Lífið leikur við mig þessa dagana. Ég finn að vísu dálítið fyrir þunglyndinu en hefur tekist að höndla það nokkuð vel, a.m.k. hef ég ekki hrapað ofan í Helvítisgjána djúpu og myrku. Með því að halda mér fast í HAM-fróðleik, nota þau hollu bjargráð sem gefast í mínu nærumhverfi og standa mig í labbitúr dagsins er þunglyndið vel viðráðanlegt. Ég þarf ekki einu sinni að sparka í smádrekana sem dúkka upp á vegi mínum, þeir færa sig sjálfir. Það sem reynist mér ótrúlega vel þessa dagana er vefurinn Gedheilsa.net og blogg Lindu Rósar. T.d. las ég “Það er ekki hegðun annarra sem raskar ró þinni, heldur viðbrögð við þeirri hegðun!” akkúrat þegar ég þurfti á því slagorði að halda …
Bara sem dæmi um hvernig allt gengur í haginn:
Ég fékk uppáskrifaða beiðni til sjúkraþjálfarans vegna kjálkaverkja sem ekkert lát er á. (Afþakkaði að fyrra bragði gabapentín og Lyrica enda hef ég prófað þau lyf og þau ollu hörmulegri líðan á sínum tíma … þau eru í safninu “alls konar lyf sem mætti prófa á þunglyndisjúklingi”.) Sjúkraþjálfarinn var að fara í frí svo ég gat ekki fengið tíma strax. Svoleiðis að ég hringdi í hinn ágæta nuddara sem oft hefur hjálpað mér með ýmislegt, sagði honum að ég gæti bara alls ekki legið á nuddbekk með andlitið niður, út af þessum verkjum. Það er ekkert mál, sagð’ann, ég kem bara heim til þín og nudda þig við eldhúsborðið. Og það gerði hann … að vísu við stofuborðið því maðurinn var að elda kvöldmatinn. Hann fann ansi mikið af helaumum punktum en nuddið virkaði svolítið og ég hef þá trú að það muni þá á endanum virka. Nuddarinn heimsækir mig aftur 🙂 Og eftir nóttina í nótt er ég á því að svokallaður heilsukoddi eigi sinn þátt í þessum kjálkaverkjum … nú hendi ég honum inn í skáp og tek upp venjulega tveggja kodda sýstemið aftur.
Í morgun var hringt og tilkynnt að sálfræðitíminn sem ég átti á morgun félli því miður niður … og það var ansi langt þar til ég gat fengið og komist í næsta tíma. Þessi viðtöl við sálfræðinginn gagnast mér ótrúlega mikið svo ég tékkaði á lausum tíma hjá sama sálfræðingi í Reykjavík: Fékk tíma eftir viku, sem er aldeilis ágætt.
Fékk áðan tíma í litun og klippingu eins og skot en ég hef sannreynt að svoleiðis aðgerðir má meta til þriggja stiga á þunglyndiskvarða Beck’s 😉
Þess utan ganga samskipti við opinberar stofnanir prýðilega, ég mæti hvarvetna kurteisu viðmóti og það sem ég er garfa í virðist allt ætla að leysast algerlega átakalaust.
Og amaryllisinn í stofuglugganum er farinn að blómstra …
Hámaðu svo í þig dálitlu súkkulaði. Það er líka hjálplegt fyrir hann Beck 🙂
frábært! kv. Freyja
Hm … ég er ekki nógu dugleg í súkkulaðiátinu en skal hafa það hugfast að gadda í mig svoleiðis fyrir hann Beck karlinn …
Svo kvað það víst sannað að þeir sem éta mest súkkulaði séu líklegastir til að fá Nóbelsverðlaun! Nema þeir séu Svíar. Enda fékk Glámur heitinn ekki svoleiðis. Og þaðan af síður Halli og Leiknir.
Maður getur þá sem sagt valið um að vera Svíi eða eta súkkulaði ef maður ásælist Nóbelsverðlaunin? Það er auðvelt val …
Indælt er að heyra að allt gangi vel. Og takk fyrir að minna á Lindu Rós, of langt síðan ég kíkti á hana síðast.
Bið að heilsa þeirri gulu, vona að hún sé spræk.