Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, II. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Glærur í efnisflokknum Frjálslynda fjölskyldan, sem var einn af 20 glæruflokkum (glærusettum) í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar á haustmisseri 2009, liggja frammi á vantru.is, án leyfis glæruhöfundar. Hér er krækt í þær á vef Vantrúar þar sem þær eru birtar sem pdf-skjöl:

ÁsakaÍ stjörnumerktu glæruröðunum eru glærur sem Vantrú sá ástæðu til að kvarta undan, einkum glærum um sig. Vantrú kvartaði/kærði samtímis til þriggja aðila innan Háskóla Íslands. Bréfin eru nær samhljóða. Helsti munurinn er sá að í bréfið til siðanefndar Háskóla Íslands var bætt: „Við gerum einnig athugasemdir við að Bjarni Randver noti myndir af félagsmönnum án þess að geta myndhöfunda“ og „Við teljum ástæðu til að huga sérstaklega að eftirfarandi greinum siðareglna H.Í.: […]“ Sjá má hvaða greinar þetta voru í færslunni Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa. Greinargerðirnar sem fylgja bréfunum til siðanefndar HÍ og Péturs Péturssonar eru samhljóða og má lesa bréfið til Péturs Péturssonar og meðfylgjandi greinargerð á vef Vantrúar. Fylgiskjöl til þessara aðila voru glærur 40-70 og 138-174 úr glærusettinu Frjálslynda fjölskyldan en félagið Vantrú tölusetur hvorn flokk upp á nýtt, þ.e. kallar fyrstu glæru í hvorum flokki nr. 1 o.s.fr. Mér er ókunnugt um hvort greinagerðin og fylgiskjöl fylgdu bréfinu til rektors.

Ritstjórn Vantrúar fjallaði um glærurnar sem félagið kvartaði undan í greinum tölusettum III-XI sem sjá má undir efnisflokknum Háskólinn, neðst á þessari síðu, og uppskar mikil viðbrögð á umræðuþráðum við hverja grein.
 

Námskeiðið Nýtrúarhreyfingar á haustönn 2009

Fyrst er að gera örlitla grein fyrir kúrsinum Nýtrúarhreyfingar. (Vantrú kallar reyndar námskeiðið „áfanga“ undir lok sinna bréfa, sem gæti mögulega bent til þess að félagsmönnum sé ekki alveg ljós munurinn á framhaldsskólakennslu og háskólakennslu.)
 

 Í námskeiðinu er gefið yfirlit yfir það sem margir trúarbragðafræðingar hafa skilgreint sem nýtrúarhreyfingar, þ.e. trúarhreyfingar sem á síðari árum geta talist nýjar af nálinni í viðkomandi þjóðfélagi eða menningarsvæði. Jafnframt er þar gerð grein fyrir helstu kenningum um félagslegar forsendur þeirra, birtingarmyndir og stöðu og fjallað um sögu þeirra, hugmyndafræði og skipulag með hliðsjón af greiningum, einkum félagsfræðinga og guðfræðinga, innan trúarbragðafræðanna. Sérstök áhersla er lögð á að gefa yfirlit yfir þær hreyfingar sem starfað hafa á Íslandi eða fengið töluverða umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.
     Í upphafi námskeiðsins er áréttað að svo til allt námsefnið sé umdeilt og öll greining háð þeim forsendum sem gengið er út frá í upphafi. Þannig er ágreiningur meðal almennings, fræðimanna og hreyfinganna sjálfra hvernig beri að skilgreina trúarhugtakið og hvort einstaka hreyfingar geti flokkast sem trúarlegar. Í raun er deilt um hverja einustu hreyfingu sem tekin er til umfjöllunar í námskeiðinu hvort hún geti talist trúarleg og er það algjörlega óháð því hvort hún skilgreinir sjálfa sig með þeim hætti eða ekki. Og þeir fræðimenn sem flokka hreyfingarnar sem trúarlegar eru ekki heldur á einu máli um hvort eða að hvaða marki hægt sé að tala um nýtrúarhreyfingar í því sambandi því að færa má rök fyrir því að þær allar eigi sér sögulegar og menningarlegar rætur langt aftur í aldir þegar betur er að gáð. Engar trúarhreyfingar verði til í hugmyndasögulegu tómarúmi heldur séu þær allar viðbrögð við ríkjandi menningarstraumum og hefð þar sem byggt er á eldri grunni eða með hann unnið, jafnvel þótt útfærslurnar kunni að vissu marki að vera nýjar af nálinni.

  
 (Bjarni Randver Sigurvinsson. Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, s. 9. Feitletranir eru mínar. Þessi greinargerð er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi höfundarins til að vitna í það. Hér eftir verður vísað í þetta skjal sem Greinargerð Bjarna Randvers.)

Í námskeiðinu var fjallað um fjölmargt. Fyrst var fjallað um trúarhreyfingar á Íslandi, sjónarmið um nýtrúarhreyfingar, nýtrúarhreyfingar í Evrópu og togstreitu milli stjórnvalda og trúarhreyfinga. Síðan voru ýmsar trúarhreyfingar skoðaðar sérstaklega og má sem dæmi taka húmanistahreyfinguna, spíritista- og nýjaldarhreyfinguna/fjölskylduna, moonista, dulspeki, nýheiðni og galdra, búddisma og hindúisma. (Sjá Greinargerð Bjarna Randvers s. 24.)

Af þessu má vera nokkuð ljóst að efni námskeiðsins var afar fjölbreytt og venjulegt fólk myndi kannski frekar tengja efni og efnistök við félagsvísindi en trúfræði (námskeiðið fellur undir trúarbragðafélagsfræði). Ég hef þó grun um að bæði félagið Vantrú og formaður siðanefndar HÍ hafi fyrirfram gefið sér að um væri að ræða trúfræðinámskeið og mun rökstyðja það betur síðar. Nemendur í námskeiðinu voru enda af ýmsum toga og ekkert endilega skráðir í guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Auðvitað voru allar þessar glærur einungis hluti kennsluefnisins, til grundvallar voru lagðar þrjár bækur og fjöldi bókarkafla og greina. Ég vísa í fyrri færslu um hvernig glærur eru yfirleitt notaðar í kennslu en það hvarflar að mér að félagið Vantrú og formaður siðanefndar HÍ hafi einnig gefið sér að glærurnar væri uppistaðan í kennslu- og námsefni og því stórlega ofmetið vægi þeirra.

Kennarinn, Bjarni Randver Sigurvinsson, bendir í sinni greinargerð á að meginatriðin sem hann reyndi að draga fram um félagið Vantrú tengist þeim rannsóknarspurningum lágu námskeiðinu til grundvallar. Rannsóknarspurningarnar voru, endursagðar í mjög grófum dráttum:

 * Hvers konar félagslega hreyfingu er um að ræða?
 * Hvers konar hugmyndafræði liggur til grundvallar?
 * Er um einhvers konar boðun að ræða og þá hverja?
 * Hver er helsta gagnrýni á hreyfinguna?
 * Hver eru helstu sérkenni hreyfingarinnar?
    (Greinargerð Bjarna Randvers s. 58.)
 

Yfir hverju kvartaði Vantrú og kærði?

Það er ekki vinnandi vegur að fjalla um öll klögumál Vantrúar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, kennara og glæruhöfundi, á bloggi. Hér á eftir og í næstu færslu(m) verða því einungis valin atriði til umfjöllunar.

Í fyrsta lagi má nefna að víða í kæru Vantrúar kemur fram óánægja með að vitnað sé í eitthvað sem Vantrú kýs að kalla „einkablogg“. Þar er yfirleitt átt við blogg stjórnamanna og félaga í Vantrú þar sem þeir lýsa oft viðhorfum sínum til trúarbragða, kirkjudeilda o.fl þessu tengdu. Nú eru til einkablogg, þ.e.a.s. blogg sem eru læst og einungis sumir hafa aðgang að með lykilorði. En almennt eru blogg opinber og lúta sömu lögmálum og hver önnur opinber birting, svo sem greinaskrif í blöð eða vefmiðla. Mér finnst einkennilegt í ljósi þess hve margir stjórnarmanna í Vantrú eru prýðilega tölvulæsir að þeir skuli virkilega halda að blogg sé einkamál og í þau megi ekki vitna. Á það hefur verið bent að væri þessi skoðun almenn myndi það væntanlega einnig fela í sér að ekki mætti vitna í greinar stjórnmálamanna eða viðtöl við þá heldur einungis í opinberar yfirlýsingar og gögn viðkomandi stjórnmálaflokks. Ef einstökum félögum í Vantrú er í mun að reka einkablogg liggur beinast við að þeir læsi samstundis sínum bloggum og úthluti lykilorðum til þeirra lesenda sem þeir vilja að skoði þau.

Sem dæmi um slíka kvörtun (en þær eru margar) má nefna:

Óli Gneisti Sóleyjarson Glæra 6 og 7 eru skjámyndir af einkabloggi Óla Gneista (formanni [svo] Vantrúar 2009) þar sem hann lýsir yfir mikilli ánægju sinni með trúleysisráðstefnuna 2006 og lýsing á kynnum hans af Richard Dawkins. Þessar tvær færslur virðast hafa verið sérvaldar af fjölmörgum sem Óli skrifaði um ráðstefnuna út frá því að Richard Dawkins er þar í aðalhlutverki. Tilgangur Bjarna virðist vera að sýna að vantrúarmenn sem [svo] lærisveina eða skósveina  Richards Dawkins. Ekki virðist vera að Bjarni hafi talið þörf á að útskýra þessi skrif með hliðsjón af því að Óli Gneisti var í skipulagsnefnd umræddar ráðstefnu og gleði hans skýrist að miklu leyti af því að hafa skilað af sér góðu verki. (S. 4-5 í greinargerð Vantrúar með kærunni.)

Til hægri er lítil mynd af annarri glærunni sem krækir í stærri mynd á vef Vantrúar, hin glæran er þar fyrir neðan. Loks er þriðja glæran á þessari vefsíðu þar sem Vantrú ályktar að verið sé að gera Óla Gneista að lærisveini Dawkins, sem er auðvitað algerlega út í hött því dagsetninga og ártala er getið á glærunni sjálfri. Virðist þar sem Vantrú telji að ef atriði B sé sett undir atriði A á glæru sé verið að meina að B sé afleiðing af A:
 

 Tilvitnunin í Óla [er] sett undir fyrirsögn sem gefur til kynna að hún sé undir áhrifum frá Dawkins sem hún er ekki. Í ágúst 2006 var bókin God Delusion ekki komin út, hún kom ekki út fyrren 2007. Er tilgangurinn að sýna fram á áhrif „hugmyndafræðingsins“ á lærisveininn? (S. 6 í greinargerð Vantrúar með kæru).

Að sögn kennarans var tilgangurinn með birtingu þeirra þriggja glæra, sem Vantrú kallar nr. 6, 7 og 8, fyrst og fremst sá að gefa nemendum sýnishorn af starfsemi Vantrúar í samvinnu við aðrar hreyfingar þar sem jafnframt kæmi fram félagsleg grundvallarforsenda vaxtar allra skipulagðra hreyfinga. Fjöldi trúarlífsfélagsfræðinga hafi bent á að menn hópist saman í hreyfingar á borð við Vantrú vegna þess að þeir finni þar fólk sem er sama sinnis og sjái bæði forystumenn og virka meðlimi í jákvæðu ljósi og sem mögulegar fyrirmyndir. Textinn af glærunum átti einungis að sýna hliðstæðu í jákvæðu ljósi þ.e. hve bæði Óli Gneisti og Dawkins væru stoltir af guðleysi sínu. Í kennslustundinni tók kennarinn svo fram að guðleysingjar hafi einmitt lagt aukna áherslu á að skilgreina sig með jákvæðum hætti fremur en bara út frá einhverju sem þeir eru á móti og benti á að „Dawkins stofnaði t.d. The Out Campaign hreyfinguna árið 2007 sem nokkurs konar hliðstæðu við mannréttindahreyfingar samkynhneigðra til að árétta mikilvægi þess að guðleysingjar komi út úr skápnum og líti sjálfa sig jákvæðum augum.“ (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 71-72.)
 
 

Vantrúarfélagar voru þó mun reiðari út af glæru sem sýndi orðbragð nokkurra félagsmanna og fylgismanna Vantrúar. Sú móðgun tengist líka skrítnum hugmyndum þeirra um „einkablogg“ en ber þess aðallega merki að þeir gera sér litla grein fyrir því samhengi sem glæran var í, þ.e.a.s. gera sér ekki grein fyrir um hvað námskeiðið snérist og geta þar af leiðandi ekki tengt glæruna við líklega umfjöllun um félagið Vantrú. Misskilningur þeirra er sá að halda að glærurnar eigi að vera aðlaðandi kynning á Vantrú eða auglýsing fyrir félagið. Má sjá glæruna og umræðu um hana á IX Guðfræði í HÍ: Orðbragðið, á vef Vantrúar.  Í kæru Vantrúar segir:

 Vantrúarfélögum þykir sérlega mikilvægt að glæra 20 sé skoðuð alveg sérstaklega en hún ber titilinn „Orðbragðið“. […] Bjarni birtir lista af dónaskap sem hann hefur dundað sér að safna af vefsíðum tengdum félagsmönnum og hugsanlega Vantrú. Við neitum ekki að við notum oft orðalag sem öðrum finnst óheft [svo] en við teljum óhæfu að birta svona lista án samhengis.[…]

Síðan fjallar Vantrú um að Matthías Ásgeirsson hafi aldrei notað orðið „hlandspekingur“ um nafngreindan einstakling í nokkuð löngu máli og að oftast noti hann orðin „asni“ og „bjáni“ um sjálfan sig. Þessari klausu í kærunni lýkur svona:

 Aftur hljótum við að spyrja hvort hér er um fræðslu að ræða eða einstrengingslegan áróður. Hvaða tilgangi þjónar þessi glæra? Er hún málefnaleg eða sanngjörn? Getur hún rétta mynd af umfjöllunarefni guðfræðingsins?

Í umræðuþræði við umfjöllun mína um Vantrú hélt ég því fram að félagar í Vantrú væru harðir aðgerðarsinnar (aktívistar). Ég er enn þeirrar skoðunar. Partur af þessum aktívisma er ljótt orðbragð. Það hafa fjölmargir bent á slíkt áður og raunar halda Vantrúarfélagar því sjálfir fram í kærunni að þeir noti „orðalag sem öðrum finnst óheft“ (væntanlega eru þeir að meina „óheflað“). Í umfjöllun Vantrúar um þessa glæru sést að Vantrúarfélagar hafa lagt í mikla vinnu við að rekja einstök ummæli, annars vegar á vef Vantrúar og hins vegar á bloggi Matthíasar Ásgeirssonar. Þeir hrósa sigri ef þeir finna dæmi um orðalag sem ekki var notað um nafngreint fólk, til dæmis orðið hlandspekingur (sem mér finnst ljómandi gott nýyrði). En Vantrúarfélögum yfirsést líklega að í þeim færslum sem þeir vísa í máli sínu til stuðnings er að finna mun grófari ummæli, s.s. þegar þeir verja orðalagið „augljóslega snarbiluð manneskja“ og vísa í færslu Matthíasar sem heitir Geðsjúklingurinn Jónína Ben. Annað hvort hefur Bjarni Randver dregið úr ummælum Matthíasar eða Matthías breytt upphaflegum ummælum í „augljóslega snargeðbilaða manneskju“ sem er, frá mínum sjónarhóli séð, síst til bóta.

Að mínu mati skiptir ekki öllu máli hvort hverju einasta dæmi á þessari glæru megi finna stað á bloggi Matthíasar eða vef Vantrúar enda tjá félagar í Vantrú og fylgismenn þeirra sig miklu víðar en þar. Ekkert á glærunni bendir til að eingöngu sé stuðst við þessa tvo vefi og auðvelt er að finna mun grófari dæmi, eins og ég var að benda á.

Skilja ekkiAðalröksemd Vantrúar í kærubréfinu er að listinn sé birtur án samhengis. Þetta er merkilegt kæruefni því Vantrúarfélagar höfðu nefnilega ekki hugmynd um samhengið. Enginn þeirra sem að kærunni stóðu hafði setið námskeiðið. Hvernig áttu þeir að vita hvað fór fram í kennslustundinni? Þeir virðast ekki einu sinni hafa fattað um hvað námskeiðið snérist! Mér sýnist blasa við að þessi glæra, sem líklega var brugðið upp rétt sem snöggvast, hafi verið liður í að ræða seinustu tvær rannsóknarspurningarnar sem lágu til grundvallar námskeiðinu, væntanlega bara einn liður af mörgum í þeirri umræðu. Mögulega tengdist hún fleiri rannsóknaspurningum.

Aðalröksemd Vantrúar sýnir aðallega að þeir sem stóðu að kærunni virðast ekki hafa hugmynd um hvernig glærur eru notaðar í kennslu. Með rök Vantrúar að vopni mætti t.d. kæra hvern þann málfræðing sem tekur dæmi um „mérun“ (þágufallssýki) og ekki getur þess ítarlega á glæru í hvaða samhengi hvert dæmi kom fyrir hverju sinni. Kennari í bókmenntafræði væri í verulega slæmum málum, skv. sömu rökum, ef tekin væru dæmi um myndhverfingar úr ljóðum án þess að sýna öll ljóðin í heild og gera um leið grein fyrir í hvaða ljóðabók þau birtust og hvaða ár, jafnvel höfundum þeirra, þeim stefnum og straumum sem þeir aðhylltust o.s.fr. Hver kennari sér að þetta er rugl og það er dálítið undarlegt til þess að hugsa að Óli Gneisti Sóleyjarsson þjóðfræðingur, sá formaður Vantrúar sem var kveikjan að kærunni, og Reynir Harðarson sálfræðingur, sem tók við formennsku af Óla Gneista, skrifaði undir kærubréfin og lýsti yfir heilaga stríðinu, skuli báðir hafa meistaragráðu. Ég hefði haldið fyrirfram að hver sæmilega háskólamenntaður maður sæi hversu mikið rugl krafan um skilyrðislaust samhengi dæma á glærum er.

  
Fleiri klögumálum Vantrúar verða gerð skil í næstu færslu.

  

Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.
  
  
 

24 Thoughts on “Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, II. hluti

  1. Miðað við þessa frásögn af þremur kvörtunar/kærubréfum, þá hefur rannsókn og úrskurður verið eina færa leiðin í málinu. Ekki mikill vilji hjá Vantrúarmönnum sem kærðu að leita einhverja sáttarleiða, ef þessi bréf voru fyrstu samskipti þeirra við Háskólann í málinu.

    Ég skil einnig betur nú af hverju Bjarni Randver hefur ekki treyst Siðanefnd fyrir veðurfréttum hvað þá trúnaðargögnum, ef sú nefnd fór ekki að reglum sem um hana gilda.

  2. Þorvaldur lyftustjór on January 22, 2012 at 09:58 said:

    Eru Vantrúarmenn uppgefnir á þér? Engin viðbrögð?
    Hvurslags er þetta?

  3. Ræddi við einn Vantrúarmeðliminn sem gat gefið þær upplýsingar að tímasetningin og tímalína var þessi:

    1- Þrjú bréf skrifuð til a-guðfræðideildar, b-rektors, c-siðanefndar, allt á sama tíma

    2- Tölvubréf sent Bjarna Randver (á netfang sem hann segist lítið nota)

    3- Deildarforseti guðfræðideildar ráðleggur Bjarna Randver að halda sig utan ljóss fjölmiðla.

    Spurning hvenær Vantrú setur greinar á vef sinn til að segja frá sinni hlið af öllu ferlinu, en það skiptir kannski engu höfuðmáli.

  4. Takk fyrir vísunina, Þórður. Með því að kíkja aftur yfir greinarnar, sá ég að erindið til deildarforseta, rektors og siðanefndar er sent á sama tíma og greinar fara að birtast á vef Vantrúar.

    Má s.s. ætla að félagið hafi ætlað að rota mýflugu með sleggju?

  5. Carlos: Já, það er rétt að félagið Vantrú sendi Bjarna Randveri tölvupóst þann 10. febrúar 2010 á netfang sem hann notar lítið og hann sá því ekki tölvupóstinn fyrr en löngu seinna. Vantrú hefur ekki sett tékk á hvort tölvupósturinn væri opnaður (sem er einfalt mál og ágætt að gera ef menn vilja vera vissir um að bréf komist til skila). Þetta bréf Vantrúar má sjá á http://www.vantru.is/2010/02/17/09.00/

    Í því kemur alls ekki fram að Bjarni Randver hafi verið kærður til siðanefndar HÍ, rektors HÍ og guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ heldur einungis: “Því fórum við fram á að efnið verði yfirfarið í Háskóla Íslands.” Meginerindi bréfsins virðst vera að fá leyfi Bjarna Randvers fyrir að birta glærurnar á vef Vantrúar. Enda auðskiljanlegt að menn sem kæra aðra m.a. fyrir að birta myndir af sér á vinnuskjölum á borð við glærur á lokuðum námskeiðsvef vilji hafa vaðið fyrir neðan sig hvað höfundarétt varðar. En þótt Bjarni Randver sæi ekki bréfið fyrr en löngu seinna og svaraði því þ.a.l. ekki kom það ekki í veg fyrir að félagið Vantrú hæfi birtingu glæranna viku eftir að bréfið var sent, líkt og sjá má undir einmitt þeim efnisflokki sem Þórður Ingvarsson, ritstjóri vefjar Vantrúar vísar í.

    Og vel að merkja lét Vantrú þess að engu getið í hverju bréfanna að aðrir aðilar innan HÍ hefðu fengið nær samhljóða bréf. Þannig að Pétur Pétursson, forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar gat t.d. ekki vitað fyrr en talverðu eftir að bréfið barst honum að Bjarni Randver hefði einnig verið kærður fyrir siðanefnd og rektor. Sömuleiðis er erfitt að vita hvenær þessi staðreynd rann upp fyrir rektor.

  6. Þorvaldur: Ég er farin að halda að Vantrú hafi misst alla trú á mér 😉

    En hugga mig við að ég virðist eitthvað til umræðu á lokaða spjallinu þeirra – það er náttúrlega viss upphefð, ekki satt?

  7. Ég vil ekki auka mikið á umræðuþráðinn hér, síst af öllu með gildismati mínu, en þessi tímalína, sem byrjar með því sem á hernaðarmáli kallast « leiftursókn » á ekkert skylt með saklausar og hlutlausar þreifanir eða leiðréttingar á orðnum hlut. Ég les þetta svona:

    1 – bréfið til háskólans er stórskotaárás
    2 – tölvupósturinn til Bjarna er leyfi til athafna (sem aldrei fékkst) og hugsanleg tilraun tl að laða fram frekari yrðingar sem hægt yrði að hengja á hann
    3 – greinaskrifin á Vantrúnni var fótgönguliðaárás og leið til að réttlæta allt heila klabbið.

    Með þessum gleraugum les ég e.t.v. meira en sumir Vantrúarmanna ætla, en ef maður tekur verkið fyrir viljann, þá er þetta dæmi um það hvernig hafa á andstæðing undir, án tillits til tilefnis. Þeir sem ákváðu að fara þessa leið, hafa vitandi eða óvitandi sett Bjarna í stöðu þar sem hann mátti ekkert segja án þess að hengja sig sjálfur og með því að siðanefnt tók jafn óhönduglega á málinu, gerði hún sig að böðli Bjarna.

    Þetta er ekki einelti. Þetta er fyrirsát sem kostar Bjarna 2 milljónir í lögfræðikostnað án þess að niðurstaða sé komin í málið, því Vantrú dró kvörtunina til baka.

    Ég á ekki orð til að lýsa því hvað mér finnst um þetta, bý þó yfir þónokkru ímyndunarafli og hef að sögn sumra rotinn hugsunarhátt.

  8. Carlos

    Ég verð að gera betri grein fyrir efni kæru Vantrúar fyrst en mun svo fjalla um hvernig félagið Vantrú hefur beitt sér í því “heilaga stríði” sem var boðað og haldið hefur verið fram að orðalag ætti að sýna hálfkæring og húmor. Í þeirri / þeim færslum mun ég rökstyðja að líklega var meining Vantrúar að ganga eins langt og hægt væri og skirrast einskis í að vekja athygli á félaginu og mætti þess til að knésetja ekki bara Bjarna Randver heldur guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. Líklega verður einnig að reyna að skýra undarlega þjónkun við Vantrú og þjónustulund siðanefndar HÍ (og þar verður væntanlega að grípa til túlkunar á fyrirliggjandi gögnum, jafnvel þótt slíkt virðist fara ósegjanlega mikið í taugarnar á einstaka félagsmanni í Vantrú).

  9. Guðbergur Ísleifsson on January 22, 2012 at 17:49 said:

    Ég fylgdist vel með þessu máli öllu verða til í fyrra og sá strax hvað var í gangi.

    Þetta var sannarlega ekkert annað en “fyrirsát”, eins og Carlos orðar það, bein persónuárás að mínu mati, að stærstum hluta tilkomin að undirlagi eins manns í Vantrú í þeirri von að um leið væri hægt að koma verulegu höggi guðfræðideild háskólans. “Barátta” Vantrúarmanna hefur í mörg ár snúist um að koma persónulegu höggi á “andstæðinginn” og í þeim tilgangi er þeim ekkert heilagt.

    Hér var allt sett í gang, moldviðri þyrlað upp til að rugla fólk í ríminu, ekki síst “óbreytta” meðlimi Vantrúar sem voru og eru ótrúlega leiðitamir og gagnrýnislausir þegar forystan setur stefnuna á “innra spjalli” félagsins um á hvern skuli ráðist hverju sinni. Þá hlaupa þeir bara til í nornaveiðarnar, æpandi og endurrómandi orð og gerðir forystumanna Vantrúar og hvers annars, án nokkurrar sjálfstæðrar hugsunar hvað þá sjálfstæðrar rannsóknar á tilefninu. Skýrt dæmi um glórulausa hjarðhegðun.

    Það var aldrei neitt hæft í þessum “kærum” Vantrúar á hendur á Bjarna, þetta var allt saman ein drulluskítug naglasúpa frá upphafi og mér finnst með ólíkindum hve margir halda enn að Vantrú hafi haft eitthvað fyrir sér í málinu sem gaf tilefni til þessa moldviðris.

  10. Helgi Ingólfsson on January 22, 2012 at 23:17 said:

    Sæl, Harpa.

    Þetta er að verða einkar rækileg, vönduð og þakkarverð úttekt hjá þér. Og meiru lofað í farvatninu, takk fyrir. Ég spái því að í framtíðinni verði þessi bálkur þinn talinn sá aðgengilegasti, auðskildasti og merkasti um málið í heild sinni.
    —–
    Viðvíkjandi tímalínuna í upphafi, þá finnst mér rétt að benda á eftirfarandi (og hér má einhver leiðrétta, ef ég fer rangt með staðreyndir eða tímasetningar):

    1) 4. feb 2010: Vantrú leggjur inn kærur sínar, þrjár að tölu, til HÍ (og hér er rétt að benda á að enginn véfengir rétt Vantrúar til að leggja fram kærur, frekar en að vefengdur sé réttur formanns Siðanefndar HÍ til að segja sig frá málinu eða réttur Bjarna Randvers til að ráða sér lögfræðing, þegar horfði í óefni).

    -Vantrúarmenn fá eflaust fljótlega eftir 4. feb. 2010 að heyra að formaður siðanefndar HÍ sé ekki á landinu og ekki væntanlegur fyrr en 25, mars, þ.e. eftir 1 mán. og 3 vikur. Vart fari siðanefndin að fjalla formlega um málin fyrir þann tíma, þótt einstaka siðanefndarmenn – sem og aðrir innan HÍ, sem fá kærur í hendur, gætu kynnt sér málefni þess smáfélags betur í millitíðinni. Hvar er líklegast að það verði gert? Jú, með því að bregða sér inn á vef félagsins og kynnast því nánar.

    2) 10.feb. – 4. mars 2010: Félagið Vantrú heldur úti rækilegri umfjöllun um hina klöguðu glærupakka (með eigin túlkunum og athugasemdum, ekki hvað síst frá félagsmönnum). Kynning glærupakkanna er í 11 hlutum, sem eru vísvitandi “stigvaxandi”, þ.e. þegar kvartað er undan að ekki sé margt merkilegt eða gagnrýnivert að finna einn daginn, þá koma svör á borð við: “Bíðið og sjáið hvað kemur næst.” Miðað við tímasetningarnar, þá hafa birst svona umfjallanir um glærurnar á vef Vantrúar á u.þ.b. tveggja daga fresti að meðaltali.

    -þá spyr maður sig: Hverjum voru þessar uppblásnu glærukynningar ætlaðar? Varla Vantrúarmönnum sjálfum, sem sátu jú margir eða flestir á rökstólum inni á sínum leyniþræði, gjörþekktu efnið og réðu ráðum um hvernig staðið yrði að. Áttu viðtakendur umfjöllunarinnar þá hugsanlega að vera tilfallandi lesendur, sem álpuðust af tilviljun inn á vefinn um þetta leyti? Hugsanlega. En þegar dagsetningin er skoðuð í ljósi tímasetningu kæranna nokkrum dögum fyrr og í þeirri vitneskju að nokkuð langur tími liði að heimkomu formanns siðanefndar (25. mars), kann þá ekki að vakna grunur um að þetta hafi verið ætlað sem upplýsingar- eða áróðursefni fyrir það HÍ-fólk, sem fáum dögum áður hafði fengið kærurnar í hendur og vildi kynna sér félagið nánar. Þetta hefur, á þessum tíma, verið fyrsta lesefnið á vef Vantrúar, sem mætti ókunnugum er komu inn á vefinn.

    Oftar en einu sinni hef ég séð Vantrúarmenn lýsa því yfir að þeir hefðu viljað fá hlutlaus og fagleg viðbrögð við kærum sínum. Ekki verður séð að sú hugsun samræmist því að halda úti kröftugri málsumfjöllun á sama tíma opinberlega. Eðlilegast hefði maður talið, eftir að kærurnar væru komnar í sinn farveg, að félagið Vantrú léti málið liggja í þagnargildi og leyfði háskólanum að vinna með það, uns lausn fengist. Þessi mikilfenglega 11 glærupakka sýning gefur framgöngu Vantrúar í málinu öllu töluvert yfirbragð herferðar, til að keyra málið í gegn af fullum þunga. Hvort sú herferð hafi verið eðlileg á ég dálítið erfitt með að dæma um. En mér sýnist ekki, þar sem mér finnst hún virka bæði siðferðilega vafasöm og hefur getað truflað framgang málsins innan HÍ. Sjálfsagt dæmir þó hver fyrir sig.
    —–
    Í lokin, Harpa: Þú settir strangar reglur í upphafi um að athugasemdafærendur tjáðu sig undir fullu nafni. Ég fæ ekki séð að “Þorvaldur lyftustjór” (!) uppfylli þau skilyrði. Hvurslags ívilnanir og forréttindi eru það, sem þessi “bellboy” nýtur? Ber ekki að eliminera hans athugasemdir, til að gæta samræmdra reglna?:) Eða er hann á sérsamningum?:)

  11. Sæl Harpa

    Mig langar bara að skjóta því að, vegna ummæla hér í athugasemdum, að þegar horft er á málið frá annarri hlið er sannarlega ýmislegt hæft í ásökununum. Ég hef snúið gallhörðum andstæðingum Vantrúar yfir í að taka undir það. Það blasir að mér finnst við í sumum dæmunum að væru þessar glærur ætlaðar sem almenn kynning á Vantrú eru þær bæði undarlegar og illa unnar.

    En í öðru samhengi og í öðrum tilgangi er alveg ljóst að vægi þeirra atriða sem kvartað er yfir getur verið afar lítið, þótt einstökum meðlimum félagsins hafi sannarlega þótt dregin upp sérkennileg mynd af þeim fyrir framan heilu bekkina af háskólanemum.

    Sjálfur er ég þó fyrst og fremst að átta mig betur og betur á því að málið fær allt annan blæ þegar það er skoðað með hliðsjón af því hvernig regluverk HÍ er hugsað og hvernig menn þeim megin kunna að hafa upplifað aðgerðir Vantrúar.

    Ég var félagi í Vantrú þegar málið fór af stað, en kom ekkert að því, eiginlega af því ég var nýr í félaginu og kom sjálfur nánast ekkert við sögu í málinu – þótt nafn mitt hafi víst komið fyrir í löngu skýrslunni hans BR. Ég hætti í félaginu í október í fyrra af ótengdum ástæðum og hef því ekkert með málið að gera. En við ræddum það ítrekað á innri vefnum að hugmyndin væri ekki sú að Bjarni Randver færi illa út úr málinu – heldur aðeins að formlega væri viðurkennt að sitthvað væri að þessum kennslugögnum. Það var a.m.k. mín upplifun þá.

    Tilhæfulausar voru kærurnar ekki. A.m.k. ekki eins og þær birtust Vantrú. En að því gefnu að aðeins ósáttir nemendur og kennarar hafi rétt til að leggja dóm á kennslugögn má þó vitaskuld segja að túlkun Vantrúar komi málinu ekki við. Ég veit hinsvegar ekki hversu rétt það er að líta þannig á – þótt sú nálgun hljómi vissulega skynsamlega að einhverju marki.

    Ég hefði engu að síður haldið að þótt sú regla sé látin gilda verði það alltaf að vera mögulegt fyrir utanaðkomandi aðila að kæra kennsluefni, sé alvarleg villa í því (kannski hættuleg villa af einhverju tagi). Sá gluggi hlýtur í raun að standa opinn af einhverri ástæðu (Vantrú gat kært) og siðanefnd hlýtur því að sama skapi að eiga að hafa burði til að taka á slíkum kærum af ákveðni, án þess að láta þær dragast á langinn og ógna einstökum kennurum, nema kæran þyki á rökum reist. Hefði nefndin staðið undir þeirri ábyrgð hefði mál Vantrúar kannski alls ekki þurft að verða svona ofsalega leiðinlega þvælt.

  12. Helgi: Má ég ekki vitna í þig í þarnæstu færslu? Þú orðar svo ljómandi vel akkúrat hluta af umfjöllunarefninu þar (enn ósaminn). Eins og þú rekur málin hljóma staðhæfingar þess efnis að kærurnar hafi bara verið “einlæg tilraun til að fá úr því skorið innan HÍ hvort efnið sem um ræðir sé ekki einkennilegt kennsluefni” álíka trúlega og orð Arinbjarnar, þegar hann segir við Eirík blóðexi í Jórvík: “[…] en Egill er engi ertingamaður.”

    Æi, veistu að ég tók ekki einu sinni eftir því að hann Þorvaldur stórvinur minn hefði sloppið með viðurnefnið eitt (sem er raunar mjög prívat viðurnefni og ég efast um að margir þekki það). Hann er reyndar í sérstöku uppáhaldi … en annars heitir hann fullu nafni Þorvaldur Sigurðsson.

    Ég set inn aðra færslu um glærurnar og kærurnar einhvern tíma seinnipartinn á morgun. Það er hundleiðinlegt að fjalla um þetta en nauðsynlegt upp á samhengið 😉 Langar beinar tilvitnanir gera sig ekki vel á bloggi en mitt blogg gúgglast prýðilega og þessi samantekt ætti því að þjóna þeim sem ekki eru áskrifendur að Morgunblaðinu (þar sem þessum málum voru gerð mjög góð skil í byrjun desember).

  13. Kristinn: Kærar þakkir fyrir athugasemdina. Það er ánægjulegt til þess að vita að hugmyndin var ekki sú, skv. lokaða spjallinu, að Bjarni Randver færi illa út úr málinu. Spurningin er þá hver átti þá hugmynd og hvar var hún sett fram? Með þessu er ég að vísa til fjölda rógsgreina (bloggfærslna) um Bjarna Randver, samsetta mynd sem Vantrú birti þar sem hann er táknrænt jarðsettur fyrir framan Háskóla Íslands o.fl.

    Þú segir: “Tilhæfulausar voru kærurnar ekki. A.m.k. ekki eins og þær birtust Vantrú. En að því gefnu að aðeins ósáttir nemendur og kennarar hafi rétt til að leggja dóm á kennslugögn má þó vitaskuld segja að túlkun Vantrúar komi málinu ekki við. Ég veit hinsvegar ekki hversu rétt það er að líta þannig á – þótt sú nálgun hljómi vissulega skynsamlega að einhverju marki.

    Ég hefði engu að síður haldið að þótt sú regla sé látin gilda verði það alltaf að vera mögulegt fyrir utanaðkomandi aðila að kæra kennsluefni, sé alvarleg villa í því (kannski hættuleg villa af einhverju tagi).”

    Ég er ósammála þér um fyrra atriðið. Það var tilhæfulaust að kæra þessar glærur til siðanefndar, m.a. með orðunum: “Við teljum efnisval og efnistök Bjarna Randvers siðlaus [—] Við förum fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið í ljósi þeirra athugasemda sem við komum hér á framfæri.” Fyrir utan það að “siðferði kennsluefnis” þykir mér dálítið fyndin hugmynd 😉 Beinast lá við að Vantrú kvartaði við kennarann eða guðfræði- og trúarbragðafræðideild, eins og Bjarni Randver og Pétur Pétursson deildarforseti héldu í fyrstu að hefði einungis verið gert og voru þegar tilbúnir að koma til móts við Vantrú. Enda eru athugasemdir Vantrúar fremur léttvægar og margar byggðar á vanþekkingu og misskilningi sem auðveldlega hefði mátt eyða ef vilji til friðsamlegra samræðna var fyrir hendi.

    Ég er hins vegar sammála þér um síðarnefnda atriðið. Utanaðkomandi aðilar eiga að geta kært kennsluefni til siðanefndar ef ástæða er til. En ég held að það væri bara í miklum undantekningartilvikum sem slíkt ætti við. Sömu utanaðkomandi þyrftu þá væntanlega að hafa mjög góða þekkingu á því sem þeir eru að kæra, þ.e. einhverjar forsendur til að meta hvort kæruefnið er réttmætt. Mætti ímynda sér að áburðarverksmiðja yrði þess áskynja að í einhverjum kúrsi væri beinlínis verið að kenna nemendum að búa til sprengjur úr áburðinum sem verksmiðjan framleiddi og hvetja nemendur til að koma þeim fyrir á ákveðnum stöðum til á kála einhverjum (ef við veljum hættulegt dæmi eins og þú stakkst upp á).

    Umfjöllun mín um klögumál Vantrúar hefur til þessa miðast við að reyna að meta hvort kæran til siðanefndar (og rektors) var réttmæt. Í því sambandi skiptir stærð eða eðli félagsins sem kærði engu máli. En eins og varð ljóst strax í fyrstu færslu tel ég ekki að þessi kæra hafi heyrt undir siðanefnd af því hin kærðu atriði brjóta ekki gegn siðareglum Háskóla Íslands. Kæra Vantrúar til siðanefndar var ekki réttmæt að mínu mati.

    Ég er hjartanlega sammála þér í að “siðanefnd hlýtur því að sama skapi að eiga að hafa burði til að taka á slíkum kærum af ákveðni, án þess að láta þær dragast á langinn og ógna einstökum kennurum, nema kæran þyki á rökum reist. Hefði nefndin staðið undir þeirri ábyrgð hefði mál Vantrúar kannski alls ekki þurft að verða svona ofsalega leiðinlega þvælt.” Málið er að siðanefnd fór ekki eftir eigin starfsreglum.

    Hvers vegna hún gerði það ekki verður tilefni til vangaveltna í einhverri af næstu færslum, sem og aðgerðir Vantrúar meðan málið var enn hjá siðanefnd og eftir að Vantrú dró kæruna til baka.

  14. Jæja. Gott og vel.

    Það sem ég á við er að flestir virðast mér að glærunum og forsendum Vantrúar skoðuðum fallast á að eðlilegt hafi verið að kvarta – og kvörtunin í þeim skilningi ekki tilhæfulaus (nema kannski til siðanefndar).

    Hinsvegar hefur líklega verið farið full geyst og klaufalega í að kæra málið strax (samtímis) til siðanefndar og fjalla mikið um málið á vefnum.

    Að mörgu leyti lygilega ergilegt mál.

  15. Helgi Ingólfsson on January 23, 2012 at 09:22 said:

    Kristinn: Ég tel vægt til orða tekið að kalla þetta “lygilega ergilegt mál”. Ég mundi frekar lýsa þessu sem harmleik, þar sem margir hafa hlotið skaða af, vegna þess hversu geyst var af stað farið af hálfu félagsins Vantrúar, og hvernig málinu var haldið til streitu um langan tíma. Ekki bara hefur Vantrú glatað trúverðugleika, heldur hefur Bjarni Randver, sem og hákólasamfélagið allt, hlotið óbætanlegan skaða. Jafnvel saklaus aðili eins og félagið Siðmennt hefur líklega einnig orðið fyrir álitshnekki að ósekju, því að ýmsir óupplýstir úti í samfélaginu (hef ég orðið var við) rugla saman eða gera ekki greinarmun á Vantrú og Siðmennt.

    —–
    Harpa: Þú mátt að sjálfsögðu vitna í mig.:) En gættu þess þó að ég hef fyrirvara á orðum mínum.
    —–

    Annars verð ég að segja að mér finnst allur málatilbúnaður Vantrúar orðinn nánast fullkomlega ótrúverðugur í málinu, eftir að Brynjólfur Þorvarðarson, fyrrum félagi í Vantrú, lýsti því heiðarlega (í færslu Hörpu 16. jan 2012, “Vantrú”, aths. 22) hvernig félagið komi honum fyrir sjónir. Hann telur að félagið Vantrú sé “hópur manna sem eru reiðubúnir til að láta í ljósi skoðanir sem eru á mörkum þess sem umræða um trúmál leyfir, jafnvel handan markanna. Maður getur því sagt með vissri réttlætingu að Vantrú séu öfgasamtök í ákveðnum skilningi, róttæk og harðfylgin í umræðu. Eitt af markmiðum margra okkar er að færa mörk umræðunnar, opna fyrir svið umræðu sem áður voru lokuð af ýmsum ástæðum…”

    Þessi yfirlýsing ein og sér ætti að nægja til þess að menn ættu að fara hægt í sakirnar með að telja málflutning félagsins Vantrúar allan þar sem hann er séður.

  16. Helgi Ingólfsson

    Ég held þú lesir of mikið í þessi orð Brynjólfs. Hann á bara við að samfélagið hafi ákveðinn ramma utan um trúarbrögð sem stíga þurfi út fyrir til að breyta hlutunum. Svona svipað eins og þegar femínistar gagnrýna normið og öllum þykir það skrýtið og öfgakennt.

  17. Í sambandi við umræðu Kristins og Helga hér að ofan langar mig að benda á dæmi um að félagar í Vantrú, eins og Brynjólfur Þorvarðarson, lýsa ekki bara yfir því að Vantrúarmenn séu “reiðubúnir til að láta í ljósi skoðanir sem eru á mörkum þess sem umræða um trúmál leyfir, jafnvel handan markanna” heldur eru þeir líka tilbúnir til að seilast ansi langt í túlkun á því sem aðrir segja, túlka jafnvel “handan markanna”?

    Talsverður styrr stóð um svokallaða “vinaleið” sem boðið var upp á í grunnskólum á Álftanesi og í Garðabæ veturinn 2006-2007. Verkefnið var fjármagnað af þjóðkirkjunni og í Garðabæ lagði einnig aðstandandi nemanda fé til verkefnisins. Verkefnið fólst í því að djákni eða prestur kom á ákveðnum tímum í skólann og var til viðtals fyrir þá nemendur sem óskuðu eftir því. Siðmennt og Vantrú mótmæltu þessu verkefni mjög og að sögn fyrrverandi stjórnarmanns í Vantrú er félagið mjög stolt af því að hafa slátrað vinaleiðinni. Sjónarmið þess foreldris sem harðast kvartaði, Reynis Harðarsonar, má lesa í greininni Ég panta mat.

    Vorið 2007 samþykkti bæjarráð Garðabæjar, að tillögu deildarstjóra skóladeildar bæjarins, að láta óháðan aðila taka út verkið.  Það var gert og má skoða skýrsluna hér. Lausleg skoðun leiðir í ljós að niðurstöðurnar eru almennt mjög jákvæðar en síðan benda skýrsluhöfundar á mögulegar úrbætur á því sem miður þótti fara.

    Þótt niðurstöður skýrslunnar séu jákvæðar ákvað Vantrú að túlka hana neikvætt, sjá Skýrslan fær falleinkunn. Þegar bent er á, í umræðuþræði, að niðurstöður skýrslunnar séu jákvæðar svarar Brynjólfur Þorvarðarson:

    “Arnar, þegar maður les skýrsluna þá verður að kafa aðeins undir yfirborðið. Maður verður að muna að stuðningsmenn vinaleiðar báðu um skýrsluna og komu að vinnslu hennar, t.d. fengu að lesa hana yfir og koma með breytingartillögur áður en hún var sett fram í endanlegu formi.

    Það er 5. kaflinn sem er aðal kaflinn. Þar koma skýrsluhöfundar með eigin skoðanir og niðurstöður. Þegar maður svo les hina kaflana aftur þá má sjá að það sem vel tókst til var fyrst og fremst prestinum persónulega að þakka. Innan um alla mærðina er að finna alvarlegar athugasemdir kennara og skólastjórnenda og sérstaklega virðist hafa heppnast illa til hjá djáknanum, hún virðist ekki hafa staðið sig vel sem mér sýnist aðallega vera vegna skorts á reynslu og fagmenntun.

    Maður þarf að kunna að lesa svona skýrslur. Höfundar setja í raun fram afarkosti fyrir framhaldi vinaleiðar og gera alvarlegar athugasemdir, en það er falið undir fallegu yfirborði.”

    Ég er greinilega ekki jafn dugleg í djúpköfunartúlkun og Brynjólfur og sé alls ekki annað úr skýrslunni en almenna ánægju með verkefnið. Það sem mér finnst þetta dæmi sýna nokkuð vel er:

    * Óánægja Vantrúarfélaga yfir að ekki var talað við hann/þá heldur einhverja aðra;
    * Hneigð sumra Vantrúarfélaga til að sjá samsæri í hverju horni (í þessu tilviki sjá þeir þjóðkirkjuna standa að baki úttekt sem bæjarráð Garðabæjar samþykkti og greiddi fyrir);
    * Hneigð sumra Vantrúarfélaga til að túlka sem flest sér í vil (jafnvel þótt túlkunin gangi lengra en hörðustu Kristevu-fylgjendur myndu gera, kalla slíkir þó ekki allt ömmu sína í túlkun).

  18. Helgi Ingólfsson on January 23, 2012 at 15:33 said:

    Kristinn Theódorsson (aths. 19):

    Ég leyfi orðum Brynjólfs að tala fyrir sig sjálf (aths 18). Þú hins vegar túlkar og “segir okkur hvað hann á við”. Eigum við ekki bara að leyfa fólki sjálfu að lesa orð hans?

  19. Afsakaðu, Helgi. Vissulega er það Brynjólfs sjálfs að útlista hvað hann á við með þessum orðum.

    Sjálfur er ég nú dálítið á þessari línu og held að samfélagið geti ómögulega upplifað svona baráttu öðruvísi en sem brot á óformlegum reglum um að virða eigi trú og trúarbrögð. Til þess að búa til rými fyrir heiðarlega umræðu um þau mál þarf því að þverbrjóta þær reglur – án þess þó að menn séu þar með orðnir nein skrímsli að öðru leyti.

    Ég held þetta snúist um þetta atriði. En mér kann að skjátlast.

  20. Helgi Ingólfsson on January 24, 2012 at 12:21 said:

    Sæll Kristinn (aths. 22) og þakka þér svarið, sem og fyrir skemmtilega bloggsíðu.

    Í mínum huga snýst “barátta” Vantrúar ekki bara um að brjóta “óformlegar reglur” (=ímyndaðar reglur? vindmyllur?) um að virða eigi trú og trúarbrögð, heldur sýnist mér hún oft hafa snúist um að virða ekki skoðanir annarra (með miklu víðari skírskotun), meðan Vantrúarmenn sjálfir – a.m.k. sumir hverjir – halda fram einstrengingslegum viðhorfum. Þeir gagnrýna andmælendur sína oft fyrir “að taka ekki rökum”, sem þýðir einfaldlega “að taka ekki rökum þeirra sjálfra, Vantrúarmanna”, en ég sé þá sjálfa ekki oft taka rökum annarra. Rök Vantrúarmanna vilja verða “hin eina rétta trú”, lítt hagganleg, sem leiðir oft af sér argaþras og vill jafnvel stigmagnast upp í persónulegan skæting, sem margir þeirra veigra sér ekki við.

    Þannig fæ ég ekki séð að þeir séu að búa til “rými fyrir heiðarlega umræðu” – þeir skapa fyrst og fremst þras, og þrífast ágætlega á því. Það að tala um “baráttu” félagsins Vantrúar fremur en t.d. “stefnumál” finnst mér einnig segja töluvert um félagsskapinn – er ekki eðlilegt að skoða kærur Vantrúar til HÍ í ljósi þess að þetta er “baráttuhópur”? Þá finnast mér sumir félagsmenn einkennilega hörundsárir og taka gagnrýni á félagið æði persónulega – sem raunar styður þá skoðun að það lúti forystu tiltekins “eigendahóps”. Þannig er fjarvera helstu stjórnarmanna félagsins í allri hinni heitu umræðu um það að undanförnu afskaplega áberandi – menn sem fóru fremstir í flokki við að fylgja eftir klögumálum HÍ virðast horfnir af yfirborði jarðar, en einhverjir allt aðrir (óábyrgir?) í því hlutverki að svara fyrir félagið. Og þessir menn verja félag sitt með oddi og egg, á nokkuð svipuðum nótum og þegar sértrúarmenn verja sértrúarsöfnuð sinn. Vantrúarmenn virðast haldnir slíkri tröllatrú á vísindin, að ef orðið “Vísindakirkja” væri ekki frátekið fyrir annan söfnuð, þá gæti það líklega átt heima þarna.

    Ég held að flestum sé orðið ljóst að félagið Vantrú er aktivistahópur trúleysingja. Þeir setja sjálfir sínar siðareglur, sem virðast felast meðal annars í því að hæðast má að eða lítilsvirða má andstæðinginn – en bregðast sjálfir ókvæða við, ef þeir verða fyrir því sama. Ójafn leikur, eins og ég hef áður sagt.

    Ég hef aldrei talið neinn Vantrúarmann skrímsli. Þvert á móti veit ég af nokkrum góðum drengjum í þeirra röðum. Hins vegar hef ég mætt óheiðarleika, ógnum og ófyrirleitinnar framkomu af hendi sumra Vantrúarmanna. Í þeim efnum eiga þeir til að stunda hópefli, til að peppa hverjir aðra upp. Ég verð seint talinn vinur félagsskapar, sem virðist telja slík vinnubrögð líðandi og átelur þau ekki.

    Með vinsemd og virðingu – og mér kann líka að skjátlast um sumt ofangreint.:)

    Helgi Ing

    P.S: Ég er hrifinn af bloggsíðu þinni, ekki endilega vegna þess að ég er alltaf sammála skoðunum þínum (sem ég þó er oft), heldur vegna hins að þér tekst oft að bregða upp óvæntum vinkli á málefni.

  21. Sveinn Þórhallsson on January 25, 2012 at 01:12 said:

    “(Vantrú kallar reyndar námskeiðið „áfanga“ undir lok sinna bréfa, sem gæti mögulega bent til þess að félagsmönnum sé ekki alveg ljós munurinn á framhaldsskólakennslu og háskólakennslu.)”

    Haha, hvaða rugl er þetta?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation