Lambhúshettur í stríði og friði

Allir Íslendingar þekkja lambhúshettur enda nytsamt höfuðfat í svo köldu landi. En svona höfuðfat er dálítið merkilegt fyrir þær sakir að það er bæði tengt fiskeríi og styrjöldum, börnum og glæpamönnum, útivist og uppþotum og mörgu því öðru sem ólíkt er. Hér verður stiklað á stóru um ólík hlutverk lambhúshetta í rás sögunnar.

Á íslensku þekktust áður bæði nöfnin lambhúshetta og Mývatnshetta skv. Íslenskum þjóðháttum Jónasar Jónassonar, sem fæddist 1856. Í bókinni er þessi mynd af sauðsvörtum eða gráum hettunum til að sýna muninn:

Lambhúshetta eða Mývatnshetta

Nú er fátt hægt að hugsa sér friðsælla en fjárhús fullt af lömbum og íslenska heitið því einkar fallegt. En lambhúshettan hefur samt ekki hvað síst verið vinsæl í stríði. Eiginkonur, dætur og mæður hafa keppst við að prjóna lambhúshettur á sína karlmenn sem hímdu skjálfandi á vígstöðvunum.

Balablava í Krímstríðinu

Balaclava í Krímstríðinu

Á ensku og fleiri málum er lambhúshetta kölluð balaclava. Nafnið er dregið af orustunni við Balaclava, mikilvægri orustu í Krímstríðinu, sem stóð 1853-56. (Í því stríði börðust Englendingar og fleiri við Rússa um yfirráð yfir Krímskaga en hann tilheyrir nú Úkraínu.) Margir halda að lambhúshettan hafi verið fundin upp í þessu stríði en það er ekki rétt því árið 1848 var sótt um einkaleyfi á nákvæmlega eins flík á Englandi. Orustan við Balaclava tengist raunar fleiru í prjónasögu en lambhúshettum því í henni börðust bæði Jarlinn af Cardigan, en eftir honum heita hnepptar peysur cardigan á ensku, og Raglan lávarður en eftir honum heitir sérstök axlastykkisúrtaka (sem á íslensku er gjarna kölluð laskaúrtaka). Sá fyrrnefndi þótti sýna mikla hetjudáð í umræddri orustu en hinum síðarnefnda eru kenndar ýmsar ófarir.

Lambhúshetta úr Þrælastríðinu

Lambhúshetta úr Þrælastríðinu

Þessi lambhúshetta var prjónuð handa John T. Gilmore, yfirforingja og herlækni í liði Suðurríkjamanna í Þrælastríðinu/Bandaríska borgarastríðinu sem stóð 1861-1865. Sem stríðinu vatt fram varð æ meiri skortur á klæði og garni í Suðurríkjunum. Lambhúshettan er greinilega prjónuð úr alls konar afgöngum.

Lambhúshetta fyrir hermenn í fyrri heimstyrjöldinni.

Lambhúshetta fyrir hermenn í fyrri heimstyrjöldinni.

Forsíða þýska kvennablaðsins Die Schachenmayrin í ágúst 1942.

Forsíða þýska kvennablaðsins Die Schachenmayrin í ágúst 1942.

Í síðari heimstyrjöldinni hvöttu allir stríðsaðilar heimaverandi löndur sínar til að prjóna, ekki hvað síst lambhúshettur.

 

 

Lambhúshettur fyrir glæpamenn

Heilar lambhúshettur með göt fyrir augu og munn eru oftast tengdar glæpamönnum.

Í Noregi hefur lambhúshettan verið kölluð finlandshette til skamms tíma. Það heiti er náttúrlega ættað úr stríði.  Norðmenn lögðu nefnilega allt kapp á að prjóna lambhúshettur handa finnsku hermönnunum í Vetrarstríðinu 1939 (en þá réðust Sovétríkin á Finnland). Sagt er að finnski ambassadorinn í Noregi hafi beðið dagblöð nútímans að hættað nota orðið finnlandshetta þegar þeir minnast á lambhúshettu í fréttum því hún er núorðið svo mjög tengd allra handa skúrkum og öfgasinnum í pólitík, sem ekki vilja þekkjast. Það þarf því ekki að koma á óvart að í Svíþjóð er lambhúshettan oft kölluð rånarluva(ræningjahúfa) en stundum skidmask (skíðagríma) sem er ólíkt saklausara orð. Frændur vorir Danir kalla hana hins vegar elefantlue eða elefanthue (fílshúfu) og kann ég enga skýringu á því heiti.

 

Perúsk lambhúshetta

Perúsk lambhúshetta

Kannski áttu einhverjir íslenskir krakkar svona skrautlegar perúskar lambhúshettur áður fyrr, ég veit a.m.k. að tengdamóðir mín prjónaði svona handa sínum krökkum um 1970 eftir að hafa séð mynd af dýrindinu í dönsku blaði. En skrautlegar lambhúshettur eru svo sem ekkert endilega grín svo sem sjá má á næstu mynd.

Pussy Riot

Pönksveitin Pussy Riot og þeirra stuðningsmenn sérkenna sig með litskrúðugum lambhúshettum

 

Til að enda pistilinn á jafn friðsælum nótum og hann byrjaði er mynd af friðsömu íslensku barni í lambhúshettu. Ég veit að margir lesendur kannast prýðilega við lambhúshettur af þessu tagi.

Atli Harðarson

Þetta er skólameistarinn á Akranesi á yngri árum. Myndin var tekin 1961.

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation