Meistarastykki

Agnus Dei knitting

Lamb guðs, miðja prjónateppis

 

Frá því á fjórtándu öld varð handprjón lögvernduð iðngrein víða í Evrópu, þ.e.a.s. prjónameistarar störfuðu í samtökum sem kölluð voru gildi. Eftir því sem prjónagildum óx fiskur um hrygg urðu inntökuskilyrði strangari. Talið er að á sautjándu og átjándu öld hafi tekið allt upp í sex ár til að læra til meistararéttinda í prjóni. Að sjálfsögðu voru bara karlmenn í þessum prjónagildum eins og í flestum iðngildum öðrum á þessum tíma.

Misjafnt var  hvers lags stykkjum prjónasveinn þurfti að framvísa til meistararéttinda en víða á svæðum sem lutu þýskri stjórn var prjónateppi eitt þeirra. Teppi er kannski dálítið misvísandi orð því svona meistarastykki voru notuð sem veggteppi, borðdúkar, rúmábreiður o.fl. Skv. heimildum tók það prjónasvein oftast 2-3 mánuði að prjóna teppi en dæmi eru um að það hafi tekið hálft ár eða verið full vinna árið allt.

Fyrir heimstyrjöldina síðari voru þekkt 28 slík teppi/reflar en a.m.k. átta þeirra voru eyðilögð í stríðinu (flest í Póllandi). Nú er vitað með vissu um 18 af þessum meistarastykkjum auk eins sem er óheilt. Þau eru dreifð um söfn í Evrópu og í Bandaríkjunum eða jafnvel í einkaeigu. Flest þekktustu teppin eru frá Slésíu (héraði sem er nú í Póllandi) og Alsace/Elsass (sem ýmist hefur tilheyrt Frakklandi eða Þýskalandi.

 

Knitted carpet

Jean George Mueller prjónaði þetta teppi 1748.

 

Þetta teppi er varðveitt í Musée de l’Œuvre Notre-Dame í Strassburg. Það var prjónað í Alsace/Elsass árið 1748. Nafn prjónameistarans er þekkt, Jean George Mueller. Teppið er 1,92 x 1,70 metrar, prjónað úr tíu mismunandi litum af ullargarni. Í miðjunni er mynd af guðslambinu og textinn sem aðskilur borða á jöðrum og aðalmyndina er úr velþekktum páskasálmi frá Alsace/Elsass:

O lamb Godes unscvltig am stamen des creidz geschlact alzeid gefvnten gedvldig wiewol dv wahrest veracht ale sind has dv gedragen sons miesten mir verzagen erbarm dich vnser o Iesv gib vns den friten o Iesu Amen.

 

Knitted carpet

Þetta teppi er líka meistarstykki frá Alsace/Elsass, frá 1781. Það er varðveitt í Victoria & Albert Museum í London. Teppið er 193 sm að hæð og 174,5 sm breitt. Myndefnið er eitt af þeim vinsælustu á prjónateppunum frá Alsace, þ.e.a.s. Draumur Jakobs. Í stuttu máli sagt þá var Jakob sá sem plataði frumburðarréttinnn út úr Esaú bróður sínum fyrir baunadisk, lagði seinna land undir fót,  á leiðinni lagði hann sig með stein fyrir kodda og dreymdi merkilegan draum:

Honum þótti stigi standa á jörðu og ná til himins og englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.Þá stóð Drottinn hjá honum og mælti: „Ég er Drottinn, Guð Abrahams, föður þíns, og Guð Ísaks. Það land, sem þú hvílist á, gef ég þér og niðjum þínum. Þeir munu verða fjölmennir sem duft jarðar og breiðast út til vesturs, til austurs, til norðurs og suðurs og allar ættkvíslir jarðarinnar munu blessun hljóta í niðjum þínum. (Sjá 1. Mósebók 25:10 o.áfr.)

Í kringum aðalmyndefnið er textinn: „Hilfe wirt Gott ferner schicken meinen Feinden zum Verdrus.“ (Guð mun halda áfram að senda hjálp þrátt fyrir óvini mína.) Efst í aðalmyndarammanum er svo nafn guðs, Jahve, ritað á hebresku.

Neðst á prjónateppinu sjást þau hjúin Adam og Eva í Paradís, um það bil að fara að gadda í sig eplum af skilningstré góðs og ills.

Sjá má mynd af teppinu og stækkaðan bút úr því á vef V&A safnsins.

 

Enn eitt teppið, frá 1791, má sjá á vef Metropolitan-safnsins í New York, en myndin af því er því miður svarthvít. Í lýsingu ættaðri frá safninu segir að grunnurinn sé grár, mynstrin í bleikum, bláum, hárauðum, grænum, gulum og svörtum litum; tvíhöfða örninn er svartur, ljónin rauð, einhyrningarnir ljósbrúnir og páfuglarnir dökkbláir.

 

Enginn veit hvernig þessi teppi voru nákvæmlega prjónuð, þ.e.a.s. hvort einhvers konar vél eða græja (knitting frame) hafi verið notuð við verkið. Teppin eru prjónuð fram og tilbaka. Flestir eru á því að einfaldlega hafi verið raðað mörgum prjónum í lykkjur hverrar umferðar, giskað er á 3-4 mjög langa prjóna, og prjónað af einum á annan. Sömuleiðis er erfitt að finna upplýsingar um prjónafestu því mörg teppanna voru þæfð, jafnvel svellþæfð og því ómögulegt að greina einstakar lykkjur.

 

Heimildir aðrar en krækt er í úr textanum

Turnau, Irene og K.G. Pointings. 1976. Knitted masterpieces. Textile History 7, s. 7-23.
Turnau, Irene. 1982. The Knitting Crafts in Europe from the Thirteenth to the Eighteenth centuryThe Bulletin of the Needle and Bobbin Club 65:1 og 2, s. 20-42.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation