Bardagaaðferðir Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni

Tilkynning 1. febrúar 2012: Nú er ég búin að fletta upp nokkrum Hæstaréttardómum og sé ekki betur en mér sé heimilt að vitna í tilvitnanir í tilvitnanir í það sem Vantrú kallar innra spjallið. Sérstaklega áhugaverðir dómar í þessu sambandi er dómur nr. 472/2008, þar sem staða jafningjanets er að nokkru skilgreind í lagalegu tilliti, og dómur nr. 541/2005, sem fjallar um friðhelgi einkalífs versus rétt til að birta upplýsingar sem varða almenning. Ég kem því bloggfærslunum tveimur í fyrra horf, þ.e. set aftur inn tilvitnanir í tilvitnanir í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Þær eru auðkenndar með rauðum lit. Sem fyrr er heimild mín fyrir tilvitnunum í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ á spjallborði Vantrúar, sem einungis félagar í Vantrúar höfðu aðgang að (á annað hundrað manns), skjalið Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er vinnuskjal sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í. Þetta sama skjal er líka meginheimild mín fyrir hvaða umfjöllun Vantrú reyndi og tókst að ná í fjölmiðlum.

Eins og nefnt var í færslunni Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti sendi Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, áríðandi tilkynningu þann 12. febrúar 2010 á lokað spjall félagsins þar sem lýst var yfir heilögu stríði á „hendur Bjarna Randveri og Guðfræði í Háskóla Íslands. […] Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn.“ (Sjá skjámynd af ummælunum á síðu Vantrúar. Feitletrun í tilvitnun er mín.) Þetta var átta dögum eftir að Reynir hafði afhenti þrjú kærubréf til aðila í Háskóla Íslands, þ.e. rektor, forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og siðanefnd HÍ. Í þessari færslu verður stiklað á stóru yfir hið heilaga stríð, þ.e.a.s. hvernig félagið Vantrú beitti sér í því.

Eftir því sem næst verður komist var það heldur fámennur hópur sem lagði á ráðin um hvernig baráttan færi fram en sú ráðagerð fór fram á lokuðu spjalli félagsins sem á annað hundrað félaga í Vantrú höfðu aðgang að. Umræðuþráðurinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ var laust eftir miðjan september 2010 orðinn mjög langur, hátt í 600 síður í útprenti. Bloggfærslu Matthíasar Ásgeirssonar á eigin bloggi, Fólk að missa sig, sem birtist 5. desember 2011, fylgir mynd sem á að sýna fjölda ummæla á þessum þræði til samanburðar við ummæli á öðrum þráðum á lokuðu spjallborði Vantrúar. Þetta er óskýr mynd og erfitt að lesa úr henni. Sé haft í huga að í febrúar 2010 birtust yfir 280 skilaboð á umræddum þræði sýnir myndin kannski helst hve óskaplega duglegir þessir 120-130 áskrifendur að lokaða spjallborðinu eru að tjá sig feikimikið um fjöldamargt 😉 Enn áhugaverðara hefði verið að sjá líka hve margir rituðu skilaboð á þráðinn um Bjarna Randver eða öllu heldur fáir, ég hef ástæðu til að ætla að einungis fáir Vantrúarfélagar séu höfundar megnisins af því sem ritað var þennan þráð.
 

Hvernig skipulagði félagið Vantrú sitt „heilaga stríð“?

Allar tilvitnanir í lokaðan umfræðuþráð Vantrúar, „Söguskoðun Bjarna Randvers“, eru fengnar úr skjalinu Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010), vinnuskjali sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í. 
 

* Forsvarsmenn Vantrúar ákváðu að hæðast að Bjarna Randveri og „jarða hann“, áður en kærurnar voru sendar.

Áður en kærubréfin voru send var þegar farið að leggja á ráðin á fyrrnefndum umræðuþræði á lokuðu spjalli Vantrúar um hvernig „gullnáman“ hans Óla Gneista Sóleyjarsonar, formanns Vantrúar árið 2009, yrði nú best nýtt. Reynir Harðarson sálfræðingur tók við formennsku í Vantrú laust eftir áramót 2010. Dæmi um þessar ráðagerðir eru:

  • 2. október 2009:  Óli Gneisti Sóleyjarson formaður Vantrúar 2009  hvetur til þess á innri vefnum að Bjarni Randver Sigurvinsson sé hæddur á netinu. Þórður Ingvarsson, ritstjóri vefs Vantrúar, talar um að gefa honum „hressilegt pungspark“.
  • 26. janúar 2010: Hjörtur Brynjarsson vantrúarfélagi segir á innri vef Vantrúar að nú sé „um að gera að jarða þennan fávita með háði og alvöru í einni massífri all-out attack“.
  • 27. janúar 2010: Reynir Harðarson sálfræðingur og nýr formaður Vantrúar 2010 segist á innri vefnum hafa ásamt öðrum vantrúarfélögum mælt með „all out attack“ á Bjarna Randver Sigurvinsson og þurfi þeir að skipuleggja hana, m.a. með „einhvern háðs-gjörning“.
  • 29. janúar 2010: Reynir Harðarson sálfræðingur og formaður Vantrúar spyr varðandi Bjarna Randver Sigurvinsson á innri vefnum: „Hvernig hæðumst við best að þessu flóni?

   

„Við munum berjast […] með bréfum“

* Í nafni félagsins Vantrúar voru þrjár sendar kærur samtímis án þess að viðtakendur vissu hver af öðrum. Svo lýst hefur verið í fyrri færslum samdi félagið Vantrú þrjár kærur, dagsettar 4. rómverskur hermaðurfebrúar 2010, til mismunandi aðila innan Háskóla Íslands og voru þær afhentar samdægurs. Rektor framsendi sína kæru til siðanefndar HÍ en Pétur Pétursson, forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, vissi ekki um hinar kærurnar fyrr en þann 18. mars 2010 þegar Þórður Harðarson tilkynnti í misgripum þriðja aðila, Hjalta Hugasyni prófessor við sömu deild, að Vantrú hefði kært Bjarna Randver Sigurvinsson til siðanefndar. (Þórður var staddur erlendis þegar kæran barst siðanefnd og kom til landsins um miðjan mars. Aðrir í siðanefnd áttu að kynna sér erindið á meðan með aðstoð lögfræðinga HÍ, væntanlega sem fulltrúa rektors í málinu. Sjá nánar Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa.)

Siðanefnd HÍ og Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ var teflt gegn gegn Bjarna Randveri samtímis, án þess að þessir aðilar vissu hvor af öðrum, sem verður að teljast ágætlega heppnað herbragð í anda Caesar, þ.e. „deildu og drottnaðu“ (Divide et impera)! Sakborningurinn í málinu, Bjarni Randver, frétti af því að hann hefði verið kærður til siðanefndar þann 18. mars, fékk kæruna í hendurnar rúmum þremur mánuðum eftir að hann var kærður og var ekki boðaður á fund siðanefndar fyrr en tæpum átta mánuðum síðar. (Þannig má segja að sjálfur sakborningurinn hafi verið álitinn algert aukaatriði af hálfu siðanefndar Háskóla Íslands.)

* Þegar félagið Vantrú tók að lengja eftir svörum voru send rukkunarbréf til Péturs Péturssonar forseta guðfræði- og trúarbragðafélagadeildar og Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors (en af því Reynir Harðarson formaður Vantrúar og Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ áttu í talsverðum prívat samskiptum, eins og nánar verður gerð grein fyrir síðar, var ekki bréfleiðis hamrað á siðanefnd fyrsta kastið). Sem dæmi um slík bréf má taka:
 

  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 6. febrúar 2010: „[…] Vonandi hefur þú áttað þig á alvöru málsins og að ljósi hennar duga engin vettlingatök í þessu máli eða silkihanskar.“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 9. febrúar 2010: „Hvenær megum við búast við fyrstu viðbrögðum deildarforseta við erindi okkar?“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 12. febrúar 2010: „Gott að þér miðar með þetta. [- – -]“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 24. febrúar 2010: „Nú eru ellefu dagar síðan ég heyrði síðast frá þér og enn hefurðu í engu svarað síðasta pósti. [- – – ] Þarftu virkilega mikið lengri tíma til að átta þig á hvort athugasemdir okkar krefjast ekki einhverra viðbragða eða vefjast viðbrögðin fyrir þér?“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 5. mars 2010: „Enn bíðum við eftir viðbrögðum og svörum. [- – -] Ég á a.m.k. afar bágt með að skilja þennan seinagang og þögn og mér þætti vænt um að fá útskýringar á hvoru tveggja … nú, eða bara viðbrögð við erindinu.“
  • Reynir Harðarson til Péturs Péturssonar, tölvupóstur 8. apríl 2010: „Er komið annað hljóð í strokkinn með aðkomu siðanefndar? Finnst þér ástæða til að ræða málin?“

 (Heimild mín fyrir þessu er skjalið Gögn frá Vantrú. Samantekt á nokkrum mikilvægum gögnum í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal en ég hef leyfi Bjarna Randvers Sigurvinssonar til að vitna í það.)
 
 

„Við munum berjast á vefnum […]“
 

* Bardagi félagsins Vantrúar á Vefnum var strax mjög áberandi. Fyrsta greinin gegn Bjarna Randveri og guðfræði- og trúarbragðafræðideild birtist á vef Vantrúar þann 15. febrúar 2010, I. Guðfræði í Háskóla Íslands : Fúsk, fáfræði eða fordómar og var fylgt eftir strax daginn eftir með annarri grein. Á tæpum þremur vikum frá miðjum febrúar 2010 birti Vantrú 11 greinar gegn sínum andstæðingi í heilaga stríðinu og spöruðu félagar ekki stóru orðin, hvorki í greinaskrifum né á umræðuþráðum. „Bara á vef Vantrúar einum eru útprentaðar blaðsíður af umfjölluninni 221 talsins fyrsta mánuðinn en vantrúarfélagar fylgja skrifunum eftir víða um netheima.“ (Fyrrnefnd Tímatafla Bjarna Randvers við dags. 12. febrúar 2010. Birt með leyfi Bjarna Randvers.)

Þótt félagið Vantrú hafi vissulega fylgt dyggilega eftir áætlun sinni um að „berjast á vefnum“ fannst Matthíasi Ásgeirssyni, fyrrverandi formanni Vantrúar og dyggum bréfritara á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“, skv. heimildum mínum, hreint ekki að stigið væri þungt til jarðar í herferðinni. Í færslunni Skondnir trúvarnarmenn á bloggi Matthíasar, Örvitanum, segir þann 26. febrúar 2010: „Þegar Vantrú hóf umfjöllun um glærur úr námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar mættu nokkrir trúmenn og gagnrýndu Vantrú harðlega þó ekkert hefði komið fram af því sem við gagnrýnum, við fórum einfaldlega rólega af stað.“ (Feitletrun í tilvitnun er mín.)

* hæðni Stjórn Vantrúar og einstaka félagsmenn gerðu sitt best til að „hæða“ sinn meinta andstæðing. Einn hluti þessa háðs var að útbúa mynd af Bjarna Randveri þar sem hann er táknrænt jarðsettur fyrir framan Háskóla Íslands og ýmis fúkyrði (sem raunar eru beinar tilvitnanir í skrif félaga í Vantrú) virðast streyma frá honum. Sjá má myndina á færslu ritstjórnar Vantrúar þann 12. febrúar 2010, Hvað er verið að kenna þarna í guðfræðideildinni?, þ.e. sama dag og Reynir Harðarson birti hina áríðandi tilkynningu um að hafið væri heilagt stríð gegn Bjarna Randveri og guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Forsvarsmenn Vantrúar eru hrifnir af sinni mynd því þeir endurbirtu hana t.d. á Þrautarmein Háskóla Íslands, grein á vef Vantrúar frá 5. maí 2011, og hafa e.t.v. endurbirt víðar. Ég geri ráð fyrir að listamaðurinn í stjórn Vantrúar, Þórður Ingvarsson, eigi heiðurinn af þessari fótósjoppuðu mynd.

Í þessari bloggfærslu er engan veginn hægt að gera ítarlega grein fyrir bloggfærslum einstakra félaga í Vantrú gegn Bjarna Randveri Sigurðssyni né öllum skrifum á vef félagsins Vantrú (um er að ræða óhóflegt magn slíkra skrifa). Hér að ofan voru einungis nefnd örfá dæmi. Vísað verður í fleiri dæmi síðar eftir því sem tilefni gefst til.
 

Málsvörn félaga og fylgjenda Vantrúar frá því farið var að kalla aðgerðir þeirra gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni einelti hefur í æ ríkari mæli byggst á skefjalaum úrdrætti, t.d. að þeir hafi alls ekki kært manninn og í rauninni hafi þetta verið frekar meinlaust erindi til siðanefndar, rektors og guðfræði-og trúarbragðafræðideildar, þar sem þeir fóru einungis fram á að viss atriði yrðu athuguð. Í ljósi þess að Vantrú datt ekki eitt augnablik í hug að bíða eftir úrskurði neins þessara aðila heldur hóf umsvifalaust fyrirfram skipulagða harða árás á Bjarna Randver á sínum vef og á bloggum félagsmanna (mest áberandi þar eru þeir Matthías Ásgeirsson og Þórður Ingvarsson) er fáránlegt að láta sér detta í hug að félagið Vantrú hafi upphaflega verið í sáttahug eða haft raunverulegan áhuga á að þessi yfirvöld sem kært var til gætu athugað málavexti í friði.
 
 
 

Í næstu færslu verður gerð ofurlítil grein fyrir hvernig félagið Vantrú tók að „berjast í fjölmiðlum“ og hvernig „barátta“ þeirra á netinu tók á sig æ ógeðfelldari mynd.

Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.

10 Thoughts on “Bardagaaðferðir Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni

  1. Guðbergur Ísleifsson on January 29, 2012 at 08:56 said:

    Illviljinn, rætnin og fyrirlitningin sem einkennir framgöngu og framkomu Vantrúarfólks í garð þeirra sem þeim er í nöp við tekur á sig skýra mynd í þessari árás á Bjarna Randver (sem Vantrúarfólk var reyndar að vona að yrði líka áfall fyrir guðfræðideild Háskólans).

    Þarna reyndu forkólfar Vantrúar ákveðið og skipulega að traðka niður mannorð Bjarna, eða “jarða” hann eins og þeir orða það, og það var afar athyglisvert að fylgjast með hvernig “óbreyttir” meðlimir Vantrúar fylgdu foringjunum skilyrðislaust eftir í málinu, átu upp það sem þeir sögðu og dreifðu því.

    Þessi hjarðhegðun meðlima Vantrúar og gagnrýnislaus foringjahollustan minnir óneitanlega á stækustu sértrúarsöfnuði þar sem fólk er hreint og beint heilaþvegið af foringjadýrkun og “boðskapnum”.

    Sjálfur hef ég líkt þessum hóp við nokkurs konar úlfa- og hýenuhóp. Úlfarnir ákveða á hvern skal ráðist hverju sinni og hýenuhópurinn stekkur fram eftir bendingum til að rífa fórnarlömbin í sig. Og þótt árásin á Bjarna sé sú árás sem mesta athygli hefur vakið er Bjarni langt frá því að vera sá fyrsti sem Vantrúarhópurinn ræðst á og ekki sá síðasti ef miðað er við viðbrögð Vantrúarforkólfanna eftir að málið kom upp. Þar viðurkennir enginn forkólfana neina sök heldur reyna enn sem fyrr að útmála þá sem gagnrýna framgöngu þeirra sem hálfvita og veikt fólk.

    Og undir þetta tekur hjörðin, algjörlega blind á báðum. Alveg ótrúlegt.

    Ég vona bara að þessi umfjöllun þín Harpa, fái þá sem ekki hafa enn uppgötvað innra eðli Vantrúarhópsins til að opna augun fyrir þessu fyrirbrigði sem að mínu mati er ekkert annað en þjóðfélagsleg meinsemd sem hefur ekkert annað markmið en að ala á hatri, heift og mannfyrirlitningu í samfélaginu.

    Og mér finnst alveg með ólíkindum að Reynir Harðarson, sálfræðingur, skuli enn þegja þunnu hljóði um aðkomu sína að málinu þar sem hann var í framvarðasveit Vantrúar þegar árásin á Bjarna var gerð og átti stóran þátt í að skipuleggja hana. Hann er enn formaður þessa stæka öfgahóps, Vantrúar, þar sem persónuárásir þykja sjálfsagðar til að ná fram markmiðum, en um leið starfsmaður Barnaverndar, skilst mér. Ég segi það fyrir mig að þessi tvö hlutverk/störf finnst mér ekki fara saman.

  2. Ég er sammála því að þessi áætlun Vantrúar sem síðar var hrint í framkvæmd af öllu afli er afar ógeðfelld. Nú hef ég aldrei tekið neitt sérstaklega eftir þessu félagi, Vantrú, fyrr en aðfarir þeirra gegn Bjarna Randveri komust í hámæli svo ég get svo sem ekki tekið afstöðu til þess hvort þetta muni vera “venjuleg” framganga félagsmanna og fylgjenda þeirra gegn einstaklingum. En ég rengi þig ekki.

    Ég titla Reyni jafnan sálfræðing því hann á miklu frægari alnafna sem er tölvuleikjahönnuður. Titillinn er svo þeim verði ekki ruglað saman. Vantrúarfélagi sem hafði samband við mig staðhæfði að nýtt starf Reynis hjá Barnavernd Reykjavíkur útheimti að hann mætti ekki tjá sig opinberlega. E.t.v. er það skýringin á skyndilegri þögn hans í netheimum.

  3. Guðbergur Ísleifsson on January 30, 2012 at 07:47 said:

    Ekki þekki ég reglur Barnaverndar Reykjavíkur varðandi tjáningafrelsi starfsmanna, en einkennilegt þykir mér að fræðimaður eins og Reynir sem hefur orðið uppvís að því að leiða jafn lúalega aðför að öðrum fræðimanni og raun ber vitni í Bjarnamálinu, mælir með “all out attack” á kollega sinn, spyr félaga sína hvernig best megi “hæðast að þessu flóni” og hlakkar svo yfir því að vera búinn að koma “þumalskrúfum” á siðaneffnd Háskólans, skuli ekki þurfa að standa fyrir máli sínu og svara fyrir sinn þátt í þessari árás.

    Enn fremur finnst mér afar undarlegt að formaður öfgasamtaka eins og Vantrúar þar sem mannfyrirlitning er allsráðandi og opinbert viðhorf er að meðlimir þurfi ekki að bera minnstu virðingu fyrir skoðunum eða trú annarra skuli yfir höfuð njóta trausts til að gegna jafnviðkvæmu, opinberu starfi og því sem felst í störfum Barnaverndar.

    Ég hef til dæmis gagnrýnt Vantrú og framgöngu félagsmanna Vantrúar og segi það satt að ekki myndi ég treysta formanni þessa öfgahóps fyrir hlutlausri aðkomu að barnaverndarmáli sem snerti mig eða mína fjölskyldu.

  4. Helgi Ingólfsson on January 30, 2012 at 09:08 said:

    Mig rekur í rogastans.

    Sérstaklega þykja mér fróðlegar þær upplýsingar, sem þú veitir, Harpa, um aðdraganda og undirbúning kærumálanna, með oft óviðfelldnu orðbragði sem oft einkennist af tilvísun til hernaðar og bardaga. Sérstaka athygli mætti e.t.v. vekja á því sem þú segir hér:

    “27. janúar 2010: Reynir Harðarson sálfræðingur og nýr formaður Vantrúar 2010 segist á innri vefnum hafa ásamt öðrum vantrúarfélögum mælt með „all out attack“ á Bjarna Randver Sigurvinsson og þurfi þeir að skipuleggja hana, m.a. með „einhvern háðs-gjörning“.”

    Þetta mun hafa verið rúmri viku áður en erindi Vantrúar voru send inn.
    —–

  5. Brynjólfur Þorvarðar on January 30, 2012 at 12:03 said:

    Þú ert aldeilis dugleg Harpa! Fer þetta ekki að nálgast einelti? 🙂

    Það má ekki gleymast í þessari umræðu að Bjarni Randver hóf leikinn. Þú birtir um daginn, Harpa, glæru frá Bjarna Randver þar sem birtar eru myndir af nokkrum forsprökkum Vantrúar. Ég er þar á mynd og ég verð að segja alveg eins og er að mér sárnaði gríðarlega þessi framkoma Bjarna Randver á sínum tíma, sem og reyndar allt þetta “námsefni” hans þar sem mér fannst ráðist á mínar skoðanir á frekar óvandaðan máta. Og því miður gerði Bjarni Randver þetta að persónulegu máli með því að birta af okkur myndir og nöfn. Vægast sagt mjög ósmekklegt.

    Óvægnar persónulegar árásir eru því miður allt of algengar, sem og málfar sem ber yfirbragð hernaðar og ofbeldis. Slíkt á maður auðvitað ekki að taka of alvarlega, sérstaklega þegar “jábræður” ræða sín á milli. Ég efast stórlega um að málfar Vantrúarmanna sé nokkuð frábrugðið því sem maður myndi heyra ef sæti maður sem fluga á vegg í umræðum t.d. Þjóðkirkjupresta.

    Slík staða kom reyndar upp fyrir nokkrum árum. Af einhverri ástæðu komst Vantrú yfir aðgang að póstlista prestafélagsins og öllum samskiptum sem þar fóru um. Hvernig það atvikaðist veit ég ekki, ég sá lítillega sýnishorn af umræðu á þessum póstlista á sínum tíma og fannst það frekar ómerkilegt blaður – sjálfsagt á svipuðu róli og á öllum slíkum listum. En Vantrú lét prestafélagið umsvifalaust vita af þessum öryggisbresti á póstlistanum og nýtti sér aldrei þennan tímabundna “leyniaðgang” að umræðum prestafélagsins enda hefði það verið í mesta máta ósiðlegt, svo maður tali ekki um ólöglegt.

    Nú sé ég, Harpa, að þú hefur fengið aðgang að lokuðum umræðum á vef Vantrúar og nýtir þér hann óspart í þinni rannsóknarblaðamennsku. Ekki vil ég halda því fram án umhugsunar að slíkt sé ósiðlegt eða ólöglegt. Hér er það auðvitað spurning hvort tilgangurinn helgi meðalið og í blaðamennsku (sérstaklega innan rannsóknarblaðamennsku svokallaðrar) er oft nauðsynlegt að ganga yfir mörk siðferðis til að fullnægja stærra markmiði upplýsingaskyldu og aðhalds.

    Enda get ég ekki séð að þú hafir fundið nokkuð sem við Vantrúarmenn þurfum að skamma okkur fyrir. Ég hafði mig trúlega ekkert í frammi í þessum umræðum, hef verið “í fríi” frá Vantrú í nokkur ár. En ef ég hefði blandað mér í þessar umræður hefði ég eflaust verið stóryrtur og kryddað málfar mitt ýmsum myndlíkingum úr stríðsrekstri og vopnuðum átökum. Enda var ég verulega sár þegar ég sá hvað kennarar í ríkisreknum rannsóknarháskóla leyfðu sér að ganga langt í að ráðast á skoðanir og, jafnvel persónur, mínar og félaga minna.

    En Harpa, þér er sannarlega að takast að koma mér í gang aftur, ætli ég fari ekki að taka meiri þátt í umræðum héðan í frá? Fyrir nokkrum árum ásakaði prestur nokkur mig opinberlega um að vera versti óvinur kristinnar kirkju á Íslandi. Það var mikið hrós þótt ekki ætti ég það skilið. Kannski mér eigi eftir að takast að sanna mig verðugan titilsins, þökk sé þér?

  6. Brynjólfur: Þú hefur greinilega ekki lesið eineltisskilgreiningarnar sem ég benti þér á um daginn. Ein manneskja getur ekki talist leggja félag í einelti þótt hún fjalli um gerðir félagsins eða forsvarsmanna þess. Orðið einelti hefur því miður verið gengisfellt síðustu árin en væri þinn skilningur réttur þýddi það t.d. að ekki mætti fjalla opinberlega um ýmsa fjárglæframenn eða útrásarvíkinga eða fyrirtæki þeirra því slíkt væri þar með einelti.

    Hvað varðar myndbirtingu af forkólfum Vantrúar þá er hún ósköp eðlileg þegar glærurnar eru skoðaðar. Í glærum um unitara er t.d. víða brugðið upp andlitsmyndum til að sýna forystumenn, svo sem unitara á Bretlandseyjum, unitara í Bandaríkjum, vestur-íslenskra unitara o.s.fr. og þeir auðvitað nafngreindir. Sama gildir um fleiri glærusett. Ein ástæðan fyrir því að glærur í námskeiðum HÍ eru yfirleitt lokaðar inni á námskeiðsvef en ekki birtar opinberlega er væntanlega til að komast hjá því að brjóta höfundaréttarlög. Og ég vek athygli á því að aðilinn sem birti þessar glærur opinberlega (í leyfisleysi) var félagið Vantrú en ekki kennarinn Bjarni Randver. Væri skýlaus krafa um að vinnuskjöl eins og glærur virtu höfundarétt í hvívetna myndi nú vandast málið þegar kemur að því að myndskreyta þær. Í ljósi þess sem þú segir sjálfur og fjölda greina eftir þig á vef Vantrúar liggur beint við að telja þig meðal forkólfa Vantrúar. Aftur á móti er þetta ekkert sérstaklega góð mynd af þér, miðað við nýrri myndir á Facebook, en þú getur auðvitað sent Bjarna Randveri nýrri mynd og beðið hann að skipta næst þegar hann kennir námskeiðið 🙂

    Eins og þú hefur væntanlega tekið eftir vitna ég hvergi beint í lokaðan spjallþráð Vantrúar. Ég vitna í tilvitnanir Bjarna Randvers í skjölum hans. Þannig að staðhæfing þín að ég nýti mér óspart afrit af þessum lokaða spjallþræði er ekki rétt. Rök Vantrúar þegar þessi spjallþráður berst í tal eru gjarna að allt hafi þetta verið meira og minna í gamni skrifað og óhátíðlega, “”jábræður” ræða sín á milli”, segirðu. Raunar segir á einni af síðum Vantrúar: “Ef forsíðan er andlit okkar er innra spjallið hjartað. Á það hópumst við eins og dýr að vatnsbóli (eða mý á mykjuskán) og sækjum þangað félagsskap, stuðning og styrk.” Þetta orðalag minnir mig svolítið á annan félagsskap sem telur tilgang lokaðs spjalls í kjötheimum vera að “samhæfa reynslu sína, styrk og vonir” – vonandi er sá félagsskapur ekki fyrirmynd Vantrúar. Líklega væri affarasælast fyrir félagið Vantrú að opna aðgang að þessum spjallþræði vilji félagsmenn sýna öðrum hversu létt var yfir skrifunum, í hvaða samhengi orðin féllu og að ekki beri að taka orð þeirra alvarlega.

    Ég skil ekki alveg lokin á skilaboðunum þínum: Er þetta hótun eða loforð? 

  7. Helgi Ingólfsson on January 30, 2012 at 13:41 said:

    Harpa, eitt á ég erfitt með að skilja.

    Um margra ára skeið þreifst félagið Vantrú ágætlega á afbökunum og skrumskælingum (t.d. Svarthöfða-gjörningurinn, páska-bingóið, ýmsar myndskreytingar og efni á síðum félagsins).

    Síðan fer þetta félag gjörsamlega á límingunum af vandlætingu við það eitt að ÞAÐ TELJI að skoðanir þess hafi verið afbakaðar eða skrumskældar???

  8. Andrés B. Böðvarsson on January 30, 2012 at 22:18 said:

    Ég held að páska-bingóið teljist seint vera afbökun eða skrumskæling á einu eða neinu. Þetta eru einfaldlega ósköp eðlileg mótmæli gegn kjánalegum lögum sem eru svo mikil tímaskekkja í dag að lögreglan nennir ekki að framfylgja þeim í raun og Þjóðkirkjan nennir ekki einu sinni að kveinka sér undan þessu „lögbroti“. Í því efni tek ég heilshugar undir með Vantrú þó ég hafi að megnustu skömm á mörgu öðru í þeirra málflutningi og starfsaðferðum.

  9. Helgi Ingólfsson on January 31, 2012 at 09:25 said:

    Andrés B. Böðvarsson:

    Það er sennilega rétt hjá þér að páska-bingóið er ekki heppilegt dæmi. Þetta er að vísu augljós “afhelgunar-aðgerð”, og þannig séð afbökun, en í sjálfu sér er aðgerðin friðsöm, sakleysisleg og jafnvel fyndin. Að þessu leytinu til er ég sammála þér og Vantrúarmönnum. Hins vegar er ég ekkert viss um að ég, þú og Vantrúarmenn tali fyrir hönd meirihluta þjóðarinnar í þessum efnum og ef til vill eðlilegast að láta fara fram skoðanakönnun um svona efni til að ákvarða hvort lögin séu “tímaskekkja”. Ég er næsta fullviss um að þetta bingó fari fyrir brjóstið á sumum, hjá einhverjum af trúarástæðum og hjá öðrum vegna rofs á hefðum.

    Hins vegar er af nógu að taka hjá Vantrú í áranna rás, þegar kemur að afbökun og skrumskælingu. Ég held að það sé einmitt að hluta til rótin að tilvistarvanda félagsins: Menn sáu það að nokkru leyti hér áður fyrr sem félag hugvitssamra spaugara, sem kom boðskapnum áleiðis með því að gera grín að trúnni, en síðar kemur í ljós að félagið (virðist?) taka sjálft sig alvarlegar en strangtrúarsöfnuðir. Fyrir vikið sýnist mér almenningur í dag eiga erfitt með hvoru tveggja, að hlæja að félaginu eða taka það alvarlega.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation