Íslenskir prjónaðir vettlingar

 Svo skemmtilega vill til að elsta prjónles sem fundist hefur á Íslandi er einmitt vettlingur: 
 

Vettlingur frá Stóru BorgÁrið 1981 fannst sléttprjónaður einþumla belgvettlingur í uppgreftri að Stóru-Borg undir Austur-Eyjafjöllum. Hann er líklega frá fyrri hluta 16. aldar, og því elsta varðveitta íslenskt prjónles sem vitað er um. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.)

Sem sjá má á myndinni er vettlingurinn allur sléttprjónaður og ekkert stroff enda lærðu menn líklega ekki að prjóna brugðnar lykkjur fyrr en seint á sautjándu öld, e.t.v. ekki fyrr en í upphafi 18. aldar. Hann er prjónaður gróft úr mórauðu tvíþættu ullarbandi, 3 lykkjur á sentimetra á hæðina en 4-5 lykkjur á sentimetra á breiddina. Annar einþumla belgvettlingur hafði fundist í uppgreftri á Bergþórshvoli 1927. Sá er einnig úr mórauðu spunnu ullarbandi og enn grófprjónaðri en sá sem fannst á Stóru-Borg, 3,5 lykkjur á cm á hæðina en 2,5 lykkjur á cm á breiddina. Vettlingurinn frá Bergþórshvoli er talinn heldur yngri eða frá því um 1600. Við fornleifaupparannsóknir í Kaupmannahöfn hefur fundist tugur tvíþumla vettlinga sem taldir eru íslenskt innflutt prjónles frá 17. öld. Þeir eru allir sléttprjónaði en með mismunandi lögun og úrtökum og ekkert sérlega líkir vettlingunum frá Stóru-Borg og Bergþórshvoli. (Elsa E. Guðjónsson. 1992.)

Þótt minjar séu fátæklegar er vitað að Íslendingar byrjuðu snemma að prjóna vettlinga, sjálfsagt nánast um leið og þeir lærðu að prjóna (einhvern tíma seint á 16. öld). Sokkar og vettlingar urðu mikilvæg útflutningsvara. Árið 1624 voru flutt út rúmlega 72 þúsund pör af sokkum og rúmlega 12 þúsund pör af vettlingum, nokkrar sveiflur voru í þessum útflutningi milli ára en nefna má að á dögum Almenna verzlunarfélagsins (1764-1773) voru árlega flutt út rúmlega 185 þúsund pör af sokkum og tæplega 71 þúsund pör af vettlingum. (Jón Aðils. 1971.) Óskráðir eru allir þeir vettlingar og önnur plögg sem íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn fengu send og seldu sjálfir, plögg sem Íslendingar seldu ýmissa þjóða sjómönnum við landið, sem og í vöruskiptaverslun innanlands.

Allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu: Peysur, sokka, vettlinga, húfur o.fl. Jón Aðils nefnir að menn hafi lagt stund á þessa iðju af því ekkert annað var að gera á veturna og halda þurfti fólki hvort sem var, jafnt gamalmenni sem börn „sem eigi voru til annars hæf.“ (Jón Aðils. 1971.) Síðari tíma heimildir nefna að börn urðu eins og aðrir að skila ákveðnu prjónlesmagni eftir vikuna, venjulega tveimur sjóvettlingspörum þegar þau voru átta ára og síðan meiru eftir því sem þau eltust. Gamall húsgangur er til vitnis um þetta:
 

Fyrst þú ert komin á fjórða ár
fara áttu að vinna.
Það er að læra listir þrjár
lesa, prjóna og spinna.
 

(Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)
 

Prjónlesið (prjónasaumurinn) greindist í tvo flokka: Eingirnisles (Enkelbaandsgods) og tvígirnisles (Dobbelbaandgods). Eingirnislesið var lika kallað púlsles eða duggarales, það var unnið úr grófu ótvinnuðu bandi. Duggaralesið var miklu algengara og hlaut nafn sitt af því að það seldist mest til hollenskra duggara á vorin en var allur gangur á hvernig gekk að selja það í kaupstað til útflutnings. Tvígirnislesið, einnig nefnt smáles eða tvíbandales, þótti fínna og var unnið úr fínu tvinnuðu bandi. Í smálessendingum frá fyrri hluta 18. aldar er minnst á belgvettlinga, venjulega einþumla en stundum tvíþumla, fingravettlinga og fleira prjónles. Duggaralesið/eingirnislesið var þó miklu algengara. (Jón Aðils. 1971.)

VettlingatréSokkar og vettlingar voru þæfðir og notuð sérstök sokka- og vettlingatré til að móta plöggin í rétta stærð. Eitthvað af af sokkatrjám hefur varðveist hér á landi en engin vettlingatré. Myndin af vettlingatré hér til hliðar er af slíku verkfæri sem var til sölu á eBay fyrir skemmstu og sagt gamalt. Líklega hafa íslensku vettlingatrén litið einhvern veginn svoleiðis út. Vettlinga og sokka þæfðu menn yfirleitt í höndunum og skv. Niels Horrebow, sem rannsakaði lifnaðarháttu hér á landi á árunum 1749-51, var allt þæft í keytu (stæku hlandi) með miklu erfiði og á frumstæðan hátt. (Áslaug Sverrisdóttir. 2004.) Horrebow segir reyndar að Íslendingar hafi nýtt heitar lindir (hveravatn) til að þæfa enda bæði þófni hraðar og plöggin verði hvítari með því móti. Svo bætir hann við að menn þæfi stundum sokka og vettlinga með því að sitja á þeim og aka sér fram og aftur og til hliðar; þetta komist upp í vana og menn sitji því og aki sér í sætinu þótt ekkert sé prjónaplaggið undir þeim. (Horrebow, Niels. 1752.) Líklega hefur Horrebow eitthvað misskilið athæfið því vandséð er hvernig hægt er að þæfa plagg með rasskinnunum! Haft er eftir konu fæddri 1841 að tíðkast hafi að ganga þannig frá vestfirskum laufaviðarvettlingum: „Þegar vettlingarnir voru búnir, voru þeir lóaðir, þæfðir og sléttaðir með því að sitja á þeim, meðan þeir þornuðu úr þófinu.“ (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.) Kann að vera að þessi siður sé gamall og Niels Horrebow hafi séð eitthvað svipað rúmri öld áður en misskilið.

Ljóst er að prjónlesið íslenska var afar misjafnt að gæðum og var frá upphafi útflutnings talsvert kvartað undan slælegum vinnubrögðum í íslensku prjóni og reynt að setja reglur þar um. Einþumlaðir vettlingar áttu að vera hæfilega stórir, tvíþumla vettlingar (sjóvettlingar) fullstórir og vel rónir, skv. dómi um duggarasokka frá 1606. (Jón Aðils. 1972.) Sé prjónað laust á grófa prjóna má dylja það ágætlega þegar búið er að svellþæfa flíkina, eins ef prjónið er misfast. Á hinn bóginn slitnar svoleiðis prjónles miklu hraðar en fastprjónað. Líklega hafa Íslendingar ekki gætt þess að prjóna fast og jafnt og enn er verið að kvarta undan svoleiðis vinnubrögðum seint á nítjándu öld:
 
 

Það er annars eptirtektavert með tvær þessa síðast töldu vöru tegundir [þ.e. „smáband og fingravetlinga“] hvað þær hafa selst illa erlendis nú hin næstliðnu ár, og hefir kaupstjóri Gránufjelagsins fært oss heim sanninn um það, að þetta væri mest því að kenna hvað varan hefði verið illa og óvandlega unnin. Fyrir fleiri árum síðan seldust fingravetlingar og jafnvel smáband fyrir það verð að töluverð atvinna var við að vinna þessa tóvöru enda var það þá stundað af allmiklu kappi hjer á Norðurlandi, en það var meinið að ekki var jafnframt hugsað um að láta vöruna vaxa að gæðum sem vexti, heldur þvert á móti einungis hugsað um parafjöldann og hvortveggi þessar vörur voru þá ver unnar sem fleiri stunduðu það, og meira var hugsað um að spara efnið. Á þenna lítt-nýta tóskap komst svo óorð og fyrirlitning svo hann hætti að seljast, og hafa menn þannig haft það fyrir óvandvirknina, að missa, að minnst kosti í bráð þess atvinnu, sem að vísu engan veginn gat heitið arðmikil, en þó var skaði fyrir þá að missa, er ekkert annað gátu gjört sjer að atvinnu í hins stað.
(Þingeyingur. 1880.)

Prjónaðir sokkar seldust fyrir miklu hærra verð en vettlingar frá upphafi útflutnings. Sem dæmi má nefna að árið 1616 jafngiltu: 24 duggarasokkar = 72 pör vettlingar = 48 pör valdari vettlingar = 1 hundrað fiskar.  Árið 1684 jafngiltu þrjú vettlingapör einu sokkapari. (Þorkell Jóhannesson. 1943.) Samt kepptust menn við að prjóna vettlinga uns kaupmenn sögðu stopp:

Í byrjun 18 aldar fóru Íslendingar að vinna miklu meira af vetlingum en sokkum, hvernig sem á því hefur staðið, en kaupmenn voru harðóánægðir með það og fengu því ráðið, að Íslendingum var bannað að vinna meira af vetlingum en til fimtunga við sokkana, og hélzt það upp frá því.
(Jón Aðils. 1971.)

Í verðlagsskrá frá 1861 kemur vel fram að enn borgaði sig engan veginn að prjóna vettlinga til sölu, sokkar voru mun vænlegri: Fyrir sjóvettlinga fengust aðeins 8 skildingar en fyrir eingirnissokka (duggarasokka) fengust 29 1/2 skildingur, 45 skildingar fyrir tvíbandssokka. (Verðlagsskrár. 1861.)
 

Hvernig voru vettlingarnir?

Fyrir utan fátæklegar minjar sem fundist hafa, eins og vettlingana á Stóru-Borg og Bergþórshvoli sem minnst var á í upphafi, er næsta lítið vitað hvernig vettlingar hér á landi voru gegnum tíðina eða hvernig vettlinga Íslendingar seldu út. Vettlingar eru þannig flíkur að þeim var slitið upp til agna og leifar þeirra fátíðar. Þó má e.t.v sjá vísbendingar um vettlingatísku séu skoðuð gömul málverk.

Hjón � Tálknafirði um 1700Vettlingar á 17. og 18. öldÁ myndinni hér til hliðar sjást líklega heiðurshjónin Þórður Jónsson og Guðný Einarsdóttir, sem bjuggu í Stóra-Laugardal í Tálknafirði um og fyrir aldamótin 1700. Myndirnar skreyta tvo kirkjubekki sem nú eru á Þjóðminjasafni Íslands. Bæði eru þau spariklædd og Guðný húsfreyja heldur á mórauðum vettlingum „með háum svartbekkjóttum (flosuðum?) löskum í vinstri hendi.“ (Elsa E. Guðjónsson. 1994.) Smelltu á myndina til að sjá stóra mynd af vettlingum Guðnýjar.

Það er ómögulegt að sjá af máluðu myndinni hvort Guðný heldur á prjónuðum eða saumuðum vettlingum en í ljósi þess að í Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn eru varðveittir prjónaðir fingravettlingar frá sautjándu og/eða átjándu öld sem eru mjög svipaðir þessum (sjá myndina til hægri sem krækir í myndasýningu með stórum myndum af dönsku vettlingunum) og að Gunnister-vettlingarnir skosku, frá því seint á 17. öld, eru einnig svipaðir í laginu má allt eins gera því skóna að Guðný húsfreyja í Tálknafirði hafi átt prjónaða vettlinga skv. tísku þeirra tíma. Hún hefur e.t.v. ekki haft lag á að prjóna sér fingravettlinga en hefur haldið háu uppslögunum/löskunum og kannski flosað (afbrigði af því að rýja) rendurnar efst til að gera vettlingana enn fínni.

Kona � reiðfötum 1772Tæpri öld síðar eru svona vettlingar eða hanskar með háum uppslögum enn í tísku á Íslandi ef marka má málverk John Cleveley yngri frá 1772 af íslenskri konu í reiðfötum. (Sé smellt á myndina til hægri kemur upp stærri mynd af hönskunum hennar.) Cleveley var í föruneyti Joseph Banks sem heimsótti Ísland þetta ár. Reiðkonan prúðbúna á myndinni er líklega klædd saumuðum vettlingum, með útsaumuðum eða baldýruðum uppslögum og myndarlegu kögri. Ég veit ekki hversu sennilegur þessi búningur er en hún er a.m.k. í hefðbundnum sauðskinnsskóm á myndinni.

Þótt Guðný Einarsdóttir í Stóra-Laugardal hafi þurft að láta sér prjónaða vettlinga nægja var ekki svo um háttsettar konur. Í skrá yfir þá muni sem Margrét Halldórsdóttir, dáin 21. júlí 1670, kona Brynjólfs biskups Sveinssonar, lét eftir sig eru m.a. taldir upp „fernir hanzkar, einir hvítir, einir baldýraðir, einir svart-baldýraðir og einir með gullvírsborðum.“ (Jón Aðils 1971, nmgr. s. 457.) Jón Aðils segir: „[- – -] hefur hún þó víst eigi verið neitt sérlega tildursöm eða skrautgjörn“ og víst er að Brynjólfur biskup gekk sjálfur ætíð í heimaunnum vaðmálsfötum til að setja alþýðunni gott fordæmi. (Æsa Sigurjónsdóttir. 2004.) Kannski hafa hanskar Margrétar biskupsfrúar líkst eitthvað hönskum prúðbúnu reiðkonunnar sem John Cleveley málaði öld eftir lát Margrétar.

 

Íslenskir tvíþumla vettlingar

�slenskur sjóvettlingurÁ byggðasöfnum hringinn í kringum landið má sjá tvíþumla sjóvettlinga frá því seint á nítjándu öld til byrjun tuttugustu aldar. Svoleiðis vettlinga má og sjá á söfnum erlendis og oftar en ekki eru þeir sagðir íslenskir en raunar bendir margt til að aðrar þjóðir sem seldu ríkulega af prjónlesi á svipuðum markaði og Íslendingar hafi prjónað eins vettlingar, t.a.m. eru tvíþumla vettlingar meðal þess sem Jótar prjónuðu til sölu. (McGregor, Sheila. 1984.) Á Jótlandi ríkti álíka barnaþrælkun í prjóni og hérlendis og allir sem vettlingi gátu valdið prjónuðu, þæfðu og seldu. Hér má sjá sænska tvíþumla vettlinga, líklega innan við aldar gamla, og hér norska tvíþumla sjóvettlinga en myndin til hægri er af íslenskum tvíþumla vettlingi á Þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn.

Tvíþumla sjóvettlingar voru, eins og annað íslenskt prjónles, þæfðir vandlega og þurrkaðir og mótaðir á vettlingatrjám „og voru smátré sett í þumlana“. (Jónas Jónasson. 1961.) Þeir höfðu þann kost að þegar annar þumallinn slitnaði, af róðri og volki, mátti snúa vettlingnum og brúka hinn þumalinn óslitinn. Leitt hefur verið getum að því að sjóvettlingar hafi einmitt átt að vera óþarflega langir, „fullstórir“, því þá mátti brjóta endann inn í lófann til hlýinda. (Tilvitnun í Fred Hocker, starfsmann Vasa safnsins í Stokkhólmi, á vefsíðunni Ready to wear (1640s style). Þegar fiskimenn í nyrstu héruðum Noregs (Nordland og Troms) gerðu sig klára á fiskveiðar í Lofoten prjónuðu konurnar á þá sjóvettlinga út bestu ullinni, laust spunninni og lítt tvinnaðri, á grófa prjóna. Sjóvettlingarnar voru hafðir þrefalt stærri en venjulegir vettlingar því þeir áttu að fá endanlega lögun við þæfingu, annað hvort í sóda- eða sápuvatni – í fiskisúpu á stöku stað. (Nielsen, Ann Møller. 1988.) Eins og fyrr var sagt áttu íslenskir sjóvettlingar að vera vel rónir. Niels Horrebow lýsti aðferðinni þannig: „Þeir sem róa út á sjó klæðast vettlingunum, dýfa þeim öðru hvoru í hafið og þæfa þá þannig um leið og þeir róa, milli handanna og áranna – og þurfa ekkert að hafa fyrir þessu annað en að róa.“ (Horrebow, Niels. 1752.)

 

Tv�þumla vettlingur 1772Tv�þumla vettlingur 1772Ef marka má fyrri tíðar myndverk voru hvunndagsvettlingar karla almennt tvíþumla, þurfti ekki sjómenn til. Til vinstri er bútur úr málverki John Cleveley yngri af húsi og umhverfi þess við jaðar Garðahrauns 1772. Á annarri teikningu gerðri í för Banks hingað til lands 1772 sést lítil stelpa í tvíþumla vettlingi. (Báðar myndirnar krækja í stærri útgáfur.)

Tvíþumla vettlingar hafa stundum komið erlendum ferðamönnum spánskt fyrir sjónir, t.d. þessari ensku frú sem ferðaðist um Ísland laust fyrir 1890:

Þessir vettlingar […] eru gerðir eins barnsvettlingar, með þumal beggja vegna; og ef lófi vettlingsins slitnar þegar karlmaðurinn rær eða stundar aðra erfiða vinnu, snýr hann honum einfaldlega og notar hinn þumalinn. Þessir vettlingar eru venjulega prjónaðir úr grárri ull, þumlarnir hafði hvítir, og úr fjarlægð líkjast þeir kanínuhaus með löngum eyrum. (Tweedie, Alec. 1894.) 
 

P.S. Þríþumla vettlingar tíðkuðust á miðöldum í Evrópu og eitthvað lengur. Saga þeirra er rakin hér og finna má fleiri myndir á þessari síðu með leiðbeiningum fyrir miðaldahlutverkaleiki eða á teikningu Breu frá 1535-30 á British Museum. Mér vitanlega eru engar heimildir um að svoleiðis vettlingar hafi verið notaðir á Íslandi.
 
 

Um útsaumaða og útprjónaða vettlinga verður fjallað í næstu færslu.
 
 
 

Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
 

Áslaug Sverrisdóttir. Tóskapur. Ullarvinna í bændasamfélaginu. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands. 2004, s.197-203.

Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd 1985, s. 8-12.

Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.

Elsa E. Guðjónsson. Kirkjubekkir frá Stóra-Laugardal. Gersemar og þarfaþing. Úr 130 ára sögu Þjóðminjasafns Íslands. Þjóðminjasafn Íslands og Hið íslenska bókmenntafélag. 1994, s. 144-145.

Horrebow, Niels. Tilforladelige Efterretninger om Island med et nyt Landkort og 2 Aars Meteorologiske Observationer. 1752, s. 333-4. Aðgengileg á Google books og krækt í hana þar.

Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd 1973, s. 14-15.

Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir, þriðja útgáfa 1961. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. Bókin var fyrst gefin út 1934.

Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón.  Hugur og hönd 1984, s. 10-13.

McGregor, Sheila. The Complete Book of Traditional Scandinavian Knitting. B.T. Batsford Ltd., London. 1984.

Nielsen, Ann Møller. Alverdens strikning – historie og teknik. Forlaged Ariadne, Fredericia. 1988

Tweedie, Alec. A Girl’s Ride in Iceland. London. 1894, önnur útgáfa. Bókin er aðgengileg á Gutenberg.org og er krækt í hana þar.

Verðlagsskrár. Íslendingur, 8. mars 1861, s. 182.

Þorkell Jóhannesson. Ullariðnaður. Iðnsaga Íslands, síðara bindi, s. 135-153. Ritstjóri Guðmundur Finnbogason. Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. 1943.

Þingeyingur. Nokkur orð um vöruvöndun og vörumat. Norðanfari 16. júní 1880, s. 80
 
Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðnaður og tíska. Breytingar á fatnaði í ellefu aldir. Hlutavelta tímans. Menningararfur á Þjóðminjasafni. Þjóðminjasafn Íslands, 2004, s. 236-245. Greinina má einnig finna á vef Þjóðminjasafns og er krækt í hana hér.
 
 

3 Thoughts on “Íslenskir prjónaðir vettlingar

  1. Flott og fróðleg færsla eins og þín er von og vísa nafna sæl.

  2. Þú segir “Allir sem vettlingi geta valdið”. Ég hélt alltaf að það þýddi að geta haldið á vettlingi, en í þessu samhengi hérna hjá þér dettur mér í hug að það þýði að geta valdið því að prjóna vettlinga.

    Takk fyrir áhugaverða og greinagóða umfjöllun.

  3. Ég var einmitt að spöglera í orðtakinu … en það er þekkt frá því seint á 18. öld og yfirleitt skýrt sem “allir sem geta haldið á vettlingi sínum”. En það er auðvitað spurning hvort upphaflega merkingin sé tengd prjónaskap því satt best að segja geta eins árs börn haldið á sínum vettlingi og orðalagið er yfirleitt haft um eldri en eins árs, þ.e. alla sem geta gert gagn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation