Hver er dýrlingur prjóns?

Þótt prjónaskapur sé með göfugustu iðju er vafamál hvort nokkur dýrlingur hefur alfarið á sinni könnu að veita himneska hjálp við lykkjufalli eða redda prjónlesi með kraftaverki, það er ekki einu sinni á hreinu hvern best er að ákalla í þessum efnum. Þetta kemur óneitanlega á óvart því flest handverk/handverksmenn eiga sér sinn eigin dýrling – af hverju ekki prjónakonur (af báðum kynjum)?

Nokkrir eru þeir þó heilögu mennirnir (af báðum kynjum) sem sérstaklega eru tengdir prjóni en því miður hafa þeir ýmislegt annað á sinni könnu sem þeir eru þekktari fyrir, sumt ansi langt frá prjóni.

Í ritinu Dictionnaire Universel de Commerce, útg. 1723, eftir Savary des Bruslons, segir af gildi (iðnaðarmannasamtökum) prjónara í París, Gildi heilags Fiacra, sem stofnað var 1527. Dýrlingur prjónaranna var heilagur Fiacra, líklega valinn vegna þess að hann var talinn skoskur konungssonur og Frakkarnir höfðu það fyrir satt að prjónakunnátta hefði borist frá Skotlandi. Önnur yngri heimild segir að heilagur Fiacra hafi verið orðinn dýrlingur franskra húfugerðarmanna meir en 150 árum áður en prjónagildið valdi hann sem sinn dýrling.

Heilagur Fiacra var írskur munkur á sjöundu öld, sem þvældist um og endaði í Frakklandi. Hann undi sér við dæmigerða helgimannaiðju í lifanda lífi: Baðst fyrir, fastaði, sinnti sjúkum, ræktaði garðinn sinn o.s.fr. Honum var meinilla við konur og kvenfólki var alfarið bannaður aðgangur að klaustrinu sem hann stofnaði.

Fiacra dýrlingur prjónsSem dýrlingur er heilagur Fiacra þekktastur fyrir að vera verndari garðyrkju og lækningarjurta. En jafnframt er hann dýrlingur þeirra sem þjást af kynsjúkdómum (þetta hlutverk er tengt andúð hans á konum); dýrlingur þeirra sem þjást af gyllinæð (sem var kölluð veiki heilags Fiacra á miðöldum) og svo er hann dýrlingur leigubílstjóra! Miðað við þessi hlutverk heilags Fiacra finnst mér ekki sérlega gæfulegt að fela honum einnegin guðlega umsjá með prjónaskap þótt franskir prjónarar í iðnaðarsamtökum hafi kosið svo endur fyrir löngu.

Á myndinni sést stytta af heilögum Fiacra sem aðaldýrlingi írskra garðyrkjumanna. Fiacra starir á akarn sem hann heldur á.
 

Austurkirkjan býður upp á meira aðlaðandi dýrling fyrir trúaðar prjónakonur en sú rómversk-kaþólska, heilaga Paraskevu. Paraskeva er líka kölluð Petka, hugsanlega vegna þess að slavneskar goðsagnir af heiðinni gyðju með því nafni (nafnið þýðir föstudagur og paraskevi er gríska orðið yfir föstudag) hafi blandast við helgisögur af Paraskevu. Heilög Paraskeva er svo kennd við ýmis slavnesk lönd eftir smekk enda vinsæll dýrlingur þar eystra.

Petka dýrlingur prjónakvennaParaskeva fæddist í nágrenni Konstantínópel í Tyrklandi einhvern tíma á 11. öld og var dóttir velstæðra landeigenda. En þegar hún var tíu ára gömul boðaði raust guðs henni að fylgja sér og afneita öðru. Svo Petka litla gaf fátækum öll sín föt og allt sitt dót og hélt til Konstantínópel, foreldrum hennar til mikillar armæðu. Petka flæktist um (enda leituðu foreldrarnir hennar ákaft), gekk í klaustur, heimsótti Jerúsalem og lifði fábrotnu trúarlífi. Engill birtist henni í draumi þegar hún var 25 ára gömul og sagði henni að snúa heim, sem hún og gerði en tveimur árum síðar lést hún. Helgum dómum hennar (gripum og líkamsleifum) var dreift á kirkjur í nágrenninu, seinna meir voru þær fluttar til Belgrad, svo til Konstantínópel en á endanum var þeim safnað saman í kirkju í Rúmeníu.

Kannski er það vegna þess að Paraskeva gaf fátækum klæði sín að hún er höfuðdýrlingur spunakvenna, saumakvenna, vefara og prjónakvenna.
 

Í grísk-orþódoxu kirkjunni er 14. október helgidagur Petku/Parachevu.  Á síðunni sem krækt er í kemur fram að þennan dag, í Búlgaríu, megi konur helst ekki lyfta litla fingri og stranglega er bannað að spinna eða prjóna. (Í sumum búlgörskum þorpum ríkir algert bann við að snerta á ull næstu tólf dagana á eftir.) Samkvæmt þjóðtrúnni birtist heilög Petka í snákslíki þeim konum sem vinna með ull á helgidegi hennar. 

Litlum sögum fer af áhuga grísk-kaþólskra á að dubba upp nýjan prjónadýrling, enda Petka svo sem ágæt til starfans, en rómversk-kaþólskar prjónakonur eru sumar ekki hrifnar af honum Fiacra og vilja fá almennilegan einkadýrling prjóns. Eru þar helst nefndar sem kandídatar heilög Gemma Galgani (d. 1903 og tekin í heilagra manna tölu árið 1940) og heilög Rafqa (d. 1914 og tekin í heilagra manna tölu árið 2001). Báðar voru iðnar prjónakonur í lifanda lífi.

Vér lúterstrúar eða jafnvel vantrúar prjónakonur getum látið okkur fátt um finnast og haldið áfram að passa okkar lykkjur sjálfar. En það væri samt óneitanlega gaman að ótvíræður dýrlingur prjóns væri til …
 
 
 
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation