Author Archives: Harpa

Hráefni í lyfjakokteil

Ég gerði lista yfir þau lyf sem ég hef tekið frá árinu 2000 til dagsins í dag. Mögulega vantar eitthvað á þann lista. Lyfin eru (raðað í stafrófsröð):

Amilín, Anafranil, Buspiron Mylan, Cipralex, Efexor, Imovane, Lamictal, Litarex, Lyrica, Marplan, Míron (Remeron), Neurontin, Noritren, Nozinan, Ritalín, Rivotril, Seroquel, Seroxat, Solian, Truxal, Valdoxan, Wellbutrin.

Þetta eru ýmiss konar þunglyndislyf, úr SSRI-lyfjaflokknum, þríhringlaga þunglyndislyf og eitt MAO-lyf. En að auki er þarna að finna mörg lyf sem eru fyrst og fremst ætluð við flogaveiki, úttaugabólgu, geðrofi, geðhvarfasýki eða geðklofa. Eitt svefnlyf er í flórunni.

Úr þessu lyfjahráefni hafa verið hristir mismunandi kokteilar í gegnum tíðina. Enginn þeirra hefur gert verulegt gagn. Eina lyfið sem ég er viss um að hafi raunverulega virkað á þunglyndið er Valdoxan. Það virkaði í rúma þrjá mánuði en svo var sá draumurinn búinn og lyfið hefur ekki virkað síðan.

Mér hefur auðvitað oftast batnað á milli, fyrstu árin komu dýfurnar með löngu millibili og stóðu ekkert sérlega lengi. Eftir á séð er ég hreint ekki viss hvort lyfin sem ég tók hverju sinni skiptu nokkru máli til bata. Líklega hefði mér batnað jafn vel lyfjalausri. A.m.k. sýnist mér öruggt að lyfin hafi ekki virkað fyrirbyggjandi og þar sem ég hef ekki náð almennilegum bata síðan sumarið 2010 get ég ekki séð að það sé mikið gagn í þeim. Aftur á móti er heilmikið ógagn í þeim mörgum sem ég blogga betur um síðar.

Lyfjakokteilar eða kemískar lóbótómíutilraunir?

Fyrir um mánuði síðan fór ég yfir sjúkraskýrslurnar um mig og setti upplýsingar úr þeim upp í sæmilega skipulega töflu. Ástæðan var fyrst og fremst sú að undanfarinn áratugur er fyrir mér í svartaþoku og ég vildi glöggva mig á gangi sjúkdómsins (þunglyndisins) og læknisaðferðum. Þegar ég leit yfir töfluna að verki loknu féllust mér nánast hendur. Ég reikna með að gera að einhverju leyti upp niðurstöðurnar á þessu bloggi en það verður brotakennd yfirferð enda er fortíðin mjög í óminni.

Rauði þráðurinn er lyfjagjöf sem á stundum er í algeru óhófi og á stundum gersamlega óskiljanleg í ljósi sjúkdómsgreiningar. Raunar kemur einnig við sögu undarleg sjúkdómsgreining á tímabili en ég fjalla ekki um hana að sinni – hún var væntanlega tískufyrirbrigði í geðlæknisfræðum á þeim tíma alveg eins og ég held að sum lyfin hafi fremur stjórnast af tísku / stefnum og straumum en að hafi verið eitthvert vit í að gefa þau. Eða bara tilraun út í bláinn (t.d. er mér algerlega óskiljanlegt af hverju prófað var að gefa mér Ritalín í einni geðdeildardvölinni – er Ritalín þunglyndislyf? Þeirri tilraun var sjálfhætt því ég þoldi alls ekki lyfið.) Þessi færsla er líklega helst skiljanleg þeim sem hafa kynnst geðlyfjum … en þeir eru náttúrlega mjög margir því það er einbeitt trú geðlækna og margra annarra að “lyfjakokteillinn eini” sé rétt handan við hornið og um að gera að blanda og hrista sem oftast: Fyrr eða síðar hitti menn á kokteilinn eina sanna. Og sjúklingurinn læknist af sínum kvilla.

Topparnir í skefjalausri lyfjagjöfinni eru á vormisseri 2007 og 2009.

Í janúar 2007 var ég í námsleyfi og stundaði fullt nám við HÍ, til að klára MA-gráðu.  Í þriðju viku janúar virðist mér fara eitthvað að versna og lyfjagjöf er aukin og í lok janúar er þreföldum dagskammti af þunglyndislyfinu sem ég var á (90 mg af Míron) kúplað út á tveimur vikum og annað þunglyndislyf sett inn í staðinn, greiningu breytt úr meðalþungri í djúpa geðlægð. Sjúkdómsgreiningin var geðhvarfasýki (bipolar) en mögulega var átt við bipolar II, þ.e. “geðhvarfasýki án geðhæðarkasta/maníu”. A.m.k. var sjúkdómsgreiningin bipolar II þegar mér var sagt frá þessari bipolar-greiningu sem var eitthvað seinna að ég held. Í janúar 2007 á ég að taka:

  • Cipralex: 20 mg (Þetta er SSRI-þunglyndislyf og skv. Lyfjastofnun er venjulegur dagskammtur 10 mg. Ég var á 30 mg af þessu lyfi fyrir) 
  • Amilín: 150 mg (Gamalt þríhringlaga þunglyndislyf sem hefur verið tekið af markaði. Líklega venjulegur dagskammtur.)
  • Litarex (lítíum): 4 tbl. (Þetta er lyf til að fyrirbyggja geðhvörf, skammturinn slagar hátt upp í skammt sem gefinn er sjúklingi í maníukasti)
  • Seroquel: 200 mg (Þetta lyf er gefið við geðhvörfum, geðklofa og stundum þunglyndi. Mjög skrítið að sama lyfið sé gefið við þessum ólíku sjúkdómum. Lyfið er sefandi. )
  • Solian: 200 mg (Þetta er sefandi geðlyf en virðist einkum ætlað við geðklofa)
  • Rivotril: 1,0-1,5 mg á dag (Lyfið er skilgreint sem flogaveikilyf en er mjög oft notað sem kvíðastillandi enda er þetta benzodrin-lyf)
  • Imovane: 7,5 mg (Þetta er svefnlyf)

Af þessum lyfjakokteil batnaði mér ekki baun. Mig minnir að ég hafi sagt mig úr einum kúrsi (og fengið metnar inn þær einingar úr M.Paed gráðunni, gamlar cand.mag einingar) en tókst að ljúka öðrum og skrifa MA-ritgerð þótt alla önnina sé ég sjúkdómsgreind með alvarlega geðlægð og auk þess stjörf af þessum skemmtilega kokteil (sem var aðeins minnkaður á næstu mánuðum enda hef ég aldrei þolað Litarex í þessu magni og líklega ekki heldur Solian). Strax eftir að ég hafði skilað ritgerðinni fór ég í raflækningar (11 raflost hófust seint í apríl og var stuðað þrisvar í viku sem venja er). Mér fór svo að batna eitthvað í júlí og hefði sennilega eitthvað batnað hvort sem er. Raunar er haft eftir mér í seint í október að ég hafi aldrei jafnað mig eftir “lotuna í vor”.

Rúmum tveimur árum síðar hef ég verið í 75% starfi lengi, þrátt fyrir lyfjakokteilinn, sem var hristur og hrærður úr mismunandi tegundum á þessum árum. Kíkjum á kokteilinn í byjun mars 2009 (ég er enn með greininguna geðhvarfasýki/bipolar og talin í vægri eða meðalþungri geðlægð):

  • Wellbutrin/Zyban: 300 mg en minnkað aftur niður í 150 mg eftir 2 daga (þetta er gamalt þunglyndislyf, sumir taka það til að hætta að reykja. Varað er við notkun lyfsins ef sjúklingur hefur geðhvarfasjúkdóm. Það varð að minnka lyfjaskammt aftur niður í venjulegan dagskammt því ég skalf svo mikið af 300 mg að ég gat ekki drukkið úr bolla eða glasi …)
  • Anafranil Retard: 300 mg (þetta er gamalt þríhringlaga þunglyndislyf. Venjulegur dagskammtur er 75 mg en “Í sumum tilvikum er nauðsynlegt að auka skammtinn í 3 töflur á sólarhring (225 mg)” segir í upplýsingum Lyfjastofnunar)
  • Seroquel: 300 mg (en ákveðið er að minnka skammtinn í 200 mg í 2 vikur og svo niður í 100 mg í 2 vikur – líklega hugað að niðurtröppun)
  • Litarex: 2 tbl.
  • Rivotril: 1,5 – 2 mg á dag

Í sjúkraskýrslu kemur fram að rætt sé um áreiðanleika bipolar II greiningar og að ég “telji” mig þurfa að sofa mikið. Mér virðist hafa tekist að klára önnina, þ.e. vera í 75% kennslu. Þegar ég veikist næst alvarlega, í október 2009, er sjúkdómsgreiningunni breytt í einpóla þunglyndi og hefur verið það síðan. 

Á eigin bloggi hef ég skráð eilítið um líðanina á öllum þessum lyfjum á vorönn 2009:

18. mars 2009: 

Vitið þið hvað er verst við að skjálfa eins og espilauf (minnir mig á að ég hef alltaf ætlað að tékka á hvort þetta sé sama og asparlauf…)?  Það er að reyna að fá sér vatnssopa úr glasi fyrir framan nemendur! Eftir hádegi í dag var ég alveg búin að klára batteríin og skalf frá hnakka og niðurúr. Svo var ég að reyna þetta með báðum höndum á plastglasi (passa að kremja ekki glasið) og hitta á munninn og ná að súpa á þrátt fyrir munnherkjur. Ég sagði svo vandræðalega við blessuð börnin að ég væri ekki í þynnku og blessuð börnin voru svo kurteis að hlægja með mér nett að þeim obskúra möguleika. Best ég venji mig á að snúa baki við nemendum þegar svona stendur á.

30. mars 2009:

Kl. 6 í morgun ákvað ég að nýta morgunsárið til að taka niður þvott og brjóta saman. Árrisul húsfreyja getur komið ýmsu í verk, skal ég segja ykkur. En ekki tókst betur til en svo að ég hrasaði um (tæknilega gallaðan og asnalegan) þröskuldinn á leiðinni þvottahús-eldhús. Verandi með fullt fangið af þvotti datt ég á andlitið, sem betur fer vinstri vangann. Þetta var helvíti vont og ég er fyrst núna, um kvöldið, að fá tilfinningu í tennur og varir – hefur liðið eins og ég kæmi koldofin frá tannlækni í allan dag. Svo verður spennandi að sjá hversu gul, blá og marin ég verð og hvað geta spunnist skemmtilegar kjaftasögur út frá því! (Ekki er til bóta að ég er að kenna unglingunum Grafarþögn … hvar kona er barin eins og harðfiskur og ber þess merki.)

(Ég er búin að detta beint á hnakkann, á bílastæði skólans, aftur fyrir mig á olnbogann um miðja nótt hérna heima – hann bólgnaði ansi mikið og a.m.k. þrisvar í stiganum í skólanum. Er orðin leið á dettiæfingum!)

12. apríl 2009:  

Svoleiðis að af hverju var ég látin taka þetta Seroquel ógeð árum saman? Lyfið er svo sefandi að maður druslast um hálfdrukknaður í hálfu kafi. Það er t.d. ofboðslega erfitt að labba upp stiga. (Ég er búin að pæla í því í nokkur ár hvaða lyf ylli þessum stigavandræðum, sem og dettingum í stiga – og víðar – nú er ég búin að finna það!) Ég myndi fagna upplýsingum um tvíblinda rannsókn á fullfrísku fólki og áhrifum þess að taka 300 mg Seroquel í svona tvo ár. Átti fólkið erfiðara með stiga? Var það túlkað sem lyfleysuáhrif?

Ég vona svo að helvítis kippirnir, svipað og manni sé gefinn selbiti, gangi til baka fljótlega.

Og svo hvernig er að hætta á lyfjasúpunni:

26. apríl 2009:

Þetta eru mikilvægustu úrslit helgarinnar á mínu heimili! Það versta er búið (2 fyrstu næturnar og seinnipartar daga) og í lok næstu viku verður eins og ég hafi aldrei snert á Seroqueli. Þar lýkur 9 vikna tröppun! Hárlosið, sem var búið að gefa í skyn að væri ímyndun í mér, er hætt; baðkerið og hárburstar ekki lengur útbíað í hárum en hins vegar fullt af illhærum í vinstra kollviki, sem bendir til að litla góða hárið sé einmitt að fara að vaxa þar!

Næst snúum við okkur að Lítíum-ógeðinu en ég hef ekki trú á að það verði eins erfitt; mun þó væntanlega gleðjast yfir að geta safnað nöglum sem líta út eins og neglur en ekki bárujárn. (Þetta er óskráð aukaverkun af Litarex og því gef-í-skyn-ímyndun mín, svona stundum alla vega.)  Ég hugsa að ég láti Litarexið bíða fram undir næstu helgi. Þar erum við að tala um tvær tröppur. Og næst … sjáum til!

Þetta er ágætt í bili. Ég held væntanlega áfram í þessari sporavinnu á þessu mínu bloggi til að glöggva sjálfa mig betur á eigin sjúkdómi og lækningatilraunum í meir en áratug. Árangurinn af þeim stanslausum tilraunum byggðum á vísindalegum rannsóknum (að sögn) er að ég er 100% öryrki. Væri ég kannski 200% öryrki ef ég hefði ekki verið svo “heppin” að fá ötula þjónustu í geðheilbrigðiskerfi ríkisins?

Svissneskar skjóður undir helga dóma

Svissnesk skjóða undir helga dómaElstu varðveittu prjónastykki í Evrópu tengjast flest kaþólsku kirkjunni enda rík stofnun og voldug. Meðal þess sem elst er talið af varðveittu prjónlesi eru sex skjóður sem taldar eru hafa geymt helga dóma, þ.e.a.s. einhverjar líkamsleifar dýrlinga.

 

(Myndin til vinstri er af Chur-skjóðunni og krækir í stærri mynd. Hér má sjá myndir af endurgerðri skjóðunni og einnig hér. Litum hefur verið breytt í seinna dæminu um endugerð og skjóðan er ranglega kennd við Sion.)

 

 

Svissnesku skjóðurnar eru taldar frá fjórtándu öld og svo líkar eru þær að þær eru taldar af sama uppruna. Fimm þeirra fundust í dómkirkjunni í Sion (Sitten) en ein í dómkirkjunni í Chur. Sion er í vesturhluta Sviss en Chur er í austurhluta landsins.

 

Hver skjóða er prjónuð í hring úr fínspunnu silkigarni. Prjónið er slétt tvíbandaprjón. Prjónafesta er um 7 lykkjur á sentimetra.Skjóða undir helga dóma

 

Skjóðurnar eru ferhyrndar og á bilinu 20,5-34 cm langar, 16-26 cm á breiddina. Þær eru saumaðar saman í botninn sem skreyttur er 9-15 löngum skúfum. Opið er dregið saman með löngum streng með dúskum/skúfum á hvorum enda. (Svarthvíta myndin til hægri er af einni skjóðanna sem fundust í Sion. Litla myndin krækir í stærri mynd.)

  

 

Sjá má skannaðar myndir af öllum skjóðunum úr bók Richards Rutt, A History of Hand Knitting, á síðunni Medieval Knitting Notes. (Þar eru þær sagðar frá 13. öld en Rutt telur þær ekki alveg svo gamlar.) Endurgerðir þessara skjóða má m.a. sjá hér, hér og hér

  

 

Hér er grein um fléttuðu strengina á þessum skjóðum.

 

Einnig hefur fundist prjónuð skjóða í dómkirkjunni í Sens í Frakklandi, líklega frá þrettándu eða fjórtándu öld. Hún er talsvert ólík svissnesku skjóðunum, er t.d. miklu minni og virðist mega greina letur efst á henni. Skjóðunni er skipt í fjóra fleti með strautböndum. (Krækt er í mynd af skjóðunni frá Sens.)

  

 

Þessa bloggfærslu má einnig finna á vefnum Saga prjóns sem ég vinn alltaf öðru hvoru í þótt hægt gangi.

prjónamunstur af svissneskri skjóðu undir helga dómaSmelltu á myndina til að opna pdf-skjal með munstrinu af Chur-skjóðunni.
Litirnir í munstrinu samsvara greiningu Richards Rutt.
 
 Prjónamunstur af skjóðu undir helga dóma
Smelltu á myndina til að opna pdf-skjal með munstrinu af einni af Sion-skjóðunum.
Litirnir í munstrinu samsvara greiningu Richards Rutt.
 
 
 

Heimild fyrir utan efni á vef sem er krækt í:

Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado 1989 (fyrst gefin út 1987), s. 50-52
 
 
 
 
 
 
 

Arasyndrómið í umræðunni

Þessi færsla er að sumu leyti framhald af síðustu færslu nema hér er ekki fjallað um hina einu réttu afstöðu og þær einu réttu skoðanir heldur þá umræðuhefð sem hinum einu rétthugsandi finnst rétt og við hæfi.

Spurull krakkiUmræðuhefð rétthugsandi hverfist um nokkrar reglur. Þeirra mest áberandi er spurningavaðall, langoftast um eitthvert smáatriði eða jafnvel atriði sem kemur umræðuefninu lítið sem ekkert við. Síðan verða þeir rétthugsandi hoppandi vondir ef spurningum þeirra er ekki svarað. Til hægðarauka mætti kalla þetta “Arasyndrómið”, með vísun í hið ágæta kvæði Stefáns Jónssonar (en vísanir í bókmenntir og bókmenntatitla eru mjög móðins þessa dagana eins og allir rétthugsandi vita).

Glæný dæmi um Arasyndrómið eru í frétt DV í dag, Vigdís gagnrýnir öfgafemínista, þar sem spurningaflóðið vellur úr tveimur rétthugsandi femínistum, þ.e. allar ÞÆR SPURNINGAR sem blaðamaður Monitors HEFÐI ÁTT AÐ SPYRJA frú Vigdísi Finnbogadóttur þegar hann tók viðtal við hana og frú Vigdís HEFÐI ÁTT AÐ SVARA:

María Lilja [Þrastardóttir] segist gjarnan vilja fá að vita hverjar öfgarnar séu sem blaðamaður Monitor eigi við. „Eru það myndaalbúmin hennar Hildar Lilliendahl eða pistlarnir mínir og Önnu Bentínu? Ég skil ekki þetta hugtak; öfgafemínisti. Hvernig er hægt að aðhyllast öfgajafnrétti? Það er ekki til,“ segir María Lilja og bætir við að sér hefði fundið sniðugra að spyrja Vigdísi út í öfgakarlrembur. 

[- – -]

DV leitaði einnig eftir viðbrögðum hjá Hildi Lilliendahl sem sagði umrædda grein bera vott um slappa blaðamennsku. „Hvers vegna var hún ekki spurð hvað hún ætti við? Það er alltaf verið að tala um öfgar í málflutningi og aðferðum femínista en svo lendir fólk í vandræðum með að benda á þessar öfgar. Vigdís kallar sjálfa sig karlréttindakonu. Gott og vel. En hvað á hún við? Hvaða áhyggjur hefur hún af réttindum karla? Hvar finnst henni halla á, hvað heldur hún að verði tekið frá þeim annað en forréttindi?“

Araheilkennið birtist samt miklu oftar á umræðuþráðum. Sem dæmi bendi ég á umræðuþráð við pistilinn “Ósýnilegu konurnar” á vefsvæði knuz.is eða umræðuþráð við eigin færslu, Úrklippublogg Hildar Lilliendahl. Sjálfsagt er hægur vandi að finna sambærileg dæmi á vef Vantrúar eða umræðu við fréttir DV eða Eyjunnar … áhugamönnum um Araheilkennið er bent að leita uppi fréttir sem fjalla um feminísma, trú, virkjanaframkvæmdir eða stóriðju, “ástandið í þjóðfélaginu í dag” eða einhver álíka “heit” rétttrúnaðarmálefni. Áreiðanlega þarf ekki að leita langt yfir skammt á Facebook til að finna slík dæmi. Yfirleitt ná Ararnir að þráspyrja í lokin, “Ætlarðu ekki að svara þessu?” eða staglast á að meintur andstæðingur hafi ekki svarað Araspurningum þeirra, “Merkilegt nokk þá hefurðu ekki svarað þessu”.

Önnur atriði sem eru áberandi í “umræðu” hinna rétthugsandi eru aðallega:

* að brigsla meintum andstæðingi um að vita ekkert í sinn haus (vera einfaldur, heimskur eða eitthvað svoleiðis, svo taka við brigsl um ýmsa geðsjúkdóma eða geðraskanir þegar hinum rétthugsandi er orðið hæfilega heitt í hamsi);

* að brigsla meintum andstæðingi um að vera fákunnandi á einhverju sviði, sem oft kemur umræðunni ekkert við (t.d. að viðkomandi kunni nú ekkert á tölvur … ég minnist þó ekki þess að hafa séð neinum borið á brýn að kunna ekki á þvottavél eða eldavél eða grunnatriði í bifvélavirkjun en það kemur eflaust einhvern tíma í þróun þessarar rétthugsandi umræðuhefðar);

* að brigsla meintum andstæðingi um að þykjast vera heimskari en hann er (t.d. með klisjunum “þú sem ert kennari, hvernig geturðu haldið þessu fram?” … í einfaldaðri mynd er þetta “þú sem ert menntuð manneskja, hvernig geturðu haldið þessu fram?”. Þetta er afbrigði af nöldri fullorðinna við krakka, “þú sem er orðin(n) svo stór ættir að …”);

* að brigsla meintum andstæðingi um að “vera í rosalegri vörn” eða “vera rosalega hörundsár” og gefa þannig til kynna að viðkomandi sé í algerri afneitun sem liti allan hans málflutning;

* að gera lítið úr rökræðuhæfileikum meints andstæðings með því að auglýsa eigin meinta rökræðusnilld. Þetta sést aðallega á því að einhver illa haldinn af Araheilkenninu fer að flagga klisjum á borð við “strámaður” eða “ad hominem rök”. Oft sést að Arinn hefur ekki hugmynd um hvað þessi hugtök þýða en hefur einhvers staðar pikkað þau upp og finnst flott að strá um sig með þessu “fína” orðalagi.

GuttiEflaust má greina fleiri atriði sem lita umræðuhefð þeirra rétthugsandi. Skástu viðbrögðin við þessari hefð er að reyna ekki að svara því það kallar bara á meira á spurningaflóð og stjörnumerktu brigslin sem ég taldi upp hér að ofan.

Satt best að segja hef ég alltaf kunnað miklu betur að meta Guttavísur en Aravísur 🙂 En það er náttúrlega ekki mjög pólitískt réttþenkjandi geri ég mér grein fyrir.

Snorri, Egill og hið eina rétta viðhorf

Nei, þessi færsla fjallar ekki um gömlu reyfarana/þjóðararfinn. Hún fjallar um “takt og tone” á Íslandi í dag, þ.e.a.s. hvað eru hinar einu réttu skoðanir og hvernig sumum leyfist en öðrum ekki.

Í upphafi er rétt að minnast á mál Snorra Óskarssonar grunnskólakennara á Akureyri, sem oft er kenndur við Betel (hvítasunnukirkjuna í Vestmannaeyjum). Snorri skrifaði fræga færslu á sitt blogg þar sem hann sagði m.a.:

Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.

Þessi stutta færsla, blogguð úr frá frétt í mogganum, olli því að nokkrir Akureyringar fengu hland fyrir hjartað. Skólanefnd bæjarins sá til þess að Snorri væri settur í hálfs árs launað leyfi svo hann kæmi ekki nálægt saklausum börnunum og Pétur Maack, sálfræðingur á Akureyri, kærði Snorra til lögreglu fyrir þessi ummæli. Lögreglan vísaði kærunni frá, Snorri segist hlakka til að koma aftur til starfa en hefur til vara boðist til að gera starfslokasamning við sína launagreiðendur, Akureyrarbæ. Svo virðist vera sem skólayfirvöld (væntanlega að undirlagi skólanefndar) setji sem skilyrði fyrir að Snorri megi kenna að hann hætti að blogga. Sjálfur segir hann að sér hugnist ekki að selja tjáningarfrelsið fyrir kennaralaun. 

Það hefur hvergi komið fram hversu margir foreldrar nemenda Snorra hafa tjáð sig um þær. Enda skiptir það engu máli. Málið er að það má ekki tala illa um homma og lesbíur. Þetta vita allir. Það má ekki viðra annað viðhorf til samkynhneigðar en jákvætt. Alveg eins og það má ekki tala um tóbak nema illa. Og auðvitað tekur steininn úr þegar bloggari eins og Snorri rökstyður sína stuttu færslu með trúarlegum rökum, þ.e. tilvísun til kristinnar trúar. Eins og margoft hefur verið bent á af vantrúarfélögum og öðrum rétt-pólitískt-þenkjandi eru talsmenn kristinnar trúar nokkurs konar barnaníðingar, þ.e. barnaníðingar hugans. Það er ótækt að slíkir menn valsi um innan um saklaust ungviðið í grunnskólum.

Leikskólakennari vill kála leserum pass�usálmaAftur á móti virðist allt í lagi þótt starfandi leikskólakennari, Egill Óskarsson, lýsi þeirri skoðun sinni að rétt sé að kála öllum sem lesið hafa Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar í útvarp allra landsmanna, að undanskildum (meistara) Megasi. Og gleymi meira að segja skyldubundnum broskarli í þeirri yfirlýsingu, sem gefin var örskömmu áður en sami leikskólakennari tók við formennsku í félaginu Vantrú. (Þess bera að geta að út af einhverjum tiktúrum í Matthíasi Ásgeirssyni vefstjóra Vantrúar virka linkar af blogginu mínu í opinbera síðu Vantrúar ekki. Lesendum er bent á að endurhlaða síðuna með ummælum Egils þegar hún kemur upp með “Access forbidden” skilaboðunum.)

Af hverju er það allt í lagi að leikskólakennari lýsi því á vefmiðli að rétt sé að taka ákveðinn hóp fólks af lífi fyrir að hafa lesið Passíusálmana í útvarp og einnig að þær bókmenntir beri að banna? Jú, það er vegna þess að Passíusálmarnir eru fullir af gyðingahatri (sem er slæmt) og auk þess illa ortir (mér er ekki ljóst hvort það skiptir í rauninni máli en það er a.m.k. ekki til bóta) og eru auk þess fullir af trúarboðskap hinnar illu evangelísku kirkju. Þess vegna vekja þessi orð enga athygli (önnur skýring gæti raunar verið sú að það séu hvort sem svo fáir sem lesa vef Vantrúar að enginn nema örfámenn klíka hafi tekið eftir þessu).

Munurinn á Snorra hvítasunnuhirði og grunnskólakennara á Akureyri og Agli Óskarssyni formanni Vantrúar og leikskólakennara í Reykjavík er sem sagt sá að hinn fyrrnefndi hefur rangt viðhorf en hinn síðarnefndi hefur hið eina rétta viðhorf. Enn skýrara verður þetta sé haft í huga að Egill Óskarsson er ekki bara pólitískt rétt trúlaus heldur líka vinur femínista. Ef maður er femínistavinur fyrirgefst flest annað. Því femínismi er hið eina rétta viðhorf.

Til að gera lesendum þessarar færslu enn skýrar grein fyrir hinum réttu viðhorfum skal bent á að karlar sem skrifa andstyggileg komment eða saklaus komment með broddi sem beinist gegn konum eiga það fullkomlega skilið að lenda saman í haug í albúminu “Karlar sem hata konur”, sem ku hafa verið deilt um 500 sinnum á Facebook, því karlar mega alls alls ekki segja neitt ljótt um konur. Konur mega hins vegar segja ljótt bæði um karla og konur svo lengi sem þær eru femínistar. Karlkyns femínistar fá svo aukið tjáningarfrelsi af því þeir eru femínistar. Femínistar mega brjóta reglur samskiptamiðla eins og Facebook og baða sig í píslarvætti þegar er lokað á þær/þá. Af því þær eru femínistar og femínistar hafa alltaf rétt fyrir sér, hafa hið rétta viðhorf.

Svo ég taki þetta saman í lokin: Þú skalt eingöngu tala jákvætt um homma, illa um kristna trú og vera femínisti! Það er takt og tone i nutidens samfund. Til frekara öryggis er rétt að tala vel um flokkun rusls, grænmetisneyslu og hjólreiðar en illa um virkjanir, feitt kjöt og Hannes Hólmstein. Fylgirðu þessum einföldu leiðbeiningum verðurðu á grænni grein.

  

Geð, sál, líkami, staðalímynd

Ég ákvað að hverfa til upphafsins og blogga af fingrum fram, örsnöggt … eins og í gamla daga … vangaveltur en ekki heimildablogg.

Undanfarið hef ég verið að reyna að fá einhverja yfirsýn yfir 12 ára sjúkrasögu mína, kannski öllu heldur yfirsýn yfir “lækningasögu” þessarar löngu þrautagöngu. Af því stór hluti þessara ára er í blakkáti og minnistruflanir hrjá mig töluvert reyndi ég að fara skipulega gegnum sjúkraskýrslur, setja upp aðalatriðin í töflu og fletta svo upp frekari upplýsingum á eigin bloggi (sem kemur í ljós að er ómetanleg gagnageymsla).

Ég er sosum ekki komin að neinni niðurstöðu ennþá, á eftir að vinna úr skipulegu töflunni. En mig langar að setja fram tvær tilgátur sem ég á eftir að skoða hvort standist: Geðlækningabatteríið virðist í fyrsta lagi greina sál frá líkama og í öðru lagi byggja á eigin kennisetningum fremur en veikindum sjúklings. Þessar bráðabirgðaniðurstöður komu mér mjög á óvart. Fyrirfram bjóst ég við að sálfræðingar væru kannski frekar á vængnum “sál” versus “líkami” en læknismenntaðir litu frekar á heildina. (Til að rugla mann í ríminu er í tísku að hampa sálfræði sem raunvísindum, þ.e. leggja ofuráherslu á tækni í sálfræðimeðferð, yfirleitt byggðri á atferlisfræðum einhvers konar. Einblíning á HAM (og afleiður, s.s. DAM) nálgast áherslur hörðustu sporatalibana á skýrslutæknivinnuna í tólf spora vinnu.  En sálfræðimeðferð er annars ekki til umræðu í þessari færslu.)

Eftir þeim upplýsingum sem finna má í sjúkraskýrslum um mig að dæma virðist óþol fyrir lyfjum hafa skipt litlu máli ef um var að ræða möguleika á að lækna þunglyndið með lyfjum. Þótt komi fram að ég sé með stöðugan handskjálfta eða líði einhvern veginn frekar illa af lyfjum skal samt gjörprófað hvort þau geti læknað þunglyndið. Dæmi um slíkt er Lítíum, sem ég át árum saman. Af hverju ég var sett á Litíum er mér ekki ljóst því sú sjúkdómsgreining sem væntanlega lá til grundvallar var ekki kynnt mér fyrr en mörgum árum síðar en virðist hafa verið tilgáta sem lengi var haldið til streitu. Fyrir þeirri tilgátu eru engin rök. Það virðist sem sagt ekki hafa skipt miklu máli þótt ég gæti illa spilað á píanó, ætti erfitt með hannyrðir (skjálfhentar prjónakonur ættu að geta sett sig í þessi spor) eða almennt og yfirleitt hafi mér liðið illa á þessu lyfi. (Ég get tekið miklu meir krassandi dæmi af lyfjagjöf og aukaverkunum en Lítíum er ágætt svona vægt meðaldæmi, gerði mig ekki sérlega veika en mér leið illa á því árum saman og það truflaði hvunndaginn, “minnkaði lífsgæði” myndi geðlækningafrasinn hljóma.)

Svona eftir á séð finnst mér merkilegt að “líkamlegar” aukaverkanir hafi ekki þótt skipta neinu sérstöku máli af því markmiðið var að lækna “geðsjúkdóm”. Þetta kannast auðvitað margir geðsjúklingar við: Fólk er látið gadda í sig SSRI-lyfjum þótt því sé pínulítið flökurt alla daga, kynhvötin hverfi og alls konar leiðindi fylgi með. Svo versnar í því þegar lækninum dettur í hug að prófa eldri lyf eða lyf sem eru alls ekkert ætluð við akkúrat þeim sjúkdómi sem sjúklingurinn er haldinn o.s.fr.

Sem stendur, í minni athugun,  finnst mér því ofuráhersla geðlækningabatteríisins á að finna lyf sem læknar geðsjúkdóm eða heldur honum niðri burtséð frá því að sjúklingnum líður bölvanlega á þessu lyfi benda til þess að í geðlækningum sé alls ekki horft á líkama og sál sem heild. Þar á bæ er til eitthvað sem heitir “geð” og á að lækna. Ef eitthvað annað gengur úr skorðum við þessar lækningatilraunir verður bara að hafa það. (Öfgarnar á hinn veginn eru að greina alls ekki milli líkama og geðslags. Það sést þegar öfgafólki í líkamsrækt og lyfjaandstöðu dettur í hug að mikil kroppatamning, helst hlaup, geri líkamann óheyrilega frískan og komi þá einnig í veg fyrir geðsjúkdóma; Að “mens sana in corpore sano” sé óumdeild staðreynd sem ekki þurfi að ræða meir.)

Að greina svo skýrt milli sálar/geðs og líkama eins og gert er í lyfjagjöf eða raflækningum geðlæknisbatteríisins væri kannski ásættanleg afstaða ef tækist alla jafna að lækna geðsjúkdóma á auðveldan hátt með lyfjum. En í mínu tilviki (og margra) hefur það hreint ekki tekist. Og þrátt fyrir stöðugt Lítíum-át á árum áður ýmist versnaði mér eða batnaði, líklega algerlega ótengt þessu lyfi. Fyrstu árin fékk ég stök þunglyndisköst en lagaðist á milli. Þau voru tilviljanakennd, þ.e. ekki bundin árstíma eða aðstæðum. Svo fjölgaði þunglyndisköstum á hverju ári, þau stóðu lengur og nú er svo komið að mér hefur ekki batnað neitt að ráði í meir en ár. Allskonar lyfjakokteilar hafa litlu breytt um þetta.

Hitt sem ég tel mig hafa tekið eftir er að ég uppfylli ekki kennisetningar eða staðlaða ímynd geðlækningabatteríisins um þunglyndissjúkling. Staðlaða myndin virðist vera sprottin úr bókmenntum, svei mér þá! Þótt búið sé að hanna allslags kóða og greiningarlykla fyrir þunglyndi, sem meðferð er síðan miðuð við að einhverju marki, er grunnhugmyndin enn gamla melankólían og heimshryggðin. Líklega á hinn góði þunglyndissjúklingur að hnípa þegjandi úti í horni með tárvota vanga og svartsýnina skínandi úr hverjum andlitsdrætti.

Mín ógæfa (þegar kemur að hlutverki hins staðlaða geðsjúklings) er af þrennum toga.

Í fyrsta lagi sný ég öfugt (í þessu eins og öðru), þ.e.a.s. líður skást á morgnana en verst seinni part dags og á kvöldin. Sjúklingaviðtöl á geðdeildum eru ævinlega á morgnana. Og raunar hitti ég geðlækninn minn líka ævinlega á morgnana. Eðlilega (fyrir mig) er ég með hressasta móti akkúrat þá. Ég man eftir að hafa hitt einn sjúkling sem snéri eins og svo lesið um annan, í Sýnilegu myrkri. Alla jafna er upplitið á öðrum þunglyndissjúklingum á geðdeild voðalega trist á morgnana, sömu sjúklingar eru svo þokkalega hressir að horfa á sjónvarp á kvöldin. En ekki ég. Þess vegna er ég oft “kvótuð” sem “hress” eða “glaðleg” í þessum skýrslum. Líka þegar ég hef verið fárveik. Enda eru fáir til vitnis um annað því starfsfólkið er náttúrlega flest að sinna sjúklingum sem eru frammi og ég hef yfirleitt dregið mig í hlé eftir kvöldmat (sem á spítölum er kl. 17.30). Geðlæknirinn minn hefur ekki séð mig síðla dags í um áratug.

Í öðru lagi hverfur mér ekki mál nema fárveikri og þá seinnipartinn og á kvöldin. Ég hafði atvinnu af því í aldarfjórðung að tala, tala og tala, allan daginn, ýmist ein upp við töflu/kennaraborð eða vafrandi milli vinnandi nemenda eða á kennarastofu (venjulegar kennarstofur líkjast talsvert fuglabjargi). Og eiga stanslaus samskipti við uppundir hundrað manns á hverjum degi. Þetta skilja allir framhaldsskólakennarar. En í vöktun á geðdeildum er það að blanda geði við aðra sjúklinga, t.d. taka þátt í samræðum, eða eiga sæmilega auðvelt með að tjá mig á skýran og skilmerkilegan hátt á morgunfundum, talið merki þess að ég sé hreint ekki svo mjög veik.

Og í þriðja lagi vann ég svo lengi svo veik að ég er sérfræðingur í að setja upp grímu, reyna að líta út eins og normal manneskja og akta normal fram í rauðan dauðann. Man ennþá þegar niðurstaða úr einhverju mati nemenda á mér var nær einróma sú að ég væri sérstaklega glaðlyndur og skapgóður kennari. Þá þurfti ég að hafa mig alla við að mæta í vinnuna og lagðist örskömmu síðar inn á geðdeild. Önnur ástæða fyrir því að ég kann afar illa við að gráta fyrir framan aðra eða bera harminn sem skikkju er að í ákv. kreðs sem ég hef stundað í meir en tvo áratugi eru manni kennd ýmis trix til að komast í gegnum daginn. Meðal þeirra verkfæra eru “Fake it till you make it” og svo náttúrlega að “taka Pollýönnu á’etta”.

Þannig að ég fell illa að hinu harmræna þögla lúkki og hollingu sem er staðalímynd þunglyndissjúklings meðal þeirra sem vinna við geðlækningar og geðhjúkrun.

Af reynslu og af þeim gögnum sem ég hef verið að skoða undanfarið virðist það hvað sjúklingurinn segir um eigin líðan ekki skipta nærri eins miklu máli og hve vel hann fellur að fyrirfram tilbúinni staðalímynd. Tilbúnar óumbreytanlegar kennisetningar um hvernig þunglyndissjúklingur skuli líta út og bera sig ráða ríkjum í geðlækningabatteríinu. Þetta er í rauninni enn verri brennimerking en þunglyndissjúklingur eins og ég finnur fyrir frá venjulegu fólki í umhverfi sínu.

Þetta eru ennþá bara tilgátur. En ég er ansi hrædd um að þær standist og verði enn skýrari þegar ég hef skoðað þetta betur. Sérstaklega verður áhugavert að skoða hvernig lyfjagjöf, líðan og sjúkdómsmynstur falla saman (öllu heldur er tilgátan sú að þetta falli alls ekki saman) og velta fyrir sér rökunum fyrir lyfjagjöfinni.

Sagan endalausa: Einkaflipp bæjarstjórans og vasapeningar handa ritnefndinni

Nokkuð kyrrt hefur verið um Sögu Akraness undanfarið, a.m.k. opinberlega. En því fer fjarri að ævintýrinu sé lokið. Og áfram borgum við Skagamenn brúsann, bæði af einkaútspili móðgaðs bæjarstjóra og væntanlega af huggulegum fundarhöldum hinnar eilífu fimm manna ritnefndar – í bæ þar sem allt er skorið við nögl, allar gjaldskrár hækkaðar í botn núna um áramótin, öllum stofnunum gert að spara sem mest …  og heyra má þær raddir að endar nái samt ekki saman.
 

Örlítil upprifjun

ReiðurSvo sem unnendur Sögu Sögu Akraness kannast við hótaði okkar góði bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, ritdómararnum Páli Baldvini Baldvinssyni lögsókn vegna ritdóms sem hinn síðarnefndi skrifaði um Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson. Árni Múli sagði að sér fyndist þessi bók „bullandi fín“ og „þrælgóð“ og í kompaníi við Kristján Kristjánsson, útgefanda bókarinnar, og Gunnlaug sagnaritara lét Árni Múli einn lögfræðing Akraneskaupstaðar skrifa Páli Baldvini bréf þar sem þess var krafist að hann leiðrétti og bæðist afsökunar á fimmtán ummælum í ritdómnum.(Sjá Kaupstaður, höfundur og útgefandi vilja leiðréttingu og afsökunarbeiðni í Fréttatímanum 19. ágúst 2011. Neðst í þessari frétt er krækt í ritdóminn sem fór svo fyrir brjóstið á mínum góða bæjarstóra. Bæjarstjórinn hafði svo sem ekki sparað stóru orðin frá því ritdómurinn hans Páls Baldvins birtist, sjá t.d. Segir ritdóm bera með sér einkenni fúllyndis og lítilmennsku í Skessuhorni 14. júlí 2011. Á  því skemmtilega Islandsbloggen. Nyheter og nedslag från ett afläggset grannland er sagan endalausa í hópi endalausra frétta, sjá Praktverk om Akranes sågas – kommun hotar stämma, 30. júlí 2011, þaðan er linkað í fyrri fréttir af stórmerkilegri sagnaritun á vegum Akraneskaupstaðar.)

Páll Baldvin Baldvinsson svaraði í sömu mynt og hótaði Árna Múla Jónassyni lögsókn því hann hefði vegið að æru sinni og starfsheiðri. (Sjá Páll Baldvin í hart vegna Sögu Akraness. Stendur við hvert orð í bókardómi sínum á Eyjunni 23. september 2011.)

Páll Baldvin tók síðan saman langt varnarskjal, öllu heldur upptalningu á staðreyndum sem rökstuddu hverja einustu staðhæfingu sem hann hafði haldið fram í ritdómnum. Þetta er ekki fögur lesning, öllu heldur mjög ófagur vitnisburður um óhóflegan myndastuld og subbuleg vinnubrögð sagnaritara Akraneskaupstaðar. (Sjá Skýtur fyrst og spyr svo, Fréttatímanum 30. september 2011, sem hefst raunar með nokkrum (venjubundnum) mergjuðum upphrópunum bæjarstjórans okkar og ljómandi fallegri mynd af sama bæjarstjóra, en greinargerð Páls Baldvins fylgir í kjölfarið.  Þeir sem eiga bágt með að lesa langa texta ættu kannski að láta greinargerðina eiga sig).

Þann 4. janúar 2012 sendi Árni Múli Jónasson frá sér yfirlýsingu í nafni Akraneskaupstaðar um að fallið væri frá málsókn á hendur Páli Baldvini Baldvinssyni vegna ritdómsins: 

Að vandlega íhuguðu máli er það því þeirra ákvörðun að eyða ekki frekari tíma, orku eða fé til að elta ólar um þessi mál við Pál Baldvin. Sú ákvörðun byggist meðal annars á því að frá því að Páll Baldvin birti umræddan ritdóm sinn í Fréttatímanum hafa virtir menn á þessu sviði, Guðmundur Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, Jón Torfason, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands og Jón Þ. Þór, sagnfræðingur og sagnaritari birt ritdóma sína um Sögu Akraness og farið mjög lofsamlegum orðum um hana,“ segir í yfirlýsingu Árna Múla. (Sjá Elta ekki ólar við Pál Baldvin, Fréttatímanum 5. janúar 2012.)

Það má náttúrlega spyrja sig hvað hefði gerst ef þessir „virtu menn á þessu sviði“ hefðu ekki farið lofsamlegum orðum um bókina? Hefði Árni Múli þá kært? Jóns Torfasonar er reyndar sérstaklega getið í fámennum kreditlista Gunnlaugs Haraldssonar í formála að Sögu Akraness I og þökkuð aðstoðin við efnisöflun svo hann er nú kannski ekki alveg hlutlaus aðili. (Hér er krækt er í þennan lofsamlega dóm Jóns Torfasonar, sem birtist í Skessuhorni 10. ágúst 2011.) Dómur Jóns Þ. Þór var afar stuttur, megnið af honum greinargerð fyrir efnisyfirliti bókarinnar og ég held að hann hafi aldrei ratað á vef DV þótt aðrir bókardómar fyrir jólin birtust þar einnig. Þær örfáu málsgreinar sem ekki voru um efnisskiptingu voru lofsamlegar. Ritdómur Guðmundar Magnússonar, fyrrverandi forstöðumanns Þjóðmenningarhúss, birtist í Þjóðmálum, sömuleiðis stuttur og talsverðum hluta eytt í að rekja efnisþætti en vissulega var hann lofsamlegur.

 

 
Við borgum móðgelsi bæjastjórans

 

Bæjarbúar borga lögfræðikostnað Árna MúlaÞegar Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, leitaði til lögfræðings til að kanna grundvöll fyrir meiðyrðamáli og fékk aðstoð hans við að semja hótanirnar gegn Páli Baldvini gerði hann það að eigin frumkvæði og án þess að fá leyfi bæjaryfirvalda. Þessi „tími, orka og fé“  sem fór í að reyna að hanka ritdómararann er hins vegar ekki tekinn af vinnustundum, brennslu eða úr vasa bæjarstjórans heldur erum við íbúar Akraness látnir borga þetta uppistand. Og það var ekki eins og Árni Múli (sem er vel að merkja sjálfur lögfræðingur að mennt) hefði svona rétt látið skanna þennan 550 orða ritdóm Páls Baldvins til að meta mögulegar forsendur fyrir meiðyrðamáli. Nei, keypt var 28,25 klst. vinna lögmanns til verksins. Hún kostaði 484.487 kr. með virðisaukaskatti en við íbúarnir, sem borgum, getum glaðst yfir að Akraneskaupstaður fær endurgreiddan virðisaukaskattinn svo heildarkostnaðurinn er 385.452 kr. Kannski ekki svo há tala í bæjarhítinni en mér finnst nokkuð mikið að punga út slíkri upphæð bara út af móðgelsi bæjarstjórans enda finnst mér, af fréttum og hljóðritunum af bæjarstjórnarfundum, að hann sé svona heldur móðgunargjarn. Vonandi fer hann ekki að stunda það að rjúka í lögfræðing í hvert sinn sem honum rennur í skap, það gæti orðið ansi dýrt fyrir þá sem borga. Og það er ekki hann.

Varla þarf að taka fram að þetta framtak okkar ágæta bæjarstjóra hefur hvergi verið rætt á opinberum fundum í stjórnsýslu bæjarins, ef marka má fundargerðir.

  

 
Karlarnir í ritnefndinni þurfa náttúrlega áfram að geta hist og spjallað um stórvirkið sem þeir sjá í ævarandi í hillingum

 

Það hefur heldur ekki verið bókað neins staðar sérstaklega að bæjarstjórn hefur samþykkt að gera ráð fyrir „kaupum á sérfræðiþjónustu“ vegna vinnu við Sögu Akraness á árinu 2012 fyrir rúmlega 4 milljónir króna. „Þeirri fjárhæð hefur ekki verið ráðstafað að neinu leyti ennþá, en gert er ráð fyrir að ritnefnd um Sögu Akraness fjalli um áframhald og geri tillögur til bæjarstjórnar um ráðstöfun þess fjár í samráði við bæjarstjóra“ segir í svari Akraneskaupstaðar við fyrirspurn minni nú seint í febrúar. Líklega er þessi upphæð falin einhvers staðar í fjárhagsáætlun bæjarins en ef einhver veit hvar sjá má hana opinberlega og sundurliðaða á vef bæjarins fagna ég ábendingu þar um.
  
 

Leikskólabörn geta snapað gams en Saga Akraness blívur

 

Svoleiðis að í bæjarfélagi sem er á kúpunni (núna í kvöld voru foreldrar einmitt að funda um fjórar niðurskurðartillögur og gjaldskrárhækkanir á leikskólum bæjarins, en hver þeirra er talin spara um 3-4 milljónir) eru samt til fjórar milljónir handa ritnefnd um sögu Akraness til að leika sér með ásamt bæjarstjóranum. Sú ritnefnd er fimm manna þannig að fundirnir eru dýrir.

Í samanburði má nefna að þetta vesalings bæjarfélag, Akraneskaupstaður, hefur ekki efni á nema þriggja manna fjölskylduráði, sem fer með alla málaflokka sem snerta leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, félagsmál, félagslega aðstoð og íþróttamál.

 

Móðguð ritnefnd um sögu AkranessRitnefndin margmenna hefur ekki fundað síðan í júníbyrjun en þá hittust karlarnir fimm og sömdu yfirlýsingu þar þeir hörmuðu hvað ég hefði skrifað illa um tæpan fjórðung þeirrar góðu bókar, Sögu Akraness I, í Skessuhorni (tæpa eina A-4 síðu langa aðsenda grein), lýstu því yfir að þetta væri „stórt og glæsilegt verk“ og luku sinni ritsmíð þannig: „Nefndin lýsir yfir fullu trausti á verðleika höfundar til fræðistarfa og hvetur bæði hann og bæjaryfirvöld til að halda verki áfram.“  Þessi fundur karlanna kostaði bæinn, þ.e.a.s. okkur útsvarsgreiðendur, 64.000 krónur. Líklega hafa nefndarlaunin hækkað eitthvað síðan.

 

Ég er sammála ritnefndinni um að þetta eru stór verk og þung eru þau. En Saga Akraness I og II fékkst á tæpar 16.000 krónur (bæði bindin saman) í okkar góðu bókabúð, Pennanum, fyrir jólin, sem verður að teljast ódýrt per kíló (sambanborið við t.d. sæmilegt kjöt).

 

 
  
  
 

Úrklippur Hildar Lilliendahl

Nú um stundir virðist í tísku að klippa út ummæli á netinu og brúka sér til athygli, yndis og ánægjuauka. Í takt við tískuna klippti ég smávegis út (þótt ég hafi lítið stundað slíkt síðan ég óx upp úr dúkkulísuleikjum) … valdi blogg Hildar Lilliendahl Viggósdóttur til úrklippulistaverksins. Gersovel!
 
 

Konan sem elskar náungann
 
 
Kirkjudóni og helvítis trunta
Hildur Lilliendahl blogg
(19. febrúar 2011)
Berja Hlín Einars fyrir mig
  
Hildur Lilliendahl blogg
(12. nóvember 2010)
Útnefning nauðgaravinar dagsins

Hildur Lilliendahl blogg
(15. maí 2011)

 

Fávitar … þ.m.t. á Barnalandi

  

Hildur Lilliendahl blogg
(1. júní 2011)

 
 

Fleiri fávitar á Barnalandi – hér er rætt um unglingsstúlkur
 Hildur Lilliendahl blogg
(11. janúar 2011)

 

 

Snilldarmynd greinilega

 
 Hildur Lilliendahl blogg
(4. mars 2011)
 

Þessar úrklippur eru fengnar af bloggi Hildar Lilliendahl.

Vantrú gegn Bjarna Randver

Vantrú gegn Bjarna Randver pdf-skjalÉg hef tekið saman allar bloggfærslurnar um þetta mál í eitt pdf-skjal. Með því að smella á myndina til vinstri opnast skjalið.

  

   

Samantekt: Vantrú og siðanefnd HÍ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Þann fjórða febrúar 2010 kærði Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður félagsins Vantrúar, stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir siðanefnd HÍ. Kæruefnið voru lítill hluti glæra sem notaður var í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem Bjarni Randver kenndi á haustmisseri 2009 í guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. Samtímis voru afhent kvörtunarbréf yfir því sama til rektors HÍ og deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar. Erfitt er að meta hve margir félagar í Vantrú stóðu að baki kærunni og kvörtunum en af þeim heimildum sem ég hef skoðað má ætla að þeir hafi verið fáir, líklega innan við tugur manns.

  

LeikbrúðustjórnandiReynir Harðarson virðist hafa skipulagt aðgerðir Vantrúar fyrirfram og nokkrir félagar í Vantrú fylgdu kæru og kvörtunum stíft eftir með greinaskrifum á vef Vantrúar, bloggum þessara vantrúarfélaga, þátttöku á umræðuþráðum við annarra manna blogg, bréfum til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og rektors, og með því að senda bréf og greinargerðir til fjölmiðla. Þar sem þessi mikla umfjöllun var öll af sjónarhóli Vantrúar gaf hún vitaskuld mjög takmarkaða sýn á málið. Vantrúarfélagar höfðu engar forsendur til að meta glærurnar í samhengi því enginn þeirra hafði setið námskeiðið. Sá þeirra sem líklega hefði átt að átta sig eitthvað á umfjölluninni, t.d. um Helga Hóseasson og þá frægu glæru um málflutning fylgismanna Dawkins, Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, virðist hafa kosið að fatta ekki samhengið eða líta fram hjá því sem ætla mætti að hann skildi.

  

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild afgreiddi málið með bréfi deildarforseta þann 9. mars 2010, þar sem lýst var yfir að tekið yrði tillit til athugasemda Vantrúar ef námskeiðið væri kennt aftur, um það væru hann og Bjarni Randver sammála. Í sama bréfi lýsti deildarforseti yfir að Bjarni Randver nyti fyllsta trausts síns sem kennari í trúarbragðafræði.

  

Stigaganga � verki EscherÞegar siðanefnd HÍ hóf afskipti af málinu aðeins seinna (því formaður nefndarinnar hafði verið fjarverandi) kom annað hljóð í strokkinn. Siðanefnd HÍ undir forsæti Þórðar Harðarsonar þverbraut eigin starfsreglur. Í stað þess að skoða kæruna almennilega og úrskurða hvort hún varðaði yfirleitt siðareglur HÍ, eins og átti að vera fyrsta skref í ferli máls í siðanefnd HÍ, einhenti siðanefndin sér í að fá guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ til að skrifa undir opinbera sátt við Vantrú þar sem hinn kærði, Bjarni Randver Sigurvinsson, væri sakfelldur. Guðfræði- og trúarbragðfræðideild bar að „viðurkenna og harma, að kennsluefnið felur ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn“ og taka athugasemdir Reynis Harðarsonar „og samtaka hans […] til jákvæðar skoðunar, þegar og ef til þess kemur, að námskeiðið verði endurtekið.“

  

Raunar er ekki nóg með að siðanefnd HÍ hafi kosið að draga guðfræði- og trúarbragðafræðideild inn í málið (þótt deildin hafi ekki verið kærð til siðanefndar) heldur virðast einstakir nefndarmenn, einkum formaðurinn Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, siðanefndarfulltrúi, hafa reynt að kúga deildina til þátttöku með því að hóta að ella yrði hinum kærða stundakennara, Bjarna Randveri, fórnað, þ.e. að siðanefnd myndi úrskurða að hann hefði brotið siðareglur HÍ, sem hefði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir starf og frama Bjarna Randvers sem fræðimanns. Þetta er a.m.k. skilningur þáverandi deildarforseta, Péturs Péturssonar, á óformlegum samskiptum við þessa siðanefndarfulltrúa.

  

Hvað varðar óformleg samskipti siðanefndar við málsaðila aðra en hinn kærða, sem var hunsaður með öllu, voru þau ótrúleg. Svo virðist sem Þórður Harðarson formaður siðanefndar hafi haft tíð samskipti við formann Vantrúar, Reyni Harðarson, og farið vel á með þeim, liggur við að hægt væri að kalla að þeir hafi átt samstarf í málinu. Þórður Harðarson hefur seinna útskýrt þessi samskipti sem merki um sinn samstarfsvilja og sáttfýsi. Hann hefur líkt störfum sínum við störf sáttasemjara í kjaradeilu. Þórði Harðarsyni yfirsést að sáttasemjari í kjaradeilu talar í fyrsta lagi við báða aðila máls og í öðru lagi að slíkur sáttasemjari hefur ekki neitt vald til að víta annan aðilann en líkja má úrskurði um brot á siðareglum HÍ við vítur – með grafalvarlegum afleiðingum.

  

Eftir að kennurum við Hugvísindasvið HÍ barst vitneskja um þann ótrúlega feril sem mál Bjarna Randvers var í hjá siðanefnd HÍ gripu þeir til aðgerða enda ljóst að aðfarir Þórðar Harðarsonar og félaga hans voru í fyrsta lagi engri siðanefnd sæmandi og fólu í öðru lagi í sér beina aðför að akademísku frelsi kennara. Sá sem upplýsti kennara utan guðfræði- og trúarbragðafræðdeildar fyrst um málavöxtu var Guðni Elísson prófessor. Hópur kennara sem vissi deili á málinu fór hratt stækkandi. Þeir beindu spurningum til siðanefndar HÍ sem voru nógu óþægilegar til að Þórður Harðarson sagði af sér sem formaður siðanefndar. Sérfræðingar í túlkunarfræðum fóru að eigin frumkvæði yfir kennslugögn í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar og sáu ekkert athugavert við þær í samhengi við markmið, námsefni og kennslu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Kennarar skrifuðu greinargerðir um mál Bjarna Randvers, jafnt glærurnar og umfjöllunarefni námskeiðsins, sem vinnubrögð siðanefndar. (Þegar félagið Vantrú hafði dregið kæruna til baka skrifuðu nokkrir nemendur greinargerðir um reynslu sína af kennslu Bjarna Randvers í Nýtrúarhreyfingum, að beiðni Guðna Elíssonar prófessors. Hvorug siðanefndin sá ástæðu til að leita upplýsinga hjá nemendum.)

  

Þegar Ingvar Sigurgeirsson var skipaður sérstakur formaður sérstakrar siðanefndar, sumarið 2010 (eftir afsögn Þórðar formanns, raunar skipaði svo Háskólaráð nýja siðanefnd tveimur dögum eftir að Ingvar tók við þessari sérstöku – og raunar var Þórður Harðarson aftur skipaður formaður siðanefndar að tillögu Kristínar Ingólfsdóttur háskólarektors og Þorsteinn Vilhjálmsson aftur skipaður siðanefndarfulltrúi, að tillögu Félags prófessora), var hann og þau hin í nokkrum vanda stödd. Hefði hin sérstaka siðanefnd farið að starfa eftir starfsreglum siðanefndar HÍ og einbeitt sér að réttum ferli máls, þar sem fyrsta reglan var að kanna hvort kæran eins og hún var fram sett snerti siðareglur HÍ og vísa henni ella frá  … hefði málinu verið vísað frá. Það hefði aftur á móti verið nánast vantraustsyfirlýsing á fyrri formann, Þórð Harðarson, og fyrri siðanefnd, en svo vildi til að sömu siðanefndarfulltrúar sátu í hinni sérstöku siðanefnd og þeirri á undan, Þorsteinn Vilhjálmsson og Sigríður Þorgeirsdóttur. Þorsteinn hafði að auki verið endurskipaður í „alvöru“ siðanefnd HÍ um leið og sú sérstaka tók til starfa. Það hefði náttúrlega verið ansi slæm lending fyrir HÍ að lýsa því óbeint yfir að þeir Þórður og Þorsteinn hefðu klúðrað málum gersamlega þegar nýbúið var að endurskipa þá í siðanefnd HÍ til ársins 2013!

  

Reyna að lista atriði kæruIngvar Sigurgeirsson brá á það ráð að fá tvo aukafulltrúa til liðs við siðanefndina sína. Þessir fulltrúar voru líklega kunningjar hans og væntanlega fullnuma í nýsitækni (þ.á.m. glærugerð) enda höfðu þeir lengi kennt á sama vettvangi og Ingvar, þ.e.a.s. starfað við menntun grunnskólakennara og þá menntun sem framhaldsskólakennurum er gert skylt að ljúka til að fá kennsluréttindi. Síðan reyndi hin sérstaka siðanefnd að leita með logandi ljósi að einhverju sem gæti mögulega hankað kennarann á að hafa brotið siðareglur HÍ. Á tímabili setti siðanefndin hinum kærða, Bjarna Randveri Sigurvinssyni, að greina kæruatriði Vantrúar svo þau pössuðu við siðareglur HÍ og semja svör við þeim greindu kæruatriðum. Síðar spreyttu annar aukafulltrúinn og lögmaður HÍ á þessari greiningu. Þær tilraunir virðast engu hafa skilað.

  

Ingvar formaður siðanefndar, sem er prófessor á Menntavísindasviði, lét sér detta í hug að fá úrlausnir 7 nemenda á einni spurningu á lokaprófi í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, þar sem nemendur áttu að beita mismunandi skilgreiningum trúarlífsfélagsfræðinga í greiningu á Siðmennt og Vantrú. Sett voru ákveðin skilyrði fyrir að siðanefnd fengi þessar úrlausnir, s.s. að hver nemendanna gæfi upplýst samþykki sitt, en siðanefnd fylgdi þessari beiðni aldrei eftir. Seinna kenndi Ingvar þrýstingi háskólakennara um að siðanefndin hefði ekki fengið prófúrlausnirnar.

  

Ingvar Sigurgeirsson kenndi líka afskiptum háskólakennara um að hinnu sérstöku siðanefnd undir hans stjórn varð ekkert ágengt með þetta mál, auk þess að kenna því um að Bjarni Randver Sigurvinsson hefði fengið sér lögmann til að gæta réttinda sinna. Satt best að segja verður það að teljast skynsamleg ráðstöfun Bjarna Randvers í ljósi þess hvernig siðanefnd undir stjórn Þórðar Harðarsonar hafði hagað sér og hvernig siðanefnd undir stjórn Ingvars virtist ætla að feta svipaða braut enda kannski um heiður fyrri siðanefndarmanna að tefla og Bjarni Randver var áfram eins og hvert annað peð í kærumálinu gegn honum sjálfum.

  

Svo kom að því að Ingvar Sigurgeirsson fékk nóg og hótaði að segja af sér. Þá loksins greip rektor HÍ í taumana, hélt fund með Ingvari og fulltrúum Vantrúar og á þeim fundi dró Vantrú kæruna til siðanefndar HÍ til baka, þann 28. apríl 2011. Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor virðist hafa lofað Vantrú og Ingvari að óháðir aðilar tækju þetta mál út, skv. því sem bæði hún og Vantrú hafa sagt. En skv. bókun Háskólaráðs þann 5. maí 2011 virðist ráðið hafa farið að áskorunum fjölda háskólakennara og skipað þess vegna óháða nefnd til að taka út feril málsins innan HÍ.

  

Skýrsla óháðu nefndarinnar var birt opinberlega þann 13. október 2011. Hún ber störfum siðanefndar HÍ ófagurt vitni, sérstaklega þeirrar sem Þórður Harðarson var í forsvari fyrir en finnur einnig ýmislegt að störfum nefndarinnar undir stjórn Ingvars Sigurgeirssonar.

  

Í kjölfarið á birtingu þessarar skýrslu og sérstaklega eftir að ítarleg fréttaskýring um málið birtist í Morgunblaðinu snemma í desember síðastliðnum hefur margt og mikið verið fjallað um þennan málarekstur sem hófst með kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni og stóð linnulítið í meir en ár í höndum siðanefndar HÍ, raunar miklu lengur af hálfu Vantrúar en félagið lagði áfram kapp á að rægja Bjarna Randver á sínum vettvangi á Vefnum og úthúða stuðningsmönnum hans. Í rauninni má segja að einelti Vantrúar, á tímabili með dyggum stuðningi hluta siðanefndar HÍ, hafi ekki lokið fyrr en skýrsla óháðu nefndarinnar birtist, um einu ári og átta mánuðum eftir að kæran barst siðanefnd HÍ.

  

Frá því fyrrnefnd fréttaskýring um málið birtist í byrjun desember og viðtal í Kastljósi við Bjarna Randver Sigurvinsson rétt á eftir hefur málflutningur forsvarsmanna Vantrúar breyst í samræmi við kenningar um hefðbundna afneitun gerenda eineltis: Á vef Vantrúar fóru að birtast greinar um að félagið Vantrú sé hið eina sanna fórnarlamb í þessu máli og hafi sætt ómaklega einelti háskólakennara sem komið hafi í veg fyrir að saklaust erindi félagsins hafi fengið réttláta málsmeðferð innan HÍ. Formaður Vantrúar, Reynir Harðarson sálfræðingur, sem stjórnaði málflutningi Vantrúar lengst af og átti að öllum líkindum drjúgan þátt í skipulagningu hans í upphafi, hefur verið algerlega ósýnilegur á Vefnum og í fjölmiðlum síðan snemma í október 2011. Matthías Ásgeirsson tók þá að sér að koma fram fyrir hönd félagsins, í fjölmiðlum og í bloggskrifum.

  

Reiða kisaViðbrögð Matthíasar og nokkurra vantrúarfélaga við þessari bloggfærsluröð minni má lesa í umræðuþræði við bloggfærsluna Punktar um umfjöllun, á bloggi Matthíasar, Örvitanum. (Mögulega lokar Matthías á aðgang að umræðuþræðinum af þessu bloggi, hann hefur þegar lokað aðgangi að vef Vantrúar af blogginu mínu. Lesendum er bent á að afrita slóðina í annan glugga vefskoðara ef til þess kemur.) Félagið Vantrú hefur einungis gert athugasemdir við eina færslu í þessari færsluröð, þ.e. færsluna um félagið Vantrú. Grein Hjalta Rúnars Ómarssonar á vef Vantrúar er frá 17. janúar í ár og heitir Hin stranga og öfgasinnaða Vantrú.

  

Nú fyrir skömmu, um miðjan febrúar 2012, hefur Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, hreinsað Bjarna Randver Sigurvinsson af öllum áburði um að hann hafi nokkru sinni brotið siðareglur HÍ í kennslu, í bréfi til starfsmanna HÍ og í fréttaviðtölum vegna þess bréfs. Það ber að vona að háskólarektor beiti sér af megni fyrir að Bjarna Randveri verði bætt mannorðstjón og kostnaður sem hann ber af þessu máli.

  

En eftir sem áður sitja þeir Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson í siðanefnd HÍ, nú ásamt Eyju Margréti Brynjarsdóttur, sem stjórn Félags Háskólakennara útnefndi sinn fulltrúa í desemberbyrjun 2011, eftir að Salvör Nordal sagði sig úr siðanefnd HÍ. Þórður Harðarson er formaður siðanefndarinnar.