Fráhvörf

Á þriðjudaginn steig ég lokatröppuna og hætti alveg Rivotril áti. Það verður að segjast eins og er að fráhvörfin eru viðbjóðsleg! Skv. tröppun til þessa má ætla að þau skáni eilítið eftir tvær vikur en það er svo sem ekki mikil huggun í dag. Í einhverjum benzó-fráhvarfafræðum sá ég að fráhvörf af þessu lyfi voru kölluð “flue-like symptoms” og er alveg sammála þeirri lýsingu: Að hætta á Rivotril er eins og að kalla yfir sig 40 stiga hita vikum og mánuðum saman!

Þetta er sem sagt þriðji mánuðurinn í að hætta. Tröppurnar hafa verið 1 mg oní 0,5 mg, svo oní 0,25 mg og loks niður í 0 mg. Í dag er eins og hausinn á mér sé í skrúfstykki, mig svimar, jafnvægisskynið er truflað (eins gott að ég bý að langri reynslu af Akraborgarferðum), mér er flökurt, ég fæ skelfilegan kölduhroll og tímaskynið hefur fokkast verulega upp; þessi dagur er a.m.k. 72 klst langur.

Einu ráðin í stöðunni eru að pína sig í langa hraðgöngutúra (eigin endorfínframleiðsla slær aðeins á einkennin, liðkar vöðva sem eru í hnút og opnar æðar sem eru líklega samanherptar) og taka einn klukkutíma í einu á þessum ógurlega löngu dögum … eiginlega hlakka ég mest til að sofna í kvöld og sleppa aðeins út úr þessu. Mér dettur ekki í hug að reyna þetta án þess að nota svefnlyf og lít á niðurtröppun af Imovane sem seinni tíma vandamál. Það er annað en segja það að píska sig áfram í langan labbitúr þegar manni líður sem fráveikum af flensu. En endorfínið sem fæst með áreynslunni virkar smá stund á eftir.

Ég hefði ekki trúað því að óreyndu að svo löng og hrikalega slæm fráhvörf fylgdu því að hætta á ekki stærri skammti af þessu helvítis lyfi. En hafi maður tekið Rivotril um langt skeið, í mínu tilviki næstum áratug, má víst búast við þessu. Mér finnst orðið ansi vafasamt að setja fólk á þetta lyf yfirhöfuð þótt ég viðurkenni fúslega að kvíði og ofsakvíðaköst séu svo sem ekkert gamanmál. Svo hugsa ég til þess með hryllingi þegar Rivotril var trappað úr 1,5 mg oní 0,5 mg á nokkrum vikum í síðustu geðdeildarvist; ekki skrýtið að ég hafi skolfið af kulda seinnipartinn og á kvöldin, íklædd hverri peysunni yfir aðra og undir sæng að auki!  Þá var ég stjörf af þunglyndi sem hefur þann eina kost að deyfa kvíða eins og allt annað en linar líklega ekki Rivotril-fráhvörf að ráði. Núna er ég tiltölulega vel haldin af þunglyndinu og finn þá kannski meira fyrir fráhvörfunum … á hinn bóginn gæti ég aldrei gengið í gegnum þennan hrylling ef ég væri ekki sæmilega frísk, hugsa ég.

Ég get ekki ímyndað mér annað en það að hætta að reykja sé létt verk og löðurmannlegt hjá því að hætta á Rivotril. Kannski ég prófi það í haust þegar ég verð orðin vel verseruð í sjálfspyndingum 😉

5 Thoughts on “Fráhvörf

  1. Úff! Gangi þér vel í þessari þrautagöngu.

  2. Takk takk, nafna. Þetta getur eiginlega bara skánað úr þessu ;(

  3. En svo ég víki að einhverju jákvæðu: Af (útlendu) netspjalli þeirra sem hafa hætt á Rivotril að dæma virðast ansi margir upplifa stöðuga hringingu eða són fyrir eyrum. Ég hef EKKI fundið fyrir því 😉

  4. Lára kristín on May 21, 2012 at 13:39 said:

    sæl, ég gekk í gegnum það sama með fráhvörf af sobril.
    8 mánuðum seinna er ég eiginlega ennþá dálítið mörkuð af þeim, ég tók líka sobril í 6 ár.

  5. Takk fyrir kommentið Lára Kristín: Ég vona að Rivotrilfráhvörfin endist ekki í ár En lýsingin á að hætta á Sobril (öðru bensólyfi) bendir kannski allt eins til þess … OMG!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation