Siðanefnd lækna og ábyrgðarmaður Læknablaðsins fundin sek – taka siðareglur til þessara aðila?

Í síðustu viku féll dómur í máli sem höfðað var gegn Læknafélagi Íslands (vegna siðanefndar félagsins) og ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Dómurinn birtist á netinu í dag. Færslan fjallar um þetta undarlega mál.

Málavextir

Málið hófst með deilum tveggja lækna sem sjúklingur blandaðist í með óbeinum hætti því hann sagði öðrum lækninum hvað hinn læknirinn hefði sagt um hann. Sá læknir kærði ummælin til siðanefndar Læknafélags Íslands (hér eftir skammstafað LÍ).

Siðanefnd LÍ birti úrskurð sinn í Læknablaðinu í september 2011 (hér er tengt í vefútgáfu Læknablaðins á Vefsafninu, afritið er frá því seint í október 2011 og hefur þá verið afmáður kóði og sjúkdómsheiti úr sjúkraskýrslu sjúklingsins sem birtur var upphaflega). Í umfjöllun og úrskurði siðanefndar LÍ voru birt bréf annars læknisins þar sem hann vitnar í sjúkraskýrslur sjúklingsins og dregur fram sjúkdómsgreiningu sem sjúklingnum sjálfum var ókunnugt um. Af umfjöllun siðanefndar sem birtist í Læknablaðinu má auðveldlega þekkja hver sjúklingurinn er enda bjó hann í litlu plássi úti á landi.

Úrskurður siðanefndar LÍ var að læknirinn sem sendi ívitnuð bréf hafi brotið siðareglur lækna með því að fara í sjúkraskrá sjúklings að nauðsynjalausu og miðla úr henni upplýsingum til siðanefndar.

Í næsta tölublaði Læknablaðsins birtist annar úrskurður siðanefndar LÍ þar sem segir að vegna klúðurs í vinnslu málsins hjá siðanefndinni sé fyrri úrskurður felldur úr gildi. Þar með eru deilur læknanna tveggja úr sögunni því siðanefnd ómerkti eigin úrskurð.

Sjúklingurinn sem blandaðist í málið kvartaði við Persónuvernd, Landlæknisembættið o.fl. aðila því birtar voru persónugreinarlegar klausur úr hans sjúkraskrá í Læknablaðinu. Persónuvernd úrskurðaði í málinu í janúar 2012 og gerði Læknablaðinu að eyða þessum úrskurði siðanefndar LÍ úr netútgáfu blaðsins. Það var gert og nú sér hans engin merki í 9. tbl. 97. árg. Læknablaðsins á vefsetri blaðsins (en auðvitað liggur vefútgáfa sama tölublaðs frá því í október 2011 áfram frammi á Vefsafninu). Þess er ekki gerið í vefútgáfu þessa tölublaðs á vefsetri Læknablaðsins að eytt hafi verið úr því.

Landlæknisembættið virðist einnig hafa fjallað um málið skv. málavöxtum sem lýst er í nýföllnum dómi, a.m.k. var lagt fram bréf frá embættinu í meðferð málsins.

Sjúklingurinn höfðaði mál gegn Læknafélagi Íslands (v. siðanefndar félagsins) og Engilbert Sigurðssyni, ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Sjúklingurinn vann það mál í síðustu viku.

   

Málsmeðferð

Málsvörn LÍ, vegna siðanefndar félagsins, og Engilberts Sigurðssonar snýr einkum að því hve stór skaði þessa sjúklings geti verið. Báðir aðilar játa rangan verknað, þ.e. að birting upplýsinga úr sjúkraskrá í Læknablaðinu hafi ekki verið rétt. Raunar kjósa báðir að kalla þetta „gáleysi“ en telja að „gáleysi þeirra geti aldrei talist meiriháttar eða verulegt“, síðan er þessi birting upplýsinga úr sjúkraskrá kölluð „hin slysalegu atvik”. Í bréfi siðanefndar LÍ til Persónuverndar var þetta í munni siðanefndar LÍ „þau leiðu mistök“ og siðanefnd LÍ staðhæfir að „Hefði hann sleppt því að stíga sjálfur fram hefði enginn vitað með vissu að hann er þessi sjúklingur sem um ræðir í þessu máli.“ Í vörn hinna stefndu í dómsmálinu er ítrekað að fórnarlambið sjálft sé sökudólgurinn í málinu: „Það virðast hafa verið hans fyrstu viðbrögð við fréttinni og ábendingunni um hana að tryggja að það yrði alþjóð kunnugt að hann væri sjúklingurinn í umræddri frétt.“ Að mati Persónuverndar voru þau rök ekki tæk. Héraðsdómur Reykjaness féllst heldur ekki á þau rök.

LÍ og Engilbert Sigurðsson gerðu auk þess þá athugasemd að lagagreinar þær sem þeir voru kærðir fyrir að brjóta snertu ekki málið:
 

Stefndu gera þá athugasemd við málatilbúnað stefnanda að hann vísi til fjölmargra lagaákvæða sem stefndu telja að eigi ekki við í máli þessu, eins og lög nr. 55/2009 um sjúkraskrár, lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga, læknalög nr. 53/1988 og lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Gyðja réttlætisinsÞetta er að því leyti einkennileg vörn að Persónuvernd var búin að úrskurða (17. janúar 2012) að málið varðaði lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónupplýsinga og að á grundvelli þeirra laga hefði verið óheimilt að birta persónugreinanlegar upplýsingar um sjúkrasögu mannsins. Persónuvernd gaf siðanefnd LÍ stuttan frest til að eyða þessum upplýsingum úr vefútgáfu 9. tbl. 97. árg. Læknablaðsins og líklega hafa siðanefnd og ritstjóri blaðsins gripið til þess að eyða öllum umræddum úrskurði siðanefndar úr blaðinu í janúar 2012, a.m.k. er hann horfinn núna. Persónuvernd skar ekki úr um hvort málið snerti önnur lög því sá hluti átti að vera á könnu landlæknisembættisins og úrskurður þess er ekki opinber (eitthvert skjal frá landlæknisembættinu var lagt fram í réttarhöldunum en kemur ekki fram hvað í því stóð).

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að bæði sé litið til þessara laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga sem og 2. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár en þar segir að við færslu og varðveislu sjúkraskráa og aðgang að þeim skuli mannhelgi og sjálfsákvörðunarréttur sjúklinga virtur, þess gætt að sjúkraskrár hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar og að sjúkraskrárupplýsingar eru trúnaðarmál:

Héraðsdómur Reykjaness féllst ekki á þann málatilbúnað stefndu um að þeir hafi einungis gerst sekir um minniháttar gáleysi heldur voru þeir fundnir sekir um „ólögmæta meingerð“. Í greinargerð með frumvarpi að skaðabótalögum nr. 50/1993 kemur fram að til að eitthvað teljist „ólögmæt meingerð“ þurfi að vera um saknæma háttsemi að ræða og gáleysi þarf að vera verulegt til að atvik teljist ólögmæt meingerð. Niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness er að þessi skilyrði séu uppfyllt og því eigi Læknafélag Íslands og Engilbert Sigurðsson að greiða manninum miskabætur.

Dómsorðið hljóðar svo:

    Stefndu, Læknafélag Íslands og Engilbert Sigurðsson, greiði stefnanda, Páli Sverrissyni, in solidum, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 [laga um vexti og verðtryggingu] frá 13. mars 2012 til greiðslu dags.
    Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 627.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
 
 

Ná siðareglur lækna yfir siðanefnd Læknafélags Íslands?

Þetta er ótrúlegt mál og furðulega að því staðið. Siðanefnd LÍ úrskurðaði á sínum tíma að læknirinn Magnús Kolbeinsson hefði brotið 13. grein Siðaregla lækna (Codex Ethicus) með því að fara í sjúkraskrá sjúklings að nauðsynjalausu, hirða þaðan upplýsingar og senda í bréfi til siðanefndar LÍ án leyfis sjúklingsins. En svo gerði siðanefnd LÍ hið sama og hún fann Magnús Kolbeinsson sekan um, þ.e. birti upplýsingar úr þessari sjúkraskrá þessa sjúklings í málgagni LÍ, Læknablaðinu, án leyfis sjúklingsins. Braut siðanefndin þá siðareglur lækna? Mun hún fjalla um eigið mál af sjálfsdáðum?

Formaður siðanefndar lækna frá því í nóvember 1990 hefur verið Allan Vagn Magnússon, lögfræðingur og dómstjóri Héraðsdóms Vesturlands. Hann er því væntanlega undanþeginn siðareglum lækna (Codex Ethicus) því hann er ekki læknir. Hinir tveir siðanefndarfulltrúarnir eru læknar. Ætla má að Allan Vagn sé vel að sér í lögum. Eigi að síður var siðanefnd LÍ undir hans forsæti (raunar Læknafélag Íslands því Læknafélagið ber ábyrgð á því sem siðanefnd félagsins gerir) dæmd fyrir ólögmæta meingerð og LÍ dæmt til að greiða skaðabætur.

Ná siðareglur lækna yfir ábyrgðarmann Læknablaðsins?

Dómsmálið sem hér hefur verið fjallað um var einnig höfðað gegn ritstjóra og ábyrgðarmanni Læknablaðsins. Það hlýtur að vera næsta ljóst að sá ritstjóri og ábyrgðarmaður les ekki yfir allt efni Læknablaðsins sem hann fær greitt fyrir að ritstýra og axla ábyrgð á. (Hinn möguleikinn er of fjarstæðukenndur, þ.e.a.s. að Engilbert Sigurðssyni prófessor í geðlæknisfræðum við læknadeild HÍ og yfirlækni á Landspítalanum þyki það engu máli skipta að birtar séu persónugreinanlegar endursagnir á sjúkraskrá sjúklings sem blandast inn í deilur tveggja lækna í Læknablaðinu sem hann ritstýrir.) Nú vaknar auðvitað einnig sú spurning hvort siðareglur lækna nái einnig yfir ritstjóra og ábyrgðarmann Læknablaðsins og hvort siðanefnd Læknafélags Íslands ætli að fjalla um það mál.
 

 Viðbrögð við dómsmálinu og dómnum hafa enn sem komið er verið lítil sem engin enda dróst í viku að birta dóminn eftir að hann féll. Ekki virðist hafa hvarflað að siðanefnd LÍ eða ábyrgðarmanni Læknablaðsins að segja af sér þegar þeir voru kærðir (málið var dómtekið 21. nóvember 2012, skaðabótakrafa stefnanda var sett fram 13. janúar 2012). Í frétt Vísis þann 21. janúar sl. er haft eftir Þorbirni Jónssyni formanni LÍ að Læknafélag Íslands hafi haft efasemdir um greiðslu miskabóta (sem liggur auðvitað í augum uppi því annars hefði félagið varla látið málið fara fyrir dómstóla).
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation