Upphaf geðlækninga á Íslandi

Forsagan

Talsvert hefur verið gert úr illum aðbúnaði geðsjúkra hérlendis áður en Kleppur var stofnaður og þá jafnan bent á tvær heimildir, annars vegar heilbrigðisskýrslu Þorgríms Johnsen héraðslæknis, sem hann skrifaði 1872 og sendi heilbrigðisyfirvöldum í Danmerku, hins vegar skrif Christians Schierbeck frá 1901, dansks læknis sem hafði áhuga á að koma geðveikrahæli á fót á Íslandi. Báðir nefna þeir að „slegið sé utan um” brjálaða sjúklinga og þeir geymdir í einhvers konar búrum eða fjötraðir, jafnvel í útihúsum. Mér vitanlega eru ekki aðrar heimildir um þessa meðferð og engin slík búr hafa fundist hérlendis. Þar fyrir utan getur þetta vel verið satt og rétt. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að í íslenska bændasamfélaginu (samfélagsgerð sem var ríkjandi langt fram eftir tuttugustu öld) þekkjast mörg dæmi um að farið hafi verið illa með þá sem ekki gátu unnið, þurfti ekki geðveiki til. Í neyð hefur sjálfsagt þurft að fjötra óða menn með einhverjum hætti og þarf ekki að hafa verið af illsku.

Á nítjándu öld var einn Íslendingur sérmenntaður í geðlæknisfræðum (þess tíma), nefnilega Jón Hjaltalín (1807-1882). Hann starfaði þó ekkert að slíkum lækningum hérlendis svo vitað sé. Eitthvað var um að geðsjúkir væru sendir utan, a.m.k. þeir sem gátu greitt fyrir sig. Sem dæmi má nefna Gunnlaug Blöndal, fyrrum sýslumann í Barðastrandarsýslu, sem dó á geðveikraspítala í Vordingborg árið 1884 (Ísland var á upptökusvæði þess spítala). Ein rök Schierbeck fyrir að reisa geðveikrahæli á Íslandi voru einmitt hve dýrt væri að greiða fyrir uppihald geðsjúkra á dönskum hælum (kostnaðurinn var mismunandi því dönsku geðveikrahælin voru stéttskipt, þ.e.a.s. aðbúnaður var misjafn eftir því hve mikið var greitt fyrir sjúklinginn).

Um fjölda geðsjúkra á landinu fyrir og eftir stofnun Klepps segir í endursögn á Skýrslum [Guðmundar Björnssonar landlæknis] um heilsufar og heilbrigðismálefni á Íslandi 1907 og 1908:
 

Geðveiki virðist fara vaxandi. Árið 1887 voru 81, en 1901 133 geðveikir menn á landinu. Skýrslur eru ekki til frá seinni árum Á Kleppi voru rúmlega 60 sjúklingar við hvor árslok, 1907 og 1908. Hér á landi er geðveiki miklu algengari í konum en körlum 97:36 árið 1901. I öðrum löndum er hún álíka algeng í körlum og konum. Ekki getur landlæknir um af hverju það muni stafa, en ætli það eigi ekki töluvert rót sína að rekja til þess, að sjúkdómar, sem orsakast af stöðugri áfengisnautn, eru hér sjaldgæfir, í samanburði við önnur lönd, og við þeim sjúkdómum er karlmönnum míklu hættara en konum?
    Brennivínsæði fengu 21 maður 1907 en 18 1908.

 Kleppur og Þórður Sveinsson

Árið 1905 var ákveðið að reisa sérstakan geðveikraspítala, Klepp, og var hann opnaður vorið 1907. Á fyrstu þremur árunum sem spítalinn starfaði voru lagðir inn 118 sjúklingar en eftir það einungis fáir á ári því spítalinn var meira og minna fullur af langveiku fólki. Samkvæmt blaðafregnum frá 1910 hefur verið pláss fyrir rúmlega 60 sjúklinga á Kleppi.

Þegar hyllti undir að Kleppur tæki til starfa var Þórður Sveinsson sendur utan til að kynna sér geðlækningar. Þórður var bóndasonur úr Húnavatnssýslu, fæddur 1874. Hann var illa haldinn af berklum sem barn og heldur pasturslítill, ólst upp við kröpp kjör og var talsvert eldri en skólabræður hans þegar hann útskrifaðist úr læknadeild háskólans vorið 1905. Kann að vera að áhrifamiklir sveitungar hans, Guðmundur Björnsson landlæknir og Guðmundur Magnússon prófessor í læknisfræði, hafi séð í honum mann sem ekki var líklegur til að höndla erfitt embætti héraðslæknis en gæti orðið frambærilegur yfirlæknir á hefðbundnu geðveikrahæli uppi í sveit, a.m.k. handvöldu þeir Þórð sem fyrsta yfirlækni á Kleppi og beittu sér fyrir því að hann kæmist til Danmerkur (og síðar Þýskalands) til að kynna sér geðlækningar í rúmt ár. Í Danmörku lærði Þórður hjá Alexander Friedenreich,  sótti líklega fyrirlestra Knuds Pontoppidan og setti sig inn í strauma og stefnur í dönskum geðlækningum þessa tíma (sjá nánar um þetta færsluna Geðlæknismeðferð í Danmörku 1850-1920). Svo fór hann til Þýskalands og naut þar handleiðslu Emils Kraepelin. Ætla má að Þórður hafi verið vel læs á dönsku og þýsku og hafi því einkum byggt kunnáttu sína í geðlæknisfræðum á ritum þessara dönsku og þýsku geðlækna, einkum Kortfattet, speciel Psykiatri eftir Friedenreich, (útg. 1901) og Psychiatrie: Ein Lehrbuch für Studirende und Aerzte eftir Kraepelin (fyrsta bindi útg. 1899, sjá fleiri bækur Kraepelin hér.) Sömuleiðis má ætla að hann hafi fylgst með skrifum danskra geðlækna í fagritinu Ugeskrift for Læger og e.t.v. lesið bækur um geðlækningar á dönsku og þýsku á starfsævi sinni.

Óttar Guðmundsson segir í bók sinni Kleppur í 100 ár að þýsk áhrif hafi sett mark sitt á meðferð Þórðar. En danskir geðlæknar voru undir miklum áhrifum af fræðum Kraepelin og fleiri Þjóðverja svo það er líklega erfitt að greina hvað Þórður tíndi upp í Danmörku og hvað í Þýskalandi.
 

Læknismeðferð Þórðar Sveinssonar

Fyrst eftir að Kleppur tók til starfa fór fáum sögum af starfsemi þar, ef frá eru taldar fréttir af tveimur sjálfsvígum (og meðfylgjandi gagnrýni um að fólks væri ekki nægilega vel gætt á spítalanum) og gróusögur um að yfirhjúkrunarkonan væri vond við sjúklingana og misþyrmdi þeim (sjá yfirlýsingu Þórðar og annars starfsfólks gegn þessum orðrómi, 1910).

Óttar Guðmundsson segir í Kleppi í 100 ár að flestir sjúklinganna sem lagðir voru inn 1907 og 1908 hafi greindir með annað hvort geðklofa eða geðhvarfasýki en aðrar greiningar hafi verið kvíðagreiningar, flogaveiki, móðursýki og alkóhólismi. Þórður Sveinsson segist aldrei hafa haft sjúkling með dementia paralytica (geðveiki af völdum sýfilis – stundum eru slíkir sjúklingar taldir hafa verið um 10% geðsjúklinga á dönskum geðveikrahælum á nítjándu öld og fram undir lok síðari heimstyrjaldar, þegar pensillín komst í notkun og læknaði sýfilis). Margir sjúklinganna höfðu verið veikir árum saman og von um bata var lítil. Í bók Óttars kemur margoft fram að Þórður hafi haft litla trú á lyflækningum og notað lyf lítið. Óttar vísar ekki neinar heimildir fyrir þessu en hlýtur að byggja á einhverjum lyfjakaupalistum því sjúkraskrár voru í miklum ólestri á tímum Þórðar og finnast ekki nema slitur af slíkum nú. Þórður úttalar sig um lyfjagjöf í fyrirlestri sem hann flutti í Læknafélagi Reykjavíkur 11. desember 1922 (en vakin er athygli á að þarna er hann að líta yfir fimmtán ára farinn veg og kann að vera að þessar hafi ekki verið skoðanir hans í upphafi):
 

Eins og áður er tekið fram, þá er það viljinn, er veiklast eða lamast í geðveikinni. Og það er sama hvort hún er hrein geðveiki eða móðursýki. Þar af leiðir, að öll deyfandi meðöl eru eitur öllum geðveikum sjúklingum. Þau verða beinlínis til þess, að ýta undir hinar sjúku ímyndanir sjúklingsins. Narcotica lama viljann, og er það á allra vitorði. Hugurinn beinist að veikinni, sem hann þarf sífelt að vera að stríða við með hinum og þessum svæfandi meðulum. Viljamagnið verður að þoka fyrir meðalatrúnni. Þess vegna nota ég aldrei deyfandi meðul við slíka sjúklinga.

Um sumt byggði Þórður þó á viðurkenndri geðlæknisfræði í upphafi tuttugustu aldar, t.d. „vinnulækningu“, þ.e.a.s. sjúklingar unnu við stórbúið á Kleppi, eigin fatagerð o.þ.h.  Hann var sammála dönskum geðlæknum um að „no restraint“ meðferð væri óframkvæmanleg og lét loka óða sjúklinga í einangrunarklefum uns bráði af þeim. Þessir klefar, sellurnar, voru innréttaðir þannig að sjúklingurinn gæti ekki skaðað sig, t.d. var ekki rúmstæði í þeim heldur einungis fleti, gluggar upp undir loft og vírnet fyrir þeim.  Þórður var alveg sammála kenningum lærifeðra sinna danskra og þýskra um arfgengi geðsjúkdóma og þá einkum arfgenga úrkynjun ef marka má blaðagreinar hans Geðveiki – áfengi – úrkynjun (júní 1907) og Fábjánar – áfengi (júlí 1907). Honum hugnaðist og meðferð með böðum svo sem tíðkaðist í Danmörku og Þýskalandi þegar hann lærði þar, en ólíkt dönskum kollegum sínum hélt hann sig eindregið við þá aðferð allt til starfsloka 1939.

Ef marka má kersknislega smá„frétt“ frá 1909 hefur áhersla á baðmeðferð, jafnt heit sem köld böð, verið lögð frá upphafi enda í fullu samræmi við viðteknar lækningaðferðir þá í Danmörku og Þýskalandi. Í „fréttinni“ er þetta reyndar talin refsing en ekki læknisaðferð, því talað er um „hegningar-bað (líklega líkt og er á Kleppi, þar sem það er haft til refsingar á óþæga vitfirringa að kasta þeim allsnöktum í kalt bað og halda þeim nauðugum niðri í því unz þeir sefast)“. Í riti sínu Vatnslækningar, útg. 1923, segir Þórður um þetta (á s. 18-19):
 

Jeg hef kaffært menn, það er alveg satt. Jeg hef gert það stöku sinnum, þegar jeg hefi talið það alveg sjálfsagt að reyna, hvort ekki væri unt að gera gagn með því, enda er reynsla fyrir því, að geðveikir menn hafi læknast af skyndilegum áhrifum. Einstöku sinnum hefir það gert mikið gagn að bregða sjúklingi ofan í baðker með köldu vatni. Eina konu hefi jeg gert alheilbrigða með einni dýfu; hún hafði legið rúmföst í tvö ár. Þrem vikum eftir kaffæringuna var hún orðin þvottakona á Kleppi og hefir verið alfrísk síðan.

Svo virðist sem Þórður hafi snemma ákveðið að byggja á „klínískri reynslu“ í meðhöndlun geðsjúkra fremur en því sem viðtekið var í fræðunum sem hann nam. Með tilraunum og af reynslu sinni útfærði Þórður vatnslækningarnar frá böðum til innvortis vatnslækninga. Hann segir (í ritinu Vatnslækningar, s. 3-5):
 

Af tilviljun rakst jeg, fyrir rúmum 12 árum, á lækningu við geðveiki, sem jeg rak strax augun í, að bar fljótari árangur heldur en þær aðferðir, sem jeg áður hafði átt að venjast við sumar tegundir geðveiki. Það vildi svo til haustið 1910: Jeg hafði á Kleppi geðveika konu, sem þá var búin að vera þar í nærri 3 ár. Geðveiki hennar lýsti sjer í því, að hún fjekk köst, sem stóðu yfir frá 6 vikum upp í hálft ár, og var hún með köflum alveg æðisgengin. [- – -] En það var einkennilegt við þennan sjúkling, að hann var altaf horaður, þegar köstin endurðu, hvernig sem með hann var farið. Þá datt mjer í hug að reyna, hvort ekki væri hægt að stytta köstin með því að svelta sjúklinginn, úr því að hann varð altaf horaður áður en honum batnaði, og að reyna að láta hann einungis hafa vatnskost. [- – -] Sjúklingnum var svo sagt frá því, að nú fengi hann ekkert annað en heitt vatn, engan mat, til þess að vita, hvort kastið yrði ekki styttra. Svo var þetta gert […] og kastið byrjaði. en það komst aldrei á verulega hátt stig, varð verst á 7.-8. degi. Á 10. degi var hann orðinn svo rólegur og skynsamur, að jeg áleit, að ekki þyrfti lengur að svelta hann. Það kastið var búið.

Í sama riti segist Þórður einungis nota vatnskost við geðveiki á byrjunarstigi enda sé áreiðanlega auðveldast að lækna geðveiki í byrjun. „Við menn, sem lengi eru búnir að vera geðveikir, reyni ég yfirleitt ekki vatnskostinn, nema í því skyni að draga úr æðisköstum“, segir hann (s. 7). Vatnið á að vera „álíka heitt og kaffi, sem menn drekka heitast“ (s. 17) og skv. lýsingu Þórðar á að drekka 2-3 lítra á dag, þótt hann viti dæmi af manni sem drakk 19 lítra af heitu vatni á 12 klukkustundum (s. 37).

Þórður sagði frá tilraunum sínum um vatnsdrykkju við geðveiki í fyrirlestri í Læknafélagi Reykjavíkur þann 11. desember 1922. Þar byrjar hann mál sitt á að staðhæfa að geðveikir menn fái miklu síður umgangspestir en aðrir. Veikist þeir af öðrum sjúkdómi en geðveiki þjáist þeir „að jafnaði mjög lítið.“ Einnig beri oft við að vitskertir sjúklingar fái ráð sitt og rænu rétt fyrir andlátið. Þetta telur Þórður stafa af starfsemi undirvitundarinnar „er verður með einhverjum hætti þess valdandi, að þetta hvorttveggja, næmleiki fyrir farsóttum og dauðinn eða andlátið, verður öðru vísi með geðveikum mönnum en hinum, sem ekki eru geðveikir.“ Þórði datt því í hug „að hafa áhrif á undirvitundina með föstu og hreinum vatnskosti“ og fór að gera tilraunir með það. Niðurstaða tilraunanna er þessi:
 

Reynsla mín er sú, að hreinn vatnskostur sé sú lækningaraðferð, er virðist fljótast lækna ýmis konar psychosur og geðveiki. Batinn kemur á mjög svipuðum tíma, hvernig sem geðveikinni er háttað og tíminn er tíu, fjórtán og upp að tuttugu dögum. Geðveikin hefir verið af þessum venjulegu flokkum; exaltationes, phobiur, depressivar og paranoiskar hystero-neurastheníur. [- – -] Vatnskosturinn kemur í stað sedatíva, sem annars eru notuð.

Þórður útskýrir hvernig sum tegund geðveiki („depression eða hræðslu-geðbilun“) lýsir sér í því að sjúklingurinn er fastur í óæskilegu hugsanamynstri og þrátt fyrir viljastyrk sjúklings og fortölur annarra geti slíkur sjúklingur „ekki um annað hugsað en sínar eigin ímyndanir. Og allar eru þær honum til meiri og minni kvalar.“ En sé svoleiðis sjúklingur sveltur, þ.e. látinn lifa á vatni einu saman, beinist hugurinn að föstunni og hverfur frá meinlokunum. „Viljinn vaknar og taumarnir dragast úr höndum ímyndunarlífsins“ eftir því sem hungurtilfinningin eykst. Sjúklingurinn fer að líta á meðferðina sem „mikla hjálp og heilsubótarmeðal og þá er autosuggestionin komin í það horf, sem hún á að komast. Hann telur sér trú um, að honum batni, er hann kemst á vatnskost, eins og líka er.“ Í lok fyrirlestrarins nefnir Þórður að sólarljós hafi, skv. sinni reynslu, mjög góð áhrif á geðveika menn. Lægju menn naktir í sólbaði eins og berklasjúklingar hefði það eflaust góð áhrif en því miður er geðsjúklingum mjög á móti skapi að gera það.
 

Undir lok starfsferils síns sem yfirlæknir á Kleppi var Þórður enn að þróa kenningu sína um vatnsdrykkju sem meðal við geðsjúkdómum og gagnsemi baða við ýmsum krankleik. Hann var kominn á þá skoðun að truflun í svitakirtlum ylli geðveiki. Í viðtali í Alþýðublaðinu í janúar 1940 vitnar hann í Jón Steingrímsson, eldklerkinn fræga, sem segi á einum stað í ævisögu sinni: „Þegar ég missti svitann, fór mér að líða ver“ og Þórður segist í starfi sínu hafi tekið eftir að „geðveikissjúklingar svitna aldrei“. Hann fór því að reyna koma svitanum út á sjúklingunum með ýmsum ráðum. Það sem virkaði best var að setja þá í 45° heitt bað í 20-60 mínútur og hafa þá vafða í umbúðir áfram eftir baðið, segir Þórður í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu vorið 1939. Þá hækki líkamshiti sjúklinga í  41.5°- 42°, hefur hæstur mælst 42.6° í tilraunum hans. Þórður tekur fram að ekki megi setja sjúkling í svona bað „nema með tóman maga og nýútskoluðu rectum.“ Hann staðhæfir í viðtalinu að tveir geðklofasjúklingar hafi orðið albata með þessari aðferð:
 

Annar er 26 ára gamall, var búinn að vera veikur í 10 ár, en hjer í 5 ár. Veiki hans var schizophrenia simplex. Hann fekk 15 böð alls. Þykir mjer það sjálfum ótrúlega Iítið. En maðurinn er prýðilega greindur og get jeg mjer til, að það og persónuleiki hans hafi hjer ráðið nokkru um. Hinn er um þrítugt. Búinn að vera geðveikur í 3—4 ár  […] Hann var með schizophrenia paranoides (ofsóknargeðveiki). Hann fekk um 40 böð og er nú heilbrigður og fer brátt heim til sín. Síðustu dagana stjórnaði hann sjer sjálfur í baðinu, og svitinn hefir streymt af honum eins og hverjum öðrum heilbrigðum manni.

Samkvæmt Þórði virðast sjúklingarnir ekkert alltaf hafa verið áfram um að fara í baðið holla en með því að reifa þá eins og tíðkaðist við ungabörn, svo þeir geti sig ekki hrært, er það vandamál úr sögunni. Í Morgunblaðsviðtalinu 1939 lýsir hann þessu svona:
 

En það er vissara með alla geðveikisjúklinga að leggja þá í umbúðir strax. — Hendurnar eru lagðar niður með síðunum, og laki vafið utan um þá. Síðan er strigi látinn utan yfir og bundinn, svo að sjúklingarnir geti ekki losað sig. Eftir baðið eru þeir látnir í þurt eða rakt lak, þar utan yfir er ullarábreiðu vafið og loks striga. Hendurnar eru fyrst lagðar niður með hliðunum, eins og fyr, og sjúklingarnir látnir í rúm sitt. Þá halda þeir áfram að svitna um allan líkamann.

Þessa svitameðferð taldi Þórður sína eigin uppgötvun og hana merka (líkt og sveltikúrana áður) en birti aldrei neinar vísindagreinar um hana.
 
 
 Gagnrýni á læknisaðferðir Þórðar Sveinssonar

Í spænsku veikinni 1918 vann Þórður sem almennur læknir en beitti sömu aðferðum á þá sem veiktust af þessari alvarlegu inflúensu og hann beitti á sjúklinga sína á Kleppi, nefnilega vatnsdrykkju og svelti. Aðrir læknar klöguðu hann fyrir Guðmundi Björnssyni landlækni en landlæknir hélt hlífiskildi yfir Þórði.

Þann 9. mars 1923 birtist greinin Geðveikrahælið á Kleppi í Alþýðublaðinu og vakti mikla athygli. Greinina skrifaði Guðfinna Eydal og í henni lýsir hún reynslu sinni af dvöl á Kleppi frá því síðsumars 1919 til haustsins 1920. Guðfinna segist hafa kynnt sér sambærilegar stofnanir í Danmörku, Englandi, Þýskalandi og víðar og að hvergi séu notaðar eins ómannúðlegar aðferðir og á Kleppi:
 

Ég hika ekki við að segja, að  meðferð á sjúklingum á Kleppi  er andstyggileg, og gæti ég  komið með mörg dæmi því til sönnunar úr daglega lífinu á  Kleppi þessa 15 mánuði, er ég var þar sjúklingur. Einna hrottalegastar fundust mér kaffæringarnar. Menn álíta nú máske, að þær séu lækningatilraun, en svo er ekki ætíð að minsta kosti. Þær eru blátt áfram refsing á sjúklingana fyrir ýmsar yfirsjónir […] [sjúklingurinn er] miskunnarlaust keyrður á kaf ofan í baðker, sem áður er hálffylt með ísköldu vatni. Það er ekki látið nægja að dýfa sjúklingunum í eitt skifti, heldur hvað eftir annað og er þeim haldið niðri í því, þar til þeir eru komnir að köfnun […]

Síðan nefnir Guðfinna sveltið sem hún telur að hafi dregið nokkra sjúklinga til dauða enda séu menn látnir svelta í alltof langan tíma. Hún slær varnagla um að svelti geti verið gild lækningaðferð: „Það má vel vera, að nokkurra daga svelta í ýmsum geðveikitilfellum geti verið heilsusamleg; ég skal ekkert um það fullyrða. En að læknirinn hafi leyfi til að svelta sjúklinga sína svo að segja takmarkalaust, — það get ég ekki skilið.“ Guðfinna rekur svo þrjár sorgarsögur af illri meðferð sjúklinga á þeim tíma sem hún lá á Kleppi og lýkur máli sínu þannig: „Mér finst, að læknir á geðveikrahæli þurfi að vera lýsandi stjarna í myrkri þessara vesalinga, en ekki hræða.“

Sjálfsagt hefur Guðfinnu verið kunnugt um skrif Amalie Skram gegn geðlækninum Knud Pontoppidan laust fyrir aldamótin 1900 og talið vænlegt til árangurs að birta gagnrýni sína opinberlega. Þórður Sveinsson brást og eins við og Knud Pontoppidan: Hélt fyrirlestur sér til varnar og gaf síðan fyrirlesturinn út (bæklinginn Vatnslækningar). En ólíku er þó saman að jafna: Guðfinna Eydal var ekki velþekkt skáldkona heldur húsfreyja á Akureyri. Og Þórður Sveinsson fór með sigur af hólmi og var talsvert skrifað honum til varnar.

Í maí 1923 birti Guðmundur Þorkelsson, sem starfað hafði sem hjúkrunarmaður á Kleppi undanfarna 20 mánuði, „Opið brjef til ríkisstjórnarinnar” í tímaritinu Stefnunni. Í bréfinu óskar hann eftir því að stjórnarráðið rannsaki ástandið á Kleppi því „lækningaaðferðir og framkoma læknisins gagnvart sjúklingunum er svo gjörólík því, er ég sem hjúkrunarmaður á geðveikrahælum erlendis hef vanizt um fult 7 ára bil“. Guðmundur hafði, skv. meðfylgjandi vottorðum, starfað á ýmsum geðveikrahælum í Noregi. Hann virðist hafa gert sér ágæta grein fyrir samtryggingu lækna á Íslandi því hann óskar, í bréfinu, eftir því að útlendur geðlæknir verði fenginn til að taka út læknismeðferð á Kleppi. Engar heimildir eru fyrir því að opinber yfirvöld hafi rannsakað læknismeðferð Þórðar á Kleppi í kjölfarið á þessu opinberlega birta bréfi.
 
 

Niðurlag

Annað hvort hefur Þórður Sveinsson ekki tekið sérlega vel eftir í sínu sérfræðinámi í Danmörku og Þýskalandi eða ekki haft mikla trú á þeim geðlækningaðferðum sem þar voru praktíseraðar, nema böðunum. Hann virðist og ekki hafa fylgst með þróun geðlækninga í þessum löndum heldur snemma hafa tekið þann pólinn í hæðina að gera eigin tilraunir á sjúklingum sínum og þróa eigin aðferðir. Þær minna að sumu leyti á geðlækningaaðferðir fyrir miðja nítjándu öld, að sumu leyti á nýmóðins detox meðferð.

Stundum hefur verið bent á áhuga Þórðar á spíritisma sem skýringu á þessum aðferðum, að hann hafi reynt að svelta illa anda úr sjúklingunum, en í opinberri vörn sinni fyrir lækningaðferðunum minnist hann vitaskuld ekkert á slíkt. Hitt er og víst að Þórður var algerlega trúlaus, raunar svarinn andstæðingur kirkjunnar, en eindreginn spíritisti, fór m.a. sálförum um víða veröld. Þótt ekki væri Þórður trúaður á spíritisma á námsári sínu í Danmörku hefur honum sjálfsagt verið fullkunnugt um að helstu framámenn í geðlækningum þar tóku virkan þátt í danska sálarrannsóknarfélaginu, enda töldu menn sálarrannsóknir vísindalegar á þessum tíma. Þátttaka í stofnun íslenska sálarrannsóknafélagsins 1918 og virk þátttaka í því hefur því líklega, í augum Þórðar, ágætlega samrýmst starfi hans sem eina geðlæknis landsins.

Í snarpri ritdeilu Þórðar og Ágústs H. Bjarnasonar prófessors, sem gaf út þýðingu sína á ritinu Geðveikin árið 1920, kemur fram að Þórður hafði enga trú á sállækningum í anda Freud. Samt greip hann til hugtaka úr þeirri smiðju í vörn sinni fyrir sveltimeðferðinni, þ.e.a.s. útlistar áhrif undirmeðvitundarinnar á geðveiki.

Kannski mætti segja að viðhorf og vörn Þórðar fyrir sínum lækningaaðferðum kristallist í orðum hans: „Hvernig stendur á því, að jeg má ekki reyna að hjálpa að hjálpa veikum mönnum með þeim aðferðum, sem jeg álít sjálfur, að sjeu betri heldur en aðrar?“ (s. 24 í Vatnslækningar.) Í í rauninni má segja að þetta viðhorf sé enn ríkjandi í geðlækningum, hérlendis sem erlendis. Geðlæknar hampa „klínískri reynslu“ til að rökstyðja lyfjagjöf sem engar vísindalegar rannsóknir styðja, t.d. svokallaðra „off label“ lyfja við ýmsum geðsjúkdómum (ekki hvað síst þunglyndi), eða raflækningar sem enn er umdeilt hvort séu til gagns eða skaða. Þeir nota sem sagt gjarna það sem þeir álíta sjálfir að sé betri aðferðir en aðrar, alveg eins og Þórður Sveinsson gerði. Munurinn liggur helst í því að læknisaðferðir Þórðar Sveinssonar, ógeðfelldar og kukl-kenndar sem þær kunna að þykja nútímamönnum, voru mun ólíklegri til að valda sjúklingum varanlegum skaða en þær lyfjagjafir sem lærifeður hans beittu, svo ekki sé minnst á seinni tíma geðlækningaaðferðir, aðferðir nútímageðlækna þar ekki undanskildar.
 
 
 
 
 
 

Heimildir, auk efnis sem krækt er í úr færslunni:
 
 

Guðmundur Þorkelsson. Opið brjef til ríkisstjórnarinnar. Stefnan, maí 1923. 

Hildigunnur Hjálmarsdóttir. Danska frúin á Kleppi. Bréf Ellenar Kaaber Sveinsson. Skrudda, 2007.

Jóhannes Bergsveinsson. Um Þórð Sveinsson og upphaf Kleppsspítala. Læknablaðið 2007/93, s. 780-785.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Tómas Helgason. Stutt ágrip af sögu Kleppsspítalans. Kleppsspítalinn 75 ára. 1907-1982. Sérprentað fylgirit Læknablaðsins 1983, s. 3-7..

Þórður Sveinsson. Vatnslækningar. Erindi flutt í Nýja Bíói 14.03 1923, vegna árásar Alþýðublaðsins á hjúkrunarfólk og lækna á Kleppi. Bókaverslun Guðmundar Gamalíelssonar, 1923.

Þórður Sveinsson. Áhrif föstu á undirvitundina. Fyrirlestur í Læknafélagi Reykjavíkur þann 11. desember 1922. Læknablaðið 1923:9, s. 226-31.
 
 
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation