Author Archives: Harpa

Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, II. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Glærur í efnisflokknum Frjálslynda fjölskyldan, sem var einn af 20 glæruflokkum (glærusettum) í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar á haustmisseri 2009, liggja frammi á vantru.is, án leyfis glæruhöfundar. Hér er krækt í þær á vef Vantrúar þar sem þær eru birtar sem pdf-skjöl:

ÁsakaÍ stjörnumerktu glæruröðunum eru glærur sem Vantrú sá ástæðu til að kvarta undan, einkum glærum um sig. Vantrú kvartaði/kærði samtímis til þriggja aðila innan Háskóla Íslands. Bréfin eru nær samhljóða. Helsti munurinn er sá að í bréfið til siðanefndar Háskóla Íslands var bætt: „Við gerum einnig athugasemdir við að Bjarni Randver noti myndir af félagsmönnum án þess að geta myndhöfunda“ og „Við teljum ástæðu til að huga sérstaklega að eftirfarandi greinum siðareglna H.Í.: […]“ Sjá má hvaða greinar þetta voru í færslunni Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa. Greinargerðirnar sem fylgja bréfunum til siðanefndar HÍ og Péturs Péturssonar eru samhljóða og má lesa bréfið til Péturs Péturssonar og meðfylgjandi greinargerð á vef Vantrúar. Fylgiskjöl til þessara aðila voru glærur 40-70 og 138-174 úr glærusettinu Frjálslynda fjölskyldan en félagið Vantrú tölusetur hvorn flokk upp á nýtt, þ.e. kallar fyrstu glæru í hvorum flokki nr. 1 o.s.fr. Mér er ókunnugt um hvort greinagerðin og fylgiskjöl fylgdu bréfinu til rektors.

Ritstjórn Vantrúar fjallaði um glærurnar sem félagið kvartaði undan í greinum tölusettum III-XI sem sjá má undir efnisflokknum Háskólinn, neðst á þessari síðu, og uppskar mikil viðbrögð á umræðuþráðum við hverja grein.
 

Námskeiðið Nýtrúarhreyfingar á haustönn 2009

Fyrst er að gera örlitla grein fyrir kúrsinum Nýtrúarhreyfingar. (Vantrú kallar reyndar námskeiðið „áfanga“ undir lok sinna bréfa, sem gæti mögulega bent til þess að félagsmönnum sé ekki alveg ljós munurinn á framhaldsskólakennslu og háskólakennslu.)
 

 Í námskeiðinu er gefið yfirlit yfir það sem margir trúarbragðafræðingar hafa skilgreint sem nýtrúarhreyfingar, þ.e. trúarhreyfingar sem á síðari árum geta talist nýjar af nálinni í viðkomandi þjóðfélagi eða menningarsvæði. Jafnframt er þar gerð grein fyrir helstu kenningum um félagslegar forsendur þeirra, birtingarmyndir og stöðu og fjallað um sögu þeirra, hugmyndafræði og skipulag með hliðsjón af greiningum, einkum félagsfræðinga og guðfræðinga, innan trúarbragðafræðanna. Sérstök áhersla er lögð á að gefa yfirlit yfir þær hreyfingar sem starfað hafa á Íslandi eða fengið töluverða umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum.
     Í upphafi námskeiðsins er áréttað að svo til allt námsefnið sé umdeilt og öll greining háð þeim forsendum sem gengið er út frá í upphafi. Þannig er ágreiningur meðal almennings, fræðimanna og hreyfinganna sjálfra hvernig beri að skilgreina trúarhugtakið og hvort einstaka hreyfingar geti flokkast sem trúarlegar. Í raun er deilt um hverja einustu hreyfingu sem tekin er til umfjöllunar í námskeiðinu hvort hún geti talist trúarleg og er það algjörlega óháð því hvort hún skilgreinir sjálfa sig með þeim hætti eða ekki. Og þeir fræðimenn sem flokka hreyfingarnar sem trúarlegar eru ekki heldur á einu máli um hvort eða að hvaða marki hægt sé að tala um nýtrúarhreyfingar í því sambandi því að færa má rök fyrir því að þær allar eigi sér sögulegar og menningarlegar rætur langt aftur í aldir þegar betur er að gáð. Engar trúarhreyfingar verði til í hugmyndasögulegu tómarúmi heldur séu þær allar viðbrögð við ríkjandi menningarstraumum og hefð þar sem byggt er á eldri grunni eða með hann unnið, jafnvel þótt útfærslurnar kunni að vissu marki að vera nýjar af nálinni.

  
 (Bjarni Randver Sigurvinsson. Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, s. 9. Feitletranir eru mínar. Þessi greinargerð er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi höfundarins til að vitna í það. Hér eftir verður vísað í þetta skjal sem Greinargerð Bjarna Randvers.)

Í námskeiðinu var fjallað um fjölmargt. Fyrst var fjallað um trúarhreyfingar á Íslandi, sjónarmið um nýtrúarhreyfingar, nýtrúarhreyfingar í Evrópu og togstreitu milli stjórnvalda og trúarhreyfinga. Síðan voru ýmsar trúarhreyfingar skoðaðar sérstaklega og má sem dæmi taka húmanistahreyfinguna, spíritista- og nýjaldarhreyfinguna/fjölskylduna, moonista, dulspeki, nýheiðni og galdra, búddisma og hindúisma. (Sjá Greinargerð Bjarna Randvers s. 24.)

Af þessu má vera nokkuð ljóst að efni námskeiðsins var afar fjölbreytt og venjulegt fólk myndi kannski frekar tengja efni og efnistök við félagsvísindi en trúfræði (námskeiðið fellur undir trúarbragðafélagsfræði). Ég hef þó grun um að bæði félagið Vantrú og formaður siðanefndar HÍ hafi fyrirfram gefið sér að um væri að ræða trúfræðinámskeið og mun rökstyðja það betur síðar. Nemendur í námskeiðinu voru enda af ýmsum toga og ekkert endilega skráðir í guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Auðvitað voru allar þessar glærur einungis hluti kennsluefnisins, til grundvallar voru lagðar þrjár bækur og fjöldi bókarkafla og greina. Ég vísa í fyrri færslu um hvernig glærur eru yfirleitt notaðar í kennslu en það hvarflar að mér að félagið Vantrú og formaður siðanefndar HÍ hafi einnig gefið sér að glærurnar væri uppistaðan í kennslu- og námsefni og því stórlega ofmetið vægi þeirra.

Kennarinn, Bjarni Randver Sigurvinsson, bendir í sinni greinargerð á að meginatriðin sem hann reyndi að draga fram um félagið Vantrú tengist þeim rannsóknarspurningum lágu námskeiðinu til grundvallar. Rannsóknarspurningarnar voru, endursagðar í mjög grófum dráttum:

 * Hvers konar félagslega hreyfingu er um að ræða?
 * Hvers konar hugmyndafræði liggur til grundvallar?
 * Er um einhvers konar boðun að ræða og þá hverja?
 * Hver er helsta gagnrýni á hreyfinguna?
 * Hver eru helstu sérkenni hreyfingarinnar?
    (Greinargerð Bjarna Randvers s. 58.)
 

Yfir hverju kvartaði Vantrú og kærði?

Það er ekki vinnandi vegur að fjalla um öll klögumál Vantrúar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni, kennara og glæruhöfundi, á bloggi. Hér á eftir og í næstu færslu(m) verða því einungis valin atriði til umfjöllunar.

Í fyrsta lagi má nefna að víða í kæru Vantrúar kemur fram óánægja með að vitnað sé í eitthvað sem Vantrú kýs að kalla „einkablogg“. Þar er yfirleitt átt við blogg stjórnamanna og félaga í Vantrú þar sem þeir lýsa oft viðhorfum sínum til trúarbragða, kirkjudeilda o.fl þessu tengdu. Nú eru til einkablogg, þ.e.a.s. blogg sem eru læst og einungis sumir hafa aðgang að með lykilorði. En almennt eru blogg opinber og lúta sömu lögmálum og hver önnur opinber birting, svo sem greinaskrif í blöð eða vefmiðla. Mér finnst einkennilegt í ljósi þess hve margir stjórnarmanna í Vantrú eru prýðilega tölvulæsir að þeir skuli virkilega halda að blogg sé einkamál og í þau megi ekki vitna. Á það hefur verið bent að væri þessi skoðun almenn myndi það væntanlega einnig fela í sér að ekki mætti vitna í greinar stjórnmálamanna eða viðtöl við þá heldur einungis í opinberar yfirlýsingar og gögn viðkomandi stjórnmálaflokks. Ef einstökum félögum í Vantrú er í mun að reka einkablogg liggur beinast við að þeir læsi samstundis sínum bloggum og úthluti lykilorðum til þeirra lesenda sem þeir vilja að skoði þau.

Sem dæmi um slíka kvörtun (en þær eru margar) má nefna:

Óli Gneisti Sóleyjarson Glæra 6 og 7 eru skjámyndir af einkabloggi Óla Gneista (formanni [svo] Vantrúar 2009) þar sem hann lýsir yfir mikilli ánægju sinni með trúleysisráðstefnuna 2006 og lýsing á kynnum hans af Richard Dawkins. Þessar tvær færslur virðast hafa verið sérvaldar af fjölmörgum sem Óli skrifaði um ráðstefnuna út frá því að Richard Dawkins er þar í aðalhlutverki. Tilgangur Bjarna virðist vera að sýna að vantrúarmenn sem [svo] lærisveina eða skósveina  Richards Dawkins. Ekki virðist vera að Bjarni hafi talið þörf á að útskýra þessi skrif með hliðsjón af því að Óli Gneisti var í skipulagsnefnd umræddar ráðstefnu og gleði hans skýrist að miklu leyti af því að hafa skilað af sér góðu verki. (S. 4-5 í greinargerð Vantrúar með kærunni.)

Til hægri er lítil mynd af annarri glærunni sem krækir í stærri mynd á vef Vantrúar, hin glæran er þar fyrir neðan. Loks er þriðja glæran á þessari vefsíðu þar sem Vantrú ályktar að verið sé að gera Óla Gneista að lærisveini Dawkins, sem er auðvitað algerlega út í hött því dagsetninga og ártala er getið á glærunni sjálfri. Virðist þar sem Vantrú telji að ef atriði B sé sett undir atriði A á glæru sé verið að meina að B sé afleiðing af A:
 

 Tilvitnunin í Óla [er] sett undir fyrirsögn sem gefur til kynna að hún sé undir áhrifum frá Dawkins sem hún er ekki. Í ágúst 2006 var bókin God Delusion ekki komin út, hún kom ekki út fyrren 2007. Er tilgangurinn að sýna fram á áhrif „hugmyndafræðingsins“ á lærisveininn? (S. 6 í greinargerð Vantrúar með kæru).

Að sögn kennarans var tilgangurinn með birtingu þeirra þriggja glæra, sem Vantrú kallar nr. 6, 7 og 8, fyrst og fremst sá að gefa nemendum sýnishorn af starfsemi Vantrúar í samvinnu við aðrar hreyfingar þar sem jafnframt kæmi fram félagsleg grundvallarforsenda vaxtar allra skipulagðra hreyfinga. Fjöldi trúarlífsfélagsfræðinga hafi bent á að menn hópist saman í hreyfingar á borð við Vantrú vegna þess að þeir finni þar fólk sem er sama sinnis og sjái bæði forystumenn og virka meðlimi í jákvæðu ljósi og sem mögulegar fyrirmyndir. Textinn af glærunum átti einungis að sýna hliðstæðu í jákvæðu ljósi þ.e. hve bæði Óli Gneisti og Dawkins væru stoltir af guðleysi sínu. Í kennslustundinni tók kennarinn svo fram að guðleysingjar hafi einmitt lagt aukna áherslu á að skilgreina sig með jákvæðum hætti fremur en bara út frá einhverju sem þeir eru á móti og benti á að „Dawkins stofnaði t.d. The Out Campaign hreyfinguna árið 2007 sem nokkurs konar hliðstæðu við mannréttindahreyfingar samkynhneigðra til að árétta mikilvægi þess að guðleysingjar komi út úr skápnum og líti sjálfa sig jákvæðum augum.“ (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 71-72.)
 
 

Vantrúarfélagar voru þó mun reiðari út af glæru sem sýndi orðbragð nokkurra félagsmanna og fylgismanna Vantrúar. Sú móðgun tengist líka skrítnum hugmyndum þeirra um „einkablogg“ en ber þess aðallega merki að þeir gera sér litla grein fyrir því samhengi sem glæran var í, þ.e.a.s. gera sér ekki grein fyrir um hvað námskeiðið snérist og geta þar af leiðandi ekki tengt glæruna við líklega umfjöllun um félagið Vantrú. Misskilningur þeirra er sá að halda að glærurnar eigi að vera aðlaðandi kynning á Vantrú eða auglýsing fyrir félagið. Má sjá glæruna og umræðu um hana á IX Guðfræði í HÍ: Orðbragðið, á vef Vantrúar.  Í kæru Vantrúar segir:

 Vantrúarfélögum þykir sérlega mikilvægt að glæra 20 sé skoðuð alveg sérstaklega en hún ber titilinn „Orðbragðið“. […] Bjarni birtir lista af dónaskap sem hann hefur dundað sér að safna af vefsíðum tengdum félagsmönnum og hugsanlega Vantrú. Við neitum ekki að við notum oft orðalag sem öðrum finnst óheft [svo] en við teljum óhæfu að birta svona lista án samhengis.[…]

Síðan fjallar Vantrú um að Matthías Ásgeirsson hafi aldrei notað orðið „hlandspekingur“ um nafngreindan einstakling í nokkuð löngu máli og að oftast noti hann orðin „asni“ og „bjáni“ um sjálfan sig. Þessari klausu í kærunni lýkur svona:

 Aftur hljótum við að spyrja hvort hér er um fræðslu að ræða eða einstrengingslegan áróður. Hvaða tilgangi þjónar þessi glæra? Er hún málefnaleg eða sanngjörn? Getur hún rétta mynd af umfjöllunarefni guðfræðingsins?

Í umræðuþræði við umfjöllun mína um Vantrú hélt ég því fram að félagar í Vantrú væru harðir aðgerðarsinnar (aktívistar). Ég er enn þeirrar skoðunar. Partur af þessum aktívisma er ljótt orðbragð. Það hafa fjölmargir bent á slíkt áður og raunar halda Vantrúarfélagar því sjálfir fram í kærunni að þeir noti „orðalag sem öðrum finnst óheft“ (væntanlega eru þeir að meina „óheflað“). Í umfjöllun Vantrúar um þessa glæru sést að Vantrúarfélagar hafa lagt í mikla vinnu við að rekja einstök ummæli, annars vegar á vef Vantrúar og hins vegar á bloggi Matthíasar Ásgeirssonar. Þeir hrósa sigri ef þeir finna dæmi um orðalag sem ekki var notað um nafngreint fólk, til dæmis orðið hlandspekingur (sem mér finnst ljómandi gott nýyrði). En Vantrúarfélögum yfirsést líklega að í þeim færslum sem þeir vísa í máli sínu til stuðnings er að finna mun grófari ummæli, s.s. þegar þeir verja orðalagið „augljóslega snarbiluð manneskja“ og vísa í færslu Matthíasar sem heitir Geðsjúklingurinn Jónína Ben. Annað hvort hefur Bjarni Randver dregið úr ummælum Matthíasar eða Matthías breytt upphaflegum ummælum í „augljóslega snargeðbilaða manneskju“ sem er, frá mínum sjónarhóli séð, síst til bóta.

Að mínu mati skiptir ekki öllu máli hvort hverju einasta dæmi á þessari glæru megi finna stað á bloggi Matthíasar eða vef Vantrúar enda tjá félagar í Vantrú og fylgismenn þeirra sig miklu víðar en þar. Ekkert á glærunni bendir til að eingöngu sé stuðst við þessa tvo vefi og auðvelt er að finna mun grófari dæmi, eins og ég var að benda á.

Skilja ekkiAðalröksemd Vantrúar í kærubréfinu er að listinn sé birtur án samhengis. Þetta er merkilegt kæruefni því Vantrúarfélagar höfðu nefnilega ekki hugmynd um samhengið. Enginn þeirra sem að kærunni stóðu hafði setið námskeiðið. Hvernig áttu þeir að vita hvað fór fram í kennslustundinni? Þeir virðast ekki einu sinni hafa fattað um hvað námskeiðið snérist! Mér sýnist blasa við að þessi glæra, sem líklega var brugðið upp rétt sem snöggvast, hafi verið liður í að ræða seinustu tvær rannsóknarspurningarnar sem lágu til grundvallar námskeiðinu, væntanlega bara einn liður af mörgum í þeirri umræðu. Mögulega tengdist hún fleiri rannsóknaspurningum.

Aðalröksemd Vantrúar sýnir aðallega að þeir sem stóðu að kærunni virðast ekki hafa hugmynd um hvernig glærur eru notaðar í kennslu. Með rök Vantrúar að vopni mætti t.d. kæra hvern þann málfræðing sem tekur dæmi um „mérun“ (þágufallssýki) og ekki getur þess ítarlega á glæru í hvaða samhengi hvert dæmi kom fyrir hverju sinni. Kennari í bókmenntafræði væri í verulega slæmum málum, skv. sömu rökum, ef tekin væru dæmi um myndhverfingar úr ljóðum án þess að sýna öll ljóðin í heild og gera um leið grein fyrir í hvaða ljóðabók þau birtust og hvaða ár, jafnvel höfundum þeirra, þeim stefnum og straumum sem þeir aðhylltust o.s.fr. Hver kennari sér að þetta er rugl og það er dálítið undarlegt til þess að hugsa að Óli Gneisti Sóleyjarsson þjóðfræðingur, sá formaður Vantrúar sem var kveikjan að kærunni, og Reynir Harðarson sálfræðingur, sem tók við formennsku af Óla Gneista, skrifaði undir kærubréfin og lýsti yfir heilaga stríðinu, skuli báðir hafa meistaragráðu. Ég hefði haldið fyrirfram að hver sæmilega háskólamenntaður maður sæi hversu mikið rugl krafan um skilyrðislaust samhengi dæma á glærum er.

  
Fleiri klögumálum Vantrúar verða gerð skil í næstu færslu.

  

Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.
  
  
 

Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Eins ég gat um í næstsíðustu færslu kærði félagið Vantrú stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir siðanefnd Háskóla Íslands vegna örlítils hluta af kennsluefni í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands á haustönn 2009. Um leið sendi Vantrú kvörtunarbréf til háskólarektors og til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.

Óli Gneisti Sóleyjarson, einn af stofnendum Vantrúar, fékk hluta glæra í námskeiðinu frá vini sínum. Það er ekki óalgengt að nemendur skiptist á glærum í Háskóla Íslands og það hvarflaði ekki að nemandanum, vini Óla Gneista, sem sat námskeiðið að glærurnar yrðu það vopn í höndum Vantrúar sem raun varð. Þá hefði hann aldrei látið þær af hendi enda var þessum nemanda vel til kennarans og taldi sig hafa haft mikið gagn af námskeiðinu. Líklega gera menn því almennt ekki skóna að tveggja manna netspjall milli vina og kennslugögn af lokuðu svæði á Uglu væru svo birt á spjallsvæði sem 200 manns hafa aðgang að, hvað þá að þetta yrði rót illinda sem enn sér ekki fyrir endann á.

Til hvers eru glærur?

Allir kennarar vita að glærur eru notaðar með ýmsum hætti. Fyrir daga PowerPoint skjásýninga og skjávarpa voru glærur notaðar heldur sparlega en núorðið skipa þær æ hærri sess í kennslu. Glærur eru stundum glósur, stundum stikkorð til að draga fram aðalatriði, stundum til að ögra og skapa þannig umræðu eða fá nemendur til að líta námsefnið undir öðru sjónarhorni, stundum til að skýra námsefnið, stundum til að festa námsefni í minni o.m.fl. Eftir tilkomu skjávarpa og með greiðum aðgangi að hvers kyns efni á Vefnum reyna kennarar gjarna að ná athygli nemenda með myndskreytingum eða myndum á glærunum.

Til eru viðmiðunarreglur um glærugerð sem kenndar eru í kennslufræði en ég hef aldrei hitt þann kennara sem fer eftir þeim, t.d. þeirri gullnu reglu að aldrei skuli fleiri atriði en sjö á hverri glæru.

Hver kennari túlkar svo sínar glærur með sínum hætti í kennslustund og miðar auðvitað glærugerðina við sína kennslu og ekki annað. Sé ekki um að ræða glærusýningu sem á að nýtast í fjarkennslu (stundum er einnig talað inn á svoleiðis glærusýningar eða kennslustund í staðnámi er tekin upp og fylgir) er nánast útilokað að meta kennslu út frá glærum eingöngu enda hefur það aldrei tíðkast (raunar engum dottið það í hug nema Vantrú).
 

Hver væru eðlileg viðbrögð þætti fólki eitthvað athugavert við kennsluefni?

Mat á kennsluÞað er væntanlega mismunandi eftir skólastigum hverjir sæju mögulega ástæðu til að kvarta undan kennsluefni. T.a.m. gætu foreldrar kvartað ef um væri að ræða leikskóla, grunnskóla og fyrstu ár framhaldsskóla. Nemendur gætu einnig kvartað á þessum skólastigum en eftir að 18 ára aldri er náð væri einna helst að búast við kvörtunum frá nemendunum sjálfum. Í framhaldsskólum eru lagðar reglulegar kennslukannanir fyrir nemendur, í Háskóla Íslands er kennslukönnun lögð fyrir í lok hvers námskeiðs hjá öllum kennurum (eftir því sem ég best veit, þetta á altént við hugvísindagreinar). Í svona könnunum gefst nemendum færi á að meta kennslu og gera athugasemdir við einstaka þætti hennar ef þeir vilja og það undir nafnleynd.

Í framhaldsskólum er það skýrt að kennari ber ábyrgð á kennslu og námsmati. Ég veit ekki hvort það er kveðið jafn skýrt á um þetta í Háskóla Íslands en eðlilegustu viðbrögðin við því ef kennsluefni þykir í einhverju ábótavant eru væntanlega að tala um það við kennarann sjálfan, til vara mætti snúa sér til deildarforseta viðkomandi deildar. Það er væntanlega ekki ástæða til að snúa sér til siðanefndar Háskóla Íslands vegna kennsluefnis nema menn séu þess fullvissir að kennari hafi brotið siðareglur sama háskóla. Má ætla að slíkt sé afar sjaldgæft því á árunum 2007-2010 tók siðanefnd Háskóla Íslands einungis fjögur mál til umfjöllunar (en vísaði öðrum fjórum frá) og lauk í rauninni aðeins þremur þeirra. Óvíst er að þessi þrjú hafi snúið að kennslu því siðanefnd hefur heykst á því að birta útdrætti úr sínum úrskurðum eins og henni ber að gera og því í rauninni ekki hægt að vita um hvað þessi mál snérust (sjá færsluna Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa).
 

Hverjir geta skipt sér af kennsluefni?

Hér að ofan hefur verið gengið út frá því að nemendur Háskóla Íslands kvörtuðu undan kennslu eða kennsluefni. Ég reikna með að það heyri til algerra undantekninga að félagsskapur úti í bæ kvarti undan umfjöllun um sig í námskeiði sem enginn félagsmanna sat, hvað þá kæri slíka umfjöllun til siðanefndar HÍ. Ef þetta tíðkaðist mætti ímynda sér að útrásarvíkingar eða Samtök sauðfjárbænda kærðu umfjöllun um sig í hagfræðikúrsum, skáld kærðu umfjöllun um sig í bókmenntafræðikúrsum eða stykkju upp á nef sér yfir hvernig rit þeirra væru flokkuð og greind eftir bókmenntastefnum o.s.fr. Það sér hver maður að þetta væri út í hött og hlyti að byggjast á þeim misskilningi að umfjöllun um viðkomandi væri einhvers konar kynning eða auglýsing sem lyti sömu reglum og auglýsingabransinn. Svoleiðis kynningar og auglýsingar eru ekki í verkahring Háskóla Íslands og hafa hingað til ekki verið tengdar akademísku námi og akademískri kennslu.
 

Hafði félagið Vantrú forsendur til að meta glærurnar sem fóru svo mjög fyrir brjóstið á einstökum félagsmönnum?

Það er spurninginSvarið við þessu hlýtur að vera neitandi. Einungis einn félagsmanna hafði tekið svipað námskeið áður og það er ekki ástæða til að ætla að hann hafi átt hlut að máli þegar ákveðið var að kæra kennarann og kvarta undan glærunum. Margir sem hafa setið í stjórn Vantrúar hafa stundað háskólanám til lengri eða skemmri tíma og hafa því reynslu sem nemendur. Ég veit ekki til þess að neinn þeirra hafi reynslu af háskólakennslu (og vonast til að Vantrúarfélagar leiðrétti mig ef þetta er rangt).

Af þessu leiðir að kæra og klögumál Vantrúar byggjast á vanþekkingu og misskilningi, meðal annars þeim misskilningi að ætlun Bjarna Randvers hafi verið að standa fyrir sérstakri kynningu eða auglýsingu á félaginu.

Það kom ekki í veg fyrir að Vantrú sendi kvartanir sínar til siðanefndar HÍ, forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ og rektors HÍ, dags. 4. febrúar 2010, og að formaðurinn, Reynir Harðarson sálfræðingur, setti sig í stellingar Churchill o.fl. og tilkynnti á lokuðum spjallþræði félagsins þann 12. febrúar 2010:

 Áríðandi tilkynning

 Kæru félagar. Klukkan 15:00 í dag lýstum við yfir heilögu stríði á hendur Bjarna Randveri og Guðfræði í Háskóla Íslands. Okkur ber skylda til að verja heiður okkar þegar á okkur er ráðist af svo voldugum andstæðingi að ósekju. Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn. broskarl

 (Sjá skjámynd af ummælum Reynis á vef Vantrúar.)
 

Þess ber að geta að félagar í Vantrú hafa lagt þunga áherslu á að þessari áríðandi tilkynningu hafi fylgt broskarl.
 
 

Til að stytta svolítið einstakar bloggfærslur í þessari færsluröð verður ekki haldið lengra að sinni. Næst mun ég reyna að gera grein fyrir nokkrum þeim klögumálum Vantrúar sem varða þessar glærur og reyna að setja þær í samhengi við efni námskeiðsins. Ég ítreka að athugasemdum sem ekki eru gerðar undir fullu nafni verður eytt.
 
 
 
 

Vantrú

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í ágúst 2003 stofnuðu nokkrir trúleysingjar vefritið Vantrú. Allir áttu þeir sameiginlegt að hafa stundað trúmálaumræður á netinu, aðallega á spjallþráðum og vefsetrum einstaklinga. Vantrú þróaðist fljótt í mikilvægan vettvang fyrir skoðanaskipti um trúmál og tengd málefni, og má segja að hún hafi öðlast nokkurn sess í vefritaflóru Íslands. Félögum fjölgaði jafnt og þétt og í febrúar 2004 var tilkynnt um stofnun óformlegs félags. Á haustmánuðum sama ár, þegar félagar voru orðnir 20, varð draumurinn um lögformlegan félagskap að veruleika.

 Helsta markmið félagsins er að vinna gegn boðun hindurvitna í samfélaginu. Þessu markmiði hyggst félagið ná með öflugri netútgáfu, blaðaskrifum, fyrirlestrum og rökræðum, hvar sem því verður við komið.  („Um Vantrú“ á vantru.is, feitletrun mín.)

Steðji � HvalfirðiAf því að félagið Vantrú er aðallega sýnilegt á vef/vefriti félagsins er rétt að geta þess að: „Upphaflega var vefritið ætlað til þess að skoða trúmál frá sjónarhorni trúleysingjans. [..] [Það] hefur þó tekið töluverðum stakkaskiptum. […] Hér er einnig tekið á öðrum hindurvitnum, kukli, gervivísindum og ýmsum hugsanavillum.“ („Um vefritið“ á vantru.is.) Raunar virðist félagið vera að hverfa aftur til upprunans miðað við umræðuna árið 2011 sem snýst að mestu um trúmál frá sjónarhorni trúleysingja.

Vefritið Vantrú var sem sagt stofnað 2003 en félagið Vantrú árið 2004. Félögum hefur fjölgað mjög hægt en bítandi þessi tæpu átta ár síðan félagið var stofnað og eru nú 130 – 135 talsins eftir því sem næst verður komist. Í Stúdentablaðinu 1. des. 2008 segir að félagar séu 90-100 en á Wikipediusíðu um félagið segir að þeir séu  80-90 í sömu efnisgrein og stjórnarmenn Vantrúar árið 2010 eru taldir upp. Annað hvort hefur fækkað í félaginu á þessum árum eða nákvæmur fjöldi félagsmanna er eitthvað á reiki.

Helstu forsvarsmenn Vantrúar frá upphafi sjást í töflunni hér að neðan. Einnig má benda á myndir af þeim mörgum á glæru sem félaginu áskotnaðist með nokkuð vafasömum hætti af lokuðu námskeiðssvæði á Uglu (innri vef HÍ). Hér er krækt í glæruna á vefsvæði Vantrúar.
 

2003: Vefritið Vantrú stofnað Birgir Baldursson skrifar stefnuyfirlýsingu þess,

sjá „Lygin um sannleikann“.
 

2004-2005: Stjórn vefjar Vantrúar Óli Gneisti Sóleyjarson ritstjóri
 Birgir Baldursson vefstjóri og ábyrgðarmaður
 Matthías Ásgeirsson ritstjórnarmeðlimur
 Jogus ritstjórnarmeðlimur
 Frelsarinn ritstjórnarmeðlimur
Stjórn félagsins Vantrúar 2005 Birgir Baldursson formaður
 Matthías Ásgeirsson gjaldkeri
 Óli Gneisti Sóleyjarson ritari
 Björn Darri Sigurðsson meðstjórnandi
 

 Hjalti Rúnar Ómarsson meðstjórnandi, ritstjóri vefritins

Stjórn félagsins Vantrúar 2006 Birgir Baldursson formaður
 Matthías Ásgeirsson gjaldkeri
 Óli Gneisti Sóleyjarson ritari
 Björn Darri Sigurðsson meðstjórnandi
 

 Hjalti Rúnar Ómarsson meðstjórnandi, ritstjóri vefritsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2007 Matthías Ásgeirsson formaður
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Eygló Traustadóttir meðstjórnandi
 Birgir Baldursson meðstjórnandi

 Hjalti Rúnar Ómarsson ritari, ritstjóri vefritsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2008 Matthías Ásgeirsson formaður.
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Teitur Atlason ritari
 Eygló Traustadóttir meðstjórnandi
 Karl Gunnarsson meðstjórnandi

 Birgir Baldursson tók við ritstjórn vefritsins 2007 og gegndi fram á árið 2008.

Stjórn félagsins Vantrúar 2009 Óli Gneisti Sóleyjarson formaður
 Gyða Ásmundsdóttir gjaldkeri
 Baldvin Örn Einarsson ritari
 Kristín Kristjánsdóttir meðstjórnandi
 Valdimar Björn Ásgeirsson meðstjórnandi

 Þórður Ingvarsson tók við ritstjórn vefritisins árið 2008  og hefur gegnt því starfi síðan

Stjórn félagsins Vantrúar 2010 Reynir Harðarson formaður
 Baldvin Örn Einarsson varaformaður
 Ketill Jóelsson gjaldkeri
 Trausti Freyr Reynisson ritari

 Þórður Ingvarsson ritstjóri vefsins

Stjórn félagsins Vantrúar 2011 Reynir Harðarson formaður
 Baldvin Örn Einarsson varaformaður
 Ketill Jóelsson gjaldkeri
 Birgir Baldursson ritari

 Þórður Ingvarsson ritstjóri vefsins 

Sem sjá má á þessari töflu eru ekki miklar breytingar á stjórn Vantrúar frá upphafi. Og það er áberandi hve hlutur kvenna er rýr, árin 2007-2009 sátu konur í stjórn en annars ekki. Gyða Ásmundsdóttir sem kom inn í stjórnina í formannstíð Matthíasar Ásgeirssonar er eiginkona hans. Eygló Traustadóttir sem sat í stjórn 2007-2008 er maki Óla Gneista Sóleyjarsonar. Ég veit ekki hvort Kristín Kristjánsdóttir, sem sat í stjórn 2009 hefur einhver álíka tengsl við karlana í stjórn. Í hópi greinarhöfunda á Vantrúarvefnum eru konur nánast ósýnilegar (sjá neðar í þessari færslu).

Sumir stjórnarmanna reka eigin blogg og helga þau ósjaldan trúmálum, oftast baráttu gegn þjóðkirkjunni og áhrifum hennar. Sem dæmi má nefna Hjalta Rúnar Ómarsson, Matthías Ásgeirsson og Þórð Ingvarsson. Og sumir stjórnarmanna hafa verið ötulir að skrifa um trúmál og efni þeim tengt frá tvítugsaldri, t.d. Haraldur Óli Haraldsson (sem tók síðar upp nafnið Óli Gneisti Sóleyjarsson) og Reynir Harðarson (hér er krækt í elstu dæmin sem ég fann um slíkt – til gamans má geta þess að afi minn skrifaði greinina fyrir ofan grein Reynis Harðarsonar).
 

Helstu baráttumál Vantrúar

Andlit við Byggðasafnið � GörðumSvo virðist sem Vantrú hafi lagt talsverða áherslu á að berjast almennt gegn „hindurvitnum, kukli, gervivísindum og ýmsum hugsanavillum“ fram undir 2009. Finna má ýmsar áhugaverðar greinar um hjálækningar, vísindi o.fl. í flokkunum „Efahyggjuorðabókin“ og „Kjaftæðisvaktin“, svo dæmi séu tekin. En frá um mitt ár 2009 verður umræðan einsleitari og snýst í æ ríkari mæli um andstöðu gegn þjóðkirkjunni og andstöðu gegn samvinnu skóla og þjóðkirkju, á þeim forsendum að ekki megi troða trú upp á saklaus börn á leikskólum og í grunnskólum. Frá því snemma árs 2010 hefur svo heill greinaflokkur verið helgaður óánægju Vantrúar yfir kynningu á félaginu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, sem Bjarni Randver Sigurvinsson kenndi á haustönn 2009, og ýmsum málrekstri sem fylgdi í kjölfar kvartana/kæra Vantrúar (sjá „Háskólinn“).

Frá 2006 hefur verið félaginu kappsmál að aðstoða fólk við að segja sig úr þjóðkirkjunni, sem Vantrú kallar „að leiðrétta trúfélagaskráningu“ (en af því þessi síða Vantrúar heitir „Skráðu þig úr ríkiskirkjunni“ virðist nokkuð ljóst að félagið beitir sér nær eingöngu gegn þjóðkirkjunni). Vantrúarmenn hafa mætt á einhverjar samkomur (sjá t.d. hér) eða gengið um með eyðublöð Hagstofunnar og seinna Þjóðskrár, ásamt því að krækja í eyðublaðið hjá Hagstofunni, láta það liggja á eigin síðu sem pdf-skjal og gefa upp faxnúmer o.s.fr. Núna er mönnum bent á þann möguleika að skila skráningareyðublaðinu rafrænt, auk annarra möguleika. Skv. vefsíðunni „Skráðu þig úr ríkiskirkjunni“ í gær, 13. jan. 2012, hefur Vantrú hefur aðstoðað 1328 einstaklinga til þessa á tímabilinu 1. jan. 2006- 14. júní 2011. Raunar er vandséð hvað liggur að baki þessari nákvæmu tölu þegar umræðuþráðurinn fyrir neðan er lesinn: Telst það að tilkynna Vantrú að maður hafi sagt sig úr þjóðkirkjunni vera að hafa þegið aðstoð Vantrúar til verksins? Þótt Vantrú segist hafa aðstoðað á fjórtánda hundrað manns við að skrá sig úr þjóðkirkjunni nýtur félagið þess ekki sérlega mikið því í Vantrú eru núna eitthvað um 130-135 manns, sem áður sagði. Það eru tæplega 1,14% prósent af þeim fjölda sem skráður er utan trúfélaga, skv. tölum Þjóðskrár frá 1. jan. 2012.

Vantrú heldur upp á ýmislegt með sínum hætti. Má nefna að félagið heldur árlegt páskabingó á Austurvelli á föstudaginn langa til að mótmæla lögum um helgidaga. Félagið veitir árlega sérstök skammar- eða háðsverðlaun sem það kennir við Ágústínus kirkjuföður. Heiðursfélagi Vantrúar var Helgi Hóseason. Ári eftir andlát hans, 6. sept. 2010,  minntist ritstjórn félagsins hans og sagði m.a.: „Við erum stolt af því að hafa gert Helga Hóseasson að fyrsta (og enn eina) heiðursfélaga Vantrúar.“ Í sömu grein kemur fram að Vantrú hafi beitt sér fyrir að gerð var minningarhella um Helga á horni Langholtsvegar og Holtavegar, yrði hún afhjúpuð þennan dag og haldin látlaus athöfn til minningar um Helga.
 

Vettvangur og aðferðir

Aðalvettvangur Vantrúar er auðvitað vefritið. Miðað við mannfæð félagsins er ótrúlega mikið efni þar að finna. Enn athyglisverðara er að einungis örfáir félagsmenn standa að megninu af  þessum greinarskrifum og þeim fer fækkandi, þ.e. greinum fækkar milli ára og hlutur örfárra félagsmanna verður stærri. Hlutur kvenna í greinaskrifum er svo lítill að það tekur því varla að minnast á hann. Hér að neðan má sjá skiptingu efnis eftir höfundum árið 2008 og 2011. (Byggt er á listanum „Allar færslur á Vantrú“.)
 
 

Greinar á Vantrú 2008
Árið 2008 voru greinar og tilkynningar 324 talsins. Í hlut ritstjórnar eru bæði tilkynningar og greinar, alls 130 talsins, en aðrir eru skráðir fyrir greinum eingöngu. Af þeim var Reynir Harðarson afkastamestur, skrifaði 27 greinar á árinu. Fast á hæla honum fylgdi Brynjólfur Þorvarðarson með 23 greinar. Í hópnum „Aðrir“ eru þeir sem skrifuðu 1-3 greinar á árinu, alls teljast 33 greinar til þessa flokks. Af þrettán höfundum í þessum flokki sem líklega eru félagsmenn eða áhangendur Vantrúar er ein kona (sú var í stjórn félagsins þetta ár). Að auki eru í þessum flokki sex höfundar aðsendra greina og þar á meðal önnur kona. Þessar tvær eru einu konurnar sem skrifuðu greinar á vantru.is árið 2008.
Greinar á Vantrú 2011
Árið 2011 voru skrifaðar 180 greinar og tilkynningar á vantru.is. Þær skiptust þannig:Ritstjórn: 73
Hjalti Rúnar Ómarsson: 22
Egill Óskarsson: 18
Reynir Harðarson: 17
Frelsarinn: 12
Matthías Ásgeirsson: 6
Þórður Ingvarsson.: 6

Aðrir: 26 greinar. Höfundar voru fjórtán, þar af tvær konur, og auk þess birtust þrjár aðsendar greinar eftir jafnmarga karla.

Af AkrafjalliFyrir utan að skrifa greinar í eigið vefrit er þessi fámenni félagahópur iðinn við að skrifa athugasemdir við þær og svara þeim utanfélagsmönnum sem slæðast inn á vefinn og melda skoðanir sínar. Lausleg athugun á athugasemdum við greinar á vefriti Vantrúar árið 2011 bendir til þess að afar fáar konur leggi þar orð í belg. Lítill hópur félagsmanna virðist einnig vinna ötullega að því að hafa upp á bloggfærslum annarra þar sem Vantrú berst í tal og gera sínar eigin athugasemdir við þær, sjá t.d. athugasemdir við færsluna „Mér ofbauð“ á bloggi Helga Ingólfssonar. Sama gildir um fréttir um Vantrú á vefmiðlum og félagsmenn virðast jafnvel reyna að fylgjast með Facebook-færslum um Vantrú. Þeir sýna ótrúlega elju við þessa iðju en ganga sumir svo langt að kalla mætti þá „tröll“ í netheimum.
 

Hvernig kemur Vantrú manni fyrir sjónir?

Hér á eftir byggi ég vitaskuld einungis á eigin mati. En það sem fyrst stakk í augu þegar ég fór að kynna mér félagið Vantrú, aðallega með því að skoða samnefndan vef/vefritið, var hve mjög Vantrú líktist ströngu, jafnvel öfgasinnuðu trúfélagi, þótt með öfugum formerkjum væri. Má þar nefna eftirfarandi:
 

*  Línan er lögð af körlum: Stjórn félagsins er oftast skipuð körlum eingöngu. Tvær af þeim þremur konum sem hafa setið tímabundið í stjórn eru eiginkonur karla sem sitja eða setið í stjórn. Það eru nánast bara karlar sem skrifa greinarnar á vefnum/vefritinu. Og bæði ritendur og stjórnendur eru aðallega fámennur karlahópur, nánast eins og æðstuprestar eða erkiklerkar í trúfélögum. Þótt í árdaga vefritsins hafi birst greinin „Til kvenna um trú“ þar sem Vantrúarfélaginn Aiwaz fer mikinn þegar hann útlistar kúgun þá sem kirkjan og kristni beita konur; hann endar greinina svo á: „Kæra trúkona, ertu eiginkona, hóra eða sjálfsfróunarvél?“ þá verður alls ekki séð af gögnum Vantrúar sem liggja frammi að þeim sé jafnrétti kynjanna eða hlutur kvenna ofarlega í huga. Satt best að segja datt mér einmitt í hug að konur ættu að þegja og spyrja menn sína heima þegar ég skoðaði hlut kvenna í greinasafni Vantrúar árin 2008 og 2011.
 

* Trúboð (and-trúboð?) er stundað af mikilli elju. Þarna á ég m.a. við hversu ótrúlega miklum tíma nokkrir karlar (raunar mikið til þeir sömu og sitja í stjórn og skrifa greinar) eyða í að elta uppi umfjöllun um Vantrú og leggja þar mörg orð í belg eða hvernig þeir sömu hamast við að skrifa athugasemdir við blogg nokkurra presta (virðist sr. Þórhallur Heimisson í sérstöku uppáhaldi þar).

Hin hlið trúboðsins / and-trúboðsins er svo að hvetja sem mest til að fólk segi sig úr þjóðkirkjunni; ganga jafnvel um garða til þess, eins og hverjir aðrir góðir mormónar eða vottar jehóva eða aðrir sem boða sína trú. Og ekki má gleyma því andtrúboði að vilja banna hvers kyns kirkjulegt starf í leikskólum og grunnskólum, s.s. að prestar fái að hitta börn og unglinga í skólanum (t.d. á aðventunni) eða að Gideon-félagar fái að gefa skólabörnum Nýja testamentið. Um skaðsemi svona háttalags hafa Vantrúarmenn skrifað fjölda greina á sinn vef og í ýmis dagblöð / netmiðla.
 

* Það ríkja ákveðnar kennisetningar um Vantrú, þ.e.a.s. aðeins má fjalla um félagið á ákveðnum nótum. Vei þeim sem brýtur þær dogmur! Þeir eru að minnsta kosti sýndargrýttir í netheimum. Ef brotið er stórvægilegt leggja félagsmenn í krossferð, heilagt stríð.

Í þessu sambandi má og geta þess að Vantrú hefur hina einu sönnu van-trú, aðrir trúlausir eru trúlausir á rangan máta. Greinin „Bjarni Harðar og fyrirgefningin“ lýsir þessari vissu Vantrúar prýðilega. Hún minnti mig pínulítið á ofurlítið sambærilega sögu, um farísea og tollheimtumann …
 

* Haldin er andhátíð á föstudaginn langa. Hugsanlega eru til fleiri andhátíðir sem fylgja helgidögum kristinna, efnið á vef Vantrúar er svo gífurlega mikið að ég skoðaði einungis hluta af því. Og sérstök verðlaun Vantrúar eru kennd við Ágústínus kirkjuföður; eru þannig með sterka skírskotun til kirkjusögu og kristni en eru að sjálfsögðu andverðlaun, því þau eru skammarverðlaun.
 

* Hinn eini sanni heiðursfélagi, Helgi Hóseasson, skipar svipað sæti hjá Vantrú og Jesús meðal postulanna. Vantrúamenn fylgdu honum í lifanda lífi, þeir sjá svo um að tákn til minningar um hann sé sett (gangstéttarhella í stað kross) og minnast dánarafmælis hans. Og af því allt er með öfugum formerkjum hjá Vantrú þá var það ekki postuli sem afneitaði honum heldur afneitaði Helgi sínum postula eins og sést á þessari glæru með tilvitnun í Helga Hóseasson (hér er krækt í glæruna á vef Vantrúar).
 

* Að sögn getur ákveðið píslarvætti fylgt því að vera félagi í Vantrú. Því verða félagsmenn stundum að dyljast eins og kristnir í katakombunum forðum – í nútímanum nota menn ekki katakombur heldur iðka sína (and)trú undir nafnleynd á netinu. Má nefna að einn stofnfélaga Vantrúar, sem enn er virkur í greinarskrifum, hefur frá upphafi til dagins í dag þurft að skrifa undir því ótrúlega dulnefni Frelsarinn. Hér er og glænýtt dæmi um hve Vantrúarmaður þarf að þola endalaust kristið trúboð í daglegu lífi og þráir að öðlast frið frá því. (Sú raun kemur mér nokkuð á óvart því í þau þrjátíu og þrjú eða fjögur ár sem ég var sjálf utan trúfélaga man ég ekki til þess að neinn hafi reynt að turna mér í þjóðkirkjuna eða yfirleitt sóst eftir að ræða við mig trúmál.)

Sjálfsagt mætti tína til fleiri dæmi um hvernig Vantrú speglar hefðbundinn trúsöfnuð en ég læt þessu lokið að sinni.

Af gefnu tilefni tek ég fram að þeim athugasemdum við þessa færslu sem ekki eru ritaðar undir fullu nafni verður eytt.

Myndirnar sem skreyta þessa færslu eru teknar á Stór-Akranessvæðinu.
 
 
 
 
 

Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Hönd eftir RodinGrein Barkar Gunnarssonar, „Heilagt stríð Vantrúar“, sem birtist í Morgunblaðinu 4. desember 2011 (s. 18- 21) vakti athygli mína á þessu undarlega máli. Skrif á ýmsum netmiðlum í kjölfarið urðu svo til að þess að renna stoðum undir greinina, ekki hvað síst æsingarkennd viðbrögð félaga í Vantrú. En um þann félagsskap verður ekki fjallað í þessari færslu heldur sjónum beint að Siðanefnd Háskóla Íslands í „Stóra Vantrúarmálinu“, þ.e. máli 1/2010.

Upplýsingar um gang málsins eru að miklu leyti fengnar úr Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011 (hér eftir skammstafað Skýrsla óh.n.) en einnig er stuðst við fleiri heimildir.

Upphaf málsins var að félagsskapurinn Vantrú sendi erindi til siðanefndar HÍ þann 4. febrúar 2010, þar sem kvartað var undan því að nokkrar glærur í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar, sem Bjarni Randver Sigurvinsson hafði kennt á haustönn 2009, gæfu ekki rétta mynd af Vantrú og hugmyndafræði hennar. Kvartað var undan tveimur glæruröðum sem samtals telja 74 glærur. Í kúrsinum voru notaðar 1735 glærur, skipt í 20 glærusett. Vantrú kvartaði því undan rétt rúmlega 4,25% glæra sem notaðar voru í námskeiðinu og fór „fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið“. Glærurnar voru auðvitað bara hluti kennslu- og námsefnis og raunar hafði Vantrú engar forsendur til að meta hvernig þær voru notaðar í kennslunni því enginn þeirra sem stóð að kærunni hafði setið námskeiðið. Jafnframt vísaði Vantrú í ýmsar siðareglur HÍ sem félagið taldi að kennarinn hefði brotið, með glærugerðinni einni saman.

Það sem flækti málið frá upphafi, fyrir utan ótrúlega meðferð siðanefndar HÍ, var að Vantrú sendi einnig kvartanir til rektors HÍ og til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ, dagsettar sama dag. Þessi kvörtunarbréf voru ekki samhljóða og virðist þess ekki hafa verið getið í hverju bréfi að kvartað hefði verið til fleiri aðila. Rektor vísaði sínu bréfi áfram til siðanefndar en forseti guðfræði- og trúarbragðadeildar og stundakennarinn ræddu um hvernig mætti koma til móts við Vantrú í glærugerð þegar kúrsinn yrði næst kenndur. Í þessari færslu verður næsta lítið fjallað um gang málsins innan guðfræði- og trúarbragðadeildar heldur sjónum beint að siðanefnd HÍ enda voru þetta þrjú aðskilin erindi sem bárust frá Vantrú og einungis einu þeirra beint til siðanefndarinnar.
 

Siðanefndin og fyrri afgreiðslur á starfstíma hennar

Skuggarnir þr�r eftir RodinÁ þessum tíma var siðanefnd skipuð þannig: Þórður Harðarson þáverandi prófessor í læknadeild var formaður nefndarinnar en auk hans sátu þar  Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor í heimspeki og Þorsteinn Vilhjálmsson þáverandi prófessor í eðlisfræði og höfðu væntanlega setið frá árinu 2007 því skipunartími siðanefndarmanna er þrjú ár og var endurskipað í hana sumarið 2010.

Á starfstíma siðanefndar HÍ  frá 27. nóvember 2007 hefur hún fengið til meðferðar átta kærumál, segir í Skýrslu óh.n. (s. 26). Helmingi þeirra, fjórum málum, hefur nefndin vísað frá. Tveimur málum lauk með sátt. Brot var staðfest í einu máli og kæra dregin til baka í einu máli (væntanlega fyrrnefnd kæra Vantrúar). „Að svo miklu leyti sem niðurstaða nefndarinnar byggist á túlkun siðareglna, skal nefndin búa til útdrátt úr umfjöllun sinni og birta sem skýringu við viðkomandi ákvæði reglnanna á háskólavefnum. Þetta á þó ekki við ef ákveðið hefur verið að niðurstaða nefndarinnar sé trúnaðarmál“, segir í 8. grein þeirra starfsreglna siðanefndar sem voru í gildi til 13. október sl. (er nú í 10. grein). Engin merki sjást um útdrátt úr umfjöllun siðanefndar hengdan við siðareglur HÍ svo annað hvort hefur nefndin kosið að hunsa þessa starfsreglu eða litið á allar fyrri afgreiðslur sínar sem algert trúnaðarmál. Þess vegna er ekki hægt að vita hvers eðlis þessi sjö kærumál á undan kæru Vantrúar voru en ljóst að meirihluta þeirra hafði verið vísað frá.

Í fyrstu grein starfsreglna siðanefndar segir: „1. gr. Almennt. Við Háskóla Íslands starfar siðanefnd sem úrskurðar um það hvort siðareglur Háskóla Íslands hafi verið brotnar. […]“  Önnur og þriðja grein fjalla um nefndarskipan og reglur um hæfi nefndarmanna en sú fjórða var svona á vormisseri 2010: „4. gr. Málsgrundvöllur. Siðanefnd kannar hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands. Nefndin vísar frá kærum sem ekki varða siðareglurnar eða eru tilefnislausar. Þá getur nefndin vísað kærum frá, ef um er að ræða meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla.“ Framan á þá grein hefur verið bætt (og hún umorðuð lítillega): „Áður en siðanefnd tekur mál til umfjöllunar kannar hún hvort framkomin kæra snertir siðareglur Háskóla Íslands.[…]“ Líklega er viðbótin vegna harkalegs dóms Skýrslu óh.n. yfir málsmeðferð siðanefndar í þessu kærumáli Vantrúar gegn stundakennaranum Bjarna Randver Sigurvinssyni. Feitletranir í beinum tilvitnunum eru mínar.
 

Kæra Vantrúar

Skv. Skýrslu óh.n. segir í bréfi Vantrúar til siðanefndar HÍ: 

  „Að okkar mati hefur Bjarni Randver orðið Háskóla Íslands til minnkunar í umfjöllun sinni um trúlausa og félagið Vantrú þar sem meðferð hans á tilvitnunum í félagsmenn, uppsetning o.fl. er hreinn áróður og skrumskæling á afstöðu okkar, sem við teljum ótvírætt brot á siðareglum HÍ.
  […]
  Við förum fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið í ljósi þeirra athugasemda sem við komum hér á framfæri. Niðurstaða þess mats endurspeglar vonandi faglegan og fræðilegan metnað Háskóla Íslands.“

Vantrú telur í bréfi sínu til siðanefndar ástæðu til þess að huga sérstaklega að nánar tilgreindum greinum siðareglna Háskóla Íslands. Sömu athugasemdir eru gerðar við tvær glæruraðir og önnur atriði og fram koma í bréfi Vantrúar til rektors Háskóla Íslands og getið er hér að framan. (Skýrsla óh.n. s. 30-31.) Greinargerðin sem fylgdi þessu bréfi til siðanefndar er hin sama og fylgdi bréfi Vantrúar til Péturs Péturssonar, forseta guðfræði og trúarbragðadeildar HÍ sem skoða má á síðu Vantrúar. Undir bréfið (og hin tvö) skrifar Reynir Harðarson, formaður Vantrúar og væntanlega talsmaður félagsmanna því í þeim er ævinlega talað í fleirtölu.

Þær greinar siðareglna HÍ sem Vantrú taldi að stundakennarinn hefði brotið voru:

  • Undigrein 1.2.1 í 1.2 Ábyrgð gagnvart Háskóla Íslands
  • Undirgreinar undir 2.1 Ábyrgð gagnvart fræðunum (2.1.1 – 2.1.5)
  • Undirgreinar undir 2.2 Gagnkvæm ábyrgð kennara og nemenda (2.2.1, 2.2.3 )
  • Undirgreinin 2.4.3 undir 2.4 Ábyrgð gagnvart samfélaginu

Strax við fyrstu sýn blasir við að kæra Vantrúar á engan veginn við sumar greinarnar, t.d. þá fyrstu, 1.2.1, sem hljóðar „Starfsfólk Háskólans sinnir störfum sínum af kostgæfni.“ Íslensk orðabók skýrir „kostgæfni“ sem „áhuga“ og í huga almennings er orðið oft tengt „alúð“. Það er ekkert sem bendir til þess að Bjarni Randver hafi ekki sinnt kennslu sinni af áhuga og alúð og út í hött að halda að örlítið brot af kennsluefninu geti skorið úr um það. Eða grein 2.1.5 sem lýtur að rannsóknarfrelsi kennara: „Kennarar, sérfræðingar og nemendur forðast að hagsmunatengsl hefti rannsóknafrelsi og hamli viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum. Þeir upplýsa um þau hagsmunatengsl sem til staðar eru.“ Þessi glærubunki sem Vantrú taldi fram tengdist ekki rannsóknum og hvaða hagsmunatengsl, eða öllu heldur við hverja, hefði kennarinn átt að upplýsa um? Enginn þeirra sem hlut átti að kæru Vantrúar hafði setið námskeiðið sem glærurnar tilheyrðu og því vonlaust fyrir þá að meta hvernig kennslan og samskipti við nemendurnar voru. Enginn þeirra hafði áður setið slíkt námskeið eða hafði menntun í efni námskeiðsins svo á hvaða forsendum áttu þeir að geta metið ábyrgð gagnvart fræðunum út frá broti af kennslu- og námsefninu? Margt annað í kæru Vantrúar til siðanefndar virðist í sama dúr, a.m.k. vafðist það fyrir siðanefnd hinni síðari að greina hvað nákvæmlega væri verið að kæra og hvernig það tengdist siðareglum HÍ (sjá neðar í þessari færslu).
 
 

Viðbrögð siðanefndar

Í stað þess að vísa einfaldlega erindinu frá eins og siðanefnd hafði jú gert við meirihluta þeirra fáu mála sem hún hafði fjallað um áður hófst ótrúleg atburðarás, eiginlega algert flopp frá upphafi.

Formaður siðanefndar HÍ, Þórður Harðarson, var staddur erlendis þegar kæra Vantrúar barst líklega þann 5. febrúar 2010 og það var ekki fyrr en 18. mars 2010 sem Þórður Harðarson hafði samband símleiðis við manninn sem hann hélt að væri forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ, Hjalta Hugason. Hjalti hafði svo samband við Pétur Pétursson forseta deildarinnar, sem þá fyrst frétti að Vantrú hefði kært stundakennarann fyrir siðanefnd HÍ.

Aðrir siðanefndarmenn áttu að kynna sér málin og skoða þessa kæru frá miðjum febrúar, raunar með aðstoð lögfræðings (Jónatans Þórmundssonar) sem er næsta óskiljanlegt því ekkert í kærunni bendir til að málsatvik varði við lög. E.t.v. er skýringin sú að siðanefnd hafi viljað taka af allan vafa um slíkt í upphafi því vörðuðu hin kærðu atriði við lög gat siðanefndin strax vísað málinu frá í samræmi við 4. gr. starfsreglna sinna. En það gerði hún ekki og einhverra hluta vegna héldu lögfræðingar HÍ áfram að starfa með siðanefndinni.

Það var svo ekki fyrr en í lok apríl sem siðanefndin ákvað að kynna stundarkennaranum sem kærður var að hann hefði verið kærður. Tókst ekki betur til en svo að bréfið var sett í rangt pósthólf og barst ekki. Þann 10. maí 2010 tókst siðanefnd HÍ loksins að kynna hinum kærða, Bjarna Randveri Sigurvinssyni, að hann hefði verið kærður og bjóða honum að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri innan viku – rúmum fjórum mánuðum eftir að kæra Vantrúar barst siðanefndinni!

Þótt siðanefndarmennirnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi byrjað að skoða málið um miðjan febrúar þá kemur fram í fundargerð fyrsta fundar um málið, 25. mars 2010, að „nefndarmenn hafi farið yfir athugasemdir formanns Vantrúar með hliðsjón af glærunum og voru á einu máli að fjalla ætti um málið út frá faglegu sjónarmiði í guðfræði- og trúarbragðafræðideild, samhliða athugun siðanefndar á því hvort siðareglur háskólans hafi verið brotnar.“  (Skýrslu óh.n., s. 33.) Þrátt fyrir skýrar starfsreglur siðanefndar virtust nefndarmenn alls ekki kveikja á því að fyrsta skrefið er að athuga hvort siðareglur hafi verið brotnar, þ.e. hvort einhver grundvöllur sé fyrir að fjalla um þessa kæru eða hvort vísa eigi henni frá. Siðanefnd getur tæplega ákveðið að deild innan háskólans eigi að fjalla um erindi sem berst til siðanefndar, síst af öllu þegar hún hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort málið eigi yfirleitt erindi til siðanefndar. Maður hlýtur að spyrja sig hvort þessir þrír prófessorar í siðanefndinni hafi kannski aldrei kynnt sér starfsreglur nefndarinnar sem þeir sátu í?

Ég rek áframhaldið ekki í smáatriðum enda er gerð grein fyrir því í Skýrslu óh.n. en í stórum dráttum var það svona:

Eftir Þórður Harðarson formaður siðanefndar hafði klúðrað málum í ótrúlegum mæli, undir því yfirskini að hann væri að leita sátta milli málsaðila (án þess að tala við annan þeirra, þ.e. kennarann sem var klagað undan til siðanefndar en tala þess meir við fulltrúa klagenda og svo menn í guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem kom málið mismikið við) sagði Þórður Harðarson af sér formennsku í siðanefnd HÍ í þessu máli í bréfi til rektors dags. 9. júní 2010. Þá hafði siðanefnd HÍ haldið fjóra fundi um málið. Þórður Harðarson sendi frá sér Greinargerð í siðanefndarmáli sem birtist í Morgunblaðinu 8. desember 2011 og er hér krækt í greinargerð hans á vef Vantrúar. Þar skín í gegn að hann hefur haft eitthvað takmarkaðar hugmyndir um hvernig nefndir starfa almennt með formlegum hætti, þ.e. að almennt fer nefndarstarf ekki fram í prívatsamtölum á heimili formanns.
 

Siðanefnd hin síðari

Þann 28. júní 2010 skipaði rektor Ingvar Sigurgeirsson ad hoc formann siðanefndar í máli nr. 1/2010. Í Skýrslu óh.n. kemur hvergi fram hvort Háskólaráð hafi veitt rektor þetta umboð og það sést heldur ekki í fundargerðum Háskólaráðs en skv. 2. grein starfsreglna Siðanefndar HÍ er það Háskólaráð sem skipar formann nefndarinnar samkvæmt tilnefningu rektors. Sömuleiðis voru einu lagaheimildirnar fyrir því að velja nýjan formann eða nefndarmann að þeir fyrri hefðu reynst vanhæfir. (Sjá s. 58 í Skýrslu óh.n..) Sú spurning vaknar því hvort skipun Ingvars Sigurgeirssonar sem ad hoc formanns Siðanefndar HÍ hafi verið ólögleg því Þórður Harðarson hafði ekki lýst yfir vanhæfi og Háskólaráð virðist ekki hafa veitt umboð sitt til skipunar hans.

Af því að siðanefnd hafði aldrei tekið afstöðu til þess hvort klögumál Vantrúar heyrðu undir siðanefnd, þ.e.a.s. snertu á einhvern hátt brot gegn siðareglum HÍ er áhugavert að sjá þess ljós merki að formennirnir í siðanefnd í máli nr. 1/2010 eru ekki einu sinni sammála um hvers eðlis klögbréfið var. Þórður Harðarson segir:

 Hinn 4. febrúar 2010 lagði félagsskapurinn Vantrú fram kæru til siðanefndar Háskóla Íslands, sem beindist að kennsluefni stundakennarans Bjarna Randvers Sigurvinssonar (BRS) í námskeiði um nýtrúarhreyfingar. [- – -] Í byrjun apríl þá Reynir Harðarson (RH) heimboð formanns. Hann tók ekki ólíklega í sættir […] Bæði PP og RH skildu, að einhvers konar tilslökun hlyti að koma til sögunnar hjá guðfræðideild eða BRS í skiptum fyrir, að Vantrú drægi kæruna til baka. Hinn 14. apríl var kæra Vantrúar til umræðu á deildarfundi guðfræðideildar.
 (Sjá Þórður Harðarson „Greinargerð í siðanefndarmáli“ í Morgunblaðinu 8. desember 2011, hér er krækt í greinina á vef Vantrúar. Feitletrun mín.)

Ingvar Sigurgeirsson segir hins vegar í yfirlýsingu sem hann sendi á póstlista kennara í HÍ en hér er krækt í hana á vef Vantrúar:

 Sá sem þetta ritar átti að stýra sérstakri siðanefnd til að fjalla um þetta erindi Vantrúar. Ég tók við málinu þegar Þórður Harðarson hvarf frá því í júlí á síðasta ári.

 Það segir sína sögu um þróun þessa máls að formaður Vantrúar varð hvumsa við þegar hann var boðaður á fund siðanefndar til að útskýra kæru félagsins. Samtökin hefðu aldrei kært neinn, heldur gert alvarlegar athugasemdir við kennslugögn á námskeiði þar sem m.a. var fjallað um félagið og einstaklinga innan þess. Vantrúarmenn töldu þau ummæli meiðandi.

 […]
 Fyrir hinni nýju nefnd vakti að kynna sér málið til hlítar, skoða kennsluefnið, afla nauðsynlegra gagna um námskeiðið og fara í saumana á athugasemdum Vantrúar, sem og að lesa ítarlega greinargerð Bjarna Randvers sem hann hafði lagt fram. (Feitletrun mín.)

Yfirlýsing Ingvars segir kannski þá sögu að hann hafi ekkert verið alltof klár á hvað hann átti að gera. Bréf Reynis Harðarsonar til siðanefndar (sem vitnað er í hér að framan) getur varla kallast annað en kæra. Hafi formaður Vantrúar síðan barasta orðið hvumsa á fundi með Ingvari og haldið því fram að Vantrú hafi aldrei kært neinn heldur einungis gert athugasemdir við kennslugögn á námskeiði vegna þess að Vantrúarmenn töldu ummæli um sig og félagið meiðandi þá bendir það til þess að Reynir Harðarson leggi annan skilning í hvað er að kæra einhvern heldur en þorri fólks. Svipaður virðist skilningur Ingvars því hann kallar kæru Vantrúar „erindi“. Seinni hlutinn í tilvitnuninni í Ingvar bendir til þess að honum hafi ekki frekar en Þórði verið ljóst að fyrsta skrefið í vinnu siðanefndar ætti að vera að taka afstöðu til þess hvort málið varðaði siðareglur HÍ áður en siðanefnd hæfi að rannsaka það. Enda kom í ljós í starfi nefndarinnar undir hans stjórn að siðanefndinni var ekki enn ljóst hvernig kæruefnið eins og Vantrú setti það fram tengdist siðareglum HÍ (sjá neðar í þessari færslu). Loks ruglast hann í ríminu því Þórður Harðarson „hvarf frá málinu” snemma í júní en ekki í júlí 2010 eins og Ingvar segir í þessu bréfi.

Þótt skipaður væri nýr formaður sérstaklega í kæru/klögumáli Vantrúar gegn Bjarna Randveri sátu upphaflegu siðanefndarfulltrúarnir áfram í henni, þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. Þar sem þau höfðu látið óátalið að Þórður Harðarson væri heima hjá sér að manga til við Reyni Harðarson og fulltrúa guðfræði- og trúarbragðadeildar um einhvers konar sættir, án þess að hafa fyrst tekið formlega afstöðu til þess hvort málið varðaði siðareglur HÍ,  fór lögmaður Bjarna Randvers fram á að þau vikju vegna vanhæfis. Svarbréf siðanefndar frá 11. mars 2011, þ.e. þeirra tveggja og nýja formannsins Ingvars, auk tveggja fulltrúa í viðbót sem rektor skipaði ad hoc inn í siðanefndina í ágúst 2010 að beiðni Ingvars (sjá Skýrslu óh.n, s. 58) er kostulegt en þar segir m.a.:

 „Rangt er að á framangreindu tímabili sáttaviðræðna [mars og apríl 2010] hafi afstaða siðanefndar til málsins mótast. Siðanefnd hafði ekki aflað gagna í málinu og því voru engar forsendur til að taka afstöðu til kæruefnisins af hálfu nefndarinnar. Liður í sáttatillögu þeirri sem lögð var fram var að kæran til siðanefndarinnar yrði dregin til baka og þótti af þeim sökum eðlilegt að beðið væri með efnislega meðferð málsins þar til niðurstaða sáttaviðræðna lægi fyrir. Í sáttatillögunni kemur ekki fram hvort Bjarni hafi brotið siðareglur háskólans, en það á samkvæmt starfsreglum nefndarinnar að koma fram í áliti hennar ef til þess kemur. Siðanefnd áréttar að hugsanlegar ályktanir félagsmanna Vantrúar um stöðu sáttatillögunnar eða afstöðu siðanefndar til hennar hafa enga þýðingu í málinu.

 Með vísan til framanritaðs er það álit siðanefndar að þau Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson hafi ekki tekið afstöðu til kæru Vantrúar áður en Bjarna gafst kostur á að skýra sína hlið málsins. Sáttatillagan fól að engu leyti í sér álit siðanefndar eða einstakra siðanefndarmanna í málinu. […] “(s. 49-50 í Skýrslu óh.n., feitletranir í tilvitnun eru mínar.)

Borgari � Calais eftir RodinÞau Sigríður og Þorsteinn höfðu sem sagt frá því um miðjan febrúar 2010 (þegar þau áttu að byrja að kynna sér málið) og fram yfir fyrstu viku júní, þegar Þórður Harðarson sagði af sér sem formaður, ekki myndað sér neina skoðun, ekki tekið afstöðu til kæruefnisins en samt algerlega skoðanalaus tekið þátt í eða samþykkt alls konar samningaumleitanir við Vantrú undir stjórn Þórðar. Og af hverju tóku þau ekki afstöðu strax og kæran barst eins og þeim bar að gera skv. starfsreglum siðanefndar?

Þann 1. sept. 2010 var þeim heldur ekki ljóst kæruefnið og voru jafnlangt frá því að taka afstöðu til þess og meir en hálfu ári fyrr. Þá kemst siðanefnd að þeirri niðurstöðu á sjötta fundi sínum um þetta mál að kæruliðir séu ekki nægilega afmarkaðir með vísun til greina siðareglnanna. Annar nýju fulltrúanna og lögfræðingur HÍ voru settir í að reyna að greina kæru Vantrúar, þ.e. lista upp kæruatriðin, gá hvaða greinar siðareglnanna ættu við efni hverrar glæru og hvort um brot væri að ræða í hverju tilviki. Þegar hér var komið sögu eru siðanefnd HÍ og lögfræðingur HÍ að reyna að laga illa orðaða kæru Vantrúar og endurvinna hana einhvern veginn til að sjá hvort yfirleitt sé um brot á siðareglum að ræða! Má líta svo á að siðanefndin sé þarna farin að vinna fyrir Vantrú?

Nýju fulltrúarnir í siðanefnd, Gerður G. Óskarsdóttir og Guðmundur Heiðar Frímannsson, hafa einkum starfað við að mennta grunnskólakennara eða sjá um kennsluréttindanám framhaldsskólakennara (sú fyrrnefnda í HÍ, sá síðarnefndi við HA). Sama gildir um Ingvar Sigurgeirsson, prófessor í Kennardeild Menntavísindasvið. Voru nýju fulltrúarnir sjálfsagt honum kunnug eftir margra ára veru í nokkurn veginn sama faginu og líklega óskaði hann sjálfur eftir að fá einmitt þetta fólk inn í nefndina. Það er því ótrúlegt að eftir að siðanefndin hafði fengið aðgang að kennsluáætlunum, prófum og öðrum gögnum af vefsvæði námskeiðsins, með leyfi stundakennarans kærða, Bjarna Randvers, datt þeim í hug að óska eftir prófúrlausnum nemenda í þessu námskeiði. Ingvar Sigurgeirsson sagði: „Meginrök fyrir þessari beiðni eru þau að svör nemenda við umræddri spurningu (og mat kennara á þeim) kunna að varpa ljósi á umfjöllun um það efni sem kært hefur verið (efnistök, áherslur, heimildir).“ (Tilv. í bréf Ingvars 26. nóvember 2010, s. 44 í Skýrslu óh.n.) Að sjálfsögðu var þessu erindi hafnað enda prófúrlausnir nemenda persónugreinanlegar. Og mér finnst mjög merkilegt, sem kennara, að fólk sem vinnur við að mennta kennara skuli láta sér detta í hug að meta kennsluhætti eftir prófúrlausnum nemenda! Auk þess sem það er augljóst að enginn nemandi kærði, almennt taka nemendur ekki próf með því hugarfari að svör þeirra verði brúkuð í allt öðrum tilgangi en mati á kunnáttu í faginu, prófið í námskeiðinu hafði ekki verið kært o.s.fr. Vinna siðanefndar, á þessu stigi, er farin að líkjast fálmi eftir hálmstráum frekar en formlegri vinnu formlegrar nefndar við æðstu menntastofnun þjóðarinnar.
 

Lokin á fimbulfambi siðanefndar

Þann 28. apríl 2011 hélt Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ fund með fulltrúa/fulltrúum Vantrúar og Ingvari Sigurgeirssyni formanni siðnefndar HÍ í þessu máli. Á þeim fundi féllst Vantrú á að draga kæru sína til baka. Kristín hefur sjálf ekki svarað erindi Vantrúar sem barst henni sem háskólarektor.

Um þessar málalyktir segir í Skýrslu óh.n.: „Að mati nefndarinnar hefur yfirstjórn Háskóla Íslands ekki svarað erindi Vantrúar formlega sem til hennar barst beint með bréfi félagsins, dags 4. febrúar 2010, en kom að ákvörðun Vantrúar að falla frá kærunni.“ (s. 66)
 

Meginniðurstaða Skýrslu óh.n. eftir að hafa farið yfir málið er:

 Nefndin telur það óviðunandi, fyrir Háskóla Íslands og málsaðila, að ekki hafi tekist að ljúka því efnislega. Siðanefndinni hafi borið að taka afstöðu til þess hvort fullnægjandi málsgrundvöllur væri til staðar, þ.e. hvort málið heyrði undir nefndina og ef svo bar undir, að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu með sjálfstæðri rannsókn svo úrskurða mætti hvort siðareglur Háskóla Íslands hefðu verið brotnar. Þetta tókst ekki. (S. 9, nánast samhljóða klausu er að finna á s. 73. Feitletrun mín)
 

Niðurlag

Eins og ég hef rakið hér að ofan brást siðanefnd HÍ algerlega hlutverki sínu þegar félagið Vantrú kærði Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir brotabrot af kennsluefni í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi á haustönn 2009. Siðanefndin fór ekki eftir eigin starfsreglum sem var upphaf þeirrar þvælu sem þetta kærumál varð. Ég hef sleppt því að geta afskipta annarra af málinu en bendi enn og aftur á Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011. Einnig vísa ég í „Yfirlýsingu vegna kæru á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni“ sem birtist í fjölmiðlum, hér er krækt í hana á visir.is. Þar kemur fram að fjöldi sérfræðinga hefur skoðað þessa kæru eða klögu eða erindi Vantrúar og sér ekki minnsta flöt á að hún hafi neitt með siðareglur Háskóla Íslands að gera. Þar kemur líka fram álit fjölda háskólakennara á störfum siðanefndar í þessu máli.

Frá upphafi virðist því liggja nokkuð ljóst fyrir að siðanefndin hefði átt að vísa málinu frá enda var kæra Vantrúar og tilvísanir í siðareglur afar ruglingsleg og vandséð hvernig hún tengdist siðareglum HÍ (eins og siðanefndinni varð raunar ljóst þegar hún loks kom sér að því að skoða hvort fullnægjandi málsgrundvöllur væri til staðar, tæpum sjö mánuðum og fimm fundum eftir að kæran barst henni).

Lok málsins eru lýsandi fyrir það allt: Þetta var EKKI-mál sem tókst að þvæla þar til EKKI fékkst niðurstaða. Meginábyrgðina ber siðanefndin, þ.e. formennirnir tveir, Þórður Harðarson og Ingvar Sigurgeirsson og aðalnefndarmeðlimirnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson. Sá sem ákvað að enda málið með því að enda það ekki var Kristín Ingólfsdóttir rektor sem fékk Vantrú til að falla frá kærunni. Hún ákvað svo að hinn kærði, Bjarni Randver Sigurvinsson, skyldi bera sinn lögfræðikostnað sjálfur þótt ótæk vinnubrögð siðanefndar HÍ hafi neytt hann til að fá sér lögfræðing: „Varðandi lögfræðikostnað Bjarna segir Kristín að það gildi almennt um siðanefndir í íslensku réttarfari að lögfræðikostnaður sem stofnað er til vegna kæru til slíkra nefnda sé ekki greiddur af viðkomandi stofnun.“  („Vill að HÍ bæti mannorðstjón og kostnað“. mbl.is, 6. des. 2011. Feitletrun mín).

Hugsuðurinn eftir RodinOg verðlaunin fyrir frammistöðu siðanefndar? Jú, þann 1. júlí 2010 var skipuð ný siðanefnd HÍ sem á að starfa til 30. júní 2013. Í henni sátu fyrst:

Þórður Harðarson, prófessor emeritus í Læknadeild, formaður, tilnefndur af rektor;
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ og kennari við sagnfræði og heimspekideild, tilnefnd af Félagi háskólakennara;
Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í Raunvísindadeild, tilnefndur af Félagi prófessora, nú orðinn prófessor emeritus í sömu deild.

Skv. síðu HÍ sem síðast var breytt þann 8. desember hefur Eyja Margrét Brynjarsdóttir, nýdoktor við Heimspekistofnun HÍ, tekið sæti Salvarar. (Sjá „Siðanefnd“ á vef Háskóla Íslands.)

Þannig að hinir vísu öldungar, Þórður Harðarson og Þorsteinn Vilhjálmsson, halda áfram að höndla kærur til siðanefndar HÍ. Og Eyja Margrét? Er hún e.t.v. vinkona Vantrúar?
 

Myndirnar eru af styttum (heilum eða að hluta) eftir Rodin, talið að ofan: Hönd, Skuggarnir þrír, Borgari í Calais og Hugsuðurinn.
 

Næsta færsla fjallar um kveikju málsins, þ.e. félagið Vantrú og forsvarsmenn þess.
 

Vefur um siðblindu

Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Gleðileg jól!

 

 

Gleðileg jól

Þunglyndissjúklingur í sálfræðibatteríinu – HAM

Í fyrstu færslunni um hvaða kostir bjóðast þunglyndissjúklingi á borð við mig reyndi ég að teikna skematíska mynd yfir kostina. Nú hef ég gert nokkra grein fyrir greiningu þunglyndis og lyfjameðferð við því og næst er að núa sér að sálfræðimeðferðum. Sá böggull fylgir skammrifi að ég hef ákaflega litla reynslu af þess háttar meðferð. Ég man ekki til þess að mér hafi nokkurn tíma boðist að tala við sálfræðing þegar ég hef legið inn á geðdeild, man þó eftir að hafa leyft einhverjum sálfræðinema að taka viðtal og krossa við einhverjar spurningar í geðdeildardvöld fyrir ári síðan en það er allt og sumt. (Á hinn bóginn er valt að treysta á minnið, heilu árin eru meira og minna í blakkáti vegna sjúkdómsins og raflækninga). Aftur á móti hef ég átt regluleg samtöl við geðlækninn minn árum saman. Ég hef aðeins orðið vör við þann misskilning að samtalsmeðferð sé einungis á hendi sálfræðinga. Það er alrangt. Geðlæknar sinna einnig samtalsmeðferð. En það getur svo sem vel verið að aðferðirnar sem þessar tvær stéttir beita í samtölum við sjúkling séu ólíkar, um það veit ég ekki.

Plássins vegna verður í þessari færslu einungis gerð grein fyrir HAM, hugrænni atferlismeðferð, annað bíður. Sömuleiðis bíður næstu færslu að bera saman Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða á vef Landspítala við slíkar leiðbeiningar í Noregi og Svíþjóð, grunnvinnu við svoleiðis sem er hafin í Danmörku o.fl. Sá samanburður er að nokkru leyti athyglisverður, einkum frá sjónarhóli sjúklings.

Og enn og aftur tek ég fram að ég skrifa þessar færslur sem þunglyndissjúklingur, er hvorki menntuð í sálfræði né læknisfræði og því ber að taka umfjöllun með þessum fyrirvara að ég er ekki sérfræðingur í efninu (nema sem sjúklingur auðvitað). Og þessum færslum er alls ekki ætlað að vera leiðbeiningar fyrir aðra sjúklinga. En vonandi eru þær upplýsandi fyrir einhverja.
 

HAM er skammstöfun fyrir „hugræna atferlismeðferð“. Sú heitir CBT á ensku, sem er skammstöfun fyrir Cognitive Behavioral Treatment og núorðið virðist ekki mikið greint milli hennar og CT, Cognitive Treatment, hugrænnar meðferðar. HAM er mjög hampað í Klínískum leiðbeiningum um þunglyndi og kvíða. Þar kann að valda einhverju að vinnuhópurinn sem þýddi, stytti og aðlagaði þessar leiðbeiningar (úr klínískum leiðbeiningum fyrir England og Wales) samanstóð af tíu sálfræðingum, einum yfirlækni og einum geðlækni. Umsagnaraðilar voru af fjölbreyttari toga.

Í næstnýjasta Læknablaðinu, 11. tbl. 97. árgangi 2011, birtist  greinin „Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnum“ eftir Magnús Blöndahl Sighvatsson, Hafrúnu Kristjánsdóttur, Engilbert Sigurðsson og Jón Friðrik Sigurðsson. Vill svo skemmtilega til að af fjórum höfundum greinarinnar eru þrír sálfræðingar (en einn höfunda er geðlæknir); af sálfræðingunum þremur voru tveir í vinnuhópnum sem sömdu klínísku leiðbeiningarnar. Heimurinn er lítill og hópur aðalsálfræðinga á Íslandi greinilega pínulítill.

Ég mæli eindregið með þessari grein fyrir þá sem vilja kynna sér aðferðina, úttekt á rannsóknum, árangur og annað sem snertir HAM. Greinin er á góðu máli og vel skiljanleg þótt lesandinn hafi litla þekkingu á sálfræðihugtökum. Einnig má benda áhugasömum á að HAM handbók og verkefnahefti, unnið af geðteymi Reykjalundar, liggur nú frammi í opnum aðgangi á vefsetri Reykjalundar.

Í greininni í Læknablaðinu sem fyrr var á minnst kemur fram að HAM sé „[…] gjarna kennd við bandaríska geðlækninn Aaron T. Beck sem var menntaður í sálgreiningu […][en] komst […] að því að aðferðir sálgreiningar gengju ekki upp við meðferð þunglyndis.“ (s. 613.) Þetta er einmitt sá sami Beck og samdi þunglyndisprófið sem mér gengur alltaf jafn djöfull illa að taka og ég minntist á í síðustu færslu. Beck komst að þeirri niðurstöðu að „það hvernig við hugsum, túlkum atburði og högum daglegu lífi ráði miklu um líðan okkar.“ (s. 613.) Þetta eru nú tæpast nein kjarnorkuvísindi, t.d. hafði höfundur Hávamála kveikt á þessu sama tæpum 1000 árum fyrr – en Beck útfærði sína uppgötvun þannig:

 […] þeir sem kljást við geðraskanir [þróa] oft með sér bjagað mat á umhverfi og innri áreitum, svo sem líkamlegum einkennum. Með því að kortleggja hugsun og hegðun þeirra sem finna fyrir vanlíðan megi skýra hvers vegna þeir glíma við geðröskun og með því að breyta hugsun og hegðun sé hægt að breyta líðan til hins betra. (Feitletrun mín, s. 613.)

Taki  maður þessa kenningu Beck trúanlega verður í leiðinni að samþykkja að þunglyndi stafi af einhvers konar bjagaðri hugsun, sé „sálfræðilegur“ eða „andlegur“ sjúkdómur. Því er ég algerlega ósammála og auðvitað litar sú skoðun mín þessa umfjöllun um HAM. Á hinn bóginn er ég til í að samþykkja að margt sem hjálpar manni að líta lífið jákvæðari (eða bara minna neikvæðum) augum geti verið hjálplegt í hvers lags veikindum. Það geta verið einhver konar trúarbrögð eða fílósófía, 12 spora kerfi …  eða þess vegna HAM.

Höfundar greinarinnar „Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnum“ útskýra svo HAM, sem í stuttu máli felst í að bera kennsl á ósjálfráðar hugsanir sem ekki eru til bóta, sjá aðra möguleika á þankagangi og breyta hegðun einnig, til að bæta sína líðan. Svo taka þeir dæmi af hvernig HAM virki í tilviki þunglynds sjúklings:

 Hugsun þess þunglynda einkennist iðulega af ofmati á mistökum í fortíð og vanmati á eigin getu til að ráða við daglegt líf. Þess vegna eru þunglyndir oft ekki nægilega virkir, eiga erfitt með að framkvæma einföldustu hluti og draga sig í hlé. Í HAM lærir skjólstæðingurinn því að kortleggja og endurmeta óhjálplegt mat sitt á fyrri mistökum, eigin getu og stöðu. Skjólstæðingi er einnig kennt að auka daglega virkni sína til að sporna við framtaksleysi. Þetta er gert á skipulegan hátt þar sem hinn þunglyndi eykur virkni sína stig af stigi. Með öðrum orðum tileinkar hinn þunglyndi sér nýjar aðferðir til að glíma við vanlíðan; lærir að greina og endurmeta ósjálfráðar niðurrifshugsanir; lærir að takast á við mótlæti og daglegt líf á annan hátt en áður og kannar hvort það leiði ekki til breytinga á líðan. Þennan lærdóm tekur einstaklingurinn með sér inn í framtíðina. Því heldur árangur HAM gjarna áfram að skila sér eftir að meðferð lýkur svo fremi sem skjólstæðingurinn beiti áfram þeim aðferðum sem hann hefur lært í HAM. (s. 613-14.)

Í kaflanum um þunglyndi í þessari grein kemur fram að í rannsóknum sem hafa borið saman árangur HAM og þunglyndislyfjameðferðar beri niðurstöður flestar að sama brunni: „[…] að það sé ekki munur á árangri þessara meðferða við þunglyndi, óháð alvarleika þess, við meðferðarlok.“ (s. 614.) Jafnframt er bent á að fremur fáar rannsóknir hafa beinst að mjög veikum sjúklingum, sem séu oftast meðhöndlaðir með lyfjum eða raflækningum: „Því er ekki hægt að útiloka að lyfjameðferð skili meiri árangri en HAM við meðferð allra veikustu sjúklinganna á legudeildum.“ (s. 614). Því miður skilgreina höfundar hvorki hvað þeir eiga við með „legudeildum“ (falla t.d. svokallaðar móttökugeðdeildir geðsviðs Lsp. undir legudeildir, þ.e. 32 A, 32 C, 32 BP og 33 C?) né hverjir falla undir að vera „allra veikustu þunglyndissjúklingarnir“ á þessum legudeildum.

Höfundar greinarinnar staðhæfa samt að: „[…] þegar þunglyndi er alvarlegt reynist best að bæta þessum tveimum meðferðum (HAM og nefazódón) samtímis.“ (s. 614) Þess ber að geta að lyfið nefazódón var tekið af markaði árið 2004 í Bandaríkjunum, Kanada og víðar vegna sjaldgæfrar aukarverkunar, sem var hætta á alvarlegum lifrarskemmdum. Ég gat ekki séð í lyfjaskrá að lyfið sé leyft hér á landi en höfundarnir vísa í tvær greinar um sömu rannsóknina, sem var gerð árið 2000.

Í greininni er því líka haldið fram að HAM sé gagnlegt jafnvel eftir að meðferð lýkur. Þetta er niðurstaðan af efnisgrein þar sem HAM er hampað heilmikið og dregnar fram frábærar niðurstöður úr rannsóknum sem vitnað er í, t.d. að ein yfirlitsrannsókn sýndi að hlutfall hrösunar (átt er við bakslag, þ.e. að sjúklingi versni aftur) hafi mælst 60% hjá hópnum sem fékk lyfjameðferð við sínu þunglyndi en 29% hjá þeim sem fengu HAM. Ég fletti upp nokkrum rannsóknum sem höfundar vitna í og kom margt fróðlegt á daginn. Til að einfalda lestur þessarar færslu er umfjöllun um tilvitnuðu rannsóknirnar og fleiri rannsóknir hafðar neðanmáls í færslunni, þó með venjulegri leturstærð. Sjá neðanmálsgrein.
 
 

Hvernig kemst þunglyndissjúklingur í HAM meðferð hér á Íslandi?
 

Gosi hjá sálfræðingiBoðið er upp á HAM-meðferð á geðsviði Landspítala, bæði við kvíða og þunglyndi eftir sem ég best veit. Upplýsingar um þetta er ekki að finna á síðum Landspítalans en ég hef margoft gengið fram hjá auglýsingaspjöldum sem auglýsa þessa meðferð, fyrir utan biðstofu göngudeildar/bráðamóttöku geðsviðs. Það sem hér fer á eftir er einkum byggt á upplýsingum sem fengust í símtölum við fulltrúa á göngudeild og fjármálasviði geðdeildar Landspítala. Af því engar upplýsingar er að hafa um HAM-meðferðir á vegum geðsviðs á opinberum vefsíðum veit ég ekki hvort meðferðin er einstaklingsmeðferð eða hópmeðferð en giska á hið síðara (byggt á stopulu minni um hvað stendur á þessum auglýsingaspjöldum).

Til að komast í HAM-meðferð á vegum geðsviðs þarf tilvísun frá heimilislækni, geðlækni eða bráðamóttöku geðdeildar. Sex vikna meðferð, þar sem mætt er einu sinni í viku í tvær klukkustundir, kostar 6.600 kr. og auk þess eiga meðferðarþegar að kaupa bók sem kostar 1000 kr. Einnig er boðið upp á átta vikna meðferð sem kostar 8.800 kr. + bókin. Viðtal við sálfræðing á göngudeild geðdeildar kostar 2.600 kr. og er klukkustundar langt. (Sjá Gjaldskrá göngudeilda geðsviðs, liðurinn „Komur og endurkomur á göngudeildir vegna annarra en lækna“ á við þetta. Svo lækkar líklega verðið með afsláttarkorti SÍ og örorkuskírteini.)

Þessi HAM-meðferð er hræódýr miðað við það sem býðst á almennum markaði. Ég nefni sem dæmi eitt auglýst námskeið Kvíðameðferðarmiðstöðvarinnar (KMS), „Námskeið við ofsakvíða“, sem fer fram í alls sex skipti, auk greiningarviðtals í upphafi. „Greiningarviðtal fyrir þetta námskeið kostar 9000 krónur en verðið á námskeiðinu er 39.000 krónur. Námskeiðsgjald greiðist í upphafi fyrsta tíma.“ Ég hef tekið svipað námskeið hjá þessum aðilum, þar sem notaðar voru HAM-aðferðir við kvíða, og það gagnaðist prýðilega. Þá var ég enn á vinnumarkaði (raunar í veikindaleyfi samt) og fékk kostnaðinn endurgreiddan úr sjúkrasjóði stéttarfélagsins míns en þurfti svo vel að merkja að greiða skatt af endurgreiðslunni þannig að segja má að ég hafi fengið hálfa upphæðina endurgreidda.  KMS býður líka námskeiðið „Vellíðan án lyfja“ sem virðist eiga að henta jafnt þunglyndum, streittum, kvíðnum og fleirum. Skv. þeirra eigin rannsókn er góður árangur af þessu námskeiði en ég hjó eftir að hinir þunglyndu mældust einungis með vægt þunglyndi, í hæsta lagi á mörkum þess að ná niður í meðaldjúpt þunglyndi. Ekki kemur fram hvað námskeiðið kostar.

Eftir því sem ég best veit kosta viðtöl hjá sálfræðingum yfirleitt um 10.000 kr. skiptið. Ég held að meirihluti stéttarfélaga endurgreiði útlagðan kostnað síns fólks að hluta eða öllu leyti (þá miðað við einhvern takmarkaðan fjölda tíma). En ég veit ekki til þess að Sjúkratryggingar Íslands (Tryggingastofnun er framkvæmdaraðili þeirra) endurgreiði neitt í sálfræðikostnaði, fyrir utan sálfræðiþjónustu á geðsviði Landspítalans. Mögulega endurgreiðir félagsþjónusta sveitarfélaga sálfræðikostnað, sé fólk ekki á vinnumarkaði og geti því ekki treyst á stéttarfélagsaðild. 
 

Á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands er listi yfir félagsmenn, hvaða viðurkenningu þeir hafa og hvar þeir starfa. Það er eflaust ágætt að kíkja á þennan lista ef menn hafa hug á að komast til sálfræðings. Einnig er til sérstakt Félag um hugræna atferlismeðferð, Ham.is, þar sem er listi, Meðferðaraðilar í hugrænni atferlismeðferð á vegum FHAM, þeirra sem hafa lokið sérnámi í hugrænni atferlismeðferð á vegum félagsins. Eflaust er gott að styðjast við þann lista séu menn sérstaklega að leita að sálfræðingi sem veitir HAM-meðferð.
 

Mín skoðun

Eins og kemur væntanlega betur fram í lok yfirferðar um helstu sálfræðimeðferðir sem bjóðast fólki með slæmt þunglyndi tel ég að HAM geti líklega gagnast einhverjum vel en finnst ólíklegt að hið mikla lofsorð sem lokið er á HAM  í nýju íslensku greininni í Læknablaðinu standist. Aðallega byggi ég þessa skoðun á því að hvers kyns loforð um gífurlega virkni við bókstaflega öllu þunglyndi hafa ekki staðist, hvort sem þau voru gefin um SSRI-lyf, Kína-lífselexír, steinolíu, blóðtöku  eða annað. Hin frábæra lausn er ekki til. Og hin eina rétta lausn er heldur ekki til.
 

hugræn atferlismeðferðTilraunir sem vísað er í, t.d. í yfirlitsrannsóknum (sem er svo aftur vísað í, t.d. í íslensku greininni) fara fram við gervi-kringumstæður en mæla fæstar hvernig aðferðin nýtist til langframa þegar út í lífið er komið og sjúklingurinn er hættur að hitta sinn lækni eða sálfræðing reglulega. Ég held að bara sá þáttur að tala við einhvern sem hlustar, að geta tjáð líðan sína, gæti einn og sér vegið þungt (sem hefur lengi verið vitað). Áhrif þess eru illmælanleg í svona tilraunum – þær gætu væntanlega ekki farið fram án orða eða samskipta við annað hvort geðlækni eða HAM-sálfræðing – svo ekki sé talað um möguleg jákvæð áhrif þess að tilheyra hópi, í þessum tilvikum rannsóknarhópi.

Satt best að segja kem ég ekki auga á yfirburði HAM fram yfir t.d. tólf spora vinnu (sem margir hafa reynslu af), sæmilega skynsamlega lífsafstöðu sem menn geta öðlast af lestri gamalla lífsstílsrita og samræðum við trausta vini eða þá fró sem reglusamt líf gefur (þ.e. að hafa reglu á lífi sínu). Allt skilar þetta manni áleiðis að meiri þroska og aukinn þroski gerir mann hæfari til að fást við erfiðleika. Sú litla reynsla sem ég hef sjálf af HAM, við kvíða, hefur gefið góða raun, þ.e.a.s. ég eignaðist dágott verkfærasafn sem nýtist talsvert við að fást við kvíða og draga úr ofsakvíðaköstum. En samfara brúka ég kvíðastillandi lyf sem eru einnig gott verkfæri við því sama. Ég hef prófað að sleppa þessu lyfi, áður fyrr gat ég stundum verið án þess um þó nokkurn tíma en veikindi mín versna með hverju árinu og undanfarið ár er útilokað að reyna bara að brúka HAM á kvíðann, það dugar of skammt.

Ég á mjög erfitt með að sjá fyrir mér hvernig HAM gæti gert alvarlegt þunglyndi mitt bærilegra. Fyrir svo utan það að ég er hreinlega of veik til að þvælast til Reykjavíkur einu sinni í viku og árangurinn af hugsanlegri HAM meðferð á þessu ári hefði eflaust aðallega orðið sá að ég hefði þurft að leggjast inn á geðdeild. Svo ég er ekki einu sinni í standi til að ganga úr skugga um hvort aðferðin virki eitthvað á djúpa viðvarandi geðlægð 😉
 
 


   Um HAM-rannsóknir, tilvísanir til þeirra og tilvísanir í yfirlitsrannsóknir/úttektir á rannsóknum í íslensku greininniÍ rauninni virðist um fjölda rannsókna og yfirlitsrannsókna að ræða en svo er ekki endilega. Í stikkprufu í rannsóknir þar sem borinn er saman árangur HAM og þunglyndislyfjameðferðar kom í ljós að margir höfundar voru að endursegja niðurstöður tiltölulega fárra og jafnvel fámennra rannsókna, í mörgum greinum sem vísa fram og aftur í hið sama og hver í aðra. Þetta er nokkurs konar „Einbjörn í Tvíbjörn, Tvíbjörn í Þríbjörn“ o.s.fr. saga.Fyrsta rannsóknin er yfirlitsannsókn Gloaguen o.fl., sem gerð var 1998, „A meta-analysis of the effects of cognitive therapy in depressed patients“, þar sem  skoðaðar voru átta fámennar rannsóknir á langtímavirkni HAM versus langtímavirkni lyfja, á tímabilinu 1981-1992. Í fimm af þessum átta rannsóknum virtist minna um hrösun (bakslag, þ.e. að sjúklingnunum versnaði aftur) hefði HAM meðferð verið beitt heldur en í hópi þeirra sem fengu þunglyndislyf. Alls voru sjúklingar í þessum fimm rannsóknum 144 og þunglyndi þeirra mismunandi vægt/alvarlegt. Gloaguen og félagar reiknuðu svo eintaldlega út prósentutölur byggðar á þessum 144 ólíku sjúklingum, í ólíkum rannsóknum, ýmist fylgt eftir í eitt ár, eitt og hálft ár eða tvo ár, og fengu úr að að meðaltali mældist hrösun 29,5% hefðu sjúklingarnir fengið HAM meðferð en 60% hefðu þeir verið meðhöndlaðir með lyfjum. Þessar rannsóknir voru gerðar fyrir daga SSRI-lyfjanna.
 

Því leituðu höfundar íslensku greinarinnar einnig að sambærilegum rannsóknum þar sem SSRI-lyf  (Seroxat) var til samanburðar og vísa í þrjá greinar um það. Sú fyrsta er úttekt Butler o.fl. á öðrum rannsóknum, „The empirical status of cognitive-behavioral therapy: A review of meta-analyse“ (2006). Þar er  auðvitað vísað í Gloaguen rannsóknina og bent á að e.t.v. sýni hún of sterka stöðu HAM því Gloaguen hafi talið með rannsóknir þar sem aðferðafræðilegir þættir hefðu verið HAM í hag. Butler vitnar svo m.a. í DeRubies og  Crits-Christoph (1998) sem hafi fengið út svipaðar tölur um árangur, miðað við eftirfylgni í eitt ár, þ.e. 26% hrösunarhlutfall meðal þeirra sem notuð HAM og 64% hrösunarhlutfall meðal þeirra sem notuðu geðlyf. Butler vitnar einnig í yfirlitsrannsókn De Rubeis og Crits-Cristoph (2005) þar sem hafi komið í ljós að HAM væri jafn árangursríkt paroxetine (Seroxat) í fyrstu meðferð við meðalþungu eða alvarlegu þunglyndi. Loks vitnar hann í Hollon o.fl. (2005) þar sem komið hafi í ljós að HAM styrkti sjúklinga með meðalþungt eða alvarlegt þunglyndi og hafði jafn öflug (forvarnar)áhrif eftir að meðferð lauk og að vera áfram á lyfjum.

Næsta rannsókn sem höfundar íslensku greinarinnar vitna í er einmitt rannsókn Hollon, DeRubeis o.fl. frá 2005, „Prevention of Relapse Following Cognitive Therapy
vs Medications in Moderate to Severe Depression.“ Seinni greinin eftir Hollon o.fl. frá 2006, „Enduring effects for cognitive behavior therapy in the treatment of depression and anxiety“, sem höfundar íslensku greinarinnar vitna í þriðja lagi í, um samanburð SSRI-lyfs og HAM, segir aðallega frá þessari sömu rannsókn hans og vangaveltum út frá henni.
 
 

Kannski finnst einhverjum fróðlegt að vita hvernig svona rannsókn er gerð. Hér er stutt endursögn byggð á  „Prevention of Relapse Following Cognitive Therapy vs Medications in Moderate to Severe Depression.“

Markmið rannsakenda var að skoða hvort hugræn meðferð (CT – náskyld CBT svo köllum þetta bara HAM) hefði varanlegri áhrif, þ.e. kæmi fremur í veg fyrir bakslag, en lyfjameðferð, í meðhöndlun sjúklinga með alvarlegt þunglyndi. Viðfangið var 240 manna hópur göngudeildarsjúklinga á aldrinum 18-70 ára, sem greindir voru upphaflega með meðalþungt eða alvarlegt einpóla þunglyndi og ekki glímdu við aðrar geðraskanir einnig. Sjúklingarnir gáfu upplýst skriflegt samþykki sitt fyrir að taka þátt í tilrauninni. Það kemur ekki fram hvort þeir tóku þátt af hugsjóninni einni saman eða fengu greitt fyrir þáttöku eða græddu á henni á einhvern annan hátt, t.d. með greiðari aðgengi að læknis- eða sálfræðiþjónustu en þeir hefðu ella haft. Mér finnst þetta skipta máli.

Fyrst var þeim skipt í 3 hópa; 60 manns voru sett í öfluga HAM-meðferð, 120 manns í lyfjameðferð (fengu aðallega Seroxat en stoðlyf ef Seroxatið dugði ekki eitt sér: Litium eða Desipramine/ Norpramine, þríhringlaga lyf sem virðist ekki á markaði hérlendis) og 60 manns látnir eta lyfleysupillur í tvo mánuði – auðvitað án þess að vita hvort um lyfleysu eða lyf var að ræða. (Síðastnefndi hópurinn kemur í raun ekki meira við sögu í þessari rannsókn.)

Eftir 4 mánuði kom í ljós að einungis 104 sjúklingum af þeim 180 sem hlutu raunverulega meðferð, eða 57.8%, hafði  batnað að ráði. Miðað var við að sjúkdómseinkenni hefðu minnkað um a.m.k. 40% (mælt með skori á Hamilton Depression Rating Scale, HDRS, sem ég veit ekki til að hafi verið þýddur á íslensku en krækt er í gagnvirka vefsíðu með kvarðanum á ensku). Í lyfjatökuhópnum höfðu 69 af 120 (57,5%) náð þessum árangri og í HAM hópnum 35 af 60 sjúklingum (58,3%). Þessir 104 sjúklingar héldu áfram í 12 mánaða tilraun en hinum var hent úr rannsókninni.

Í greininni þar sem höfundar segja frá þessari rannsókn er þess hvergi getið í hverju hugræna meðferðin (CT) fólst né hversu oft sjúklingar sóttu svoleiðis meðferð. Það finnst mér alvarlegur galli! Má þó af samhenginu skilja að hún hafi líklega verið stíf.

Á næsta stigi, sem skyldi vara í ár, var lyfjatökuhópnum skipt þannig að 34 sjúklingar fengu áfram sömu lyf en farið var að gefa 35 sjúklingum lyfleysu. Þeir héldu áfram að hitta sinn sama lækni reglulega, tvisvar fyrsta mánuðinn og svo einu sinni í mánuði. Sjúklingarnir sem lentu í lyfleysu-hópnum voru trappaðir niður af Seroxati á 4-6 vikum. Hvorki sjúklingarnir, geðlæknarnir né þeir sem mátu árangurinn vissu hvaða sjúklingar fengju raunveruleg lyf og hvaða sjúklingar fengju alveg eins útlítandi lyfleysu. Læknar sjúklinganna sem héldu sig taka Litium en átu lyfleysu fengu uppdiktaðar blóðrannsóknarniðurstöður þeirra sjúklinga.

Sjúklingarnar sem höfðu verið í HAM-meðferð hættu í henni að mestu nema þeir fengu þrjár „styrktar-HAM-lotur“ (Booster sessions) á þessu tólf mánaða tímabili og máttu sálfræðingur og sjúklingur velja hvenær þessar lotur voru teknar út.

Fylgst var reglulega með sjúklingunum á þessu 12 mánaða tímabili og ástand þeirra metið, með skori á HDRS-kvarðanum og fleiri mælikvörðum á líðan. Versnaði sjúklingi að ráði taldist hann brottfallinn úr rannsókninni, sömuleiðis ef hann hætti að mæta í matsviðtal eða læknisheimsókn. Sextán sjúklinganna féllu brott: Átta úr lyfleysuhópnum, fimm úr geðlyfjahópnum og þrír úr „takmarkað styrkta HAM-lotu“ hópnum.

Eftir voru þá alls 88 sjúklingar af þeim 104 sem tóku þátt í framhaldsrannsókninni eða 84,5%. Tveir sjúklingar að auki voru voru útilokaðir af rannsakendum, annar var úr lyfjatökuhópnum en krafðist þess að fá sálfræðimeðferð að auki og einn HAM-sjúklinganna hóf að taka geðlyf í 10. mánuði rannsóknarinnar.

Á þessu 12 mánaða tímabili veiktust margir sjúklingar eitthvað í framhaldsrannsókninni. Þeir sem héldust frískir allan tímann voru 40 sjúklingar sem skiptust þannig: 6 sjúklingar sem tóku (óafvitandi) lyfleysu (eða 16,4% af þeim hópi), 14 sjúklingar sem tóku geðlyf (eða 26,9% af þeim hópi) og 20 sjúklingar sem hófu stífa HAM-meðferð í upphafi og fengu 3 Ham-styrktarlotur á þessu 12 mánaða tímabili (eða 37,3% af þeim hópi). Af því þessir 40 fengu ekki nein þunglyndiseinkenni á þessu tólf mánaða tímabili var það túlkað sem svo að þeir hefðu læknast af sinni upphaflegu djúpu geðlægð (þunglyndiskasti). Veiktust þeir að loknu prófunartímabilinu taldist það sem ný veikindi, þ.e. ný geðlægð eða þunglyndiskast.

Eftirfylgni með hópunum stóð í eitt ár í viðbót. Raunar fór það svo að 7 af hinum 20 „læknuðu“ HAM-meðferðarsjúklingum veiktust aftur, 7 af þeim 13 sem voru í lyfjameðferð og 2 af þeim 6 sem eftir voru í lyfleysutökuhópnum.
 

Niðurstöðurnar gefa til kynna að HAM (CT) hafi varanleg áhrif sem dragi úr hættunni að veikjast aftur eftir meðferðina. Áhrif HAM eru a.m.k. jafngóð og áhrif langvarandi lyfjaneyslu. Af þessu má draga þá ályktun að hægt sé að fyrirbyggja bakslag hjá sjúklingi sem hefur náð bata annað hvort með áframhaldandi lyfjanotkun eða öflugri HAM meðferð um leið og bata verður vart.
 

Athugasemd mín: Mér finnst þessi meðferð á veiku fólki hreinasti hryllingur, jafnvel þótt tilgangurinn hafi eflaust verið góður. Og mér finnst siðlaust að falsa niðurstöður blóðprufa sjúklinga handa læknum þótt tilgangurinn sé að enginn kæmist að því hvaða sjúklingar fengju lyfleysu og hverjir raunverulegt Litium. Eiginlega finnst mér merkilegust niðurstaðna þessara rannsóknar að 86 manns skuli hafa tollað í henni í 16 mánuði (af þeim 240 sem í upphafi voru valdir og gáfu skriflegt samþykki sitt fyrir þátttöku). Mér er ljóst að sálfræðingum þykir mikið til svona rannsókna koma en sem sjúklingur mundi ég aldrei ljá máls á að taka þátt í svonalöguðu – nema mér væri slétt sama hvort ég lifði það af eða dræpist.
 

Ég rek ekki aðrar rannsóknir sem íslensku höfundarnir greinarinnar „Gagnsemi hugrænnar atferlismeðferðar við lyndis- og kvíðaröskunum hjá fullorðnum“ vitna í, máli sínu til stuðnings, þær eru væntanlega jafn aðferðafræðilega vel unnar og þessi sem ég var að endursegja. Þó ber kannski að nefna að í næstu efnisgrein eftir þessari um HAM samanborið við þunglyndislyf er staðhæft: „Rannsóknir hafa einnig sýnt að samþætt meðferð þar sem HAM er beitt eftir að lyfjameðferð lýkur er árangursrík, m.a. með tilliti til bakslags“ og vitnað í Eugene S. Paykel. „Cognitive therapy in relapse prevention in depression.” (2007) Paykel fjallar auðvitað um fyrri rannsóknir og telur rannsókn Hollon, sem ég var að endursegja, gefa ansi takmarkaðar upplýsingar. (s. 132 í skjalinu sem krækt er í).
 

Þannig að um leið og ómenntaður (í sálfræði) sjúklingur eins og ég fer að skoða sýnishorn af þeim rannsóknum og yfirlitum sem vitnað er í blasir við tvennt: Menn vitna fram og aftur hver í annan í kross og að menn reyna að gera fyrri rannsóknir heldur ómerkilegar og sínar eigin nýrri rannsóknir miklu merkilegri. Þessar stikkprufur eru ekki til þess fallnar að auka trú ómenntaðs (í sálfræði) sjúklings á þann vísindalegan grunn sem HAM-fræðin ku reist á, skv. íslensku greininni.
 
 

Loks nefni ég að í tveimur nýlegum rannsóknum þar sem sjúklingarnir vissu sjálfir hvað er í gangi og völdu sjálfir meðferðarform, þ.e. STAR*D rannsókninni (þar sem sjúklingar voru haldnir mismunandi vægu/alvarlegu þunglyndi) og REVAMP (þar sem sjúklingarnir voru varanalega (krónískt) þunglyndir) mældist lítill eða enginn merkjanlegur munur milli HAM sem stoðar við lyfjameðferð og þegar önnur lyf voru stoð við lyfjameðferð. 

Um STAR*D: Michael E. Thase o.fl.„Cognitive Therapy Versus Medication in Augmentation and Switch Strategies as Second-Step Treatments: A STAR*D Report“. American Journal of Psychiatry 164:739-752, maí 2007. American Psychiatric Association.
 

Um REVAMP: James H. Kocsis o.fl. „Cognitive Behavioral Analysis System of Psychotherapy and Brief Supportive Psychotherapy for Augmentation of Antidepressant Nonresponse in Chronic Depression The REVAMP Trial“. Archives of General Psychiatry, 66. árg., 11. tbl. 2009, s. 1178-1188.
 
 
 

Þunglyndissjúklingur í geðlækningabatteríinu – taka 2

Angst eftir MunchHér verður aðallega fjallað um lyfjameðferð við þunglyndi – og enn einu sinni tek ég skýrt fram að ég skrifa út frá eigin reynslu en hef enga menntun í geðlæknisfræðum, lyfjafræði eða öðru sem ber á góma, kannski oggolitla innsýn í sálfræði tengda kennsluréttindanámi (en kennsla í því námi var raunar fyrir neðan allar hellur og eiginlega ekkert hægt að stóla á þau “fræði” sem einhverjir þóttust vera að kenna þar svo líklega er rétt að ég lýsi mig jafnframt ómenntaða í sálfræði). Snemma í færslunni bendi ég enn og aftur á þann undarlega tvískinnung í greiningu, skilningi og meðferð þunglyndra: Stundum er þetta talinn einhvers konar andlegur krankleiki en samt oftast meðhöndlaður sem líkamlegur sjúkdómur, þ.e. sjúkdómur sem stafi af boðefnarugli í heila.

[Myndin er af málverki Edvards Munch, Angst, sem mætti kannski kalla Angist á íslensku … hugsanlega Felmtur, Kvíða, jafnvel Hræðslu. Mér finnst Angist besta heitið og þessi mynd sýna vel hvernig þunglyndissjúklingur upplifir sig einan í óvinveittum  heiminum – aðrir eru svipir einir, andlitslausir, skilningslausir, af öðrum toga eins og svarklæddu karlarnir á málverkinu – tilfinningaólgan allt í kring og himinninn lograuður eins og heimsendir sé yfirvofandi og lífinu að ljúka. Þannig skil ég þessa mynd. Aftur á móti hef ég ekki hugmynd um hvernig hún er almennt túlkuð eða hvort Munch sjálfur kom með einhverjar yfirlýsingar um hvað hún ætti að sýna.]

En þá er það framhald fyrri færslu:

Hafi þunglyndissjúklingi tekist að rata á heppileg svör í hinum óræðu prófum sem fyrir svoleiðis sjúklinga eru lögð gefst honum kostur á meðferð við sjúkdómnum. Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi og kvíða, á vef Lsp., vekja sjúkling eins og mig til umhugsunar um hvort menn þar á bæ greini þunglyndi sem líkamlegan sjúkdóm eða andlegan; þar eru nefnilega tvenns konar leiðbeiningar: “Klínískar leiðbeiningar þegar þunglyndi er aðalvandi” (s. 18) og “Klínískar leiðbeiningar um þunglyndi samhliða líkamlegum veikindum” (s. 19). Má af þessu draga þá ályktun að þeir sem sömdu hinar klínísku leiðbeiningar (þær eru reyndar þýddar) álíti að líkaminn endi á hálsi og þar fyrir ofan sé eitthvað annað, t.d. sálin? Er þunglyndi þá ekki líkamleg veikindi? Mér finnst þetta a.m.k. algerlega forkastanlegt orðalag í opinberum leiðbeiningum Landspítalans því það gefur þeirri túlkun undir fótinn að þunglyndi eitt og sér sé ekki líkamlegur sjúkdómur!

Nú eru til ýmsar getgátur um af hverju þunglyndi stafi og ég fjalla um þær síðar. Svoleiðis getgátur hanga líka saman við hvort hægt sé að tala um þunglyndi sem einn sjúkdóm eða marga, sjúkdóm sem er samþættur kvíða eða ekki o.s.fr. En ég held að enginn sem hefur upplifað djúpt þunglyndiskast fari í grafgötur um það að þunglyndi er í hæsta máta líkamlegur sjúkdómur því einkenni dreifast um allan skrokkinn, t.d. truflanir á jafnvægisskyni, verkir hér og hvar og allstaðar, spenna í öllum útlimum, sviti, skjálfti, flökurleiki o.s.fr. Fyrir svo utan það sem skeður í heilanum á manni og veldur ólýsanlega skelfilegri líðan. En ef maður tekur þessar klínísku leiðbeiningar alvarlega væri kannski allt eins hægt að leita til andalæknis eða særingarmanns 😉 (Ég reikna raunar með að þessi della stafi aðallega af því að verið sé að halda sálfræðingum góðum – þeirra hagmunir í að fá þunglyndissjúklinga til sín eru miklir og þeirra hagur að sjúkratryggingakerfið viðurkenni sálfræðimeðferð til jafns við lækna-og lyfjakerfi. Kem að því síðar þegar ég fjalla um sálfræðimeðferðir sem “standa sjúklingum til boða” eða “er reynt að troða upp á sjúklinga”, orðalagið ræðst af því hversu trúaður maður er á að slík meðferð beri árangur og slíkt ræðst t.d. af því hversu mikið veikur sjúklingurinn er af þunglyndi.)

En þrátt fyrir andagtugan skilning þeirra sem sömdu leiðbeiningarnar eru þær faktískt nokkurn veginn eins fyrir þunglyndi með og án samfara líkamlegum veikindum. Í mínu tilviki (alvarleg einkenni þunglyndis) er fyrsta ráð: “SSRI-lyfjameðferð OG HAM einstaklingsmeðferð (á sama tíma)” (fyrir bara þunglynda) en aftur á móti á að “bjóða SSRI-lyfjameðferð ásamt HAM” ef maður flokkast með samhliða líkamleg einkenni (feitletrun mín í tilvitnun).

Sem betur fer var ég orðin alvarlega veik áður en þessar leiðbeiningar voru samdar og hef því sloppið við að vera skikkuð í HAM enda sé ég ekki hvernig ég ætti að komast í gegnum slíka meðferð og tel afar vafasamt að hún skilaði einhverjum árangri öðrum en að koma mér samstundis í innlögn á geðdeild. (Á hinn bóginn hef ég ágæta reynslu af HAM við kvíða, gat sótt námskeið í slíku á tímabili þegar ég var ekki mikið veik og það hefur komið að góðum notum svo ég er ekki að afskrifa HAM-ið með öllu og held að það sé vel líklegt að það gagnist við vægu þunglyndi, jafnvel meðaldjúpu.) Ég er heppin – ég hefði nefnilega ekki getað framvísað neinum “líkamlegum sjúkdómi” samhliða þunglyndinu og því ekki átt um boð að velja heldur skikk, skv. leiðbeiningunum!

Lyf við þunglyndi eru ótal mörg en flokka má þau gróflega í þrennt eða fernt:

 I. SSRI-lyf eru algengust enda bent á þau sem fyrsta kost. Skammstöfunin stendur fyrir “Selective Serotonin Reuptake Inhibitor”. Þau voru sérstaklega hönnuð með hliðsjón af þeirri kenningu að orsök þunglyndis mætti rekja til þess að heilinn framleiddi of lítið af taugaboðefninu serótónín. (Þeim sem vilja lesa sér til um boðefni og hlutverk þeirra er bent á: Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hver er munurinn á taugahormóni og taugaboðefni?“. Vísindavefurinn 16.9.2009.; Heiða María Sigurðardóttir. „Hvað eru taugaboð og hvernig verka þau?“. Vísindavefurinn 15.11.2005; HMS. „Hvaða tilgangi þjónar serótónín í heilanum? Hverjar eru afleiðingarnar ef starfsemi þess er raskað?“. Vísindavefurinn 21.2.2007. Síðurnar voru skoðaðar 9. okt. 2011.)

Í einfölduðu máli má segja að SSRI lyf virki þannig að þau blokka eða setja hömlur á serótónín-upptakara/viðtakara svo heilinn getur ekki endurnýtt serótónínið sitt og neyðist til að framleiða meira af fersku seróntóníni. (Ég veit að líffræðingar og lyfjafræðingar munu hrylla sig yfir þessari skýringu en það verður að hafa það. Þetta er nokkurs konar öfug endurvinnsluhugmynd 😉 Ef menn benda mér á betri útskýringu tek ég henni með þökkum.)
 

SeroxatAlgeng SSRI-lyf eru t.d. Cipramil, Cipralex, Seroxat, Zoloft og Fontex. Efnasamsetning þeirra er ekki hin sama en tilgangurinn og hugmyndin af baki þeim er sú sama. Eins og um önnur geðlyf gildir að sum verka á suma sjúklinga, önnur ekki. Öll hafa þau aukaverkanir í mismiklum mæli (það er líka einstaklingsbundið), þeirra algengust er kannski kyndeyfð og að finnast maður vera tilfinningalega flatur (hér byggi ég á eigin reynslu og reynslu sjúklinga sem ég hef kynnst, það getur vel verið að læknar og lyfjafræðingar telji eitthvað annað algengast en ég hef náttúrlega miklu takmarkaðri yfirsýn en þeir). [Myndin sýnir sameindabyggingu Seroxats.]

 

 II. SNRI-lyf virka bæði á seróntónín og noradrenalín upptakara/viðtaka, á sömu forsendum á SSRI-lyf eru hugsuð. Líklega er Effexor þekktast slíkra lyfja hérlendis en fleiri eru notuð.
 

 TruntusólIII. Þríhringlaga geðlyf eru oftast talin elsti flokkur geðlyfja, voru fundin upp snemma á sjötta áratug síðustu aldar. Þau virka líka sem blokk eða hömlun á serótónín og noradreanlín upptakara/viðtaka en hafa miklu meiri og algengari aukaverkanir en SSRI-lyfin. Þess vegna eru yfirleitt ekki gripið til þeirra fyrr en SSRI þykja fullreynd. Dæmi um þríhringlaga geðlyf eru Anafril og Amitriptylin (sem einu sinni var kallað Amilín og þar áður Tryptizol – Truntusól). Myndin sýnir sameindabyggingu Amitriptylins en þríhringlaga geðlyf draga nafn sitt af hringjunum þremur (þ.e. atómin tengjast saman í þrjá hringi).

  

 IV. MAO-hemlar. Þessi lyf eru næstelsti flokkur geðlyfja og virka þannig þau blokka ensímið monoamine oxidase (sem kann að vera skrifað öðru vísi upp á íslensku). Það ensím brýtur niður taugaboðefnin dópamín, serótónín og noradrenalín. Með því að blokka ensímið hægir á niðurbroti boðefnanna og verður þ.a.l. til meira af þeim. MAO-hemlar eru aldrei notaðir við þunglyndi núorðið nema flestöll önnur lyf hafi brugðist. Eftir því sem ég best veit er einungis einn MAO-hemill á lyfjaskrá hérlendis, Aurorix. Hins vegar eru gerðar tilraunir með fleiri MAO-hemla í neyð, t.d. Marplan. MAO-hemlar milliverka við fjölda lyfja og fæðutegunda og eitrunaráhrif af slíku geta vel verið lífshættulegar.

Svo mætti náttúrlega búa til flokkinn Önnur þunglyndislyf, þ.e.a.s. lyf sem ekki falla í þessa fjóra aðalflokka. Þegar búið er að reyna SSRI-lyf án árangurs er ýmist farið yfir í þríhringlaga geðlyf eða prófað að gefa eitthvað af “öðrum geðlyfjum”, t.d. Mianserin Mylan eða Míron (sem áður hét Remeron). Nýtt lyf, Valdoxan, hefur þá sérstöðu að blokka ekki bara serótónín- heldur einnig tvo melantónín viðtaka, byggt á þeirri kenningu að rugl í dægursveiflu gæti verið orsök þunglyndis. (Ég vísa bara í eigin gamla bloggfærslu um þetta lyf um nánari upplýsingar.) Valdoxani er einungis ávísað hafi flest önnur geðlyf verið prófuð til þrautar. 
 

Flest þunglyndislyf byrja ekki að virka fyrr en eftir 2-3 vikna töku. Tökum sjúkling eins og mig sem dæmi: Fyrst þegar ég veiktist var ég sett á Seroxat. Það lyf virkaði nokkuð vel nokkuð lengi (eða hætti að virka en mér batnaði af sjálfu sér, slíkt er ekki hægt að vita í ljósi minnar sögu). Svo kom að því að slæmar aukaverkanir gerðu vart við sig og ég þurfti að hætta á Seroxati. Í næsta slæma kasti var  prófað annað SSRI-lyf og ég varð að bíða veik í a.m.k. 3 vikur uns taldist reynt hvort lyfið virki eða virki ekki. Virki það ekki er byrjað á nýju lyfi og áfram heldur biðin og veikindin. Þessi bið er hroðalega erfið og vonbrigðin, þegar lyfið virkar ekki og þarf að byrja upp á nýtt, eru skelfileg. Það vita allir sem hafa prófað.

Þegar þunglyndisköstin verða æ dýpri og standa æ lengur yfir er farið að prófa önnur lyf en SSRI. Líklega er ég með ofnæmi fyrir Effexor (ein tafla lagði mig í rúmið í tvo daga) svo ég hef ekki mikla reynslu af SNRI lyfjum. Þríhringlaga lyf tók ég um skeið í eldgamladaga, áratug áður en ég veiktist alvarlega af þunglyndi, þá hafði ég fengið greininguna “skammdegisþunglyndi” en var líklega einfaldlega virkur alkóhólisti og með venjulegt alkaþunglyndi þá, sem batnaði eftir að ég fór í áfengismeðferð. Frá því ég veiktist 1998 hef ég prófað á annan tug lyfja en það eru ekki allt þunglyndislyf.

Á einhverjum tímapunkti gerist það gjarna með geðsjúkling af mínu tagi að sett er fram tilgáta um að mögulega sé sjúklingurinn ekki með djúpt einpóla þunglyndi heldur geðhvarfasýki II (sem lýsir sér þannig að sjúklingurinn fer ekki í maníu en þunglyndislotur geta verið mjög djúpar). Þá er prófað að gefa Lithium (Litarex). Í mínu tilviki var það svo sem allt í lagi, minnir að þessi tilaun hafi staðið í ár en minni mitt er valt, aukaverkanir voru aðallega handskjálfti og þorsti en svo sem ekkert slæmar. (Ég hef tekið lyf sem hafa látið mig hríðskjálfa frá toppi til táar og einnig lyf sem valda stöðugum munnþurrki svo síðustu annirnar sem ég gat sinnt kennslu þurfti ég alltaf að taka með mér stútkönnu með vatni í kennslustundir – og á tímabili skjálftalyfsins (Seroquel, sem er í rauninni flokkað sem geðrofslyf) sem ég tók ofan í hitt lyfið var helv. erfitt að hitta með stútinn á varirnar …). En þótt Lithium hefði þann kost að hafa tiltölulega litlar aukaverkanir hafði það jafnframt þann ókost að mér batnaði ekki baun af því. Því var horfið frá þessari “geðhvarfasýki-II-greiningu” og aftur snúið yfir í einpóla þunglyndisgreiningu.

Sum lyfin virtust virka um tíma, yfirleitt svona 3-4 mánuði en svo hættu þau allt í einu að virka,  yfirleitt á innan við sólarhring . Ég vil meina að heilinn í mér “læri” á lyfin og komi sér upp aðferðum til að fara fram hjá verkan þeirra. Ég tel einnig að heilinn muni það sem hann hefur “lært”. Geðlæknirinn minn vill orða þetta þannig “að heilinn leiti ævinlega jafnvægis” og er ekki sammála því að þótt lyf hafi hætt að virka á sínum tíma sé ekki von til að það virki aftur einhvern tíma seinna. Um þetta erum við læknirinn, held ég, sammála um að vera ósammála.

Síðasta lyfið sem virkaði var Valdoxan. Fyrirfram bjóst ég ekki við neinu, var orðin dauðþreytt á stanslausum helvítis lyfjatilraunum sem litlum eða engum árangri höfðu skilað. Og raflækningar fullreyndar (ég fjalla um þær síðar). Þannig að miðað við viðhorf sjúklingsins (mitt) hefði mátt búast við “nocebo”-áhrifum, þ.e.a.s. neikvæðum platáhrifum og engri virkni lyfsins. Það fór á annan veg: Sumarið 2010 náði ég að verða sama manneskjan og ég var fyrir 1998 þegar ég veiktist fyrst! Það var dásamlegt kraftaverk … en því miður entist það bara í þrjá og hálfan mánuð, þá hætti Valdoxan allt í einu einn daginn að virka og ég snarsnérist ofan í hyldýpið og endaði inni á geðdeild.

Haustið 2010 veiktist ég sem sagt mjög illa. Valdoxan-skammturinn var tvöfaldaður og ég var  látin bíða heima í þrjár vikur, meðan mér versnaði æ meir. Hefði eins getað etið kandís. Svo var ég lögð inn á geðdeild (ég var of veik til að geta ákveðið það sjálf – mér var svo slétt sama hvað um mig yrði að ég tilkynnti að maðurinn minn og læknirinn yrðu að ákveða hvað yrði gert – hins vegar yrði að gera eitthvað því annars dræpi ég mig, sjálfsvígshugsanirnar voru orðnar það áleitnar og tilhugsunin um að losna út úr þessu helvíti það lokkandi).

MarplanÉg lagðist inn á geðdeild (þriðja haustið í röð, að ég held) og í þetta sinn var gerð tilraun með ör-örþrifalyfið: Marplan. [Myndin sýnir sameindabyggingu Marplans.] Það er líka heppilegra fyrir sjúklinginn að vera nálægt hjartadeild þegar lyfið er prófað því hjá stöku sjúklingi rýkur blóðþrýstingur upp úr öllu valdi, lífshættulega. Marplan var prófað í 3 – 4 mánuði, að mig minnir. Ég var á geðdeild í sjö vikur, kom svo heim og var áhorfandi að jólunum því ég gat ekkert gert, ekki lesið, ekki horft á sjónvarp, ekki snert á heimilisverkum … ekkert nema prjónað, en sá hæfileiki hvarf einnig nokkrum sinnum. Við hengdum upp eitur-milli-verkunarlistann í eldhúsinu og maðurinn lærði að elda súpur og sósur án súputeninga og sósulitar, auk annars sérfæðis. Árangurinn af Marplan? Eftir á séð held ég að hann hafi verið enginn nema mögulega breytt ódæmigerðum þunglyndiseinkennum í dæmigerð þunglyndiseinkenni. Það sem gerðist aðallega var að ég hætti að geta sofið nema svona 3-4 tíma á sólarhring. Alls konar svefnlyf og róandi lyf og sterk geðlyf (sem eru gefin í svona tilvikum) höfðu nær ekkert að segja, lyfið sem kallast stundum “rotarinn” á geðdeild virkaði t.d. ekki baun. Seroquel gat lengt svefninn ofurlítið en eins og áður er getið eru aukaverkanir af því andstyggilegar og spurning hvort var þess virði að sofa klukkutíma lengur en ella til þess eins að hrökkva upp  hálfdópuð og hríðskjálfandi. Mér fannst það ekki þess virði. Ég hélt sönsum með því að prjóna og með því að einbeita mér að einhverju ákveðnu efni sem ég gat nálgast úr hæfilegri fjarlægð; Þannig urðu siðblindufærslurnar til. Blóðþrýstingurinn hrundi niður úr öllu valdi og ég var eins og uppvakningur (ég held að þeir hafi einmitt frekar lágan blóðþrýsting, jafnvel engan blóðþrýsting).

Á endanum samþykkti læknirinn minn að Marplan væri fullreynt. Eftir á séð held ég að það hafi löngu verið orðið ljóst og ég hafi átt að hætta miklu fyrr á þessu lyfi sem gerði mig í rauninni enn veikari. (Þegar maður hefur ekki fengið meir en fjögurra tíma svefn á sólarhring í meir en mánuð er maður orðinn helvíti lasinn … það myndi líka taka sinn toll af alheilbrigðu fólki. Þegar eru komnir tveir svona mánuðir þarf virkilega að taka sér tak til að tapa ekki glórunni. O.s.fr. Og svefninn hefur aldrei komist almennilega í lag síðan þessari tilraun lauk.)

Síðan þurfti ég að vera lyfjalaus í nokkurn tíma meðan Marplans-áhrifin hreinsuðust að fullu úr lifrinnni á mér. Það var í sjálfu sér enginn munur á geðslaginu. Svo var ég sett á þau tvö lyf sem helst hafa þótt skila árangri hin síðari ár, Valdoxan og Míron. Valdoxan spillir hjá mér svefni, sem var náttúrlega löngu vitað – aukið melantónín virkar öfugt á mig og einhvern tíma um það leyti sem ég var að veikjast fyrst fékk ég náttúrulegt melantónín (Melanín?) sem svefnlyf en það varð til þess að ég svaf ekki dúr. Um mitt sumar ákvað ég að hætta þessari Valdoxantöku enda enginn bati af lyfinu og í rauninni var það frekar til óþurftar, það brenndi utan af mér kílóin sem ég hafði engin efni á að missa.

Ég tek enn Míron en held að það virki sosum ekki neitt á þunglyndið. Aðalástæðan fyrir að ég tek það er sú aukaverkun að það eykur matarlyst og gerir mér kleift að hafa lyst á skyri með rjóma eða nokkrum prinspólóum svona upp úr miðnætti 😉  Ég þarf nefnilega á hverju grammi að halda (er einnig öfugsnúin að því leytinu). Að auki tek ég svefnlyf og hef gert í einhverja mánuði og er nákvæmlega skítsama um álit besserwissera á svefnlyfjanotkun til langframa – fyrir mig er það lífsspursmál að geta sofnað – og svo tek ég kvíðastillandi lyf að staðaldri og er jafnsama um álit annarra á því, ég ætla ekki að koma mér í þá stöðu að kála mér af botnlausum heilbrigðisáróðursástæðum. Stundum velti ég því fyrir mér hvort þeir sem tala hvað mest gegn lyfjanotkun (geðlyfja, kvíðastillandi lyfja og svefnlyfja), einkum sumir læknar, hafi einhvern tíma velt fyrir sér að þeir gætu verið ráðbanar einhverra þunglyndissjúklinga með öllum þessum helvítis hollráðum í óhófi?

Framtíðin í lyfjamálum? Tja, læknirinn minn hefur stungið upp á fleiri MAO-blokkum, sem ég hef kurteislega afþakkað. Svo hef ég undanfarið reynt að leita að og lesa greinar um hvers lags þunglyndislyf eru í prófun núna en þau virðast flest vera af Valdoxan-taginu, þ.e.a.s. menn eru uppfullir af þessum dægursveiflufaktor og veðja á melantónín-aukningu. Eflaust virkar það á einhverja, jafnvel marga þunglyndissjúklinga en ég er eiginlega vonlaus um að það virki á mig.
 

Í lokin árétta ég aftur að þessi færsla er skrifuð af geðsjúklingi sem hefur ekki sérþekkingu í lyfjafræði eða læknisfræði, er meira að segja máladeildarstúdent og því talsvert fáfróð í öllu raungreinatengdu. Mér þætti því vænt um að fá ábendingar um beinar villur sem kunna að leynast í því sem ég segi um lyf og þeirra verkan. Og ég tek mönnum vara fyrir að taka þessa færslu sem vísindalega eða fræðilega eða leiðbeinandi fyrir lyfjanotkun. Hún er fyrst og fremst lauslegt yfirlit yfir sviðið sem blasir við þunglyndissjúklingum eftir greiningu, miðast við eigin reynslu og ég er haldin “alvarlegum einkennum þunglyndis” svo mín reynsla á hreint ekki við nema lítinn hluta þeirra sem greinast þunglyndir.
 
 

P.s. Ég stefni á að útbúa einhvern tíma lista yfir þau lyf sem ég hef prófað. Til þess þarf ég gögn því minnið er ekki upp á marga fiska. Einu sinni datt mér í hug að suma refil eða klukkustreng með myndum af sameindabyggingu lyfjanna sem ég hef tekið, sem eru stundum formfagrar og henta líklega vel til að æfa sig í refilsaumi, í lit auðvitað. En nú er ég að heykjast á þeirri hugmynd, að sauma út “Lyfin í lífi mínu”  – svoleiðis útsaumsstykki yrði líklega alltof langt til að gera sig vel á vegg …

 
 
 
 
 
 
 

Þunglyndissjúklingur í geðlækningabatteríinu – taka 1

ÓpiðÉg veit ekki hvaða geðveiki hrjáði Munch blessaðan en mér hefur alltaf fundist þessi mynd sýna ágætlega hvernig þunglyndissjúklingi líður – innra með sér. Og velt fyrir mér hvort hann kemst yfir brúna, yfir hið dökka fljót, eða fellur ofan í.

Aftur á móti líta þunglyndissjúklingar líklega aldrei svona út. Það að ætla sér að meta hvort manneskja er þunglynd af útlitinu einu saman útheimtir talsverða mannþekkingu. Að vísu verða sumir sjúklingar dálítið stjarfir í framan og eiga erfitt með að sýna eðlileg svipbrigði því þeim bregst stjórn á smávöðvum í andlitinu. Þeir örfáu sem ég hef séð þannig eru yfirleitt mjög veikir.

Sjálf lít ég nokk eðlilega út þótt ég sé fárveik. (Eins og sést á myndinni hér neðar í færslunni, sem tekin var seinnipartinn sl. föstudag; þann dag barðist ég við að kasta ekki upp af kvíða yfir að fara á júlefrókost starfsmanna míns gamla vinnustaðar um kvöldið og var ekki fyrr en á síðustu stundu sem mér tókst að standa almennilega í lappirnar og fara – lá í rúminu daginn eftir. En það sést ekki á myndinni, hér að neðan. Það sést heldur ekki á myndinni að ég á mjög erfitt með mál þessa dagana, get ekki valið símanúmer nema með herkjum því ég man bara eina tölu í einu, á erfitt með lestur, get ekki horft á sjónvarp, á mjög erfitt með að sofna, hef ekki treyst mér út úr húsi í marga daga og líður, hreinskilnislega sagt: Djöfullega!) 

Þetta eðlilega lúkk hefur stundum verið vandamál inni á geðdeild og sýnt sig að flest hjúkrunarfólkið getur engan veginn metið hvernig mér líður, sem er slæmt því það fólk (hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og e.t.v. fleiri) gefa lækninum daglega skýrslu um ástand sjúklingsins. Mitt heimilisfólk getur hins vegar metið ástandið, mér skilst að röddin verði hljómlausari, meira eintóna, ég mismæli mig, augun verða öðruvísi o.s.fr. Á geðdeild hef ég reynt að gera það samkomulag að starfsfólkið taki einfaldlega mark á því sem ég segi um eigin líðan.

(Líklega er þetta atvinnusjúkdómur: Eftir að hafa haft kennslu að aðalstarfi í aldarfjórðung og verið á kafi í allskonar verkefnum þar sem ég þurfti oftar en ekki að vera að stjórna einhverju þá hef ég einfaldlega komið mér upp sæmilega huggulegu viðmóti og get kjaftað út í eitt ef nauðsyn krefur … sama hversu veik ég er. Enda mætir enginn óbrjálaður kennari í kennslustofu til að láta nemendur vorkenna sér – sá kennari entist ekki lengi í starfinu.)

En hvernig eru þá þunglyndissjúklingar greindir ef sjúkdómurinn sést illa eða ekki? Það er ekki eins og maður geti gengið inn og sýnt bágtið …

Þá er gripið til staðla og mælingartækja. Sem dæmi um staðal má nefna DSM-IV, þ.e. staðal amerísku geðlæknasamtakanna (APA). Hann er svona:

Skilgreining DSM-IV-TR á djúpri geðlægð

Fimm eða fleiri eftirtalin einkenni verða að hafa verið til staðar í a.m.k. hálfan mánuð. Þar af verður eitt þessara fimm einkenna að vera  geðdeyfð eða vansæld.

Hugarástand / hugsanir


Geðdeyfð
Vansæld
Að finnast maður einskis virði eða bera sektarkennd
Einbeitingarskortur, óákveðni
Hugsanir um dauða, sjálfsvígshuganir

Líkamleg einkenni

Breytingar á matarlyst og/eða líkamsþyngd
Svefntruflanir
Breytingar á  athöfnum daglegs lífs /skynhreyfivirkni
Þreyta

Algengustu mælingartækin eru Þunglyndispróf Beck’s (hér er krækt í þýðingu Eiríks Arnar Arnarsonar, á Hirslu Lsp., þetta er eldri útgáfan en nú er notuð aðeins endurskoðuð gerð prófsins) og PHQ-9 (hér er krækt í enska útgáfu því einkaréttur er á íslenskri þýðingu hennar – sem er vel að merkja fáránlegt að mínu mati en kemur efni færslunnar svo sem ekki við). Einnig eru notuð fleiri próf sem ég nennti ekki að fletta upp, þ.á.m. Kvíðapróf þessa sama Beck’s og próf sem er í samræmi við ICD-10 staðalinn (staðal Alþjóðaheilbrigðisstofnunar SÞ, sem er notaður í íslenskri heilsugæslu). Ef lesendur hafa unun af svona prófum þá má finna enn eitt á síðu Landlæknisembættisins.

Öll eru þessi próf margprófuð, þ.e.a.s. menn hafa marglagt þau fyrir mismunandi hópa og reynt að meta próffræðilega eiginleika þeirra og áreiðanleika. Má t.d. lesa sér til um sumt af slíku í: Jakob Smári o.fl. “Mælitæki fyrir þunglyndi fullorðinna sem til eru í íslenskri gerð: Próffræðilegar upplýsingar og notagildi.” Sálfræðiritið – Tímarit Sálfræðingafélags Íslands 13. árg. 2008, bls. 147-169. Hér krækt í skannað pdf-skjal í Hirslu Lsp. (Sömuleiðis er stutt yfirlit yfir svona próf í “Rating scales for depression” á Wikipedia og krækt í nánari upplýsingar um hvert og eitt.)

En eins og kemur fram í hinni ágætu grein Jakobs Smára o.fl.:

Almennt  má segja að þunglyndispróf hafa [svo] orðið til með sálmælingaleg (áreiðanleiki, þáttabygging, forspárréttmæti) fremur en fræðileg viðmið að leiðarljósi. Stundum hefur e.t.v. skort á um viðunandi hugtakalega aðgreiningu t.d. þunglyndis og kvíða við gerð tækjanna … Þetta helgast trúlega af því að skilningur okkar á því sem við erum að mæla er enn sem komið er fremur brotakenndur. Tengsl tækjanna við greiningarkerfi geðraskana eru breytileg og um leið óljóst hver þau ættu að vera þar sem alls ekki er sátt um að líta á greiningarkerfin sem gullinn staðal. (S. 160-161, feitletrun mín.)

Þetta er að mínu viti kjarni málsins: Prófin eru kannski ágæt próffræðilega séð en menn eru ekki vissir um hvað þeir eru að mæla enda hefur sálin verið illmælanleg til þessa. Auk þess er bent á að staðlar (t.d. DSM-IV og ICD-10) eru umdeildir (og þeim ber raunar ekki endilega saman).

En skv. Klínískum leiðbeiningum um þunglyndi og kvíða sem Landspítalinn gaf út í ágúst 2011 (hér er krækt í bæklinginn á vef Lsp.) eru svona próf einmitt mælitækin til að ganga úr skugga um hvort eða hversu þunglyndur sjúklingurinn er.

Sjálfri gengur mér yfirleitt bölvanlega að svara þessum prófum. Má nefna að ég skoraði 5 stig á sjálfprófinu á síðu Landlæknisembættisins núna áðan en er þó helvíti lasin akkúrat núna. Líklega hef ég svarað Þunglyndisprófi Beck’s oftar en ég hef tölu á og finnst það fáránlegt, t.d. þessar tvær staðhæfingar sem maður á að merkja við eftir líðan:

  5. Ég hef ekki sérlega slæma / oft slæma / nær alltaf fremur slæma/ alltaf slæma samvisku.

  7. Ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með sjálfa mig/ Ég er óánægð með sjálfa mig / Ég er hneyksluð á sjálfri mér / Ég fyrirlít sjálfa mig

Vandamálið er að ég finn sterkt fyrir tilfinningu sem líkist sektarkennd en ég veit ósköp vel að er einungis út af efnaskiptarugli í heila því ég hef ekki gert neitt af mér. Hvernig á ég þá að svara spurningu 5? Og þótt mér líði ömurlega hvers vegna ætti ég að vera hneyksluð á mér eða fyrirlíta mig þegar ég veit vel að mér líður svona af því ég er veik af þunglyndi? Þetta Beck’s próf er svo vitlaust að mér tekst einungis að ljúga til um svörin og gera munnlega grein fyrir hverri lygi fyrir sig af því ég veit hverju verið er að sækjast eftir. Kann að spila inn í að Aaron T. Beck lærði upphaflega sálgreiningu (freudísku fræðin) en snéri sér síðar að hugrænni sálfræðimeðferð … kannski sátu eftir í honum einhverjar hugmyndir um beyglun í dýpstu sálarkimum þunglyndissjúklinga?

Þunglynd Harpa með brosÞessi færsla er að verða of löng til að ég geti dekkað sviðið sem blasir við geðsjúklingi innan geðlækningageirans. En það merkilega er að mælitækin eru sálfræðileg, jafnvel byggð á óljósum hugmyndum um sálina og hennar krankleik. Hins vegar er meðferðin yfirleitt talin raunvísindaleg, þ.e.a.s. þegar búið er að greina sjúklinginn er hann settur á lyf. Lyfjaframleiðslan byggir á líffræðilegum upplýsingum, því sem menn telja sig hafa komist að um heilann með raunvísindalegum aðferðum.

Milli greiningaraðferða og hefðbundinnar meðferðar er sem sagt himinn og haf (þótt menn klastri á það einhverjum klínískum stimpli). Þarna á milli lendir sjúklingurinn sem kannski er ekki nógu æfður, nógu leikinn eða bara of heiðarlegur til að skora hátt í greiningunni. Eftir að hafa strippað andlega í þessum greiningarprósess (innifalið í honum er líka “að taka sögu sjúklingsins” og ég get ekki ímyndað mér annað en algerlega huglægt mat sé á þeirri sögu) er næst að kúvenda sér yfir í vísindalega efnafræðilega tilraunakanínu. Talsvert ruglandi, get ég sagt ykkur!

Og haldi einhver að það sé einfaldara að fara til heilsugæslulæknis og fá greiningu á þunglyndi þar bendi ég á glærusjó Kristbjargar Þórisdóttur sálfræðings: Tilfinningavandi í heilsugæslu. Könnun meðal sjúklinga og heimilislækna. (Ótímasett). Þetta eru raunar áróðursglærur fyrir sálfræðimeðferð við “tilfinningavanda” en á 21. glæru kemur fram sú athyglisverða staðreynd að heimilislæknum yfirsést svoleiðis vandi sjúklinga, þ.e. kvíði eða þunglyndi, í 37,5-45,8% tilvika, þar af fór þunglyndi mest fram hjá heimilislæknum. (Svipaðar tölur hef ég séð í amerískum greinum en nenni ekki að fletta þeim upp núna). Þessi staðreynd ein og sér ætti að hvetja fólk sem líður illa andlega  til að fara frekar á bráðamóttöku geðdeildar eða reyna að verða sér úti um tíma hjá geðlækni frekar en að treysta á innsæi, þekkingu eða skilning heilsugæslulækna.

En næst verður sumsé efnafræðin tekin fyrir: Þunglyndislyfin, prófanirnar, aukaverkanirnar, vísindalegu rannsóknirnar sem liggja að baki lyfjunum, forsendurnar sem menn hafa gefið sér fyrir lyfjaþróun o.s.fr. Og spurt: Af hverju virkar þetta dót ekki á mig?
 

Kostir þunglyndissjúklinga

Kostir þunglyndissjúklinga

Þessi færsla fjallar ekki um hvaða kostum þunglyndissjúklingar búa yfir enda eru þeir ýmiss konar, aftur á móti er enginn kostur við þunglyndi. Hún er losaralegur inngangur að tilvonandi færsludræsu um hvaða kostir eru í boði fyrir slíka sjúklinga.  

Eins og föstum lesendum bloggsins míns ætti að vera fullkunnugt um er ég geðveik. Skv. staðli heitir geðveikin “djúp endurtekin geðlægð án sturlunareinkenna”. Djúp geðlægð er líklega þýðingin á “Major Depression” eða “Major Deep Depression” (MDD) en almenningur kallar þetta sennilega einfaldlega slæmt þunglyndi.

Til að flækja málin er mitt þunglyndi svokallað “TRD” (Kanar eru afar hrifnir af skammstöfunum og þetta stendur fyrir “Treatment Resistant Depression”, sumsé “meðferðarþolið þunglyndi”. Svo er líka til DRD, sem er Drug Resistant Depression, þ.e. “lyfjaþolið þunglyndi”. Ég hef aldrei náð muninum á þessu tvennu almennilega en reikna með, af hyggjuvitinu, að DRD-sjúklingar eigi einhverja von um bata í raflækningum – sem almenningur kallar einfaldlega raflost eða raflostmeðferð).

Enn flóknari gerast málin þegar ég upplýsi að ég er með “ódæmigert þunglyndi” (atypical depression) en ég man því miður ekki skammstöfunina fyrir það(ATD?). Oftast einkennist þunglyndi af því að sjúklingurinn sefur minna en venjulega og árvaka (það að vakna fyrir allar aldir og geta ekki sofnað aftur) er algengur fylgifiskur. Í mínu tilviki eykst hins vegar svefnþörf mjög í þunglyndisköstum. Auk þess sný ég öfugt, þ.e.a.s. líður skást fyrst eftir að ég vakna en æ verr eftir því sem líður á daginn (en venjulega eru þunglyndissjúklingar hressastir á kvöldin).

Svoleiðis að ég gæti raðað þessu saman í stærðfræðijöfnu og sagst vera með: MDD+TRD+ATD(?) = geðveiki.

Hér mætti samþætta stærðfræði og móðurmál og byrja allskonar spekúlasjónir um orðalag: Geðveiki, geðræna sjúkdóma, geðröskun, geð- þetta og geð-hitt. Meira að segja staffið í geðheilbrigðisgeiranum – eða geðveikigeiranum – er voðalega upptekið af orðalagi. Eins og það skipti einhverju máli. Mér finnst geðveiki langbesta orðið og af því það nær yfir lífshættulega sjúkdóma finnst mér ástæðulaust að nota það í hálfkæringi, eins og Geðhjálp hefur tekið upp á nú á aðventunni (og formaður Geðhjálpar sannað þannig að “Kleppur er víða”) eða stimpla andstæðinga sína umsvifalaust með þessu yfirsjúkdómsheiti til að ná sér niðrá þeim. Aftur á móti má sosum fyrirgefa unglingsgreyjum og síbernskum sem finnst “geegt” gott lýsingarorð eða áhersluatviksorð með lýsingarorði. Eins og aðrar álíka slettur á “geegt” sér tímabundna framtíð í málinu.

Sem geðsjúklingur með langa og viðamikla (leiðinlega, átakanlega) reynslu hef ég áttað mig á því að ýmsir hagsmunaaðilar slást um okkur geðveika fólkið eða öllu heldur það fé sem má æxla sér af svoleiðis fólki, gegnum opinber kerfi, styrki og fleira. Myndin hér að ofan á að sýna helstu kosti sem fólki eins og mér bjóðast eða er otað að fólki eins og mér.  

Ég var að hugsa um að gera kerfisbundna úttekt á þessum kostum, frá sjónarhóli sjúklingsins vitaskuld því ég hef enga menntun í neinu af þessu nema ef vera skyldi afleidda bókmenntafræðimenntun í teoríum sem snerta hinar aflögðu sállækningar; sú fræga Julia Kristeva var menntaður sállæknir, starfaði sem slíkur um skeið og fór svo út í að greina eigið þunglyndi, sbr. bók hennar Svört sól. Þótt sálfræðingar hafi líklega fyrir löngu kastað þessum kenningum, byggðum á Freud og Jung, fyrir róða lifa þær góðu lífi í vissum bókmenntafræðikreðsum og þar þykir jafnvel fullt vit í þeim. Ég deili ekki því viðhorfi.

Þessi færsla er sem sagt nokkurs konar inngangur að einhverri lengri umfjöllun (sem mér tekst vonandi að semja). Í byrjun er rétt að taka fram að mér ofbýður oft hve sjúklingurinn, manneskjan, skiptir litlu máli í hagsmunapoti þessara mismunandi aðila sem ég reyndi að teikna upp og sýna hvernig skarast. Þetta má t.d. sjá á hörðum áróðri sálfræðinga fyrir því að fá sjúkratryggingar til að greiða fyrir sálfræðimeðferð. Sá áróður birtist meðal annars í greinum sem þeir skrifa til að halda fram ágæti sinna aðferða. Þetta má einnig sjá á ótrúlega tilfinningalausri umfjöllun í greinum um nýjustu tilraunir í að hræra í heila fólks, í þetta sinn með rafhlöður að vopni í stað gamla ísmolabrjótsins (hvað heitir svona græja, icepick, á íslensku?). Þetta má líka sjá í áróðri einstaka heimilislækna sem vilja fá að hafa sjúklingana hjá sér og helst skaffa þeim “hreyfiseðla” við sínum geðræna krankleika. Raunar verður margt af þessu sem er sett í grænu kúluna undir Annað að nokkurs konar trúarbrögðum hjá hópi fólks. Hver reynir að skara eld að eigin köku og stundum hvarflar að manni að þessu fólki sé í raun slétt sama um sjúklinginn sjálfan. Sammerkt eiga flestir þessir hópar að reyna að gera sín fræði að vísindum; að reyna að fullvissa fólk um að allt sé þetta reist á fræðilegum grunni og tefla gjarna fram mýgrút ýmiss konar rannsókna því til sannindamerkis.

Ég vil þó taka skýrt fram að sjálf hef ég verið ákaflega heppin í viðskiptum mínum við þessi mismunandi kerfi. Því er mest að þakka að ég hef frábæran geðlækni. Einnig bý ég svo vel að eiga góða vinkonu sem er frábær lyfjafræðingur. Og síðast en ekki síst hef ég fullt vit þótt ég sé veik á geði. (Mér er ljóst að sumur fávís almenningur heldur að vit og geð hangi einhvern veginn saman en svo er líklega í fæstum tilvikum. Sami almenningur heldur að skap og þunglyndi sé einn og sami hluturinn, vissulega eru tengsl þarna á milli en langt í frá að þunglyndi sé einfaldlega fólgið í að vera í vondu skapi eða “liggja á sófa og láta sér leiðast” eins og var einu sinni sagt við mig. En blessunarlega áttaði ég mig á því fyrir löngu að það er ekki mitt hlutverk að hafa vit fyrir hinum fávísu í þessum efnum.)

Versta reynslan sem ég hef er af viðskiptum við heilsugæslustöðina í mínum góða bæ. Þar virðist ríkja það viðhorf að læknar séu stikkfrí þegar kemur að geðsjúkdómum, a.m.k. hafa margir þeirra litla þekkingu á algengum kvilla á borð við þunglyndi og sýna viðhorf og viðmót sem bendir til að þeir telji þunglyndan sjúkling sjálfkrafa hálfvita.

Sem dæmi um slíkt má nefna heimilislækninn sem sagði við mig í síma: “Þú gerir þér grein fyrir því að svefnlyf virka ekki á þunglyndi?” þegar ég bað um lyfseðil … sá gerir sér sennilega ekki grein fyrir því að slæmum þunglyndisköstum fylgir oft svefnleysi og það er lífshættulegt fyrir mig að missa svefn, ég þarf einmitt extra svefn í þunglyndiskasti en stundum trufla lyf sem verið er að prófa svefninn illilega. Eða kandídatinn sem hringdi óðamála í mig til að upplýsa mig um að ég væri dópisti – hún hafði nefnilega lært það í læknisfræði að tæki sjúklingur kvíðastillandi lyf að staðaldri væri hann dópisti. Eða kandídatinn sem sagði: “Þú getur ekki bara mætt á bráðamóttöku takandi sjaldgæft lyf og ætlast til að við vitum hvaða lyf milliverka við það?” Eftir að hafa séð hann byrja á að opna Google til að leita sér upplýsinga benti ég honum á drugs.com, raunar daginn eftir því þetta einfalda verk á bráðamóttöku reyndist tveggja daga prósess úr því sjúklingurinn gerði honum það til bölvunar að eta sjaldgæft lyf með lífshættulegum millilyfjaaukaverkunum – raunar var ég auðvitað sjálf búin að matsa saman Marplan og Líkódín þegar ég mætti seinni daginn, auk þess að benda honum á þessa ágætu síðu en sleppti því að fara fram á að hann lærði að leita á lyfjaskrá á lyfjastofnun.is. Eða um daginn þegar ég var að endurnýja rafrænt lyfseðil á algengu geðlyfi sem ég hef verið á lengi og asnaðist til að skrifa athugasemdina “læknir hefur aukið skammt í X mg” og fékk til baka þessa dásamlegu athugasemd frá læknaritara: “Ef læknir hefur breytt skammti verður þú að tala við lækni í síma xxx áður en við getum afgreitt lyfseðilinn”. (Það er ekki hægt að misnota þetta lyf og ég hef oft verið á því, ýmsum skömmum, auk þess sem oft er hringlað með geðlyfjaskammta meðan verið er að prófa lyf og skiptir engu andskotans máli hvað stendur á dollunni.) Margoft hefur heimilislæknir sagt við mig: “Á ekki X [geðlæknirinn minn] að skrifa lyfseðil upp á þetta [geðlyf]?” Af því heimilislæknirinn telur sig stikkfrí í geðsjúkdómum, reikna ég með. Og hefur ekki kveikt á því ennþá að ég nota geðlyf, hafandi verið geðveik í 13 ár og búið í þessu plássi í aldarfjórðung.

Sem betur fer á þetta ekki við allt staffið á heilsugæslustöðinni en sumt af því mætti verulega skerpa sig. Sjúklingurinn lærir náttúrlega að sigta út þá fáu sem hægt er að stóla á og raunar hef ég nú ákveðið að biðja frekar sérfræðilækni á háum taxta (geðlækninn minn) að skrifa ómerkilega lyfseðla handa mér heldur en að standa oft fárveik í stappi við takmarkaða liðið á heilsugæslunni. Því hlægir mig mjög að landlæknir og fólk í Velferðarráðuneytinu sé hissa á að sjúklingar á Íslandi leiti mjög oft beint til sérfræðinga og sleppi millistiginu heimilislæknar. Mér finnst það mjög skiljanlegt, ekki hvað síst ef sjúklingar með aðra sjúkdóma mæta einhverju svipuðu og geðsjúklingar, á sinni heilsugæslustöð.

Þannig að þjónusta heilsugæslulækna við geðsjúka eru eftir minni reynslu ekki ásættanlegur kostur. En vissulega vilja þeir sumir fá að ráðskast með svoleiðis sjúklinga, t.d. fá þá til að hætta að taka lyfin sín. Hér er ég einkum að vísa í síbloggandi heimilislækni, utan Akraness, sem allt þykist vita.

Ég sé núna að ég er að hluta búin að dekka umfjöllun um Annað, þ.e.a.s. eigin reynslu af heilsugæslustöð. Heilsugæslulækna ber þó væntanlega aftur á góma í sambandi við geðlyfjaumræðu. Þetta er dálítið óskipuleg færsla af því ég er helv. lasin í augnablikinu. Vonandi fyrirgefst mér það. Og vonandi fær enginn flog yfir að ég nennti ekki að skipta yfir í þýskar gæsalappir, sem mörgum þykja bráðnauðsynlegar í íslensku ritmáli.