Ég vona að Bjarna auðnist að fá að halda áfram að miðla nemendum H.Í. af þessu safni og viðtækri þekkingu sinni á hinum ólíku kirkjudeildum, trúarheyfingum og félögum sem beita sér í almennri umræðu um trú og þjóðfélag.

  6. En Pétur, nú hefur Bjarni Randver haldið því fram ítrekað að umræddur nemi hafi verið að njósna fyrir Óla Gneista í tímum hjá honum. Er þá ekki ljóst að Bjarni á eftir að biðja umræddan nema afsökunar um að hafa dreift lygum um hann innan Háskólans?

  7. Fyndið að sjá Hörpu tala aðeins um ritskoðun. Í greininni Ekki-málið… voru 12-13 athugasemdir einn daginn, svo – simsalabim – bara 6. Án nokkurrar útskýringar.

  8. Guðbergur Ísleifsson on January 19, 2012 at 14:12 said:

    Sæl, Harpa, já því miður misnota Vantrúarmenn algjörlega ritstjórnalegt vald sitt á vantru.is og færa eftir sjálfskilgreindum þörfum ummæli fólks sem er á öndverðum meiði við þá hiklaust yfir á þetta svokallaða “spjallborð” eins og sést í mínu tilfelli þar sem þráðurinn er klipptur í sundur hist og her EFTIR að umræðum er lokið.

    Tilgangurinn getur ekki verið annar en að gera þráðinn ruglingslegan og samhengislausann svo ekki sé vel hægt að sjá hvernig umræðan þróaðist fyrir þann sem á eftir kemur og vill kynna sér málavöxtu. Ástæðan er auðvitað að þróun umræðunnar er óþægileg fyrir Vantrú og félagsmenn og þá er gripið til svona lúalegra bragða til að falsa hana og gera minn málflutning samhengislausan.

    Hins vegar á ég þetta allt og skal setja þetta upp í réttri röð og óklippt á eigin síðu svo þú og fleiri geti áttað sig betur á hvað gerðist þarna og hvernig Matthías klippir þráðinn til eftirá. Hef samt ekki tíma í það fyrr en eftir helgi.

    Þess má geta að ég hef tekið afrit af nánast öllum viðskiptum mínum við Vantrú og félgsmenn þar núna í tæp tvö ár því þeim er engan veginn treystandi til að láta umræðu sem þeir “tapa” standa óbreytta á þeim vefum og bloggum sem þeir ráða yfir. Það lærði ég snemma í mínum viðskiptum við þetta fólk. Ég ætlaði mér svo alltaf að skrifa svipaða úttekt um félagið og þú ert hér byrjuð á, en hún hefur ekki komið út enn. En “punktana” á ég í hundraðavís.

    Skoðaðu endilega “spjallborðið” þeirra. Þetta er notað sem nokkurs konar “ljónagryfja” þar sem félagsmenn fylkja sér utan um “fórnalömbin” sem þeir henda þangað inn þar og hika ekki við að kalla þá hvaða ónefnum sem er fyrir það eitt að vera ekki sammála málflutningi þeirra. Spjallborðið er alveg makalaus lesning, ekki bara í mínu tilfelli heldur og mörgum öðrum sem hafa fengið svipaða meðferð þarna og ég.

    Svo dreifa þeir því út um allt að ég sé óviðræðuhæfur, geðveikur, hálfviti, nettröll og vitleysingur sem skilji ekki nein rök af því að ég fellst ekki á þeirra. Svo loka þeir bara á mig og mínar athugasemdir. Þetta gera þeir auðvitað vegna þess hversu oft og víða ég hef gagnrýnt þá og opinberað staðreyndir og veilur í framkomu þeirra og málflutningi.

    Þessir menn þola nefnilega enga gagnrýni sjálfir – eins og þú ert væntanlega búin að komast að nú þegar. Þeir sem koma með gagnrýni á félagið, einstaka félagsmenn eða málflutninginn mega gjöra svo vel að sæta persónuárásum frá þeim það sem eftir er. Um leið og einhver hefur sig í frammi gegn málflutningnum þá er hinn sami gúgglaður í tætlur í leit að einhverju – bara einhverju – sem hægt er að nota á viðkomandi. Þú sérð mörg dæmi um þetta á “spjallborðinu”. Það er því ekkert skrítið að margir hafi heykst á því að halda uppi rökræðum við þessa menn. Þeir segjast ekki vera fasistar, en þeir hegða sér þannig.

  9. Þórður Ingvarsson: Það er alveg rétt hjá þér að það voru á tímabili 12 athugasemdir við færsluna um siðanefnd HÍ og hennar þátt í máli Bjarna Randvers. Þrjár athugasemdir voru eftir félaga í Vantrú og þrjár athugasemdir voru svör mín við þeim. Síðan hafði þessi félagi í Vantrú samband við mig og bað mig um að eyða sínum skilaborðum því þau væru byggð á misskilningi og röngum upplýsingum. Ég varð við þeirri beiðni og eyddi þá í leiðinni mínum eigin svörum (sem voru efnislega öll eins, þ.e. ítrekun á að þessi færsla fjallaði um þátt siðanefndar í málinu og annað ekki). Það hefði verið mjög asnalegt að láta standa þrjár slíkar staðhæfingar í röð þegar búið var að eyða skilboðunum sem þær voru svör við.

    Gætirðu bent mér á heimild fyrir því að Bjarni Randver hafi “haldið því fram ítrekað að umræddur nemi hafi verið að njósna fyrir Óla Gneista í tímum hjá honum”?

  10. Guðbergur: Við lokum á þig Guðbergur einfaldlega útaf því að þú *ert* óviðræðuhæfur og óstabíll. Það kemst ekkert til skila sem við höfum að segja og það skiptir engu máli hvað við segjum hvort eð er. Þú ert með þínar furðulegu hugmyndir um félagið og við höfum bara komist að því að við því er ekkert hægt að gera annað en sættast við það að þú ert með þínar furðulegu hugmyndir um félagið, enda ekki hægt að leiðrétta þessar hugmyndir því þú ert forhertur furðufugl. Og notkun þín á gæsalöppum er alveg einstaklega furðuleg. Þetta kallast “spjallborð” því þetta er spjallborð.

    Harpa: Heimildin er Svar við kæru Vantrúar eftir Bjarna Randver og morgunblaðsgreinin hin fyrri – talað erum flugumann. Kannastu við það?

  11. Guðbergur Ísleifsson: Nú kann vel að vera að Vantrú geti grafið upp eitthvað hallærislegt sem ég hef sagt á netinu, með ítarlegri gúgglun. (Ég hef notað internetið frá 1991.) Til að spara þeim sporin bendi ég á að það er leitarmöguleiki á þessu mínu bloggi. Brigsl um geðveiki skipta mig litlu, ég hef bloggað mjög mikið um eigin geðveiki, þ.e. þunglyndið sem hefur gert mig óvinnufæra og að öryrkja. Þær færslur eru undir efnisflokknum Geðheilsa. Geðsjúkdómur minn er ekkert leyndarmál enda er þetta eins og hver annar alvarlegur sjúkdómur sem leggst á fólk og það fær litlu um ráðið sjálft. Mér finnst frámunalega hallærislegt og einfeldningslegt að nota orðið geðveikur til að stimpla andstæðinga sína í rökræðum og hef því oft stungið upp á meiri fjölbreytni í svoleiðis blammeringum, t.d. tengingu við sykursýki, krabbamein eða fleiri sjúkdóma sem menn fá litlu um ráðið hvort þeir fá eða ekki. Leggist menn svo lágt að vilja brennimerkja þá sem eru ósammála þeim með sjúkdómsheitum finnst mér lágmark að þeir sýni örlítið hugmyndaflug í svoleiðis málflutningi 🙂

  12. Þórður Ingvarsson: Já, ég kannast við þessar heimildir. Ég þarf að fletta þessu upp.

  13. Vonandi að forhertur furðufugl beri vott um hugmyndaflug. Svo á Guðbergur ansi bágt með að gera sér grein fyrir sína eigin hegðun, sem er á köflum ívið verri en allt það sem hann sakar okkur um.

  14. Þórður Ingvarsson: Í fyrsta lagi óska ég eftir að þú færir tjáningu á persónulegum skoðanum þínum á Guðbergi Ísleifssyni eitthvað annað. Þær koma þessar bloggfærslu minni ekkert nokkurn skapaðan hlut við (en eru aftur á móti ágæt rök fyrir því sem ég hélt fram í fyrri færslu, um Vantrú, um nettröllskap Vantrúarfélaga).

    Í öðru lagi hef ég nú flett upp í þeim heimildum sem þú vísaðir í og staðhæfingar þínar eru rangar.

    Í grein Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, sem birtist í Morgunblaðinu þann 4. desember 2011 segir:

    “Upphaf málsins er það að í september árið 2009 sótti nemandi úr annarri deild tíma hjá Bjarna í nýtrúarhreyfingum. Hann er hvattur til þess að sækja tímana af þáverandi formanni Vantrúar, Óla Gneista Sóleyjarsyni, sem tilkynnir öðrum félögum í Vantrú á innri vef félagsins: “Mig grunar að þetta verði gullnáma.” Í einhvers konar netspjalli gefur nemandinn Óla Gneista stutta og ónákvæma lýsingu á því hvað sé kennt og tekur á endanum glærur sem notaðar eru í námskeiðinu og kemur þeim til Óla Gneista.” (Mbl. 4. desember 2011, s. 18.)

    Heimildir Barkar eru af ýmsum toga og verður ekki séð að þessi staðhæfing um að nemandinn hafi verið “hvattur til að sækja tímana af þáverandi formanni Vantrúar, Óla Gneista Sóleyjarsyni” sé komin frá Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Börkur gæti t.d. allt eins verið að vitna í hið fræga lokaða spjall Vantrúar og e.t.v. er þetta byggt á orðum Óla Gneista þar. Eða haft þetta eftir Matthíasi Ásgeirssyni, sem hann hefur greinilega talað við um þetta mál. Mér finnst ekkert ólíklegt að Óli Gneisti hafi hvatt vin sinn til að sækja námskeiðið á þeim forsendum að það gæti nýst honum vel í samningu lokaverkefnis, þótt Óli Gneisti virðist, skv. þessari tilvitnun Barkar í lokað spjall Vantrúar, hafa einnig haft í huga einhvers konar upplýsingaöflun fyrir Vantrú. Það kemur ekki fram í grein Barkar hvenær nákvæmlega Óli Gneisti lét þessi orð falla.

    Hin heimildin sem þú vísar í, Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir Siðanefnd HÍ í maí 2010, eftir Bjarna Randver Sigurvinsson, segir einungis um þátt þessa nemanda á s. 3: “Fram hefur komið hjá vantrúarfélögum að þeir fengu glærusettið um Frjálslyndu fjölskylduna frá nemanda sem skráður hafði verið í námskeiðið eftir að því var lokið.” Í neðanmálsgrein er vísað í bloggfærslu Matthíasar Ásgeirssonar þessu til rökstuðnings, http://www.orvitinn.com/2010/02/18/10.15/ .

    Ég veit ekki hver kom þeirri flugu í höfuðið á þér að Bjarni Randver Sigurvinsson hefði talað um sérstakan flugumann Vantrúar í þessu samhengi 🙂 Og til að leita af mér allan grun gáði ég hvort orðið flugumaður kæmi fyrir í Greinargerð Bjarna Randvers (sem ég hef hans leyfi til að vitna í, annars er þetta skjal ekki ætlað til opinberrar birtingar). Það kemur hvergi fyrir.

  15. Helgi Ingólfsson on January 19, 2012 at 15:50 said:

    Sem við var að búast er þetta góð færsla, Harpa, og skilur mann spenntan eftir framhaldinu.

    Ef umræðuefnið hérna væri “trúverðugleiki Guðbergs Ísleifssonar” (sem mér sýnist vera tilraun til að drepa umræðunni á dreif), lýsi ég því yfir að ég trúi fullkomlega því sem Guðbergur hefur að segja, enda hef ég sjálfur orðið fyrir aðkasti, þöggunartilburðum og hótunum (sumra) Vantrúarmanna.

    Þórður Ingvarsson, sem hér telur þörf á afsökun í aths. 6, er náttúrlega þjóðfrægur fyrir ummæli sín um herra Sigurbjörn Einarsson látinn og sá ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á þeim, eins og sjá má á heimasíðu hans, blogdodd.maurildi.com.

    En væri ekki rétt að loka Overton-gluggum og halda sig við umræðuefnið, þ.e. glærurnar?

  16. Jú, það er full ástæða til að mæla með gluggalokun og að menn haldi sig við efnið. Því miður gildir það sama um þig, Helgi 🙂

  17. Ókei, ég skal halda mér við efnið og láta ofsóknaróðu órana hjá Guðbergi og Helga í friði.

    Þannig að þú ert líka með greinargerðina? Frábært að vita. Gæti verið að þú sért með “tímalínuna” hans BRS líka?

  18. Guðbergur Ísleifsson on January 19, 2012 at 17:01 said:

    Fyrst Þórður leikur hér lausum hala má kannski benda á að hann gerir hér nákvæmlega enga tilraun til að svara því sem ég segi efnislega, hvorki um nefnda glæru né um ritskoðun á Vantrú.is, heldur hamrar bara á Ad Hominem-lummunni sinni um mig persónulega. Nákvæmlega háttur bæði hans og félaga hans í Vantrú.

    Til að fá innsýn í hugarheim Þórðar fyrir þá sem þekkja ekki til má kannski rifja upp greinina sem hann skrifaði og Helgi minnist á hér að ofan.

  19. Hahaha! Þetta er alveg æðislegt innlegg! Takk Guðbergur.

  20. Þórður og Guðbergur: Þetta er orðið gott! Ég eyði frekara skítkasti ykkar tveggja hvors í annars garð haldi það áfram.

  21. Helgi Ingólfsson on January 20, 2012 at 09:16 said:

    Sæl, Harpa.

    Þegar ég lærði mín glæru-kennslufræði, þá var nokkuð haldið á loft svokallaðri “7x7x7” reglu. Hún fól í sér að:

    a) Ekki skyldu vera fleiri en 7 efnisatriði á glæru,
    b) Ekki skyldu vera fleiri en 7 orð um hvert efnisatriði,
    c) Ekki skyldi sýna fleiri en 7 glærur í einni lotu (ca. kennslustund).

    Þótt hér sé um ágætar viðmiðunarreglur að ræða, þá veit ég af eigin reynd að erfitt er að framfylgja þeim í praxís. Ég stóð mig að því að velja lengri og merkingarþrungnari orð til að þenja út “7 orða kvótann”. Síðan fór ég aðra leið og bjó til samfelldar setningar, feitletraði lykilorð og sagði nemendum að það væru aðalatriðin, en hitt væri uppfylling upp á samhengið að gera.

    Það, sem skiptir hér ef til vill máli í samhengi við grein þína, er að kennarinn á oft erfitt með að koma efninu fyrir óstyttu/óbjöguðu á glæru af kennslufræðilegum ástæðum og verður alloft að grípa til styttinga eða treysta á sínar eigin munnlegu útskýringar. Hversu vel tekst þar til, getur svo verið ýmsum vafa undirorpið.

  22. Sæl Harpa – þessi samantekt þykir mér ágæt lesning. Mér finnst þér takast að koma með ferska vinkla á annars margtuggið mál. Ljóslega málar þú upp mynd sem gerir kæru Vantrúar fremur skakka, en mér þykir ljóst að það má hæglega sjá það á hinn veginn líka og þá hlið getur fólk lesið um á vef Vantrúar.

    Mig langar að gera athugasemd við þetta:
    “Þess ber að geta að félagar í Vantrú hafa lagt þunga áherslu á að þessari áríðandi tilkynningu hafi fylgt broskarl.”

    Þetta hljómar dálítið hæðið hjá þér – sem ég skal þó ekki fullyrða að sé meiningin. Málið er, eins og þú eflaust veist, að á lokuðu spjalli ungs fólks er oft talað ansi frjálslega, í stækri kaldhæðni og allir vita að um grín er að ræða. Broskarlinn er vitaskuld til marks um það að einhverju leyti.

    Eins mikið og þú vandar þig við að koma hlutunum snyrtilega frá þér finnst mér að það megi alveg sýna því raunverulegan og yfirlýstan skilning að það var í hreinasta galsa og hálfkæringi sem Reynir orðaði þetta þannig að um heilagt stŕið væri að ræða og þess háttar.

    Kæran var einlæg tilraun til að fá úr því skorið innan HÍ hvort efnið sem um ræðir sé ekki einkennilegt kennsluefni. Hvort að slíkt eigi að fara í annan farveg en Vantrú valdi má deila um, en í ljósi þess að regluverkið virtist vera fyrir hendi var að því leytinu til ekki óeðlilegt að láta á það reyna. HÍ getur þá breytt hlutunum í framhaldi til að vernda rétt kennara sinna. Það væri kannski mjög eðlileg niðurstaða.

    En í umfjöllun um orðlagið á innri vef Vantrúar hlýtur að verða að sýna því skilning að það er ekki hægt að ætlast til þess að neinn utanaðkomandi átti sig alveg á tónfallinu þar – sem er reyndar ágæt hliðstæða þess að menn þurfi að gefa því séns að það sama eigi við um glærur Bjarna.

  23. Sæll Kristinn og takk fyrir málefnalega gagnrýni.

    Ég var nú einmitt að reyna að komast hjá því að sýna hæðnisvott og taldi mig hafa orðað þetta eins hlutlaust og hægt væri, þ.e. málsgreinina um þungu áhersluna Vantrúar á broskarlinn. Mér fannst eins ég hefði lesið það nokkuð oft að broskarlinn í lokin ætti að sýna að um hefði verið að ræða “hreinasta galsa og hálfkæring” eins og þú orðar það og vildi koma því að. Það var alls ekki meiningin að nein hæðni fælist í þessari feitletruðu athugasemd, hún átti þvert á móti að þjóna þeim tilgangi að sjónarmið Vantrúar varðandi þessi ummæli Reynis kæmu skýrt fram. Ertu með tillögu að betra (en stuttu þó) orðalagi?

    Já, mig grunar að í “lokuðu spjalli ungs fólks” sé oft talað ansi frjálslega en málið er að forystumenn Vantrúar eru alls ekkert ungt fólk upp til hópa. Reynir er t.d. tveimur árum yngri en ég, altso fimmtugur, og án þess að hafa tékkað á aldri hinna í stjórn Vantrúar held ég að þeir séu flestir í kringum fertugt. Við erum sumsé að tala um “lokað spjall rígfullorðinna karla”, ekki satt? Annars kem ég líklega aftur að þessum orðum og fleirum sem vitnað hefur verið í af lokaða spjallinu síðar.

    Ég reyndi að láta það koma skýrt fram í færslunni að félagsskapur úti í bæ hefur ekki forsendur til að meta kennsluefni í kúrs í HÍ og það er í meira lagi vafasamt að ljá máls á að fjalla um slík erindi. (Fyrir svo utan það að erindið var mjög einkennilegt eins og ég mun gera að nokkru grein fyrir í næstu færslu, þegar ég stikla á stóru um þessar frægu glærur, kæru Vantrúar og hvernig glærurnar féllu að efni kúrsins.) Eins og komið hefur fram í máli margra háskólakennara myndi fordæmi af þessu tagi, þ.e. að siðanefnd taki svona erindi til umfjöllunar í alvöru og brjóti í leiðinni sínar eigin starfsreglur, s.s. lýst var í næstsíðustu færslu, leiða til þess að öll hugvísindi sem byggja á einhvers konar túlkun (sem þau gera í meiri eða minna mæli, þau kenna m.a. túlkun byggða á gagnrýninni hugsun) ættu mjög erfitt uppdráttar. Það er allt annar handleggur ef hópur nemenda eða einstakir nemendur sem setið hafa í kúrsi gagnrýni hann eða jafnvel kæri fyrir siðanefnd enda ættu þeir nemendur að geta gert sér góða grein fyrir umfjölluninni í kennslu. Að byggja kæru eingöngu á broti af vinnuskjölum eins og þessum glærum er afar undarlegt, svo ekki sé meira sagt.

    HÍ þarf ekkert að breyta reglum sínum, þær eru nokkuð skýrar. Siðanefnd HÍ þarf hins vegar að læra að fara eftir starfsreglum sínum. Og rektor þarf að læra að svara erindum sem henni berast. Sú kæra eða kvörtun sem barst guðfræði- og trúarbragðafræðideildinni hafði strax áhrif í rétta átt, þ.e. Bjarni Randver og Pétur Pétursson voru strax tilbúnir að koma til móts við Vantrú en það var auðvitað áður en þeim varð ljóst að Vantrú hafði kært þetta brot kennsluefnis til siðanefndar HÍ. (Um þetta má lesa í skýrslu óháðu nefndarinnar sem Háskólaráð skipaði.) Ég skil þessi viðbrögð mjög vel, sjálf hefði ég verið meir en til í að koma til móts við einhverja sem ekki væru sáttir við kennslu mína (ég starfaði í aldarfjórðung sem framhaldsskólakennari) en hefði mér svo borist vitneskja um að ég hefði verið kærð til skólanefndar og ætti von á áminningu myndi ég væntanlega bregðast öðru vísi við, ekki hvað síst ef mér fyndist kæran byggð á fáránlegum forsendum og vinnubrögð skólanefndar ámælisverð.

    Ef Vantrú leit á þessa kæru til siðanefndar sem “einlæga tilraun til að fá úr því skorið innan HÍ hvort efnið sem um ræðir sé ekki einkennilegt kennsluefni” hefði væntanlega dugað að leita til forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar til þess, það vill svo til að hann er einnig sérfræðingur í þessu kennsluefni. Af orðum Reynis Harðarsonar, sem ég vitna í og kræki í skjámynd Vantrúar af þeim, verður ekki ráðið að meiningin hafi verið akkúrat þessi, jafnvel þótt menn hafi broskarlinn í huga. Má og benda á óbeina vísun í hina frægu ræðu Churchill sem er örugglega ekki tilviljun. Hér er ég náttúrlega farin að beita túlkunarfræðum en hef mér til málsbóta að menntun mín liggur í slíkum fræðum 😉

  24. Helgi: Ég held að flestir kennarar átti sig á að 7 x 7 x 7-reglan virki illa þegar á hólminn er komið og eins og ég hef áður tekið fram þekki ég engan kennara sem fer eftir dogmum í kennslufræði þegar á hólminn er komið. Svo má auðvitað benda á að þessi áhersla á töluna 7 sýnir óþarflega kristilegan þankgang 🙂 Hvað er að 8?

  25. Sæl aftur

    Mér nægir að þú fullyrðir að þetta hafi ekki verið háð.

    Já, kannski hefði ég frekar átt að tala um lokað spjall fullorðinna. Ég er 34 og tjái mig oft eins og vanviti á lokuðu spjalli, því ég hef gaman af hæðni og ruddaskap þegar ég held að það komi ekki illa við fólk. Það er vondur ávani, en verður þó til þess að ég hef mikla samúð með því að svona ummæli séu túlkuð á versta veg eða bara of bókstaflega.

    Þú færir góð rök fyrir máli þínu, þykir mér. Ég skil afstöðu þína held ég ágætlega.

    Ég fylgist líklega bara með af hliðarlínunni eftir þetta.

    bestu kveðjur,

  26. Þeim sem er illa við mig er nú í lófa lagið, að bæta því við að ég tjái mig líka eins og vanviti á opnu spjalli 🙂

  27. Harpa Hreinsdóttir on January 20, 2012 at 12:37 said:

    Mér finnst þú tjá þig eins og stakt gáfumenni, Kristinn. (Og taktu eftir að þessi staðhæfing er algerlega snauð af broskörlum og þ.a.l. meint í alvöru!) Mér finnst mjög gott að fá málefnalegar athugasemdir eins og þú gerir og hvet þig til að halda þeim áfram.

    Reynsla mín af “lokuðum spjallþráðum” er nánast engin, mætti kannski segja að í árdaga internetsins á Íslandi hefðu spjallþræðir (svokallaðar “ráðstefnur” ef ég man rétt) verið nánast lokaðar því líklega voru undir 100 manns sem lásu þá eða kommentuðu. Það var í þá góðu gömlu daga meðan Imba á Kópaskeri var og hét og áður en Vefurinn eins og við þekkjum hann var til. Á tímabili leit ég á Facebook sem svipaðan vettvang en er nú reynslunni ríkari hvað þá ágætu bók varðar. Reynsla mín af lokuðu spjalli í kjötheimum er hins vegar töluvert mikil en þar taka menn ekki afstöðu til opinberra mál og halda sig utan við þras og þrætur þannig að hún er yfirfærist illa á netheima.

  28. Ólafur Tryggvi Magnú on January 20, 2012 at 13:04 said:

    Ég vil þakka fyrir skrif þín um Stóra glærumálið, Harpa. Þú nálgast efnið af yfirvegun.

    Í ummæli #23 hér að ofan viðrar Kristinn Theódórsson þá skoðun sína að kæra Vantrúar væri „ … einlæg tilraun til að fá úr því skorið innan HÍ hvort efnið sem um ræðir sé ekki einkennilegt kennsluefni“. Ummæli hans eru sett fram málefnalega og allt gott um það að segja. Margir eru búnir að benda á að það eru skrýtin viðbrögð hjá mönnum sem ættu að þekkja vel til innan háskólasamfélagsins að kæra til siðanefndar ef þetta hefur verið eini tilgangurinn. Ummæli þín #24 taka reyndar ágætlega á því máli.

    Tónn Kristins í ummælunum er kurteis og þau örugglega gerð í mestu vinsemd. Ég þekki svo sem ekki til skrifa Kristins gegnum tíðina en eitt get ég sagt: ef skrif Vantrúarmanna hefðu verið í þessum anda gegnum tíðina hefðu viðbrögð netheima við Stóra glærumálinu orðið allt önnur. Staðreyndin er sú að Vantrú hefur vaðið uppi með slíkum orforsa að það hálfa væri nóg. Því verður að halda til haga hér.

    Innanbúðarmál Háskólans hefur þannig orðið að dropanum sem fyllti mælinn. Ólíklegasta fólk hefur komið fram og lýst yfir vanþóknun sinni á baráttuaðferðum Vantrúarmanna.

    Orforsinn og einstrengingshátturinn réttlætir niðurstöðu þína í færslunni „Vantrú“ frá 14. janúar þar sem þú bendir á hvernig samtökin Vantrú spegla trúsöfnuð. Það má kannski bæta einu atriði við þá greiningu. Bókstafstrúarmenn í Bandaríkjunum hafa mjög beint spjótum sínum að hugvísindunum í háskólum þar. Málflutningur Vantrúar í þessu máli er í sama anda og sennilega spottinn af sama meiði. Merkilegt hvernig samtök sem þykjast halda á lofti merki vísinda hafa þróast út í það að vera einn höfuðandstæðingur þeirra hér á landi. Hugvísindi er nefnilega líka vísindi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation