Author Archives: Harpa Hreinsdottir

Klukkuprjón, fyrri hluti

KlukkuprjónSvo sem rakið var í færslunni Fyrsti prjónakennarinn og fyrsti hönnunarstuldurinn  kenndi frú Gytha Thorlacius, dönsk sýslumannsfrú, Íslendingum klukkuprjón laust eftir 1800. Þær fátæklegu heimildir sem til eru um prjón á Íslandi fyrr á öldum (nokkrar flíkur og pjötlur sem fundist hafa í fornleifauppgreftri, auk ritheimilda) benda til þess að hérlendis hafi prjónakunnátta lengstum falist í einföldu sléttu prjóni í hring, einstaka sinnum brugðnu prjóni, svo klukkuprjónið hefur verið mikil tækninýjung á sínum tíma.

Í elstu íslensku hannyrðakennslubókinni, Leiðarvísi til að nema ýmsar kvennlegar hannyrðir, eftir þær Þóru Pjetursdóttur, Jarðþrúði Jónsdóttur og Þóru Jónsdóttur, útg. 1886, eru nokkrar prjónauppskriftir. Þar á meðal er uppskrift að “Prjóni á fótskör” (250. uppdráttur, s. 16.) Fótskör er skemill, þ.e.a.s. pulla/púði undir fæturna. Í þessari uppskrift segir að prjóna skuli með klukkuprjóni og því lýst. (Það er raunar líka eftirtektarvert að í uppskriftinni er gert ráð fyrir styttum umferðum, svo sem nú eru mjög í prjónatísku.)

Næst ber klukkuprjón í íslenskri hannyrðakennslu óbeint á góma í Kvennafræðaranum eftir Elínu Eggertsdóttur Briem, útg. 1891. Þar er uppskrift að trefli sem prjónaður er með klukkuprjóni, án þess að heiti prjónsins sé nefnt. (Sjá s. 336, titillinn krækir í þá síðu.)

 

Í auglýsingum um og fyrir aldamótin 1900 má sjá minnst á klukkuprjón, t.d.:

  • Ragnhildur Ólafsdóttir í Engey vill leiðrétta sögusagnir um verðskrá síns prjónless í Þjóðólfi 2. mars 1888  og tiltekur m.a.: “[…] skyrtur handa fullorðnum, klukkuprjónaðar 1 kr.”
  • Sigmar Bro’s &Co í Manitoba: “Klukkuprjónaður karlmanna nærfatnaður – það, sem þér þarfnist mest í kuldanum – […]” Lögberg 18. nóv. 1909, s. 8.

En af  hverju heitir aðferðin þessu sérstaka nafni klukkuprjón á íslensku? Einfaldasta skýringin er sú að klukkur hafi gjarna verið prjónaðar með þessu prjóni.

 

Klukkur

Klukka var undirpils/millipils. Slík pils voru oft prjónuð og síðan þæfð vel eins og flest annað prjónles. Mér er ekki kunnugt um hvenær íslenskar konur hófu að ganga í klukkum – eða öllu kalla undirpilsin sín /millipilsin því nafni.

Elsta dæmið sem ég fann um orðið klukka í þessari merkingu er brot úr frægu kvæði Jónasar Hallgrímssonar, Illur lækur (eða Heimasetan), sem er nokkuð örugglega ort árið 1844.  Kvæðið lagt í munn smástelpu sem segir móður sinni frá læknum sem lék hana grátt. Hún segi m.a.:

Klukkan mín, svo hvít og hrein,
hún er nú öll vot að neðan;

Þótt klukkur hafi verið undirpils kvenna þá virðist sem börn hafi einnig verið látin ganga í svoleiðis flíkum, jafnt stúlkubörn sem drengbörn. Má t.d. nefna gagnrýni Jóns Thorsteinssonar landlæknis á að smábörn séu höfð brókarlaus í klukkum: “[- – -] að þegar børn eru komin á annað og þriðja ár, og þau eru farin að vappa úti, láta sumir þau gánga í klukku, sem svo er kølluð, en hún er eins og pils að neðanverðu, svo børnin eru ber um lærin og neðantil um lífið innanundir, og gýs vindur og gola því uppundir þau, svo þeim verður opt kaldt á lærum og á maganum […].” (Sjá Hugvekju um Medferd á úngbørnum samantekin handa mædrum og barnfóstrum á Islandi af Jóni Thorstensen, útg. 1846, hér er krækt í hugvekjuna í Búnaðarriti Suðuramtsins húss- og bústjórnarfélags, 1. tölublað 1846, bls. 87).

Þessi lýsing kemur heim og saman við kvæði Benedikts Gröndal (1826-1907), Æskuna, þar sem hann lýsir áhyggjuleysi bernskunnar:

Hljóp ég kátur
í klukku minni.

PrjónaklukkaHeitið klukka er komið úr dönsku og er saga klukkanna þarlendis rakin á þessa leið:

Ullarklukkan var undirpils, úr vaðmáli en á nítjándu öld var algengast að hún væri prjónuð. Heitið er dregið af því hve pilsið líkist klukku en vera má að enska heitið cloak, yfir slá eða frakka, hafi eitthvað spilað inn í nafngiftina.

Klukkum klæddust konur á veturna, milli nærserks og ytra pils, og stundum voru þær á klukkunum einum saman innanhúss. Stundum var saumaður nokkurs konar upphlutur við klukkuna svo hún líktist nærkjól. Ullarklukkur voru notaðar í Danmörku fram yfir aldamótin 1900 þótt drægi mjög úr vinsældum þeirra með breyttri tísku á síðasta hluta nítjándu aldar.  (Lita Rosing-Schow. Kradse klokker. Strikkede uldklokker fra Nordsjælland. Dragtjournalen 3. árg. 5. hefti 2009, s. 34-39.)

Myndin hér að ofan er tekin traustataki úr greininni og er af 70 cm síðri klukku, prjónaðri með klukkuprjóni. Af því það tíðkaðist að prjóna klukkuprjón fram og til baka er klukkan gerð úr þremur renningum sem svo eru saumaðir saman. Byrjað er á renningunum þar sem nú er pilsfaldurinn og tekið úr eftir því sem ofar dró, heldur er úrtakan tilviljanakennd segir í greininni en af umfjöllun má marka að reynt var að taka úr á jöðrum hvers rennings/stykkis til að minna bæri á úrtökunni. Efst á renningunum var svo prjónað 12 cm stroff og loks saumaður mittisstrengur eftir að búið var að sauma renningana saman í klukku. Þessi klukka er talin frá miðri nítjándu öld og er varðveitt á Byggðsafninu í Hillerød, Danmörku.

Kannski voru íslenskar prjónaðar klukkur fluttar út ekkert síður en sokkar, vettlingar og peysur? A.m.k. bendir þessi klausa úr sögu Hermans Bang, Ved vejen (útg. 1886) til þess (sagan gerist í ónefndum dönskum bæ og þar sem sögu er komið skellur á úrhelli og hver flýr sem fætur toga í skjól undan því):

Det var en Renden til alle Porte. Koner og Piger slog Skørterne over Hovedet og løb af med Lommetørklæderne i Firkant over det nye Hatte.
– Hej, hej, sagde Bai, nu kommer s’gu Klokkerne frem.
Pigerne stod rundt i Portene, blaastrømpede og med de islandske Uldklokker om Stolperne.

(s. 125,  krækt er í netútgáfu sögunnar).

Um svipað leyti og Herman Bang lýsti hinni erótísku sjón þegar stúlkurnar stóðu á íslensku ullarklukkunum og bláu sokkunum einum saman var Eiríkur Magnússon, herra kand. theol. í Lundúnum og fréttaritari tímaritsins Íslendings meðfram því, að reyna að fræða Íslendinga um ýmsar deilur og annað fréttnæmt utanlands;  í einni greininni stakk hann upp á orðinu klukku-þön fyrir krínólínu. (Íslendingur, 8. jan. 1863, s. 125.) Því miður hlaut sú uppástunga engan hljómgrunn þótt orðið sé óneitanlega miklu gagnsærra og skemmtilegra en útlenda slettan.

Hér er látið staðar numið í bili í umfjöllun um þá merkilegu prjónaaðferð klukkuprjón og þær skemmtilegu flíkur klukkur. Í framhaldsfærslu verður m.a. fjallað um mismunandi heiti prjónaðferðarinnar á öðrum tungum og hvernig klukkuprjón hefur verið hafið til vegs og virðingar á allra síðustu árum.

 

Fyrsti prjónakennarinn og fyrsti hönnunarstuldurinn

Hér segir af fyrsta nafngreinda prjónakennaranum á Íslandi, af upphafi klukkuprjóns hérlendis og af fyrsta fyrirhugaða prjónahönnunarstuldinum hérlendis.
Gytha thorlacius Gytha Steffensen Howitz fæddist árið 1782 í Lundbyvester á Amager og var dóttir gestgjafa/kráareiganda. Hún giftist Íslendingnum Theodorus Thorlacius, syni Skúla Thorlaciusar rektors við Frúarskóla í Kaupmannahöfn, árið 1801. Á Íslandi var Theodorus ævinlega kallaður Þórður enda heitinn eftir afa sínum íslenskum. Þórður hafði sama ár fengið veitingu fyrir sýslumannsembætti í Suður-Múlasýslu og héldu þau hjónin til Íslands og settust að í Eskifirði. Þau bjuggu á Íslandi til 1815 en fluttust þá aftur til Danmerkur.

Gytha Thorlacius skrifaði endurminningar sínar frá Íslandi löngu síðar. Því miður er frumritið glatað en tengdasonur hennar sá um að hluti endurminninganna væri gefinn út árið 1845, stytti sjálfur frásögn Gythu eftir sínu höfði og umorðaði víða. Bókin heitir Fru Th.s erindringer fra Iisland og er aðgengileg á Vefnum (hér er krækt í þá útgáfu). Árið 1930 var bókin endurútgefin undir nafninu Fru Gytha Thorlacius’ erindringer fra Island i aarene 1801-1815 og sú útgáfa var þýdd á íslensku af Sigurjóni Jónssyni lækni; kom út árið 1947 undir heitinu Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815. Í fljótu bragði virðist, sé textinn skoðaður í heild, sem „lagfæringar‟ og skýringar þessara þriggja karla sem um textann hafa vélað, tengdasonarins, barnabarnabarnsins sem sá um endurútgáfuna og íslenska læknisins séu síst til bóta en það er ekki efni þessarar færslu.

 
Hér verður einungis staldrað við þann hluta endurminninganna þar sem segir frá því hvernig Gytha kenndi Íslendingum að prjóna fallegt prjónles í litum, ganga þannig frá því að það líktist ofnu klæði, og að prjóna klukkuprjón. Sjálfsagt má rekja klukkuprjónskunnáttu landans til hennar og mögulega náði annar lærdómur hennar í prjóni einhverri útbreiðslu.  Á móti kenndu íslenskir henni sitthvað í litun garns.

 

VormeldúkurSem sést af textanum hér að neðan var Gytha að reyna að finna aðferðir til að prjónles líktist vaðmáli/ofnu klæði, sem er skiljanlegt í ljósi þess að það er miklu seinlegra að vefa en að prjóna. Ég giska á að hún hafi verið að reyna að ná áferð vormeldúks/ormeldúks sem var mikið notaður í fatagerð á nítjándu öld. Miðað við ýmsar heimildir hafa Austfirðingar einmitt staðið framarlega í vormeldúksvefnaði allt frá miðri nítjándu öld og e.t.v. hafa þeir kunnað þá list vel á dögum Gythu. (Sjá mynd af vormeldúk í sauðalitunum hér til hliðar.)

En vindum okkur í frásögn Gythu sjálfrar. Líklega gerist þessi hluti einhvern tíma á árunum 1807-1813. Hér er fyrst birtur textinn í þýðingu Sigurjóns Jónssonar (s. 108-109 í útgáfunni frá 1947), þar fyrir neðan er stafréttur textinn úr fyrstu útgáfu endurminninga Gyðu (s. 97-99). Athugasemdir innan hornklofa í íslensku þýðingunni eru mínar. Ég hef einnig sett inn millifyrirsagnir og skipt textanum í efnisgreinar.

 

Heimilisiðja Gythu Thorlacius

Frú Th. segir líka þarna nokkuð frá vinnubrögðum sínum, bæði um þetta leyti og á fyrri árum. Hún kenndi Íslendingum „patentprjón‟ [í neðanmálsgrein segir Sigurjón Jónsson: „Í aths. aftan við útg. frá 1930 segir, að prjónles prjónað með þessum hætti sé þykkra og líkara dúk en venjulegt prjónles. Ef til vill er þetta sama sem klukkuprjón eða enskt prjón.‟ Patenstrikning er danska heitið á klukkuprjóni, sem kann einnig að hafa verið kallað enskt prjón hér á landi. Klukkuprjón líkist dúk/ofnu klæði ekki hið minnsta.] og fleiri prjónaðferðir.

 
Litunaraðferðir

Þeir kenndu henni í staðinn að lita úr jurtum, sem hinir sparsömu [hér væri nægjusömu kannski betri þýðing] eyjarskeggjar kunnu að færa sér í nyt á hugvitsamlegan hátt. „Það er víst um það‟, ritar hún, “að þeir eru miklu betur að sér en vér í þessu efni. Þegar þeir ætla að safna vætu úr mönnum eða dýrum [í neðanmálsgrein bendir Sigurjón réttilega á að frúin eigi vitanlega við þvag] til að búa til litunarlöginn, þá vita þeir upp á hár, hvaða fæðu og drykkjar hver um sig á neyta og hvaða skepnutegund á nota til að fá þennan litinn eða hinn. Þessi fróðleikur var mér bæði nýstárlegur og nytsamur.

Ég gat fengið þrenns konar eða ferns konar lit á ullarband, er ég litaði úr brúnspónslegi [Gytha talar um rauðspón, þ.e. Brasilíutré  sem stundum var kallaður brúnspónn á íslensku en stundum á orðið brúnspónn við annars konar við], með því að skola það úr misjafnlega sterku grænsápuvatni. Notaði ég það til að gera tilbreyting í prjónlesið [öllu heldur segir Gytha að hún hafi með þessu náð fram litbrigðum – sjatteringum – í prjónlesinu].

Hárautt vantaði mig illilega. En ég dó ekki ráðalaus. Maðurinn keypti töluvert af hárauðum böndum [hárauðum borðum] á uppboði í kauptúninu. Ég rakti þau upp og prjónaði úr
bandinu.

 

Hvernig láta má prjónles líkjast ofnu klæði

Mig vanhagaði um vestisefni. [Gyða talar um betri klæði, líklega spariföt, en minnist ekki á vesti.] En þegar mjúkt þelband var prjónað með röndum og prjónlesið þæft og fergt, sýndist mér það vera útlits eins og klæði. Ég gerði þetta, prjónaði rendur með litum, er vel áttu við á svörtum eða gráum grunni, þæfði, kembdi [ýfði] og fergði. Öllum þótti þetta efni nytsamlegt og dáindis fallegt. Ég gaf nokkuð af því, til þess að koma skriði á þessi vinnubrögð.‟

 

Kennsla í klukkuprjónuðum teppum

Nóg var til af ull  [ klukkuprjón er miklu garnfrekara en venjulegt slétt og brugðið prjón] á heimilinu og lét því frúin vinnufólk sitt líka prjóna „patenprjón‟ með fábreyttum litum. Þetta prjónles var líka þæft og fergt og búnar til gólfábreiður úr því grófara, en rúmábreiður úr því, sem fíngerðara var. „Við þurfum ekki að nota neitt til fatnaðar á heimilinu‟, ritar frúin, „annað en heimaunnið efni, nema í frakka handa manninum mínum‟.

 

Áformaður hönnunarstuldur

– Þegar sýslumaður var í þann veginn að leggja af stað til hins nýja embættis síns [sýslumannsembættis í Árnessýslu, um áramótin 1813/14], stakk hann upp á því við konu sína, að hún skyldi láta sig útvega yfirlýsingu embættismanna og verzlunarmanna á Eskifirði og þar í nágrenninu um það, að hún hefði orðið fyrst til þess að taka þar upp prjónaðferðir þær, sem áður er getið. en hún bað hann að gera það ekki, því hún vildi ógjarna vekja öfund annarra né gefa neinum tilefni til að ætla, að sig langaði til að fá meðmæli til að öðlast verðlaun frá Landbúnaðarfélaginu í þriðja sinn.

Samt atvikaðist það svo, að hún féllst seinna á tillögu manns síns. Hún hafði nefnilega gefið hjónum nokkrum sína flíkina með hverri gerð af því, er hún hafði unnið. En hún varð þess aldrei vör, að þessar gjafaflíkur væru notaðar, en aftur á móti sá hún notaðar flíkur, sem voru stæling á þeim. Einkanlega furðaði hún sig á því að sjá aldrei yfirhöfn úr fínu, brúnu ullarbandi, sem var prjónauð handa 7 ára gamalli telpu og svo vel frá gengið að allir héldu, að yfirhöfnin væri úr klæði. Hún lét í ljós undrun sína við kaupmannskonu eina, en hún svaraði brosandi: „Þér eruð á förum héðan, og það eru hjónin líka – til Kaupmannahafnar. Ég er viss um að hjónin ætla að senda flíkurnar frá yður til Landbúnaðarfélagsins, því þau eru samvalin í því, að langar til að skreyta sig með annarra verðleikum.‟

Þetta olli því, að frúin bað mann sinn seinna að æskja yfirlýsingar þeirrar, sem ofar getur. Undir hana skrifuðu presturinn, hreppstjórinn og kaupmenn og verzlunarstjórar á Eskifirði.Meðal þeirra var maðurinn, sem hafði flíkurnar frá frúnni í vörzlum sínum, og gerði hann það mjög fúslega. Yfirlýsingu þessa geymdi frúin, en notaði hana aldrei.

 

Frumtextinn úr Fru Th.s erindringer fra Iisland  (s. 97-99)

Fru Th. fortæller ved denne Leilighed Noget om sine huslige Syssler baade i denne Tid og i tidligere Aar. Hun lærte Iislænderne Patent-Strikning og andre Strikningsarter. Til Gjengjæld lærte de hende „at farve i deres Urter, Græs og Lyng‟, som de tarvelige Øeboere paa en sindrig Maade vidste at benytte. „Ja det er vist‟, skriver hun, „at de i denne henseende ere meget klogere end vi. Naar de ville samle Vædelse til at farve i af Mennesker og Dyr, veed de, hvað Enhver skal nyde af Spise og Drikke, og hvilket Dyr der giver denne Couleur, og hvilket en anden. Disse Erfaringer vare interessante og nyttige for mig. Uldgarn, som jeg farvede i Rødspaan kunde jeg give 3 à 4 forskjellige Couleurer ved at skylle det i stærkere eller svagere Grønsæbe-Vand, og dette brugte jeg til at schattere mine Strikninger med. Høirødt savnede jeg meget; men jeg fandt paa Raad. Ved en Auction paa Handelsstedet kjøbte min Mand en Deel høirøde Baand; dem trævlede jeg op, og strikkede med. Jeg var i Forlegenhed for Bestetøi; men det forekom mig, at naar den bløde, fine Uld blev strikket i Striber, valket og
presset, var det som Klæde.  Jeg iværksatte det ogsaa, i det jeg paa en sort eller graae Bund strikkede Striber med passende Couleurer, valkede, kradsede og pressede det. Alle fandt dette Tøi nyttigt og ret smukt, og for at faae det i Gang forærede jeg nogle Stykker bort‟. Da de havde Uld nok, lod Fruen ogsaa sine Tjenestefolk strikke Patent-Strikning med simple Couleurer. Disse strikkede Arbeider bleve da ligeledes valkede og pressede, og de groveste brugte til Gulvtæpper, de finere til Sengetæpper. „Paa Frakker nær til min Mand‟, bemærker Fruen, „behøvede vi Intet i Huset uden Hjemmegiort‟. – Da Sysslemand Th. vilde reise til sit nye Embede foreslog han sin Kone at tage en Erklæring af Embedsmænd og Handlende i Eskefjords-Egnen om, at hun var den Første, som havde begyndt der med de ovenfor omtalte Strikningsmaader; men hun bad han lade det være, da hun nødig vilde vække Andres Misundelse, eller give Nogen Anledning til den Tanke, at hun ønskede sig anbefalet til 3die Gang at erholde en Premie af Landhussholdningsselskabet. En Omstændighed bragte hende imidlertid til
senere at gaae in paa sin Mands Forslag. Hun havde nemlig foræret en Familie et Stykke af hvert Slags af de Arbeider, hun havde forfærdiget; men hun saae aldrig, at disse Foræringer bleve brugte, men derimod kun eftergjorte Ting. Især undrede det hende aldrig at see en Kavai af bruunt, fiint Uldgarn, strikket til en lille 7 Aars Pige, og saa smukt forarbeidet, at Alle antoge den for at være af Klæde. Hun yttrede sin Forundring herover for en Kjøbmands Kone der svarede hende smilende: „De rejser herfra, de Andre ogsaa, men – til Kjøbenhavn. Jeg veed vist, at Deres Tøi skal sendes til Landhuusholdningsselskabet, da Konen, saavelsom Manden, ville gjøre deres Navne bekjendte ved at pryde sig med Andres Fortjenester‟. Dette bevægede hende til senere at bede sin Mand at afæske Vedkommende den ovenfor omtalte Erklæring. Den blev underskreven af Præsten, Sognefogden og de Handlende ved Eskefjord. Ogsaa den Mand, som gjemte Fruens Arbeider, fandtes meget villig til at underskrive. Erklæringen har hun opbevaret, men ingensinde benyttet.

 

 

 

 

Læknir um kukl

Sagan endurtekur sig og málflutningurinn gengur líka aftur sem sjá má af eftirfarandi dæmi. Feitletranir í texta eru mínar en skáletranir eru höfundarins, Jóns Hjaltalín landlæknis.

Þegar nú tala skal um það, hvernig menn eigi að fyrirbyggja eða verja sig fyrir þessum kvefsóttum, sem á þessari öld gjörast alltíðar, þá er svarið þetta: Flýtið ykkur, landar, að fjölga læknum, allt hvað kostur er á, því það megið þið vita, að allir hinir nýjari stjórnendur álíta það hið stærsta ríkidæmi, að hafa sem flesta og duglegasta lækna. Jeg meina þó engan veginn þar með, að það sje gagnlegast að fjölga sem mest homöopathiskum skottulæknum, eins og gjört hefir verið til þessa, og sem eru vorra tíma hneyxli, eins og þeir nú tíðkast hjer á Íslandi, og eigi annað fyrir að sjá, en þeir, ef þessu fer fram, eyðileggi alveg alla reglulega læknahjálp hjer á landi, og jeg hljóti þar af, og þeir sem mjer hafa fylgt, að hafa þá sorg, að sjá allt það, sem jeg hef barizt fyrir betri læknaskipun hjer á landi, líða undir lok. Það er annað en gaman, þegar jafnvel doctores philosophiae, fyrir utan alla smælingjana, fara að leggjast á eitt, til þess að koma því á, sem haldin er hin versta mótspyrna móti allri reglulegri læknahjálp. Það er von, þótt almenningur, sem fer eptir nafninu “læknir” villist á slíku, einkum þegar þeir heyra það framborið af lærðum mönnum. Eg hefi aldrei láð löndum mínum það, þótt þeir vildu fjölga læknum hjá sjer, því þess þurfa þeir sannarlega með; en hitt hefi jeg jafnan láð þeim, og lái jafnan, að þeir bæði í orði og verki halda með þessum “smáskammtafúskurum” sem aldrei geta kallast læknar, og leggja mjer þann þröskuld í veginn, sem bæði þeim og almenningi hefði átt að þykja mál komið að ryðja sem fyrst út vegi manns.

Þó jeg sje nú kominn alvarlega á hin efri árin, þá er kraptarnir eru vanir að hnigna, er mjer, Guði sje lof, enn nú eigi svo apturfarið, að eigi geti jeg borið hönd fyrir höfuð mjer eða embættisbræðra minna, þegar embættiskylda mín býður það, og læknisfræðinni, sem jeg alltaf hef elskað af hreinum hug, er misboðið af óvitrum og alls eigi mjer velviljuðum mönnum. Landar mínir verða því að kenna sjálfum sjer það, ef jeg sje mjer skylt, að færa þetta homöopathiska stríð út yfir pollinn, hvert sem helzt mjer sjálfum sýnist.

Jón Hjaltalín. Fáein orð um kvefsóttinaHeilbrigðistíðindi 11. tbl. 4. árg. 1879, s. 86-88

Dr. Svanur og hinir vantrúarfélagarnir

Ég horfði á Svan Sigurbjörnsson lækni í sjónvarpsfréttum um daginn, mér til ánægju því þetta er mesti myndarmaður, og skoðaði svo glærurnar hans (krækt er í þær neðst í þessum stutta pistli hér, á skodun.is) sem fylgdu fyrirlestrinum hans á Fræðadögum heilsugæslunnar. Vennmyndirnar á glærunum eru flottar. Þótt ég sé afar ósammála málflutningi Svans nennti ég ekki að mótmæla honum … ekki fyrr en núna þegar ég sá að félagar hans í Vantrú hnykkja á málflutningnum (sjá pistilinn Kuklfrelsi á vef Vantrúar). Það er langt síðan ég hef bloggast á við vantrúarfélaga og mér finnst soldið ljótt að afrækja þá því það er eiginlega enginn sem nennir að svara þeim núorðið. Ég bæti úr þessu núna.

Í málflutningi Svans gegn kukli eru nokkrar auðsjáanlegar gloppur. Helstar eru þessar:

* Hann virðist gera ráð fyrir að fólk sé almennt fífl/óvitar sem verði að hafa vit fyrir svo það fari sér ekki að voða. Mín reynsla af fólki er að flest er það skynsamt. Ég held að það sé hið besta mál að gera fólki betur kleift að nálgast upplýsingar um óhefðbundnar lækningar (kukl og hjálækningar, sem Svanur kýs að kalla þær), þá eru meiri líkur á að menn geti tekið upplýsta ákvörðun um mögulega gagnsemi slíkra lækninga við sínum kvillum. Forsendan fyrir frjálsum vilja er þekking og ég er viss um að við Svanur erum hjartanlega sammála um að frjáls vilji er eftirsóknarverður. (Við erum hins vegar líklega ekki sammála um hvenær hann eigi við, t.d. er ég ekki sammála því að leik- og grunnskólahald á aðventunni eigi algerlega að lúta vilja þeirra örfáu sem er í nöp við jólaundirbúning kristinna manna og Svanur virðist ekki sammála því að veikt fólk fái að velja sér lækningaraðferðir.)

* Svanur (og hinir vantrúarfélagarnir) ganga út frá því að skörp skil séu milli vísinda og ekki-vísinda, þar sem læknisfræði séu vísindi. Ritstjórn Vantrúarvefjarins segist gera þá einu kröfu að vísindaleg vinnubrögð ráði för þegar komi að heilsu fólks. Nú er margt í lækningum sem ómögulega er hægt að kalla vísindi í þeim skilningi að þar hafi vísindalegar aðferðir getað greint orsakir og eðli krankleika eða að læknismeðferð byggi á einhverju sem er vísindalega sannað.

Svo ég taki dæmi af þeirri læknisfræði sem ég hef helst einhverja innsýn í, þunglyndislækningum (sem eru hluti geðlækninga) þá hefur ekki verið sýnt fram á orsakir þunglyndis (þótt settar hafi verið fram ýmsar ólíkar tilgátur út í bláinn öldum saman – tuttugasta- og tuttugastaogfyrstaöldin þar ekki undanskildar), vísindaleg rök fyrir samsetningu þunglyndislyfja eru engin (þótt settar hafi verið fram tilgátur en síðan bakkað með þær) og virkni þunglyndislyfja umfram virkni lyfleysu mælist ekki svo marktækt sé nema í örfámennum hópi allra veikustu sjúklinganna.  Rökin fyrir lyfjagjöf (oft mismunandi blönduðum lyfjakokteilum) handa þunglyndissjúklingum eru klínísk reynsla viðkomandi læknis (mögulega stéttarinnar í heild ef menn eru duglegir að bakka hver annan upp). Aðalrök þeirra sem stunda óhefðbundnar lækningar eru einmitt að reynslan sýni að þær virki. Þá vaknar auðvitað spurningin, í ljósi málflutnings Svans og félaga, hvort reynsla geðlækna hafi miklu meira vægi en reynsla annarra þeirra sem brúka aðferðir sem ekki geta kallast vísindalegar.

Næsti kostur sem geðlæknar bjóða þunglyndum upp á þegar ljóst er að lyfin virka ekki hætis hót eru endurtekin raflost. Það er nákvæmlega ekkert vitað hvað endurtekin raflost gera við heilann; aðferðin var fundin upp við allt öðrum geðsjúkdómi (geðklofa) en þykir virka illa á hann; af reynslu veit ég að sjúklingum er ekki gefinn kostur á upplýstu samþykki fyrir þessari aðferð heldur einungis samþykki á grundvelli afar takmarkaðra og fegraðra upplýsinga. Skelfilegum afleiðingum sem þessi hrossalækning (til að gæta sannmælis tek ég fram að hún var samt upphaflega prófuð á svínum en ekki hrossum) getur haft er ekki haldið á lofti í heilbrigðiskerfinu.

* Svanur virðist gera ráð fyrir að sú þekking sem er viðurkennd í læknisfræði í dag sé hin eina rétta vísindalega þekking á lækningum. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að hluti vísindalegra þekkingar í læknisfræði nútímans gæti þess vegna verið álitin bölvaðar bábiljur í framtíðinni. Annað eins hefur nú gerst í sögu læknisfræðinngar. Ég minni t.d. á þá tvo sem hafa fengið Nóbelsverðlaun fyrir merkilegar uppgötvanir í geðlæknisfræðum:

Walter-Jauregg fékk sín verðlaun 1927 fyrir þá merkilegu uppgötvun að það að smita sýfilisgeðveika með malaríu og láta þá fá duglega hitatoppa í nokkurn tíma gæti lagað geðveikina tímabundið (að því tilskildu auðvitað að sjúklingurinn dræpist ekki úr malaríunni). Á Íslandi brúkuðu menn varíant af þessu, brennisteinsolíu sem var sprautað í vöðva í sama skyni, þ.e. til að láta sjúklinginn frá háan hita, og á sjötta áratugnum (þegar sýfilisgeðveiki hafði verið útrýmt með pensillíni) voru leiðinlega geðveikir sjúklingar á Kleppi enn sprautaðir með eigin blóði í vöðva til að framkalla sótthita … í lækningarskyni. Heimildir um lækningamátt aðferðanna eru hins vegar sjaldgæfar.

Hinn sem fékk Nóbelsverðlaun, árið 1949, fyrir ómetanlegt framlag sitt til geðlækninga var Egan Moniz, sem fann upp á því að hræra tilviljanakennt í hvelatengslum í heilum geðveikra og staðhæfði að þeim batnaði við það. Sú aðferð, lóbótómían, fór sigurför um heiminn og hér á Íslandi urðu harðvítugar blaðadeilur um miðja síðustu öld milli vísindalega þenkjandi lækna og yfirlæknisins á Kleppi sem ekki vildi hræra í heilum sinna sjúklinga og var þ.a.l. ásakaður (af kollegunum) um að fylgjast ekki með og vilja ekki nota vísindalegar aðferðir. Í ljósi sögunnar finnast mér því yfirlýsingar Svans um vísindi nútíma læknisfræði vera helsti hrokafullar.

* Svanur tekur öfgafullt dæmi til að sanna að kukl geti verið lífshættulegt, nefnilega ákvörðun Steve Jobs um að leita sér óhefðbundinna lækninga við sínu krabbameini. Að taka sérvitringinn Steve Jobs sem dæmi um hættu kuklisins er svona álíka og að taka Thalidomide sem dæmi um þær skelfilegur hættur sem kunna að stafa af lyflækningum almennt … Og ég vona að Svani sé kunnugt um þá staðreynd að fólk deyr stundum þrátt fyrir að það skipti við lækna, jafnvel inniliggjandi á spítölum.

Nú er ég ekki sérlega höll undir kukl, til þess er ég of vantrúuð á að margt af því virki. En ég er heldur ekki höll undir allar (meintar) vísindalegar lækningar af því ég veit að sumar eru ekki endilega til bóta og geta verið til mikils skaða. Samt veit ég um mörg dæmi þess að óhefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum og einnig um mörg dæmi þess að hefðbundnar lækningar hafi hjálpað sjúklingum. Ég fagna samtökum á borð við Heilsufrelsi, ekki af því ég sé sammála öllu í þeirra málflutningi heldur vegna þess að ég geri þá kröfu að fólk geti nálgast upplýsingar, aflað sér þekkingar og haft frelsi til að taka ákvarðanir sem snerta þess heilsu. Síst af öllu vil ég að strangtrúarmenn á borð við Svan taki að sér skömmtun á upplýsingum um heilsutengd málefni.

Rugl um rafbækur

Titillinn “Rugl bókaútgefanda og framkvæmdarstjóra Rithöfundasambandsins” er of langur en það er umfjöllunarefni færslunnar.

 

Í gær var haft eftir Kristjáni B. Jónassyni, útgefanda hjá Crymogeu: “Það er alltof dýrt að gefa út rafbækur fyrir markað sem hefur í raun engan áhuga á þeim enn sem komið er.” (Fáar nýjar rafbækur um jólin. Morgunblaðið 8. nóv. 2013, s. 9.) Hvernig Kristján þessi veit að “markaðurinn” hafi engan áhuga á rafbókum er ofar mínum skilningi: Hefur hann kannað þetta? Vissulega er lítil sala í íslenskum rafbókum en augljósustu skýringarnar á því eru tvær:

1. Það eru afskaplega fáar íslenskar bækur gefnar út á rafbókaformi;

2. Í mörgum tilvikum er rafbókaútgáfu á Íslandi svo háttað að það er verulegt vesen að lesa þær, jafnvel ómögulegt.

 

Íslenskir bókaútgefendur eru svo þjófhræddir að jaðrar við þráhyggju þegar kemur að rafbókum. Þeir virðast ímynda sér að sé bók aðgengileg á tölvutæku formi muni henni dreift ólöglega skefjalaust og enginn maður kaupa hana. Þess vegna er allt kapp lagt á að gera rafbækur svo þjófheldar að þær eru jafnvel ólesanlegar með öllu – og svo dregin sú ályktun að “markaðurinn” hafi ekki áhuga á þeim. Líklega er það rétt ályktun, t.d. hefði ég (er ég markaður?) ekki áhuga á að kaupa mér reiðhjól sem væri það vel læst að ég gæti alls ekki hjólað á því eða vellæsta þvottavél sem ekki væri hægt að þvo í o.s.fr. Verulega þjófhræddir reiðhjólasalar og þvottavélasalar myndu svo draga þá ályktun að markaðurinn hefði ekki áhuga á þessum tækjum.

 

Í mínum kunningjahópi heyrði ég um daginn af viðskiptum við íslenska bókabúð: Viðkomandi keypti enska rafbók hjá þessari búð en gat alls ekki opnað skrána. Eftir að hafa fengið “lagaða skrá” senda nokkrum sinnum, án þess að geta opnað hana í sínu spjaldi gafst viðkomandi upp, keypti sömu bókina hjá Amazon og las þá útgáfu án vandkvæða. Ég reikna ekki með að þessi kúnni verði áhugasamur markaður í skilningi íslenskra bókaútgefenda á rafbókaútgáfu á Íslandi.

 

Í Morgunblaðinu í dag (Tvær rafbókaveitur væntanlegar, 9. nóv. 2013, s. 19) er enn meira rugl þjófhræddra hagsmunaaðila bókaútgáfu að finna. Steininn tekur úr í ummælum Ragnheiðar Tryggvadóttur, framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins, sem segir:

‘“Við þurfum að vanda okkur. Passa að efnið flæði ekki óheft, þá erum við búin að tapa baráttunni,” segir Ragnheiður. Í þessu samhengi vísar hún til Svíþjóðar þar sem rafbækur voru lánaðar út á bókasöfnum sem ekki voru afritunarvarðar. Eftir það seldist ekki rafbók.’

 

Ég hef skipt við sænskt rafbókasafn í 2-3 ár, í gegnum bóksafn Norræna hússins. Á sama árabili hef ég keypt svolítið af sænskum rafbókum gegnum dito.se og sé ekki betur en úrvalið þar sé ágætt. Á ég að álykta, af orðum Ragnheiðar, að einu kúnnarnir séu utan Svíþjóðar og að dito.se riggi upp tíu nýjum titlum á viku bara fyrir mig og örfáa aðra útlendinga sem kaupi sænskar rafbækur? Af því rafbækur seljast ekki í Svíþjóð af því bókasöfn þarlendis lána út rafbækur?

Æ fleiri dönsk bókasöfn lána rafbækur (því miður hafa Íslendingar ekki aðgang að þeim). Dönskum rafbókaverslunum fjölgar stöðugt á sama tíma, þetta veit ég því ég skipti reglulega við a.m.k. fjórar þeirra. Nýverið jók bog.nu við þjónustuna með því að birta verðsamanburð á rafbókum einnig svo það er handhægt og fljótlegt að finna út hvar hver rafbók er ódýrust.

Ég les í Kindli og þarf oftast að umbreyta skrám sem ég kaupi eða fæ lánaðar í Skandinavíu (frændur vorir eru enn á epub-stiginu, alveg eins og íslenskir bókaútgefendur). En það er æ fátíðara að skrárnar séu læstar (með DRM-vörn), núorðið láta flestir skandinavískir bókaútgefendur duga að vatnsmerkja eintökin svo þau séu rekjanleg til kaupanda ef þau skyldu dúkka upp á torrent-síðum. (Og í þessu samband má einnig geta þess að það er sárasjaldgæft að rekast á rafbók á skandinavísku máli á svoleiðis síðum svo vilji brotamanna á þessu sviði er ekki í samræmi við þjófhræðslu íslenskra bókaútgefenda og framkvæmdastjóra Rithöfundasambandsins.)

Mér finnst, sem íslenskufræðingi, frekar leiðinlegt að ég skuli lesa æ minna á íslensku. Á þessu heimili eru líklega til hátt í 1000 bækur á pappír og við hjónin eru sammála um að eignast frekar bækur í okkar Kindla, bæði til að grynna á bókaflóðinu og vegna þess að það er miklu þægilegra að lesa í Kindli en á pappír (þótt ekki væri nema til að stækka letrið … á kvöldin þegar ellifjarsýnin gerir vart við sig). Viðhorf íslenskra bókaútgefenda og forsvarsmanns Rithöfundasambandins benda til þess að innan fárra ára lesi ég ekkert á íslensku nema kannski mogga mannsins sem dettur inn um bréfalúgu heimilisins oft í viku.

 

 

 

 

 

Hello world!

Welcome to WordPress. This is your first post. Edit or delete it, then start blogging!