Hvorki útsaumaðir né útprjónaðir vettlingar eru sérlega gömul hefð hér á Íslandi. Hér á eftir er gerð grein fyrir því helsta sem um þetta er vitað.
Ísaumaðir rósavettlingar
Jónas Jónasson segir í Íslenskum þjóðháttum: „Kvenvettlingar voru einþumlaðir, og þeir fínustu svartir með allavega litaðri rós, prjónaðri inn í handarbakið (rósavettlingar)“ og „Almennt var að konur prjónuðu rósir út í vettlinga og íleppa. Voru það ýmis blómamyndir með ýmsum litum eða þá sex- eða áttablaða rósir með ýmsum útbrotum.“ Hann er að lýsa vettlingum á 19. öld en þarna skjöplast þeim góða Jónasi: Rósirnar á vettlingunum voru ekki útprjónaðar heldur ísaumaðar enda ekki heiglum hent að prjóna út marglitt munstur á handarbakið eitt en hafa allt hitt einlitt.
Rósavettlingar eru varðveittir á Þjóðminjasafninu, byggðasöfnum og í norrænum söfnum, nokkrir frá 19. öld en flestir frá því um og eftir aldamótin 1900. Með þeim elstu er par með ísaumuðu K ThD A á annan vettlinginn, á hinn vettlinginn ártalið 1827. Þá átti Katrín Þórðardóttir í Fljótshlíð (merkingin þýðir Katrín Þórðardóttir á) en dóttir hennar bjó lengi í Vestmannaeyjum og vettlingarnir eru varðveittir á byggðasafninu þar. Munstrið er áttblaðarós á uppábrot um úlnlið, einhvers konar rósaútfærsla af áttblaðarós saumað í þumla og áttblaðarós á handarbökum. (Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. 1984.)
Myndin að ofan er af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu í Stokkhólmi (hún krækir í vefsíðu með stærri mynd). Þetta eru nokkuð dæmigerðir rósavettlingar íslenskir, með áttblaðarós inni í skreyttum tígli og uppábrotið skreyta stílfærð hreindýr. Samskonar munstur má sjá á skagfirsku rósavettlingunum sem gerð hafa verið góð skil í sérstakri bók. (Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. 2003). Fleiri myndir af íslenskum rósavettlingum á Norræna safninu sænska eru hér og hér. Auk áttblaðarósar í ýmsum myndum eru blómamyndir/blómapottsmyndir mjög vinsælar á rósavettlingum, sjá mynd af rósavettlingum á textílsafninu á Blönduósi (af síðu Hélène Magnússon, Prjónakerling). Seinna meir er farið að blanda saman útsaumi og útprjóni í sömu vettlingana, a.m.k. bendir lýsing á vettlingum sem Þjóðminjasafninu áskotnuðust 1910 til þess:
Rósavetlingar, belgvetlingar, að mestu hvítir, en í laska, totu og þumal eru prjónaðir bekkir og blóm með svörtum, grænum, rauðum og fjólubláum lit, ennfremur eru saumuð með fléttusaum blóm með ýmsum lit á handabökin.
(Matthías Þórðarson. 1911.)
Elsa E. Guðjónsson lýsir rósavettlingum í eigu Þjóðminjasafnsins svona:
Talsvert er til af íslenzkum vettlingum frá 19. öld í Þjóðminjasafni Íslands. Flestir eru þeir belgvettlingar, margir svartir með marglitaðri, fléttusaumaðri rós á handarbaki, þ.e. rósavettlingar. Nokkrir rósaðir fingravettlingar hafa einnig varðveitzt, m.a. þeir sem hér birtist mynd af (Þjms. 5029). Eru þeir hvítir með aðallega rauðum, en einnig svolitlum fjólubláum ísaumi.
(Elsa E. Guðjónson. 1962.)
Saumað var út í vettlingana með „gamla krosssaumnum“, þ.e. fléttusaumi. Sem fyrr segir er ekki vitað hve gömul rósavettlingahefðin er en auk þess að vita af elstu vettlingunum (að talið er) sem ársettir eru 1827 má benda á heimildir eins og bút úr þessu málverki eftir Auguste Mayer (sem var í föruneyti Paul Gaimard 1836) af heimilisfólki utan við bæinn á Hnappavöllum. Litla myndin krækir í stærri mynd og er engum blöðum um það að fletta að konurnar á myndinni eru íklæddar rósavettlingum. Sömuleiðis má benda á klausu í Grasaferð Jónasar Hallgrímssonar en sagan er talin skrifuð 1835-36. Þar segir um systurina góðu: „Það leið ekki á löngu fyrr en systir mín kom með samanbrotinn tínupoka og snjóhvíta rósavettlinga á höndunum [- – – ].“
Norðmenn virðast líka hafa saumað rósavettlinga sem eru keimlíkir hinum íslensku, ef marka má myndir á Digitalmuseum.no. Því miður eru engar upplýsingar um hversu gamlir þessir vettlingar eru en má giska á að þeir séu allir af Mæri eða úr Romsdal. Sjá dæmi hér, hér og hér.
Ef einhvern langar til að prjóna og sauma út rósavettlinga bendi ég á skemmtilegt viðtal með myndum, í Morgunblaðinu 6. desember 2005, við Helgu Þórðardóttur á Mælifellsá í Skagafirði, sem prjónar og hannar svona vettlinga, og uppskrift eftir Ingibjörgu Ólafsdóttur á síðunni Prjónakerling. Loks má nefna uppteiknað mynstur Elsu E. Guðjónsson af rósavettlingi í eigu Þjóðminjasafnsins í Húsfreyjunni 2. tbl. 1962 og annað mynstur í bókinni Íslenskur útsaumur eftir Elsu (sjónablað XIX, s. 91). Og ef menn treysta sér ekki til að sauma munstur með fléttusaumi má benda á að annars konar spor ætti að vera í góðu lagi, a.m.k. saumuðu skagfirskar konur í vettlinga með lykkjuspori árið 1918. (Margrjet Símonardóttir. 1918.)
Útprjónaðir vettlingar/tvíbandaprjónaðir vettlingar
Afar lítið hefur varðveist af íslensku útprjóni fyrr en kemur fram á seinni hluta 19. aldar. Það sem hefur fundist eldra er ofurlítil pjatla sem talin er frá 18. öld, mögulega frá 17. öld, og ekki er vitað úr hvers konar flík hún er. Pjatlan fannst í fornleifauppgreftri í Reykholti í Borgarfirði. Að sögn Elsu E. Guðjónsson sést á þessari prjónlespjötlu „tvíbanda bekkur í tveimur, litum […] en ofan og neðan við bekkinn leifar af einlitum, gráleitum grunni með sléttu prjóni.“ Af svarthvítri mynd sem fylgir grein Elsu má ráða að munstrið sé einfaldir samtengdir tíglar, Elsa segir síðan að „reitamunstur sömu gerðar og er á bekknum má sjá í sjónabókarhandriti frá 17. öld í eigu Þjóðminjasafnsins.“ (Elsa. E. Guðjónsson. 1992.) En raunar þarf ekki uppteiknað mynstur til að prjóna svo einfalt munstur svo tengingin við sjónabókarhandritið er líklega tilviljun sem engu skiptir.
Í Íslenzkum þjóðháttum, sem ætla má að lýsi því sem tíðkaðist á 19. öld, segir: „Tvíbandssparivettlingar tilhaldsstúlkna [voru] oft svart- eða rauðtíglóttir, 3 lykkjur í tígli og 3 umferðir, svo breytt um.“ (Jónas Jónasson. 1961, nmgr. s. 17.) Í sama riti segir og: „Annars konar útprjón [en ísaumaðir rósavettlingar sem Jónas telur ranglega að hafi verið prjónaðir] mun ekki hafa tíðkazt, nema stundum voru prjónaðir tvíbandaðir vettlingar með tveimur litum og voru þeir þá annaðhvort röndóttir eða tíglóttir.“ Í Norræna safninu í Stokkhólmi eru varðveittir íslenskir tíglóttir vettlingar frá 19. öld, sjá mynd hér til hliðar (sem krækir í síðu með stærri mynd). Þeir eru tvíþumla og óvíst hvort átti þá karl eða kona (konur notuðu líka tvíþumla vettlinga). Mér sýnist tíglamunstrið á þessum vettlingum vera alveg nákvæmlega eins og á litlu pjötlunni sem fannst í Reykholti og er elsta dæmi um íslenskt útprjón (sjá hér að ofan).
Fljótlega eftir aldamótin 1900 var orðið algengt á Vestfjörðum að prjóna vettlinga með litskrúðugum tvíbanda bekkjum. Svona vettlingar ganga núna undir nafninu vestfirskir laufaviðarvettlingar. Ekki er vitað hvenær þetta útprjón hófst og óvíst hvort rekja megi það lengra en til seinni hluta 19. aldar. Útprjónuðu bekkirnir eru með laufaviðarmunstri, eins og nafnið bendir til, fuglamunstri (dúfnastreng) o.fl. (Elsa E. Guðjónsson. 1985.) Vestfirskir laufaviðarvettlingar voru prjónaðir á fína prjóna, líklega nr. 1 ½, úr fínu tvinnuðu bandi úr góðu þeli. (Jóhanna Kristjánsdóttir. 1973.)
Á myndinni sést minn eigin laufaviðarvettlingur (litla myndin krækir í stærri mynd). Fitjaðar eru upp 80 lykkjur og aukið út í 84 lykkjur eftir að úlnlið sleppir. Vettlingarnir voru keyptir á handverksmarkaði í Hólmavík fyrir mörgum árum og satt best að segja held ég að þeir séu prjónaðir í vél (af því úlnliðsstykkið er prjónað fram og til baka og síðan saumað saman). Hafi einhver áhuga á að prjóna sér laufaviðarvettlinga bendi ég á grein, uppskrift og mynstur sem birtust í Vikunni 17. apríl 1980, Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Á vef Þjóðminjasafnsins má sjá stóra mynd af tvennum vettlingum, aðrir eru laufaviðarvettlingar, en hvorir tveggja eru nýir að sjá.
Heimildir aðrar en vefsíður sem krækt er í:
Elsa E. Guðjóndsson. Rósavettlingar. Húsfreyjan. 1. apríl 1962, síða 25-27.
Elsa E. Guðjónsson: Um prjón á Íslandi. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands 1985, s. 8-12.
Elsa E. Guðjónsson. Íslenskur útsaumur. Veröld. 1985.
Elsa E. Guðjónsson. Fágæti úr fylgsnum jarðar. Skírnir.Tímarit hins íslenska bókmenntafélags. 166:1, vor 1992, s. 7-40.
Elísabet Steinunn Jóhannsdóttir. Skagfirskir rósavettlingar. Gefin út af höfundi 2003.
HANDVERK | Skagfirskir vettlingar á handverkssýningu. Blómum prýddir rósavettlingar. Morgunblaðið 6. desember 2005. Hér er krækt í greinina á mbl.is.
Jóhanna Kristjánsdóttir. Vestfirzkir laufaviðarvettlingar. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands. 1973, s. 14-15.
Jónas Hallgrímsson. Grasaferð. Jónas Hallgrímsson. Ritsafn. Helgafell. Fjórða útgáfa 1971.
Jónas Jónasson frá Hrafnagili. Íslenzkir þjóðhættir. Ísafoldarprentsmiðja. Þriðja útgáfa 1961. Bókin var fyrst gefin út 1934.
Margrjet Símonardóttir. Heimilisiðnaður. Iðnfjelag Viðvíkurhrepps í Skagafirði. Hlín. Ársrit Sambandsfjelags norðlenskra kvenna II, 1. tölublað 01.01.1918 [Ath. að tölublað og dagsetning hlýtur að vera rangt því greinin er dagsett 10. ágúst 1918], bls. 26-28.
Matthías Þórðarson. Skýrsla um viðbót við Þjóðmenjasafnið árið 1910. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1911, bls. 70-98.
Sara Bertha Þorsteinsdóttir og Valgerður Kristín Sigurðardóttir. Prjón. Hugur og hönd. Rit Heimilisiðnaðarfélags Íslands1984, s. 10-13
Vestfirskir laufaviðarvettlingar. Vikan 17.04. 1980, bls. 28-29. (Þetta er endurbirtur stór hluti greinar eftir Jóhönnu Kristjánsdóttur í Hugi og hönd 1973.)
Hæ Harpa –
Takk fyrir skemmtilegt og fróðlegt blogg! Mig langar til að nota rósavettlingamyndina sem þú sýnir hérna, hluta af mynd eftir Auguste Mayer – en ég finn hvergi myndina sem þetta er klippt úr? Geturðu bent mér á hana?
Bestu kveðjur
Dagný