Aðrar aðgerðir Vantrúar gegn Bjarna Randveri og stuðningsmönnum hans

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

  
 

Svo virðist sem ekki þurfi mikið til að baka sér óvild forkólfa Vantrúar og jafnvel vinna menn sér það eitt til óhelgis að styðja Bjarna Randver Sigurvinsson eftir að mál Vantrúar gegn honum tók á sig æ furðulegri mynd í meðförum siðanefndar HÍ (en gerð verður betri grein fyrir þætti siðanefndar síðar). Hér verða rakin dæmi um þetta.

Leggja fleiri í einelti?

Frægt dæmi, sem m.a. er rakið í fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, í Morgunblaðinu 4. desember 2011, s. 20 (hér er krækt í greinina á mbl.is), er þegar Vantrúarfélaginn Frosti Logason hafði tekið viðtal við Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðing og guðfræðing í útvarpsþættinum Harmageddon þar sem þetta mál bar á góma, þann 11. mars 2010 (hér er krækt í hljóðskrá með viðtalinu á vef Vantrúar. Vantrú hefur nú gert þessa hljóðskrá óaðgengilega). Stefán Einar sagði m.a.:

Kennarinn sem þarna á í hlut upp í Háskóla er sérfræðingur í nýtrúarhreyfingum, ekki bara hérlendis heldur erlendis á því sviði og ég hef sótt fyrirlestra þar sem hann tekur til umfjöllunar þennan félagsskap Vantrú, útskýrir með hvaða aðferðafræði hann hefur greint þá, þeirra umfjöllun og annað og ég held að þeir séu þarna [Frosti grípur hér fram í fyrir Stefáni]

Stefán Einar rekur svo í viðtalinu fyrri samskipti sín við félagsmann í Vantrú og raunar er það ekkert leyndarmál að sumir stjórnarmenn í Vantrú og Stefán Einar hafa lengi eldað grátt silfur saman. Útgáfu Matthíasar Ásgeirssonar fyrrum formanns Vantrúar á dæminu sem Stefán Einar nefnir í þessu viðtali má sjá á bloggfærslu hans Sértrúarsöfnuðurinn Stefán Einar þann 17. mars 2010 og styðja félagar Matthíasar hann dyggilega í umræðuþræðinum við færsluna.

Á spjallþræði Vantrúar „Söguskoðun Bjarna Randvers“ var rætt um Stefán Einar og viðtalið og honum ekki vandaðar kveðjurnar. Í umræðunni er „stungið upp á að hefja líka einelti gegn Stefáni Einari Stefánssyni […]. Reynir [Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar] skrifar strax: „Go for it. Megum ekki skilja svona plebba útundan í einelti okkar.““ (Börkur Gunnarsson í Morgunblaðinu 4. des. 2011, s. 20. Ég auðkenndi beina tilvitnun Barkar í orð Reynis með rauðu.) Nú er mér ekki kunnugt um hvort vantrúarfélagar eyddu miklum tíma og orku í að leggja Stefán Einar Stefánsson líka í einelti en af orðum Reynis Harðarsonar mætti skilja að hann liti á hið áður boðaða „heilaga stríð“ sem einelti og vilji bæta Stefáni Einari við sem fórnarlambi.

Í grein Barkar er á sömu síðu vitnað í bréf Reynis Harðarsonar til Siðanefndar HÍ 4. janúar 2011: „Ég hafna því alfarið að um einelti af okkar hálfu sé að ræða, hvað þá heilagt stríð. … Þetta er hreinn þvættingur og meiðyrði.“
 

Eftir að greinin birtist hafa vantrúarfélagar lagt sig í líma í að sverja af sér einelti og „heilagt stríð í alvöru“ en verður gerð betri grein fyrir því í næstu færslu.
 

Njósnir

Í fyrrnefndri grein Barkar Gunnarssonar er sagt frá því að Baldvin Zoriah, deildarstjóri á vísindasviði í HÍ og félagi í Vantrú, hafi lekið „upplýsingum af framgangi málsins [kæru Vantrúar í meðförum siðanefndar HÍ] á innri vef þeirra.“ (Morgunblaðið 4. des. 2011, s. 20.) Talsverð óformleg samskipti formanns siðanefndar, Þórðar Harðarsonar, og Reynis Harðarsonar formanns Vantrúar eru löngu kunn, sem og upplýsingagjöf hins fyrrnefnda til Reynis og verður þeim gerð betri skil síðar á þessu bloggi. Mögulega hefur Vantrú haft eða ætlað sér að nota fleiri starfsmenn HÍ í sína þágu, um það get ég ekkert fullyrt að svo stöddu.

En annars konar vöktun var einnig viðhöfð. Matthías Ásgeirsson, fyrrverandi formaður Vantrúar, stundaði nám í tölvufræði til BS-gráðu í Háskóla Íslands veturinn 2010-2011. Hann hafði að sjálfsögðu eigið háskólanetfang sem nemandi og virðist hafa farið í reglulega göngutúra um Háskólalóðina. Matthías hefur að eigin sögn haft eitthvert eftirlit með því hvað Bjarni Randver Sigurvinsson aðhafðist, sjá færsluna Í skrifstofu á þriðju hæð á bloggi Matthíasar, Örvitanum, þann 20. janúar 2011 þar sem segir m.a.:
 

Í kvöld sat hann á þriðju hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands og dundaði sér í tölvunni á skrifstofu doktorsins. Þar hefur hann verið af og til síðustu mánuði og unnið að málsvörn sinni, leitað á netinu að skrifum sem hann gæti snúið út úr og mistúlkað eins og honum er einum lagið (eins og mörgum öðrum með sama heilkenni!). […]

Reiknistofnun Háskóla Íslands rekur tölvukerfi HÍ og hefur hver útstöð (borðtölva) fasta rekjanlega ip-tölu og sérstakt heiti. Að auki er kerfið þannig uppbyggt að með einni einfaldri Unix/Linux skipun er hægt að inna nafnaþjón (DNS-þjón) háskólanetins eftir því hvaða notandi er skráður fyrir hverri ip-tölu. Föstudaginn 21. janúar 2011 kl. 17:37 birti Matthías þessa athugasemd við sömu færslu: 

Halló Guðni. Halló Höskuldur. Halló Gauti. Hvernig hafið þið það? Af hverju segið þið aldrei hæ?

Matthías lætur með þessu vita að hann hafi borið kennsl á Guðna Elísson prófessor, Höskuld Þráinsson prófessor og Gauta Kristmannsson dósent þegar þeir heimsóttu einn af öðrum bloggið hans skömmu áður af skrifstofum sínum.

Guðni Elísson hafði fyrr um daginn sent póst á hóp kennara þar sem hann benti þeim á greinina „Í skrifstofu á þriðju hæð“ Þegar Benedikt Hjartarson aðjunkt fór inn á vefinn skömmu eftir heimsóknir Guðna, Höskuldar og Gauta uppfærði Matthías færsluna og bætti inn staðfestingu á að borin hafi verið kennsl á Benedikt. (Matti – 21/01/11 17:37 #) Haft var samband við aðra kennara sem höfðu fengið póstinn frá Guðna og þeir beðnir að fara ekki að svo stöddu inn á blogg Matthíasar.

Morguninn eftir bað Guðni Bergljótu S. Kristjánsdóttur prófessor að fara inn á blogg Matthíasar af heimili sínu og vottaði Matthías komu hennar nokkrum mínútum síðar:
 

Halló Bergljót. Velkomin. (Matti – 22/01/11 12:04 #)
 

Haft var samband við aðra starfsmenn af Hugvísindasviði HÍ sem ekki höfðu fengið fyrrnefndan tölvupóst Guðna Elíssonar, fyrst Ástráð Eysteinsson forseta Hugvísindasviðs og síðan Pétur Knútsson dósent og þeir beðnir að fara inn á blogg Matthíasar Ásgeirssonar. Matthías staðfesti heimsókn þeirra inn á bloggið skömmu síðar. 

Sæll Ástráður, gaman að sjá þig. Hæ Pétur, nice to see you! (Matti – 22/01/11 16:05 #)

Bergljót S. Kristjánsdóttir, Ástráður Eysteinsson og Pétur Knútsson skoðuðu Örvitann, blogg Matthíasar Ásgeirssonar, úr heimilistölvum sínum en þær eiga það allar sammerkt að vera þjónustaðar af Reiknistofnun HÍ. Ekkert þeirra hafði nokkurn tíma farið inn á þetta blogg áður. (Þess ber að geta að Reiknistofnun HÍ útvegar nemendum og kennurum hugbúnað til að tengjast háskólanetinu gegnum heimilistölvur. Þetta er m.a. til þess að nemendur og kennarar geti skoðað greinar í tímaritum þar sem aðgangur er takmarkaður við HÍ. Mögulega eru slíkar tölvur skráðar eins og hver önnur útstöð á háskólanetinu og því jafn auðvelt að finna ip-tölur og eigendur þeirra og væru þær á Háskólasvæðinu.)

Á vef Vantrúar var staðfest að ip-tala skrifstofutölvu Péturs Péturssonar prófessors var vöktuð. Þegar skrifstofutölva Péturs var notuð og farið inn á spjallþráð vefjar Vantrúar sem opinn er almenningi, þann 20. janúar 2011, komu upp eftirfarandi skilaboð:
Skjámynd af vef Vantrúar

Þótt uppfletting notenda og ip-talna á neti HÍ, þ.m.t. mögulega á heimilistölvum kennara sem tengjast neti HÍ, sé sáraeinföld þá virtust einhverjir fyllast aðdáun á hæfileikum Matthíasar til að snuðra uppi ip-tölur og vakta innkomu á eigið blogg eða vef Vantrúar. Má þar nefna Steindór J. Erlingsson sem spyr: „Ertu að grínast eða þekkir þú ip-tölu Bjarna?“ Og Matthías svarar að bragði: „Ekkert grín. Þarna sat hann, kíkti tvisvar á þessa færslu.“

Það er ótrúleg elja sem Matthías Ásgeirsson sýnir að fletta upp ip-tölum allra kennara Hugvísindasviðs og heimilistölva einhverra þeirra að auki! Það hlýtur hann að hafa gert úr því hann þekkti jafnt ip-tölur prófessora og aðjúnkta og kennara í mismunandi deildum. Á vorönn 2012 eru skráðir kennarar á Hugvísindasviði 106 talsins og má ætla að svipaður fjöldi hafi starfað þar á vorönn 2011. Hafi Matthías líka lagt á sig að fletta upp öllum þeim sem starfa á skrifstofum hinna fjögurra deilda sem tilheyra Hugvísindasviði hækkar talan umtalsvert.

Að mínu mati er aðalspurningin ekki hvort þetta sé löglegt eða ólöglegt heldur: Af hverju í ósköpunum að leggja á sig að snuðra uppi allar þessa ip-tölur? Var þetta einhvers konar tilraun til að sýna háskólakennurum „mátt sinn og megin? Leika Lísbet Salander fyrir félaga sína og blogglesendur? Eða hvað?

(Heimild mín fyrir ofangreindum heimsóknum og prufum háskólakennara á Örvitanum og vef Vantrúar er Ýmis skjöl frá hinum kærða. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010), s. 53-55. Þetta er óopinbert skjal í vinnslu, sem ég vitna í með leyfi höfundar, Bjarna Randvers Sigurvinssonar.)

Ég reikna svo með að neðanmálsgrein við bloggfærslu Matthíasar Ásgeirssonar, Sáttfýsi, þann 28. apríl 2011, eigi að vera dæmi um hið fræga skopskyn vantrúarfélaga, sem félagarnir taka svo undir á stuttum umræðuþræði – eða til að ganga í augun á einhverjum?

Næsta færsla verður líklega síðasta færslan um aðgerðir félagsins Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni. Í henni verður velt upp þeirri spurningu hvort um skipulagt gróft einelti gegn Bjarna Randver hafi verið að ræða eða skiljanlegt erindi Vantrúar til þeirra aðila sem félagið taldi rétt að kvarta, undan meiðandi glærum um sig o.fl.. Einnig verður drepið á viðbrögð vantrúarfélaga við fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar.
 
 
 
 

38 Thoughts on “Aðrar aðgerðir Vantrúar gegn Bjarna Randveri og stuðningsmönnum hans

  1. Rétt í þessu var Matthías Ásgeirsson að loka á ip-töluna mína þannig að ég hef ekki aðgang að Örvitanum úr heimilistölvu. Ef Matthías skyldi leggjast í mikla tiltekt á sínu bloggi og krækjurnar í bloggið hans virka ekki, látið mig þá vinsamlegast vita svo ég geti krækt í afrit á Vefsafninu í staðinn.

  2. Helgi Ingólfsson on February 2, 2012 at 10:30 said:

    Það setur nú að mér hálfgerðan hroll við þennan lestur, Harpa …

    Er ekki dálítið kaldhæðið að síðasta grein, sem birtist eftir félagsmann á vefsíðu Vantrúar (í gær), bar yfirskriftina “Akademískur heiður”?

  3. Ég hef lengi vitað möguleika Matta til að sjá hverjir heimsóttu hann og Vantrúna. Hann sagði frá því fyrir nokkrum árum að hann hefði átt þannig við kerfið að hann sæi hverjir koma og hvaðan (http://www.orvitinn.com/2004/09/23/01.25/). Sama eða svipað og Google Analytics gerir … bara betur úthugsað. Matti hefur enda unnið í tölvudeild Landsbankans (ef skammtímastálminnið bregst ekki) um langt skeið. Sem vefstjóri nokkurra smávefja játa ég á mig sömu forvitni og hann. Stundum er lífsnauðsynlegt að vita hvaðan fólk kemur og hvað það skoðar, t.d. þegar maður hefur atvinnu af því að koma upplýsingum til viðskiptavina.

    Spurningin er ekki hvort þetta sé ólöglegt (það er það ekki) heldur að menn geri sér grein fyrir að ekkert á vefnum er nafnlaust, ekki einu sinni innlit á heimasíður og blogg.

  4. Já, Carlos, það getur sjálfsagt verið fróðlegt að fylgjast með af hvaða slóðum og úr hvaða tölvum fólk heimsækir vefinn manns. Margir ókeypis teljarar sem maður getur sett á sína(r) síðu(r) bjóða akkúrat upp á þetta. En sú iðja að safna fyrirfram ip-tölum tölva eitthvað á annað hundrað manns, sem aldrei höfðu heimsótt bloggið hans Matthíasar Ásgeirssonar, finnst mér undarleg og spyr: Til hvers?

  5. Eflaust má vera að ég lesi of mikið inn í þetta, en mér finnst þetta lykta af því að menn vilja vita við hverja þeir eiga … að margumtöluð, saklaus kvörtun og friðsamlegar baráttuaðferðir hafi verið stundaðar með makkíavellískum vélum.

  6. Tja, eins og kemur fram á bloggi Matthíasar, http://www.gmaki.com/matti hefur hann unnið hjá hugbúnaðarfyrirtæki sem nú heitir Trackwell síðan árið 2005. Svo eitthvað kann hann á tölvur en raunar þarf ekki nema lágmarkskunnáttu til að afla þessara ip-talna. Vonandi hefur hann ekki staðið í vöktun og heimsóknarkvittunum á Örvitanum í sínum vinnutíma.

  7. Jóhann Sigurfinnur B on February 2, 2012 at 19:03 said:

    Matthías svarar þessum athugasemdum:

    “Harpa: En sú iðja að safna fyrirfram ip-tölum tölva eitthvað á annað hundrað manns, sem aldrei höfðu heimsótt bloggið hans Matthíasar Ásgeirssonar, finnst mér undarleg og spyr: Til hvers?

    Hvernig dettur þessi fólki svona rugl í hug? Að sjálfsögðu safnaði ég engum ip-tölum fyrirfram.

    Carlos: Eflaust má vera að ég lesi of mikið inn í þetta, en mér finnst þetta lykta af því að menn vilja vita við hverja þeir eiga … að margumtöluð, saklaus kvörtun og friðsamlegar baráttuaðferðir hafi verið stundaðar með makkíavellískum vélum.

    Þegar ljóst var að fjöldapóstur hafði verið sendur á kennara með vísun á bloggfærslu mína (eigum við að kalla þann tölvupóst “einelti”?) verð ég að játa að ég vildi vita við hverja var að eiga. Ég sé ekkert athugavert við það. Þetta var mörgum mánuðum eftir að Vantrú sendi erindi sitt til siðanefndar. Fyrsta athugasemd mín var hvatning til kennara um að hafa samband við mig. Enginn gerði það! Af hverju?

    Ég sé aftur á móti heilmikið athugavert við þessa tölvupósta sem Guðni Elísson var að senda á hóp kennara, þar sem hann annað hvort sagði þeim að skoða bloggsíðu mína eða bannaði þeim að gera það. Spurning hvort þetta telst eðlilegt hegðun prófessora við Háskóla Íslands.

    Matti hefur enda unnið í tölvudeild Landsbankans (ef skammtímastálminnið bregst ekki) um langt skeið

    Uh, nei. Ég hætti í Landsbankum sumarið 2005. Þetta kemur allt fram hér á síðunni minni.”

    Hér er ekki hnikað til einu orði og ekkert fellt úr.

    Það má vitna í opinber blogg, ekki satt?

    🙂

  8. Hafþór Örn on February 2, 2012 at 19:37 said:

    Ef menn vinna á annað borð við tölvur þá er þetta bara minnsta mál. Meira að segja Harpa gerðist djörf í gær (eða fyrradag?) og njósnaði um mig með því að skoða IP töluna mína og sjá að ég hafði komið á bloggið hjá henni í gegnum tengil sem var á spjallborðinu hjá Vantrú. Hún hefur væntanlega reynt að elta tengilinn til baka en fengið frávísun.

    Svo skammaðist hún sig eitthvað fyrir þessa hnýsni í sér og eyddi því innleggi út, ásamt öllum öðrum innleggjum sem ég hafði sett inn ásamt svörum hennar. Ætli hún hafi þá ekki verið að vinna í þessari bloggfærslu og séð að hún var að gera nákvæmlega það sama (smá stigsmunur, enginn eðlismunur) og hún er að ásaka Matta fyrir að gera.

    Hræsni? Maður spyr sig…

  9. Jóhannes Sigurfinnur: Jú, opinber blogg teljast opinber birting. Í þessum orðum Matta, sem ég var búin að sjá, staðhæfir hann:

    * Að sjálfsögðu safnaði ég engum ip-tölum fyrirfram
    og
    * Þegar ljóst var að fjöldapóstur hafði verið sendur á kennara með vísun á bloggfærslu mína (eigum við að kalla þann tölvupóst “einelti”?) verð ég að játa að ég vildi vita við hverja var að eiga.

    Af þessu má aðallega draga þá ályktun að við Matthías skiljum orðið “fyrirfram” ekki sama skilningi 🙂

    Hafþór Örn: Ég leit ekki á ip-töluna þína heldur sá undir eins á orðalaginu að þú varst að vitna í tölvupóst sem ég hafði skömmu áður sent Þórði Ingvarssyni og dró af því þá ályktun að þú værir með innra spjall Vantrúar opið í öðrum glugga, þ.e. spjallþráðinn sem fjallar um mig og vantrúarfélagar heimsækja bloggið mitt nokkrum sinnum á dag af (sem ég er löngu búin að taka eftir gegnum teljarann á þessu sama bloggi). Ég eyddi engu innleggi en lagaði orðalag í einu af mínum svörum og stafsetningarvillu. Mér hættir til að gera svoleiðis villur vegna athyglisbrests. Innleggin þín standa örugglega algerlega óspjölluð af mínum völdum.

    Ég reikna með að orð þín “Ef menn vinna á annað borð við tölvur þá er þetta bara minnsta mál” eigi við að semja forritsbút eða hirða slíkan af Vefnum sem vaktar ip-tölur og gerir viðvart þegar ákv. ip-tala heimækir bloggsíðu eða vefsíðu. Síðan verða menn að gefa sér tíma til að sinna samstundis slíkri viðvörun. Það þarf ekkert að “kunna” á tölvur til að snuðra uppi hvern notanda og ip-tölu hans á háskólanetinu. Aðalmálið er að nenna að hanga yfir þessu og gefa “dig” skipunina svona 110- 150 sinnum. Og ég spyr: Til hvers?

  10. Athugasemd Hörpu, þessi fjórða verðskuldar smá umhugsun. Af hverju ætti maður að safna tilteknum ip tölum fyrirfram? Hugsað út frá þörfum vefstjóra, þá þarf ekkert að safna. Nóg er að segja forriti að láta vita eða framkvæma aðgerð ef einhver úr runu kemur inn á tiltekinn vef.

    En, umræddur vefstjóri er ekki hér og þú kemst ekki til hans af því að hann hefur lokað fyrir þér vef sínum. Hann verður þá bara að þola spurningar út í loftið …

  11. Helgi Ingólfsson on February 3, 2012 at 11:57 said:

    Ég verð að játa að ég þekki ekki mikið tækniþáttinn í þessari færslu og hef ekki forsendur til að meta hann.

    Hins vegar skapaði það verulega ónotatilfinningu að lesa ofangreint sem einn Vantrúarmaður skrifaði um háskólakennarann fyrir rúmu ári, orðrétt:

    “Í kvöld sat hann á þriðju hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands og dundaði sér í tölvunni á skrifstofu doktorsins. Þar hefur hann verið af og til síðustu mánuði og unnið að málsvörn sinni, leitað á netinu að skrifum sem hann gæti snúið út úr og mistúlkað eins og honum er einum lagið (eins og mörgum öðrum með sama heilkenni!).”

    Þessi orð virðast fela í sér skilaboð til háskólakennarans um að fylgst sé með honum. Ekki er eingöngu vísað til tölvu hans, heldur ytri staðsetningar (“þriðju hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands”), eins og verið sé að láta hann vita að “we are watching you”. Þess utan eru honum gerð upp “heilkenni”. Er það bara ég, sem finnst umrædd tilvitnun ismeygileg og krípí, eða sjá það aðrir?

  12. Ég er sammála Helga að þetta sé aðalatriðið, þ.e.a.s. að koma að “we are watching you”. Þótti Matthías Ásgeirsson verði seint kallaður “Stóri bróðir” er óhugnalegt að vita að fylgst sé með manni, t.d. að einhver geri sér ferð sérstaklega til þess á kvöldin (Matthías stundar/stundaði nám hinum megin við Suðurgötu) og þessar ip-tölu tilkynningar hafa sjálfsagt átt að ýta undir þá óþægilegu tilfinningu að fylgst sé með ferðum fólks á netinu.

    Þetta með heilkennið: Það virðist nokkuð gegnumgangandi í skrifum vantrúarfélaga á umræðuþræðum við blogg sín og annarra að þeir klastri einhverjum geðveikistimpli á andstæðinginn eða brigsli honum um geðröskun af einhverju tagi. Maður sér þetta “heilkenni” eða þessa stigma-áráttu víðar. En auðvitað bregður fólki við að lesa svona um sig, sérstaklega ef það hefur haft lítil kynni af netsóðum.

  13. Helgi Ingólfsson on February 3, 2012 at 13:20 said:

    Harpa:

    Ég er ekki að halda því fram að hann hafi verið vaktaður bókstaflega. Ég er fyrst og fremst að vekja athygli á framsetningunni – hvernig hún sé til þess fallin að vekja þá tilfinningu að viðkomandi finnist vera fylgst með sér.

  14. Já, ég er sammála því: Framsetningin er fyrst og fremst til að vekja þá tilfinningu að fylgst sé með ferðum hans; Vekja athygli á að einhver eltihrelling í gangi.

    Matthías Ásgeirsson er búinn að opna aftur aðgang að bloggi sínum, Örvitanum, fyrir mína ip-tölu. Svo ég þarf ekki fleiri kópíur af svörum hans … E.t.v snöggfauk í hann þegar hann sá þessa færslu og fattaði hvernig háskólakennarnir voru markvisst að ginna hann?

  15. Nú er félagið Vantrú búið að fjarlægja viðtalið við Stefán Einar Stefánsson af sínum vef svo slóðin í þessari færslu virkar ekki lengur. Ég eyði smástund á eftir í að reyna að hafa upp á viðtalinu annars staðar en stend ekki í langri leit – finni ég ekki upptökuna með greiðum hætti verður þessi eina beina tilvitnun að duga.

  16. Sveinn Þórhallsson on February 3, 2012 at 23:24 said:

    Ég er ekki sammála þessu. Ég las umrædda framsetningu eins og verið væri að setja þetta í dramatískan búning. Svona eins og byrjun á sögu (“Það var dimm og drungaleg nótt…”).

  17. Helgi Ingólfsson on February 4, 2012 at 01:10 said:

    Ég held að engum komi á óvart að þú sjáir ekki neitt athugavert við þessa framsetningu, Sveinn.

    En eigum við ekki bara að láta orðin (og færsluna alla) tala fyrir sig sjálf? Þá geta almennir lesendur myndað sér skoðun á þeim?

    Ég veit að mér stæði ekki á sama, ef skrifað væri á þennan hátt um mig.

  18. Guðbergur Ísleifsson on February 4, 2012 at 03:54 said:

    Já, hann Matti og þeir í Vantrú eru miklir spæjarar og finnst ákaflega gaman þegar þeir halda að þeir hafi komið “upp um” fólk sem andmælir þeim eða ef þeir halda að þeir geti gert andmælendum sínum eitthvað illt.

    Hver sá sem gerist svo djarfur að vera á móti málarekstri Vantyrúar má vita að ef hann gefur upp rétt nafn í athugasemdum hjá þeim verður hann “gúgglaður” í tætlur í von um að grafa upp eitthvað misjafnt um viðkomandi sem nota má gegn honum.

    Einnig hafa þeir margoft í gegnum árin beitt duldum og óduldum hótunum og þannig reynt að vekja upp ótta hjá viðmælendum sínum á borð við þessa tilteknu færslu um að fylgst sé með Bjarna á skrifstofunni.

    Í upphafi minna viðskipta við Matta og annað Vantrúarfólk var ég að sjálfsögðu gúgglaður (og er sjálfsagt enn) og þeim tókst að finna eina frétt í DV tengda nafni mínu árið 2004 þar sem ég hafði kært lögfræðinganefnu eina fyrir að stela af mér peningum. Það mál tengdist Vantrú auðvitað ekkert en var samt ótt og títt notað af félagsmönnum í tilraun til að gera lítið úr mér og linkað í fréttina í bloggathugasemdum hingað og þangað og á vantru.is og á spjallinu þeirra.

    Ég fékk hótanir um að þeir ættu að senda menn í að koma og loka fyrir rafmagnið hjá mér eða klippa á símann og netsambandið svo ég þagnaði. Sjálfsagt hefur þetta átt að vera þessi fræga “fyndni” þeirra enda bara heimskulegt. Hins vegar varð mér hugsað til þeirra sem e.t.v. hefðu ekki þau bein sem þyrfti til að taka svona hótunum án þess að láta sér bregða um of.

    En mér blöskraði hins vegar algjörlega þegar þeir komu með ítrekaðar hótanir um að þeir þyrftu að fara að hafa tal af fjölskyldu minni til að láta vita hvað ég væri geðveikur. Þá ákvað ég að láta þetta lið aldrei beygja mig því næðu þeir því myndu þeir óhikað halda áfram á sömu braut (sem þeir hafa gert). Síðan þá hef ég litið á það sem skyldu mína að veita þeim viðspyrnu, og í raun talið það þjóðþrifaverk að sýna alþjóð fram á hvað þarna býr raunverulega að baki.

    Og Matti vaktar ekki bara þá sem hann veit nafnið á eða ip-tölur. Hann finnur líka út hverjir það eru sem skrifa nafnlaust á vantrú eða orvitann. Ég lagði eitt sinn dálitla gildru fyrir hann til að sjá hvað hann myndi ganga langt í að koma upp um mig og hvernig hann gerði það án þess að opinbera um leið að hann notaði “innherjaupplýsingar” af vantru.is til þess og væri þar með að bregðast trúnaði.

    Ég kom fram undir tvöfaldri nafnleynd á vantru, fyrst með fölsku tölvupóstfangi. Matti krafðist þess þá að ég gæfi upp rétt póstfang. Það gerði ég og þar sem ég hafði líka sett þetta sama póstfang á er.is undir fullu nafni vissi Matti auðvitað um leið hver sá nafnlausi var. Það var hins vegar líka dulnefni en ég gerði honum auðvelt að rekja slóðina til mín með því að búa til Facebook tengingu milli mín og þess nafns sem ég notaði.

    Hann hélt því síðan fram lengi vel, bæði á vantru.is og á bloggum að hann “grunaði” hver ég var. Það var auðvitað enginn “grunur” því hann hafði einfaldlega týnt upp brauðmolana sem ég henti til hans og vissi því nákvæmlega að þetta var ég allan tímann. Samt vildi hann ekki láta aðra vita hvernig hann hafði komist að þessu, enda væri hann þá að sýna að hann hefði nýtt sér aðstöðu sýna á vantru.is til að finna út hver sá nafnlausi var og þar með væri ljóst að nafnleysi þar væri engin trygging fyrir raunverulegu nafnleysi.

    Hann varð því að finna aðra leið til að koma upp mig, leið sem myndi láta alla halda hve snjall hann væri en ekki að hann hafði einfaldlega nýtt sér póstfang hins nafnlausa til að “rekja” slóðina, sem var auðvitað auðrekjanleg þar sem ég hafði lagt hana beint fyrir fyrir framan hann.

    Ég gaf honum síðna færi á að sýna hvað hann væri klár í bloggumræðu á bloggi Hjalta, sem hann og gerði og varð að sjálfsögðu hetja fyrir í augum félagsmanna í Vantrú. Fyrir mér opinberaði hann hins vegar vinnubrögðin sem hann beitir og siðleysið sem ég var að glíma við. Því miður tókst mér ekki að ljúka málinu á bloggsíðunni því Árni Matthíasson hjá blog.is var líka að fylgjast með og lokaði blogginu um leið og hann áttaði sig á því að þetta var ég.

    Ekki veit ég í hve mörgum andmælendur Matti og félagar hans í Vantrú hafa þaggað niður í með hótunar- og njósnaaðferðunum sem þeir beita, en þeir eru margir. Þeir hafa líka “kæft” marga á hinu svokallaða “spjallborði” sem er auðvitað ekkert annað en þeirra heimatilbúni “aftökuvöllur” á þeim sem þeim er í nöp við. Svo er líka þekkt sú aðferð þeirra að halda stöðugt fram rangfærslum um andmælendur sína í þeirri von að þær fari að hljóma sannar. Við þessa iðju hjalpar “hjörðin” mikið til því hún endurtekur rangfærslurnar aftur og aftur, jafnvel þótt þær séu leiðréttar.

    Einnig þekkja margir þegar Matti lenti í bloggdeilu við Gylfa í Símabæ og ákvað þá að ráðast á Símabæ í því skyni að reyna að eyðileggja fyrir viðskiptum Gylfa og þar með lifibrauð hans. Matti hreykti sér af því að honum hefði tekist að komast með óhróður sinn um fyrirtæki Gylfa upp í þriðja sætið á Google ef leitað væri að nafni fyrirtækisins. Þetta tók hann svo niður seinna enda svo ömurleg vinnubrögð að jafnvel hann gat ekki réttlætt þetta til lengdar þótt hann þráaðist við í nokkra mánuði.

    Mörg fleiri slík dæmi eru til um þessi vinnubrögð Matta og félaga, svo og ótal dæmi um einstakan tvískinnunginn og óheiðarleikann sem gegnsýrir þetta fólk. En maður má víst ekki sníkjublogga hér um of. Þessir bjúgverplar Matta og félaga hans koma allir til baka og í ljós með tímanum.

  19. Sveinn Þórhallsson on February 4, 2012 at 17:46 said:

    Og ég held það komi engum á óvart að þú lesir það allra neikvæðasta og mest “krípí” út úr þessu Helgi, en hvers vegna er eðlilegra að þú tjáir þig um það en ég um minn skilning? M.ö.o. hvers vegna gerir þú lítið úr minnri tilfinningu um leið og þú viðrar þína eigin?

  20. Helgi Ingólfsson on February 4, 2012 at 19:40 said:

    Sveinn: Ég hef hvergi gert lítið úr þinni tilfinningu eða rétti þínum til að tjá hana.

    Ég var hins vegar að velta fyrir mér hvernig þeir almennu lesendur, sem ekki eru í Vantrú eða fylgja málstað þess félags, upplifi svona framsetningu.

    Sem og að tjá að mér þykir hún í senn uggvæn og ógnvæn.

  21. Sveinn Þórhallsson on February 4, 2012 at 21:38 said:

    Helgi, þú ert nú ekki einfaldlega ekki einhver sem “ekki er í Vantrú eða [fylgir] málstað þess félags” – þú ert andstæðingur félagsins og lest það neikvæðasta sem þú mögulega getur úr orðum þeirra sem eru í því félagi.

  22. Halldór L. on February 4, 2012 at 23:07 said:

    Ein stutt spurning til Hörpu sem að tengist efninu að nokkru leiti (ekki samt öllu, ég ætla ekki að reyna að ræða sérstaklega við hana um BS/Vantrú því að hún er þar búin að taka trúarlega afstöðu sem að hvorki staðreyndir né siðferði getur breytt).

    Almenna og hófsama trúfélagið sem að þú tilheyrir hefur beitt dómstólum og hótunum við fólk sem að ekki bara gagnrýnir það, heldur gerir góðlátlegt og kjánalegt gys að, og rægir það í fjölmiðlum, vísar á geðdeildir og eyðileggur fyrirtæki fyrir skattpeninga.
    Herskáa og öfgafullatrúleysisfélagið sem að þú gagnrýnir svo mikið hefur það á samviskunni að sárna illa ígrunduð meðferð á háskólastigi (ekki bara félaginu heldur æru einstakra félagsmanna) og senda kvörtun í þar til gert ferli (sem að var svo skemmt).
    Finnst þér þetta ekki vera léleg forgangsröðun?

  23. Helgi Ingólfsson on February 5, 2012 at 00:01 said:

    Sveinn (aths. 21):

    Hvernig skilgreinirðu “andstæðinga félagsins”?

  24. Halldór L: Ég veit ekki hvort þú hefur tekið eftir því en þessi bloggfærsluröð fjallar um kærumál Vantrúar vegna glæra í námskeiði Bjarna Randvers. Hún fjallar ekki um trúfélög almennt. Ástæðan fyrir að ég kynnti Vantrú í sérstakri færslu var sú að ég held að talsverður hluti lesenda minna hafi litla hugmynd um það félag – sjálf hafði ég t.d. mjög óljósa hugmynd um félagið Vantrú áður en þetta mál varð sæmilega opinbert seint á nýliðnu ári, vissi að Vantrú var til (svona eins og ég veit að Krossinn er til eða Vísindakirkjan eða álíka) en hafði aldrei haft neinn áhuga á félaginu og aldrei sett mig inn í Vantrú. Af því ég reikna með að langflestir lesendur mínir kannist talsvert við Háskóla Íslands sá ég ekki ástæðu til að kynna hann sérstaklega en sá ástæðu til að hafa fyrstu færslu um aðkomu siðanefndar HÍ að málinu af því sú nefnd er einmitt líka svona fyrirbæri sem maður veit að er til en hefur ekki leitt athyglina neitt að.

    Ég reikna með að þú vísir til þjóðkirkjunnar með “almenna og hófsama trúfélagið sem þú tilheyrir” og vissulega hef ég tilheyrt henni nú í rétt rúma tvo mánuði og reikna með að gera áfram. Ég hef aðeins bloggað um þjóðkirkjuna svo ég muni, þ.e. rifjað upp sögu biskupsmálanna frægu, bloggað um að líklega séu prestar hvorki almennt sérmenntaðir eða sérstaklega hæfir til að sinna fólki með sálræn vandamál (að undanskilinni sorg) og tók fyrir hættuna á siðblindum innan kirkjunnar (vitnandi í norrænar heimildir sem hægt væri að heimfæra á íslensku þjóðkirkjuna) í umfjöllun um siðblindu. Formaður Vantrúar, Reynir Harðarson sálfræðingur, var nógu ánægður með færsluna um þrá presta eftir sálgæslu til að gera athugasemd við hana og mig minnir að Vantrú hafi hampað siðblindufærslunni á vef Vantrúar.

    Síðan hef ég um sumt skipt um skoðun, t.d. tel ég núna að í sumum tilvikum geti verið allt eins gott að leita til prests og til sálfræðings (veldur þar einkum skefjalaus dýrkun hinna síðarnefndu á HAM, sem er farið að minna á trúabrögð og stíft trúboð en er líklega aðallega sprottin af offjölgun í sálfræðingastétt og barátta fyrir að skapa vinnu og þörf fyrir sálfræðinga). Biskupsmálin frægu eru leyst og forsvarsmenn presta notuðu tækifærið og kynntu sér siðblindu eftir nýliðna Læknadaga. Svo sá ég nauðsyn þess að styrkja þjóðkirkjuna eftir að hafa lauslega kynnst aðferðum Vantrúar og gekk þess vegna í hana. Sú ákvörðun hefur styrkst æ meir eftir því sem ég kemst betur inn í efnið sem ég er að blogga um.

    Ég hef ekki hugmynd um til hvers þú ert að vísa í kommenti þínu en sé svo sem ekki að það skipti miklu máli því ég ætla mér ekkert að blogga um þjóðkirkjuna og myndi því væntanlega ekki taka þau mál upp. Hef að mestu leitt þjóðkirkjuna hjá mér í þá áratugi sem ég hef verið utan hennar.

    Loks mælist ég til þess að fólk skrifi undir fullu nafni við þessar færslur. Ég hélt að það væri orðinn óþarfi að taka það fram í lok hverrar færslu.

  25. Næsta færsla er svona hálfsamin og af því ég á mér líka líf utan netsins þá getur verið að hún birtist ekki fyrr en eftir helgi 🙂

  26. Sveinn Þórhallsson on February 6, 2012 at 13:27 said:

    Helgi – ég gerði það í síðustu athugasemd.

  27. Helgi Ingólfsson on February 6, 2012 at 18:23 said:

    Sveinn: Gott er að heyra – þá fell ég ekki þar undir.
    —-
    Hins vegar get ég lýst yfir að ég er almennt lítt hrifinn af þrýstihópum eða félögum sem fara fram í sjálfhverfu gönuhlaupi og uppblásinni vandlætingu í nafni pólitískrar rétthugsunar til að knýja á um vafasöm hagsmunaatriði eftir hæpnum, en hávaðasömum, leiðum.
    —–
    Enn síður hrífst ég af slíkum félögum, þegar einstaklingar tengdir þeim (sem félagar eða áhangendur) viðhafa í minn garð þöggunartilburði, aðkast eða ógnunartilburði.

  28. Helgi Ingólfsson on February 6, 2012 at 21:59 said:

    Harpa:
    Hvers vegna þarf Halldór L (aths. 22) ekki að gefa upp fullt nafn eins og aðrir? Á ekki að henda út athugasemd hans á grundvelli nafnleysis? Er þetta einhver prívatvinur þinn, eins og lyftustjórinn þarna um daginn?

    (Hvað sem það nú þýðir að vera lyftustjóri – þekkist svoleiðis starf hérlendis?)

  29. Neibb, sver af mér allan prívatvinskap við þennan Halldór L. Meðan ég var starfandi kennari var reynslan sú að það þurfti einungis eitt verkefni til að nemendum yrði ljóst að fyrirmæli giltu og þeir fóru að fyrirmælum eftir það. En eitthvað virðist ganga verr að kenna vantrúarfélögum og þeirra fylgismönnum að brúka fullt nafn í athugasemdum (svo sem er almenn kurteisi og þyrfti nú varla að taka fram við fullorðið fólk). Ef fyrirmæli um slíkt standa ekki feitletruð í hverri einustu færslu geta sumir þetta ekki. Ég ákvað að leyfa athugasemd hins föður- eða móður-lausa Halldórs að standa því ella hefði hann örugglega vænt mig um stórkostlega og ómaklega ritskoðun, allt að því ofsóknir, eingöngu vegna vantrúar sinnar 😉

    Lyftustjórar eru ákaflega sjaldgæfir og nú alfriðaðir 🙂

  30. Andrés B. Böðvarsson on February 7, 2012 at 00:44 said:

    Ertu ekki þar með að gerast sek um „ritskoðunarsjálfsritskoðun“ með því að veita þessum Vantrúarmeðlimi/-stuðningsmanni undanþágu frá reglunum á grundvelli ætlaðrar píslarvættisfýsnar? 😛

  31. Jú 🙂 Líklega móðureðlið sem villir mér sýn …

  32. Halldór L. on February 7, 2012 at 08:11 said:

    Helgi, ég hef ekki gefið upp fullt nafn á netinu síðan þú hótaðir mér lífláti og ég þurfti að kalla biskupinn til.

  33. Helgi Ingólfsson on February 7, 2012 at 09:14 said:

    Sæl Harpa.

    Í fyrstu ætlaði ég að biðja þig um að fjarlægja þessa síðustu athugasemd Halldórs L (nr. 32), ef ekki á grundvelli nafnleysis, þá á grundvelli siðleysis.

    Nú vil ég biðja þig um að láta hana standa. Hún er enn einn vitnisburður um hvernig sumir áhangendur Vantrúar veigra sér ekki við að bera á menn alvarlegar upplognar sakir. Megi menn sjá hér svart á hvítu siðferðisstig þeirra, sem svo mæla.

  34. Er að hugsa um að tékka á hver þessi píslarvottur, Halldór L, er eiginlega. Kann illa við búrkur á netinu …

  35. Helgi: Nú er ég búin að tékka á honum Halldóri okkar “L” og get upplýst að þetta er myndarpiltur og af góðum ættum. Auk þess er hann undir lögaldri og því örugglega ekki í félaginu Vantrú, skv. lögum þess félags.

  36. Helgi Ingólfsson on February 7, 2012 at 20:41 said:

    Harpa:

    Ertu að segja mér að félagið sé farið að starfrækja ungliðadeild?

  37. Er það ekki aðall allra alminlegra félaga að starfrækja ungliðadeild? Jafnvel leynilega? Hér á Stór-Akranessvæðinu starfaði víst einhvern tíma marxísk skátahreyfing, skv. þjóðsögum/almannarómi og væntanlega er foreldrum á sama svæði slétt sama um þótt afkvæmi þeirra séu í ungliðahreyfingu Vantrúar (sé hún til) 😉

  38. Guðbergur Ísleifsson on February 8, 2012 at 00:29 said:

    Það er einmitt þetta sem mér leiðist einna mest … þegar ungt fólk ánetjast Vantrú, tekur sér Vantrúarforkólfana til fyrirmyndar og langar til að vera eins og þeir og gera eins og þeir. Við skulum vona að Halldór L. eigi eftir að þroskast upp úr þessu og finna sér betri og verðugri félagsskap og fyrirmyndir í lífinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation