Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í.
Glærur í efnisflokknum Frjálslynda fjölskyldan, sem var einn af 20 glæruflokkum (glærusettum) í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar á haustmisseri 2009, liggja frammi á vantru.is, án leyfis glæruhöfundar. Hér er krækt í þær á vef Vantrúar þar sem þær eru birtar sem pdf-skjöl:
- Glærur 1-39
- Glærur 40 – 76 (um De-ista, þ.e. frumgyðistrúarmenn eða guðstrúarmenn án trúarjátningar, og Helga Hóseasson)*
- Glærur 77 – 137
- Glærur 138-174 (um félagið Vantrú o.fl.)*
Í stjörnumerktu glæruröðunum eru glærur sem Vantrú sá ástæðu til að kvarta undan, einkum glærum um sig. Vantrú kvartaði/kærði samtímis til þriggja aðila innan Háskóla Íslands. Bréfin eru nær samhljóða. Helsti munurinn er sá að í bréfið til siðanefndar Háskóla Íslands var bætt: „Við gerum einnig athugasemdir við að Bjarni Randver noti myndir af félagsmönnum án þess að geta myndhöfunda“ og „Við teljum ástæðu til að huga sérstaklega að eftirfarandi greinum siðareglna H.Í.: […]“ Sjá má hvaða greinar þetta voru í færslunni Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa. Greinargerðirnar sem fylgja bréfunum til siðanefndar HÍ og Péturs Péturssonar eru samhljóða og má lesa bréfið til Péturs Péturssonar og meðfylgjandi greinargerð á vef Vantrúar. Fylgiskjöl til þessara aðila voru glærur 40-70 og 138-174 úr glærusettinu Frjálslynda fjölskyldan en félagið Vantrú tölusetur hvorn flokk upp á nýtt, þ.e. kallar fyrstu glæru í hvorum flokki nr. 1 o.s.fr. Mér er ókunnugt um hvort greinagerðin og fylgiskjöl fylgdu bréfinu til rektors.
Ritstjórn Vantrúar fjallaði um glærurnar sem félagið kvartaði undan í greinum tölusettum III-XI sem sjá má undir efnisflokknum Háskólinn, neðst á þessari síðu, og uppskar mikil viðbrögð á umræðuþráðum við hverja grein.
Námskeiðið Nýtrúarhreyfingar á haustönn 2009
Fyrst er að gera örlitla grein fyrir kúrsinum Nýtrúarhreyfingar. (Vantrú kallar reyndar námskeiðið „áfanga“ undir lok sinna bréfa, sem gæti mögulega bent til þess að félagsmönnum sé ekki alveg ljós munurinn á framhaldsskólakennslu og háskólakennslu.)
Í námskeiðinu er gefið yfirlit yfir það sem margir trúarbragðafræðingar hafa skilgreint sem nýtrúarhreyfingar, þ.e. trúarhreyfingar sem á síðari árum geta talist nýjar af nálinni í viðkomandi þjóðfélagi eða menningarsvæði. Jafnframt er þar gerð grein fyrir helstu kenningum um félagslegar forsendur þeirra, birtingarmyndir og stöðu og fjallað um sögu þeirra, hugmyndafræði og skipulag með hliðsjón af greiningum, einkum félagsfræðinga og guðfræðinga, innan trúarbragðafræðanna. Sérstök áhersla er lögð á að gefa yfirlit yfir þær hreyfingar sem starfað hafa á Íslandi eða fengið töluverða umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.
Í upphafi námskeiðsins er áréttað að svo til allt námsefnið sé umdeilt og öll greining háð þeim forsendum sem gengið er út frá í upphafi. Þannig er ágreiningur meðal almennings, fræðimanna og hreyfinganna sjálfra hvernig beri að skilgreina trúarhugtakið og hvort einstaka hreyfingar geti flokkast sem trúarlegar. Í raun er deilt um hverja einustu hreyfingu sem tekin er til umfjöllunar í námskeiðinu hvort hún geti talist trúarleg og er það algjörlega óháð því hvort hún skilgreinir sjálfa sig með þeim hætti eða ekki. Og þeir fræðimenn sem flokka hreyfingarnar sem trúarlegar eru ekki heldur á einu máli um hvort eða að hvaða marki hægt sé að tala um nýtrúarhreyfingar í því sambandi því að færa má rök fyrir því að þær allar eigi sér sögulegar og menningarlegar rætur langt aftur í aldir þegar betur er að gáð. Engar trúarhreyfingar verði til í hugmyndasögulegu tómarúmi heldur séu þær allar viðbrögð við ríkjandi menningarstraumum og hefð þar sem byggt er á eldri grunni eða með hann unnið, jafnvel þótt útfærslurnar kunni að vissu marki að vera nýjar af nálinni.
(Bjarni Randver Sigurvinsson. Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, s. 9. Feitletranir eru mínar. Þessi greinargerð er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi höfundarins til að vitna í það. Hér eftir verður vísað í þetta skjal sem Greinargerð Bjarna Randvers.)
Í námskeiðinu var fjallað um fjölmargt. Fyrst var fjallað um trúarhreyfingar á Íslandi, sjónarmið um nýtrúarhreyfingar, nýtrúarhreyfingar í Evrópu og togstreitu milli stjórnvalda og trúarhreyfinga. Síðan voru ýmsar trúarhreyfingar skoðaðar sérstaklega og má sem dæmi taka húmanistahreyfinguna, spíritista- og nýjaldarhreyfinguna/fjölskylduna, moonista, dulspeki, nýheiðni og galdra, búddisma og hindúisma. (Sjá Greinargerð Bjarna Randvers s. 24.)
Af þessu má vera nokkuð ljóst að efni námskeiðsins var afar fjölbreytt og venjulegt fólk myndi kannski frekar tengja efni og efnistök við félagsvísindi en trúfræði (námskeiðið fellur undir trúarbragðafélagsfræði). Ég hef þó grun um að bæði félagið Vantrú og formaður siðanefndar HÍ hafi fyrirfram gefið sér að um væri að ræða trúfræðinámskeið og mun rökstyðja það betur síðar. Nemendur í námskeiðinu voru enda af ýmsum toga og ekkert endilega skráðir í guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Auðvitað voru allar þessar glærur einungis hluti kennsluefnisins, til grundvallar voru lagðar þrjár bækur og fjöldi bókarkafla og greina. Ég vísa í fyrri færslu um hvernig glærur eru yfirleitt notaðar í kennslu en það hvarflar að mér að félagið Vantrú og formaður siðanefndar HÍ hafi einnig gefið sér að glærurnar væri uppistaðan í kennslu- og námsefni og því stórlega ofmetið vægi þeirra.
Kennarinn, Bjarni Randver Sigurvinsson, bendir í sinni greinargerð á að meginatriðin sem hann reyndi að draga fram um félagið Vantrú tengist þeim rannsóknarspurningum lágu námskeiðinu til grundvallar. Rannsóknarspurningarnar voru, endursagðar í mjög grófum dráttum:
* Hvers konar félagslega hreyfingu er um að ræða?
* Hvers konar hugmyndafræði liggur til grundvallar?
* Er um einhvers konar boðun að ræða og þá hverja?
* Hver er helsta gagnrýni á hreyfinguna?
* Hver eru helstu sérkenni hreyfingarinnar?
(Greinargerð Bjarna Randvers s. 58.)
Yfir hverju kvartaði Vantrú og kærði?
Það er ekki vinnandi vegur að fjalla um öll klögumál Vantrúar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, kennara og glæruhöfundi, á bloggi. Hér á eftir og í næstu færslu(m) verða því einungis valin atriði til umfjöllunar.
Í fyrsta lagi má nefna að víða í kæru Vantrúar kemur fram óánægja með að vitnað sé í eitthvað sem Vantrú kýs að kalla „einkablogg“. Þar er yfirleitt átt við blogg stjórnamanna og félaga í Vantrú þar sem þeir lýsa oft viðhorfum sínum til trúarbragða, kirkjudeilda o.fl þessu tengdu. Nú eru til einkablogg, þ.e.a.s. blogg sem eru læst og einungis sumir hafa aðgang að með lykilorði. En almennt eru blogg opinber og lúta sömu lögmálum og hver önnur opinber birting, svo sem greinaskrif í blöð eða vefmiðla. Mér finnst einkennilegt í ljósi þess hve margir stjórnarmanna í Vantrú eru prýðilega tölvulæsir að þeir skuli virkilega halda að blogg sé einkamál og í þau megi ekki vitna. Á það hefur verið bent að væri þessi skoðun almenn myndi það væntanlega einnig fela í sér að ekki mætti vitna í greinar stjórnmálamanna eða viðtöl við þá heldur einungis í opinberar yfirlýsingar og gögn viðkomandi stjórnmálaflokks. Ef einstökum félögum í Vantrú er í mun að reka einkablogg liggur beinast við að þeir læsi samstundis sínum bloggum og úthluti lykilorðum til þeirra lesenda sem þeir vilja að skoði þau.
Sem dæmi um slíka kvörtun (en þær eru margar) má nefna:
Glæra 6 og 7 eru skjámyndir af einkabloggi Óla Gneista (formanni [svo] Vantrúar 2009) þar sem hann lýsir yfir mikilli ánægju sinni með trúleysisráðstefnuna 2006 og lýsing á kynnum hans af Richard Dawkins. Þessar tvær færslur virðast hafa verið sérvaldar af fjölmörgum sem Óli skrifaði um ráðstefnuna út frá því að Richard Dawkins er þar í aðalhlutverki. Tilgangur Bjarna virðist vera að sýna að vantrúarmenn sem [svo] lærisveina eða skósveina Richards Dawkins. Ekki virðist vera að Bjarni hafi talið þörf á að útskýra þessi skrif með hliðsjón af því að Óli Gneisti var í skipulagsnefnd umræddar ráðstefnu og gleði hans skýrist að miklu leyti af því að hafa skilað af sér góðu verki. (S. 4-5 í greinargerð Vantrúar með kærunni.)
Til hægri er lítil mynd af annarri glærunni sem krækir í stærri mynd á vef Vantrúar, hin glæran er þar fyrir neðan. Loks er þriðja glæran á þessari vefsíðu þar sem Vantrú ályktar að verið sé að gera Óla Gneista að lærisveini Dawkins, sem er auðvitað algerlega út í hött því dagsetninga og ártala er getið á glærunni sjálfri. Virðist þar sem Vantrú telji að ef atriði B sé sett undir atriði A á glæru sé verið að meina að B sé afleiðing af A:
Tilvitnunin í Óla [er] sett undir fyrirsögn sem gefur til kynna að hún sé undir áhrifum frá Dawkins sem hún er ekki. Í ágúst 2006 var bókin God Delusion ekki komin út, hún kom ekki út fyrren 2007. Er tilgangurinn að sýna fram á áhrif „hugmyndafræðingsins“ á lærisveininn? (S. 6 í greinargerð Vantrúar með kæru).
Að sögn kennarans var tilgangurinn með birtingu þeirra þriggja glæra, sem Vantrú kallar nr. 6, 7 og 8, fyrst og fremst sá að gefa nemendum sýnishorn af starfsemi Vantrúar í samvinnu við aðrar hreyfingar þar sem jafnframt kæmi fram félagsleg grundvallarforsenda vaxtar allra skipulagðra hreyfinga. Fjöldi trúarlífsfélagsfræðinga hafi bent á að menn hópist saman í hreyfingar á borð við Vantrú vegna þess að þeir finni þar fólk sem er sama sinnis og sjái bæði forystumenn og virka meðlimi í jákvæðu ljósi og sem mögulegar fyrirmyndir. Textinn af glærunum átti einungis að sýna hliðstæðu í jákvæðu ljósi þ.e. hve bæði Óli Gneisti og Dawkins væru stoltir af guðleysi sínu. Í kennslustundinni tók kennarinn svo fram að guðleysingjar hafi einmitt lagt aukna áherslu á að skilgreina sig með jákvæðum hætti fremur en bara út frá einhverju sem þeir eru á móti og benti á að „Dawkins stofnaði t.d. The Out Campaign hreyfinguna árið 2007 sem nokkurs konar hliðstæðu við mannréttindahreyfingar samkynhneigðra til að árétta mikilvægi þess að guðleysingjar komi út úr skápnum og líti sjálfa sig jákvæðum augum.“ (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 71-72.)
Vantrúarfélagar voru þó mun reiðari út af glæru sem sýndi orðbragð nokkurra félagsmanna og fylgismanna Vantrúar. Sú móðgun tengist líka skrítnum hugmyndum þeirra um „einkablogg“ en ber þess aðallega merki að þeir gera sér litla grein fyrir því samhengi sem glæran var í, þ.e.a.s. gera sér ekki grein fyrir um hvað námskeiðið snérist og geta þar af leiðandi ekki tengt glæruna við líklega umfjöllun um félagið Vantrú. Misskilningur þeirra er sá að halda að glærurnar eigi að vera aðlaðandi kynning á Vantrú eða auglýsing fyrir félagið. Má sjá glæruna og umræðu um hana á IX Guðfræði í HÍ: Orðbragðið, á vef Vantrúar. Í kæru Vantrúar segir:
Vantrúarfélögum þykir sérlega mikilvægt að glæra 20 sé skoðuð alveg sérstaklega en hún ber titilinn „Orðbragðið“. […] Bjarni birtir lista af dónaskap sem hann hefur dundað sér að safna af vefsíðum tengdum félagsmönnum og hugsanlega Vantrú. Við neitum ekki að við notum oft orðalag sem öðrum finnst óheft [svo] en við teljum óhæfu að birta svona lista án samhengis.[…]
Síðan fjallar Vantrú um að Matthías Ásgeirsson hafi aldrei notað orðið „hlandspekingur“ um nafngreindan einstakling í nokkuð löngu máli og að oftast noti hann orðin „asni“ og „bjáni“ um sjálfan sig. Þessari klausu í kærunni lýkur svona:
Aftur hljótum við að spyrja hvort hér er um fræðslu að ræða eða einstrengingslegan áróður. Hvaða tilgangi þjónar þessi glæra? Er hún málefnaleg eða sanngjörn? Getur hún rétta mynd af umfjöllunarefni guðfræðingsins?
Í umræðuþræði við umfjöllun mína um Vantrú hélt ég því fram að félagar í Vantrú væru harðir aðgerðarsinnar (aktívistar). Ég er enn þeirrar skoðunar. Partur af þessum aktívisma er ljótt orðbragð. Það hafa fjölmargir bent á slíkt áður og raunar halda Vantrúarfélagar því sjálfir fram í kærunni að þeir noti „orðalag sem öðrum finnst óheft“ (væntanlega eru þeir að meina „óheflað“). Í umfjöllun Vantrúar um þessa glæru sést að Vantrúarfélagar hafa lagt í mikla vinnu við að rekja einstök ummæli, annars vegar á vef Vantrúar og hins vegar á bloggi Matthíasar Ásgeirssonar. Þeir hrósa sigri ef þeir finna dæmi um orðalag sem ekki var notað um nafngreint fólk, til dæmis orðið hlandspekingur (sem mér finnst ljómandi gott nýyrði). En Vantrúarfélögum yfirsést líklega að í þeim færslum sem þeir vísa í máli sínu til stuðnings er að finna mun grófari ummæli, s.s. þegar þeir verja orðalagið „augljóslega snarbiluð manneskja“ og vísa í færslu Matthíasar sem heitir Geðsjúklingurinn Jónína Ben. Annað hvort hefur Bjarni Randver dregið úr ummælum Matthíasar eða Matthías breytt upphaflegum ummælum í „augljóslega snargeðbilaða manneskju“ sem er, frá mínum sjónarhóli séð, síst til bóta.
Að mínu mati skiptir ekki öllu máli hvort hverju einasta dæmi á þessari glæru megi finna stað á bloggi Matthíasar eða vef Vantrúar enda tjá félagar í Vantrú og fylgismenn þeirra sig miklu víðar en þar. Ekkert á glærunni bendir til að eingöngu sé stuðst við þessa tvo vefi og auðvelt er að finna mun grófari dæmi, eins og ég var að benda á.
Aðalröksemd Vantrúar í kærubréfinu er að listinn sé birtur án samhengis. Þetta er merkilegt kæruefni því Vantrúarfélagar höfðu nefnilega ekki hugmynd um samhengið. Enginn þeirra sem að kærunni stóðu hafði setið námskeiðið. Hvernig áttu þeir að vita hvað fór fram í kennslustundinni? Þeir virðast ekki einu sinni hafa fattað um hvað námskeiðið snérist! Mér sýnist blasa við að þessi glæra, sem líklega var brugðið upp rétt sem snöggvast, hafi verið liður í að ræða seinustu tvær rannsóknarspurningarnar sem lágu til grundvallar námskeiðinu, væntanlega bara einn liður af mörgum í þeirri umræðu. Mögulega tengdist hún fleiri rannsóknaspurningum.
Aðalröksemd Vantrúar sýnir aðallega að þeir sem stóðu að kærunni virðast ekki hafa hugmynd um hvernig glærur eru notaðar í kennslu. Með rök Vantrúar að vopni mætti t.d. kæra hvern þann málfræðing sem tekur dæmi um „mérun“ (þágufallssýki) og ekki getur þess ítarlega á glæru í hvaða samhengi hvert dæmi kom fyrir hverju sinni. Kennari í bókmenntafræði væri í verulega slæmum málum, skv. sömu rökum, ef tekin væru dæmi um myndhverfingar úr ljóðum án þess að sýna öll ljóðin í heild og gera um leið grein fyrir í hvaða ljóðabók þau birtust og hvaða ár, jafnvel höfundum þeirra, þeim stefnum og straumum sem þeir aðhylltust o.s.fr. Hver kennari sér að þetta er rugl og það er dálítið undarlegt til þess að hugsa að Óli Gneisti Sóleyjarsson þjóðfræðingur, sá formaður Vantrúar sem var kveikjan að kærunni, og Reynir Harðarson sálfræðingur, sem tók við formennsku af Óla Gneista, skrifaði undir kærubréfin og lýsti yfir heilaga stríðinu, skuli báðir hafa meistaragráðu. Ég hefði haldið fyrirfram að hver sæmilega háskólamenntaður maður sæi hversu mikið rugl krafan um skilyrðislaust samhengi dæma á glærum er.
Fleiri klögumálum Vantrúar verða gerð skil í næstu færslu.
Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.