Þunglyndið

virðist ekkert í rénum. Því miður. Ég er enn ólæs, stoppaði í miðju kafi í spennandi glæpasögu og er föst í byrjuninni á Íslenskir kóngar, bók sem mér finnst mjög skemmtileg. Það er fúlt að vera ólæs bókmenntafræðingur og ólæs “kona sem liggur alltaf í bókum” en í augnablikinu er ekkert við því að gera. Þetta lýsir sér þannig að ég les nokkrar síður og velti því svo fyrir mér hvað í ósköpunum ég hafi verið að lesa eða hver þessi persóna sem allt í einu dúkkar upp er eiginlega, kann allt eins að vera aðalpersóna sem ég veit ekki lengur nein deili á. Og hvað gera ólæsar konur? Tja … ég leysi þetta með því að fá lánaðar “skoðibækur” á bókasafninu, bækur sem maður flettir en les ekki frá orði til orðs. Æxlaði mér Íslenska silfursmíði og Garðyrkjuritið og slatta af prjónabókum/blöðum núna áðan. Svo má gá hvort ég næ svona þremur-fjórum blaðsíðum af Íslenskum kóngum … kannski ef ég hlusta á tónlist og syng með, á meðan …

Annað sem truflar mig þessa dagana er almenn heilaþoka. Þetta hugtak, heilaþoka, er velþekkt í vefjagigtarfræðum og Sjögrens-heilkennisfræðum og ábyggilega víðar en hins vegar lítið brúkað í geðlækningafræðum. Aftur á móti hugsa ég að allir þunglyndissjúklingar þekki fyrirbærið ágætlega af eigin raun. Fyrir utan almennan athyglisbrest mismæli ég mig alla vega í kross (sagði t.d. þrisvar sinnum “vettlingar” og meinti “trefill” núna í morgun) og man ekki orð, svo ekki sé nú minnst á nöfn.

Í fyrstu skiptin sem heilaþokan lagðist yfir mig, segjum fyrstu tuttugu skiptin, snarbrá mér og ég fór ævinlega að velta fyrir mér hvort ég væri komin með Alzheimer eða einhvern annan heilahrörnunarsjúkdóm. En svo lærir þunglyndissjúklingur eins og ég að þetta gengur ævinlega til baka, milli kasta. Maður verður bara að sætta sig við þetta meðan það varir – sem er ákaflega erfitt fyrir fullkomnunarsinna eins og mig. Versta tilvikið var 2010, þá lenti ég því að hafa steingleymt hvernig fitjað er upp! Nú fitjar maður ósjálfrátt upp og spáir ekki mikið í hvernig það er gert, alveg eins og þeir sem hlaupa, synda o.s.fr. eru ekki að velta því fyrir sér hvernig skref er tekið eða nákvæmlega hvernig bringusundsfótatak er framkvæmt. Þegar ég sat með garnið og prjónana og uppgötvaði að ég kunni ekki lengur að fitja upp, þarna um árið, féllust mér gersamlega hendur (og það einnig í bókstaflegri merkingu, eins og gefur að skilja). Ráðið? Ja, ég fór út að reykja og prófaði aftur, svona tíu mínútum síðar … þá kunni ég aftur að fitja upp 😉

Dagarnir eru svolítið misjafnir því inn á milli koma dagar þar sem mér finnst ég hafa háan hita og finn mikið fyrir jafnvægistruflunum og er flökurt. Á móti kemur að þá daga er ég þægilega sljó og slétt sama um allt, þ.á.m. eigin líðan. Aðra daga er ég betri tengslum við sjálfa mig og umhverfið.

Aðalatriðið er, finnst mér, að nota “Fake it till you make it”, velþekktan frasa úr alkageiranum. Svoleiðis að á hverjum morgni kem ég mér á lappir á skikkanlegum tíma, fer í sturtu og hrein föt og reyni svona svolítið að líta út eins og “snyrtileg kona á sextugsaldri” erkitýpan á að lúkka. (Þetta er sömuleiðis afbrigði af “clean and sober” alkalögmálinu …) Og klikka ekki á að mæta í vinnuna, þetta hlutastarf sem ég sinni. Enda þori ég alls ekki að sleppa því, það gæti allt eins verið að ég kæmist þá ekki til vinnu fyrr en eftir margar vikur. Hanga í helv. rútínunni, það er málið! Og fyrirgefa sér á hverjum degi að vera ekki fullkomin og mega segja þess vegna þrisvar sinnum vettlingar í staðinn fyrir trefill í eigin prjónakennslustund, eins og hver annar auli.

Sem betur fer snýr mitt þunglyndi þannig að mér líður skást á morgnana en verst seinnipartinn og á kvöldin. Það er heppilegt miðað við rútínu allra hinna, hinna heilbrigðu. Á kvöldin má hanga yfir sjónvarpinu, ég get fylgst með sjónvarpi ef ég prjóna á meðan (trix sem athyglisbrostnir hafa fattað fyrir óralöngu en ég efast um að það sé viðurkennt í geðlæknisfræðum). Ef sjónvarpsgláp er mér um megn spila ég ómerkilegan tölvuleik, Bubble Town. (Ég næ ekki nokkru sambandi við Candy Crush, sem allar hinar “snyrtilegu konurnar á sextugsaldri” spila þessa dagana, mér finnst hann leiðinlegur.) Ég gladdist mjög þegar ég las grein eftir þunglyndis-og kvíðasjúkling í einhverjum netmiðlinum fyrir skömmu, þar sem hún sagði frá því að hún spilaði Bejewelled ef hún væri mikið veik. Einstaka sinnum spila ég nefnilega Bejewelled undir sömu kringumstæðum, oftar þó Atomica eða Bubble Town en það skiptir ekki máli: Fyrir mig var mikilvægt og frábært að vita af öðrum sem nota sömu aðferð, ómerkilega “raða þremur saman” tölvuleiki til að kljást við þunglyndi.

Svona tekur maður einn dag í einu þangað til kastið rénar … sem það gerir alltaf á endanum. Og það er mikill léttir og stór plús að þurfa ekki að glíma við aukaverkanir geðlyfja á sama tíma, það er eiginlega bara fyrir fullfrískt fólk að éta svoleiðis! Þessar 20+ lyfjategundir sem ég hef gaddað í mig á mínum sjúkdómsferli hafa ekki haft neitt að segja til bóta sjúkdómnum en á hinn bóginn haft helling af neikvæðum verkunum í för með sér. Nú eru rúmar tvær vikur síðan ég steig síðustu tröppuna í niðurtröppun þunglyndislyfsins Míron, tók út síðasta tíundapartinn af dagskammti. Enda hrekk ég upp á hverri nóttu og fæ kölduhroll nokkrum sinnum á dag, en veit, af því ég hef skrifað niður hjá mér helstu einkenni niðurtröppunar síðan ég byrjaði að trappa lyfið niður í mars, að þessi einkenni hverfa eftir þrjár vikur á tröppunni. Sem nálgast óðfluga.  Sem betur fer, þannig séð, byrjaði þetta þunglyndiskast áður en ég steig síðustu tröppuna og sem betur fer, þannig séð, fékk ég slæmt kast í desember sem stóð svo í marga mánuði, verandi þó þá á ráðlögðum dagskammti af þessu þunglyndislyfi … svo ég þarf ekkert að ímynda mér að það að vera á eða hætta á þessu lyfi hafi haft nokkurn skapaðan hlut að segja í þunglyndinu. Klínísk reynsla mín af mér segir það 😉

Jæja: Í dag náði ég að líta út eins og erkitýpa snyrtilegu-konunnar-á-sextugsaldri, mæta í vinnuna, ljósrita helling (dásamleg iðja fyrir þá sem búa í heilaþoku) og útbúa þannig kennsluefni, fara á bókasafnið, ondúlera kettina, þvo nokkrar þvottavélar, blogga … Sem er flottur árangur miðað við heilsuna. Skítt með þótt ég hafi ekki náð að lesa neitt, treysti mér ekki til að prjóna munstur (og þ.a.l. liggja nokkur hálfkláruð prjónastykki tvist og bast hálfkláruð áfram), get ekki haldið áfram að vinna upp heimasíðuna mína í aulaheldu heimasíðuumhverfi á vefnum o.s.fr. Þetta verður allt klárað í fyllingu tímans þegar betur stendur á. Ég hef komist að því að “Aldrei fresta því til morguns sem hægt er að gera í dag” er alger steypa og að í rauninni er iðjusemi stundum rót alls ills …

6 Thoughts on “Þunglyndið

  1. Vala G on September 16, 2013 at 20:45 said:

    Alltaf er fróðlegt að lesa pistlana þína, Harpa. Takk fyrir skrifin og vonandi gengur þetta kast bráðum yfir. 🙂

  2. Hafrún on September 16, 2013 at 22:11 said:

    Það hefur sína ókosti að vera hættur að reykja. Kannski ég prófi að fara bara út og naga bílant næst þegar ég lendi í því að gleyma lykilorðinu að tölvunni – þessu sem ég hef notað í tæp 20 ár.

  3. Ég kannast við heilaþokuna, á tímabili varð hún svo mikil að ég hætti að kunna á flest forritin í tölvunni eins og excel og fótósjopp sem ég hef notað síðan um aldamót, svo hætti ég líka að kunna á myndavélina, þetta var hundleiðinlegur tími því það var fátt hægt að gera sér til skemmtunar. Svo tók ég mig til og hætti á þunglyndislyfjunum en það var reyndar heilmikill skammtur sem ég þurfti að taka inn vegna þess að mitt þunglyndi var svo rosalega djúpt (sagði læknirinn), en þá kikkaði heilinn inn aftur og ég hef ekki fundið fyrir þessari þoku síðan! Ég held að ég sé komin til botns í því að ég þjáðist af þunglyndi á tímabili en það var aldrei djúpt. Ég þurfti örugglega að taka inn þunglyndislyf á tímabili en hver í ósköpunum fylgist með því hvort lyfin eru að rústa manneskjunni eða lækna hana, ég var með kláða og heilaþolki og útbrot, heilu kýlin út um allt og núna þegar ég er alltaf að vakna betur og betur til lífsins eftir allt sem gerðist þá spyr ég sjálfa mig hvort ég, sjúklingurinn, hafi átt að vita það að ég var með lyfjaóþol eða átti læknirinn, sem skaffaði mér öll þessi lyf, að koma auga á það, hann gerði það allavega ekki en var alltaf að auka lyfin og bæta við tegundum. Jæja, ég ætlaði ekki að blogga hérna í athugasemdakerfinu þínu, varð allt í einu laus höndin á lyklaborðinu.

    Ég vona að þú hrökkvir í gang Harpa. Takk fyrir opin og einlæg skrif.

  4. Harpa Hreinsdóttir on September 16, 2013 at 23:55 said:

    Reykingar geta verið mikil guðsblessun geðsjúkum … að ég tali nú ekki um þurfi maður að leggjast inn á geðdeild því segja má að reykingar séu eina aktívitetið sem geðsjúkum býðst þar og eina ástæðan til að koma sér á lappir, fara undir bert loft o.þ.h. Reyklausir sjúklingar hafa akkúrat enga hvatningu til eins né neins á geðdeild. (Nema eta pillurnar sínar og bíða eftir næsta matartíma.)

    Ég hef einmitt áhyggjur af því að reykja of lítið, helv. þunglyndið virkar líka þannig að maður gleymir að reykja, hefur ekki áhuga á að reykja o.s.fr. þannig að kannski er allskonar boðaefnafokk í heilanum á mér útaf nikótínskorti núna 😉

    (En líklega er ódýrara og heilsusamlegra að skrifa niður lykilorðið og geyma einhvers staðar á góðum stað en að byrja aftur að reykja … Hafrún … athugaðu það …)

  5. Harpa Hreinsdóttir on September 17, 2013 at 00:10 said:

    Ég var ekki með neitt lyfjaóþol, aukaverkanir af geðlyfjum eru ógeð og þarf ekki óþol til að finna fyrir þeim. Og lyfjakokteilar úr allrahanda, þ.e.a.s. þegar byrjað er að bæta á mann pillum sem eru ætlaðar við allt öðrum geðsjúkdómum en þunglyndi versna áhrifin að mun. Ekkert lyfjanna dugði vitund við þunglyndi … mér hefði batnað sjálfkrafa eftir fyrsta kastið án Seroxats og í ljósi lyfjasögunnar/sjúkrasögunnar var næsti bati, af Míron (Remeron) líklega einnig sjálfkrafa bati. Í meir en áratug hefur ekki einu sinni geðlæknirinn minn (fyrrverandi) getað haldið því fram að nokkru ráði að mér hafi batnað nokkurn skapaðan hlut af lyfjum þótt hann hafi sýnt mikið hugmyndaflug í að ávísa nýjum og nýjum svoleiðis.

  6. Guðrún Björg Birgisdóttir on September 19, 2013 at 09:42 said:

    Ég les vanalega ekki blogg né skrifa athugasemdir, en fyrir tilviljun endaði ég inni á síðu þinni. Skrif þín eru ótrúleg saga um hugrekki og baráttuanda og hittu mig fyrir beint í hjartastað.
    Varð því að kvitta fyrir innlitið og þakka fyrir mig.
    Gangi þér sem allra best og endilega haltu áfram að skrifa.
    Guðrún Björg

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation