Ég vinn nú undirbúningsvinnu fyrir annað bindi í Sögu Sögu Akraness. Þetta er tímafrek vinna og minnir í rauninni meir á sakamálarannsókn en sagnfræðirannsókn að því leytinu að gögn leynast víða og verður að rekja sig að þeim eftir alls kyns vísbendingum sem maður finnur á ótrúlegustu stöðum.
Ég lauk fyrsta bindinu í Sögu Sögu Akraness í júlí 2011. Síðan hef ég bloggað örfáar bloggfærslur á stangli um framhaldið (sjá efnisflokkinn Saga Sögu Akraness á gamla blogginu mínu). Þegar ég komst að því að sagnaritari Sögu Akraness hefði verið á launum hjá Akraneskaupstað bæði árið 2012 (sem ég vissi) og árið 2013 (sem ég vissi ekki) og jafnvel árið 2014 (sem ég veit nú að slapp fyrir horn, þ.e. við bæjarbúar sluppum við að horfa upp á bæjarstjórnina spreða í hann pening en það er ekki bæjarstjórninni að þakka) ákvað ég að kanna þessi mál og óskaði eftir gögnum frá bænum. Það var af því að fyrir tilviljun sá ég sundurliðað yfirlit ársreikninga og fjárhagsáætlun bæjarins á bóksafninu og áttaði mig á að samningurinn sem Árni Múli Jónasson þáverandi bæjarstjóri beitti sér fyrir að gerður yrði við Gunnlaug Haraldsson sumarið 2012, að hluta upp á krít, hélt þótt Árni Múli væri væri látinn axla sín skinn. Af því óvart hefur verið tekinn upp meir en klukkustundarlangur þáttur af þögn einmitt þegar bæjarstjórnin var að ræða fjárhagsáætlun seint á árinu 2013 – og umræða er ekki bókuð í fundargerðum bæjarstjórnar af því menn eiga að geta hlustað á hana í hljóðskrá – veit ég ekki einu sinni hvort þetta hefur neitt verið rætt opinberlega í bæjarstjórninni … En sem sagt: Ég óskaði eftir gögnum frá Akraneskaupstað, t.d. samningnum, fylgiskjölum, yfirliti yfir greiðslur til Gunnlaugs og einni fundargerð Ritnefndar sem ég sá að greidd höfðu verið nefndarlaun fyrir, í þessu sundurliðaða yfirliti á bókasafninu.Til öryggis bætti ég við ósk eftir öðrum gögnum sem tengdust þessu.
Þegar þau gögn bárust eftir dúk og disk (nánar tiltekið bárust gögn sem ég óskaði eftir þann 6. október mér þann 1. desember, örfá plögg vel að merkja) kom ýmislegt í ljós. Í þeim leyndust ekki ein heldur tvær fundargerðir Ritnefndar um Sögu Akraness sem aldrei höfðu verið birtar opinberlega. Í eldri fundargerðinni kom í ljós að Ritnefndin hafði skilað 8 “bréfabindum” úr fórum sagnaritara bæjarins, Gunnlaugs Haraldssonar, seint á árinu 2012, til skjalasafns bæjarins. Þetta áttu, skv. lýsingu, að vera afrit frumgagna sem sagnaritarinn hefði aflað og nýtt til ritunar Sögu Akraness I og Sögu Akraness II en þyrfti ekki á að halda við framhaldsritun Sögu Akraness. Gunnlaugur Haraldsson hefur áður lýst yfir því örlæti að ómetanleg ljósrit hans af frumgögnum yrðu látin af hendi svo þau mættu nýtast öðrum sem vildu glöggva sig á sögu Akraness og byggja á almennilega fræðilegum gögnum sem hann hefur aflað af sinni miklu elju.
Næst lá leiðin á skjalasafnið. Ég nýt þess vafasama heiðurs að vera fyrsta manneskjan sem skoðar þessi gögn. Raunar er ég alls ekki búin að skoða þau því þetta virðist slíkur fjársjóður að það tekur langan tíma að fara í gegnum þau og mér tókst á fyrsta degi að klára tónerinn í ljósritunarvél bókasafnsins og þar með er ég í tímabundinni pásu uns nýr tóner kemur. Í fyrsta kassanum er nefnilega handritið að sögu Jóns Böðvarssonar að Akranes II (sem átti að spanna tímabilið frá 1885 til ?), það handrit afhenti Gísli Gíslason þáverandi bæjarstjóri og formaður Ritnefndar Gunnlaugi árið 1997 og hefur ekki til þess spurst síðan. Ég hef leitað talsvert að þessu handriti án árangurs – en nú er ég búin að finna það og ákvað að ljósrita og lesa.
Alls kíkti ég í þrjá skjalakassa. Í þeim kenndi ýmissa grasa, m.a. afrita af samingum sem Gunnlaugur Haraldsson hefur gert um ýmislegt annað en ritun Sögu Akraness. Þarna fann ég samning um ritun IV. bindis Æviskráa MA stúdenta, samning um ritun sögu á Long ættarinnar og svolítið af týndum gögnum sem hefðu átt að fylgja fundargerðarbókum Ritnefndar um Sögu Akraness. Má nefna frumrit af bréfskiptum Gísla Gíslasonar og Jóns Böðvarssonar á árinu 1994, en þá var Jón Böðvarsson sagnaritari bæjarins og Gunnlaugur Haraldsson sat ekki í Ritnefndinni. (Akranes, saga Jóns Böðvarssonar til 1885, kom úr 1992.) Ég er svolítið hissa á að sjá að svona gögn skuli hafa ratað úr fórum Ritnefndar um Sögu Akraness til Gunnlaugs Haraldssonar og sé raunar ekki hvaða gagn sá síðarnefndi hefði mögulega getað haft af þeim.
Eitthvað pínulítið sá ég í einum kassanum af ljósritum af hinum merkilegu frumgögnum en á eftir að skoða þau betur. Raunar þarf náttúrlega að fara skipulega í gegnum alla kassana (skjalasafnið hefur skipt hinum 8 bréfamöppum upp í 10 skjalakassa) til að skoða dótið sem þar kanna að leynast inn á milli. Ef ég verð heppin finn ég kannski ómetanlegar frumheimildir sem snerta prjónasögu í ómetanlegu gögnunum, a.m.k. þótti mér ljósrituð Uppskrift Guðmundar Þorlákssonar af Bréfabók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1657-1658 dálítið interessant, sérstaklega ef þessi Guðmundur hefur verið svo natinn að skrifa upp öll bréfin með sinni ljómandi skiljanlegu rithönd árið 1900-1901 og Gunnlaugur ljósritað alla uppskriftina. Jafnfram velti ég því fyrir mér hvort frumrit bréfabóka Brynjólfs sé að hluta glatað úr því Gunnlaugur þurfti að styðjast við uppskriftina.
En, sem sagt: Ég grautaði aðeins í þremur kössum og datt svo ofan í ljósritun týnda handritsins og er ekki komin lengra í að skoða þessi merkilegu gögn (sem eru þó aðeins brot af gögnum Gunnlaugs, líklega þarf hann enn á hátt í 192 bréfbindum með merkilegum gögnum að halda til að skrifa framhaldsbindin tvö, sbr. frétt Skessuhorns/inngang að viðtali við Gunnlaug Haraldsson þann 13. apríl 2011. Sem er eins gott því okkar góða skjalasafn er ekki í það stóru húsnæði.)
Það má telja nýjum vöndum sem nú sópa Ráðhúsið til hróss að þeir leggja sig ekki eins fram um að leyna upplýsingum um ritun Sögu Akraness og hinir gömlu. Þess vegna fékk ég strax að vita að það sem Gunnlaugur hefur nú skilað af svokölluðu III. bindi Sögu Akraness (þ.e.a.s. nýjasta útgáfan af þeim margskrifaða og margborgaða texta) er varðveitt í Ráðhúsinu og mér er velkomið að skoða það. Kannski sé ég einnig í góssinu sem geymt er þar skýringuna á þeim 2,2 milljónum sem Gunnlaugur fékk greiddar 2012 (skilgreint sem 10 vikna starf á verktakalaunum) því mér hefur ekki tekist að fá svar frá þáverandi formanni Ritnefndar um það fyrir hvað hann fékk greitt (ég trúi því nefnilega ekki að óreyndu að 1 A-4 blað sé 2,2 milljóna virði) og annað atriði sem ég hef spurt hann um og varðar samninginn sjálfan. Kannski hefur þáverandi formaður Ritnefndar um Sögu Akraness einfaldlega ekki haft tíma til að svara tölvupóstinum mínum ennþá, þetta voru samt bara tvær mjög einfaldar spurningar sem ég lagði fyrir hann, ásamt skýrum skýringum (kennslufræðilega séð).
—
Það stefnir í áhugaverða detektiv-vinnu framundan; Hvað leynist í góssi Gunnlaugs?; Hvaða gögn er að finna í Ráðhúsinu?; Fyrir hvað fékk sagnaritarinn greitt árin 2012 og 2013? o.s.fr. Og svo verður auðvitað að gera grein fyrir sorglegum afrifum síðasta patróns Gunnlaugs, Árna Múla Jónassyni, í bæjar- og landspólitík, sem og bæjarritarans sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd bæjarins og Ritnefndarinnar sem hefur þegið óspart úr kjötkötlum bæjarins án þess að axla ábyrgð eða skila sýnilegu vinnuframlagi. Káboj-stríðinu mikla sumarið 2011, milli Árna Múla og Páls Baldvins hef ég engan veginn gert nægilega góð skil enda var ég stödd í smáþorpum á grískum eyjum, í stopulu netsambandi, þá minn karlmannlegi bæjarstjóri þeysti út á gresjuna, og raunar búin að fá dálítið nóg af hasarnum sem tengdist útkomu bindanna tveggja, þ.á.m. svívirðingum míns karlmannlega bæjarstjóra um sjálfa mig. En Saga Sögu Akraness II á eftir að innihalda alla efnisþætti sem prýða mega góða sögu: Reyfarakennda rannsókn, óvænta fjársjóðsfundi, tragísk örlög sumra aðalpersóna og kómíska baráttu í anda Don Kíkóta ! Og þótt mér sækist verkið kannski dálítið hægt verð ég örugglega ekki tíu til fimmtán ár að skrifa hana (sem raunin er með óútgefna Sögu Akraness III).
Mér þykir næsta augljóst að Gunnlaugur eignast engan patrón í okkar núverandi bæjarstjóra. Og peð til stuðnings sagnaritaranum eru vandfundin á kjörtímabili núverandi bæjarstjórnar; Það hefur ekki einu sinni verið skipað í hina fimm manna Ritnefnd um Sögu Akraness. Horfurnar á að hala inn allar tæpu fimmtán milljónirnar sem Árni Múli gekkst fyrir að semja um við hann (og er auðvitað mun meira fé því náttúrlega er þessi upphæð verðtryggð frá undirritun samnings 2012) eru verulega slæmar, að mínu mati.
Flott hjá þér Harpa. Það er bráðnauðsynlegt að veita opinberum aðilum aðhald. Hvað ætli RÚV geri marga verktakasamninga á ári? Væri ekki rétt að birta þá líka?
Tja, ég hef ekki hugmynd um fjármál RÚV en reikna með að auðvelt sé að fá afrit af verktakasamningum sem stofnunin hefur gert, þetta er opinber stofnun og þ.a.l. eru samningar hennar opinberar. Stjórnsýsluregla segir að afgreiða skuli opinber gögn svo fljótt sem auðið og sé farið eftir henni ættu upplýsinar að berast innan þriggja vikna …. svona ef þú hefur áhuga á að óska eftir afritum af öllum verktakasamningum RÚV á tilteknu tímabili.
Nei, ég hef ekki áhuga á afritum. Mér þætti eðlilegt að þetta væri birt á netinu.