Hafa þunglyndislækningar villst af leið?

Það var fyrir réttu ári síðan að augu mín opnuðust; Ég áttaði mig á því að ég myndi aldrei ná bata með hefðbundnum aðferðum geðlækna við þunglyndi. Svo merkilegt sem það nú er var það bókmenntafræði sem opnaði mér leið. Af rælni hafði ég fengið lánaða bókina Sykdom som litteratur á bókasafni, ætlaði raunar bara að glugga í kaflana um berkla og holdsveiki en kíkti svo líka í kaflann um þunglyndi. Allt í einu rann upp fyrir mér að ég var farin að gegna hlutverki bókmenntapersónu, klisju eða erkitýpu, en ekki persónu af holdi og blóði. Eitt er að lesa nýrómantískan harmagrát – allt annað að þurfa að leika nýrómantíska harmræna kvenpersónu upp á hvern dag og finna sig engan veginn í hlutverkinu.

Stytta af þunglyndri konuMeðan ég var að átta mig á hvernig viðhorf geðheilbrigðisstarfsmanna til sjúklinga má að einhverju leyti skilja út frá bókmenntafræðikenningum bloggaði ég færslurnar Geð, sál, líkami, staðalímynd og  Haltu kjafti og vertu … þunglynd?, sem reyndust fara sérstaklega fyrir brjóstið á þáverandi geðlækninum mínum. Í færslunum er tekið nokkuð djúpt í árinni og eftir að hafa kynnt mér hefðbundnar þunglyndislækningar í ár sé ég að málin eru flóknari en í þeim kemur fram. En þetta var góður byrjunarreitur fyrir mig og raunar er ég enn sammála megninu af færslunum. Ég rakst núna áðan á klausu eftir sálfræðinginn og geðhvarfajúklinginn Kay Redfield Jamison um tengsl þunglyndis og erktýpu kvenleikans:

Þunglyndið samræmist betur hugmyndum þjóðfélagsins um það hvernig konur séu í innsta eðli sínu, þ.e.a.s. hlédrægar, viðkvæmar, veiklyndar, bjargarlausar, grátgjarnar, ósjálfstæðar, ringlaðar, fremur leiðinlegar og ekki mjög metnaðarfullar. (S. 90 í Í róti hugans.)

Margt af ofantöldu voru sjúkdómseinkenni mín en eru hreint ekki hluti af mínu skapferli og sumu hef ég megnustu skömm á. Það má vel spyrja sig hvort viðmót einhverra þeirra sem sjúklingar á borð við mig mæta í geðheilbrigðiskerfinu mótist af trú þeirra á að þessi einkenni séu eftirsóknarverð fyrir konur.

Í Morgunblaði (mannsins) í dag er aðsend grein eftir þær Svövu Arnardóttur og Tinnu Ragnarsdóttur, Leiðir til lausna heitir greinin og fjallar um leiðir til bata í geðrænum veikindum. Ég er löngu búin að átta mig á því að það er ekki ég sem hef verið svona sérstaklega óheppin í viðskiptum við geðlækningakerfið heldur er saga mín saga margra. Í grein Svövu og Tinnu er lýst því sem fjölmörgum geðsjúkum er talin trú um:

Áður en ég kynntist Hugarafli hafði ég ekki hugmynd um að hægt væri að ná sér eftir geðræn veikindi. Þó hafði ég stundað sjálfsvinnu og glímt við þunglyndi og kvíða í áraraðir. Hafði sótt þjónustu til ýmissa sálfræðinga og geðlækna og hvergi fengið þau skilaboð að ég gæti náð mér og orðið heilbrigður einstaklingur á nýjan leik. Ég fékk hins vegar að heyra það að ég væri þunglynd að eðlisfari og ef ég væri dugleg að taka lyfin mín og tæki þau um ókomna framtíð gæti ég vonast til að halda þessum einkennum í skefjum. Slík skilaboð draga úr vonum og væntingum einstaklings …

Síðan lýsir mælandi hvernig hann lærði af samtölum við aðra, þ.e. heyrði „lífssögur einstaklinga sem voru komnir langt í bata en höfðu verið á sama stað og ég“, öðlaðist fyrirmyndir og mætti jákvæðu viðmóti „í viðtölum við fagaðila sem lýsti yfir trú á mér. Það þekkti ég ekki áður.“

Þessa hjálp sem skilaði árangri fékk höfundur greinarinnar hjá Hugarafli. Ég hef ekki leitað til Hugarafls, aðallega af því ég bý ekki í Reykjavík og hef oft á tíðum verið nánast ófær um að bregða mér af bæ. Ég hef hins vegar fengið svipaðan stuðning annars staðar, eftir að ég ákvað að taka mín mál og minn sjúkdóm í eigin hendur, hafandi treyst hefðbundnum geðlæknisaðferðum í blindni í meir en áratug þótt þær skiluðu engum árangri til bóta og yllu mér skaða í mörgum tilvikum. Með hjálp skynsamra og góðra manna hef ég náð miklu betri árangri á því ári sem liðið er en nokkru sinni gafst af pilludótinu og stuðunum. Ég hef fulla trú á að þessi aðferð skili árangri áfram og er voðalega fegin að vera hætt í pilluprófunum og hafa ákveðið að ekki verði flogað meir með rafmagni í heilanum á mér. 
 
Pillusortum við þunglyndi fjölgar æ meir og heilaþvotturinn um að orsakir þunglyndis liggi í tiltölulega einföldu efnaójafnvægi í heila verður æ öflugri … en á sama tíma verður þunglyndi æ algengara og æ þyngri vá og æ meir ólæknandi í þeim skilningi að flestum þunglyndissjúklingum er sagt að þeir þurfi að eta þunglyndislyf til frambúðar. Má þá ekki draga þá ályktun að árangurinn af læknisaðferðunum sé sorglega lítill? Hvað klikkar? Er mögulegt að þunglyndislækningar nútímans séu, þegar allt kemur til alls, skelfilegt kukl en ekki vísindi?

Ein leið til að leita að svörum við þessu er að skoða söguna, hugmyndir fyrri tíðar manna og eldri lækningaðaferðir. Ég er þessa dagana að glugga í efni eftir aðra en geðlækna af því mér þykir, af minni fátæklegu reynslu af geðlæknum, að sýn geðlækna sé þröng, eiginlega má segja að vísindaleg læknisfræðileg sýn á þunglyndi sé gott dæmi um að sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Ég er satt best að segja eiginlega búin að fá mig fullsadda af greinum um þunglyndi eftir geðlækna. Svo ég skoða núna efni um þunglyndi eftir heimspekinga (sem gleður eflaust eiginmanninn mjög) og efni tengt hugmyndasögu og bókmenntum. Fyrir mörgum árum byrjaði ég að lesa The Anatomy of Melancholy (útg. 1621) eftir Robert Burton en gafst upp á að lesa gotneska letrið í útgáfunni sem bauðst þá á Vefnum – nú er ég búin að finna hana á Vefnum með nýmóðins latínuletri og ekkert því til fyrirstöðu að hraðfletta gegnum bókina. Og ég er niðursokkin í grein um tengsl hugmynda sautjándu og átjándu aldar manna um melankólíu við hugmyndir sömu manna um konur … sé ekki betur en kona sem erkitýpa þunglyndissjúklings sé ansi gömul hugmynd 😉

Og heilsan? Tja, leiðin virðist liggja upp á við ef marka má árangur í sunndagskrossgátu moggans og almennt geðslag. En ég glími við draugatilfinningar á hverjum degi. Og minnistruflanirnar geta gert mig geðveika! Ég er svo helvíti metnaðargjörn, sjálfstæð o.s.fr. skiljiðið …
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

One Thought on “Hafa þunglyndislækningar villst af leið?

  1. Þórdís Anna Garðarsdóttir on March 15, 2013 at 08:43 said:

    Ég hef fylgst með blogginu þínu í mörg ár og mig langaði bara til að hrósa þér fyrir góð skrif. Bloggið þitt er að mínu mati eitt það yndislegasta sem finnst á netinu:) Það eru líka fáir sem ég veit um sem tala um geðsjúkdóma af eins mikilli yfirvegun og á eins eðlilegan hátt og þú gerir. Ég vona að þú fáir góðan bata og að heilsan fari áfram upp á leið 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation