Femínistafélag Íslands var stofnað vorið 2003. Það er vitaskuld nokkrum erfiðleikum háð að meta hvort eða hversu mikil áhrif þetta félag og einstaklingar sem þar eru í forsvari hafa haft. Baráttumálin eru þess eðlis að auðvelt ætti að vera til að fá fólk til að styðja baráttuna. Markmið og leiðir Femínistafélags Íslands eru skv. heimasíðu félagsins:
Að vinna að jafnrétti kynjanna.
Að vinna gegn hverskonar birtingarmyndum kynjamisréttis. Þar má nefna klámvæðinguna, ágengar, lítilsvirðandi auglýsingar, ofbeldi, mansal og vændi.
Að uppræta staðalmyndir um hlutverk og eðli kvenna og karla.
Að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði, útrýma kynbundnum launamun og auka hlut kvenna í stjórnun auðlinda og fjármagns.
Að styrkja þátttöku kvenna í opinberu lífi, fjölmiðlum og stjórnmálum.
Að stuðla að samfélagi sem tekur mið af mismunandi hagsmunum og sjónarmiðum karla og kvenna svo sem í atvinnu- og menntamálum, stjórnmálum, menningu og á vettvangi einkalífsins.Markmiðum þessum skal náð með lýðræðislegri, gagnrýnni og sýnilegri umræðu á fundum, Netinu og í öðrum fjölmiðlum.
En eins og ég rakti í síðustu færslu snýst framganga femínista í æ ríkari mæli um ögrun og athygli á sínum aðalvettvangi, Netinu. Ögrun og öfgafullur málflutningur kalla á öfgafull viðbrögð. Auðvitað bera femínistar ekki ábyrgð á niðrandi, særandi og jafnvel hótandi ummælum sem að þeim beinast en þeir eru ekki algerlega blásaklausir heldur því þeir haga málflutningi sínum stundum þannig að þessi viðbrögð eru fyrirsjáanleg, stimpla sig síðan fórnarlömb ofsókna í kjölfarið. (Nákvæmlega sömu hernaðarlist má sjá í öðrum aktívistahópum á netinu, t.d. félaginu Vantrú.) Skyldu svona baráttuaðferðir vera vænlegar til árangurs? Er líklegt að þær auki samstöðu fólks með málstaðnum, þ.e. efli jafnrétti og hvetji fólk til að vilja jafna stöðu karla og kvenna? Þetta er erfitt að mæla en finna má rannsóknir sem gefa vísbendingar um svarið.
Í norrænni könnun sem gerð var árið 2009, The Nordic Youth Research among 16 to 19 year old in Åland Islands, Denmark, Faroe Islands, Finland, Greenland, Iceland, Norway and Sweden, voru 16-19 ára nemendur spurðir um ýmislegt, þ.á m. viðhorf til karla og kvenna (sjá s. 92 o.áfr. í skýrslunni sem krækt er í). Svör íslenskra unglinga um þetta skera sig ekki áberandi úr svörum unglinga á hinum Norðurlöndunum nema þegar spurt er hvort þeir telji að kona geti veitt trúfélagi forstöðu, t.d. verið prestur, en íslenskir unglingar af báðum kynjum hafa áberandi litla trú á því að svoleiðis starf henti konum (sjá s. 96). Í frétt af niðurstöðum þessarar könnunar var því slegið upp að 14% íslenskra unglingsstráka teldu að konur ættu alls ekki að vinna úti (í fréttinni kemur einnig fram að 4,6% stúlkna voru piltunum sammála og raunar voru þessar tölur nánast samhljóða meðaltali álits allra norrænu unglinganna).
Í fréttinni sem krækt er í hér að ofan lýsir Andrea Hjálmsdóttir félagsfræðingur því yfir að niðurstöðurnar séu í samræmi við aðrar kannanir, hennar eigin og annarra. Í yfirlitsgreininni “Mamma er meira svona í einfalda lífinu, þú veist” rekur Andrea nokkrar niðurstöður sínar og annarra og bendir á að hægt sé að greina bakslag í viðhorfum unglinga til jafnréttis: „Árgangurinn sem var í 10. bekk vorið 1992 hafði mun jákvæðari viðhorf til jafnréttis en 10. bekkingar vorið 2006.“ Í greininni Egalitarian Attitudes Towards the Division of Household Labor Among Adolescents in Iceland fjalla Andrea Hjálmsdóttir og Þóroddur Bjarnason um niðurstöður rannsóknarinnar 2006. Af umfjöllun þeirra má skilja að það atriði sem helst má tengja við viðhorf unglinganna sé hegðun foreldra, t.d. hvort móðir vinnur úti, hvort faðir sé heimaverandi, hvort foreldri sé einstætt o.s.fr. en tengsl milli sjónvarpsgláps og viðhorfa unglinga til jafnréttis mælast ekki, þvert á það sem þau Andrea og Þóroddur bjuggust fyrirfram við (því ætla mætti að ýmsar sápuóperur festu íhaldssöm viðhorf í sessi). Tengsl milli internet-notkunar og viðhorfa til jafnréttis mældust einungis hjá stúlkum: Því meira sem þær héngu í tölvunum því íhaldsamara var viðhorf þeirra til karlhlutverka. Í þessu sambandi velti ég því fyrir mér hvort mikil áhersla í kynjafræði í sumum skólum á auglýsingar eða kynhlutverk í sjónvarpssápum og kvikmyndum skipti einhverju máli í því að ala upp/mennta jafnréttissinnaðri unglinga en ella – en kannski virkar þessi áhersla eitthvað á stelpurnar og gerir þær eilítið víðsýnni í garð karla.
Í meistararitgerð sinni, “Reality Bites” Attitudes Toward Gender Equality Among Icelandic Youth segir Andrea frá eigindlegri rannsókn sem hún gerði í júní 2008 og niðurstöðum hennar. Andrea og aðstoðarmaður hennar töluðu við á 22 tíundubekkinga á Akureyri (14 stelpur og 8 stráka). Niðurstaðan er að fylgi við femínisma standi í stað eða fari jafnvel minnkandi. Í ritgerðinni er áhugaverð skírskotun til Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns vinstri grænna, sem fór fram á það að heilbrigðisráðherra rannsakaði upphaf þess siðar að klæða nýfædd stúlkubörn í bleikt og drengbörn í blátt á fæðingardeildum og spurði hvort ráðherra vildi ekki breyta þessu. Orð Kolbrúnar féllu á Alþingi í maí 2007, vöktu mikla athygli og umræðu. Ein unglingsstúlkan sem Andrea talaði við vakti máls á þessu, sagði að stundum væri femínismi einum of mikið af því góða og hún hefði heyrt að á einhverju sjúkrahúsi hefði kona [femínisti] orðið kolvitlaus yfir að ungbörnin voru sett í bleik og blá föt. Stalla hennar tók undir að stundum færi femínismi yfir strikið, sú fyrrnefnda bætti við að það væri pirrandi þegar gert væri stórmál úr einhverju smáræði.
Ég hef ekki aðgang að könnuninni frá 1992 en treysti Andreu Hjálmsdóttur fullkomlega til að fara ekki með fleipur þegar hún segir að tíundubekkingar þá hafi haft mun jákvæðari viðhorf til jafnréttis en mælast í sama aldurshópi á síðustu árum. Andrea dregur af þessu þá ályktun að efla þurfi kynjafræðikennslu í skólum. Ég er sammála því að gott er að bjóða upp á nám um ýmis mál sem snerta jafnrétti karla og kvenna og hvetja nemendur til að ræða þau mál í sínum hópi. En mér sýnist að núverandi áherslur íslenskra femínista ýti ekki undir fylgi við jafna stöðu karla og kvenna meðal íslenskra unglinga og dæmið hér að ofan sýnir að í stöku tilvikum gætu baráttuaðferðir femínista ýtt undir að ungar stúlkur vilji ekki láta bendla sig við femínisma. Það er væntanlega ekki markmið íslenskra femínista.
Vilji menn einkum ná fram hugarfarsbreytingu hjá ungu fólki má til samanburðar nefna vímuefna- og tóbaksneyslu unglinga og viðhorf til svoleiðis neyslu: Undanfarin rúm 15 ár hefur neysla unglinga á vímuefnum og tóbaki minnkað ár frá ári. Þetta er þakkað samanteknum ráðum foreldra, skóla og fleiri aðila. Fjöldi kannana bendir og til þess að sá þáttur sem skipti mestu máli upp á hvort unglingar fara að drekka eða reykja sé hegðun foreldra þeirra þannig að hinn ágæti árangur sem hefur náðst er væntanlega ekki hvað síst þeim að þakka, síður opinberum forvörnum eða húllúmhæi í fjölmiðlum. Ef femínistar vilja ná raunverulegum árangri legg ég til að þeir skoði hvað virkar til hugarfarsbreytinga og breytinga á hegðun í vímuefnaneyslu og tóbaksneyslu og taki sér til fyrirmyndar. Stafrænt garg og stafrænir hurðarskellir virka ekki.
Mér skilst að það sé ekki hægt að leggja til hverju róttækir femínistar ættu mögulega breyta í aðferðum/aðgerðum sínum án þess að það sé hrútskýring (Mansplanation).
Eða er það kanski ekki hrútskýring ef það kemur frá konu?
Eða þarf konan að vera femínisti?
Þarf hún kanski að vera róttækur femínisti?
Ég hélt að ég væri femínisti, en eftir lestur internetsins síðustu daga (og þ.á.m. þúsundir commenta úr ýmsum áttum með og á móti) er ég bara hreinlega ekki viss um að ég passi í það snið.
Og það þykir mér miður.
Það
Gott og vel.
En hvað varð um “ýmis raunveruleg vandamál sem íslenskir femínistar hunsa” sem þú lofaðir í síðasta pistli?
Elfa Jóns: Allt hefur sinn tíma 🙂
Reynir Þór: Það er kannski kominn tími til að greina ævinlega milli þess að vera jafnréttissinni og femínisti þegar jafnréttismál ber á góma. Þannig kemst maður e.t.v. hjá því að móðga íslenska femínista.
Ég bíð spennt.
Það hljómar mun þarfara en enn eitt innleggið um “femínistar beita röngum aðferðum, en ég get samt ekki útskýrt hvaða aðferðir eru réttar og árangursríkr”.
Elfa Jóns: Mér þykja reyndar aðferðir þær sem Femínistafélag Íslands auglýsir vera heldur skynsamlegar, þ.e. “Markmiðum þessum skal náð með lýðræðislegri, gagnrýnni og sýnilegri umræðu á fundum, Netinu og í öðrum fjölmiðlum.” En mér finnst aðferðir þær sem femínistar beita á Netinu óskynsamlegar og ekki líklegar til árangurs. Þannig að við erum væntanlega sammála um aðferðir í orði en ekki aðferðir á borði 😉
Þetta er athyglisverð færsla Harpa í ljósi þeirra blogga sem þú hefur ritað í gegnum árin. Glerhúsalíkingin kemur satt að segja fljótt upp í hugann. Ætlir þú nú (þar sem það þjónar málstað þínum í þessu samhengi) að taka upp breytt orðfæri og minni dómhörku um menn og málefni í pistlum þínum, þá er það til eftirbreytni í bloggheimum.
Ég hef nú ekkert tjáð mig um hverju ég er sammála 🙂
En ég get vottað að mér finnst mikilvægara að standa við bakið á þeim sem berjast fyrir mína hönd, en að rífa það niður. Þó ég sé ekki alltaf sammála öllu. Ég get vel litið framhjá einstaka PR-mistökum.
Kvennalistakonur og þau öfl sem settu kvennaáratuginn í gang voru ekki sérlega pen og afsakandi í sínum málflutningi, það skilaði einmitt árangri. Síðan lognaðsit baráttan einhvern veginn útaf … sofnaði á verðinum. Það held ég sé einmitt skýringin á að jafnréttishugsunin hefur gengið til baka á síðustu 20 árum. Orðræðan varð of pen og ósýnileg og allir hættu að hlusta.
Hvað er það í málflutningi á netinu i dag sem er ekki “lýðræðislegt, gagnrýnið og sýnilegt”?