Í gær birtist fréttatilkynning frá Sálfræðingafélagi Íslands þar sem segir m.a.:
Sálfræðingafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af löngum biðlistum á Göngudeild Geðsviðs LSH. Eins og fram hefur komið í fréttum er lengsti biðtíminn eftir einstaklingsviðtölum við sálfræðinga vegna þunglyndis og kvíða.
[- – -]
Sálfræðingafélagið vill hvetja heilbrigðisyfirvöld til að tryggja að farið sé eftir þeim klínísku leiðbeiningum sem settar hafa verið hér á landi.
Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, var að vanda ómyrkur í máli og hélt því fram að stórum hluta þunglyndis- og kvíðalyfja væri sturtað í klósettið því fólk gæfist upp á að taka þau vegna aukaverkana og lélegrar virkni. Þótt þessari staðhæfingu hafi verið slegið sérstaklega upp var kjarninn í orðum Péturs:
Það sé sparnaður af því að bæta við þremur til fjórum stöðugildum á göngudeildina. Það sé sparnaður í lyfjakostnaði, í innlögnum, í skattfé, í minni forföllum fólks frá vinnu og svo framvegis.
Páll Matthíasson framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala mótmælti Pétri í kvöldfréttum RÚV og sagði að sálfræðingum á geðsviði Landspítalans hefði fjölgað en ekki fækkað eins og Pétur héldi fram. Hann tók svo undir orð Péturs um mikið álag á geðsvið og biðlista og kenndi heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um:
Meira sé af einfaldari vandamálum sem heilsugæslan ætti að geta sinnt heldur en maður sér í nágrannalöndunum. Það virðist vera svo að heilsugæslan sé í meira mæli að vísa málum til Landspítalans, en búast mætti við.
Í sama streng tók formaður Geðlæknafélags Íslands, Kristinn Tómasson, í Síðdegisútvarpi Rásar 2, þ.e.a.s. að heilsugæslan ætti að sinna þunglyndis- og kvíðasjúklingum í meiri mæli og efla þyrfti færni í viðtalsmeðferð á heilsugæslunni. Hann talaði heldur hlýlega um geðlyf við þunglyndi og kvíða og taldi af og frá að það myndi sparast svo mikið fé sem uppsláttur á orðum Péturs Tyrfingssonar gaf til kynna þótt aðgengi að sálfræðimeðferð yrði bætt. Kristinn taldi eðlilegt að sálfræðiþjónusta væri veitt af heilsugæslunni, hann líkti saman sjúkraþjálfun og sálfræðiþjónustu og taldi að sama ætti að gilda um hvort tveggja. Kristinn benti svo á að Starfsendurhæfingarsjóður byði upp á sálfræðiþjónustu. Þetta hef ég aldrei heyrt áður né hafði hugmynd um að lífeyrissjóður sá sem ég þigg örorkulífeyri frá er aðili að Starfsendurhæfingarsjóði VIRK.
Nú er spurningin hvort þessir ágætu menn sem ég hef vitnað í hér að ofan séu ósammála eða hvort þeir séu í rauninni ekki að tala um hið sama. Það getur t.d. vel verið að stöðugildum sálfræðinga á geðsviði Landspítala hafi fjölgað á sama tíma og sálfræðingum á göngudeild geðsviðs hafi fækkað. Um þetta hefði almennilegur fréttamaður spurt Pál Matthíasson. Sálfræðingurinn Pétur Tyrfingsson var væntanlega að lýsa núverandi ástandi á göngudeild geðsviðs, alveg eins og yfirlæknir geðsviðs gerði fyrir skömmu, og tók enga afstöðu til þess á hvers hendi sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða ætti að vera. Geðlæknarnir Páll Matthíasson og Kristinn Tómasson leggja hins vegar höfuðáherslu á að sálfræðimeðferð eigi að vera á könnu heilsugæslunnar en skauta báðir framhjá þeim klínísku leiðbeiningum sem geðsvið Landspítalans gaf út í ágúst 2011, sjá færslu mína Klínískar leiðbeiningar sem ekki er farið eftir. Fréttatilkynning/ályktun Sálfræðingafélags Íslands vakti á hinn bóginn sérstaka athygli á að ekki væri farið eftir þessum klínísku leiðbeiningum.
Eigin reynsla
Af eigin reynslu veit ég að sálfræðimeðferð er ekki flaggað framan í þunglyndis- og kvíðasjúklinga. Ég hafði þjáðst af felmtursröskun (ofsakvíðaköstum) í tæp 2 ár þegar geðlækninum mínum datt í hug að vísa mér til sálfræðings. Eftir þrjú viðtöl við sálfræðing á stofu úrskurðaði hann að ég væri of veik til að hafa gagn af HAM (hugrænni atferlismeðferð) við kvíða. Þetta var samt ákaflega gagnlegt fyrir mig því ég fékk fræðsluefni og nokkra nasasjón af því út á hvað HAM gengur.
Árið 2009 fór ég sjálf að leita mér upplýsinga um mögulega sálfræðimeðferð við mínum krankleika enda farið að renna upp fyrir mér að ótal lyfjakokteilar gerðu ekkert gagn. Ég bar árvekni (Mindfulness) og gjörhygli (DAM, díalektíska hugræna atferlismeðferð) undir minn geðlækni og hann svaraði diplómatískt að þetta kynni að gagnast sumum. Í desember 2009 hitti ég sálfræðing sem er einn af frumkvöðlum DAM en leist ekki nægilega vel á og gaf frekari viðtöl við þann sálfræðing frá mér. (Á þessum tíma var ég fárveik, bæði af sjúkdómnum og af lyfjunum.)
Vorið 2010 skráði ég mig að eigin frumkvæði á HAM námskeið gegn kvíða á vegum Kvíðameðferðarstöðvarinnar. Ég hafði enga trú á að þetta námskeið myndi virka en á hinn bóginn var ég búin að fá mig fullsadda af lyfjum og orðið ljóst að kvíðastillandi lyfið sem mér hafði verið ávísað allt frá árinu 2003 hafði ekki nokkur einustu áhrif til að koma í veg fyrir ofsakvíðaköst, ekki heldur öll hin lyfin sem ég hafði gaddað í mig öll þessi ár. Þrátt fyrir eigin fordóma gagnaðist námskeiðið frábærlega og mér opnaðist ný sýn! Ég uppgötvaði að með því að beita aðferðunum sem ég lærði á þessu námskeiði gat ég ýmist dregið mjög úr einkennum ofsakvíðakasta eða komið í veg fyrir þau.
Síðla nýliðins sumars fór ég á HAM námskeið á vegum geðsviðs Landspítalans, að eigin frumkvæði. Þetta var sex vikna grunnnámskeið gegn þunglyndi og kvíða. Það námskeið gagnaðist mér a.m.k. jafn vel, gott ef ekki enn betur en námskeið Kvíðameðferðarstöðvarinnar. HAM er, eins og Kristinn Tómasson komst að orði, nokkurs konar sjúkraþjálfun hugans og líklega þarf maður að fara reglulega í svoleiðis sjúkraþjálfun, auk þess auðvitað að kappkosta að gera æfingarnar sjálfur. Það að ég skuli ekki vera orðin fárveik á þessum árstíma, eins og mörg undanfarin ár, þakka ég ekki hvað síst þessu ágæta námskeiði.
Í apríl á þessu ári hóf ég að ganga reglulega til sálfræðings sem kemur hingað upp á Skaga. Hann hefur verið mér ómetanleg stoð. Aftur á móti tók geðlæknirinn minn, starfandi yfirlæknir á geðsviði Landspítala, það að ég skyldi sjálf panta tíma hjá sálfræðingi sem vantraustsyfirlýsingu á sig. Ég vona að þetta viðhorf þessa geðlæknis sé ekki lýsandi fyrir stéttina.
Sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða er örugglega ódýrari kostur þegar upp er staðið og gæti læknað fólk
Mér finnst ekki skipta máli hvort sálfræðimeðferð við þunglyndi og kvíða er á könnu heilsugæslunnar eða geðsviðs Landspítala, aðalatriðið er að hún sé aðgengileg og ekki alltof dýr. Fyrir sjúklinga utan höfuðborgarsvæðisins er sjálfsagt þægilegra að hún sé á vegum heilsugæslu. Í þessu sambandi má og geta þess að í Noregi hafa menn um skeið gert tilraunir með hugræna atferlismeðferð á netinu sem virðist hafa gefið góða raun. Hvernig væri að nýta löngu gamla tækni til HAM-meðferðar?
Ef maður lítur á ástandið núna er yfirlýsing Sálfræðingafélags Íslands alveg rétt: Það er fáránlegt að geðsvið Landspítalans skuli hafa samþykkt klínískar leiðbeiningar fyrir meir en ári síðan en fari svo ekki eftir þeim. Þeir sem veikjast af þunglyndi og kvíða í fyrsta sinn leggjast yfirleitt ekki inn á geðdeild heldur reyna að nýta sér þjónustu göngudeildar/bráðamóttöku. Ef sálfræðingar þar eru alltof fáir skiptir það litlu máli hvort sálfræðingum á öllum deildum geðsviðs hefur fjölgað, þessi sjúklingahópur er ekki að fara að leggjast inn heldur reyna að koma í veg fyrir að þurfa á innlögn að halda í framtíðinni.
Ef ég horfi bara á eigin sjúkrasögu er kristaltært að mikið fé hefði sparast ríkinu hefði ég fengið sálfræðimeðferð í tæka tíð, svo ekki sé minnst á þá miklu mæðu sem hefði líklega orðið mun minni. Ég vona að minn ágæti samsveitungur, velferðarráðherra, geri sér grein fyrir þessu og beiti sér fyrir að aðgengi þunglyndis- og kvíðasjúklinga að sálfræðimeðferð verði greiðara og fólk njóti sömu niðurgreiðslu sjúkratrygginga í sálfræðimeðferð og læknis-og lyfjameðferð við þessum krankleik. Þegar upp er staðið verður það mun ódýrari kostur.
Ég hef aldrei hitt þann sjúkling sem hefur batnað þunglyndi og kvíði af lyfjum.
Takk fyrir þetta fína blogg kæra Harpa
Mér finnst síðasta málsgreinin alveg unaðsleg, því í henni er stóri sannleikurinn fólginn eða hundurinn grafinn eða koma öll kurlin til grafar, hvernig sem við viljum orða það. Hvers vegna er fólki með sálræna krankleika ekki auðveldaður aðgangur að sálfræðiþjónustu, með samningi við T. R.?? Ég hef alltaf haldið og held enn að þar eigi læknamafían hlut að máli. Þeir myndu auðvitað missa spón úr aski sínum ef slíkur samningur yrði að veruleika, sumir yrðu raunar atvinnulausir, þeir eru nú ekki allir uppá marga fiska. Okkur væri öllum greiði gerður, ef þú sendir sveitunga þínum þetta blogg prívat og persónulega og sjálfur gæti hann verið þakklátur fyrir fróðlegt sjónarhorn. Þetta skiptir ekki bara máli fyrir okkur skjólstæðinga kerfisins, heldur alla í þessu landi.
Kveðja Helga.