Klukkuprjón, seinni hluti

Í færslunni segir af  mörgum heitum og margháttuðu eðli klukkuprjóns.

 

Klukkuprjón hefur víðast hvar verið nefnt patent – prjón, heitið giska ég á að sé komið úr hollensku eða þýsku.  Á Englandi þekktust heitin Shawl Stitch, Reverse Lace Stitch, Oriental Rib Stitch, að sögn Mary Thomas (Mary  Thomas’s Book of Knitting Patterns, 1972 s. 193, fyrst útg. 1943) en algengast segir hún þó heitin Brioche Stitch eða English Brioche. Hún bendir jafnframt á að þótt enskir vilja nota franskt orð yfir prjónaðferðina þá sé hún kölluð enskt prjón í Frakklandi, þ.e. Point d’Angleterre.

 

Hér á landi virðist klukkuprjón einnig hafa verið kallað enskt prjón, ef marka má þýðingu Sigurjóns Jónssonar á endurminningum Gythu Thorlacius eða auglýsingar á borð við Þ. Stefánsdóttur og Sigtr. Jónssonar í Stefni 3. jan. 1893 s. 4: “Frá nýári tökum við að okkur að prjóna: Karlmannspeisur með ensku prjóni […] – með ensku prjóni samsettar – […] Pilz með ensku prjóni” og er ljóst að þau hafa yfir prjónavél að ráða. Sömuleiðis kemur fram í Maren. Þjóðlífsþáttum eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur, sem segja frá Maren, móðursystur höfundar, að laust eftir 1915 prjónaði eiginmaður Marenar trefla með ensku prjóni í prjónavél þeirra hjóna. (Sjá Tíminn Sunnudagsblað, jan. 1972, s. 27. )


Til að flækja málin getur heitið enskt prjón  merkt annað á íslensku, sbr. uppskrift að útifötum á börn í Fálkanum 5. maí 1939 s. 10. Þar er talað um “enska brugðningu” eða “enskt prjón”. Skv. lýsingu í uppskriftinni er þarna um að ræða “Mistake rib“, sem komist hefur í tísku undanfarið ef marka má Netið, en ekki klukkuprjón.
Í My Knitting Book eftir Miss Lambert, sem kom út árið 1842 og varð gífurlega vinsæl (eins og aðrar hannyrðakennslubækur þeirrar ágætu konu) er klukkuprjón nefnt brioche og segir að heitið sé dregið af velþekktu frönsku bakkelsi, nokkurs konar bollu, sem heitir Brioche. Orðskýringu fröken Lambert er að finna í uppskrift að fótskemli, púða, sem er vissulega glettilega líkur svona franskri bollu, s. 22. (Krækt er í stafræna sjöundu útgáfu bókarinnar.) Svoleiðis klukkuprjónaðir fótskemlar virðast hafa notið mikilla vinsælda á Viktoríutímunum og voru stundum kallaðir tyrkneskir púðar (Turkish Cushion), sem gæti einmitt skýrt nafngiftina sem Mary Thomas minnist á, Oriental Rib Stitch. Í sömu bók Miss Lambert er uppskrift að rússnesku sjali með klukkuprjóni (A Russian Shawl, in Brioche Stitch) sem gæti þá skýrt af hverju heitið Shawl Stitch þekktist yfir klukkuprjón meðal enskra.

Raunar er sömu uppskrift að Brioche fótskemlinum hennar Miss Lambert  að finna í Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir, útg. 1886 (Sjá uppdrætti 250 og 269). Í íslensku bókinni segir um púðann: “Fótskör þessi á að vera kringlótt í laginu, bungumynduð, með hvilft í miðjunni, hún er troðin út með ull, vel þuru heyi eða marhálmi. Innra borðið er úr striga að öðru sterku efni, en yfirborðið er prjónað eptir 250. uppdr. og skýrir fyrirsögn á 250. uppdrætti frá, hvernig prjóna skal.” En 250. uppdráttur var einmitt leiðbeiningarnar í klukkuprjóni sem vísað var til í fyrri færslu.

Hér að neðan sjást myndir af þessari Brioche-fótskör. Önnur myndin er úr bók Miss Lambert, The Hand-book of Needlework by Miss Lambert (F.), útg. 1842. s. 200, og krækir í stafræna útgáfu bókarinnar.  Hin myndin er úr Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir.

 

Klukkuprjónaður fótskemill Klukkuprjónaður fótskemill

 

 Klukkurnar hafa runnið sitt skeið enda konur löngu farnar að ganga í brókum yst sem innst. Yngsta dæmi um íslenskar prjónaklukkur sem ég fann er frá 1944, þ.e. frétt um að stofnuð hafi verið samtök prjónakvenna á Ísafirði og kauptaxta félagskvenna. Í honum eru  “Prjónaklukkur” taldar upp undir “Kvenfatnaður:” Skutull 29. jan. 1944, s. 14.  Hafi einhver áhuga á íslenskum prjónaklukkum má benda á fróðlega bloggfærslu Steinunnar Birnu Guðjónsdóttur frá því í ágúst sl., þar sem hún birtir hluta af verkefni sínu í þjóðfræðinámi í HÍ, þ.á.m. orðrétt svör við spurningum Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins um prjónaklukkur.

 

En klukkuprjón í ýmsum útgáfum gengur nú í endurnýjun lífdaga, ef marka má áhuga á erlendum prjónasíðum. Einkanlega á þetta við um tvílitt klukkuprjón, langoftast kallað brioche, sem er sáraeinfalt að prjóna í hring , eilítið meira vesen er að prjóna það fram og til baka.
Í töflunni hér að neðan eru myndir af ýmsum afbrigðum klukkuprjóns og heitum þeirra á íslensku, ensku og skandinavísku. Litlu myndirnar krækja í myndbönd á Garnstudio.no sem sýna prjónið. Ath. að nú má stilla Garnstudio.no á íslensku og lesa textann við myndböndin á íslensku.

Aðferð Íslenskt heiti Skandinavískt heiti Enskt heiti
  • Klukkuprjón
  •  Helpatent
  • Fisherman’s Rib;
  • English Rib;
  • Brioche stitch
Klukkuprjón í hring
  • Klukkuprjón prjónað í hring

á hringprjóna

  • Patent rundt på

rundpinde

  • Fisherman’s Rib in the

round

Hálfklukkuprjón
  • Hálfklukkuprjón;
  • Klukkuprjón – hálft
  •  Halvpatent
  • Shaker Rib;
  • Half Fisherman;
  • Half Fisherman’s Rib;
  • Embossed Rib
Hálfklukkuprjón bara sléttprjónað
  • Hálfklukkuprjón eingöngu sléttprjónað;
  • Klukkuprjón einungis

með sléttum lykkjum

  • Patent kun med

retmasker

  • Fisherman’s Rib with

Knit stitches only

Falskt klukkuprjón
  • Falskt klukkuprjón;
  • Klukkuprjón – afbrigði
  •  Falsk patent
  • False Fishermans Rib;
  • Fake Fisherman
 Tvílitt klukkuprjón
  • Tvílitt klukkuprjón;
    Klukkuprjón – tveir litir
  •   Patent i tvo farver
  • English Rib in two colours;
    Brioche

 

 

 
P.S. Loks má geta þess að klukkuprjón gat hentað til annarra mikilvægra nota en að prjóna klukkur, trefla, nærföt o.þ.h., sem sjá má hér

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation