Notalegt á Skaganum og smávegis um ritunarkennslu

Veðrið er aldrei þessu vant dýrvitlaust, hér á okkar góða Skaga. Venjulega eru hryðjurnar báðum megin við okkur, undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi; hins vegar logn á Skaganum. Svo er ekki nú. Mér finnst samt ósköp notalegt að sjá varla út vegna seltu á rúðunum og heyra rigninguna belja á húsinu í hryðjum.  Þá er nefnilega svo kósí að kúra sig inni 🙂

Að vísu bíður mín það leiðindaverk að fara yfir 29 ritgerðir um Hávamál*.  Ekki samt að ég haldi ekki að þær séu góðar – ég gæti meira að segja ímyndað mér að sumar væru skemmtilegar einnig. Þetta liggur í mér sjálfri, þ.e.a.s. að eftir 20 ár í kennslu hef ég ímugust á ritgerðum en hef sömuleiðis sannfærst um að það er ekki hægt að kenna fólki að skrifa nema láta það skrifa. Learning by doing!  Kjaftæðiskenningar sem ganga út á að fólk geti lært að skrifa ritgerð með því að “hanna ritgerð” niður í smæstu atriði, í einhvers konar grind eða fiskmynd (fiskinn tel ég sýna kristilegan áróður sem læðst hefur inn í móðurmálarafræði) … sem sagt er akkúrat ekkert gagn að þessu nema fólk skrifi. Af því ég vil kenna fólki að skrifa með því að skrifa stend ég fyrir dagbóka-handskrifum, mjög misjafnlega þokkuðum meðal dagbókarskrifenda, og gamaldags ritgerðum. Þetta minnir mig á að koma því að að leikni nemenda í handskrift verður minni með hverju árinu. Það veitir sko ekki af að einn kennari og eitt fag andæfi og banni tölvur til dagbókaskrifa!

* Ég ætti að fá tíu ritgerðir í viðbót frá mínum góðu fjarnemendum, um helgina. Gaman!

Það sem tálmar yfirferð einna mest í kvöld er reyfari eftir Läckberg, Ulykkesfuglen heitir sá og er fjórða bók höfundar. (Eftir að hafa klárað Steinsmiðinn, þriðju bókina, gat ég varla beðið eftir þeirri fjórðu! Sem betur fer átti maðurinn leið í Arnold Busck í Köben og var með sérfræðilegan minnislista með sér og hringdi að auki heim – í sérfræðinginn – og kom svo færandi hendi með bókargjöf handa sinni konu!)

Ég gæti náttúrlega talið mér trú um að þar sem mig vanti ábyggilega 2 – 3 ritgerðir sé ekki hægt að byrja yfirferð fyrr en allt sé komið í hús, til að verja sig fyrir ólöglegum afritum og tvíritum …

7 Thoughts on “Notalegt á Skaganum og smávegis um ritunarkennslu

  1. Olycksfågeln er góð, ekki minnst ef maður hefur kynnst sænskri menningu og fjölmiðlun innan frá. Svo spillir ekki fyrir að það er ferlega flott í Tanum og þar um kring. Get látið þess getið að Camilla á ættingja hér á landi!

  2. Ættingja? Vá, þú segir fréttir!!! Gætir slegið á þráðinn ef nánari upplýsingar eru of viðkvæmar fyrir internetið …

    Með áhorfi á Fucking Åmal, lestur á Robinsonsmorderne (danskur krimmi) og frásögnum sona minna af Lost og Idol o.s.fr. tekst mér að gera bakgrunninn nokkuð skýran.

  3. freyja systir on September 18, 2008 at 11:12 said:

    Einar, er ég ekki búin að fá þessar bækur allar lánaðar hjá þér? Er kannski með eitthvað í láni núna? Heima hjá mér er kassi af alls kyns paperbakki sem ég veit ekki hver á……

  4. Jú, en þú lofaðir að skila þeim ekki. Ef þú ert alltaf að reyna að skila pokkettbókum sem ég lána þér þá hætti ég því.

  5. Sama hér: Ef fjölskyldumeðlimir vilja skila fá þeir aldrei aftur lánaðar bækur hjá mér! (Altso kiljudótinu – nema mér er soldið sárt um danskar kiljur því það er svo erfitt að verða sér úti um þær nema í Danmörku og á Krít.)

  6. Einar bro on September 19, 2008 at 13:00 said:

    Freyja – þú mátt skila mér Camillubókunum ef þú tekur í staðinn þessar 10 Elisabeth George & Val MacDermid bækur sem ég er með frá Hörpu.

  7. Ég vil nú eiginlega fá Val MacDermid aftur sjálf en George-hillumetrana alls ekki!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation