Einkennist baráttan gegn hindurvitnum af hindurvitnum?

Í gærkvöldi sýndi RÚV myndina Living Matrix: A film on the new science of healing. Ætla mætti af bloggum og vefmiðlum að um væri að ræða megnan heilaþvott sem við hrekklausa og einfalda fólkið værum fyrirfram berskjölduð gegn og mikil þörf á að þeir veraldarvanari og vellesnu verðu okkur gegn svona viðbjóðsmynd og lífshættulegum hugmyndum.

Sem dæmi um pössun hinna vellesnu og veraldarvönu má nefna bloggfærslu Valgarðs Guðjónssonar vantrúarfélaga, Á RÚV að sýna svona rugl?, og 111 ummæli (í þessum skrifuðum orðum) um hana; pistil ritstjórnar Vantrúar, Kjaftæði í sjónvarpinu; örfærslu Matthíasar Ásgeirssonar vantrúarfélaga, Skilaboð til RÚV, (mögulega þarf að líma Vantrúar- og Örvitaslóðirnar í nýjan glugga út af tiktúrum Matta sem banna beinan aðgang af blogginu mínu á þessar síður), bloggfærslu Jónasar Kristjánssonar, Kraftaverk í sjónvarpi, og líklega má finna fleiri bannbloggfærslur ef maður nennir að leita.   

Mér finnst ansi fyndið að lesa þessi blogg og umræðuhala við þau. Sem dæmi má taka:

  • Hin vísindalega aðferð mun vinsa úr ruglið á endanum (Hansi – í umræðu á bloggi Valgarðs)
  • Myndi þú sitja þegjandi hjá ef RÚV sýndi „heimildamynd“ þar sem fullt af fólki kæmi fram og fullyrti að það væri ekkert að því að gleypa blásýru? (Valgarður – í umræðu á bloggi Valgarðs)
  • Aldrei hefur verið vísindalega sýnt fram á virkni kraftaverkalækninga. [- – -] Ríkissjónvarpið á ekki að leggja sitt lóð á vogarskál hjáfræða og kraftaverka handa trúgjörnum. (Blogg Jónasar Kristjánssonar)
  • Myndir á borð við þessa gera ekkert nema koma inn ranghugmyndum hjá áhorfendum og ýta undir notkun á skottulækningum og afneitun á þeim aðferðum sem sýnt er að virki. (Vefur Vantrúar)
  • Það eru engar óhefðbundnar lækningar; það eru einungis lækningar sem búið er að sýna fram á að virki og svo kjaftæði (Halldór L – nærsveitungi minn – á vef Vantrúar)

Hippókrates kennir � KosÍ stuttu máli sagt má segja að umfjöllun um þessa mynd einkennist annars vegar af löngun til að banna kynningu á öðru en viðurkenndri vestrænni læknisfræði og hins vegar bláeygri tröllatrú á þessari sömu viðurkenndu vestrænu læknisfræði. Ég hef nú öðlast meir en áratugs reynslu af viðurkenndri vestrænni læknisfræði til bóta á mínum velskilgreinda sjúkdómi skv. amrískum og evrópskum stöðlum og sjúkdómsgreiningum byggðum á viðurkenndum vestrænum sálfræðiprófum. Læknisráðin byggjast á vísindalegum rannsóknum og eru einkum fólgin í pillum og rafmagnsstuðum. Því miður verð ég að hryggja þá vellesnu og veraldarvönu og umhyggjusömu með því að þegar betur að gáð reynist velskilgreindi sjúkdómurinn álíka skiljanlegur og hann var á dögum Hippokratesar; v.v. sálfræðiprófin mæla ekki endilega það sem þau eiga að mæla enda má svindla á þeim; niðurstöðurnar úr vísindalegu rannsóknunum eru úrval þóknanlegra niðurstaðna en endurspegla ekki raunveruleikann og í stuttu máli sagt virkar þetta vísindalega vestræna læknisráðadót afar illa! Og mér er vel ljóst að þessi staðreynd á ekki bara við um minn sjúkdóm, þunglyndi, heldur marga aðra sjúkdóma. Af hverju ætti fólk ekki að prófa eitthvað annað þegar  „lækningar sem búið er að sýna fram á að virki“ virka alls ekki og er raunar ekkert endilega búið að sýna fram á að virki þótt sæmilega vellesinn haldi það? (Styttan er af Hippokrates að kenna nemendum, í Kos á Grikklandi.)

Hvað með gildi reynslunnar þótt vísindalegar sannanir skorti? Psoriasis-sjúklingar uppgötvuðu sjálfir að vatnið í manngerðu Bláa lóninu virkaði til bóta … voru það ekki skottulækningar sem bar að steinþegja yfir og banna með öllu? Ég þekki persónulega til MS-sjúklinga og fólks með vefjagigt eða alvarlega síþreytu sem hefur hlotið bót af LDN (Low Dose Naltrexone) en það er upp og ofan hvort sérfræðilæknar fást til að skrifa upp á lyfseðla fyrir því lyfi af því engar tvíblindar rannsóknir eru til sem sýna fram á virkni lyfsins við þessum sjúkdómum.  Sem gæti kannski hangið saman við að þetta er gamalt, ódýrt lyf og ekkert lyfjafyrirtæki sér möguleika á að stórgræða á því … 

Hvað með AA, hið eina sem virðist skila sæmilegum árangri til að alkóhólistar og fíklar nái bata; Eru AA ekki svakalega óvísindaleg samtök sem einkennast af hindurvitnum? Þar tíðkast meira að segja að fara með BÆN og blanda guði inn í málin! Mér vitanlega hafa AA samtökin aldrei verið rannsökuð „með vísindalegum aðferðum“. Er þessi eina aðferð sem virkar sæmilega gegn alkóhólisma í rauninni bölvaðar skottulækningar? Og ætti þess vegna að banna samtökin og setja meðlimina beint á Antabus, sem er einmitt vísindalega gjörprófað vestrænt læknislyf?

Ég er orðin dálítið þreytt á bláeygum trúgjörnum talsmönnum vestrænnar læknisfræði sem vilja hafa vit fyrir okkur hinum, aumingjunum, og passa að við leggjumst nú ekki í eitthvað sem ekki er „vísindalega sannað“. Mér sýnist að þeir sem vilja einkum banna sjúklingum að nota annað en það sem fæst í apóteki og læknir veltalandi á íslenska tungu hefur ávísað séu einmitt svona frekar stálhraustir og þurfi sjálfir ekki á lækningu að halda. Af hverju er hinum stálhraustu svo umhugað um að veikir fari sér ekki að óvísindalegum voða?

Er mögulegt að helstu sjálfskipuðu kjaftæðisvaktendur og andstæðingar hindurvitna haldi sjálfir fram hindurvitnum?  Þeim hindurvitnum að einu lækningarnar sem virki séu af meiði vestrænnar læknisfræði?

P.S. Nei, ég horfði ekki á myndina á RÚV, var að gera annað. En ég hef álíka lítinn áhuga á að banna svona myndir og ég er áhugalaus um að banna fótbolta (sem getur haft virkilega slæmar aukaverkanir, ég hef unnið með og kennt það mörgum fótboltastrákum til að gera mér grein fyrir því) … horfi aldrei á þetta spark en get vel unnt öðrum þess. Og hef tröllatrú á að fólk sé almennt með fullu viti, þokkalega dómgreind og það þurfi ekki að passa upp á hvað það horfir á í sjónvarpi.

21 Thoughts on “Einkennist baráttan gegn hindurvitnum af hindurvitnum?

  1. gua on May 3, 2012 at 22:16 said:

    Ég horfði á myndina eða reyndi það allavega,fannst þetta óttalega klent og hefði ekki nennt að hanga yfir þessu nema bara fyrir það að ég hélt að einhvað æsispennandi myndi gerast 🙂

    Annars er ég sammála, hver verður að ganga sína leið í lífinu og finna hvað hentar í hverju sinni, flestir hafa óbrenglaða dómgreind og þurfa ekki á vernd “Stóra bróðurs” að halda.

    kv.gua

  2. Erna Magnúsdóttir on May 3, 2012 at 22:32 said:

    Það er ekkert að því að hugsa út fyrir boxið eins og Kaninn segir Harpa og vissulega eru nútímalæknavísindi mjög langt frá því að vita öll svörin. Það sem ég hef séð af þessari mynd (horfði á Youtube þar sem ég bý ekki á Íslandi) var eiginlega bara loddaraskapur og lygar. Mér finnst ljótt að ljúga að veiku fólki og græða á vanmætti annarra.

    Til dæmis kom fram að lyfleysuáhrifin gætu læknað 30% af öllum sjúkdómum, en að þau væru ekkert rannsökuð. Ég er lífvísindamanneskja og veit fyrir víst að lyfleysuáhrifin eru einmitt mikið rannsökuð og að 30% er alveg stjarnfræðileg ofáætlun. Lyfleysuáhrifin eru einmitt stórkostlega merkileg og munu vonandi nýtast okkur til þess að skilja líkamann betur í framtíðinni. Svo var talað um að ættleidd börn gætu erft krabbamein frá foreldrum sínum í gegnum einhver orkusvið og svo framvegis og svo framvegis. Því finnst mér það vera mikið dómgreindarleysi að sýna þennan þátt, sem heldur fram þessu bulli gagnrýnislaust.

    Hins vegar miðar vísindunum aldrei áfram nema að við viðurkennum að við vitum ekki allt. En til þess að framfarir eigi sér stað þurfum við að vita nákvæmlega hvað við vitum og hvað við vitum ekki. Þáttur eins og þessi ruglar þeim mörkum algerlega og staðhæfir sem sannleik hluti sem hafa ekki verið sannreyndir, og það tel ég vera vandamál.

    Það er vandamál að setja hluti fram gagnrýnislaust eins og gert var í þessari mynd, mér finnst það álíka gagnrýnivert og ef að lyfjafyrirtæki myndi sleppa því að skrifa niður aukaverkanir af lyfjum á pilluglös.

    Ég held að málið sé ekki að banna svona myndir, en mér finnst kæruleysi af ríkisfjölmiðli, sem ber vissa ábyrgð gagnvart okkur skattborgurunum um ábyrga upplýsingagjör, að sýna þetta. Fyrir utan það að enginn fjölmiðill er hafinn yfir gagnrýni.

  3. Ég var einmitt að hugsa um að horfa á myndina á YouTube, eins og þú Erna, en hef ekki komið því í verk. Orð Gúu draga soldið úr áhuganum sem kjaftæðisvaktendur höfðu kynt rækilega undir 😉

    Í gagnrýni á þunglyndislyfjarannsóknir hefur komið fram að lyfleysuáhrif séu vanáætluð og rökstutt þannig að þegar lyf er prófað er afhentur listi yfir mögulegar aukaverkanir. Af þessum aukaverkunum átti margir þátttakendur sig fljótlega á hvort þeir séu að taka oblátu (hveitipillu), sem hefur engar aukaverkanir, eða virkt lyf. Og af því fólk langi svo til að batna sé geti vissan um að þátttakandi sé að taka virkt lyf nægt til að honum finnst sér skána og skáni þ.a.l. þótt lyfið virki í rauninni ekki baun. Þannig sé tvíblindni lyfjarannsókna stórlega ofmetin og lyfleysuáhrif vanmetin. Hafandi reynt mismunandi slæmar aukaverkanir af þessum 20+ lyfjum sem ég hef prófað efast ég ekki um að þessi kenning stenst. En ég man ekki eftir að hafa séð áætlaðar tölur í þessu sambandi og er sammála þér um að 30% virðist nokkuð há tala, fyrir svo utan það að ég efast um að lyfleysuáhrif ein og sér geti læknað alla sjúkdóma.

    Mér finnst, eins og þér, að það væri gagnrýnivert ef lyfjafyrirtæki sköffuðu ekki lista yfir aukaverkanir. Mér finnst enn gagnrýniverðara þegar lyfjafyrirtæki standa að lyfjarannsóknum, velja úr þær sem sýna hagstæðar niðurstöður um virkni lyfs en “fela” hinar rannsóknirnar. Um þessa staðreynd í mörgum þunglyndislyfjaprófunum hefur verið fjallað ítarlega, á íslensku er það helst Steindór J. Erlingsson sem hefur rakið slatta af slíkri umfjöllun og vísað í heimildir.

    Ég held að við getum aldrei “vitað nákvæmlega hvað við vitum og hvað við vitum ekki” vegna þess að líf hvers manns (kroppur og sál, félagslega aðstæður, kyn, lífsviðhorf o.s.fr.) er ekki mælanlegt. Það er kannski helsti gallinn við hefðbundna vestræna læknisfræði að hún gerir ráð fyrir að allt sé mælanlegt. Líklega er þetta sama hugsunin og Snorri Sturluson kallaði “að skilja jarðlegum skilningi” og átti við þá sem var “ekki gefin andleg spektin”. Kannski er þessi ofurtrú á að allt sé mælanlegt ástæðan fyrir því að þrátt fyrir að ofboðslegri vinnu og fjármagni hafi verið eytt í rannsóknir á þunglyndi er niðurstaðan því miður sú að menn eru litlu nær um sjúkdóminn en þeir sem fjölluðu um melankólíuna forðum. Það eru að vísu komin ný orð og hugtök, menn tala um boðefni í stað svartagalls, en vitneskjan ristir jafn grunnt og lækning við alvarlegu þunglyndi er jafn fjarlæg. Ég hef núorðið jafnmikla (eða litla) trú á blóðtöku að hætti Hrafns Sveinbjarnarsonar og lyfjasullinu 😉

    Mér finnst að RÚV eigi að sýna fjölbreytt efni en ekki einungis það sem samþykkt er af sjálfskipaðri hugsanalöggu. Fólk á þá val og val er mikilvægt. Með þessu er ég vel að merkja ekki að halda því fram að æskilegt sé að sýna klám, ofbeldi og hrylling, við skulum halda okkur innan almennt viðurkenndra siðferðilegra viðmiða. Slæ varnaglann af því sumum lesendum bloggsins míns hættir til að skilja um of bókstaflegum skilningi/jarðlegum skilningi.

  4. Pétur Þorsteinsson on May 3, 2012 at 22:59 said:

    Magnyl er einkar skemmtilegt dæmi. Sérvitur klerkur í saggafullu prestakalli í Skotlandi fékk þá hugljómun að Guð hlyti að hafa komið viðeigandi lyfi gegn kvefi og höfuðþyngslum, sem stöðugt plöguðu sóknarbörnin, fyrir í náttúrunni umhverfis.

    Skemmst er frá því að segja að klerkurinn tuggði allt laust og fast í héraðinu – og viti menn honum svíaði verkurinn þegar hann japlaði á víðiberki. Það var dásamleg sönnun og fulllkomlega óvísindaleg.

    Löngu síðar einangruðu menn virka efnið í magnyl og enn síðar fundu menn aðferð til að framleiða það í verksmiðjum. Það er eitt mest notaða lyf veraldarinnar.

    Punkturinn er að enn veit enginn maður hvers vegna magnyl hefur verkjastillandi áhrif. Hvað það varðar erum við á sama stað og klerkurinn góði í Skotlandi.

  5. Erna Magnúsdóttir on May 3, 2012 at 23:13 said:

    “Mér finnst að RÚV eigi að sýna fjölbreytt efni en ekki einungis það sem samþykkt er af sjálfskipaðri hugsanalöggu.” Vissulega. En það voru hreinlega lygar í þættinum. Sem er ekki sniðugt. Sérstaklega ekki þegar um er að ræða lækningar og sambandið milli desperasjónar sjúklinga og svo þeirra sem lofa töfralaunsum sem er náttúrulega mjög hentugt að ekki séu mælanglegar.

    Ég er líka sammála þér með að lyfleysuáhrifin séu vanmetin. En vissulega ekki upp að þessum 30%. Og læknavísindin verða hreinlega að gera ráð fyrir að hlutir séu mælanlegir, annars myndu þau líða undir lok. Ekki gleyma þeim framförum sem aðferðafræði læknavísindanna hafa skilað okkur.

    Annars mæli ég ekki með þessum þætti heldur sem skemmitefni, ég þurfti að halda mig alla við efnið.

  6. Erna Magnúsdóttir on May 4, 2012 at 06:35 said:

    Pétur, handa þér: Nákvæm lýsing á því hvernig magnyl (acety salicyl sýra) virkar: http://en.wikipedia.org/wiki/Acetylsalicylic_acid

  7. “Hvað með AA, hið eina sem virðist skila sæmilegum árangri til að alkóhólistar og fíklar nái bata”

    Ég veit ekki betur en að langtímaárangurinn hjá AA sé áætlaður um 5% eins og með öðrum meðferðarúrræðum, en það verður víst að áætla hann þar sem meint nafnleysi kemur í veg fyrir almennilegar rannsóknir. Ef þú getur vísað mér á einhverjar heimildir um þennan “sæmilega” árangur AA þætti mér gaman að skoða þær.

  8. Nei, Tinna Gígja, ég get ekki vísað þér á nein töluleg gögn um AA samtökin og mér þykir ólíklegt að þau séu til því samtökin eru þess eðlis að um þau er ekki hægt að safna tölulegum upplýsingum. Hvaðan hefurðu þessa 5% tölu?

    Ég byggi einungis á eigin reynslu af AA samtökunum sem ég hef stundað síðan 1989. Á öðru er ekki að byggja. Í ljósi hennar hljómar 5% langtímarárangur eins og brandari 😉

  9. Hm … Erna … er þátturinn ekki einu sinni sæmilegt skemmtiefni? Spurning hvort maður á nokkuð að eyða tíma í hann, þá. En ég ítreka að aðalefni færslunnar var ekki gæði þessa þáttar, sem ég hef ekki einu sinni horft á, heldur barátta nokkurra hrópenda á víðlendum vefjarins fyrir því að banna öðrum alla vitneskju sem þeir telja hindurvitni. Ég treysti þessum hrópendum ekkert alltof vel til að meta hvað eru hindurvitni og hvað ekki og finnst þeirra málflutningur raunar endurspegla hindurvitni (þ.e. bláeyga trú á gagnsemi vestrænnar læknisfræði). Og ég er komin með ævilangt ógeð á hugsanalöggunni!

  10. bjarki on May 4, 2012 at 13:37 said:

    Sæl Harpa. Af hverju viltu banna gagnrýni á ríkissjónvarpið?

  11. Þú hefur eitthvað misskilið færsluna, bjarki. Í henni kemur hvergi fram að ég hafi áhuga á að banna gagnrýni á ríkissjónvarpið. Hins vegar hef ég áhuga á að andæfa fólki sem vill banna skoðanir sem ekki eru því þóknanlegar.

  12. Með töluverðri rörsýni sýnist mér þú vilja ritskoða þá sem gagnrýna hindurvitni. Hvað næst? Brenna bækur um efahyggju?! Útrýmingabýðir fyrir efahyggjufólk?!?!!!11einn

    Þú ert hatrömm, Harpa. Bara algjör öfgamaður í þessum stórhættulegu skoðunum þínum. Mér verður bara ómótt að vita til þess að þú býrð á sama landi og ég. Hjálpi mér!

  13. bjarki on May 4, 2012 at 15:25 said:

    Þetta er nú nokkuð harkalega orðuð færsla hjá þér engu að síður. Það mætti ætla af henni að þú treystir ekki okkur hrekklausu einfeldningunum til þess að meta það sjálf hvort að þessi gagnrýni á dagskrárval RÚV eigi rétt á sér eða ekki.

  14. Helgi Ingólfsson on May 4, 2012 at 17:11 said:

    Sæl, Harpa.

    Ég horfði á þessa mynd, nokkuð spenntur eftir að Valgarður Guðjónsson hafði auglýst hana rækilega (en hefði sennilega látið hana framhjá mér fara ella).

    Skemmst frá að segja var þetta frámunalega óspennandi mynd um orkusvið mannslíkamans og einstakra líffæra hans (eftir kortér af myndinni geispaði frúin mín stórum og dreif sig í háttinn; ég þraukaði til enda, illu heilli). Ef ekki hefði verið fyrir tvo vafasama “heilara”, þá hefði þessi mynd næstum getað talist nokkuð sakleysisleg og innan marka vísindalegra hugmynda, þó rækilega á jaðrinum. En heldur þótti mér ósannfærandi “heilarinn” Adam, sem bjó í Vancouver og læknaði Mitchell nokkurn, geimfara með meiru, í Florida (sem glímdi við eitthvað afar óljóst “irregularities in the kidneys”) með “fjarheilun” án þess að hitta geimfarann nokkurn tíma, út frá ljósmynd einni! Seiðandi nýaldartónlistin, sem leikin var undir myndina í gegn, var svo kapítuli út af fyrir sig.

    Ég hef sagt annars staðar að sjálfsagt er að RUV sýni svona myndir, þótt ekki sé fyrir annað en að kynna mönnum misvitrar kenningar í samtímanum. Hins vegar var kynningu RUV á myndinni stórlega ábótavant, þar sem í henni fólst staðhæfing um gildi eða virkni þessara lækninga. (Auk þess var titill myndarinnar, The Living Matrix”, illa þýddur sem “Óhefðbundnar lækningar”, en myndin sýndi afar takmarkað og umdeilanlegt sjónarhorn slíkra lækninga).

    Lærdómurinn er því: Í guðanna bænum, ekki eyða tíma þínum í þessa mynd. Hún er ekki þess virði.

    En svo er aftur htt viðhorfið, að maður þarf að hafa séð verkið til að geta dæmt það … 😉

  15. Tek orð þín, Helgi, Ernu og Gúu fyrir satt og fer ekkert að spandera tíma mínum í þessa mynd, treystandi ykkur vel til að meta hana. Eftir stendur samt gagnrýnin jafnt og áður, þ.e. að gaggið í hinum rétthugsandi og þrá þeirra til að fá að hafa vit fyrir okkur hinum með því að banna allar upplýsingar sem þeim hugnast ekki er óþolandi 😉 Heldurðu að fjöldinn stökkvi á heilun eftir að hafa horft á þessa mynd, annars?

    Þórður minn kær: Ég held að það sé ekki hollt fyrir þig og Matta og hinar viðkvæmu sálirnar í Vantrú að lesa bloggið mitt yfirhöfuð. Ég er ekki banna ykkur það enda væri það í andstöðu við efni færslunnar. En líttu á þetta sem vingjarnlega ábendingu einvörðungu veitta með ykkar eigin sálarheill í huga. Ég reikna með að bjarki sé líka ein af þessum viðkvæmu vantrúarsálum.

  16. Jóhann Bogason on May 4, 2012 at 19:21 said:

    Kannski þú gætir haft gaman af þessu:

    http://www.youtube.com/watch?v=8fILqMdiBZ8

    Vantrúarfélagar fyrirlíta svona dótarí.

    🙂

  17. Jeddúddímía og jeremías!!! Ertu að beita á mig þöggunartilburðum Harpa?!! Ertu bara beinlínis að banna mér að tjá mig hér á þessari síðu?!11einneinn! Ég er orðlaus yfir þessum ofsækis- og fasismatendensum þínum Harpa. Orðlaus bara! Sveiattan. Fuss! Er þetta kannski hótun?! Á ég að þurfa að hringja í lögregluna á þig?! Á ekki til eitt aukatekið á innsoginu.

  18. Takk Jóhann … ég kíki á þetta á morgun (ég er nefnilega svo myrkfælin … efnið hentar ekki rétt fyrir svefninn, skilurðu).

    Þórður: Almáttugur minn! 😉

  19. Ekki ætla ég að vefengja að þessi ekkisens þáttur hafi verið fullur af lygi – en mér sýnist að ummælum um hann að þessi lygi hafi verið fremur lítt sannfærandi og léleg og þar með heldur meinlaus. Lygi verður ekki mjög skæð fyrr en hún hefur hreiðrað um sig í vitund manna sem pólitískt rétt og ef hún fær í ofanálag gæðavottun frá vísindasamfélaginu þá er veruleg hætta á ferðum.

  20. Þ. Lyftustjóri on May 12, 2012 at 12:57 said:

    Það er þó eftirtektarvert að byskupsritarinn ákallar bæði almættið og einn af stærri spámönnunum þegar honum finnst að sér vegið. Bendir það til þess að fagnaðarerindið hafi læðst aftan að honum og tekið sér bólfestu í sál hans. Virðist því von til að hann verði hólpinn. Hallelúja!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation