Ég hef lengi ætlað að blogga um munstur, sérstaklega áttblaðarós, sem margir virðast halda að sé séríslenskt munstur, til vara norrænt munstur, en er í rauninni alþjóðlegt munstur.
Heitið á þessu munstri er dálítið misvísandi því til er annað mjög algengt munstur sem er stílfærð rós með átta krónublöðum. Það segir kannski ákveðna sögu að orðið er hvorki að finna í Íslenskri orðabók (útg. Edda) né í Ritmálssafni Háskóla Íslands. Hins vegar eru dæmi um áttablaðarós í Ritmálssafninu; hið elsta er frá því seint á nítjándu öld og ekki hægt að sjá af því hvort um nákvæmlega sama munstrið er rætt en næstelsta dæmið á örugglega við þetta munstur. Það er úr Kvennablaðinu, 1. tbl. 1900, s. 7: „Uppdrátturinn er bezt að sé einhver „geometrisk“ mynd, t. d. stjarna, eða sem kallað er áttablaðarós, með sterkum litum, og sé svo fylt upp í kring með dökkleitara garni.“
Í nútímaprjónauppskriftum á ensku er þetta munstur oft tengt Noregi og kallað „Norwegian Star“ eða „Selbu Star“. Á norsku er það oftast kallað „åttebladsstjerna“ en stundum sérstaklega tengt Selbu-munstrum og kallað Selbusrosa. Selbu-stíllinn er samt alls ekki gamall eins og sumir halda heldur má rekja þessa ágætu hönnun til Marit Guldsetbrua Emstad sem skilaði inn vettlingum með „selburosa“ til Husfliden í Þrándheimi árið 1897. Það sem einkennir Selbu-stíl öðru fremur er að munstrin eru yfirleitt svört og grunnurinn hvítur.
Í Noregi eru til innfluttir silkiprjónjaðir jakkar frá því um 1600 með áttblaðarósamunstri, ýmist útprjónaðir í lit eða einlitu útprjóni (damaskprjóni). Svo prjónaði alþýðufólk eftirlíkingar af þessum jökkum. Jakkarnir og eftirlíkingarnar voru kallaðar „nattrøyer“. Í Danmörku prjónuðu menn líka „natttrøjer“. Þær voru prjónaðar með damask-prjóni, þ.e. voru einlitar en brugðnar (snúnar) lykkjur mynduðu munstur og reiti á sléttum grunninum. Áttblaðarósin var mjög algengt munstur á svona treyjum / jökkum, bæði í Noregi og Danmörku. Íslendingar virðast hins vegar ekki hafa hermt þetta eftir og eru minjar um íslenskt einlitt útprjón einungis tvær fremur ómerkilegar tutlur.
Áttblaðarós þekkist víða um heim, táknar ýmislegt og er örugglega ævagamalt mynstur. Sem dæmi má nefna eftirfarandi:
Mafaldapúðinn er eitt af elsta varðveittu prjóni í Evrópu, talinn prjónaður á 13. öld, er skreyttur áttblaðarósum. Á honum má raunar sjá bæði átta-arma-stjörnuna sem hérlendis er kölluð áttblaðarós, og raunverulega áttablaðarós, þ.e. rós með átta krónublöð.
Áttblaðarósin (átta-arma-stjarna) er eitt af þjóðartáknum Lettlands. Hún tengist gyðjunni Auseklis sem í lettneskri goðafræði samsvarar Venus í rómverskri goðafræði. Áttblaðarósin táknaði einmitt reikistjörnuna Venus meðal Babýloníumanna um 1600-1150 f.Kr. og var einnig tákn gyðjunnar Ishtar (frjósemisgyðju sem tengd var plánetunni).
Skv. kristinni táknfræði stendur áttblaðarósin fyrir Jesú Krist; „Ég er rótarkvistur Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan“ sagði Jesú (Opinberunarbókin 22:16). En María mey er einnig tengd áttblaðarósinni því munstrið ku einnig nefnt maríustjarna. Áttblaðarós má og nota til að tákna Betlehemsstjörnuna.
Munstrið er velþekkt fyrir botni Miðjarðarhafs og er stundum talið sérstakt palestínskt munstur. Það vakti nokkra athygli í mínum heimabæ, Akranesi, þegar palestínskar konur sem hingað komu úr flóttamannabúðum en bjuggu áður í Íran settu upp hannyrðasýningu og líta mátti „íslensku“ áttblaðarósina á sumum verkanna (hér er dæmi um það).
Tyrkir kalla áttblaðastjörnuna stundum frelsisstjörnu. Og mætti lengi telja misjöfn heiti og misjafna merkingu sem tengd er þessu alþjóðlega munstri. Þeim sem hafa svo áhuga á dulfræðilegum eiginleikum sem eignaðir eru áttblaðarósinni er bent á að lesa skáldsögu Óttars Norðfjörð, Áttablaðarósina, sem kom út 2010.
Í gömlum sjónabókum íslenskum, þ.e. handritum með munstrum, er áttblaðarósina auðvitað að finna. En þessi munstur voru fyrst og fremst hugsuð fyrir útsaum og langflest eru alveg eins eða náskyld munstrum í útlendum prentuðum bókum. Eftir því sem ég best veit er einungis eitt afbrigði af áttblaðarósinni sem gæti verið séríslenskt, það er oft kallað Skaftafellsrósin.
Elstu íslenskar minjar um útprjón í lit er smápjatla með bekk í tveimur litum á einlitum grunni, líklega frá 18. öld. Næstelstu minjar um svona prjón eru frá seinni hluta 19. aldar. Frá þeim tíma og fram yfir aldamótin 1900 er slíkt varðveitt prjónles nær einvörðungu vestfirskir laufavettlingar og mér þykir ólíklegt að finna megi áttblaðarós á þeim. Til eru prjónaðir vettlingar frá því seint á 19. öld með ísaumaðri áttblaðarós, með fléttusaumi. Um eða uppúr 1900 hefst uppgangur myndprjóns þar sem áttblaðarós í ýmsum útgáfum var með vinsælustu munstrum, nefnilega í garðaprjónuðum íleppum, og um svipað leyti náði tvíbandaprjón vinsældum.
Nú kann að vera að stefni í dómsmál þar sem áttblaðarósin kemur við sögu. Fyrir skömmu hótaði ullarverksmiðjan Drífa, sem framleiðir undir vörumerkjunum Icewear og Norwear, að kæra fyrirtækin The Viking og Álafoss fyrir að framleiða og selja vöru sem sé óeðlilega lík vöru Drífu og í þokkabót selja hana mun ódýrar en Drífa gerir. Sjá Ullarverslanir sakaðar um hönnunarstuld, á vef RÚV., Vísar ásökunum um hönnunarstuld á bug á RÚV, Segir atlögu gerða að íslenskri hönnun á vef Mbl. og „Aldagamalt og sígilt mynstur“ á vef Mbl.; allar fréttirnar eru frá 30. ágúst sl. Ég er ekki að bera blak af hönnunarþjófnaði en velti fyrir mér hversu mikinn einkarétt ullarverksmiðjan Drífa getur haft á þessu prjónlesi sem forsvarsmenn hennar telja stolna hönnun. Augljóslega getur Drífa ekki átt einkarétt á fingravettlingum, GSM-grifflum/vettlingum og húfum. Litasamsetning er með algengasta móti. Má því ætla að meginumkvörtunarefnið sé það sem Drífa álítur sitt munstur, sjá hitt skjalið sem sent var RÚV.
Grunnmynstrin eru svona:
Munstur Drífu | Munstur The Viking / Álafoss |
Úr áttblaðarós The Viking /Álafoss ganga skálínur milli armanna og enda á ferningum (eins og tíðkast í hamarsrós). Milli áttblaðarósanna er mjög lítill tígull – oft er það munstur kallað einhvers konar fuglsauga. |
Af því sem ég hef rakið hér að ofan er eiginlega augljóst að ekkert íslenskt fyrirtæki getur eignað sér áttblaðarósina sem sína hönnun. Og heldur ekki tígulinn sem er sömuleiðis þekkt munstur víða um veröld og gefin ýmis merking, finnst og í innlendum og erlendum sjónabókum. Borðarnir á flíkunum eru líklega ekki ásteytingarsteinn því þeir eru það ólíkir (auk þess að vera þekkt mynstur fyrir). Það verður spennandi að fylgjast með því hverjar verða lyktir málsins.
Helstu heimildir
Bækur:
Hélene Magnússon. 2006. Rósaleppaprjón í nýju ljósi.
Elsa E. Guðjónsson. 1984. „Traditionel islandsk strikning“ í Stickat och virkat i nordisk tradition.
Elsa E. Guðjónsson. 1982. Íslenskur útsaumur.
Sundbø, Annemor. 1998. Kvardagsstrikk. Kulturskattar frå fillehaugen.
Møller Nielsen, Ann. 1983. Pregle, binde og lænke – gammel dansk strikketradition.
Rutt, Richard. 1987. A History of Hand Knitting.
Vefir
Arfur palestínskra kvenna á Fjölmenningarvef barna.
Spænsku svæflarnir í Saga prjóns
The Latvian Mythology í Latvian History
Auseklis í Wikipedia
Astronomy of Babylon í Classical Astrologer
Ég get ekki séð að Drífa geti unnið þetta mál. Þetta eru afar algengar flíkur, svo ég tali nú ekki um munstrið og litirnir eru, eins og þú bendir réttilega á, með allra algengasta móti.
Já, ég get heldur ekki séð hvernig þetta mál ætti að geta unnist. Svo ég efast um að farið verði í mál, held að þetta upphlaup í fjölmiðlum hafi bara verið til að vekja athygli. En þetta var fín kveikja til að koma loks í verk að skrifa um áttblaðarósina 🙂
Ég man hvað ég var hissa þegar ég fyrst sá áttblaðarósina í einhverju útlandinu, en fór líka hálfgert hjá mér fyrir hversu barnaleg ég gat verið að virkilega halda að þetta væri eitthvað séríslenskt.
Það er svo annað, en í fyrra á sunnudagsmarkaðinum á torginu í Srinagar í Kashmir þar sem þeir selja notuð föt, sá ég síðan “gömlu” íslensku lopapeysuna í nokkrum eintökum og voru þar Rauða kross byrgðirnar okkar sjálfsagt komnar á áfangastað.. Og núna eru pottþétt líka til kashmirskar lopapeysur með “íslensku munstri” 😀
Kasmírskar lopapeysur með “íslensku munstri” hljóma nú ágætlega, sérstaklega fyrir mig sem þoli ekki að ganga í íslenskum lopa og eingirni en finnst munstrin falleg 🙂
Hér er síða sem ég rakst á um daginn sem selur norsku Maríuspeysurnar; Þær eru prjónaðar í Ekvador og meira að segja hægt að fá þær úr Alpakka: Norwegian Handknit Sweaters Designed in Norwary – Handknit in Ecuador. (Soldið fyndið að nafn Noregs skuli vera með stafavillu í titli síðunnar.)
Hönnuður Marius-peysanna, Unn Søiland, stóð í málaferlum einhvern tíma um 1990 gegn einhverjum sem framleiddi þessar peysur en tapaði málinu á þeim forsendum að munstrið væri svo algengt og svo gamalt að ekki væri hægt að halda fram einkarétti á hönnuninni. Svo minnir mig líka að mamma hans Maríusar hafi kært Unn og fært sterk rök fyrir að hún hafi hannað peysuna og Unn Søiland stolið hugmyndinni (mamman vann hjá Unn Søiland) en einhvern veginn gufaði það mál upp og Unn var ekki dæmd fyrir hönnunarstuld.
Svoleiðis að það virðist nú vera ansi erfitt að lögsækja fyrir hönnunarstuld þegar algengum mynstrum hefur verið raðað saman. Og óþarfi að æsa sig þótt “íslenskar” lopapeysur séu prjónaðar í Kína og mögulega í Kasmír líka 😉
Já guð mér dettur sko ekki í hug að æsa mig yfir svoleiðis löguðu, enda allar hugmyndir bara ein hringiða og oft yfirnátturuleg fyrirbæri, rekjanlegar eða órekjanlegar eða bara alls ekki..
🙂