Bölvaður kvíðapúkinn

gerir mér lífið leitt!  Ég hef sætt mig við að vakna kringum hálf-sex á morgni hvurjum (enda að berja “ár skal rísa” inn í mína góðu nemendur); hafði fullvissað mig um að án skjálftastillandi lyfs gæti ég ekki unnið (ég gerði tilraun en þá er ekki nóg með að ég geti ekki skrifað á töflu heldur get ég ekki loggað mig inn á tölvu nema ríghalda hægri úlnlið með vinstri hönd og reyna svo að hitta á lyklaborðið); Ég hafði meira að segja sannfært mig um að þetta væri alls ekki kvíði heldur parkinsons-leg aukaverkun sem getur fylgt einu lyfjanna sem ég tek – man ekki einu sinni hvurju.

Með æðruleysið í botni og skynsamlegri sambúð við skjálftann hafði allt gengið prýðilega á önninni. Þangað til í gær. Í gærkvöld var mér boðið í merkisafmæli vinkonu minnar. Ég var búin að kaupa gjöf, sjá út hvaða flíkum ég gæti verið í (meira að segja valið skó) og hlakkaði heilmikið til veislunnar. Í gærmorgun vaknaði ég reyndar klukkan 4.30 en lét það ekki á mig fá heldur hellti upp á kaffi og lúslas morgunblöðin, fór svo yfir ritgerðir og lagði mig loks um það leyti sem hitt heimilisfólkið var að skríða á lappir.

Dagurinn leið vel; tengdó komu í heimsókn og ég eignaðist bæði pekan-hnetu-vínarbrauð (sem eru, að mínu viti, fíkniefni!) og fagra hálsfesti, sem hefði passað við afmælisgallann. Þegar þau fóru reyndi ég að taka pillu og leggja mig aðeins fyrir afmælið en varð stífari og skjálfhentari með hverri mínútunni. Loks fór ég á fætur og ákvað að taka þetta á hörkunni – en þá sá litli kroppurinn (minn) við mér og ég fór að kasta upp. Eftir þrjár uppkastferðir inn á klósett þá hringdi ég í afmælisbarnið og sagði að hversu mjög sem mig langaði til að koma þá gæti ég það ekki. Afmælisbarnið skilur allt og sagði að þetta væri í góðu lagi. Mér sjálfri finnst þetta hins vegar ekki í góðu lagi!

Eins og ég hef margbloggað um eru geðsjúkdómar sérlega líkamlegir sjúkdómar. Sá sem mér finnst slægastur og falskastur er kvíðinn.  Hann getur brotist fram í ótal myndum og sé kona illa haldin af kvíða rúlla einkenni lungnabólgu, parkinsons, hjartaáfalls o.fl. yfir þá litlu konu. Ég kannast við sjóveiki-birtinguna en hef aldrei áður kastað upp af kvíðanum einum saman (reyndar kastaði ég aldrei upp í Akraborginni forðum þótt ég yrði stundum svívirðilega sjóveik).

Ég er ekki viss um að hægt sé að gera nokkurn skapaðan hlut í þessu … og ef einhver stingur upp á grænu te þá kemst ég í drápsham!

5 Thoughts on “Bölvaður kvíðapúkinn

  1. Hráfæði? – nei ég er bara að grínast!
    Ég kannast svo vel við öll ,,góðu ráðin” frá þeim fjölmörgu sem vita svo miklu betur en ég og læknarnir hvernig ,,á” að kljást við það sem hrjáir mig.

  2. Ég er búin að lofa afmælisbarninu að mæta í fimmtugsafmælið … þá verð ég örugglega bráðfrísk!

  3. Guðrún Geirsdóttir on September 22, 2008 at 22:39 said:

    Sæl Harpa.
    Fylgist með blogginu þínu og dáist að þér úr fjarska. Finnst þetta flott tök á kvíðanum – að skrifa um hann béaðan.
    Gangi þér vel

  4. Einar bro on September 23, 2008 at 10:04 said:

    Áfram KR

  5. Einsi? Áttu við að ég ætti að prjóna mér svart- og hvítröndótta peysu? Nú tilkynni ég nemendum að ég fari suður til læknis á morgun til þess að verða ekki gaga og gúgú, eins og var svo mikið í umræðunni í sumar og var auk þess kallað veðrabrigði einhvers konar.

    Annars er ég að skæla núna og ætla heim.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation