Raflost við geðveiki hérlendis

Á fimmta áratug síðustu aldar fjölgaði mjög í stétt geðlækna á Íslandi. Fyrir voru þeir Þórður Sveinsson og Helgi Tómasson, sá síðarnefndi lærði bæði til læknis og stundaði sitt sérnám (sem lauk með doktorsgráðu 1927) við Kaupmannahafnarháskóla. Helgi vann á dönskum geðspítölum á árabilinu 1922-26 en tók við yfirlæknisstöðu á Nýja-Kleppi árið 1927.

Næsti sérmenntaði geðlæknirinn á eftir Helga var Alfreð Gíslason. Eftir læknapróf (cand. med) hér heima fór hann til Danmerkur og stúderaði geðsjúkdóma. Nám geðlækna var á þessum tíma (og lengi á eftir) fólgið í vinnustaðanámi, þ.e. praxís á geðspítölum. Alfreð vann á dönskum geðsjúkrahúsum á árunum 1932-36, kom svo heim og fékk sérfræðileyfi í tauga- og geðsjúkdómum árið 1936.

Síðan koma Kjartan R. Guðmundsson, sem fékk sérfræðileyfi í tauga-og geðsjúkdómum árið 1942, Kristján Þorvarðsson (sérfræðileyfi í tauga-og geðsjúkdómum árið 1945), Gunnar Þ. Benjamínsson (sérfr.leyfi 1948) og Grímur Magnússon (sérfr. leyfi 1949). Allir stunduðu þeir sitt nám í geðlæknisfræðum í Danmörku nema Grímur, sem lærði í Vín í Austurríki. Það er því ekki að undra þótt áhrif geðlækninga eins og þær voru stundaðar í Danmörku, hafi verið afar sterk hér á landi, a.m.k. fram yfir 1960. Heimkomnir störfuðu þeir allir sem almennir læknar (sjúkrasamlagslæknar) í Reykjavík en sinntu geðlækningum meðfram.
 

Kristján Þorvarðsson og Alfreð Gíslason mynduðu bandalag gegn Helga Tómassyni fljótlega eftir að Kristján kom heim, eftir átta ára dvöl í Danmörku, og þeir hinir sem taldir voru upp hér að ofan fylgdu þeim tveimur að málum. Ásteytingarsteinninn var að þeim fyrrnefndu þótti ófært hve Helgi Tómasson var ófús að taka upp „nútímageðlækningar“, einkum raflost og lóbótómíu.

Árið 1946 flutti Kristján Þorvarðsson erindið Rotlækningar geðveikra (Shock therapia) á Læknaþingi, erindið birtist svo sem grein í Læknablaðinu 1947. Í henni fjallar hann um insúlín-lost, cardiazol-lost og raflost. Kristján er hrifinn af öllum þessum „rotlækningum“ og segir um raflost:
 

Rafmagnsaðferðin hefir reynzt vel við psychogen psychosur, depressio (allar tegundir), og við psychoneurosur, og er þessi lækningaaðgerð talin sú bezta, sem þekkist við meinum þessum, og vex fylgi hennar ört, og er hún notuð um allan heim […]

Svo vitnar hann í G. Langfelt [Kristján á við norska geðlækninn Gabriel Langfeldt], sem hann segir einn þekktasta geðveikralækni Norðurlanda og kveður ummæli hans næga tryggingu fyrir að rétt sé með það farið að rafrot séu frábær aðferð. Sjálfur Langfelt hafi sagt:
 

„Þegar öll kurl koma til grafar, má segja að rafmagnslækningin sé stærsti sigur á sviði geðveikralækninga, sem nokkru sinni hefir unninn verið, að undantekinni malaria-meðferðinni á dementia paralytica. Við megum sem stendur ekki til þess hugsa, að vera án hennar, þótt meðferð þessari geti fylgt óþægindi, svo sem minnissljófgun um stuttan tíma og minni háttar „Kompressions“-brot, sem eru smámunir einir við hlið hins glæsilega árangurs, sem við náum, á sviði, þar sem stóðum áður alveg máttvana.“

Kristján gerir sér grein fyrir að ekki falli öllum læknum insúlín-, cardiazol- og raflost í geð, finnist þær of harkalegar. En því megi til svara að „margar handlæknisaðgerðir eru harkalegar og líðan sjúklinganna eftir aðgerðir miklu verri en „shock“-sjúklinganna, sem hafa aðeins lítilsháttar óþægindi fyrstu klukkustundirnar eftir aðgerð.“ Niðurstaða Kristjáns er að „enginn geðveikralæknir ætti að láta undir höfuð leggjast, að nota slíkar lækningaðgerðir.“
 
 

Deilur sjálfstætt starfandi geðlækna og Helga Tómassonar um raflost-meðferð

Gamalt raflosttækiNæstu árin eftir að grein Kristjáns birtist ríkti nokkurs konar vopnaður friður milli Helga Tómassonar og geðlæknanna nýju, þ.e.a.s. þeir síðarnefndu beittu einfaldlega raflostum á sína sjúklinga úti í bæ enda notuðu þeir hvorki vöðvalamandi lyf né svæfingu við aðgerðina. Hin frábæra (að þeirra mati) nýja aðferðin við lækningu geðsjúkra, lóbótómía, var gerð að þeirra undirlagi á Landakotsspítala (um lóbótómíu fjallar næsta færsla). Það er ekki fyrr en lóbótómíur leggjast af hér á landi, þegar skurðlæknirinn sem framkvæmdi þær lést í septemberbyrjun árið 1953, sem deilur geðlækna og Helga Tómassonar um raflostmeðferð verða opinberar.
 

Við tóku blaðaskrif þar sem Helgi Tómasson var sakaður um að fylgjast illa með nýjungum (þ.e. raflostum og lóbótómíu), halda geðlækningum á Íslandi í sorglegri niðurlægingu og láta íslenska geðlækna verða að athlægi í hinum stóra heimi. Það er freistandi að líta á opið bréf til formanns Læknafélags Íslands, sem birtist í Mánudagsblaðinu 26. október 1953 sem upptakt blaðaumfjöllunar gegn Helga. Ekki er höfundarnafn að þessu bréfi heldur einungis upphafsstafir bréfritara, S J. L. Hann sparar ekki stóru orðin, bendir á að Helgi sé nú roskinn maður og fylgist lítt með, þ.a.l. gangi ekki að hann einn ráði ríkjum á Kleppi og vafamál að forsvaranlegt sé að fela honum kennslu í geðlæknisfræðum. Í bréfinu kemur og fram að þegar Helgi hafi skroppið af bæ hafi sjúklingum verið rænt af Kleppi og „þeir tafarlaust fengið viðunanlegan bata með schok-lækningum.“ Mánudagsblaðið reyndist svo áfram dyggur bakhjarl þeirra geðlækna sem deildu við Helga Tómasson, sjá t.d. greinina Kleppsundrin 11. janúar 1954.

Myndin er af raflostmeðferðar-ferðatæki frá sjötta áratug síðustu aldar. Má ætla að græjurnar sem Kristján, Alfreð og aðrir íslenskir geðlæknar höfðu yfir að ráða hafi verið eitthvað svipaðar þessu tæki. Myndin krækir í stærri útgáfu á Vefnum.
 

Seint í desember 1953 var haldinn blaðamannafundur í Farsóttarhúsinu að undirlagi Kristjáns Þorvarðssonar og birtust fréttir af honum í dagblöðum daginn eftir, t.d. Nýjar og árangursríkar lækningatilraunir bannfærðar á Kleppi, í Tímanum 29. desember 1953 og Hvers vegna eru rafmagnslækningar ekki á Kleppi? í Alþýðublaðinu sama dag. Í þessum fréttum kemur fram að þrír geðlæknar, þeir Kristján, Kjartan Guðmundsson og Grímur Magnússon, hafi fengið inni í Farsóttarhúsinu til að beita raflostum á sjúklinga. Alfreð Gíslason hafði hins vegar haft ágæta aðstöðu til að veita raflost á Elliheimilinu Grund frá vori 1951, sem annar aðallæknir elliheimilisins (sjá frétt í Alþýðublaðinu 5. maí 1951).  Fréttir af blaðamannafundinum bergmála opna bréfið í Mánudagsblaðinu tveimur mánuðum áður, þ.e.a.s. talað er um „yngri og betur menntu tauglækna“ sem finnist hart að geta ekki beitt nýtísku læknisaðferðum, að aðstendur hafi náð sjúklingum út af Kleppi, komið þeim í raflost og hafi þeir fengið bata af o.s.fr.

Alfreð Gíslason skrifaði grein strax eftir áramótin, sem birtist í Alþýðublaðið 8. jan. 1954. Greinin ber yfirskriftina Geðlækningarnar á Íslandi í sorglegri niðurlægingu. Í henni segir m.a.:

Hér á landi starfa sex sérfróðir geðlæknar. Allir, að einum undanskildum, notfæra sér eftir því, sem aðstæður leyfa, hinar nýju aðgerðir [þ.e. raflostmeðferð, insúlín-lost meðferð og lóbótómíu] við lækningu geðveikra. En aðstaðan hér er ekki sem bezt, því að svo óheppilega vill til, að sá eini, sem ekki hefur aðhyllzt þessar lækningar, er yfirlæknir einasta geðveikarspítala landsins. Þetta kemur þó lítt að sök, þegar um er að ræða þunglyndissjúkdóma eða aðrar léttari tegundir geðveiki. Þeim sjúklingum má veita fullnægjandi hjálp með raflostmeðferð í almennu sjúkrahúsi eða í vel útbúinni lækningastofu og jafnvel í heimahúsi ef í nauðir rekur. Öðru máli gegnir um hinn alvarlega og algenga geðsjúkdóm hugklofa (schizofremi [svo]). Gegn honum er nýju aðferðunum beitt erlendis, hverri með annarri eða hverri eftir aðra, en vegna ástands þessara sjúklinga er ógerlegt og jafnvel hættulegt að viðhafa þær annars staðar en í geðveikraspítala.

Og Alfreð bætir við að af því ekki er hægt að „veita hugklofa-sjúklingum nýtízku meðferð eins og sakir standa […] standa nú geðlækningar hér á lægra stigi en erlendis og það raunverulega að óþörfu.“ Þetta svíður Alfreð sárt því:
 

Það er leitt að verða þess var, að erlendir sérfræðingar líta nú niður á okkur fyrir þá kyrrstöðu sem orðin er á geðlækningum okkar, en hálfu sárar er þó hitt að sjá fólk í blóma aldurs síns missa heilsuna og geta ekki veitt þá hjálp sem bezt er talin.

Alfreð stakk í greininni upp á að Kleppi yrði tvískipt og fengju hann og félagar hans (hinir fjórir geðlæknarnir) aðstöðu þar. Það er augljóst að hann er fyrst og fremst að falast eftir aðstöðu til lóbótómíu því raflostin veittu þeir með sínum ferðatækjum hvort sem var. Greinin fjallar þó á yfirborðinu miklu frekar um raflost, e.t.v. af því geðlæknarnir hafa talið að auðveldara yrði að fá almenningsálitið (þ.e. lesendur dagblaðanna) til að samþykkja og styðja þá læknismeðferð en lóbótómíu. Fjórum dögum síðar minnti Alþýðublaðið á grein hans, skoraði á Helga Tómasson að gera grein fyrir sínu sjónarmiði og hamraði á því að „við getum ekki unað því að vera eftirbátar annarra þjóða á sviði geðlækninganna.“ (Á þessum tíma var Alfreð Gíslason mjög ofarlega á lista Alþýðuflokksins til bæjarstjórnarkosninga í Reykjavík. Hann var hins vegar rekinn úr flokknum árið eftir og gekk þá í Alþýðubandalagið, sat síðan á þingi fyrir þann flokk á árunum 1956-1967.)
 

Helgi Tómasson hafði þagað þunnu hljóði meðan greinar voru skrifaðar gegn honum, bæði þessar sem minnst hefur verið á og aðrar um andstöðu hans gegn lóbótómíu. En svo má brýna að deigt járn bíti og í júní 1955 birtist löng grein eftir Helga, Rafrot við geðveiki, í Heilbrigðistíðindum 1951. Helgi segist hafa skrifað greinina veturinn áður og birti nú stytta útgáfu hennar að beiðni landlæknis. Þrátt fyrir titilinn fjallar greinin einnig um cardiazol-lost og lóbótómíu, aðaláherslan er þó á raflostmeðferðina. Í inngangi rökstyður Helgi heiti greinarinnar þannig:
 

En sá læknir sem var brautryðjandi þessarar aðferðar hér á landi [þ.e. Kristján Þorvarðsson], nefndi það þegar í upphafi mun réttara nafni, sem sé rot, sem mörgum mun þó síðar hafa þótt miður fara. en þar eð um ótvírætt rot í íslenzkri merkingu orðsins er að ræða, held ég því heiti.

Helgi segist vera í hópi þeirra sem aldrei hafi komið auga á þá rök sem réttlæti lost-lækningar „heldur beinlínis séð margt, sem óréttlætti þær.“ Hann nefnir fyrst hið augljósa, nefnilega að lost-meðferðum, einkum raflosti, var beitt á sjúklinga með ólíka geðsjúkdóma og að menn vissu ekkert hvernig þær virkuðu. (Síðarnefndu rökin eiga allt eins við í dag, þau fyrrnefndu að hluta.) Helgi segir um þetta, og byrjar á að vitna í eigin reynslu af sjúklingum sem gefið hafði verið raflost:
 

    Þá er maður sá einn rafrotaðan sjúkling hálsbrotna og deyja 5 dögum síðar úr lungnabólgu og annan lendarhryggbrotinn, svo hann gat sig ekki hreyft lengi á eftir, “róaðist” með öðrum orðum, þá sýndist mér þegar vera ærin ástæða til að halda að sér höndum gagnvart þessari lækningaðagerð, a.m.k. fyrst um sinn.
    Að lokum keyrir þó svo um þverbak, að manni blöskrar, er maður sér þessum aðgerðum beitt, án þess að hlutaðeigandi læknir hafi gert sér nokkra humynd um, á hvern hátt þær eigi að verka – aðeins u.a.f. – ýmist við einföldustu sálrænum tilfellum, eins og áhyggjum af því að geta sennilega ekki staðið í skilum með afborgun af víxli (og gleyma svo víxlinum alveg), í léttum og þungum geðklofatilfellum, við hvers kyns þunglyndi, oflæti, eiturlyfjanotkun, ofsóknarvillum, elliglöpum og vefrænum taugasjúkdómum, mjög oft í lækningastofu eftir eitt eða tvö viðtöl og svo til enga eða lauslega rannsókn. Þannig hefur framferðið verið í mörgum löndum.
   Ég minnist ekki að hafa séð eða heyrt um neinn geðkvilla, sem einhver hefur ekki reynt rafrot við og talið sig ná lofsverðum árangri af. [- – -]

Síðan fjallar Helgi um röksemdir ýmissa fræðimanna fyrir gagnsemi lost-lækninga og getur skoðana þeirra á því á hvaða geðsjúkdóma þær virki helst. Hann vitnar þar ekki í neina aukvisa því hann hlýddi sjálfur á fyrirlestra Cerletti (upphafsmanns raflosta), Sakel (upphafsmann insúlín-losta) og Meduna (upphafsmann cardiazol-losta) á alþjóðafundi geðlækna í París 1950 og endursegir mál þeirra auk greina eftir fleiri fræðimenn.  Helgi víkur síðan aftur að eigin skoðunum á raflostum, byggðum á fyrirlestrum fræðimanna og því sem hann hefur lesið:
 

   Árangurinn af meðferðinni […] þegar hún tekst vel, er eingöngu sá, að veikindakastið kann að styttast. En allmargir telja, að sjúklingar þessir veikist fremur aftur, svo að þá er talinn er saman veikindatíminn yfir 5 ár, verðu hann a.m.k. ekki styttri hjá þeim, sem hafa verið rafrotaðir.
    Þeim sjúklingum einum batnar, sem talið er, að mundi batna hvort væri og batna fullkomlega. En í allmörgum sjúklingum sem rafrotaðir hafa verið, helzt „vefræna geðástandið“ lengur eða kemur, oft svo að sjúklingurinn er langt frá því að vera heill heilsu, þegar hann fer undan læknishendi, þó að hann virðist verða það smám saman eftir á. En í mörgum slíkum tilfellum er þó augljóst, að einhverjir hinna fínni strengja í sál mannsins eru slitnir eða þeim hefur verið burtu kippt, en því er oft frekar öfugt farið, þegar melankoli batnar án rafrots.
    Í allmörgum tilfellum helzt „vefræna geðástandið“ að meira eða minna leyti. Sjúklingurinn hefur þá fengið varanlega vefræna skemmd í heilann í stað tímabundinnar, starfrænnar geðveiki, sem eðli sínu samkvæmt annars batnar.

Helgi telur svo upp helstu óhöpp sem geti fylgt raflostum og vitnar í heimild fyrir máli sínu. Heimild Helga er yfirlit Gab. Deshaies og S. Pellier í Annales Medico Psychologiques, október 1950, og hann tekur fram að þessir fræðimenn séu mjög hlynntir raflostmeðferð, kallar Deshaies einn ákafasta áhanganda rafrotanna.  Af helstu óhöppum má nefna slys á beinum og liðum, t.d. að neðri kjálki fari úr liði, að hryggjarliðir brotni o.s.fr. En geðslysin eru langalgengust, hefur hann eftir heimild sinni, „um 3/4 sjúklinga truflast á minni, margir svo, að um óminni (amnesia) er ræða aftur í tímann“ og fyrir hafi komið algert óminni um þrjú ár „sem stóð í nokkra daga“. Ýmislegt fleira varðandi geðslag og hugsun sem býður tjón af raflosti telur Helgi upp eftir heimildinni og getur einstaka sinnum eigin reynslu ef hann er ósammála. Skv. málflutningi hans eru sum áhrifin (óhöppin) á hugarstarf óafturkræf.Talverðu máli eyðir Helgi í að endursegja hugmyndir fræðimanna um hvernig raflost virki (eða hvað í aðgerðinni virki, t.d. hvort það er heilakrampinn eða rafmagnið) og kemur prýðilega fram að þar rekst hvert á annars horn. Eftir það fjallar hann um líffræðilegar breytingar sem einstakir vísindamenn telji sig hafa greint á heilum þeirra sem farið hafa í raflost. Að því búnu fjallar hann um árangur raflosta, einkum gegn þunglyndi, vitnar þar í fræðimenn og sænskar og svissneskar heilbrigðisskýrslur. Hann ber síðan árangurinn skv. heilbrigðisskýrslunum saman við „melankolisjúklinga sem farið hafa af Kleppi á árunum 1933-1952“ og virðist árangurinn á Kleppi mun betri, þ.e. sjúklingum þar batnar mun hraðar þótt ekki hafi þeir fengið raflost. Meiri umfjöllun um opinberar heilbrigðistölur fylgir í kjölfarið, einkum um tölur af skoskum geðspítölum. Niðurstaða Helga er þessi:
 

    Ég fæ ekki skilið, að „lækningaaðgerð“, sem er jafntvíeggjuð og rafrot, eigi rétt á sér til þess eins í svo og svo mörgum tilfellum að draga, að því er við höldum, úr nokkrum einkennum sjúkdóms, sem við vitum, að yfirleitt batnar. Til þess rötum við ýmsar aðrar sennilega mun minna hættulegar leiðir.
    Enda þótt við höfum ekki beitt þessum aðgerðum hér á Kleppi, tel ég, að árangurinn af læknismeðferð geðsjúklinga hér sé engu lakari en annars staðar, og verður væntanlega nánar skýrt frá því á öðrum vettvangi.

Hann fjallar svo eilítið um lóbótómíu, sem honum finnst þó skömminni skárri en rafrotið, en víkur aftur að raflostmeðferð í niðurlagi greinarinnar og bendir m.a. á að geðlæknum þyki mikill fengur í tæki sem láti eitthvað sýnilegt gerast, þeir geti þannig gengið í augun á alþýðunni:
 

    Þótt trú fólks á lyf sé mikil, mun sönnu næst, að mun meiri sé trú þess á alls konar „tæki“, og á það ekki síður við um læknana sjálfa. Hér fengu geðlæknar upp í hendurnar tæki, sem lét gerast eitthvað, sem þeir og fólk sáu, tæki, sem var auðvelt í meðförum og fljótt álitið virtist ekki gera skaða, eða a.m.k. ekki mikinn skaða. Það var því freistandi að nota það, stundum meira en minna. Samvizkuna mátti friða með því, að eitthvað hefði verið gert og e.t.v. hefði sjúklingnum reitt verr af, ef það hefði ekki verið gert.

Helgi víkur að því að raflostin spari tíma, að geðlæknar telji sig ekki lengur þurfa að velta fyrir sér af hverju geðsjúkdómur hvers og eins sjúklings stafi heldur beiti raflostum á alla en það sé vitaskuld fásinna að halda að til sé ein allsherjaraðferð til lækningar geðsjúkdómum. Hann minnir á að oft hafi furðulegustu læknisráð átt gengi að fagna meðal geðlæknastéttarinnar, s.s. mannaskilvindur, blóðtökur, rafmögnun o.fl. Og Helgi lýkur greininni á afdráttarlausri yfirlýsingu svo enginn þurfi að velkjast í vafa um skoðun hans:

    Rafrot nútímans er að mínum dómi blettur, á geðlæknastétt allra landa, blettur, sem hún eingöngu getur þvegið af sér með því að snúa aftur til heilbrigðrar skynsemi í lækningatilraunum sínum.

Það þarf varla að taka fram að grein Helga hleypti duglega upp í Alfreð Gíslasyni og félögum. Bætti ekki úr skák að sama dag og Heilbrigðistíðindi 1951 komu út, þann 15. júní 1955, flutti danski taugaskurðlæknirinn Eduard Busch erindi um lóbótómíu í Háskóla Íslands. Busch var frumkvöðull í lóbótómíu í Danmörku og litu íslensku geðlæknarnir mjög upp til hans, raunar fleiri en þeir því Eduard Busch var veitt heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands árið 1961. Alfreð skrifaði um fyrirlestur hins ágæta prófessors Busch en eyddi þó löngu máli í að fjargviðrast yfir Helga Tómassyni, í greininni Seinheppin heilbrigðisstjórn, sem birtist í Tímanum 23. júní 1955. Grein Helga í Heilbrigðistíðindum 1951 telur Alfreð að liggi beinast við að skilja sem sem „varnarrit heilbrigðisstjórnarinnar og afsökunarorð fyrir að hafa til þessa dags haldið geðveikralækningum á Ís- [svo] í sama eymdarástandinu og þær hvar vetna voru fyrir 20 árum.“ Alfreð er greinilega fjúkandi vondur, fer rangt með dagsetningu greinar Helga og virðist vera búinn að gleyma titli greinar félaga síns, Kristjáns Þorvarðssonar, sem birtist í Læknablaðinu 1947 og bar heitið Rotlækningar geðveikra (Shock therapia) því Alfreð skrifar:
 

Að efni til er ritsmíðin skilyrðislaus fordæming á þeim læknisaðferðum, sem til þessa hafa skárstar reynst í geðsjúkdómafræðinni. Þar er það nefnt svart, sem geðlæknar almennt kalla hvítt. Allt er til tínt, sem misjafnt má segja um raflostlækningu og heilaskurð við geðveiki, og það blásið upp, en vandlega þagað um alla kosti. Sérstaklega er lostlækningunni úthúðað, og í háðungarskyni er hún aldrei nefnd annað en „rafrot“ og „rotaðgerðir“.

Alfreð segir að auðvitað viti geðlæknar að raflostaðferðir og heilaskurður [lobótómía] hafi sína ókosti, er raunar ekki nærri eins kokhraustur og í fyrri greinum, en segir þær:
 

tákna mikilsverðan áfanga í framfarabraut og hafa glætt vonir um framhaldandi sigra. Þessar aðferðir verða lagðar til hliðar, þegar annað betra hefir fundist, og kann sá tími að vera eigi langt undan, en þangað til er þakkarvert að hafa þær.

Nú vildi svo til að nokkrum mánuðum fyrr, árið 1955, höfðu birtst fréttir um lyfið klórprómazín í íslenskum dagblöðum, lyf sem hafði undraverð áhrif á geðklofasjúklinga. Helgi Tómasson hafði upplýst í dagblaði að hann hefði notað þetta lyf frá 1952 handa sínum sjúklingum (og einnig reserpin, annað lyf sem skipti sköpum). Kann að vera að þær fregnir hafi slegið ofurlítið á puttana á Alfreð og félögum í árásum þeirra á Helga, a.m.k. gátu þeir ekki svo glatt haldið því fram að hann fylgdist ekki með nýjungum. Efasemdir um réttmæti og árangur lóbótómíu voru farnar að heyrast á þessum tíma. Og vonin um að annað betra en lóbótómía, við ýmsu, og raflost, einkum við þunglyndi, fyndist var sjaldan bjartari en akkúrat sumarið 1955, í ljósi þessara nýju lyfja við geðklofa. Altént fjöruðu deilurnar út og hafa geðlæknar ekki í annan tíma verið opinberlega ósammála á Íslandi.

 
Raflostmeðferð síðastliðin fimmtíu ár

Af raflostum er það að segja að þeir Alfreð, Kristján, Kjartan, Gunnar og Grímur héldu áfram að veita sjúklingum sínum raflost utan Klepps. Alfreð og Kristján tóku við stjórn áfengisdeildar á nýopnaðri Heilsuverndarstöð Reykjavíkur árið 1957 og hafa sjálfsagt nýtt aðstöðuna þar til raflostmeðferða milli þess sem þeir sinntu ölkunum. Alfreð hafði og aðstöðu á Elliheimilinu Grund eins og fyrr sagði. Grímur Magnússon gaf raflost í heimahúsum til ársins 1973 (sjá Hlédís Guðmundsdóttir. 1984.) og nýtti aðra aðstöðu einnig, t.d. beitti hann raflostaðferðum á geðsjúklinga í húsnæði sem tilheyrði fæðingardeild Landspítalans árið 1955 og svæfði sjúklingana þar sjálfur (munnleg heimild). Svo höfðu menn Farsóttarhúsið eitthvað áfram og seinna Hvítabandið.

Utan Reykjavíkur voru gefin raflost á sjúkrahúsinu Sólheimum (ég veit ekki frá hvaða tíma) og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. (Hlédís Guðmundsdóttir. 1984.) Á Akureyri tíðkaðist strax 1955 að svæfa sjúklinga með eter og gefa þeim curare til lömunar (munnleg heimild) en margt bendir til að læknarnir  í Reykjavík hafi lengstum sleppt vöðvaslakandi efnum og svæfingu í raflostmeðferð utan sjúkrahúsa.

Helgi Tómasson lést árið 1958 og virðast a.m.k. einhverjir hafa óttast að „rotlæknirinn“ Alfreð yrði yfirlæknir á Kleppi, sbr. lesendabréfið Það má aldrei verða í Vísi 11. desember 1958. En Alfreð tók ekki við heldur gegndi Þórður Möller stöðunni uns Tómas Helgason tók við henni. Tómas var, eins og faðir hans, ekki hrifinn af raflostum og bannaði þau á Kleppi. Hann varð þó loks að láta undan þrýstingi annarra íslenskra geðlækna og leyfði læknum þar að beita raflostum upp á eigin ábyrgð frá á áttunda áratugnum. Sjálfur beitti hann þeim aldrei og segir í viðtali við Morgunblaðið í maí 2007 að þeim feðgum, honum og Helga, hafi þótt raflost ómannúðleg aðferð og:

„Raflostið var hálfgerð hrossalækning. Hleypt var straumi gegnum heilann á fólki sem olli krampa. Það bar á minnistruflunuum fyrst á eftir og í sumum tilvikum urðu varanlegar breytingar.[- – -]“

Tómas segist í sama viðtali ekki hafa skipt um skoðun á raflostum. En ætla má að Óttar Guðmundsson bergmáli álit íslenskra geðlækna nútímans á skoðunum Helga Tómassonar (og Tómasar Helgasonar) í bókinni Kleppur í 100 ár: „Í ljósi sögunnar verður að telja andstöðu Helga við raflostin vafasama læknisfræði sem einungis lengdi þjáningar sjúklinga sem þjáðust af alvarlegu þunglyndi.“ (s. 96)

Geðdeild Borgarspítala var opnuð árið 1968 og yfirlæknir hennar var Karl Strand, íslenskur geðlæknir sem lærði í Bretlandi og hafði starfað í meir en tvo áratugi þar. Hann var hlynntur raflostmeðferðum. Þegar Tómas Helgason lét af störfum, árið 1997, tók Hannes Pétursson við. Hannes var menntaður á Bretlandi og að sjálfsögðu fylgjandi raflostmeðferðum. Núna eru raflost viðurkennd meðferð við þunglyndi á geðsviði Landspítalans, yfirleitt eru þeir sjúklingar sendir þrisvar í viku í raflostin.

Í greininni Rafkrampameðferð á Íslandi 1970-1981, sem birtist í Læknablaðinu 1984, segir Hlédís Guðmundsdóttir frá búnaði til raflostmeðferðar og framkvæmd hennar á tímabilinu:
 

Gamalt raflosttækiÁ Borgarspítala var sama tækið (Siemens Convulsator 622) notað allan tímann en tækin sem notuð voru á Kleppspítala, Fjórðungssjúkrahúsinu Akureyri og utan stofnana voru öll sömu tegundar, amerísk ferðatæki (Reuben Reiter). Á öllum meðferðarstöðunum voru rafskaut eingöngu lögð tvíhliða (bitemporalt). Svæfingar á sjúkrahúsunum fóru alltaf fram með atropin forlyfjagjöf, methothexital svæfingu og suxamethonium vöðvaslökun. Þessu fylgdi belgblástur með 100% súrefnisgjöf, þar til sjálfkrafa öndun fór í gang. Algengast var að RKM [raflostum] væri beitt tvisvar sinnum í viku, en þó var stöku sinnum byrjað með þrem til fjórum skiptum á fyrstu viku. Þeir sjö sjúklingar, sem fengu RKM í heimahúsi [sjúklingar Gríms Magnússonar á árunum 1970-73] fengu ekki suxamethonium vöðvaslökun.

Myndin er af Siemens Convulsator tæki. Litla myndin krækir í stærri mynd á vefnum.

Að sögn Hlédísar voru 1.111 raflost-lotur á þessu tímabili og var fjöldi raflostmeðferða í hverri lota 6,4 að meðaltali. Hún reiknar síðan út að þetta geri 4,5 raflost-lotur á hverja 10.000 íbúa. Raflostunum var einkum beitt á sjúklinga með „innborna geðlægð“, þ.e.a.s. þunglyndi. Árangurinn (sem væntanlega var metin af geðlæknunum sem framkvæmdu raflostin) er metinn góður en það er dálítið merkilegt, finnst mér, að Hlédís kemst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa skoðað tölfræðileg gögn, að „fullur bati“ standi í öfugu hlutfalli við fjölda raflosta sem sjúklingarnir hlutu.

Hlédís spáir því í greininni að „lágmarksþörf fyrir RKM á Íslandi, reiknuð út frá árangri við meðferð á innborinni geðlægð verður 2 lotur á 10.000 íbúa“ og getur þess að þörfin aukist líklega með fjölgun aldraðra. Ég hef hvergi fundið tölur um fjölda raflostmeðferða á Íslandi eftir 1981 og veit því ekki hvort spá hennar gekk eftir. Í Kvalitetsmåling i psykiatrien i de nordiske lande, sem unnin var á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og kom út 2011, eru töluleg gögn um íslenska geðlækningaþjónustu í skötulíki. Ef einhver veit um töluleg gögn um raflostmeðferðir á geðdeildum Landspítala eftir árið 1981 eru ábendingar vel þegnar. Mig grunar að þær séu algengari á geðsviði Landspítalans en Hlédís Guðmundsdóttir spáði fyrir um árið 1984, þ.e. fleiri en 60 raflostlotur á ári (sem jafngildir tveimur raflostlotum á 10.000 íbúa ef íbúar eru 300.000).

Að sögn er raflostmeðferð væg og áhrifarík

Raflostmeðferð er kynnt fyrir íslenskum sjúklingum nútímans á jákvæðan og aðlaðandi máta. Má taka sem dæmi þessa klausu:
 
 

Raflækningar geta verið nauðsynlegar þegar þunglyndið er orðið mjög alvarlegt og hefur ekki svarað lyfjameðferð. Hinn veiki er svæfður fyrir hverja meðferð. Rafmagnið er notað til að kalla fram krampa, en þeir eru dempaðir með vöðvaslakandi lyfjum. Raflækningum geta fylgt vægar harðsperrur og tímabundin minniskerðing, en ekki langtímaaukaverkanir. Þessi tegund meðferðar hefur oft fljótvirk áhrif þar sem hún á við og gerir sjúklingi kleift að verða virkur þátttakandi í daglegu lífi á ný fyrr en aðrar tegundir meðferðar.
(Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur og Engilbert Sigurðsson geðlæknir (ráðgjöf). Þunglyndi á persona.is. 2004.)

Í upplýsingabæklingi geðsviðs Landspítalans frá 2010, Raflækningar. Leiðbeiningar fyrir notendur, segir um meðferðina sjálfa (takið eftir áherslunni á lýsingarorðið vægur):

Eftir að einstaklingur er sofnaður og vöðvaslakandi  lyf eru farin að virka er vægum rafstraumi hleypt á í nokkrar sekúndur. Við það verða vægir krampar sem standa oftast yfir í 15-30 sekúndur.

Um hugsanlega fylgikvilla segir í sama bæklingi:
 

Fólk getur orðið óáttað og skert skammtímaminni getur gert vart við sig, mislengi eftir einstaklingum. Sumir geta einnig verið með ógleði, höfuðverk, þreytu og harðsperrur. Þessi síðartöldu eftirköst ganga yfir á skömmum tíma (nokkrum mínútum til nokkurra klukkutíma) og má meðhöndla með viðeigandi lyfjum

Loks segir í bæklingnum að virki hvorki lyf né hugræn atferlismeðferð við þunglyndi sé oft gripið til raflækninga ef „læknir og sjúklingur hafa orðið sammála um það“ og „ævinlega er haft að leiðarljósi að óþægindi sjúklingsins séu sem minnst.“

Á YouTube má myndband af nútímaraflostmeðferð og má vart á milli sjá hvort læknirinn eða fjölskylda sjúklingsins sem er viðstödd er hamingjusamari yfir meðferðinni. (Myndbandið er tekið í Ameríku, ath. að á Íslandi eru rafskautin/leiðararnir líklega ekki fest á borða heldur beint á höfuð sjúklingsins) .

Hér að neðan er mynd sem sýnir staðsetningu rafskauta í nútímaraflostum. Tvískauta (bilateral/bitemporal) staðsetningin var allsráðandi fyrrum, þ.e. rafskaut sett á hvort gagnauga og straumi hleypt á milli. Einskauta (unilateral) staðsetning kom mun síðar til sögunnar og sumir telja að hún valdi síður miklu minnistapi, á hinn bóginn þarf að gefa öflugri rafstraum til að framkalla krampa í heilanum með þessari aðferð. Nýjust er tvískauta staðsetning á enni (bifrontal).

Staðsetning rafskauta � raflosti
 
 
 

Eigin reynsla af raflostmeðferð

Vorið 2006 var ég mjög illa haldin af þunglyndi. Kann að hafa spilað inn í afar slæma líðan að ég var á mörgum lyfjum í háum skömmtum, sum lyfjagjöfin byggðist á rangri sjúkdómsgreiningu (geðhvarfasýki) sem aldrei voru nein rök fyrir. Geðlæknirinn minn taldi rétt að prófa raflost. Í sjúkraskrá segir að hann hafi kynnt fyrir mér kosti og galla meðferðarinnar en nánar er ekki getið um í hverju þessi kynning fólst. Eiginmann minn rekur ekki minni til þess að alvarlegar óafturkræfar aukaverkanir raflosta hafi verið kynntar honum, hvorki af mér né geðlækninum, og sjálf á ég engar minningar frá þessum tíma.

Þetta vor fór ég ellefu sinnum í tvískauta raflostmeðferð. Af heimildum, þ.e. eigin bloggi, er ljóst að eftir raflostin var ég ákaflega rugluð; minnislaus og með víðtækan athyglisbrest, sem þótti eðlilegur fylgikvilli. Einskis bata varð vart fyrr en líða tók á sumarið, þá bókar geðlæknirinn í sjúkraskrá að mér líði skár. Smám saman rann upp fyrir mér að það voru ekki bara tölvan sem ég kunni ekki lengur á eða nýju hverfin á Akranesi sem ég rataði ekki um sem voru fylgikvillar raflostmeðferðarinnar heldur var komin a.m.k. tveggja ára eyða í líf mitt, kolsvart tóm, sem aldrei hefur skilað sér aftur. Enn þann dag í dag er ég að fá þetta staðfest, t.d. hitti ég konu nú snemma vetrar sem heilsaði mér með virktum og fór að spjalla, ég gat ekki munað að ég hefði nokkurn tíma séð hana. Maðurinn minn fræddi mig svo um það að ég og þessi kona hefðum unnið saman heilan vetur og þekkst vel.

Í sjúkraskrá er nokkrum mánuðum eftir raflostin bókað að ég hafi misst um eitt og hálft ár úr minni að eigin sögn. Um haustið var ég aftur orðin mjög veik og versnaði enn eftir því sem veturinn leið (af heimildum sé ég raunar ekki að um neinn bata hafi verið að ræða heldur breyttist lamandi doði þunglyndisins í ofboðslegt óöryggi minnisleysins í örfáa mánuði). Haldið var áfram að hringla með alls konar geðlyf þennan vetur, t.d. var ég látin hætta á þreföldum dagskammti af einu þunglyndislyfi á tveimur vikum og á sama tíma keyrður upp duglegur skammtur af öðru þunglyndislyfi, auk þess sem mér var áfram ávísað lyfjum sem eru alls ekki ætluð við þunglyndi. Á útmánuðum 2007 er bókað í sjúkraskrá að ég vilji fara aftur í raflostmeðferð. Það kemur ekki á óvart því skv. eiginmanni mínum og eigin bloggi hélt geðlæknirinn því eindregið fram að raflostin 2006 hefðu verið til bóta. Þótt ég gerði mér grein fyrir tveggja ára útþurrkun á öllu í lífi mínu og vissi fyrirfram að námið sem ég stundaði veturinn 2006-2007, MA ritgerðin þar meðtalin, færi algerlega í glatkistuna fór ég aftur í ellefu raflostlotur vorið 2007, „að eigin ósk“ (hér tákna gæsalappirnar ekki beina tilvitnun í sjúkraskrá heldur þá staðreynd að ég hafði ekki forsendur til að taka upplýsta ákvörðun um þetta). Geðlæknirinn fullvissaði mig um að einskauta raflost yllu ekki nærri eins mikilli minnisskerðingu og bókar í sjúkraskrá að svoleiðis raflost verði nú reynd vegna minnisskerðingar af hinum fyrri.

Raflostin 2007 eyddu árinu 2006-2007 algerlega úr minni mínu. Ég geri mér ekki grein fyrir því núna hvort þau höfðu víðtækari áhrif, þ.e.a.s. nákvæmlega hvaða hluti óminnisins mikla allt aftur til ársins 2003 stafar af fyrri raflostlotunum og hvaða hluti af þeim síðari. (Sömuleiðis útiloka ég ekki að óhófleg lyfjagjöf á þessum árum eigi einhvern þátt í óminninu.)  Batinn varð enginn. Í sjúkraskrá er snemma vetrar haft eftir mér að ég hafi aldrei „jafnað mig eftir lotuna í vor.“

Allar götur síðan hefur minni mitt verið áberandi slæmt. Geðlæknirinn minn hefur í áranna rás tínt fram ýmsar skýringar á því, t.d. að minni fólks slakni með hækkandi aldri og að slæmu þunglyndi fylgi minnistruflanir og einbeitingarskortur. Sjálf er ég þess fullviss að raflostin hafi haft talsverð áhrif til þessa.

Sem þægur sjúklingur til skamms tíma keypti ég allar „vísindalegar” skýringar geðlæknisins míns, þ.m.t. árangur raflostmeðferða á þunglyndi. Árum saman var ég reglulega minnt á að vorið 2006 hafi mér batnað af raflostmeðferðinni (þótt heimildir segi annað, ég fór hins vegar ekki að skoða þær fyrr en í fyrravor). Þann 4. ágúst 2010 skrifaði ég í færslu á eigin bloggi:
 

En ég vorkenni sjúklingunum á Kleppi sem ekki fengu þennan séns út af tiktúrum yfirlæknisins. Ef allt um þrýtur er skárra að þiggja þessa meðferð en lifa við óbreytt ástand, þrátt fyrir aukaverkanir (minnistap – alla jafna er það tiltölulega lítið en ég var sérlega óheppin, að venju).

Eftir að hafa farið yfir heimildir, þ.e. eigin bloggfærslur frá tímum raflostanna og sjúkraskrá, tel ég tilvitnunina hér að ofan vera gott dæmi um heilaþvott. Eins og flestir sjúklingar treysti ég málflutningi læknisins míns lengstum. Þegar sjúklingur treystir lækni vel og læknirinn leggur huglægt mat á hvaða upplýsingar hann veitir sjúklingnum og skammtar upplýsingarnar í samræmi við sín viðhorf er vafamál hvort upplýst samþykki (þess er krafist að sjúklingur skrifi undir plagg þess efnis fyrir raflostmeðferð) getur yfirleitt talist upplýst. Eftir að ég fór að lesa mér til um áhrif hefðbundinna geðlæknisaðferða við mínum sjúkdómi, jafnt lyfja sem raflosta, er sú mynd af ágæti þessara aðferða talsvert önnur en ég hafði áður, af samtölum við geðlækninn minn. Og mér þykir, satt best að segja, þær upplýsingar sem liggja frammi um raflostmeðferð á íslensku gera ákaflega lítið úr mögulegum skaðlegum, jafnvel afar skaðlegum, aukaverkunum þeirra, sjá tilvitnanir í  upplýsingabækling Landspítalans og vefinn persona.is hér að ofan.

Eðli málsins samkvæmt fjalla íslenskir geðsjúklingar ekki í stórum stíl um reynslu sína af sjúkdómi og læknismeðferðum. Þó má finna dæmi um reynslu þeirra af raflostmeðferðum.

Bergþór G. Böðvarsson, talsmaður notenda á geðsviði, sagði í greininni Heiðarleg umræða og upplýst val í geðheilbrigðismálum, í Morgunblaðinu 7. nóv. 2006:
 

Í dag myndi ég aldrei samþykkja raflostmeðferð til langs tíma því mér finnst hún ekki mannúðleg og ég veit af eigin raun að það gerir engum gott, þegar til lengri tíma er litið, að búa við minnistap og tilfinningalega röskun á mörgum sviðum.

Á sama tíma sagði Héðinn Unnsteinsson, í greininni Af rangfærslum um raflækningar, Morgunblaðinu 26. október 2006:
 
 

Varðandi raflost meðferð, þá er mér það ljóst að hún hefur gagnast mörgum vel og komið fólki fram úr rúminu og upp úr djúpu þunglyndi. Það er engu að síður mín persónulega skoðun að sú aðferð að beita raflostum til meðferðar á lyndisröskunum sé ómannúðleg og eigi vonandi eftir að leggjast af í ljósi þess.

Í bókinni Ómunatíð, útg. 2011, lýsir Styrmir Gunnarsson viðhorfi aðstandanda sem varð að gefa leyfi til raflostmeðferðar á konu sinni árið 1968. Hann segir á s. 76:

Hefði ég haft þær upplýsingar í höndum sumarið 1968 sem ég hef nú, finnst mér ólíklegt að ég hefði skrifað undir það samþykki við raflækningum sem ég skrifaði undir þá.

Satt best að segja bendir mín eigin reynsla til þess að Helgi Tómasson hafi haft alveg rétt fyrir sér þegar hann skrifaði árið 1955 að augljós áhrif raflosta væru oft þau
 

að einhverjir hinna fínni strengja í sál mannsins eru slitnir eða þeim hefur verið burtu kippt […] Sjúklingurinn hefur þá fengið varanlega vefræna skemmd í heilann í stað tímabundinnar, starfrænnar geðveiki, sem eðli sínu samkvæmt annars batnar.

Heimildir aðrar en þær sem krækt er í úr textanum:
 

Helgi Tómasson. Rafrot við geðveiki, í Heilbrigðistíðindum 1951. Útg. af landlækni 1955.

Hlédís Guðmundsdóttir. Rafkrampameðferð á Íslandi 1970-1981. Læknablaðið 70. árg. 10. tbl. 1984, s. 325-332.

Kristján Þorvarðsson. Rotlækningar geðveikra (Shock therapia). Erindi flutt á Læknaþinginu 1946. Læknablaðið 32. árg. 2. tbl.  1947, s. 17-22.

Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JVP útgáfa, 2007.

Styrmir Gunnarsson. Ómunatíð. Saga um geðveiki. Veröld, 2011.
 
 
 
 

3 Thoughts on “Raflost við geðveiki hérlendis

  1. Takk fyrir frábæra grein Harpa.
    Ég las um skylda hluti fyrir um þrjátíu árum og sannfærðist um þau viðhorf sem þú framsetur hér með frábæru orðfæri og festu.
    Þessi grein er frábært innlegg í baráttu fyrir dýpra innsæi fyrir geðrænum vanda fólks.

  2. Fridrik Gislason on December 12, 2018 at 22:59 said:

    Alveg rétt! Hafðu gjarnan samband við cchr.org (Citizen Commission of Human Rights). Einnig i Danmörku MMK og Svíþjóð KMR. Það er hægt að gera eitthvað við þessu!
    Kv,
    Friðrik

  3. Fridrik Gislason on December 12, 2018 at 23:10 said:

    Nýlegt ljóð sem ég gerði: Þunglyndi var á þessa leið: Það er ekki hægt að setja plástur á það/ hvorki snerta það með fingrunum/ eða setja á það smyrsl/ en það er hægt að auditera það. Auditering frá audiere að hlusta er andleg ráðgjöf notuð í Dianetik en Dianetik er vísindi um mannshugann!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation