Leit að upplýsingum um sjúkdóm á Netinu

Netið er eins og bóksafn heimsins alls: Þar ægir saman vönduðum fræðum, þekkingarmolum og algeru drasli. Vandinn er að skilja sauðina frá höfrunum, að þekkja í sundur öruggar upplýsingar og bull.

Einnig þarf að greina sundur upplýsingar sem kunna að nýtast sjúklingi prýðilega og upplýsingar sem læknir sjúklingsins er líklegur til að samþykkja að séu traustar: Þetta tvennt fer alls ekki alltaf saman. Ein leiðin til að auðvelda manni þetta er markviss leit.

Leit að efni á íslensku

Setjum sem svo að sjúklingur sé með ofvirkan eða vanvirkan skjaldkirtil, annað hvort greindan af lækni eða sjúklinginn gruni að hann þjái annar hvor kvillinn. Ég gef mér, í eftirfarandi texta, að sjúklingurinn sá hafi enga þekkingu á skjaldkirtli og mjög litla reynslu af leit á Netinu.

Líklega myndu flestir byrja á að leita í Google og slá einfaldlega inn leitarorðið skjaldkirtill. (Sé sjúklingurinn alger byrjandi borgar sig að stilla Google líka á Myndir til að sjá hvar þetta líffæri er og hvernig það lítur út.)

Í þessu tilviki reynist venjuleg leit á Google prýðilega: Á fyrsta skjá birtast upplýsingar sem ætla má að séu áreiðanlegar, t.d. krækjur í tvö svör á Vísindavef og krækja í viðtal við innkirtlasérfræðing. En þarna er líka íslensk Wikipediasíða sem er hvorki fugl né fiskur, óvirk krækja í glósur úr einhverju kennsluefni í framhaldsskóla (FSS), bloggsíða sem vísar aðallega í efni annars staðar, síða hómópata (sem kann að vera ágæt en að nefna hómópata við suma lækna virkar svipað og að veifa rauðri dulu framan í naut) og síðan http://skjaldkirtill.info/, sem þrátt fyrir nafnið geymir fáar upplýsingar, skýringar eða fræðslu en er ágætis auglýsing fyrir lækni sem býður þá þjónustu að túlka blóðpróf gegn greiðslu.

Á næsta skjá er líka bland í poka, t.d. síðan http://www.skjaldkirtill.com/. Hún er að vísu merkt lógói Félags um skjaldkirtilssjúkdóma (sem engar upplýsingar eru um) en er langt í frá hálfkláruð auk þess sem enginn ábyrgðaraðili/höfundur er skráður fyrir henni. Almennt borgar sig ekki að taka mark á nafnlausum textum. Þessi síða gæti vel orðið góð einhvern tíma i framtíðinni en stenst ekki mál núna. Aftur á móti má ætla að lestur á síðunni Innkirtlasjúkdómar: vefsíða fyrir læknanema, sem birtist á öðrum skjá í almennri Google leit minni, skili einhverjum áreiðanlegum upplýsingum, auk þess sem hún segir örugglega eitthvað til um hvað læknanemum er innrætt í námi um skjaldkirtilsvandamál.

Markviss leit

Í þessu tilviki er sjúklingurinn ákveðinn í að afla sér fræðslu sem læknir gæti ekki sett út á. Það sem læknar setja ekki út á er aðallega efni eftir aðra lækna, þetta er með afbrigðum samheldin stétt.

Ef sjúklingurinn ákveður nú að leita í Læknablaðinu kemst hann strax að því að leitarvélin þar er handónýt: Leitarorðið skjaldkirtill skilar 7 niðurstöðum. Engar upplýsingar fylgja niðurstöðunum og raunar er augljóst að tvær þeirra, sem báðar heita Eldgos og heilsa, eru ólíklegar til að fræða sjúkling neitt um skjaldkirtilsvandamál.

Sem oft reynist Google besta leitarvélin. En í þetta sinn notar sjúklingur möguleikann á að leita að ákveðnu orði á ákveðnu vefsvæði. Það er gert með því að skrifa í leitargluggann:
site:slóð_vefsvæðis leitarorð

Google Læknablaðið

Þessi leitaraðferð skilar 8 skjáfyllum af því efni þar sem skjaldkirtill er nefndur og er aðgengilegt á laeknabladid.is. Fyrir utan titil hverrar krækju birtast tvær línur af texta þar sem orðið kemur fyrir og oft dugir það samhengi til að sjá í hendingskasti hvort borgi sig að lesa greinina/skoða efnið.

Efni Læknablaðsins sem er aðgengilegt á vef nær ekki nema aftur til ársins 2000. Þess vegna borgar sig stundum að leita í öðru safni læknisfræðilegra íslenskra greina sem heitir Hirsla og er gagnasafn Landspítala-háskólasjúkrahúss. Þar má finna greinar sem hafa birst í eldri tölublöðum Læknablaðsins en frá 2000 og einnig fræðigreinar sem hafa birst annars staðar. Slóðin er hirsla.lsh.is

Á Hirslu er miklu skárri leitarvél en á Læknablaðinu. Leitarorðið skjaldkirtill skilar þar 17 niðurstöðum, raunar er samt augljóst af titlum að sumar greinarnar fjalla um allt annað. En Google hefur enn vinninginn í að þefa uppi efni: Leit með site:hirsla.lsh.is skjaldkirtill skilar um 30 niðurstöðum og sem fyrr er leitarorðið í samhengi í tveggja línu texta sem auðveldar að sigta út nýtilegt efni.

Ég ráðlegg uppdiktaða sjúklingnum einnig að leita með site:landlaeknir.is skjaldkirtill og site:doktor.is skjaldkirtill. Síðarnefnda vefsetrið hefur því miður fokkað upp sínum innviðum og því er ekki víst að krækjurnar sem Google finnur virki allar en sumar þeirra gera það.

Væri ég að leita að einhverju öðru en fróðleik um skjaldkirtil, segjum fróðleik um hjartsláttartruflanir, mundi ég einnig Google site-leita á skemman.is (safni lokaritgerða í háskólum) en skjaldkirtilsleit skilar þar fáu bitastæðu. (Ritgerðir háskólanema eru afar misjafnar að gæðum, sem annars vegar fer eftir deildum og hins vegar er góð almenn regla að taka ekki alltof mikið mark á BA/BS ritgerðum.) Leitarvélin á Skemmu sjálfri er sama marki brennd og leitarvél Læknablaðsins svo ég mæli enn og aftur með Google site leit.

Loks myndi ég athuga hvort eitthvert efni annað en það sem ég hef þegar fundið er að finna á bókasöfnum og leita í skráningarkerfi bókasafna á gegnir.is. Það kerfi tengir einnig í stafrænt efni (þ.e. efni sem er aðgengilegt á Vefnum).

Niðurstaða

Íslenskt málsvæði er pínulítið og íslenskir læknar ekkert alltof duglegir að skrifa/birta efni. Því tekur skamma stund að finna allt það fræðilega efni sem er í boði um skjaldkirtilssjúkdóma á íslensku, á Netinu. Söm væri raunin með flesta aðra sjúkdóma svo þeir sjúklingar sem geta lesið texta á öðrum málum (oftast ensku) byrja mjög fljótlega að leita sér upplýsinga á þeim. Næsta færsla fjallar um hvernig maður leitar í erlendum fræðigreinum. Þá verður tekið dæmi af öðrum krankleika.

P.s. Þótt þessi færsla fjalli einkum um markvissa leit að sæmilega fræðilegu efni á íslensku um skjaldkirtil/skjaldkirtilsvandamál er ekki þar með sagt að ég telji að annað efni komi sjúklingum ekki að gagni. Umfjöllun um aðra kosti má t.d. sjá í nýlegri bloggfærslu minni, Sjúklingar, læknar og samfélagsmiðlar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation