Prjónaði silkijakkinn hans Ottheinrich

Upplýsingar um silkijakka þýska greifans/hertogans og kjörfurstans Ottheinrich liggja hreint ekki á lausu, hvorki á vefnum né í prjónasögubókum. Samt er þetta ótrúlega merkilegur jakki/treyja því um er að ræða elstu prjónuðu flík sem varðveist hefur í Evrópu, að frátöldum sokkum og hönskum. Og auðvitað elsta prjónaða silkijakkann sem varðveist hefur. Þessi silkijakki er ólíkt hversdagslegri en síðar tíðkaðist, sjá færsluna Útprjónaðir silkijakkar frá sautjándu öld.

Hver var Ottheinrich?

OttheinrichOttheinrich, sem hét fyrst bara Otto Heinrich, fæddist árið 1502 og dó 1559. Afi hans var hertogi af Bæheimi og Ottheinrich fékk, í félagi við bróður sinn, yfirráð yfir nýju hertogadæmi, Herzogtum Pfalz-Neuburg, þegar hann hafði aldur til. Höfuðborg þess var Neuburg an der Donau.

Ottheinrich var hálfgerður útrásarvíkingur síns tíma. Hann barst mjög á, byggði t.d. kastala og safnaði listmunum, tók þátt í ýmsu valdabrölti og hélt sér á floti með nýjum og nýjum lántökum þótt hann væri löngu orðinn gjaldþrota. Að lokum hrökklaðist hann frá völdum en endurheimti þau seinna, var hækkaður í tign og gerður að kjörfursta yfir Pfalz Neuburg. Í síðari valdatíð sinni hlúði Ottheinrich mjög að listum og vísindum, átti frábært bókasafn, lét útbúa eitt glæsilegasta biblíuhandrit allra tíma, sem við hann er kennt, og margt fleira vann hann sér til ágætis.

Kannski er líka rétt að taka fram að þótt Ottheinrich hafi verið ljómandi myndarlegur maður á yngri árum, ef marka má málverk af honum, þá fitnaði hann mjög eftir því sem árin færðust yfir hann. Talið er að hann hafi verið hátt í 200 kg þungur síðustu árin sem hann lifði.

Silkijakkinn

Silkijakki OttheinrichJakkinn ber offitu Ottheinrich vitni því yfirvíddin er 2,20 metrar! Hann er prjónaður úr ólituðu silki og munstrið er ákaflega einfalt, s.s. sjá má sé smellt á litlu myndina af jakkanum sjálfum. Nánar tiltekið er munstrið úr lóðréttum röðum af samtengdum þríhyrningum sem eru prjónaðir brugðið á sléttum grunni. Hver munsturröð er 2,5-3 cm breið og hæðin á þríhyrningunum er 1 cm. Talning á umferðum og lykkjum á myndum bendir til þess að hann sé prjónaður úr grófara garni en síðari tíma útprjónuðu silkijakkarni, þ.e.a.s. prjónafestan virðist um 5 lykkjur á sentimetra. Sé smellt á myndina af jakkanum kemur upp stærri mynd af munstrinu.

Ottheinrich hefur líklega eignast þennan jakka í kringum 1540 því hans er getið í gögnum sem varðveist hafa. Af þeirri lýsingu að dæma hefur prjónaefnið verið keypt frá Ítalíu og jakkinn síðan sérsaumaður á karlinn.
Núna er þessi merkilegi jakki varðveittur á Heimatmuseum í Neuburg an der Donau í Bæjarlandi. Hér að neðan er mynd af nútímaeftirgerð jakkans, sem, eins og sjá má, rúmar léttilega fimm krakka.

Eftirl�king af silkijakka Ottheinrich

Aðalheimild:
Feyerlein, Heinrich. 1976. Eine Strickweste des Pfalzgrafen Ottheinrich. Neuburger Kollektaneenblatt. Jahrbuch 129/1976. Heimatverein – Historischer verein. Neuburg a.d. Donau. (Myndir af jakkanum og munstrinu eru skannaðar af ljósriti þessarar greinar.)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation