Lífið í Korsbæk

Maude VarnæsÁ laugardögum tek ég frá tímann milli sjö og átta til að horfa á Matador í danska sjónvarpinu. Ég hef horft á einhverjar tætlur af þessari seríu áður, minnir að hún hafi verið sýnd tvisvar í íslenska sjónvarpinu, en bæði missti ég af mörgum þáttum á sínum tíma og man ekki vel eftir þeim sem ég sá svo þetta er nánast nýtt fyrir mér.

Þættirnir voru fyrst sýndir í danska sjónvarpinu á árunum 1978-81 en eru endursýndir reglulega og alltaf jafn vinsælir: Þegar endursýning hófst núna kom í ljós að Matador var miklu vinsælla en landsleikur Dana í fótbolta! (Ég er svo sem ekkert hissa á því …)

Lífið í Korsbæk, uppdiktuðum bæ, á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar er ekta líf. Þótt Upstairs Downstairs þættirnir bresku hafi verið kveikja að Matador er síðarnefnda serían miklu líkari mannlífinu eins og flestir þekkja það. Persónur í Matador eru vissulega nokkuð ýktar sumar en samt held ég að flestir þekki einstaka drætti í persónusköpuninni úr sínu nærumhverfi. Í Matador er sögð almennileg saga með fjölbreyttum sögupersónum og það er auðvitað lykillinn að velgengni þáttanna. Hver nennir að horfa aftur og aftur á lélega sögu með gervikarakterum?

Uppáhaldspersónan mín er Maude Varnæs, sú sem sést á myndinni. Maude er óskaplega taugaveikluð og grípur gjarna til þess ráðs að leggjast í rúmið þegar eitthvað kemur henni úr jafnvægi. Í gær var dramatísk uppljóstrun sem hefði átt að leggja Maud í rúmið næstu vikurnar. En þá tók hún skyndilega á sig rögg … og mun sýna miklu meiri styrk héreftir. Ég veit ekki alveg af hverju ég held mest upp á Maude, til þessa hefur hún aðallega verið hlægilega móðursjúkt snobbhænsn. Kannski finnst mér svona varið í hana af því ég held að hún endurspegli erkitýpu þunglyndra kvenna, erkitýpu sem ég er alls ekki sátt við.

Sem betur fer er töluð eðaldanska í þessum þáttum, ég er nefnilega ekki nógu góð í dönsku til að horfa á ótextaðar myndir, a.m.k. ekki myndir sem eiga að gerast í nútímanum. Það væri samt gaman að eignast þessa þætti með dönskum texta … kannski kaupi ég þá einhvern tíma, þeir ku rokseljast enn þann dag í dag.

Neðst á þessari síðu eru nóturnar af titillaginu í Matador

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation