Er ég femínisti?

 Fors�ða Vikunnar 1939Ég var að velta því fyrir mér að hefja færsluna á dæmigerðri femínistavitnun, t.d. um þátttöku mína í Kvennalistanum og fleiri sérkvenlegum félagsskap eða öðrum ævisögulegum vitnisburði … en sá að þeir sem þetta káfaði upp á myndu hvort sem er skella skollaeyrum við svoleiðis trúarjátningu og annar vettvangur en Netið er oft heppilegri fyrir játningar.

Skilgreining Femínstafélags Íslands á femínista er: „Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“ Samkvæmt þessari skilgreiningu er ég femínisti. En birtingarmynd femínisma á Íslandi er talsvert önnur og af „fréttum“ og opinberri umræðu virðast femínistar sem telja sig í forsvari fyrir þá hugmyndafræði gera þá kröfu að almennilegir femínistar hafi asklok fyrir himin; allir aðrir eru andfemínistar. Femínistar og vantrúarfélagar hafa sakað mig um að vera kvenfjandsamlegur illa innrættur andfemínisti. Því er ég ósammála en fellst fúslega á að ég hafi andæft málflutningi þessara hópa enda tel ég fulla ástæðu til þess.
 

Vettvangur íslenskra femínista er Netið. Þar er annars vegar vefritið Knúz og hins vegar yfirlýsingar og fréttir frá femínistum mest áberandi, nokkrir femínistar reka eigið blogg en flestir blogga sjaldan og slitrótt. Kveikjan að Knúz er fögur hugsjón og einkunnarorðin þess bera henni vitni: „Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.“ Vefritið ber þessa æ minni merki; Æ fleiri greinar virðist eingöngu hafa þann tilgang að stuða fólk með einhverjum hætti; ögra eða espa til illinda, þ.e. leggja sitt til af mörkum til að  breyta alnetinu í vígvöll. Af nýlegum greinum má nefna sem dæmi Til varnar femíniskum framhaldsskólanemum eftir Thomas Brorsen Smidt (29. nóvember 2012), Drykkjubingó femínista eftir Ingólf Gíslason (15. nóvember 2012) og  „Öfgafemínista vísað úr strætó: Notar túr til að gagnrýna auglýsingar á apótekapokum“ MYNDIR eftir Hildi Lilliendahl Viggósdóttur (21. ágúst 2012). Í þessum greinum eru mismunandi aðferðir notaðar til að ögra; óheflað málfar, smekklaus og fáránleg tillaga sem líklega á að vera brandari og frásögn af líkamsvessa sem venjulegt fólk sér ekki ástæðu til að hafa í hámæli. En inn á milli eru skínandi góðar og vandaðar greinar á vefritinu Knúz, t.d. „Hún skrifaði það ekki … Hún skrifaði það en hún hefði ekki átt að skrifa það … Hún skrifaði það EN …“ eftir Magneu Matthíasdóttur (26. nóvember 2012) eða Birtingarmyndir fordóma og mismunar eftir Eyju M. Brynjarsdóttur (13. nóvember 2012). Á Knúz ægir nefnilega öllu saman: Ómerkilegum klögumálum og málefnalegum greinum; Rexi yfir smámunum og tilraunum til að fjalla um raunveruleg vandamál; Ómerkilegum illa skrifuðum greinum og vönduðum texta.

Yfirlýsingar og fréttir sem einstakir femínistar standa að eru því miður oftast um smámuni og virðast einungis til þess ætlaðar að ná athygli hvað sem það kostar, helst með því að espa til illinda. Þar ber Hildur Viggósdóttir Lilliendahl höfuð og herðar yfir aðra femínista. (Ég tek fram að ég tel Hildi ekki bera ábyrgð á fréttaflutningi af sér nema að takmörkuðu leyti. Hún er hins vegar ódeig við að vekja athygli á sér og netmiðlar snúa því alla vega.) Undanfarið hefur Hildur einkum vakið athygli fyrir tvennt: Úrklippualbúm með ummælum eftir karla, sem kallast Karlar sem hata konur, og að Facebook hefur fjórum sinnum lokað aðgangi hennar af því hún hefur brotið reglur samskiptamiðilsins, reglur sem hún samþykkti þegar hún stofnaði til aðgangs að honum.

Úrklippusafn Hildar er merkilegt að mínu mati. Ekki af því að það sýni að karlar hati konur í stórum stíl, það sýnir ekki einu sinni að karlarnir sem eiga ummælin hati konur sérstaklega mikið því ummælin eru af ýmsum toga, klippt úr samhengi og kríterían í söfnuninni óljós. Úrklippusafnið er fyrst og fremst góð heimild um orðræðu á Vefnum. Það væri enginn vandi að búa til samsvarandi albúm um eitthvað annað, í svipinn dettur mér í hug: Fólk sem hatar banka, fólk sem hatar lögfræðinga, fólk sem hatar vinstri græna/ samfylkinguna/ sjálfstæðisflokkinn … nú eða sérhæfðari albúm eins og fólk sem hatar Hildi Lilliendahl, vantrúarfélagar sem hata Bjarna Randver Sigurvinsson, femínistar sem hata Brynjar Níelsson o.s.fr. Orðræða á Vefnum verður sífellt grófari og er merkilegt rannsóknarefni að mínu mati. Ég efast um að hægt sé að greina kynjaða orðræðu þegar þessi vettvangur er skoðaður en það væri vissulega áhugavert að sjá rannsókn á slíku og verðugt efni fyrir málfræðinga sem hafa áhuga á muninum á málsniði kvenna og karla.

Auglýsingabæklingu Smáralindar 2001Við lestur netmiðla fær alþýðan smám saman þá hugmynd að femínismi snúist um smáatriði eins og hvort bókaforlagi sé yfirhöfuð heimilt að gefa út gamaldags bækur fyrir karlbörn og kvenbörn, hvort verið geti að auglýsing hafi kynferðislega skírskotun og feli í sér niðurlægingu kvenkyns nemenda, með ítrustu táknfræðilegri túlkun, hvort eigi/megi klæða stelpur og stráka í bleik og blá föt, hvort eigi/megi gefa litlum stelpum og strákum meint stelpuleikföng og strákaleikföng, hvort dónalegan menntaskólahúmor eigi að skilja sem svívirðilega árás feðraveldisins á allt kvenkyns o.s.fr. Hver frétt er blásin upp úr öllu valdi og verður að nethamförum, hvort sem um er að ræða auglýsingu sem líklega hefði ella vakið litla athygli eða að Facebook lokar aðgangi Hildar Lilliendahl jafnt og annarra notenda sem tilkynnt er um að hafi brotið notendareglur Facebook. Þegar búið er að endurtaka nógu oft að Hildur Lilliendahl hafi fengið líflátshótun er það orðið satt og geirneglt í hugum manna þótt ómögulegt sé að lesa líflátshótun úr ummælunum sem urðu kveikjan að fárinu; Lögreglan í Reykjavík skal hafa gert lítið úr kynferðislegri misbeitingu þótt engin leið sé að sjá út úr frétt hennar um manninn sem var hent út úr eigin íbúð að um slíkt hafi verið að ræða; Kvikmyndaskóli Íslands hampar klámi og niðurlægir kvenkyns nemendur með auglýsingu; Hagkaup selur dónalegan undirfatnað á smástelpur o.s.fr. 

Þar sem ekki er vandamál en ætti að vera vandamál að mati femínista eru þau búin til. Þetta má t.d. sjá í nýlegum bæklingi Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur, Klám er kynferðisleg áreitni eftir Thomas Brorsen Smith (Einar Steingrímsson gerði þessum bæklingi, rannsókn höfundar og túlkun ágæt skil í færslunni Reykjavíkurborg með klám á heilanum? 2. apríl 2012 og ég vísa í færslu hans til rökstuðnings) eða skemmtilegi farsinn um ónefndan dónalegan leynigest í Harmageddon, kvörtun Hildar Lilliendahl og ákvörðun þáttarstjórnenda að reka sjálfa sig til að undirstrika alvarleika kvörtunarinnar. Netmiðlar flytja alvörugefnar fréttir af þessum óskunda einmitt núna um helgina.

Ég ætlaði að fjalla um ýmis raunveruleg vandamál sem íslenskir femínistar hunsa og um afleiðingar þessara baráttuaðferða sem ég hef rakið hér að ofan en þá yrði færslan of löng svo ég geymi þau umræðuefni.

Myndirnar sem skreyta þessa færslu eru af auglýsingabæklingi Smáralindar vorið 2007, en um þessa mynd er haft eftir dr. Guðbjörgu Hildi Kolbeins: „Á forsíðunni má sjá unga stúlku á háum hælum í velþekktri stellingu úr klámmyndum. Hún er tilbúin til þess að láta taka sig aftan frá. Með munninn opinn býður hún lesendum af karlkyni að setja skaufa sína upp í sig“ (Guðbjörg Hildur Kolbeins barst eilítið í tal í umræðum um síðustu færslu mína og þá næstsíðustu) og forsíðu Vikunnar 1939 (um hana hafa femíniskir fjölmiðlafræðingar ekki tjáð sig en ég vek athygli þeirra á því að stúlkan er með opinn munn, það sést glöggt á frumheimildinni sem ég vísa í).

P.s. Varðandi síðustu færslu mína og umræður við hana: Ég hef rakið nútímaþjóðsöguna um G-strengi handa fjögurra ára stúlkubörnum sem Hagkaup ku selja og I’m a Porn Star barnaboli aftur í umræðu á Barnalandi 2005; það er elsta umræða sem ég finn um I’m a Pornstar/I’m a Pornstar in Training barnaboli sem Hagkaup á að hafa selt „fyrir nokkrum árum“ og umræðan færist síðan yfir í G-strengi fyrir fimm ára. Þessi umræða gengur aftur á yngri barnalandsspjallborðum, femin.is og hugi.is en  ef einhver veit um eldri heimild er ábending vel þegin. Sagan um Pornstar barnabolina í Hagkaup má sjá víðar, t.d. í birtu lokaverkefni nemanda í framhaldsnámi í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands, sjá ritgerðina Klámvæðingin og áhrif hennar á íslensk ungmenni á vefsetrinu Heimasíða Beddu en þar er ekki vísað í heimild.  Haldi femínistar áfram sama málflutningi má ætla að þjóðsagan um I’m a Porn Star in Training barnabolina og G-strengi fyrir börn í verslunum Hagkaups verði útbreiddari en sagan af kettinum í örbylgjuofninum 😉
 

51 Thoughts on “Er ég femínisti?

  1. 1. Það er bull og kjaftæði að nafninu á bæklingnum hans Thomasar hafi verið breytt.

    2. Þakka þér fyrir að hafa drengskap í þér til að kalla mig fullu nafni …

    3. … og fyrir að vera með mig á heilanum.

    4. Fallegt hvernig það verður „ómögulegt“ að lesa líflátshótanir eða ofbeldislýsingar út úr texta sem þér tekst ekki að lesa líflátshótanir eða ofbeldislýsingar úr. Af því að túlkun Hörpu Hreinsdóttur er hinn endanlegi mælikvarði á túlkun.

    5. Knúz.

  2. ÚBBS, 6. til að svara spurningunni í titlinum: ó nei, þú ert sannarlega enginn femínisti.

  3. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, sem ritar undir fornafni sínu hér að ofan: Kærar þakkir fyrir ábendinguna um nafngift bæklings Thomasar, ég hef lagfært þetta í færslunni.

    Textinn í frægri meintri líflátshótun í þinn garð er:

    Ef ég yrði fyrir því ‘óhappi’ að keyra yfir Hildi, er hún sennilega eina manneskjan á jörðinni sem ég mundi bakka aftur yfir og skilja bílinn eftir ofan á henni í handbremsu !!! 😉
    Settu þetta í þessa möppu þín ‘karla sem hata Hildi’ Hildur Lillendahl …….

    Þorri fólks mundi túlka þetta sem ósmekklegan grófan brandara sem beinist að þér. Hvar er líflátshótunin í þessum texta?

    Ég hef þig ekki á heilanum, Hildur. En auðvitað berst þú í tal þegar fjallað er um nethamfarir, neteinelti (ég skrifaði færslu um það í tengslum við hamfarirnar sem urðu út af þessum ummælum sem ég vitna í hér að ofan), málflutning femínista og orðræðu á Netinu. Hjá því verður ekki komist, það hlýturðu sjálf að sjá, því þú hefur leikið aðalhlutverk í flestum þeim svoleiðis málum sem upp hafa komið undanfarið hálft ár eða svo. Það verður ekki bæði sleppt og haldið: Úr því þú kýst mikla athygli verður ekki hjá því komist að geta þín í umfjöllun.

    Og kærar þakkir fyrir að staðfesta að álit íslenskra femínista og álit mitt fer saman, þ.e. að ég geti ekki uppfyllt kröfur þeirra til að teljast femínisti.

  4. Nú má ég ekki vera að því að vakta umræðuþráð við þessa færslu, hef öðrum hnöppum að hneppa. Miðað við heimsóknastraum af Facebook frá því hún birtist má ætla að hún sé til talsverðrar umræðu á Facebook-síðum einhverra og e.t.v. vilja einhverjir fleiri en Hildur Viggósdóttir Lillendahl tjá sig um hana. Ég fer þess á leit við þá sem vilja leggja hér orð í belg að þeir skrifi undir fullu nafni og gæti kurteisi.

  5. Það er enginn grundvallarmunur á að segja: „Mig langar að drepa Hildi“ og að segja „Ef ég yrði fyrir því „óhappi“ að fá tækifæri til að drepa Hildi myndi ég gjörnýta það tvisvar.“

  6. Guðbergur Ísleifsson on December 2, 2012 at 18:34 said:

    Það sem Harpa er að mínu viti fyrst og fremst að benda á í þessari grein er að það er stórundarlegt að hópur (yfirlýstir femínistar) sem annars berst fyrir málefni sem þorri þjóðarinnar myndi gjarnan vilja leggja lið af fullum hug, þ.e. að ná fram fullu jafnrétti karla og kvenna, skuli eyðileggja fyrir málefninu með skrifum og framsetningu sem á meira skylt við of- og mistúlkanir, upphrópanir og hefnigirni en málefnalega umræðu sem þoka málinu í rétta átt.

    Ég persónulega skil ekki af hverju ritstjórn knuz.is leyfir birtingu á orðalagi eins og “Við alla sem hafa tekið þátt í þessum netofsóknum, þar með talinn andfeminíska skarann sem er í þessum töluðum orðum að froðufella og míga á sig af kæti eins og ofvirkir hundar á Facebook … í þessari grein. Svona bræðis- og froðufellandi reiðiorðalag á vefriti sem berst fyrir góðum málsstað gerir ekkert annað en að skemma fyrir honum. Auk þess þykir mér það augljóst að með því að birta svona orðalag er ritstjórn knuz.is einmitt, eins og Harpa bendir á, að breyta vefritinu í vígvöll þvert á eigin mottó sem er „Alnetið þarf knúz miklu oftar. Annars breytist það í vígvöll.“ Hvar er “knúsið” í þessum orðalagi?

    Svona framsetning er einfaldlega ekki líklegt til árangurs í neinum málaflokkum. Þvert á móti þá hamlar hún málstaðnum mjög og er þeim sem stunda hann og styðja til vansa.

  7. Í upphafi síðustu aldar var rifist um hvort að spíritistar væru búnir að finna eitthvað algerlega nýtt sem yrði til þess að við (jarðarbúar) fengjum algjörlega nýja sýn á ALLT.
    Þeir sem aðhylltust þessa skoðun gerðu það sem þeir mögulega gátu til að hinir kæmust á sömu skoðun.

    Er það sama sem á við hér um þessa feministasýn á tilveruna?

    Við vitum að spíritistarnir voru afhjúpaðir smátt og smátt og í besta falli voru þetta kjánar.
    Feministar eru velmeinandi, um það er ekki spurning. Mín tillaga er sú að feministar reyni að skilja munin á kynjunum og hætti að halda því fram að jafnrétti sé svar við einhverri spurningu sem enginn veit hver er nákvæmlega.
    Ég vildi svo innilega geta sagt að jafnrétti væri svarið en hver er spurningin?
    Mestu feministarnir eru þeir sem þurfa ekki að hafa neitt fyrir þvi að halda fram einhverri skoðun. Allir geta það.

  8. Elfa Jóns on December 2, 2012 at 19:07 said:

    Ég hlakka til að lesa umfjöllun þína um “raunveruleg vandamál sem femínistar hunsa”.

    Þessi pistill er raunar bara eldivður á bálið sem þú gagnrýnir, Harpa. Voða mikið sama plan.

    Er það sem orðað er við Ghandi ekki viðeigandi hér: “Be the change that you wish to see in the world”

  9. G,Þ, Ólafsson on December 2, 2012 at 20:49 said:

    Skemmtileg grein hjá þér, Harpa, sem fær alla “sanntrúaða” femínista til að froðufella.

    P.s. Úps, passaðu orðalagið hjá þér; “hef öðrum hnöppum að hneppa.” sbr. athugasemd nr. 4 hér að ofan.

    Það gæti einhver femínistinn eða kynfræðingurinn túlkað þessa setningu með kynferðislegum undirtónum og gerið í skyn að þú værir í ósiðlegum athöfnum 🙂

  10. Yngvi Högnason on December 2, 2012 at 21:18 said:

    Takk fyrir góða grein Harpa, það eru ekki allir á móti jafnrétti sem eru ósamála Hildi Viggósdóttur Lilliendahl, ég held að líf hennar verði mikið auðveldara þegar hún áttar sig á því.

  11. Guðjón Ágúst on December 2, 2012 at 21:26 said:

    Varðandi hvort þessi setning :

    “Ef ég yrði fyrir því ‘óhappi’ að keyra yfir Hildi, er hún sennilega eina manneskjan á jörðinni sem ég mundi bakka aftur yfir og skilja bílinn eftir ofan á henni í handbremsu !!! 😉
    Settu þetta í þessa möppu þín ‘karla sem hata Hildi’ Hildur Lillendahl …….

    …er morðhótun eða ekki, útfra lagalegum forsendum er ákveðin spurning, þó ég haldi að hún sé ekki mjög flókin fyrir dómstóla ef Hildur myndi kæra.

    Höfundur setningarinnar passar sig á að setja þann fyrirvara að hann myndi ekki viljandi gera slíkt, en ef “óhapp” skyldi gerast, þá fynnst honum allavega ekki úr vegi að gulltryggja afleiðingar “óhappsins” (sem er náttúrulega kol-ólöglegt og telst sem morð að einhverri gráðu, óháð hvort “óhapp” hafi gerst áður en hann tekur ákvörðun um að ganga lengra) … Þessi maður er í það minnsta að láta sér dagdreyma um hvað hann myndi gera ef hann hefði það yfirskyn að slys hafi átt sér stað, og fabúlerar um kol-ólöglega hluti í framhaldi.

    Ég held að Hildur gæti vel unnið mál gegn þessum manni, í það minnsta á forsendum meiðyrða.

    Hitt er annað mál að svona hlutir eru sagðir á hverjum degi í sjónvarpi af báðum kynjum, t.d. þegar konurnar í the View tala um að það eigi að skera undan þessum körlum og fleira.

    Sjaldan er slíkt tekið bókstaflega.

    Ég held að þessi setning sé þess eðlis að augljóst er að maðurinn er fyrst og fremst að básúna bjánalegu hate-speach og ég efast um að málið færi fyrir dóm þá fengi hann dóm líkt og ef hann í fullri alvöru hefði hótað beint lífláti.

    Hildur sem fórnarlamb þessara ummæla hefur þó fullan rétt til að taka þau eins alvarlega og henni sýnist… og þó að mínu mati fari hún oft offari í túlkunum sínum á orðum annara, þá er þetta líklega eitt versta dæmið um það.

  12. Ég sé að áhugamenn um femínisma eiga erfitt með að skrifa undir fullu nafni sumir …

    Elva Jóns viðrar athyglisverða skoðun, nefnilega að þessi pistill sé “í rauninni bara eldiviður á bálið” sem ég gagnrýni. Ég held að Elva hafi ýmislegt til síns máls að því leyti að flestir hafa fyrir löngu gefist upp á að nefna femínista nokkurs staðar opinberlega öðru vísi en að vitna um ágæti alls sem af þeirra lyklaborði hrýtur. Að anda því út úr sér að finna megi að baráttuaðferðum íslenskra femínista og áherslumálum kallar of oft stafrænan eld og brennistein yfir þann sem slíkt vogar sér. Það ráðslag verður svo til þess að það er nánast ómögulegt að eiga samræður um femínisma: Umræðan snýst upp í hróp og köll og hundalógík.

    Að mínu mati líður femínismi á Íslandi kannski helst fyrir það að ekki skuli mega ræða femínisma á Íslandi.

  13. Guðjón Ágúst: Nú hef ég ekki hugmynd um hvernig dómstólar myndu meta þessi ummæli en bendi á þá augljósu staðreynd að hótanir eru alla jafna ekki settar fram í viðtengingarhætti og skildagatíð, á íslensku.

  14. Guðjón Ágúst on December 2, 2012 at 21:32 said:

    Harpa

    Eina viðmiðið sem hægt er að hafa um hvort svona ummæli teljast sem morðhótun er niðurstaða dómstóla. Hvernig morðhótanir eru að meðaltali settar fram hefur lítið sem ekkert forspárgildi fyrir niðurstöðu hvers og eins máls.

  15. Það er alveg rétt hjá þér, Guðjón Ágúst, að úr því hvort eitthvað er líflátshótun eða ekki lífslátshótun verða dómstólar að skera. Ég met þessa klausu sem Hildur Lilliendahl Viggósdóttir telur líflátshótun einungis sem íslenskufræðingur, ekki lögfræðingur (auk þess að beita því gamla og e.t.v. hálfgleymda verkfæri sem kallast heilbrigð skynsemi).

  16. Guðjón Ágúst on December 2, 2012 at 21:44 said:

    Ég held að heilbrygð skynsemi hafi ekkert með þetta að gera og að setningin sjálf er aldrei það eina sem er skoðað. Minni fullyrðingum hefur verið fylgt eftir, og stærri fullyrðingar hafa verið sagðar án nokkurar raunverulegrar meiningar.

    Bottom line er að Hildur er í fullum rétti á að taka þessu sem morðhótun og verja sig eftir því.

    Af því sögðu, þá grunar mig eins og þig Harpa , að þetta sé í raun bara posturing hjá þessum strák.

  17. Sólveig Helga on December 2, 2012 at 22:02 said:

    Hæhæ Harpa, ég er mikill femínisti og hef jafnrétti kynjanna að leiðarljósi í hvaða verkefni sem ég tek fyrir hvaða hlutverk sem ég er í. Ég skrifa ekki greinir á netið eða uppfullist af reiði gagnvart fólki sem túlkar sig ekki feminista eða tek þátt í öllu sem Femínistafélag Íslands setur útá eða það sem Hildur gerir. Ég þó styð baráttuna og mér finnst þetta bara vera hluti af því að vera femínisti að einhverjir munu vera áberandi og ýkjandi alveg eins og annarsstaðar í samfélaginu sem ég kýs að vera t.d. í stjórnmálaflokk. Ég er ekki alltaf sammála en ég reyni heldur ekki að fá fólk til að vera á móti eða segja að það sé neikvætt að vera feministi, það er mjög jákvætt og mér finnst að fólk eigi ekki að halda að bara Hildur eða Femínistafélag Íslands hafi orð fyrir alla femínista því ég vona að allir sem eru með allaveganna einhverja hugsun eða heilastarfsemi séu feministar! Það þarf samt ekki alltaf að sýna það en það þarf að vera vakandi yfir misrétti og fólk gerir það á mismunandi vegu

  18. Tómas A. Árnason on December 2, 2012 at 22:08 said:

    Þetta er áhugaverð grein hjá þér Harpa, skemmtileg lesning.

    Ef að mér finnst fyndið að grínast með steríótýpur og kynlíf í góðra vina hópi, en samt finnst mér að bæði kynin eigi að hafa það jafnt, hvort er ég kvenhatari eða feministi?

  19. Sólveig Helga on December 2, 2012 at 22:18 said:

    Tómas. A. Árnason, er það sama að grínast með steríótýpur og kynlíf í góðra vinahópi og að lofsama það og skrifa um það á netinu? Eða jafnvel fíflast með það í útvarpsþætti? Nei mér finnst það ekki eins

  20. Ingólfur Gíslason on December 2, 2012 at 22:37 said:

    Hvað gefur svo kennarinn þessum strákum í einkunn fyrir grínið:

    Brynjar Ingjaldsson (f. 1983):
    Djöfuli er ég orðinn þreittur á þessari Hildi getur hún ekki farið að HALDAKJAFT EINU SINNI
    Birgir Björn Birgisson (f. 1989):
    Skjótana í smettið

    Ingi Karl Sigríðarson (f. 1982):
    Það þarf að gefa Hildi lilendal high five með sleggu í andlitið úr bíl á 200km/h

    Tómas Örn Svavarsson (f. 1987):
    Held að enginn beri virðingu fyrir feministum lengur …. Hvað þá hildi hún ætti bara að lenda fyrir bíl og deyja kvalafullum dauðadag…. plz helst í dag

    Þú útskýrir kannski grínið fyrir okkur hinum sem sjáum ekki hvað á að vera fyndið í þessu.

  21. Guðjón Ágúst on December 2, 2012 at 22:53 said:

    Dáldið retorísk spurning Ingólfur

    … ég get ekki einu sinni séð að þetta eigi að vera meint sem grín.

  22. Ingólfur Gíslason on December 2, 2012 at 23:21 said:

    Auðvitað er þetta retórísk spurning því það er öllum ljóst að þetta er ekki grín. Samt heldur Harpa áfram að tala um eitt af mörgum sambærilegum innleggjum manna sem grín (þau eru miklu fleiri en þessi, og þetta er allt á opinberum athugasemdakerfum). Það er það sem þarf að útskýra.

  23. Agnes Sigurðardóttir on December 2, 2012 at 23:33 said:

    Sæl Harpa,

    Ég verð að viðurkenna að eftir lestur þessa bloggs þá skil ég ekki alveg tilganginn með því. Þú rennir yfir nokkur mál sem hafa verið í umræðunni síðustu ár og gagnrýnir þau skoðanaskipti sem urðu um þau en þú setur ekkert fram á móti sem “raunveruleg vandamál” því “þá yrði færslan of löng”… Hefðir eiginlega alveg getað sleppt færslunni til að byrja með ef þú getur ekki klárað hana.

  24. Guðjón Ágúst on December 2, 2012 at 23:41 said:

    Ok skil þig Ingólfur

    Ég tel að “fíflagangur” sé betri skilgreining heldur en “grín” á þessu standoff-ish fyrirbæri sem svona net-skætingur eins og þú vísar í, er (og vissulega, mögulega er þetta meira en bara skætingur… en ég ætla ekki að þykjast geta lesið hugsanir þessara stráka)

    það er auðvitað huglægt mat að reyna að greina hvort svona fíflagangi fylgi einhver alvara.

    Stundum er ég alveg sammála Hörpu og gruna feminista um að vera vísvitandi að horfa framhjá hversu augljóslega sum ummæli eru bara fíflagangur. En dæmin sem þú kemur með og dæmið sem Harpa tekur er augljóslega ekki eitt af þeim skiptum .

  25. Agnes Sigurðardóttir: Færslan hefði orðið ansi löng ef ég hefði fjallað um þetta allt. Framhald af þessari færslu kemur síðar.

    Ingólfur Gíslason: Vinsamlegast póstaðu beinum tilvitnunum í hroða eitthvert annað en á bloggið mitt. Þótt ég hafi birt tilvitnun í dónalegt og smekklaust grín sem beindist að Hildi Lilliendahl af því ég er ósammála henni um að í orðunum felist líflátshótun (eins og netmiðlar hafa kyrfilega auglýst þessa klausu, líklega upphaflega að undirlagi Hildar þótt það sé ekki að fullu ljóst) þýðir það ekki að umræðuþráð á mínu bloggi sé frjálst að leggja undir hvaða ógeð sem er. Umræðuþræðir við mínar bloggfærslur eru ekki vettvangur fyrir áhugasama femínista til að auglýsa klámfengin undirföt, dónahjal eða annan hroða sem þeir hafa rekist á á netflakki sínu undanfarið.

  26. Dagný on December 3, 2012 at 00:07 said:

    Hvort þú ert feministi eða ekki Harpa, læt ég liggja milli hluta, en Porn star in training bolirnir í Hagkaupsbæklingnum eru því miður ekki þjóðsaga.

  27. Sigga Rósa on December 3, 2012 at 00:30 said:

    Kæra Harpa það er boðið upp á nám í siðfræði í Háskóla íslands ég mæli með að þú skellir þér í svo sem einn kúrs Svo er líka sterkur leikur að lesa Bangsímon hann og félagar hans þekkja muninn á réttu og röngu. Gangi þér allt í haginn.

  28. Matthildur on December 3, 2012 at 00:32 said:

    Ég á frekar erfitt með að skilja þetta “hótunargrín” eða þegar fólk ver það. Sjáfri væri mér ekki sama ef þetta væri skrifað um mig og ég skil vel að Hildur taki það alvarlega.

    Ég hef fylgst með og tekið þátt í umræðu um kvenréttindi og femínisma í mörg ár og hef alltaf túlkað svona ummæli sem beinast að einstökum femínistum með hótunum og lítisvirðandi ummælum sem eina aðferð til að þagga niður í þeim og hræða.

    Ég er heldur ekki sannfærð um að við þokuðumst nær jafnrétti með því að sitja kurteis á hliðarlínunni og biðja um að fá að vera með.

  29. Hvenær fengust þessir pornstar bolir á Íslandi, hvar fengust þeir og í hvaða stærðum voru þeir fáanlegir?

  30. Fjölmiðlar hafa aldrei fjallað um mig eða minn femínisma að mínu undirlagi. Þá hefurðu það. Að fullu ljóst.

    Elfa Jóns heitir Elfa Jóns. Ekki Elva Jóns.

    Ég heiti Hildur Lilliendahl Viggósdóttir.

    Eftirfarandi heiti ég ekki:
    Fr. Lilliendahl/Lillendahl
    Frk. Lillendahl/Lillendahl
    Hildur Viggósdóttir Lillendahl
    Hildur Viggósdóttir Lilliendahl

    Gangi þér vel með þetta.

  31. Elfa Jóns on December 3, 2012 at 00:41 said:

    Það má á þér skilja Harpa, að það séu femínistar (amk sumir þeirra) sem eigi alla sök á vondri umræðu um málefnið.

    Bera þeir líka ábyrgð á þeim (oft viðbjóðslegu) dylgjum sem þeir fá frá andfemínistum?

    Viltu meina að flestir þeirra myndu tala eins og kristilega uppaldir skátar ef ekki kæmi til vondar skoðanir, málflutningur og aðferðir femínistanna sjálfra?

    Er þetta einstakt fyrir þessa sérstöku réttindabaráttu, eða hafa aðrir hagsmunahópar fengið svipaða smekklega ágjöf við sína réttindabaráttu? Samkynhneigðir til dæmis?

  32. sunna rún on December 3, 2012 at 00:44 said:

    Já ok, hvert er svo inntakið ef ég mætti spyrja með þessari grein? Hverju ertu að reyna að koma til skila?

  33. Friðrik on December 3, 2012 at 01:05 said:

    Les vanalega ekki blogg, en þar sem Hildur hefur tekið sér til að pósta þessu á facebookið sitt og hæðst að þér bara varð ég.

    …og ég skil bara enganveginn hvað er svona rangt og heimskulegt við þessa færslu þína.
    Feminismastefnan, sérstaklega á íslandi, hefur verið á þeim nótunum að annaðhvort ertu með eða þú hatar kvennfólk. Það er enginn millivegur og það er ekkert fyrirgefið. Og er:
    “En birtingarmynd femínisma á Íslandi er talsvert önnur og af „fréttum“ og opinberri umræðu virðast femínistar sem telja sig í forsvari fyrir þá hugmyndafræði gera þá kröfu að almennilegir femínistar hafi asklok fyrir himin; allir aðrir eru andfemínistar. Femínistar og vantrúarfélagar hafa sakað mig um að vera kvenfjandsamlegur illa innrættur andfemínisti.”
    jafn falleg lýsing og hún er rétt.

    Commentin eru líka bara mjög gott dæmi. Eitt af því fyrsta sem kemur frá Hildi er:
    “ÚBBS, 6. til að svara spurningunni í titlinum: ó nei, þú ert sannarlega enginn femínisti.”
    Þar sem þú ert strax orðinn kvenfjandsamlegur illa innrættur andfemínisti í hennar og annarra ofsaFeminista, augum.

    Mad props.

  34. Guðrún Ægisdóttir on December 3, 2012 at 01:56 said:

    Fín grein, Harpa. – Bendi svo á að skilgreining femínista ; „Femínisti er karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því.“, er ekki stórfenglega orðuð. “Vill breyta því er skömminni skárra en að “vilja gera eitthvað í einhverju”.

  35. Ágústa Björnsdóttir on December 3, 2012 at 02:11 said:

    Að gera lítið úr þeirri umræðu sem hefur verið um fjölmörg mál sem snúa að jafnrêtti kynjanna upp á síðkastið er að mínu mati ekki heilbrigð skynsemi. Ég túlka þennan pistil sem athyglissýki á háu stigi. Það er nefnilega partur af mínum feminisma að vega og meta hvað stuðlar að jafnrétti- og þessi pistill gerir það ekki. Hildi ber að þakka fyrir frábæru baráttu, hún hefur sem betur fer opnað augu margra og fengið marga til að hugsa um að umhverfi okkar og menning þarf að vera lituð af jafnrétti, ekki bara hjörtu okkar feminista.

  36. Ormur on December 3, 2012 at 07:08 said:

    Ég horfði á mynd um bankarán um daginn. Eftir að myndinni lauk sagði ég við konuna mína: “Ef ég væri að fara að ræna banka þá myndi ég gera það svona og svona en ekki eins og gert var í myndinni.”
    Miðað við meinta morðhótun þá ætti ég að vera feginn því að konan mín hringdi ekki á lögguna til að láta vita af yfirvonandi bankaráni.

  37. Elín Sigurðardóttir on December 3, 2012 at 09:14 said:

    Tek undir með Guðbergi Ísleifssyni. Þetta endalausa rex og pex leiðir aðeins til þess að mikilvæg mál falla í skuggann. Það skyldi þó aldrei vera tilgangurinn?

    http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/02122012/hjukrunarfraedingar-segja-upp-vegna-oanaegju

  38. Anna Ingimundardóttir on December 3, 2012 at 11:52 said:

    Hressandi að sjá almennilega skrifaðan og vel ígrundaðan pistil á netinu þar sem rökstuðningur og heimildir fá að fylgja með. Því miður ansi sjaldséð sjón. Kudos til Hörpu fyrir þetta.

  39. Máni on December 3, 2012 at 13:04 said:

    Mér finnst alltaf jafn fyndið þegar fólk heldur að nám í siðfræði hafi eitthvað með siðferði einstaklinga að gera, sbr. athugasemd nr. 27 hér.

    Athugasemdirnar hér eru stórmerkilegar.

  40. Femínisti on December 3, 2012 at 13:58 said:

    Takk fyrir greinina. Harpa Hreinsdóttir er femínisti að mínu mati. En því ræður enginn nema hún sjálf, ekki Hildur Lilliendahl.
    PS Nenni ekki að setja nafn mitt hér þar sem það yrði atað sjálfsagt aur.

  41. Helga Lára Pálsdóttir on December 3, 2012 at 14:09 said:

    Af hverju þurfum við á fólki eins og Hildi að halda.

    Þegar að Harmageddon tvíeikið var heltekið 10 mínútna dógmreindarbresti og leifði ungum manni að ausa úr sér kvennfyrirlitningu sinni og hlutgeringu kvenna, þá var bara ENGINN annar sem vinsamlegast bennti á það.

    Það er vegna þess að í nafni þess að vera líbó, geðslegar, þægilega, tilkippilega, sexý og ALLT annað en feministi eru konur þessarar þjóðar búnar að leifa fólki sem úthúðar feministum að setja á okkur múl !
    Ef við erum eitthvað að tuða, þá erum við bara freðkuntu femínista tussur sem eiga það skilið að fá sleggju í andlitið og bíða hægs og kvalarfullst dauðdaga með bifreið ofan á brjóstkassanum í handbremsu.

    Það er bara ekki lengur norm í okkar samfélagi;
    Að stöðva slagsmál.
    Að láta í ljós opinberlega vanþóknun á þeim aðila sem sparkar í liggjandi mann.
    Að stöðva náungann í því að tala niðrandi um konur.
    Að vera mótfallinn orðalaginu “Ég ætla sko að nauðga í kvöld” þegar að ungir karlmenn eru að tala um að ætla að ná sér í bólfélaga.
    Að benda á að klám í dag er hrottafengið, ofbeldisfullt og það er af þeim ímyndum sem börnin okkar af báðum kynjum eru að fá eins mikla kennslu og þau kæra sig um.
    Að það að tala um konur á niðrandi máta er bara í fínu lagi.

    Þangað til að það breytist þá eru konur eins og Hildur okkar síðasta hálmstrá.

    Það getur vel verið að þér finnist eitthvað að málfluttningi hennar, það er gott og vel.
    En það nennir enginn almennt að hafa fyrir því að fara í þann slag sem það er að reyna að benda á það að kvennfyrirlitning er ekki í lagi ! Endilega taktu upp þann slag, þá kanski munu Hildur og félagar hafa færri hluti til að írafárast yfir.

  42. Gísli Ásgeirsson benti mér á greinarstubb í Dagblaðinu-Vísi DV 13. apríl 2001, s. 13: Segir þar frá bæklingi sem verslunin Oxford Street í Faxafeni, Rv., gaf út og mátti þar líta mynd af fyrirsætu í bol merktum I’m a Porn Star in Training, í baksýn var fermingardagur og páskar ritað með hástöfum. Í greininni eru viðbrögð verslunarstjóra Oxford Street rakin en hún harmar birtinguna. Sjá
    http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3014298

    Ég þakka Gísla kærlega fyrir ábendinguna. E.t.v. er þarna komin kveikjan að þjóðsögunni um að Hagkaup hafi selt barnaboli með Pornstar áletrun sem þróaðist síðan yfir í að Hagkaup selji núna (og hafi selt áður) G-strengi fyrir fjögurra ára börn?

  43. Femínisti on December 3, 2012 at 15:41 said:

    Af hverju þurfum við á femínistum eins og Hörpu að halda: Vegna þess að allir angar femínisma þurfa á snarpri gagnrýni að halda vilji þeir eiga í samræðu við samtíma sinn. Sá femínismi sem ekki álítur sig mega við neinni gagnrýni er orðinn forpokaðasta íhald.

  44. Egill Viðarsson on December 3, 2012 at 16:17 said:

    Ég ætla nú ekki að taka afstöðu í þessari deilu, finnst vera góðir punktar á báða bóga, en er orðinn þreyttur á farveginum sem feminisma-umræðan er komin í.

    En mig langaði bara að segja að ég man mjög vel eftir þessum hagkaupsbækling sem rætt er um. Ég man ekki hvað þetta er langt síðan, en þetta var öðruhvorumegin við aldarmótin, þegar ég var á unglingsaldri, og ég man að mér fannst þessi bolur alveg fáránlegur jafnvel þá. Bæklingurinn sem þetta var í kom inn um lúguna hjá mér, og ég og vinir mínir gerðum mikið grín að þessu.

    Þið ráðið hvort þið trúið mér, en ég get sagt fullum fetum að þetta er engin flökkusaga.

  45. Egill Viðarsson on December 3, 2012 at 16:31 said:

    Man meiraðsegja hvernig hann leit út, hann var ólíkum þessum í hlekknum hjá Hörpu, og það var svona glimmer áferð á stöfunum (týpískur svona smástelpubolur).

    Það er erfitt að benda á heimildir fyrir svona þar sem gamlir Hagkaupsbæklingar eru (blessunarlega) hvergi varðveittir 🙂

  46. Skrýtið að sjá fólk hérna halda því fram að Harpa sé feministi, rétt eins og það sé eftirsóknarverður límmiði.

  47. Verð að taka undir með Agnesi. Tilgangur þessarar löngu og óljósu færslu er mér alls ekki ljós – nema ef vera skyldi að egna fólk til að bregðast við á netinu. Fátt þrá bloggarar heitar. Tilgangurinn helgar e.t.v. meðalið. Merkileg er þín staðhæfing: “Ég met þessa klausu sem Hildur Lilliendahl Viggósdóttir telur líflátshótun einungis sem íslenskufræðingur, ekki lögfræðingur (auk þess að beita því gamla og e.t.v. hálfgleymda verkfæri sem kallast heilbrigð skynsemi)”. Þú mættir og ættir e.t.v. einnig meta hana sem siðferðisvera og líta í eigin barm þegar þú skrifar að ofan: “Ég fer þess á leit við þá sem vilja leggja hér orð í belg að þeir ….. gæti kurteisi. “

  48. Femínisti on December 3, 2012 at 19:10 said:

    Þátttaka í Kvennalistanum og öðrum “sérkvenlegum félagsskap”, femínisti að eigin sögn samkvæmt skilgreiningu Femínistafélags Íslands… Engin ástæða er til að ætla annað en að Harpa sé femínisti, sennilega “annarrar bylgju femínisti” samkvæmt bandarísku skilgreiningunni, og sé femínisti eftirsóknarverður límmiði er ekki ástæða til að eftirláta hann einhverjum örfáum hræðum. Þá væri fullt eins ástæða til að draga í efa að Hildur Lilliendahl sé femínisti. Þriðju bylgju femínistar leggja allavega margir hverjir ríka áherslu á að konum sé frjálst að skilgreina femínisma sjálfar en ekki eftir kennivaldi, þröngri bylgjuskilgreiningu, aldri eða í andstætt umföðmun fjölbreytileikans sem þá bylgju einkennir. Margir þeirra neita líka femínistastimplinum, which is fine by me.

  49. Máni on December 4, 2012 at 00:01 said:

    Hver er tilgangur færslunnar og ef við köfum dýpra hver er tilgangur bloggs og taka má þetta skrefi lengra og spyrja sig; borðuðu guðirnir nammi?

  50. Máni: Guðirnir áttu ábyggilega nammi, ég hef heyrt um fólk sem hefur lesið um að einhver guð hafi átt manna til að spreða á fólk og manna er mjög líkt nammi (það eru sömu stafirnir) svo þetta er örugglega satt. Kannski finn ég úrklippu sem sýnir að einhver guð hafi átt manna og sanna þannig að guðirnir hafi átt nammi …

    Hver er tilgangur lífsins?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation