HAM og Hávamál

Hávamál eru safn kvæða frá óvissum tíma, oft eru þau talin frá 12. eða 13. öld en einstakar vísur kunna að vera talsvert eldri.  Þekktast þessara kvæða er Gestaþáttur, 77 (eða 79) erindi sem fjalla fyrst og fremst um æskilega hegðun og æskileg viðhorf í lífinu. Hermann Pálsson kallaði umfjöllunarefni Gestaþáttar Geðspeki. Þeir sem lesið hafa kvæðið eru sjálfsagt sammála því. Síðan ég sótti námskeið í hugrænni atferlismeðferð (HAM) við þunglyndi og kvíða snemma í haust hef ég af og til velt fyrir mér hvort Gestaþáttur Hávamála væri kannski HAM fyrri alda. Færslan er tilraun til að svara þeirri spurningu.

Hugræn atferlismeðferð gerir ráð fyrir að hugsanir, hegðun og líðan hangi saman og hafi áhrif hvert á annað. Vilji menn breyta líðan þarf að breyta hugsunum (hugrænum þáttum) og besta leiðin til að breyta hugsunum er að breyta hegðun sinni (atferli). Þessi áhersla á að breytt hegðun geti haft áhrif á hugarfar sem hafi áhrif á líðan er notuð víðar en í HAM, t.d. kannast þeir sem eru virkir í AA samtökunum mætavel við allt talið um „litlu hlutina sem verða að vera í lagi“; oft er þar vísað til þess að hafa reglu á svefni og mataræði, hreyfa sig reglulega og fleira svoleiðis smotterí sem skilar sér í betra jafnvægi.

Í hugrænni atferlismeðferð er lögð áhersla á að laga hugsanaskekkjur. Lista yfir þær algengustu má sjá hér í HAM. Meðferðarhandbók Reykjalundar.

Gestaþáttur Hávamála dregur nafn sitt af því að fyrstu erindin fjalla um hvernig gestur á bæ ætti að haga sér og hvernig gestgjafar ættu að haga sér. Síðan er fjallað um æskilega hegðun í víðara samhengi og seint í kvæðinu er farið að fjalla um hvað gefi lífinu gildi og sé mikilsverðast í lífi hvers manns. Víða er bent á hvað sé skynsamleg hegðun og hvað sé heimskuleg hegðun, einnig hvað séu skynsamleg viðhorf og hvað óskynsamleg.

Segja má að fjöldi erinda miði að því að leiðrétta algengar hugsanaskekkjur. Fyrir það fyrsta boðar Gestaþáttur Hávamál eindregið að hóf sé best á hverjum hlut. Menn eiga að tala mátulega mikið, hvorki of né van, menn eiga að drekka og eta mátulega mikið, hvorki fasta né hella/graðga í sig, o.s.fr. Það er því unnið einart gegn allt-eða-ekkert hugsunarskekkjunni, sem og ýkjum eða minnkun. Það er meira að segja óæskilegt að vera of vitur: „Því að snoturs manns hjarta/verður sjaldan glatt/ef sá er alsnotur er á“! Eftirsóknarverðast er að vera hæfilega vitur, þeir menn lifa fegurstu lífi.

Í Gestaþætti er staðhæft að illt sé að spegla sig í áliti annarra og vænlegra að hafa næga skynsemi og rétt sjálfsmat til að bera: „Sá er sæll/er sjálfur um á/ lof og vit meðan lifir“. Sá sem byggir sjálfsálit sitt á viðmóti annarra er heimskur: „Ósnotur maður/hyggur sér alla vera/viðhlæjendur vini.“

Hörmungarhyggja er algeng hugsanaskekkja, nokkurs konar sambland af hrakspám og ýkjum svo menn trúa því að eitthvað svo hræðilegt muni gerast að þeir muni ekki þola það eða að allt fari á síversnandi veg. Hávamál andæfa þessum hugsunarhætti annars vegar með því að segja að það sé slæmt að vera svo vitur að menn viti örlög sín, hins vegar að það sé heimskulegt að kvíða fyrir öllu: „ósnjallur maður/uggir hotvetna“.

Gestaþáttur leggur áherslu á reglusemi í mataræði og svefni. Menn eiga að „rísa ár“, þ.e. fara snemma á fætur, og borða snemma. E.t.v. mætti heimfæra þetta upp á virkni-boðskap HAM fræða, mikilvægi þess að vera virkur og halda stundarskrá. Sama má segja um áherslu Hávamála á að umgangast fólk og rækja vináttu. Ómannblendni gerir manninn heimskan: „Maður af manni/verður að máli kunnur/en til dælskur af dul.“ Hamingja mannsins felst í félagsskap: „Maður er manns gaman.“

Neikvæð rörsýn og að afskrifa jákvæða reynslu, frammistöðu og hrós eru hugsanaskekkjur skv. hugrænni atferlismeðferð. Í Hávamálum er bent á að þótt maður eigi lítið af efnislegum gæðum, t.d. lítið bú eða lélegan hest og klæðnað, geti menn glaðst yfir að vera sjálfstæðir og þurfi ekki að skammast sín fyrir fátækt svo lengi sem þeir eru þvegnir og mettir. Mikið fé er ekki eftirsóknarvert því „margur verður af aurum api“ og „svo er auður/ sem augabragð:/hann er valtastur vina.“ Undir lok Gestaþáttar er undirstrikað að það eitt að vera lifandi sé næg ástæða til að finna hamingju. Menn geta ævinlega fundið eitthvað til að gleðjast yfir, einnig þótt heilsan sé slæm:

Erat maður alls vesall,
þótt hann sé illa heill:
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.

Reynsla mín af því að lesa Gestaþátt Hávamála með unglingum er mjög góð. Þeim þykir yfirleitt mikið til lífspeki kvæðisins koma enda eiga flest hollráðin og ábendingarnar vel við enn þann dag í dag því Gestaþáttur Hávamála boðar einkum heilbrigða skynsemi. Hugræn atferlismeðferð miðast og við að vekja fólk til umhugsunar um heilbrigða skynsemi og æfa það í henni. Margt er því líkt með þessu tvennu.

2 Thoughts on “HAM og Hávamál

  1. Þ. lyftustjóri on December 27, 2012 at 21:14 said:

    Ef ég man rétt er hinsvegar ekki gott að fara mikið lengra í Hávamálum en þessar 77 vísur. Amk gæti ég ímyndað mér að á þessum síðustu rétttrúnaðartímum þætti hæpin speki að útskýra 84. erindi nákvæmlega fyrir unglingunum.

    Meyjar orðum
    skyli manngi trúa
    né því er kveður kona.
    Því að á hverfanda hveli
    voru þeim hjörtu um sköpuð,
    brigð í brjóst um lagin.

    Þannig var nú hugsanagangurinn þá. Hefur eitthvað breytzt?

  2. Já, mér varð hugsað til hinna heilögu meyja (=femínista) og ákvað að voga mér ekki út fyrir Gestaþátt 😉

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation