Jákvæð færsla

Ég spurði manninn: “Um hvað ætti ég að blogga eitthvað jákvætt?” Hann stakk auðvitað upp á bloggi um gula einstaklinginn … en ég er nýbúin að blogga um hann. Svo ég reyni að tína til sittlítið af hvurju annað þótt auðvitað sé Fr. Dietrich óumdeilanlegt jákvætt viðfangsefni. (Ég hef nefnilega fengið nóg af neikvæðni og hef ákveðið að hætta að lesa “fréttir” sumra vefmiðla + athugasemdadræsur og sumt annað netkyns – það er mannskemmandi.)

Jákvætt? Tja … í lífi öryrkjans gerist sosum ekki margt en það má einblína á þá jákvæðu smámuni sem gefast í umhverfinu. Má nefna klukkustundarlabbitúr í dag um þann góða Skaga og upp í Garðalund. (Ég er nefnilega hætt að labba norðanmegin á nesinu því ég nenni ekki að ergja mig á eigendum lausra hunda og svo framarlega sem ég fæ mér sjálf ekki alminlegan sjeffer til að vappa lausan mér við hlið er ég alls ekki óhult þeim megin.) Á Langasandi er alltaf sól, líka þegar rignir.

Fór áðan á kaffihús með vinkonu minni; OK, þetta er ekki beinlínis kaffihús heldur ísbúð en þarna fæst besta kaffið á Skaganum. Svo við létum okkur hafa það að sitja á barstólum við skenk – hvað gerir maður ekki fyrir gott kaffi? Hugguleg stund að venju.

Helgin hefur verið ljúf og letileg, sloppadagur á Joe Boxer í gær, hangið yfir bókum, sunnudagskrossgátunni og auðvitað horft á Matador. Ég hef meira að segja misst mig í Solitaire af og til, sem ég hef ekki lagt í mörg ár. Núna er ég að lesa Klingivalsinn (Klinkevalsen) eftir Jane Aamund, mikinn uppáhaldshöfund. Alveg er ég handviss um að ég hef séð sjónvarpsþætti eftir þessari bók, án þess ég muni neitt eftir söguþræðinum … ég sé nefnilega aðalpersónuna fyrir mér svo ljóslifandi að ég hlýt að hafa séð hana á mynd.

Af nýjum bókum er ég búin að lesa stutta titla: Skáld og Rof. Og svo náttúrlega Mensalder og Kattasamsærið. Veit ekki hvort telst með að ég las textana í Orð, krydd & krásir og skoðaði myndirnar en sleppti því að lesa uppskriftir enda ber ég ekki við eldamennsku. Þetta eru allt fínar bækur af ólíku tæi.

Á hverjum degi, upp á síðkastið, læðist tómið mikla aftan að mér en með því að ríghalda í ljósa punkta, passa að einföld atriði séu í lagi (eins og að fara á fætur fyrir átta á morgnana alveg burtséð frá því hvenær mér tókst að sofna, fara í langan göngutúr svo framarlega sem veðrið er ekki snarvitlaust, setja mér fyrir eitthvað skemmtilegt á hverjum degi, leiðrétta hugsanaskekkjur o.s.fr. … þetta er voðalíkt meðmæltu alkaprógrammi og eflaust mörgu öðru) hefur mér til þessa tekist að hrekja tómið á brott. Svo ég er frískari en ég hef verið í mörg ár.

Það sem mig vantar helst er meiri umgengni við fólk. Ég kíkti áðan á stundaskrár og námsframboð í HÍ á vorönninni en fann fátt spennandi þar. Samt leitaði ég líka í guðfræðideildinni 😉  Mér leggst eitthvað til, það er ég viss um.    

3 Thoughts on “Jákvæð færsla

  1. Hafrún on November 11, 2012 at 22:41 said:

    Lestur athugasemda við fréttir á netinu færa manni allt að því ólæknandi heimshryggð og vonleysi um framtíð mannkyns. Ég hef því miður ekki alltaf vit á að sleppa þeim lestri.

    Það háir mér að finna of mikið af spennandi námskeiðum í HÍ fyrir utan skyldunámskeiðin, en ég er nú líka svo nýbyrjuð, sennilega lagast það þegar líður á námið 🙂

  2. Ég hef heldur ekki nógu gott vit fyrir mér alltaf 🙂

    Kíki á dönskuna … kannski sé ég eitthvað þar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation