Um femíníska kennslu

Fem�nistamerkiÉg var búin að velta fyrir mér nokkrum öðrum titlum á þessa færslu, t.d. „Helgar tilgangurinn alltaf meðalið?“ eða „Ábyrgð kennara á birtu efni nemenda“ eða „Eru engin takmörk fyrir því hvernig kennarar beita nemendum sínum fyrir málstaðinn?“ o.s.fr. Hér verður fjallað um efni nemenda í KYN 103 í Borgarholtsskóla og fjölmiðlaáföngum í MA og spurt hver sé ábyrgð kennara þegar efni nemenda birt í fjölmiðlum er hluti af námsmati í áfanga/fagi. Dæmin eiga það sameiginlegt að kennararnir eru femínistar sem telja „vitundarvakningu“ (orð Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur, kennara í KYN 103, í símtali í dag) eða að vekja athygli á kynjamisrétti (óbein tilvitnun í Geir Hólmarsson, kennara í fjölmiðlun í MA) réttlæti opinbera birtingu á óvönduðu efni eftir nemendur í fjölmiðlum/netmiðlum. Ég tek skýrt fram að ég hef ekki ástæðu til annars en að ætla að báðir þessir kennarar séu mjög góðir kennarar, heitir hugsjónamenn og frumkvöðlar á sínu sviði.

Sem dyggur lesandi Knúzsins rak ég augun í grein eftir nemanda í KYN 103 sem birtist í dag. Greinin heitir Þetta sjúka samfélag og fjallar um klámvæðinguna miklu sem ku dafna vel akkúrat núna. Í greininni eru margar sláandi staðhæfingar en þær eru hins vegar ýmist rangar eða máli verulega hallað. Engin krafa virðist hafa verið gerð um vandaða heimildavinnu eða gagnrýna hugsun og ég hlýt því, sem framhaldsskólakennari með aldafjórðungs reynslu, m.a. reynslu í því að reyna að kenna nemendum að nota heimildir skynsamlega og hugsa eilítið út fyrir gúgulrammann, að furða mig á opinberri birtingu svo illa unnins texta. Má nefna að í greininni er því slegið fram að „4 ára litlar stelpur geta nú fengið PINK eða Hello Kitty g-strengi í Hagkaupum“. Ég spurðist fyrir um þetta í Hagkaup og afgreiðslufólk kannast ekki við að selja þessar vörur. Í greininni er vitnað í niðurstöður kannana án þess að merkt verði að ritandi textans hafi skoðað þessar kannanir.

Í norrænu netkönnuninni á klámsskoðun unglinga, Unge, køn og pornografi i Norden. Kvantitative studier, útg. Norræna ráðherranefndin 2007, var í rauninni mest sláandi hve lítill hluti íslenska úrtaksins svaraði könnuninni en svarhlutfall var einungis 23% (323 af 1428), „which under most circumstances would be unacceptable“ segir í skýrslunni um þessa könnun. Það er því spurning hversu mikið mark eigi að taka á þessari könnun. Ein niðurstaða könnunarinnar var að 71% svarenda vildu að klám yrði gert löglegt hér á landi og raunar eru bæði stelpurnar og strákarnir almennt jákvæð í garð kláms í svörum sínum. Ýmsar staðhæfingar um þessa könnun í grein nemandans eru rangar eða villandi, t.d.

  • „Það sem þykir hinsvegar mjög athyglisvert er að ungmennin töldu sig líka hafa séð klám í allskonar dagblöðum og öðrum óaldurstakmörkuðum tímaritum“ en í skýrslunni kemur fram að um 50 svarendur höfðu rekist á klám í farsíma, í dagblöðum og í venjulegum tímaritum, síðan er þess getið til skýringar að DV prenti auglýsingar um símasex en að öðru leyti vekja svör þessara fáu þátttakenda ekki eftirtekt.
  • „Flestum stelpum fannst klám ógeðfellt og leiða til nauðgana á meðan strákum fannst ekkert athugavert við það og sögðu að það gæfi þeim góðar upplýsingar um kynlíf.“  17 strákar (5,3%) og 59 stelpur (18,3%) hökuðu við möguleikann á að klám leiddi til nauðgana, 17 strákar (5,3%) og 73 stelpur (22,6%) hökuðu við að klám væri ógeðslegt.
  • „Í könnuninni kom í ljós að 1 af hverjum 5 strákum sér klám daglega en aðeins 2% af stelpum sögðust sjá klám það oft.“ Í könnuninni merktu 26 strákar (8%) og 4 stelpur (1,2%) við að sjá klám „nánast daglega“.
  • „Strákar þóttu líka líklegri til þess að hafa prófað eitthvað sem þeir höfðu séð í klámmyndum.“ Þetta kemur ekki fram í niðurstöðuskýrslunni um könnunina.
  • „Stelpurnar sögðu að klámið fyllti þær ótta við að standa ekki undir þeim væntingum og kröfum sem gerðar eru til þeirra í rúminu.“ 47 stelpur (14,6%) og 22 strákar (6,8%) merktu við þennan möguleika.

Tilvitnun í tólf ára gamla rannsókn sem sýndi að 20% fimm ára amrískra stúlkubarna væru hrædd um að vera of feit er ónákvæm, því það sem rannsóknin sýndi aðallega voru tengsl milli megrunarorðræðu mæðra og fimm ára dætra þeirra. (Sjálfri finnst mér mun merkilegra að 20% þessara fimm ára stúlkubarna voru of þung eða akfeit og að 70% mæðranna voru of þungar eða akfeitar.)

Staðhæfing nemandans í KYN 103 í þessu nemendaverkefni, mögulega niðurstaða hans: „Strákar eru margir orðnir það heilaþvegnir af klámi að þeir þurfa að horfa á klám á meðan þeir stunda samfarir – sem ætti að teljast frekar móðgandi í garð stelpnanna“ er að mínu mati heilaspuni.
 

Fem�nistatáknÉg hef gert heldur smásmugulega grein fyrir rangfærslum í þessari grein sem birtist á Knúzinu í dag en álíka greinar hafa birst af og til í fjölmiðlum í heilt ár enda er ritun blaðagreinar þáttur í námsmati í KYN 103 í Borgarholtsskóla, vegur 10% af einkunn að sögn kennarans, Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur. (Sjá t.d. Kynjafræði í framhaldsskólum í Fréttablaðinu 6. desember 2011 eða Kynferðisleg áreitni- hvað er það? á Knúz.is 2. nóv. 2012.)

Allir kennarar þekkja að nemendur skila misvel unnum verkefnum og baráttan við að efla gagnrýna hugsun þeirra og kunnáttu í að greina milli gúgul-slúðurs (eða bara slúðurs, eins og í greininni sem ég var að fjalla um) og tækra heimilda er oft á tíðum erfið. En ef það er gert að hluta námsmats að birta efni í fjölmiðli (netmiðlar eru þar meðtaldir) hlýtur að verða að gera þá kröfu til kennarans að hann sjái til þess að að efnið sé tækt til birtingar. Um þetta erum við Hanna Björg Vilhjálmsdóttir ósammála því í símtali við hana í dag kom fram að vitundarvakning væri aðalatriði, þetta sem ég hef fundið að væru smáatriði. Þegar ég spurði hana hvort gæti ekki verið að verslunin Hagkaup tæki það óstinnt upp að í birtri grein í fjölmiðli væri staðhæft að verslunin seldi g-strengi fyrir fjögurra ára gamlar stelpur sagði Hanna Björg að það gæti svo sem verið að það væri ekki sannleikanum samkvæmt en Hagkaup hefði á sínum tíma selt boli fyrir litlar stelpur með áletruninni „I’m a Porn Star“, það hefðu foreldrar sagt henni. Því miður finnur Gúgull frændi ekki barnaboli með þessari áletrun og ég þekki ekki þessa foreldra sem eru heimild Hönnu Bjargar, fyrir svo utan það að þetta eru ekki tæk rök fyrir að ósönn fullyrðing um sölu g-strengja fyrir smástelpur sé í lagi.
 

Hitt dæmið sem ég nefni í þessari færslu eru nethamfarir sem urðu eftir að nemendahópur í fjölmiðlun í Menntaskólanum á Akureyri birti frásögn af dónalegu orðfæri 18 ára samnemanda, orðum sem hann lét falla á einhvers konar íþróttauppistandsdegi í MA. Gargendur á netinu ætluðu af göflunum að ganga og 18 ára dónalegi pilturinn sá sig knúinn til að biðjast opinberlega afsökunar. (Ég tengi ekki í fréttir og netumræðu og nethamfarir sem af þessu spunnust því mér finnst óþarft að halda nafni delikventsins dónalega á lofti.) Allir sem hafa starfað við framhaldsskóla vita að nemendur haga sér ekki alltaf eins og gestir í ensku teboði og á stundum er menntaskólahúmor sérdeilis grófur. Það er ekki ætlun mín að bera í bætiflákann fyrir þennan pilt en ég set stórt spurningarmerki við útreiðina sem hann hlaut á netinu og það sem hratt henni á stað.

Í einhverjum af fjölmiðlaáföngunum í MA reka nokkrir hópar nemenda fréttavefi, þ.á m. emmafrettir.com. Þar birtist frétt um dónaskap piltsins en þeirri frétt hefur nú verið eytt og jafnframt er búið að bæta við titil vefjarins að hann sé „Fréttasíða óháð Menntaskólanum á Akureyri”. Upplýsingar um hverjir standa að síðunni eru ekki aðgengilegar. Í fréttinni var pilturinn nafngreindur og birt mynd af honum en fréttin var ekki skrifuð undir nöfnum heldur upphafsstöfum fjölmiðlunarnemanna. Í viðtali við DV þann 9. nóvember sl. er haft eftir kennaranum:

„Hér er því um að ræða samfélagslega ábyrga nemendur sem stendur ekki á sama um menningu og brag skóla síns. Þeir ætla ekki að þola kynjamisrétti eða að einhver niðurlægi eða hefji sig upp á kostnað annarra,“ segir Geir Hólmarsson, kennari félagsgreina við Menntaskólann á Akureyri. Hann segir skólafréttasíðuna, sem afhjúpaði pilt við skólann í dag fyrir niðrandi ummæli hans í garð stúlkna á Íþróttadegi skólans, vera hluta af áfanga í fjölmiðlafræði.

Umrædd síða er að sögn Geirs ein af þremur sem reknar eru í tengslum við áfanga í skólanum á þessari önn. Nemendurnir, sem allir séu í fjórða bekk MA, hafi ákveðið að taka málin í sínar eigin hendur, draga piltinn til ábyrgðar á gjörðum sínum og axla svo sjálf ábyrgð á afhjúpuninni.
„Þeim fannst það standa þeim nær að taka á málinu heldur en að vísa því alltaf til skólameistara eða kennara,“ segir Geir.

„Þau vissu að ef þau myndu birta þessa frétt þá væri líkur á að henni yrði slegið upp.“

Þar sem þessi vefur, emmafrettir.com, er hluti af vinnuframlagi nemenda til einkunnar í fjölmiðlaáfanga hlýtur maður að gera þá kröfu að kennari áfangans axli ábyrgð á því sem þar birtist og afleiðingum birtingarinnar. Það gerir Geir Hólmarsson þó ekki heldur ásakar aðra fjölmiðla um að hafa tekið upp fréttina með nafngreiningu piltsins og mynd:

Það að fréttin rataði í aðra miðla setti þetta í annað samhengi og það sem keyrði málið út var umræðan á netsíðum í kjölfarið þar sem fólk afgreiddi hlutaðeigandi og ályktaði án þess að hafa nokkrar forsendur til þess. Það er eins og ekki sé tekið tillit til að drengurinn er ungur og hann er í framhaldsskóla. Því fylgir að maður gerir mistök og lærir af þeim. Hann baðst afsökunar og er orðin fyrirmynd en samt skapaðist mjög ósanngjörn [svo] refsiauki.
[- – -]
Jú, málið varð allt miklu sterkara af því að hann var nafngreindur. En var í lagi að fórna honum til að fá fram umræðu? Ég hef verið spurður að því.
(Það er herjað á ungmenni. Akureyri 17. nóvember 2012.)

Ég hef einmitt mikinn áhuga á að vita hvernig Geir Hólmarsson myndi svara spurningunni: Er í lagi að fórna mannorði nemanda til að fá fram umræðu? En það gerir hann ekki í þessu viðtali heldur fer undan á flæmingi. Í máli Geirs, í viðtalinu við Akureyri, kemur fram að það sé „búið að skjóta sendiboðana líka, þá sem greindu frá málinu. Það er líka athyglisvert að stelpurnar sem voru á þessu íþróttamóti og upplifðu heilmikil sárindi vegna brandaranna þorðu ekki að koma fram undir nafni.“ Hafi einhverjir sendiboðar sem greindu frá málinu verið skotnir hefur það verið utan sviðsljóss netmiðla því nöfn þeirra hafa hvergi birst og erfitt er að hæfa ósýnilegt fólk. Hins vegar get ég ekki betur séð en að kennarinn Geir Hólmarsson hafi sjálfur gefið veiðileyfi á þennan 18 ára dónalega strák. Ég á erfitt að sjá fyrir mér að slíkt yrði liðið í þeim skóla sem ég starfa í en kannski eru samkennarar sáttfúsari í Menntaskólanum á Akureyri.

Fem�nistamerkiAf þessum tveimur dæmum sem ég hef rakið hér að ofan má ætla að sé vitundarvakning í þágu góðs málstaðar æskileg skipti ekki máli hversu vönduð eða siðleg vinnubrögð sjáist í opinberlega birtum nemendaverkefnum. Hlutverk kennarans er ekki lengur að leiðbeina um góð vinnubrögð og axla ábyrgð á sinni kennslu (námsmat og verkefnavinna er hluti kennslu) heldur að ota þeirri vinnu nemenda sem samrýmist hugsjón kennarans í fjölmiðla, burtséð frá gæðum og burtséð frá afleiðingunum: Aðalatriðið er að láta nemendur vitna (í anda Hjálpræðishersins)! 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

33 Thoughts on “Um femíníska kennslu

  1. Halldór on November 29, 2012 at 01:18 said:

    Þannig að til að knúa fram meiri siðferði er siðferði fórnað.

    Ég held að það virki ekki.

  2. Elfa Jóns on November 29, 2012 at 01:56 said:

    Ég er aðeins að reyna að átta mig á hvað þú nákvæmlega telur rangt við fréttaflutning MA-inga.

    Var það yfirhöfuð að fjalla um málið, eða nafn-og myndbirtingin með fréttinni?

  3. Róbert F. on November 29, 2012 at 06:30 said:

    Er nema von að Elfa spyrji að því hvað hafi verið rangt við fréttaflutning MA-inga?

    Þegar það virðist vera almenn regla þegar verið er að gagngrýna eitthvað af fara niður á plan þess sem er verið að gagnrýna og nota það síðan ennþá sterkara, með öfugun formerkum.

    Var þetta flókið? Tökum auglýsingu kvikmyndaskólans sem dæmi. Þar sáu einhverjir klám út úr erótískri mynd og notuðu sterka klám orðræðu til að gagnrýna auglýsinguna. Þar voru notuð orð eins og tittlingar og munnmök.

    Þessi orðræða er síðan étin upp gangnrýnislaust af fjölimiðlum og birt alþjóð.

    Er nema von að fólk eins og Elfa sjái ekki hvað er rétt og hvað er rangt?

  4. Elín Sigurðardóttir on November 29, 2012 at 09:02 said:

    @Elfa Jóns. Það er undarleg háttsemi að vaða fyrst í fjölmiðla en hafa ekki rænu né vilja til að ræða málin fyrst við hlutaðeigandi.

  5. Elva Jóns: Ég tel að innanbúðarmál í framhaldsskólum eigi að leysa innan skólanna sjálfra og nemendaverkefni í æsifréttastíl séu ekki tæk til opinberrar birtingar (nema kannski sem uppdigtaðar æfingar í æsifréttstíl). Nafn- og myndbirting í þessari “frétt” var fyrir neðan allar hellur að mínu mati.

  6. Elfa Jóns on November 29, 2012 at 11:31 said:

    @Róbert:
    Ég á yfirleitt ekki sérstökum erfiðleikum með að sjá hvað er rétt og rangt og fannst myndin með auglýsingu Kvikmyndaskólans fullkomlega óviðeigandi. Enda hefur enginn gert tilraun til að útskýra á hvern hátt (annan en kynlífstengdan) tilgang, eða hvaða skírskotun, myndin gat haft. Og kynlíf og Kvikmyndaskólinn tengjast hvernig?
    Ég er aftur á móti þeim andskota gædd að vilja jafnan hlusta á rök og ef ég er í vafa um hvernig ber að skilja þau, þá spyr ég.

    @Elín
    Það er ekki hlutverk fjölmiðla að “ræða mál við viðkomandi” og því fullkomlega óeðlilegt að fara fram á það í kennslu í fjölmiðlafræðum. Í starfsemi skolans kannski, en ekki sem kennslu í fjölmiðlun.

    @Harpa
    Ég tek undir skoðanir þínar á raunsönnum innanbúðar- nemendaverkefnum í æsifréttastíl. Það er of viðkvæmt og eldfimt efni til að óharnaðir unglingar séu hafðir sem skotspónn í þeim. Þarna hefði kennarinn átt að grípa inní.

    Vissulega er langbest að öll innanbúðarmál séu leyst innan skólanna sjálfra. Sé það hins vegar ekki gert, þá getur slíkt alveg orðið fjölmiðlaefni … og með réttu.

  7. Jakob Bjarnar on November 29, 2012 at 11:57 said:

    Athyglisvert. Ekki verður betur séð en kynjafræði, sem einhverra hluta vegna er blandað saman við fjölmiðlafræði, sé hreint og klárt trúboð þar sem tilgangurinn helgar meðalið á kostnað hlutlægra vinnubragða. Það útaf fyrir sig er nógu skerí, og þeir sem eru á því að slíkt sé málið inn í framhaldsskólakerfið ættu að velta því fyrir sér útaf fyrir sig — en, svo að það tengist blaðamennsku… tjahhh, það er eiginlega icing on the cake. Er það búið að boðuð sé hlutlægni í blaðamennsku? Ég hef alveg misst af þessu.

  8. Ingimundur on November 29, 2012 at 12:09 said:

    Á skal að ósi stemma segir máltæki sem hér á vel við. Ef nemandi getur ekki rökstutt út frá þó birtum tilvísunum mál sitt, er skyldaður til að birta grein sína í miðli aðgengilegum öllum, og kennarinn telur viðhorfsvakningu út frá greininni mikilvægari en að farið sé rétt með niðurstöður rannsókna þá tel ég ástæðu til að ræða við skólastjóra viðkomandi framhaldsskóla og fá vinnubrögðum beitt. Hvar endar það ef svonalagað verður venjan? Þarf virkilega að setja lög eða reglugerðir nýja með kröfum til hvað má og hvað ekki svo ekki sé ílla misfarið með rannsóiknarniðurstöður og túlkanir???

  9. Jakob Bjarnar og Ingimundur: Þetta sem þið segið er mergurinn málsins. Í mínu fagi og öðrum sem ég þekki til er lögð þung áhersla á að kenna framhaldsskólanemendum að meta heimildir, vitna rétt í heimildir, rökstyðja og beita gagnrýninni hugsun í málflutningi sínum. Það kemur mér á óvart að ef um viðfangsefnið femínisma er að ræða eða viðfangsefni skoðað undir femínísku sjónarhorni skuli þessi vinnubrögð engu eða litlu skipta. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir framhaldsskólakennara.

  10. Anna Bentína on November 29, 2012 at 13:26 said:

    Greinahöfundur nýtir Vísindavefinn sem heimild og þar er skilgreining dr. Guðbjargar Hildar Kolbeinsdóttur á ofangreindri rannsókn. http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6429. Vísindavefurinn er fullgild heimild á framhaldsskólastígi, þótt að varað sé við heimildum frá wikipedía eða bloggsíðum vegna óáreiðanleika þeirra.

    Ljóst er að greinhöfundur hefur flest sem þú gagnrýnir eftir af þessari síðu. Það er því lítið við Hönnu Birnu eða greinahöfund að sakast.

    Það hvernig dr. Guðbjörg Hildur túlkar þessa títtnefndu rannsókn ætti því að vera til umfjöllunar hér.

  11. Anna Bentína: Greinarhöfundur vísar ekki í Vísindavefinn sem heimild heldur í rannsóknina sem ég skoðaði. Í öllum framhaldsskólafögum sem ég þekki til er tilvísun í þá heimild sem notuð er einföld grundvallarvinnubrögð. Rangfærslur á Vísindavefnum eru á ábyrgð ritstjóra Vísindavefjarins (það skrítna er að dr. Guðbjörg Hildur sem þarna túlkar rannsóknina skrifaði sjálf íslenska kaflann í rannsókninni 😉 ) og hefði nemandinn vísað í rétta heimild í sínu verkefni hefði þetta sloppið fyrir horn því eins og þú segir leyfa flestir kennarar tilvísun í þann vef.

    Af símtali við Hönnu Björgu og viðtölum við nemendur í KYN 103 að dæma má ætla að svokölluð klámvæðing sé talsvert stór hluti viðfangsefnis þessa áfanga. Mér finnst því eðlilegt að gera þá kröfu til kennarans að hann hafi kynnt sér einu rannsóknina á neyslu og viðhorfum íslenskra unglinga til kláms og hleypi ekki villum og rangtúlkunum (þótt ættaðar séu af Vísindavefnum) í gegn, ekki hvað síst þegar birta á nemendaverkefnið opinberlega.

  12. Ég tek fram að mér finnst enn meira áhyggjuefni hve gagnrýnin hugsun er hunsuð í þessum tveimur dæmum sem færslan fjallar um heldur en léleg heimildaúrvinnsla. Æsifréttin fjölmiðlunarnemenda í MA er gott dæmi um þetta og sömuleiðis staðhæfing nemans í KYN 103, “„Strákar eru margir orðnir það heilaþvegnir af klámi að þeir þurfa að horfa á klám á meðan þeir stunda samfarir – sem ætti að teljast frekar móðgandi í garð stelpnanna“. Finnst kennurum þessara nemenda þetta samrýmast áherslu framhaldsskólans á gagnrýna hugsun og mat nægilega vel til að leyfa opinbera birtingu þessara verkefna?

  13. Pingback: Til varnar feminískum framhaldsskólanemum | *knùz*

  14. Úlfar Viktor Björnsson on November 29, 2012 at 18:03 said:

    Sæl Harpa.

    Takk fyrir þessa gagnrýni sem vonandi mun vekja fram góða umfjöllun um þetta efni. Það ætti að vera öllum ljóst, jafnvel fyrir fólk með andfeminískar hugsanir eins og þig, að kynvæðing barna er að aukast hræðilega mikið og veldur það flestum, allavega mér persónulega miklum áhyggjum.

    Ég viðurkenni fúslega að ég er enginn fagmaður í greinagerð enda er ég ekki fimmtugur framhaldsskólakennari heldur 19 ára menntskælingur í blóma lífsins. En ég hef því væntanlega betri hugsýn yfir það hvað er verið að bjóða okkur börnunum. Sem unglingur get ég sagt þér það sjálfur að ég sé mikið af klámi sem að aðrir kannski sjá ekki, sérstaklega eftir að hafa gengið í gegnum kynjafræðiáfangann í Borgarholtsskóla. Þetta er allsstaðar í kringum okkur, hvort sem það er á netinu eða auglýsingum í tímaritum. En það er spurning hvað fólk telur ,,klám” vera og hvar þú setur mörkin.

    Það að við sjáum hálfnaktar konur í nánast hverju einasta tískublaði gefur augljóslega litlum fjögurra ára stúlkum sem glugga í það þá ímynd að þetta sé raunveruleikinn og þannig eiga þær að líta út.

    Mér þykir það lágkúrulegt af þinni hálfu að fullyrða það að ég hafi “gúgglað” eitthvað í greinargerð minni án þess að vita eitthvað um það. Sumarið 2011 var ég við störfum hjá Jafningjafræðslu Hins Hússins þar sem 486 ungmenni sóttu um en aðeins 18 fengu vinnu. Við tók strangt undirbúningsferli og fengum við til okkar fullt af fagmönnum til okkar sem upplýsti okkur um hin og þessi málefni.

    Að hringja í Hagkaup og spurja hvort að þau selji/hafa selt g-strengi fyrir 4 ára stelpur og halda að fá heiðarleg svör er ansi gruggugt. Ætli vændiskona myndi svara því játandi eða neitandi ef almenningur myndi hringja í hana og spurja hvort hún væri að selja sig? Ég held ekki, en hver veit? Ætli við fáum alltaf rétt svör þegar við spyrjumst fyrir um mál eins og þessi?

    Sem strákur, ekki fyrir löngu hættur á kynþroskaskeiðinu tel ég mig líklegri til þess að geta gert mér grein fyrir því hvort strákar á mínum aldri þurfi klám til þess að örvast kynferðislega eða ekki, heldur en framhaldsskólakennari á fimmtugsaldri – með fullri virðingu. Það er bara því miður, víst raunin að margir strákar sem horfa mikið á klám þurfa alltaf harkalegra og harkalegra kynlíf til þess að æsast því það er það sem klámsíðurnar bjóða upp á. Flestar konur eru ekki tilbúnar í þetta svokallaða ,,gonzo” klám sem að tíðkast í klámiðnaðinum síðustu ár.

    En þetta er mikið áhyggjuefni og mér þykir það fráleitt að kona á þínum aldri skuli vera að gagnrýna heimildarúrvinnslu heldur en að líta á alvöruna sem að grein minni fylgir.

    Eigðu góðan dag.

  15. Anna Bentína on November 29, 2012 at 18:49 said:

    Sæll Úlfar Viktor og kærar þakkir fyrir grein þína.

    Ég tek ofan fyrir þér að hafa hugrekkið og dirfskuna að senda greinina á knúzið og gagnrýna mál sem virðist fá ólíklegasta fólk til að tapa sér yfir.
    Grein þín var frábær og vakti marga til umhugsunar. Eins og þú segir svo réttilega er mikið áhyggjuefni að fullorðið fólk skuli frekar gagnrýna heimildarútfærslu en alvörunna sem fylgir grein þinni.

    Málið er að það að oft virðist fólk leita logandi ljósi að því sem styður þeirra málstað og fer oft ansi ófaglegar leiðir til þess. Símakönnun í Hagkaup eins og Harpa telur vera fullgild aðferð, væri seint viðurkennd í könnunum eða úttektum eins og þú bendir réttilega á.

    Þetta svar þitt til Hörpu sýnir enn frekar að þú átt framtíðina fyrir þér sem hugsuður.
    Andfemínistar falla oft á eigin gagnrýni, þeir halda því fram að femínistar staðhæfi að unga fólkið hafi ekki gagnrýna hugsun og að það láta mata sig á klámvæðingu. Að þau séu fullfær um að velja og hafna sjálf. En þegar kemur að femínisma og kynjafræði þá er fólk matað og það missir á undraverðan hátt, allan möguleika á gagnrýnni hugsun.
    Femínismi virðist þannig lama fólk gagnrýnni hugsun á meðan klámvæðing gerir það alls ekki. Þetta er undarleg rökræða svo ekki sé meira sagt.

    Að þessu sögðu Úlfar, óska ég þér alls hins besta og hvet þig til að halda áfram að sýna þennann kjark og skrifa greinar sem hrista upp í samfélaginu.

    Bestu kveðjur Anna Bentína

  16. Sæll Úlfar Viktor og þakka þér fyrir þitt innlegg. Þar örlar á misskilningi sem ég mun nú leitast við að leiðrétta.

    Ég kannast ekki við að hafa “andfemínískar hugsanir” enda koma þær ekki fram í þessari færslu.

    Ég fullyrði ekki að þú hafir gúgglað eitthvað heldur tala um þá orku sem fólk í mínu fagi og öllum öðrum fögum sem ég þekki til eyðir í að kenna nemendum að greina að vandaðar og óvandaðar heimildir og nefni þar sem dæmi gúgglun. Ég fullyrði hins vegar að þú notir slúður sem rök enda hefur verslunin Hagkaup haft samband við vefmiðilinn Knúz og ritstjórn þar hefur sett athugasemd þess efnis inn í ritsmíðina þína. Svona saga eins og G-strengirnir handa fjögurra ára stúlkubörnum er dæmigerð slúður-þjóðsaga (Urban Legend) og ætti ekki að sjást í vönduðu nemendaverkefni. Sama gildir um staðhæfinguna um að margir strákar séu það heilaþvegnir af klámi að þeir þurfi að horfa á klám á meðan þeir stunda samfarir.

    Ég er íslenskukennari með 25 ára reynslu af kennslu í framhaldsskóla og reynslu af birtingu nemendaverkefna á Vefnum frá 1995. Þessa færslu skrifaði ég út frá þeirri reynslu og stöðu. Eðlilega get ég ekki bæði haft reynsluna og tvöfalt meistarapróf í mínu fagi og verið unglamb 🙂 Þér til upplýsingar þá er ég 53 ára.

    Ég fullvissa þig um að þú hefðir fengið einkunn undir 5,0 í hvaða íslenskuáfanga sem er hjá mér fyrir þessa ritsmíð, tel fullvíst að söm væri raunin hjá kollegum mínum. Skv. námskrá eigum við að kenna nemendum að nota heimildir eftir viðurkenndum reglum og efla gagnrýna hugsun (og margt annað, t.d. að skrifa á lipru og góðu máli, byggja ritsmíðar rétt upp o.s.fr. sem ekki var nefnt í færslunni). Í félagsgreinum í þeim skóla sem ég er ráðin til er lagt talsvert upp úr aðferðarfræði félagsvísinda og eftir því sem ég best veit gilda nákvæmlega sömu reglur um heimildanotkun, rökstuðning og gagnrýna hugsun í þeim greinum og í íslensku. Þess vegna kom mér á óvart að í anga af félagsgreinum, KYN 103, skyldu svo óvönduð vinnubrögð sem sjá má í þínum texta látin óáreitt og plaggið birt opinberlega. Eins og kemur skýrt fram í færslunni tel ég ekki við þig að sakast, nemanda sem skilar skólaverkefni til einkunnar, heldur spyr hver ábyrgð kennara sé á birtu efni nemenda sem er hluti verkefnavinnu í áfanga/fagi. Hvað varðar almennt hæfi mitt til að meta ritsmíðar unglinga þá bendi ég á að ég hef kennt á annað þúsund nemendum um ævina og líklega lesið talsvert fleiri ritsmíðar af ýmsum toga.

    Umfjöllunarefni mitt í þessari færslu var ábyrgð kennara á efni nemenda sem kennarar hlutast til um að sé birt opinberlega. Umfjöllunarefni mitt var ekki klámvæðing nútíma unglinga og þess vegna lýsti ég hvorki áhyggjuleysi né áhyggjum af þeirri meintu vá.

    Ég óska þér góðs gengis í framtíðarnámi.

  17. Anna Bentína: Vangaveltur þínar eru áhugaverðar en þær tengjast ekki efni þessarar bloggfærslu minnar.

  18. Anna Bentína on November 29, 2012 at 21:21 said:

    Ég mundi gefa þér Harpa 2 fyrir þetta svar þitt til Úlfars og þá er ég ansi gjafmild.

    Hrokinn í svari þínu er ekki framhaldskólakennurum til eftirbreytni og ég vona að fáir kollegar þínir séu svona steríltir í afstöðu sinni.
    Þú ert að hrauna yfir grein eftir framhaldskólanema og heldur síðan áfram taktleysi þínu og gerir enn betur; gefur honum einkunn.

    Ég held að afstaða þín byggi meira á innihaldi greinarinnar en heimildarnotkun.

    PS: Það er jafnauðvelt að fá HelloKitty g-streng fyrir börn og mjólk í Hagkaup: http://www.polyvore.com/sanrio/set?id=34683763

  19. Það er náttúrlega leiðinlegt, Anna Bentína, að þér skuli finnast hrokafullt að leggja mat sem kennari á ritsmíð þessa nemanda. Það hefði ég líka ekki gert nema af því nemandinn sjálfur auglýsir yfirburði sína fyrir aldurs sakir og ályktar: “mér þykir það fráleitt að kona á þínum aldri skuli vera að gagnrýna heimildarúrvinnslu heldur en að líta á alvöruna sem að grein minni fylgir” (sjá athugasemd Úlfars Viktors hér að ofan).

    Ég get auðvitað ekki stjórnað því hvað þú heldur um afstöðu mína eða hvaða önnur málefni sem er, Anna Bentína, en í ljósi þess að við þekkjumst ekki baun er kannski betra að einbeita sér að því hvað ég segi í færslunni sem þú ert að skrifa athugasemdir við en að leggjast í fjarsálgreiningu (sem að mínu mati er kukl).

    Ég skil ekki alveg PS-ið í athugasemd þinni. Ertu að halda því fram að netverslunin hahapants.com (sem auglýsir á slóðinni sem þú birtir) sé birgir Hagkaups? Eða ertu að lýsa yfir eigin reynslu af mjólkurúrvali og g-strengjaúrvali fyrir börn í Hagkaup?

  20. áki ármann jónsson on November 29, 2012 at 23:05 said:

    Er gjarnan sagður mjúkur og vinsrisinnaður en jafnrétti og umhverfisvernd eru mér hjartleikin sem pólitísk efni. Í greinagerð eða öðru rituðu máli skal ávallt vísa til fræðilegra staðreyndada. Í tilvikunu sem vitnað er í hér að ofan þá tel ég að um mjög skynsamleg rök sé að ræða

  21. Úlfar Viktor on November 29, 2012 at 23:31 said:

    Í hreinskilni sagt sárvorkenni nemendum þínum. Mér er algjörlega slétt sama hvað þér finnst um ritsmíð mína á meðan boðskapurinn kemst til skila. Mér þykir það leiðinlegt að sjá hversu biturt og barnalegt fullorðið fólk eins og þú getur látið.

  22. Sæl Harpa. Það er ekki nóg með að þú virðist vera andfeminsík heldur virðistu einnig hafa gleymt því að hér varð hrun. Tengslin milli þess að starfa við jafningjafræðslu og að gúggla ekki blasa við hverjum sem vill sjá og Hagkaup er sannkölluð Gómorra samtímans. Baráttukveðja.

  23. Anna Bentína on November 30, 2012 at 08:57 said:

    Sæl Harpa, ég þekki þig ekki baun og ekki Úlfar heldur. Þú þekkir hann líklega ekki baun og ekki Hönnu kennara hans heldur.

    Kuklið mitt kemur af´augljósum staðreyndum, bara með því að horfa á textann og sjá hvernig þú setur hann fram.

    Það eru fáir kennarar sem taka að sér að leggja mat á ritsmíð nemanda opinberlega og hrauna yfir þá ritsmíð og gefa henni einkunn; slíkt finnst mér lýsa miklum hroka og annarlegum tilgangi. Eiginlega veit ég ekki hvað þér gengur til.
    Þú segir líka að HelloKitty g-strengurinn sé flökkusaga. Þannig er það ekki, þessar vörur eru seldar. Samlíking mín við mjólkurkaup Hagkaups koma í beinu framhaldi af ritsmíð Úlfars og svo áherslunni sem þú lagðir á það í pistli þínum að senda fyrirspurninr til Hagkaups og síðan ítreka það við Úlfar að eftirgrennsla þín leiddi til þess að Hagkaup hafði samband við Knúzið. Þér tekst samt að snúa út úr þessu.

    Að sama skapi finnst mér google-leitarvél þín fremur takmörkuð, þú ættir að uppfæra hana. Það er til hellingur af bolum fyrir stelpur sem bera yfirskriftina; Pornstar in training og Pornstar. Hér er t.d samfella fyrir ungabarn með þessari áletrun: http://i1.cpcache.com/product/164892891/porn_star_in_training_onesie.jpg?height=160&width=160

  24. Ég viðurkenni að það voru mistök að meta opinberlega birta ritsmíð Úlfars Viktors opinberlega til einkunnar og biðst afsökunar á því.

    Máni: Ég set kæfu á’etta 🙂

  25. Úlfar Viktor on November 30, 2012 at 13:39 said:

    http://www.cafepress.com/+porn-star+baby-bodysuits

    Þarna geturu valið um allskonar samfellur til þess að gefa litlu ömmubörnum þínum í jólagjöf. Gjörðu svo vel 🙂

  26. Úlfur Viktor: “4 ára litlar stelpur geta nú fengið PINK eða Hello Kitty g-strengi í Hagkaupum.” Cafepress.com og hahapants.com eru ekki Hagkaup.

    Er ekki punktur Hörpu þessi: “Í greininni eru margar sláandi staðhæfingar en þær eru hins vegar ýmist rangar eða máli verulega hallað.” Ég hef ekki séð nein svör hér sem hrekja rök hennar fyrir þessu.

    Þótt málstaður þinn sé göfugur þá er greinin samt illa skrifuð. Að kalla Hörpu andfeminíska breytir engu þar um.

  27. Að gefnu tilefni fer ég þess á leit við femíníska áhugamenn um klám að þeir hætti að pósta linkum í þetta áhugaefni sitt á bloggið mitt. Ég leyfi krækjum Önnu Bentínu og Úlfars Viktors sem komnar eru að standa en mun eyða skilaboðum sem innihalda krækjur í ósæmilegt efni hér eftir.

  28. Guðbergur Ísleifsson on December 1, 2012 at 09:23 said:

    Var að renna yfir þennan þráð, lesa þessa umræddu grein sem málið snýst um, kynna mér athugasemdir við hana og .. ja, bara fara yfir málið.

    Í huga mér vakna ýmsar spurningar við lesturinn og mig langar að byrja á því að spyrja þig, Úlfar Viktor, höfund greinarinnar, tveggja spurninga.

    Þú segir við Hörpu í athugasemd hér fyrir ofan að þér þyki “það fráleitt að kona á þínum aldri skuli vera að gagnrýna heimildarúrvinnslu …”

    Allt í lagi, ég skal skilja að þér finnist þetta um konur á hennar aldri, en mig langar þá um leið að vita meira um viðhorf þín þessu tengt:

    1. Á hvaða aldri þurfa konur að vera að þínu mati til að þér þætti það ekki fráleitt að þær gagnrýni heimildaúrvinnslu?

    2. Þætti þér það líka fráleitt ef gagnrýnandinn væri rúmlega fimmtugur karl?

    Með von um skýr svör.

  29. Gunnar on December 1, 2012 at 15:34 said:

    Ég verð að segja að ég er algjörlega sammála Hörpu í þessari grein. Ég lærði sjálfur í framhaldsskóla að heimildir eru bráðnauðsynlegar og þær verða að standa og ekki þýðir að koma með sína eigin greiningu á hlutunum.

    P.s. Harpa kenndi mér í framhaldsskóla og ég lít á hana sem einn besta kennara sem ég hef haft þannig ég get staðfest að það þarf ekki að vorkenna hennar nemendum.

    p.s.s. Ennfremur þori ég varla að koma undir eigin nafni því ég óttast að vera stimplaður kvenhatari.

  30. Máni on December 1, 2012 at 21:47 said:

    Vinsamlegast ekki gefa Eiði Svanberg klámfengnar samfellur í jólagjöf. Bestu kveðjur að sunnan.

  31. Máni: Það myndi aldrei hvarfla að mér að gefa Eiði Svanberg samfellu með útlenskri áletrun!

  32. Haukur on December 10, 2012 at 02:13 said:

    Sannleikurinn er fyrsta fórnarlambið í hverju stríði, sagði maður nokkur (í alvörunni, þetta er ekki flökkusaga).

    Af skrifum Úlfars

    “Mér er algjörlega slétt sama hvað þér finnst um ritsmíð mína á meðan boðskapurinn kemst til skila.”

    má sjá að viðkomandi hafði a.m.k. ekki alltaf rang fyrir sér.

    En ætli það sé virkilega rétta leiðin fyrir mann, sem vill láta taka mark á sér í þjóðfélagsumræðunni, að svara gagnrýni með því að ráðast á aldur gagnrýnandans, saka hann um “annarleg” pólitísk viðhorf, biturleika og barnalegheit, upphefur eigin aldur og klárheit við að hafa fengið starf hjá hinu húsinu.
    Á sama tíma hefur hann vissulega bent á veikleika í símakönnuninni til Hagkaupa, án þess þau að hafa gert tilraun til að sanna fullyrðingu sína um hvað þar fáist.

    Þá segir eitthvað mér að hann viti ekki hvað “Gonzo” klám er, en það virðist mjög algengt meðal þeirra sem ekki aðhyllast andfeminísk viðhorf.

    Síðan eru svona skrif eins og þess: “Sem strákur, ekki fyrir löngu hættur á kynþroskaskeiðinu tel ég mig líklegri til þess að geta gert mér grein fyrir því hvort strákar á mínum aldri þurfi klám til þess að örvast kynferðislega eða ekki, heldur en framhaldsskólakennari á fimmtugsaldri – með fullri virðingu. Það er bara því miður, víst raunin að margir strákar sem horfa mikið á klám þurfa alltaf harkalegra og harkalegra kynlíf til þess að æsast því það er það sem klámsíðurnar bjóða upp á. ”
    Er Úlfar þarna að lýsa eigin kynferðislegri reynslu, eða eru það félagar hans (einnig nýkomnar af kynþroskaskeiðinu) sem hafa margir hverjir trúað honum fyrir, eða rætt opinskátt við hann (vegna þess að hann er 19 ára strákur en ekki 53 ára kona) hvernig þeir þurfa sífellt harkalegra kynlíf til að æsast upp? Eða var þetta e.t.v. bara partur af hinu “strang[a] undirbúningsferli [þar sem hann þau] feng[u] … til [sín] fullt af fagmönnum … sem upplýsti okkur um hin og þessi málefni.” sem eingöngu honum sem 19 ára strák stóð til boða en auðvitað ekki kerlingum á sextugsaldri?

    Ef einhver segðist hafa farið í sumarbúðir á vegum ungliðahreyfingar kommúnistaflokksins og verið upplýstur um hin og þessi málefni, myndu pólitískir andstæðingar kommúnistaflokksins kokgleypa allt sem viðkomandi segðist nú vita sem staðreyndir án nokkurra efasemda eða krafna um heimildir?

    Því er engan veginn fráleitt að konur, jafnvel á öllum aldri, geri kröfur til að annars vegar sé rétt farið með staðreyndir og hins vegar að vísað sé til heimilda, jafnvel þó svo að þú teljir að málstaður þinn sé réttur og að málið sé alvarlegt.

    Úlfar, allur góður málstaður þolir málefnalega rýni, og enginn góður málstaður þarfnast ásakanna á hendur gagnrýnendum á grundvelli 53 ára aldurs, pólitískra viðhorfa, biturleika eða barnalegheita. Slíkt getur aldrei annað en veikt málstaðinn.

    Ef málstaður þinn er góður þarft þú hvorki að ýkja né varpa fram röngum fullyrðingum. Slíkt getur einnig bara veikt málstaðinn og fengið andstæðingum þínum vopn í hendurnar.

    Það má vel vera að klámvæðing sé vandamál, en þá skal teflt fram rökum og staðreyndum en ekki “af því bara” vegna þess að þú heldur það.

  33. Úlfar Viktor on December 10, 2012 at 17:00 said:

    Sæll Haukur.

    Í skrifum mínum hér að ofan lagði ég áherslu á að það væri líklegra að ég og fólk á mínum aldri náum að líta á þann ógeðslega heim sem er verið að ota að okkur heldur en fimmtugt fólk sem upplifði sína æsku allt öðruvísi. Það er því miður bláköld staðreynd að klámvæðing sé að aukast og ef þú hefur litið á klámsíður netheimsins þá er alltaf verið að yngja stúlkur upp, barnslegt útlit þykir í dag bera merki um kynþokka – eins viðbjóðslegt og það má hljóma.

    Það er hallærislegt að hella sér yfir framhaldsskólanemendur vegna þess að heimildarútfærslan er ekki nógu góð. Þegar ég fjalla um alvarleg mál og eins auðsjáanleg og þessi vildi ég leggja áherslu á það hversu mikið þessi væðing er að færast í aukanna – ég biðst innilegrar fyrirgefningar á því að hafa ekki komið með fullkomnar heimildir og útrannsakaðar staðreyndir á því sem ég talaði um. En eitt er víst að ég er ekki hættur að skrifa pistla, endilega fylgisti með mér – ég mun kasta fram allskyns staðreyndum og ég skal reyna að fullkomna heimildarútfærsluna, bara fyrir ykkur íhaldssömu gamlingjana. 🙂

    Takk fyrir mig.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation