Ég er alltaf jafn ofurlítið hissa á hvernig allt endurtekur sig, gott ef allt streymir ekki? og þá væntanlega í hring, eins og niðurfall í vaski. (Sem minnir mig á ógislega fyndinn Simpson þátt hvar Bart hringdi til Ástralíu til að komast að því í hvaða átt sturtið í klósettinu rynni … en ekki meir um það …)
Tökum dæmi af yfirvofandi heimsendi sem krakkarnir mínir voru svolítið áhyggjufullir yfir (sumir) í síðustu viku. Ég huggaði margan nemandann með því að til væru nákvæmar uppskriftir af heimsendi í flestum trúarbrögðum og að þær tvær uppskriftir sem ég kannaðist við væru ekki framkomnar og þ.a.l. enginn heimsendi í sjónmáli. Svo ætla ég rétt að vona að blessuð börnin hræddu hafi tekið mark á kennaranum sínum!
Ég hafði enda séð í hendi mér að ef hættan væri mikil hefðu hinir ágætu bæjarstjórnendur hér lánað Akraneshöllina (feikilegt gímald og ljótt eftir því) undir svall og stóðlífi þessa síðustu nótt lífsins alveg eins og Hitaveitutankurinn við Hlemm var brúkaður 1927. Hinir ágætu bæjarstjórnendur hafa hins vegar haft nóg að gera við áhyggjum og ramakveini út af gengi ÍA-liðsins. Ég veit ekki einu sinni hvort er hægt að kalla þetta “gengi”; hvort ekki verður að svissa yfir í “fallbraut”, eða jafnvel “hvínandi fallbraut”! Þetta er náttúrlega agalegt! (Hef engan áhuga á fótbolta en þegar staðan er þessi stöndum við Skagamenn saman!)
Góðu fréttirnar eru náttúrlega að hægt er að veifa sjálfsmörkum og markaleysi liðsins framan í manninn og rökstyðja þar með að sjóböð geri ekki gagn úr því að böð í ísköldu vatni í fiskikörum – íbætt ísmolum til hátíðabrigða – virka akkúrat ekki neitt!
Í gær átti ég afmæli. (Ég er samt í biðröð með afmæliskringlu á vinnustað því blóminn af kennaraliðinu á afmæli um þessar mundir. Mér hefur verið úthlutað miðvikudegi.) Hingað kom fólk með blóm og gúmmelaði og við áttum óskup huggulegan afmælissunnudag. Maðurinn hefur aukinheldur fundið það út að áhrif hraðalsins í Sviss hafi einkum verið þau að nú líði afmælisdagar aftur á bak. Maðurinn telur sumsé að ég hafi yngst um eitt ár í gær. Þetta er gott ef satt er. Aftur á móti held ég að maðurinn sé í afneitun. En eftir að hafa LESIÐ í Fréttablaðinu að maðurinn sé gáfaður trúi ég því enda alin upp við að það sem er skjalfest – það blívur.
Til hamingju með nýliðið afmæli!
Stóð í fréttablaðinu að Atli væri gáfaður? Á hvaða blaðsíðu?
Freyja: Nokkuð er um liðið og ég hafði ekki sinnu á að klippa út hin fögru ummæli, því miður. Það var karlmaður sem skrifaði þetta og ég tel fullvíst að sá karlmaður vill líka láta telja sig vita eða vitring. Vitinn minn (maðurinn) var, að ég held, notaður í það sem engelskir kalla “name dropping”.
er ekki ÍA í samúðarfalli með krónunni, bara?
Til hamingju með afmælið um daginn, annars.
Hitaveitutankur, hitaveitutankur!!!! Þetta var gamla gasklukkan. En þú getur alveg bókað að ef það verður heimsendir kemur stór hópur manna til með að safnast saman á sama stað, því þar er nebblega löggustöðin í dag. Til hamingju með ammælið annars. Reyndi að hringja í þig en þú varst farin að sofa svo ég ræddi bara við manninn um litabækur.
Só sorrí, Einar! Mér gefst kostur á að kenna Grafarþögn einu sinni enn og get þá reynt að berja inn í litla heilann að um gasstöð??? hafi verið að ræða.
Takk fyrir ammæliskveðjuna. Ég er mikið sofandi enda fegrar svefn og andoxar konu um leið (þetta vita allir!).