Ef sjúklingur vill setja sig inn í eigin sjúkdóm

eru til þess nokkrar leiðir, sem ég ætla að gera grein fyrir í þessari og næstu færslum. Ég geri fyrirfram ráð fyrir að um sé að ræða sjúkling með þrálátan (krónískan) sjúkdóm eða sjúkling sem ekki telur sig fá fullnægjandi þjónustu frá þeim lækni/læknum sem hann hefur leitað til.

Sjúkraskrá og niðurstöður rannsókna

Fyrsta skrefið hlýtur að vera að setja sig inn í þau gögn um krankleikann sem liggja fyrir. Að frátöldum undantekningartilvikum á sjúklingur rétt á afriti af sjúkraskrá sinni, skv. lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009, enda á sjúklingurinn sjúkraskrána þótt hún sé vistuð á heilbrigðisstofnun. Allar rannsóknarniðurstöður (t.d. úr blóðprufum, myndatökum o.fl.), læknabréf frá sérfræðingum til heimilislæknis o.s.fr.  tilheyra sjúkraskrá.

Sjúklingur þarf ekki að gefa upp neina ástæðu fyrir ósk um afrit af sjúkraskrá og á að hafa samband við „umsjónarmann sjúkraskrár“ sem er yfirleitt ekki læknir sjúklingsins heldur annar aðili, gæti t.d. verið yfirmaður heilsugæslustöðvar. Líklega er best að hringja í ritara heilsugæslustöðvar/sjúkrahúss/læknis til að kanna hvaða aðili þetta er. Sjá nánar um þetta síðuna Sjúkraskrá á vefsetri Embættis landlæknis og svör Persónuverndar við spurningum um aðgang að sjúkraskrá (og gögnum tengdum örorkumati, sem verður að hluta að sækja á grundvelli persónuverndarlaga og að hluta á grundvelli upplýsingalaga).

Oftast þarf læknir sjúklingsins að lesa yfir sjúkraskrána áður en hún er afhent til að afmá allt sem haft er eftir þriðja aðila, þ.e.a.s. upplýsingar sem ekki eru frá sjúklingi eða heilbrigðisstarfsmanni komnar. Þetta er í verkahring læknisins og óþarft fyrir sjúkling að vorkenna honum fyrir þessa vinnu, þetta er ekki ólaunuð aukavinna eða greiði við sjúklinginn.

Sjúklingur kann að þurfa að borga fyrir afritið, það er misjafnt eftir stofnunum innan heilsugæslunnar.

Í samræmi við fyrrnefnd lög er ágæt regla að fá jafnóðum afrit af rannsóknarniðurstöðum og halda þeim saman í möppu. Setjum sem svo að sjúklingur fari í blóðprufu; þá er best að mæta fljótlega í viðtal við heimilislækninn til að fá helstu niðurstöður en fá í leiðinni útprent af niðurstöðunum, sem læknirinn getur prentað úr eigin tölvu á staðnum.

Sjúkraskrár eru yfirleitt auðskiljanlegar. Þó getur komið fyrir að einhver hluti textans sé skrifaður á hrognamáli, yfirleitt latínuskotnu (og þá yfirleitt þannig að það fer hrollur um latínulærða sjúklinga). En flestir læknar eru þokkalega skrifandi á íslensku, skv. minni reynslu.

Mín reynsla er sú að það gengur tiltölulega hratt og vel að fá afrit af eigin sjúkraskrá og útprentanir af rannsóknarniðurstöðum eru afhentar orðalaust. Eina undantekningin frá þessu var fyrrverandi sérfræðilæknir minn sem sá ástæðu til að hringja í mig og þýfga mig um af hverju ég vildi fá þetta afrit, hvort ég ætlaði kannski að skrifa bók?, spurði hann. Almennt kemur læknum það ekkert við af hverju sjúklingur vill afrit af sjúkraskrá og ég hygg að það sé afar fátítt að fá upphringingar eftir slíka beiðni.

Næst verður fjallað um hvernig sjúklingur getur leitað upplýsinga og umfjöllunar um sinn sjúkdóm á Netinu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation