Frí

Lína langsokkur vildi fara í skóla til að geta fengið jólafrí, páskafrí og sumarfrí, ef ég man rétt. Ég skil hana mjög vel. Einn gallinn við að vera öryrki er að lífið er afskaplega tilbreytingarlaust; Öryrkjar fá aldrei frí. Fyrir manneskju eins og mig sem hef unnið fulla vinnu allt árið frá átján ára aldri eru það ansi mikil viðbrigði að þurfa að yfirgefa vinnumarkað enda sé ég óendanlega mikið eftir starfinu mínu, sem ég get ekki lengur unnið vegna veikinda.

En nú var ég svo lúsheppin að fá tækifæri til að “kenna” lítilsháttar, fyrir vinkonu mína sem þurfti að bregða sér af bæ. Þetta var nú samt frekar “pössun” en kennsla; Aðallega fólst starfið í að merkja við í kladda og sýna nemendum vídjó (sem eins og forðum gekk ekki andskotalaust fyrir sig, með batteríislausar fjarstýringar og tæknifælna mig). Frábærasti parturinn var að hitta unglinga, unglingar eru nefnilega mikið ágætisfólk. Svo var gaman að vera á kennarastofunni með gömlu vinnufélögunum. Og, síðast en ekki síst: Á morgun byrjar miðannarleyfið og þess vegna voru allir að óska öllum góðrar skemmtunar í fríinu og góðs frís. Þess vegna fannst mér þegar ég labbaði út úr skólanum í dag að ég væri komin í frí. Mikið svakalega er það góð tilfinning! (Þótt hún sé blekking …)

Ég er samt eins og undin tuska eftir pössunina. Þótt ég hafi ekkert þurft að undirbúa neitt og ekki fara yfir neitt er sennilega nokkuð langt í að mér batni nóg til að geta kennt. Samt er ég tíu sinnum frískari en á sama tíma í fyrra.

Akkúrat núna er hættulegasti tíminn geðsjúkum, að sögn þess læknis sem ég hef verið hjá í meir en áratug. Hann hefur sagt mér oftar en einu sinni að geðveikum hætti mjög til að veikjast þegar birtan breytist, haust og vor. Ég hugsa að þetta sé rétt hjá honum, hef nefnilega mörg undanfarnin ár oftast veikst um mánaðamótin september – október og verið orðin fárveik í október. En ekki núna. Eftir því sem lyfjaþokunni léttir og með því að nýta mér það sem ég lærði á HAM-námskeiðinu fyrir stuttu tekst mér að vera sæmilega frísk, raunar finnst mér í samanburði við undanfarin ár að ég sé bara helv. frísk!  Svo tek ég einn dag í einu og fyrir hvern dag sem mér líður nokk normal er ég óendanlega þakklát.

Og nú er ég sem sagt komin í frí 🙂

6 Thoughts on “Frí

  1. Til hamingju með góðu dagana; megi þeir verða sem flestir. 🙂

  2. Jóhann on October 19, 2012 at 00:28 said:

    Gott hjá þér.

    En vel undin tuska, er góð tuska.

    Hérna er trúarjátning Chomskys, sem ég held þú hafir gaman af:

    http://www.youtube.com/watch?v=D5in5EdjhD0

  3. Takk, Jóhann, ég kveikti ekki á því að vel undin tuska er góð tuska og hef þó farið á námskeið í hvernig eigi að vinda tusku rétt (í gamla daga, þá ég skúraði á Rigshospitalet í Köben).

    Kíki á trúarjátningu Chomskys 🙂

  4. Í mogga (mannsins) í dag var fínt viðtal við Bergþór talsmann notenda á geðsviði um þennan hættulega árstíma. Svo voru glefsur af persona.is og ég hjó eftir orðalaginu í “Sum tilfelli þunglyndis stafi af því að félagslegir tímagjafar riðlist.” Nú velti ég því fyrir mér hvað “félagslegir tímagjafar” eru – mun átt við stundaskrá?

  5. Helga Margrét on October 25, 2012 at 12:29 said:

    Ég skil þig svo vel. Í fyrra, þegar ég var ekki í skóla og bara að æfa frjálsar þá saknaði ég þess einmitt lang mest að fá ekki þetta hefðbundna jólafrí, páskafrí og helgarfrí. Þó ég væri alveg í fríi eins og aðrir þá naut ég þess bara ekki á sama hátt

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post Navigation