Íþaka

Þegar þú heldur af stað til Íþöku skaltu
óska þess að ferðin verði löng,
lærdómsrík og full af ævintýrum.
Óttastu ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur reiðan sjávarguð.
Ef hugur þinn dvelur við háleit efni,
ef hold þitt og andi eru snortin því besta,
þá verða slíkir ekki á vegi þínum.
Þú hittir ekki kýklópa og ekki lestrýgóna
og ekki heldur trylltan sjávarguð
nema þú berir þá sjálfur í eigin sál,
nema sál þín reisi þá upp á móti þér.

Óska þess að ferðin verði löng,
að marga sumarmorgna komir þú
með unaði og gleði í ókunnar hafnir;
að í kaupstöðum Fönikíumanna,
staldrir þú við og eignist ágæta gripi,
perlumóðurskeljar, kóralla, raf og fílabein
og þokkafullan ilm af öllum gerðum,
sem allramest af þokkafullum ilmi;
að í borgum Egypta komir þú víða
og nemir, já nemir af þeim lærðu.

Hafðu Íþöku ávalt í huga.
Að komast þangað er þitt lokatakmark.
Gættu þess samt að herða ekki á ferðinni.
Betra er að hún endist árum saman;
þú takir land á eynni gamall maður,
auðugur af því sem þér hefur áskotnast á leiðinni
og væntir þess ekki að Íþaka færi þér neitt ríkidæmi.

Íþaka gaf þér stórkostlegt ferðalag.
Án hennar hefðir þú aldrei lagt af stað.
En hún hefur ekkert meira að gefa þér.

Þótt kostarýr virðist hafði Íþaka þig ekki að fífli.
Enda ert þú orðinn svo vitur, með slíka reynslu,
að þér hefur skilist hvað Íþökur þýða.

(Konstantinos P. Kavafis 1911. Atli Harðarson þýddi.)

Ég er lögð á stað til Íþöku …

2 Thoughts on “Íþaka

  1. Lyftustjórinn on October 19, 2012 at 22:51 said:

    Og hvað ertu að gera til Íþöku? Megirðu sleppa framhjá Sírenunum og hitta Penelópu hressa og káta. Vonandi færðu kaffi og með því hjá henni.
    Hvar er Íþaka annars?

  2. Málið er ekki að komast til Íþöku heldur að fara til Íþöku. Vegferðin er það sem skiptir máli, ekki ákvörðunarstaðurinn, þótt auðvitað skipti máli að líta Íþöku réttum augum komist maður þangað “gamall maður”. (Það væri óneitanlega gaman að hitta Penelópu, þá miklu hannyrðakonu, en hún byði sjálfsagt upp á vín en ekki kaffi 😉 ) Ágætt að hafa í huga að kýklópa og lestrýgóna er einungis að finna í eigin sál.

    Íþaka er ein jónísku eyjanna grísku. Við hjónin höfum haldið okkur á Hringeyjunum til þessa en kannski sækjum við eyjar í Jóníska hafinu einhvern tíma heim. (Frægust þeirra er Kerkyra, þekkt hérlendis undir enska heitinu Corfu. Mig langar afskaplega lítið til Kerkyra.)

    Mér hefur verið hugsað mjög til þessa kvæðis undanfarna mánuði, það er eitthvað heillandi við framsetninguna. Hef aldrei hrifist af Ferðinni sem aldrei var farin þótt boðskapur hennar sé kannski dálítið skyldur boðskap Íþöku.

    P.s. Bókhlaða MR heitir Íþaka. Ég er samt ekkert á leiðinni þangað … 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation