Tilfinningaklám og staðalmyndir

Nú stendur yfir söfnun fyrir gjörgæslugeðdeild á Landspítala. Deildin er fyrir sjúklinga sem þarf að hafa sérstakt eftirlit með, s.s. sturlaða sjúklinga (þ.e. í geðrofi, alvarlegu örlyndi eða hættulega öðrum) og þá sem eru í bráðri sjálfsvígshættu. Það er auðvitað hið besta mál að safna fé svo gera megi svona deild sem best úr garði. En að mínu mati er seilst ansi langt í að snapa samúð almennings og kynda undir staðalmyndahugmyndir um aumingja geðsjúka fólkið í þessu átaki. Mér er algerlega óskiljanlegt hvernig í ósköpunum konunum sem standa (myndarlega) að Á allra vörum datt í hug að samþykkja auglýsingaherferðina sem fylgir þessu söfnunarátaki! Er þetta sú mynd sem þeim hugnast að gefa af geðsjúku fólki? Er aðalatriðið að raka inn peningum en aukaatriði að hamra á ímyndum sem eru síst til þess fallnar að slá á fordóma og ranghugmyndir um geðsjúkdóma?

Myndaserían sem Á allra vörum birtir nú ótt og títt á heilsíðum dagblaða og á Vefnum sýnir erkitýpur þunglyndissjúklinga (en þunglyndissjúklingar verða aldrei nema brotabrot af sjúklingaflóru deildarinnar sem verið er að safna fyrir). Þetta eru dökkar og napurlegar myndir, af konum með rytjulegt úfið hár og körlum sem hafa mátt muna fífil sinn fegri, meira að segja fylgir eitt heldur ótótlegt stúlkubarn.  Fyrirsæturnar eru með tárvot augu og afar þjáningarfullar á svipinn, minna kannski mest á þau mæðgin Maríu mey og Jesús á harmfyllstu rómantísku málverkum fyrri tíma eða í nútíma kraftaverkastyttum sem gráta blóði. Til að bæta enn á þjáningarfullan svip hinna hrjáðu fyrirsæta eru sprungur í andlitum þeirra og jafnvel niður á háls, annað hvort eru þetta djúpir farvegir eftir stöðugan og langvarandi táraflauminn eða tákna að þessar manneskjur eru ekki heilar, þær eru sprungnar, sem sagt bilaðar.

Ég er illa haldin af þunglyndi og stundum ansi veik af sjúkdómnum (til dæmis þessa dagana). En ég geng ekki um eins og argintæta til höfuðsins og andlitið á mér er ekki sprungið enda er ég heilsteypt persóna þótt ég hafi þennan sjúkdóm. Eins og aðrir þunglyndissjúklingar get ég oftast brosað og set (vonandi) aldrei  upp svip þeirrar eilífu þjáningar sem er meitlaður í módel Á allra vörum. Mér finnst það móðgun við mig og aðra geðsjúka að birta svona myndir í umfjöllun um geðræna sjúkdóma!

Hér að neðan eru nokkrar myndir til samanburðar auglýsingamyndunum. Með því að smella á þær koma upp flennistórar útgáfur á síðu Á allra vörum, vilji menn aðgæta þjáninguna og sprungurnar á þessum langgrátnu geðsjúku andlitum betur.

Hamilton þunglyndistýpanÞetta er hluti af mynd IV í bókinni Types of insanity, an illustrated guide in the physical diagnosis of mental disease, gefin út 1883.  Bókin er eftir  Allan McLaine Hamilton. Myndskreytingar í geðlækningabókum á nítjándu öld áttu að hjálpa læknum að greina geðsjúkdóma, þ.e.a.s. myndirnar gegndu svipuðu hlutverki og DSM-staðll nútímans (eins og sést berlega af titli bókarinnar). Þessi mynd á að sýna hvernig sjúklingur með viðvarandi þunglyndi lítur út. Í myndatexta segir: X hefur verið þunglyndur í nokkur ár og sjúkdómurinn er að þróast í vitglöp. erkitýpa á Á allra vörumHefur eitthvað breyst síðan Hamilton birti greiningarmyndir af geðsjúkum fyrir 130 árum síðan?
Mad womanBrjálaða konan, málverk eftir Eugene Delacroix, dáinn 1863. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu. Hafa hugmyndir um erkitýpu brjáluðu konunnar breyst frá tímum rómantíkur? Erkitýpa brjáluðu konunnar
Mar�a grætur blóðiMaría mey er “móðir mædd af sorgum” (mater dolorosa). Kemur því ekki á óvart að sumar styttur af Maríu gráti reglulega. Þessi er í Kaliforníu og grætur blóði. Myndin krækir í umfjöllun um þetta merkilega fyrirbæri. Ég sé ekki betur en erkitýpa þunglyndu konunnar á Á allra vörum gráti líka blóði enda er erkitýpa þunglyndu konunnar einhvers konar konar femina dolorosa. Mar�uerkitýpa þunglyndu konunnar

P.s. Ég fetti ekki fingur út í ofurvæmna myndbandið sem er auglýsing átaksins nema bendi á að litla skólastúlkan í skólapilsinu getur varla verið uppi á okkar tímum því í skólanum hennar er gamaldags krítartafla. Sömuleiðis mætti benda á að mamman virðist liggja árið um kring grátandi í rúminu (hún líkist að vísu ekki nokkrum þunglyndissjúklingi sem ég hef séð en fellur væntanlega ágætlega að þeirri staðalímynd og brennimerkingu sem forsvarmenn þessarar söfnunar eru að gera sitt besta til að festa í sessi).

30 Thoughts on “Tilfinningaklám og staðalmyndir

  1. Það er dálítið sérstakt að á meðan það er talið óhollt að halda auglýsingum að börnum þá er allt í lagi að nota börn í auglýsingum sem eiga að höfða til fullorðinna. Ef auglýsingafræðin kenna að þetta virki þá hafa þeir greinilega ekki spurt fólk eins og okkur Harpa.

  2. Birna Gunnlaugsdóttir on September 14, 2013 at 09:41 said:

    Skarplega athugað Harpa og brýnt í umræðunni.

  3. Björg Árnadóttir on September 14, 2013 at 09:45 said:

    Frábær grein hjá þér Harpa eins og venjulega. Það er sorglegt þegar velmeinandi átak snýst upp í andhverfu sína sem svo oft vill gerast.

  4. Hrafn Arnarson on September 14, 2013 at 10:02 said:

    Mjög góð og þörf ábending. Tilfinningaklám er víða. Nýlegt dæmi er umræða um Reykjavíkurflugvöll.

  5. Einmitt nafna. Vel að orði komist.

  6. Christer Magnusson on September 14, 2013 at 10:55 said:

    “Skarplega athugað” – alveg sammála. Og vel orðað. Gott að draga fram gamlar hugmyndir um geðsjúkdóma og sýna hvernig þær lifa áfram og hvernig auglýsingamenn nota það sem hrærist í undirmeðvitund okkar.
    Gaman væri að vita hvort auglýsingamenn gefa vinnu sína eða hvort einhver góður hluti af söfnunarfénu fer í þóknun.
    Svo er ýmislegt athugavert við það að safna fyrir opinberar framkvæmdir, hversu hjartnæmar sem þær eru. Höfum við ekki borgað skatt? Höfum við ekki kosið og ráðið fólk til þess að forgangsraða þessar framkvæmdir? Eigum við þá að borga aukalega þegar okkur líkar ekki þessi forgangsröðun? Svo að fólkið sem við kusum og réðum getur haldið áfram að forgangsraða vitlaust?

  7. Ragnheiður Ása on September 14, 2013 at 11:07 said:

    Frábær grein hjá þér, Harpa, eins og oft áður!

  8. Jakob Smári on September 14, 2013 at 12:55 said:

    Eg er algjörlega ósammála þér og verð satt að segja dáldið reiður þegar ég les svona ummæli um þessa frábæru auglýsingarherferð. Ég get ekki séð aðra leið til að vekja athygli fólks á þessum málstað en að spila inná á tilfinningar og kalla þannig á samúð og hjálp. Allir þeir sem komu að gerð þessarar herferðar gáfu vinnu sina en metnaðurinn og umhyggjan fyrir málefninu var 100%. Og ég get lofað þér því að það eru ekkert nema fallegar hugsanir að baki gerð herferðarinnar. Ég veit það því málið er mér tengt. Og svo kemur fólk eins og þú og drullar yfir vinnuna þeirra sem að þessu komu. Sorglegt. Þú segir að litla stelpan í sjónvarpsauglýsingunni geti ekki verið uppi á okkar tímum af því að krítartaflan er gamaldags. Þessi sena var nú bara tekin upp í skóla í vesturbænum sem er í fullri notkun.

    Þetta er vissulega viðkvæmt málefni og vandmeðfarið. Árangur þessarar herferðar er strax farin að skila milljónum sem renna í málefnið, ekki til framleiðenda auglýsinganna.

  9. Guðrún on September 14, 2013 at 13:32 said:

    Já… sá sem þjáist af þunglyndi er ekki grátandi allan daginn eins og þú segir sjálf… en manneskjunni líður ef til vill eins og myndin sýnir… innra með sér og það er einmitt málið það sést ekki utan á fólki hvernig því líður og það er það sem er svo erfitt með þennan sjúkdóm. Sem ég hef sjálf barist við.
    Er kennari og það eru fullt af krítartöflun í mínum skóla. Skil ekki fordóma þína… Finnst leiðinlegt hvernig þú orðar hlutina og sorglegt að þú sjáir ekki hlutina í dýpra ljósi en þetta.

  10. Harpa Hreinsdóttir on September 14, 2013 at 14:07 said:

    Var einmitt að bíða eftir að “virkir í athugasemdum” tjáðu sig, á líkan máta og Jakob Smári gerir 😉

  11. Ása Lind on September 14, 2013 at 14:49 said:

    mjög góður punktur að benda á staðalímyndirnar sem eru af geðsjúkum og koma fram í auglýsingaherferðinni “Á allra vörum” … ég er samt ekki sammála því að veitast svona að auglýsingargerðafólkinu sem gerir mjög góða og vandaða vinnu sem snýr að því setja fram það sem virkar á fólkið … sökudólgurinn er samfélagið í heild og þær mýtur sem þar lifa

  12. Pingback: ,,Ég sé að þú ert með hreint hár, borðaðir þú morgunmat?” | Freyja

  13. Harpa Hreinsdóttir on September 14, 2013 at 16:03 said:

    Guðrún: Það er náttúrlega að drepa málum á dreif að fara að ræða krítartöflur … en ég hef talsverðan áhuga á svoleiðis útbúnaði og þetta er mitt blogg 🙂 Ég hef kennt í framhaldsskóla frá árinu 1986 og kenndi einn vetur í grunnskóla, 1978-79. Hef ekki séð krítartöflu í notkun á þessum tíma, fyrir utan í HÍ veturinn 1998-99 (og fannst einmitt ákaflega heimilislegt og skemmtilega íhaldssamt að sjá gripinn þar). Satt best að segja hélt ég að krítartöflur væru löngu útdauð verkfæri en það er skemmtileg tilbreyting að heyra af því að þær séu enn í notkun á stöku stað.

  14. Harpa Hreinsdóttir on September 14, 2013 at 16:08 said:

    Það er dálítill munur á að gagnrýna einn þátt þessarar söfnunar, myndbirtingu í auglýsingum sem ýtir undir brennimerkingu þunglyndra og fordóma almennings gagnvart þeim sjúkdómi, og á því að “veitast að auglýsingagerðarfólkinu sem gerir mjög góða og vandaða vinnu” eða “drulla[r] yfir vinnuna þeirra sem að þessu komu”. Ég legg til að þeir sem eiga athugasemdir með þessu orðalagi lesi aftur yfir færsluna sem þeir gera athugasemdirnar við.

  15. Halldóra on September 14, 2013 at 16:53 said:

    Mér finnnst ákaflega leiðinlegt Harpa hvernig þú afgreiðir Jakob Smára, ekki málefnanlegt á nokkurn hátt, gerir lítið úr honum og skellir broskall aftan við.

  16. Halldóra on September 14, 2013 at 16:54 said:

    Átti að standa blikkkall þarna

  17. Harpa Hreinsdóttir on September 14, 2013 at 17:47 said:

    Ég sé ekki ástæðu til að svara manni sem segir að ég “drulli yfir” einhvern öðruvísi en að brosa.

  18. Berglind on September 14, 2013 at 18:10 said:

    Jakob lætur Hörpu heyra það í reiði sinni og gerir lítið úr henni með því að kalla gagnrýni hennar á framsetningu herferðarinnar “drulla yfir” – segir jafnframt “svo kemur fólk eins og þú..” Hvernig fólk er Harpa?? Má hún ekki bara segja skoðun sína á herferðinni án þess að það sé litið á það sem eitthvað yfirdrull? Mér fannst þetta satt að segja mjög áhugaverður vinkill á herferðina og myndi gjarnan vilja sjá svör við þeim spurningum sem hún varpar fram í upphafi pistlilsins. Og Jakob segir jafnframt að eina leiðin sem hann sjái, til að vekja athygli fólks á þessum málstað sé að spila inná á tilfinningar og kalla þannig á samúð og hjálp, sé auglýsingaherferð af þessu dagi .. Nú spyr ég hvort það sé málefnaleg aðferð? og ef svo er – væri þá einhver til í að búa til herferð sem gerir það að verkum að einstaklingar og fyrirtæki í samfélaginu verði jafn tilbúin að greiða skattana sína og að gefa í svona söfnun (sem er ein af fjölmörgum sem hafa verið síðustu misserin..) þannig að hægt sé að standa sómasamlega að uppbyggingu heilbrigðisþjónustu?

  19. Halldóra on September 14, 2013 at 18:11 said:

    Spurning að hjóla í aðra punktana sem hann kemur fram með í stað þess að fókusera á þann eina þar sem hann mistígur sig.
    Auðvitað vert að benda á að óþarfi var að nota orðið “drulla yfir” þarna en ekki þar með sagt að annað sem kom fram sé ómarktækt fyrir vikið.

  20. Halldóra on September 14, 2013 at 18:20 said:

    Fyrir mér er þetta túlkandi lýsing á líðan sjúklings hið innra og ég átta mig ekki alveg á gagnrýninni.
    Ég þekki stóran skammt af fólki sem á við geðsjúkdóma að stríða sem reynir sitt besta til að fúnkera í samfélaginu, láta sem ekkert sé og ímynd þess út á við er oft hamingja, styrkur og bros…
    Er þetta ekki líka söfnun fyrir bráðamótöku? Fyrir þá sem eru komnir á ystu nöf?

  21. Anne Kampp on September 14, 2013 at 18:47 said:

    Listrænt séð og til auka tjáningu og leið til að lýsa þjáningu okkar dettur mér í hug að það mætti reyna að lýsa innri líðan og ytra fasi sömu manneska í teiknimynda-formi. Ekki skaðar svolitill húmor í myndinni. Stundum sjást veikindin á einstaklingnum ,sumum tekst að halda andlitinu út á við. Inni á heimilinu birtast áfhrifin af sjúkdómi einstaklingsins oft öðruvísu og á margbreytilegan hátt. Sjúkdómur einstaklings hefur áfhrif á komandi kynslóðir og sjúklingurinn veit þetta oft og eikur það vanmátinn og örvæntinguna. Sjónvarpsþátturinn þótti mér góður, þó að ég vonaðist eftir aukinni fræðslu, heldur mikið af endurteikningum. Bara það eitt að í þættinu kom framm að einnstaklingur dó vegna sparnarðar í heilbrigðiskerfinu sýnir að þegar hefur niðurskurðurinn kostað mannslíf og þetta eitt skiftir máli. Siðan má deila um hvernig átakið er framkvæmt. Þessar “afskræmdu” myndir held ég að eigi að sýna hvernig einnstaklingum liður að innan þó ekki sjáist það á þeim.

  22. Harpa Hreinsdóttir on September 14, 2013 at 19:34 said:

    Af því sjónvarpsþætti ber á góma í þessum umræðuhala vil ég taka fram að mér þótti Kastljósþátturinn (af tilefni söfnunarinnar) mjög góður og mjög málefnalegur. Bæði umræðurnar fólks sem þekkir til geðsjúkdóma úr ýmsum áttum og innslagið um geðsvið Lsp. og nýju deildina.

    Ég vil líka taka fram að mér finnst söfnunarátakið afar vel heppnað, þ.e.a.s. forsvarsmenn Á allra vörum hafa staðið sig frábærlega í að ná athygli allra fjölmiðla. Sjálf hlusta ég eingöngu á RÚV og hefur heyrst þessi söfnun bergmála stöðugt á rás 2, sem er auðvitað gífurlega góð auglýsing og markviss söfnunaraðferð.

    Í þessari færslu tek ég fram í upphafi að mér finnist málefnið gott, það er gott framtak að safna fé svo búa megi þessa deild fyrir bráðveika geðsjúka sem best úr garði.

    Í færslunni gagnrýni ég eina þeirra aðferða sem Á allra vörum beitir til að ná athygli og auglýsa málstað sinn, sem er purkunarlaus áróður fyrir fordómafullum staðalmyndum þunglyndissjúklinga, í því skyni að höfða til meðaumkunar fólks. Mér er fullkomlega ljóst hvað felst í því að vera þunglyndur því ég hef verið 100% öryrki af völdum þessa sjúkdóms í þrjú ár (en hef náð nokkrum bata núna), hef legið nokkrum sinnum á geðdeild og hef prófað nánast allar þær lækningaaðferðir sem í boði eru (lyf, lost o.þ.h.). Mér er líka fullkomlega ljóst hvaða áhrif svona sjúkdómur hefur á fjölskyldulíf og aðstandendur sjúklingsins.

    Mér er ljóst að það sem tálmar bata er m.a. fordómar og barnaleg ímyndun um sjúkdóminn. Þessar fordóma er víða að finna, einnig hjá sjúklingnum sjálfum og í geðheilbrigðiskerfinu. Þess vegna finnst mér út í hött að byggja auglýsingaherferð átaksins á að ýta undir fordóma og brennimerkingu. Í mínum huga er þetta eins og ef í næstu viku birtist myndasería eingöngu með rónum sem allir hafa migið á sig, til að vekja athygli á að alkóhólismi er lífshættulegur sjúkdómur, kannski auglýsing með grátandi barni og undirspiluðu laginu “Á kránni” í ofanálag. Myndu alkóhólistar (virkir og óvirkir) sætta sig við svoleiðis herferð? Þótt færa mætti rök fyrir að “listrænt séð” væri svoleiðis myndasýning “túlkun á líðan fólks sem komið er á ystu nöf” í þeim sjúkdómi?

  23. Anne Kampp on September 14, 2013 at 20:55 said:

    Ég er ekki alveg ókunnug þunglyndi og þig liður illa eins og mig. Vonandi batna okkur. Engin afstæði til að keppast um hver er meira veik. Stöndum saman og berjumst fyrir betrar líf til handa okkur og aðstandurnar okkur. Því miður erum við sjálfar með mestar fordómarnir. Þú ert reið núna og sár og ekki vil ég auka vanliðan. Barattu kveðjur.

  24. Það sem fólk nennir að rífast um, það er með ólíkindum.

  25. Anne Kampp on September 14, 2013 at 21:27 said:

    Ath. ég var með teiknikvíkmynd í huga. Þannig væri hægt að komast hjá því að alvöru börn leiku hlutverk í myndinni. Ég hef bara séð kastljós þáttinn á fimmtudeginum og stóð í þeirri trú að það var atríðið með stulkuna og þunglyndra móðurinnar sem þú kallaði tilfinningarklámi. Mér finnst ekki rétt að nóta börn á þennan hátt. Ég er yfirlegt efins um að hollt sé að vera barnastjarna. Kanski nær boðskapin betra til folks þegar um leikinar mynd er að ræða og þess vegna var þessi leið valin.
    Ég hef trúlega ekki skilið þér rétt og ef svó er, biðst ég afsögunar.

  26. Sigrún Huld on September 15, 2013 at 08:11 said:

    Mér finnst þessi söfnunarherferð fín og allt ágætt um hana að segja. En það er alveg rétt að þarna getur ekki að líta mann illa farin af langvarandi geðklofa með tilheyrandi aukaverkunum lyfja. Hann gæti enda vakið skelfingu og andúð í stað samúðar. Og eldri herrann tárvoti er vissulega sætur karl, en í raunveruleikanum fær hann sko bara að skæla heima, bráðageðdeild eða ekki, því geðvanda aldraðra er ekki sinnt á Íslandi. Ég er geð- og öldrunarhjúkrunarfræðingur og ég get fullyrt að það eru ekki margir aldraðir sem fá geðhjálp í heilbrigðiskerfi okkar

  27. Kristinn Sæmundsson on September 15, 2013 at 16:37 said:

    áfram Harpa, þín sjónarmið eru eru bæði þörf og skýr og láttu ekki draga þig inn í einhverjar tilgangslausar þrætur. Umræðan er á góðu róli og þó að eitthvað sé um að fólk misstígi sig er annað varla hægt þegar fólk oppnar sig um þessi brenandi mál. Tölum saman í vörninni og leysum þessi ömurlegu aðbúnaðamál gagnvart nánast öllum minni hluta hópum í heilbrigðiskerfinu, aldraðir, öryrkjar, geðsjúkir osfv. (með fullri virðingu fyrir þeim öllum). Það er alltaf byrjað að skéra niður þar þegar vanntar aura. Og þessi þjóð þarf að girða sig í brók gagnvart tilfinngakláminu og hana nú. P.s. mín mamma var veik, hún er dáinn og stundum átti hún tima sem minna á auglýsinguna, Þannig að þó hún sé að mínu viti tilf.klám er hún líka raunsönn. Með von um áframhaldandi uppbyggjandi umræðu um þessi áríðandi mál, að laga.

  28. hrund Jóhannesdóttur on September 17, 2013 at 09:26 said:

    Eg skil auglýsingar ágætlega tilgang og markmið. Ég se ekki betur en hér hafi verið auðveldasta leiðin og segir mikið um hugmyndaleysi stofunnar sem tok þetta að ser. Minn sali spurði mig eitt sinn ad þvi afhverju ég væri að þvo mer og busta tennur. Tilhvers er eg ad koma dóttir mina i skolann osfr…. eg svarði samviskusamlega og fannst spurningar hans skritnar….. ju þu hefur ákveðin gildi. … þunlyndur einstaklingur hefur gildismat….en þröskuldurinn mishar…. mig finnst flott ad vekja athygli á þessu…..takk fyrir agætis pistil

  29. Björn on September 17, 2013 at 21:04 said:

    Ég hef unnið á geðdeild í áratug og skrifaði mína lokaritgerð í Sálfræði um stimplun almennings á geðröskðum. Sjálfstimplun vísar til viðbragða fólks sem tilheyrir stimpluðum hópi og snýr neikvæðum viðhorfum almennings gegn sjálfu sér. Til að byrja með þá samþykkja þeir sem snúa stimpluninni gegn sér neikvæðu staðalmyndina. Því næst leiðir sjálfstimplunin til neikvæðra tilfinningaviðbragða, t.d. að skrifa grein gegn góðu og gildu átaki Á allra vörum. Sjálfstimplun vinnur sterkt gegn útrýmingu fordóma gagnvart geðröskuðum. Þessi skrif, umræðan um þau og dramtíkin er tilfinningaklám að mínu viti. Vandamálið er mjög útbreitt og boðskapurinn m.a. að fólk ber ekki alltaf einkenni sjúkdómsins utan á sér og er góð áminning. Þunglyndi er mjög erfitt viðureignar og ég vona að þér muni ganga vel að vinna bug á því.

    Bestu kveðjur
    Bjössi

  30. Harpa Hreinsdóttir on September 18, 2013 at 10:54 said:

    Björn: Ég man eftir þér 🙂 Fann ritgerðina á http://skemman.is/stream/get/1946/2410/7831/1/almennings_fixed.pdf og skoðaði aðeins, fannst hún áhugaverð og ætla að lesa hana betur.

    Enn og aftur ítreka ég að þeir sem eru ósammála þessari færslu lesi hvað í henni stendur. Hér er ekki skrifað “gegn góðu og gildu átaki á Allra vörum” heldur gagnrýndur einn þáttur þessa átaks, myndbirtingar í blaða-/netauglýsingum og getum leitt að því að svona myndir festi fordóma/ranghugmyndir almennings í sessi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation