Author Archives: Harpa

Ætti ég að blogga um …

Enn vinn ég að næstu færslu um SSA (Sögu Sögu Akraness) og er sammála þeim þrautreynda söguritara að heimildaleit og úrvinnsla heimilda getur verið tímafrek. Reikna þó með að geta hnoðað saman næstu færslu fyrir helgi … ekki að liggi neitt á … ekki að málið sé glænýtt …

En útaf ákv. vísu sem ég fékk á FB (takk fyrir hana, S.) fór ég aðeins að spá í hvort ég ætti kannski að blogga um eitthvað annað. Blogga svokallað milliblogg (MB). Þá eru helstu kostirnir náttúrlega:

Sjúkdómablogg, sem ég nenni ekki því FB virkar svo ágætlega fyrir heilsufarsstatusa og ekkert hefur breyst.

Endursagnarblogg af ýmsu tæi. Lesendum ætti að vera ljóst að ég er mjög höll undir svoleiðis blogg, sumum, einkum sumum afkomendum, jafnvel til skapraunar. Endursagnarblogg í dag gæti verið sígild og síendurtekin umræða um besserwissara í málefnum geðsjúklinga. Liggur beint við að fjalla um Steinþór vísindasagnfræðing, sem enn og aftur vill beina því til okkar pilluætanna hve heimskar við erum að falla fyrir útspekúleruðum geðlæknum sem eru nánast á mála hjá illum amrískum lyfjaframleiðendum. (Sjá grein í Tímariti félagsráðgjafa.) En ég nenni ekki að hrekja málflutning Steinþórs (sem er snýttur úr málflutningi Héðins) einu sinni enn og ákvað að leyfa honum að hafa sína andlyfja skoðun einu sinni í friði. Á hinn bóginn kætti mig nokkuð að sjá leiðbeiningar félagsráðgjafa til þeirra sem vilja skrifa í hið ritrýnda tímarit (og virðast afar stoltir af  RIT-rýningunni):  

Málfar og textameðferð. Vandað skal til röklegrar samningu texta, málfars og frágangs. Eingöngu er tekið við handritum sem eru vandlega yfirfarin hvað varðar stafsetningu, stafavillur/brengsl og meðferð íslensks máls. Mælst er til að greinarhöfundar hafi að lokinni samningu fengið nákvæman yfirlestur á handrit sitt, bæði málfar og textameðferð áður en það er sent til ritstjórnar.

Veit ekki hvort þessi tilvitnun fellur undir eiðs-svanbergslegt blogg (ESB-blogg) eða bara kvikindislegan húmor.

OMGblogg (sem einnig mætti kalla je-dúdda-mía blogg eða ég-get-svo-svaaaarið’að-blogg), yfirleitt um hvað allt er á leiðinni til andskotans í þjóðfélaginu nútildags. Svona blogg býður upp á ýmsa möguleika, frá lélegri íslenskukunnáttu unga fólksins á þessum síðustu og verstu tímum til blammeringa á pólitíkusa, sem bloggari brigslar þá í leiðinni um að vera siðblindir, siðlausir, siðvilltir, geðveikir, þroskaheftir, veruleikafirrtir eða eitthvað álíka (fer eftir orðaforða bloggara). 

Ýmis stílafbrigði af OMG-bloggum standa til boða, t.d. að hafa greinaskil að lokinni hverri málsgrein eða raða færslunni saman nær eingöngu úr afrituðum bútum úr bloggum annarra, fréttum úr vefmiðlum, jafnvel YouTube-myndböndum. Hvort tveggja gerir sig vel, hið fyrrnefnda staðfestir hve bloggara er mikið niðri fyrir og hvernig þarf að stoppa til að taka andköf, hið síðarnefnda staðfestir að bloggari standi ekki einn í sinni hneykslan eða kemur í stað heimildaskráa og tilvísanaskráa (sem ég viðurkenni fúslega að eru hallærislegar í sumu bloggumhverfi, t.d. mínu eigin).

Blogg beinskeytta byltingarmannsins (BBB-blogg); í dæmigerðu BBB-bloggi í dag gæti ég fjallað um hve andstyggilegt og ljótt var að kála Osama bin Laden og tengt það einhvern veginn við að ísbjörn var felldur í Rekavík, sem er líka ljótt.

BBB-blogg byggjast á svipaðri aðferðafræði og sú ágæta bók 1066 And All That þar sem atburðir í Bretlandssögu eru flokkaðir klárlega í góða og vonda (Which was a Good Thing eða Which was a Bad Thing) og er að því leytinu ákaflega þægileg til að mynda sér söguskoðun. Í BBB-færslu um Ósama væri rétt að benda á hve helv. kaninn hefur alltaf verið mikið ógeð og helst að tengja við Ísland úr Nató-herinn burt eða Víetnam-stríðið eða að fæðingarvottorð Óbama sé örugglega falsað. Um leið yrði að tengja við krúttið Knút og vesalings landflótta grænlenska bangsa í sjálfsvígssunds-hugleiðingum sem lenda á því illa Íslandi þar sem morðóð og byssuglöð löggan plaffar þá niður og fær kikk út úr öllu saman, sem mætti svo tengja við almenna fyrirlitningu á dómskerfinu hér á landi, útrásarvíkinga og óhæfi sérstaks saksóknara, ásamt því að vorkenna fótboltaliði á Vestfjörðum sem glaptist til að hafa ísbjörn í sínum einkennisfána.

BBB-blogg eru stundum dálítið lík OMG bloggum en má styðjast við, í greiningu, að þau síðarnefndu minna oftast dálítið á kerlingaklúbba fyrri tíma, þar sem húsmæður hittust í eldhúsinu, með rúllur í hárinu og keðjureyktu og fóru með ég-get-so-svaaarið’að! – eða afbrigðið ég-get-so-GUÐ-svaaarið’að! (þetta var reyndar fyrir mína tíð en bloggynja er sæmilega lesin og vídjófróð). BBB-blogg eru aftur á móti frekar tengd byltingarmanni án málstaðar, t.d. uppgjafa allaballa sem reynir að ríghalda í þá gömlu góðu (löngu liðnu) tíma þegar heimsmyndin var svarthvít og tiltölulega einfalt að hafa hina einu réttu skoðun og þótti sú hin eina rétta skoðun almennt smart í ákveðnum kreðsum.

Blogg-um-blogg (BUB-blogg) eru löngu sígild. Þá er náttúrlega bloggað um blogg af ýmsu tagi, þau flokkuð í blogggreinar og undirblogggreinar, kastað smá skít í stutt-skítkasts-blogg (oft kennd við moggann) og fárast svolítið yfir hve FB hefur gengið af blogginu dauðu og hve öllu fer aftur (ó-temora-ó-móres-fílingurinn).

Þetta er dæmigert BUB-blogg, ég sé það núna.

  

Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“

Saga Sögu Akraness I

Undanfarna viku hef ég reynt að setja mig inn í söguna sískrifuðu, þ.e.a.s. reynt að átta mig á hvers vegna bæjarfélagið mitt hefur eytt ómældu fé í að láta endurskrifa sama hluta sögu Akraness aftur og aftur. Þetta er flókin saga sem ég reyni að gera skil í nokkrum bloggfærslum. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar í heimildaöflun en ég reikna með að geta skrifað færslurnar smám saman … ekki á sautján árum heldur á næstu vikum. En byrja auðvitað á byrjuninni. Þessum færslum er safnað í sérstakan færsluflokk, sem sjá má á flokkalista hér til hægri. Fyrirsögn þessarar fyrstu færslu er að hluta tilvitnun í fyrirlestur Hallgríms hreppstjóra Jónssonar.
 
 
 

Landnám BresasonaÞað er upphaf þessa máls að Ketill og Þormóður Bresasynir námu land í kringum Akrafjall og af frændum þeirra, fylgdarliði og afkomendum fer nokkrum sögum en næsta fáum af þeim sjálfum. [Myndin sýnir landnám þeirra bræðra, sem afmarkaðist af Urriðaá og Kalmansá. Rauða brotalínan sýnir hvernig þeir skiptu landinu milli sín.] Mætti með góðum vilja kalla sumt af þessum fornu sögum „sögu Akraness“ því nessins og nánasta umhverfis er getið á stöku stað.

Það er ekki þó efni þessarar umfjöllunar að tína saman brot úr fornritum. Sömuleiðis sleppi ég yfirleitt að geta einstakra greina og þátta sem hafa verið skrifuð um sögu Akraness en tek fram að margt af slíku efni er ljómandi gott og vel unnið. Hugmyndir um að skrifa sérstaka sögu bæjarins Akraness og svæðisins í kring koma ekki fram fyrr en talsvert er liðið á síðustu öld.
 

Hallgrímur hreppstjóri og fyrirlestur hans

Hallgr�mur hreppstjóri JónssonÞó virðist nokkur hefð komin á að telja fyrirlestur Hallgríms hreppstjóra Jónssonar, fluttan 1889, um lífið á Skaganum síðastliðin 100 ár, sem fyrsta innlegg í sögu Akraness. [Myndin er af Hallgrími hreppstjóra.] Þar sagði Hallgrímur m.a. um sagnafátækt af þessu útnesi: „Þetta frásöguleysi er líka eðlilegt, því hér hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki – en einstakir menn og þjóðirnar hefja bæina og löndin. Sem sagt, hafa aldrei á Skaganum verið fram yfir miðja þessa öld, neinir menn, sem kveðið hefur að. Enginn lærður maður, hvorki til munns né handa, enginn embættismaður búið þar, ekki svo mikið sem presturinn, ekkert skáld, sem plássið hefði getað borið minjar um í bæjarrímu eða formannavísum, eða nokkrar ritsmíðar sem getandi sé.“1

Kannski er öll síðari tíma vinna við ritun sögu Akraness í og með til að hrekja þessa kenningu Hallgríms hreppstjóra?
 

Héraðssaga Borgarfjarðar

Í kringum 1935 var unnið að ritun Héraðssögu Borgarfjarðar af miklum metnaði.  Út komu tvö bindi með ýmsum þáttum eftir marga höfunda og hið þriðja fjallaði um skólann á Hvanneyri. Áformað var að fjalla sérstaklega um sögu Akraness, „Sögu Akraness og væntanlega utan Skarðsheiðar er nú verið að safna til og skrá, og eru líkur til, að hún, komi á sínum tíma út sem sjálfstætt bindi héraðssögunnar.“ (Kristinn Stefánsson í Tímanum 7. maí 1936) eða verði a.m.k. „langur þáttur og fróðlegur“ (Kr. Þ., væntanlega Kristleifur Þorsteinsson, í Lögbergi 31. des. 1936). Ekkert virðist hins vegar hafa orðið úr þessari ætlan.
 
 

Ólafur B. Björnsson: Saga Akraness I og II

Ólafur B. Björnsson og Saga Akraness IÓlafur B. Björnsson (1895-1959) fæddist á Akranesi og bjó hér alla tíð. Hann gaf sjálfur út tímaritið Akranes í 17 ár, þar sem birtust margir þættir, frásagnir og viðtöl sem vörðuðu lífið á Skaganum og sögu plássins og safnaði Ólafur miklu efni um þetta. Svo réðst hann í útgáfu á Sögu Akraness, sem átti að verða í fimm bindum. Einungis Saga Akraness I og II komu út (1957 og 1959) því Ólafur lést áður en verkið var fullunnið, var þá langt kominn með þriðja bindið. Þessu virðist hann að mestu hafa áorkað á eigin spýtur og í hjáverkum með öðrum störfum. Bæjarstjórnin styrkti hann þó í upphafi með 10.000 kr. framlagi. (Væri gaman að vita hvað sú upphæð 1957 er há á núvirði.)

Efnisþættirnir sem Ólafur náði að gera skil í þessum tveimur ritum eru: Saga fyrstu jarða á Skaga, saga sjávarútvegs og saga verslunar á Skaganum. Ég hef oft gluggað í þessar bækur og finnst þær mjög skemmtilegar, ekki hvað síst af því Ólafi er persónusaga hugleikin sem og lýsingar á mannlífinu á ýmsum tímum og mér finnst hann segja vel frá. (Hef þó séð þess getið að honum hafi verið stirt um skrif en hef ekki tekið eftir því sjálf.)  Bækurnar eru myndskreyttar en auðvitað eru myndirnar svarthvítar. Sömuleiðis má í þeim finna kort (yfir bæjarstæði, mið og fleira), töflur (yfir hundraðatal jarða, aflamagn o.fl.) og ég sé ekki betur en hann vísi í fjölbreyttar heimildir; prentaðar, munnlegar og óprentuð skjöl.

Því miður auðnaðist Ólafi ekki að fjalla um nema afmarkaða þætti en það væri gaman að vita hvað varð um allt það efni sem hann hafði safnað til ritunar Sögu Akraness. Það efni er tíundað í „bréfabindatali“ í viðtalinu sem ég vísa í hér að neðan. Sennilega er það upphaf þeirrar hefðar að lýsa vinnu við ritun sögu Akraness í bréfabinda- og blaðsíðutali gagna fremur en afrakstri eða afköstum. Innbundin eintök af tímaritinu Akranesi og Sögu Akraness I og II er hins vegar auðvelt að nálgast á bókasafni bæjarins og bera myndarskap og elju Ólafs gott vitni.

Um ritunarstörf frumkvöðulsins Ólafs B. Björnssonar má m.a. lesa í viðtalinu „Ekkert gerir sig sjálft“ í Þjóðviljanum 27. ágúst 1958 og um æviferil hans í minningargrein sem Ásmundur Ólafsson skrifaði um hann á hundrað ára fæðingarafmæli hans, í Morgunblaðinu 6. júlí 1995.
 
 

Áform bæjarstjórnar um að gefa út framhald af sögu Ólafs B. Björnssonar

[Viðbót 16. maí 2011: Í lítilli frétt í Tímanum 19. apríl 1978, „Flytur þætti úr sögu Akraness“, er sagt frá smáblaðinu Umbroti sem kom út á Akranesi á þeim tíma. Í grein sem Þorsteinn Jónsson skrifaði í þá nýútkomið Umbrot, 4. tbl., er „birt samþykkt sem gerð var af bæjarstjórn Akraness 1964, þar sem samþykkt var að láta semja og gefa út framhald af sögu Akraness, sem Ólafur B. Björnsson hóf útgáfu á árið 1957, og skildi [svo] fé varið úr bæjarsjóði til útgáfunnar. Nefnd var skipuð og fjárveitin fékkst en ekkert var gert í málinu.“]

Næsta skref í söguritun Akraness var að bæjarstjórn Akraness samþykkti um mitt ár 1967 að láta gera tvennt í tilefni þess að 100 ár voru liðin frá því að Akranes fékk verslunarréttindi: Annað var að gera afsteypu af höggmynd Marteins Guðmundssonar, Sjómaður, og komst það í verk; sú stytta stendur niðri á Akratorgi og er ofast kölluð Sjómaðurinn. Hitt var að „láta semja og gefa út framhald af Sögu Akraness, sem Ólafur B. Björnsson hóf útgáfu á árið 1957. Ráðinn verði ritstjóri að verkinu í samráði við eigendur höfundarréttarins og fé varið út bæjarsjóði til útgáfunnar.“  (Sjá „Minnismerki sjómanna á Akranesi“, frétt dags. 16 júní 1964 í Alþýðublaðinu 17. júní 1964.)

Mér finnst áhugavert að árið 1967 hafi bæjarstjórnin haft sinnu á að huga að höfundarrétti. E.t.v. var hún eingöngu með rétt á titlinum í huga, líklegar þó með aðgang að því efni sem Ólafur hafði þegar safnað og handritið að III. bindinu í huga. Ekki er ljóst hvort átti að ráða einhvern einn söguritara eða einungis ritstjóra sem byggði þá væntanlega á því sem til var fyrir og sæi um að verkið yrði klárað (gæti þess vegna hafa átt að fá marga höfunda til að skrifa einstaka þætti).

En af hverju varð ekkert úr því að framhaldið væri skrifað? Eins og stór hluti íbúa Akraness er ég aðflutt, á ekki ættir að rekja til Skagans, er ekki innvikluð í fótboltann og veit ekki hvers vegna ekkert gerðist í söguritun áformaðri 1967. Var ráðinn ritstjóri? Eða var ráðinn söguritari sem engu skilaði af sér? Eða tímdi bærinn aldrei að eyða fé í framhaldið af Sögu Akraness I og II? Víst er að hefðu þessi loforð eða samþykkt bæjarstjórnar Akraness árið 1967 haldið hefði miklu öngþveiti og fjáraustri sem síðar tók við í sagnaritun Akurnesinga verið forðað. Kannski getur einhver lesandi upplýst málið?
 
 
 

Áhrif Háskólans í Lundi og „Safn til sögu Akraness“

Hér er ekki lýst ákveðinni atrennu að skrásetningu á sögu Akraness heldur einhvers konar undirbúningsvinnu sem átti að leiða til einhvers konar niðurstöðu sem ætti að vera hægt að nota í einhvers konar tilgangi, e.t.v. skrásetningu sögu byggðarlagsins. Þetta skiptir þó máli því vinnan hefði átt að skila góðum grunni fyrir framtíðarsöguritara. Sjálf tel ég að hugmyndafræðin sem tiltölulega fámennur hópur aðhylltist, eigandi það sammerkt að hafa stundað nám í Háskólanum í Lundi laust fyrir 1980 (og e.t.v. loddi stefnan eitthvað lengur), hafi haft sitt að segja síðar meir þegar hið rándýra ævintýri um söguna sískrifuðu hófst og hélt áfram í meir en tvo áratugi. Þess vegna get ég þessa hér.

Árið 1975 stofnuðu íslenskir nemar við Háskólann í Lundi „Félag þjóð- og fornleifafræðinema“. Félagið samdi plagg, „Hugmynd að þjóðminjastofnun á Íslandi“ sem var sent ýmsum stofnunum og söfnum hérlendis og virtust þessir nemar í upphafi hafa hug á samstarfi við þau. En samstarfið gekk ekki, sem kemur reyndar ekkert á óvart þegar yfirlýsingar hluta þessara námsmanna í fjölmiðlum 1976-78 eru lesnar. Þeir vissu nefnilega allt miklu betur en aðrir og gáfu hikstalaust í skyn að þeir sem til þessa hefðu staðið að þjóðháttasöfnun, fornleifauppgreftri, skráningu hvers konar o.þ.h. á Íslandi hefðu verið illa menntaðir fúskarar.2

AkrafjallStrax vorið 1976 hóf lítill hópur störf við „réttframkvæmdar“ svæðisrannsóknir eða mannlífsrannsóknir, að sögn að frumkvæði námsmannanna í Lundi. Fyrir valinu varð svæðið sunnan Skarðsheiðar.  Eitt af mörgu sem rannsaka átti sérstaklega var útgerðarsaga Akraness „sem lítt hefur verið könnuð þjóðfræðilega, þótt margt hafi verið um hana ritað frá öðrum sjónarmiðum“ svo sem lýst er yfir í „Athugun af nýjum sjónarhóli: Byggðasaga sveita sunnan Skarðsheiðar“ í Tímanum 4. júlí 1976, s. 39.

Vinnan 1976 fólst einkum í frumsöfnun ritaðra heimilda og skipulagðri skráningu þeirra; að fara gegnum örnefnaskrár og fara í viku könnunarleiðangur þar sem aflað var upplýsinga um fornar minjar og aðrar sögulegar leifar. Var þess vænst að með því móti fengist nokkur mynd af menningarsögu þjóðarinnar.

Í þessum sex manna hópi voru: Þorsteinn Jónsson, nemandi í þjóðháttum og fornleifafræðum við Háskólann í Lundi, og Þorlákur Helgason, útskrifaður í hagfræði og mannfræði (þessi tveir voru einkum í forsvari fyrir hópnum), Inga Dóra Björnsdóttir, Guðmundur Hálfdánarson, Margrét Hermannsdóttir og Eiríkur Guðmundsson. Sagt var að þetta væru nemar og fullnemar (svo) í fornleifafræði, þjóðhátta- og þjóðfræðum, þjóðfélagsfræðum og sagnfræði.

Til verkefnsins fékkst myndarlegur styrkur úr Vísindasjóði þrjú ár í röð, 1976, 1977 og 1978, og líklega einhverjir fleiri styrkir.3

Er skemmst frá því að segja að engin merki um hina miklu söfnun hópsins sjást við leit í gagnasöfnum á Vefnum (en hafi mér yfirsést merkisplögg frá þessum hópi bið ég lesendur vinsamlegast að benda mér á það í athugasemdum). Þetta fólk snéri sér flest skömmu síðar að öðrum viðfangsefnum og engin ritverk, t.d. skýrslur, greinar eða annað sem varðar þessar merku mannlífsrannsóknir sunnan Skarðsheiðar eru skráð eftir þau í Gegni, með einni undantekningu. Í Akranes. Fornleifaskrá, sem Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson unnu fyrir Fornleifastofnun Íslands og var gefin út 1999 er einskis frá þessum hópi getið í heimildarskrá utan þessarar einu undantekningar. Auðvitað er hugsanlegt að djúpt í iðrum Þjóðskjalasafns sé að finna einhvern afrakstur þessa þriggja sumra verkefnis en það svo vel varðveitt að þess sjáist ekki spor á Vefnum.

Undantekningin er framtak Þorsteins Jónssonar. Hann setti árið 1978 upp sýningu í Bókhlöðunni sem nefndist „Akranes gamla tímans“ og hafði safnað til hennar gömlum ljósmyndum af Skaga allt frá aldamótum 1900. Þorsteinn segist í viðtali hafa „unnið að undirbúningi verkefna um menningarsögu Akraness í „Safn til sögu Akraness“ einkum byggðaþróun Akraness. Hefur hann skilað skýrslu um timburhús á Akranesi fyrir aldamót. Þegar að þeim þætti verkefnisins kom að safna á einn stað ljósmyndum, uppdráttum og teikningum varð honum ljóst að frá Akranesi var miklu meira af myndefni en hann hafði grunað. Varð það tilefnið til sýningarinnar. Að baki hennar liggur tveggja mánaða sjálfboðavinna Þorsteins og hefur hann því gripið til þess ráðs að hafa ljósmyndirnar til sölu …“4

Engar frekari upplýsingar um „Safn til sögu Akraness“ finnast í leit á Vefnum og óvíst hvort það verk hafi átt að birtast á prenti eða einhverju öðru formi eða geymast í kössum. Ég man ekki til þess að hafa séð nein „verkefni um menningarsögu Akraness“ en ef einhver veit meira um þetta eru upplýsingar vel þegnar. E.t.v. hefur Þorsteinn hugsað sér að skrifa eitthvað um sögu Akraness. En það gerði hann ekki – hins vegar skrifaði hann sögur nokkurra annarra byggðarlaga ásamt fjölda ættfræðirita, nokkurra stéttartala og rita annars eðlis.5
 
 
 

Ástæðan fyrir því að ég get sérstaklega þessarar skrýtnu vinnu í rannsóknum á byggðarsögu sveita sunnan Skarðsheiðar (skrýtnu að því leytinu að hún virðist eftir á séð ekki hafa skilað neinu en hafa verið ákaflega auglýst og uppblásin á sínum tíma, af aðstandendum) er að mig grunar að hugmyndafræðin frá Lundi hafi haft sín áhrif löngu seinna. Ekki hvað síst sú skoðun þarmenntaðra að þeir einir kynnu réttar aðferðir við rannsóknir og skráningu á sögu byggðarlaga.

Viðbót 8. maí 2011:

Þorsteinn Jónsson upplýsti í símtali mánudaginn 2. maí að hann hefði notað tækifærið á þessari sýningu sem sagt er frá hér að ofan til að safna gömlum myndum af Akranesi og skrá upplýsingar um nokkur hundruð óskráðar myndir af fólki sem til voru á Byggðasafninu í Görðum. (Hið sama kemur fram í viðtali við Þorstein, „Akranes gamla tímans“ í Vesturlandsblaðinu. Málgagni Alþýðubandalagsins á Vesturlandi 1. tbl. 3. árg. 16. jan. 1979, s. 5.) Það sem skiptir þó öllu meira máli er að á meðan á sýningunni stóð skráði Þorsteinn örnefni eftir upplýsingum sem eldri safngestir gáfu. Alls sóttu um 6000 gestir þessa sýningu og komu sumir, aðallega eldra fólk, dag eftir dag. Þorsteinn var með stórt grunnkort af Akranesi eins og það leit út 1901 og færði jafnóðum inn á það örnefnin og upplýsingarnar. Akranesbær keypti sýninguna (stækkuðu myndirnar) að henni lokinni og fékk ódýrt. Öllum upplýsingum, þ.á.m. örnefnakortinu, skilaði Þorsteinn svo upp á Byggðasafnið í Görðum. Það merkilega er að starfsfólk Ljósmyndasafns Akraness, Skjalasafns Akraness og Landmælinga Íslands hefur aldrei heyrt um þetta örnefnakort og aldrei séð það en þætti í því talsverður fengur. Sömuleiðis hafði Ljósmyndasafn Akraness ekki heyrt af þessum stækkuðu myndum sem Akranesbær keypti af Þorsteini. Hugsanlega er þetta góss geymt upp á Byggðasafninu, mér tókst ekki að ná í upplýsingar um það, en mér þykir þó fremur ólíklegt að kortið sé þar því seinna meir lagði forstöðumaður Byggðasafnsins frá 1979, Gunnlaugur Haraldsson, þunga áherslu á örnefnasöfnun og einmitt örnefnakort, þegar hann tók sæti í svokallaðri Ritnefnd um sögu Akraness árið 1987. (Eftir að Gunnlaugur tók svo við sagnaritarastarfinu sjálfur lagði hann enn meiri áherslu á ýmiss konar örnefnakort og örnefnasöfnun en það er ekki efni þessarar færslu.)

[9. maí – viðbót: Forstöðumaður Byggðasafnsins, Jón Allansson, staðfesti að örnefnakortið af Akranesi 1901 er geymt uppi á Byggðasafni og ljósmyndirnar sem bærinn keypti á sínum tíma eru líka þar.]

Þorsteinn Jónsson kannaðist ekki við að hafa skrifað neitt rit sem héti eitthvað í líkingu við það sem Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson telja upp í heimildaskrá í sinni skýrslu, Akranes. Fornleifaskrá, og er þar væntanlega enn eitt dæmið um frámunalega léleg vinnubrögð í heimildaskrá Adolfs og Orra. 

Þorlákur Helgason staðfesti í símtali sama dag að ekkert hefði komið út úr þriggja sumra svæðisrannsókn á byggð sunnan Skarðsheiðar. Engum gögnum hefði verið skilað neins staðar, hugsanlega hefði verið skilað einhverjum skýrslum um verkefnið [það hlýtur að hafa verið gert því ella hefði tæplega fengist styrkur þrjú ár í röð frá Vísindasjóði, auk annarra styrkja] og hefði verið til eitthvert handrit um eitthvað af þessari vinnu væri það löngu glatað.]  

Framhaldið, sem komið er:

Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …


1 Tilv. í Hallgrím er fengin  úr formála Ólafs B. Björnssonar að Sögu Akraness I, s. 6-7, útg. 1957. Fyrirlestur Hallgríms hét „Lífið í Skaganum síðastliðin 100 ár“ og var fluttur í nýreistu barnaskólahúsi hér í bæ þann 13. janúar 1889. Hallgrímur hóf sögu sína 1789 þegar Ólafur Stephensen stiftamaður bjó á Innra-Hólmi og átti Skagann. Þá bjuggu hér 67 manns í 10 moldarbæjum og þrem tómtúsbúðum. Árið sem Hallgrímur flutti fyrirlesturinn hafði íbúum Akraness fjölgað upp í tæplega 600 manns sem bjuggu í 16 bæjum, 36 timbur- og múrhúsum og 34 tómthúsbúðum. Um fyrirlestur Hallgríms má fræðast í þeim tveimur sögum Akraness sem út hafa verið gefnar og væntanlega einnig í þeirri þriðju sem kemur út 19. maí næstkomandi. Einnig má benda á „Frá Akranesi 24. marz:“ í Ísafold 17. marz 1889. 

Af því Hallgrími lá talsvert illt orð til Stefánunga í þessum fyrirlestri hafa sumir hampað honum sem sérstökum vini alþýðunnar. En Hallgrímur var ódauðlegur gerður í heimildaskáldsögu Þorsteins frá Hamri, Hallgrímur smali og húsfreyjan á Bjargi: söguþáttur úr Borgarfirði, sem kom út hjá Iðunni árið 1990. Þar kemur nokkuð vel fram að Hallgrímur hreppstjóri var ekki sérstakur vinur alþýðunnar.

2  Hér og í næstu efnigreinum er endurorðað og samantekið úr ýmsum greinum í fjölmiðlum enda var hópurinn ákaflega yfirlýsingaglaður í fyrstu. Sjá:

Svæðisrannsókn á byggð sunnan Skarðsheiðar – yfirgripsmikil rannsókn á sögu heils byggðarlags“. Alþýðublaðið 3. júlí 1976, s. 4
Fundu íslenzka spunavél í haughúsinu“. Morgunblaðið 20. ágúst 1976
Athugun af nýjum sjónarhóli: Byggðasaga sveita sunnan Skarðsheiðar“. Tíminn 4. júlí 1976, s. 39
Svæðisrannsókn á byggðinni sunnan Skarðsheiðar“. Þjóðviljinn 4. júlí 1976, s. 24
Stúdentar á rannsóknarferð um landið. Svæðisrannsókn“. Stúdentablaðið 28. júlí 1976, s. 5
Nýstárlegar rannsóknir: Mannlíf sunnan Skarðsheiðar“. Dagblaðið 2. júlí 1976

 

3 Sjá ofangreindar heimildir og einnig:
Frétt í Morgunblaðinu 25. júní 1977 um úthlutun Vísindasjóðs
Frétt í Morgunblaðinu 25. júní 1978 um úthlutun Vísindasjóðs

Um milljónafélag stúdenta“ eftir Árna Björnsson. Alþýðublaðið  30. júní 1978
Um „prófhroka” og „milljónafélag stúdenta” Athugasemd frá Margréti Hermannsdóttur“. Morgunblaðið 4. júlí 1978.
Athugasemd frá skrifstofu Þjóðminjasafns Íslands“ og „Tvö úr hópi „þjóðháttasafnara 1976“ skrifa: Heiður þeim sem heiður ber“. Þjóðviljinn 7. júlí 1978, s. 9.

4Akranes gamla tímans“. Þjóðviljinn 20. desember 1978.

 
Eftir Þorstein Jónsson liggur Hús og býli á Akranesi sem virðist eingöngu aðgengilegt í Bókasafni Akraness. Verkið er 147 síður og í því eru myndir, teikningar og uppdrættir. Þetta er óprentað handrit ársett 1978.
 

Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson telja í heimildaskrá við Akranes. Fornleifaskrá, útg. 1999: Þorsteinn Jónsson. „Þættir úr sögu Akraness. Húsheiti á Akranesi, fyrri hluti, 2 þáttur“ (Ópr.) og hafa hugsanlega fengið eitthvert handrit hjá höfundinum. Reyndar er heimildaskrá Adolfs og Orra illa unnin og í henni óafsakanlegar villur svo erfitt er að draga af henni ályktanir. Kannski eru þeir að vísa í fyrrnefnt Hús og býli á Akranesi.

5 Byggðasögur Þorsteins Jónssonar eru skráðar í ritröð sem kallast Íslendingar, ættir, byggðir og bú, nema sú elsta. Hann virðist standa einn að þessari ritröð og hafa ritað sögurnar að beiðni og fyrir tilstyrk viðkomandi sveitarfélaga. Af bókfræðiupplýsingum í Gegni er óljóst hversu mikið Þorsteinn hefur ritað þessar bækur sjálfar eða hversu mikið verið ritstjóri yfir ritun annarra. Byggðasögurnar eru: Eylenda: mannlíf í Flateyjarhreppi á Breiðafirði (útg. 1996), Kjalnesingar: ábúendur og saga Kjalarneshrepps frá 1890 (útg. 1998); Hrunamenn: ábúendur og saga Hrunamannahrepps frá 1890 (útg. 1999); Eyja- og Miklaholtshreppur: ábúendur og saga Eyja- og Miklaholtshrepps frá 1900 (útg. 2000) og Kolbeinsstaðahreppur: ábúendur og saga Kolbeinsstaðahrepps frá 1900 (útg. 2000).
 
 
 
 
 
 
 

Notalegir dagar, ný orð, prjón og dútl

Fr. DietrichUndanfarnir dagar hafa verið ósköp ljúfir. Þegar maður sefur á nóttunni eru dagarnir nefnilega ljúfir, svo ég tali nú ekki um ef maður fær sér middagsblund á daginn líka. Nú sé ég við dægursveiflu-leiðréttingarpillunum, sem virka óvart öfugt á mig og fokka gersamlega upp þeirri litlu dægurstillingu sem í mér býr, með öðrum pillum. Samviskulaust!

Gamla ráðið, að sofa úr sér þunglyndið eða ná a.m.k. smá leiðréttingu yfir í normal með svefni, er jafn gott og gilt og venjulega. Að vísu verður manni kannski ekki mikið úr verki en á hinn bóginn verður manni enn minna úr verki svefnvana.

[Myndin sýnir hina sallarólegu Fr. Dietrich í venjubundinni stellingu ofan á sænginni minni. Mætti margt af henni læra, t.d. æðruleysið sem m.a. felst í því að sofa svona 23 tíma á sólarhring ef páskahret eða veður vott er úti.]

Aukaverkun af aðallyfinu er að ég þoli illa sykur og langar ekki í sykur. Það er slæmt upp á holdafar en gott fyrir hina á heimilinu sem fengu gefins stærstan hluta af páskaegginu mínu 🙂

Blessunarlega hefur veðrið einmitt verið þannig að ég þarf síður en venjulega að koma mér upp samviskubiti yfir að vera inniklessa og frábitin hollum göngutúrum. Svoleiðis að ég hef getað dútlað við hitt og þetta, aðallega samt hangið í tölvunni og reyndar eytt talsverðum tíma í að reyna að fatta hvernig sögu sögu Akraness er varið. Flækjustigið hækkar eftir því sem fleiri fundargerðir eru lesnar. Samt eru mál sögð “í farvegi” öðru hvoru og gladdi mig að sjá þessa gömlu klisju sem ég heyrði svo oft á sínum tíma brúkaða af stjórnendum að mér rann orðið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar orðskrípið bar á góma einn ganginn enn, í denn. En það er svo langt síðan að þegar ég rakst á klisjuna núna var það næstum eins og að rekast á gamlan kunningja – eins og þegar einhver segir “Olræt” (sem minnir mig reyndar alltaf óvart á aumingja Súsönnu “olræt”, flak sem hugsanlega má enn sjá af Höfðanum á Raufarhöfn) eða nefnir blessaðan stakkinn sem allir voru að skera fyrir svona þremur áratugum eða hvaða aðra útjöskuðu slettuna sem hvarf aftur úr málinu.

Svo hafa rekið ný orð á fjörur mínar, t.d.  nýtt hugtak í dag, Makedóníuheilkennið, sem einmitt skýrði prýðilega annars illskiljanlegar klisjur í fundargerðunum sem ég var að lesa, svo ég tali nú ekki um þann eina fund sem ég hlustaði á (endaði með eyrnafíkjur því ekki er tæknin á hljóðritun bæjarstjórnarfunda upp á marga fiska og vonlaust að hlusta á beint úr tölvunni). Lærði svo annað flott orð í fyrradag, sumsé íslensku hljóðlíkinguna “nef-pot-ismi” fyrir nepotisma. Finnst það ná merkingunni glettilega vel. Og komst að því að Jóni Trausta fannst Akranes fegursta “sjóþorpið” á Íslandi (en sama sinnis voru nú ekki Eyrbekkingar um sitt sjóþorp, notandi þó fyrstir orðið, upp úr 1850). Gaman að sagnaritari Akraness skuli pikka upp norðurþingeyskt orðalag (eða eyrbekkst) og gera að sínu og mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar.

(Algerlega utan við þetta er áhugavert nýmæli sem rætt er á FB, ekki á mínum þræði samt, þar sem tveimur snjöllum mönnum hefur tekist að rökstyðja ansi vel að Kryztur skuli skrifast bæði með y og z. Pottþétt rök fylgja, a.m.k. frá sjónarhóli öryrkja og alþýðupíku, en ég veit ekki alveg hvort starfandi íslenskukennarar féllust á þessi góðu rök.) 

Ég segi ekki að Saga Sögu Akraness sé jafnspennandi og siðblinda eða handprjónaðir biskupsglófar á miðöldum en hún er meira spennandi en Furðustrandir Arnaldar svo það má svo sem vel una sér við að greiða úr flækjum og reyna að greina hvernig eitt leiðir af öðru og þræðir hanga saman … enda hef ég ákveðið að fara jafnvel á skjalasafn einsog alvöru fræðimaður til að skoða uppfitina og fyrstu þræði. Að vísu er skjalasafnið á bókasafninu, sem er sjálfsagt ekki nema svona 50 – 100 m í burtu en samt: Ég hef aldrei farið á skjalasafnið áður.

Talandi um uppfit þá lauk ég loksins í kvöld við sokkapar sem á að passa við legghlífar sem ég prjónaði fyrir talsverðu (til að passa við kjól og ég er alltaf að drepast úr kulda svo svellþykkar sokkabuxur duga illa). Ég sá nefnilega í hendi mér að legghlífar + lausir sokkar væru miklu sniðugri en háleistar einir saman. Í ljós kom að teygjan í alpakkagarninu var eitthvað léleg og legghlífarnar héldust bara almennilega uppi (á miðju læri) væru þær nýþvegnar og teygðar … og ég með eilífar kálfslappir fyrir vikið. En nú hef ég komið því í verk að prjóna ofan á langa stroffið með færri lykkjum og á fínni prjóna og viðbótin nýtist prýðilega sem sokkabönd. Svo nú get ég gengið í kjól, útprjónuðum legghlífum sem líta út eins og háleistar en samt komist í háhæluð þröng stígvél (sem aldrei gengi ef sokkarnir væru líka prjónaðir) og innanhúss bruggðið mér í lág-inni-sokka í stíl.

Þessu prjónelsi hefur fylgt sjónvarpsgláp og má þakka Ben Húr fyrir megnið. Lokahnykkurinn var svo ágæt mynd á RÚV í kvöld og reyndar lét ég mig hafa það að hlusta með öðru eyranu á sænska Júróvissjónbesserwissera í korter af því ég var að ganga frá endum og mátti ekki vera að því að skipta um stöð.

Eiginlega fór ég bara inn á bloggið til að hreinsa út óværu (þurfti að kæfa spam sem rignir inn þessa dagana) svo þetta er illa ígrunduð (svo orðað fyrir menntavísindafólk) og óskipuleg (svo orðað fyrir fræðimenn halla undir númerakerfi) færsla.

Sem sagt: Mín bíða spennandi framtíðarverkefni, á borð við fyrstu ferð á skjalasafn og nálastungur á morgun, deit við Djáknann á Myrká fljótlega (sé ekki ástæðu til að skýra þetta nánar) og svo ætti ég nú að fara að drífa í að segja upp stöðunni minni og jafnvel huga að uppboði á kennslugögnum eða stórhendingum og tiltekt uppi í skóla. Skítt með tiltektina en visst vesen fylgir uppsögn, starfslokatilkynningu og biðlaunum sem ég verð þá að þiggja og fokkar upp örorkulífeyrinum á meðan o.s.fr.

   

Upplyfting Uppheima og meira um „stórvirkið“ Sögu Akraness

Svei mér ef ég get ekki sett upp enn einn greinaflokkinn – a.m.k. er ég staðráðin í að skrifa Sögu Sögu Akraness, sem er stórmerkileg, að mínu mati erkidæmi um neópótisma (sem hefur verið nefndur klíkuskapur á alþýðlegri íslensku), algeran skort á samviskubiti eða eftirsjá þótt ritun hafi dregist von úr viti og fé ausið óþrjótandi í hítina og ýmsum öðrum heillandi þáttum.

En þessi færsla er sprottin af auglýsingu útgáfufyrirtækisins Uppheima í dag: Þeir splæstu í opnu í Póstinum (vikulegum auglýsingasnepli okkar Skagamanna) og tilkynna útgáfu tveggja binda Sögu Akraness þann 19. maí (og eru með forsölutilboð, svo ég auglýsi nú fyrir hið góða útgáfufyrirtæki, í þessari færslu). Í auglýsingunni eru ekki spöruð stóru orðin! Má nefna að ritið er bæði kallað SANNKALLAÐ STÓRVIRKI og Fjársjóður öllum Akurnesingum og áhugafólki um sögu Íslands.

Fyrsta klausan segir: Þetta tímamótaverk er ótæmandi brunnur upplýsinga og fróðleiks um hvaðeina sem snertir sögu Akraness og varpar jafnfram nýju ljósi á uppruna fólks í landnámi Bresasona. (Pósturinn, miðvikudaginn 20. apríl 2011, 16. tbl., 14. árg., miðopna.)

Lewis drottninginÉg varð paff yfir að lesa enn einu sinni þessa staðhæfingu um nýja ljósið á landnámsmenn. Reikna með að þarna sé vísað í söguritara sem segir um þær rannsóknir sínar: Í þessu samhengi finnst mér tengingin við Suðureyjar afskaplega forvitnileg, bæði vegna Akraness og nálægra byggða beggja vegna Hvalfjarðar. Skýrt dæmi er hin nána samsvörun örnefna á eyjunni Lewis, eða Ljóðhúsum, við örnefni á svæðinu frá Mosfellssveit að Hafnarfjalli. … Af þessari samsvörun og ýmsu öðru finnst mér að megi draga þá ályktun að frumbyggjarnir hér um slóðir hafi komið frá þessu norræna-gelíska menningarsvæði og flutt með sér örnefni af heimaslóð líkt og þeir Íslendingar gerðu sem fluttust til Vesturheims undir lok 19. aldar. (Þórhallur Ásmundsson. Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Viðtal við Gunnlaug Haraldsson. Skessuhornið 15. tbl. 14. árg.  miðvikudaginn 13. apríl 2011, s. 15. Feitletrun mín.) 

[Myndin sýnir áhyggjufulla drottninguna úr hinum frægu Lewis-taflmönnum.]

Þetta er vissulega áhugavert efni en því fer fjarri að Gunnlaugur hafi uppgötvað nokkurn skapaðan hlut í þessu efni hvað þá að þarna sé varpað nýju ljósi á uppruna fólks í landnámi Bresasona. Ég reikna með að hann vísi rækilega í heimildir sínar í ritinu en það gerir hann ekki í viðtalinu heldur má nánast skilja sem svo að þetta hafi hann uppgötvað sjálfur. Sama gildir um auglýsingu Uppheima; hún er í skásta falli hártogað sannleikskorn nema svo vilji til að einhverjar tímamótauppgötvanir aðrar leynist í bókinni (sem ég hef vitaskuld ekki barið augum fremur en aðrir Skagamenn).

Árið 1955 benti Hermann Pálsson á það í bók sinni Söngvar frá Suðureyjum, s. 14, að í Ljóðhúsum sé Esjufjall og þar skammt frá Kjós, eins og á Íslandi. Hann nefnir einnig að í Kjós sé Laxá og bendir á að flestar víkur og vogar beri norræn heiti og nefnir þar á meðal Sandvík og Leirvog. [Hermann er að tala um Lewis, oft nefnd Ljóðhús í íslenskum heimildum en heitir Leòdhas á gelísku sem talið er þýða mýrlendi. Lewis er hluti af Lewis-Harris, sem er stærsta eyjan í Suðureyjaklasanum.]

Þetta tekur Helgi Guðmundsson upp í bók sinni Um Kjalnesinga sögu. Nokkrar athuganir, s. 109 (Studia Islandica 26, útg. 1967) og segir: Það má gera ráð fyrir að landnámsmenn hafi að einhverju leyti flutt með sér örnefni úr heimahögum sínum. Hann bendir svo á vandamálið að um leið og norrænir menn náðu yfirráðum yfir Lewis var gelíska tekin upp (áður var töluð péttneska á eyjunum, sem menn telja að hafi verið keltneskt tungumál, e.t.v. skylt bretónsku og welsku, en gelíska er aftur á móti önnur grein keltneskra tungumála) og því séu norræn örnefni nú mörg í gelískri mynd á Lewis. Helgi telur svo upp fjölda örnefna í 20 km loftlínu sem endurspeglast nánast í sömu mynd og sömu fjarlægðarhlutföllum frá Hafnarfjalli til Mosfellssveitar. Hann bendir á að mörg örnefnin séu ekki sjaldgæf en örnefnaraðirnar eru athyglisverðar og geta stutt það, að Landnáma fari rétt með uppruna landnámsmanna á þessum slóðum. (s. 110) Það er dálítið athyglisvert að bera þetta saman við orð Gunnlaugs í viðtalinu í Skessuhorninu, svo ekki sé meira sagt.

Helgi hefur svo fjallað nánar um þetta í bókinni Um haf innan. Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. (Háskólaútgáfan, 1997) og segir á s. 194: Af þessu verður kannski ekki dregin önnur ályktun en sú að örnefnin hafi verið gefin á svipuðum tíma á báðum stöðum. Það passar ágætlega við þá kenningu að norrænir menn hafi lagt undir sig Lewis á 9. öld og haft með sér gelíska þræla; bæði norrænan og gelískan hafi nánast strax útrýmt péttnesku (eða öllu heldur Péttunum kálað) og menn hafi jafnvel almennt verið tvítyngdir á norrænu og gelísku. Úr því péttnesku heitin voru ekki lengur til þurftu norrænu ribbaldarnir að gefa landslaginu ný nöfn og gelísku þrælarnir gerðu eins. Svo flutti slatti af norrænu ribböldunum annað, t.d. til Íslands, og tóku kannski með sér nokkra gelíska þræla eða ambáttir til karnaðar sér, jafnvel eiginkonur. Lewis hélst aftur á móti undir Noregskonungi til ársins 1266.

Bæði Helgi Guðmundsson og Hermann Pálsson hafa fjallað ítarlega um örnefni og uppruna vestrænna landnámsmanna, sjá bók Helga sem minnst var á í fyrri málsgrein og bók Hermanns, Keltar á Íslandi (Háskólaútgáfan, 1996). Báðir hafa vakið athygli á hve litlar upplýsingar eru um landnámsmenn Akraness og hve mikill munur er á á lýsingu Sturlubókar og Hauksbókar Landnámu, sem eru aðalheimildir fyrir því.

Í Sturlubók segir: Bræður tveir námu Akranes allt á milli Kalmansár og Aurriðaár; hét annar Þormóður; hann átti land fyrir sunnan Reyni og bjó að Hólmi. Ketill átti Akranes fyrir vestan og fyrir norðan Akrafell til Aurriðaár. Hans son var Jörundur hinn kristni, er bjó í Görðum; þar hét þá Jörundarholt.   

Innri HólmurÍ Hauksbók segir aftur á móti á þessa leið: Þormóður hinn gamli og Ketill Bresasynir fóru af Írlandi til Íslands … þeir voru írskir. Kalman var og írskur … [Í Sturlubók er Kalman ekki tengdur við Bresasyni en sagt á öðrum stað Maður hét Kalmar suðureyskur að ætt. Raunar segir á samsvarandi stað í Hauksbók: Maður hét Kalman suðureyskur.

Í Hauksbók er troðið inn sem víðast írskum uppruna enda taldi Haukur lögmaður sem lét skrifa bókina að hann væri sjálfur af írskum konungsættum. Sagnir um að Ásólfur alskik, sem bjó m.a. í Innra-Hólmi og var barnabarn Ketils Bresasonar, hafi verið írskur og um hans írskættuðu kraftaverk (helgisagnir) eru í útgáfu Hauks. Sömuleiðis upplýsingar um að kirkjan á Innra-Hólmi hafi verið helguð Kólumkilla, St Columba, þjóðardýrlingi Íra (sem kristnaði reyndar Suðureyjar fyrir daga norrænna íbúa þeirra). Þetta er ágætlega rakið bæði í bók Helga Guðmundssonar, Um haf innan, og í bók Hermanns Pálssonar, Keltar á Íslandi, og báðir byggja mjög á rannsóknum Jóns Jóhannessonar á Landnámu. Um helstu handrit Landnámu má lesa á Vísindavef.  Loks má geta þess að Hermann Pálsson staðhæfir að þar sem landnámsmenn voru taldir írskir hafi kristni lítt haldist eftir landnám en miklu fremur þar sem landnámsmenn voru taldir suðureyskir. Væri gaman að vita hversu sterk kristnin reyndist í landnámi Bresasona, sem gæti gefið frekari vísbendingar um uppruna landnámsmanna 🙂

Hugsanlega hefur Gunnlaugur söguritari fundið einhver fleiri örnefni sem styðja suðureysku speglunarörnefnakenninguna. Ég vona það því þessi fræði má rekja meir en hálfa öld aftur í tímann og geta því alls ekki borið uppi nýja auglýsta ljósið Uppheima. Tiltölulega nýlega hafa menn haldið á lofti nýrri kenningu um nafnið á Skilmannahreppi, sumsé að þar sé suðureyska árheitið Sheil grunnurinn. Reyndar er þetta ekki talið gelískt orð heldur eitt af örfáum péttneskum orðum sem varðveist hafa á Suðureyjum, m.a. á Lewis. Og um er að ræða ágiskun og ég hef aldrei heyrt rökin fyrir kenningunni um Skilmannahrepp, einungis að þau þyki heldur hæpin. En þessi kenning er a.m.k. tiltölulega ný af nálinni – ekki hálfrar aldar gömul.

Ég á enn eftir að muna hvar ég hef séð kortið sem Gunnlaugur hefur látið teikna upp á nýtt í bókina sína, sem sýnir samsvörun örnefnanna sem Helgi Guðmundsson og Hermann Pálsson hafa marg-fjallað um (og fleiri – ég mátti bara ekkert vera að því að lúsleita í bókasafninu í dag heldur greip það sem hendi var næst). Hugsanlega er kortið komið úr einhverri af bókum Magnúsar Magnússonar … hugsanlega rifjast upp fyrir mér hvar ég sá kortið og hugsanlega getur einhver lesandi upplýst málið.

Af því sem ofan hefur verið rakið er ljóst að kenning um suðureyska landnámsmenn á Akranesi og í nágrenni er hundgömul og vel þekkt. Hún hefur einnig verið vel rökstudd af virtum fræðimönnum.

Írskir dagarHvaðan kemur þá þessi mikla áhersla á að landnám hér hafi verið írskt og við skulum halda upp á írska daga á sumrin og Skagamenn þáðu minnismerki frá Írum, til minningar um írskt landnám? Sú hugmynd styðst eingöngu við Hauksbók Landnámu sem fyrir lifandis löngu var bent á að væri heldur hlutdræg þegar kæmi að Írum!

En henni hefur verið haldið mjög á lofti hér á Skaganum, t.d. í þessari klausu sem er á vef Akraneskaupstaðar undir yfirskriftinni Nánar um hina Írsku [svo] arfleifð: Írar námu land á Akranesi og í bókinni Akranes – saga og samtíð er þennan texta að finna: Litlu eftir 880 komu af Írlandi tveir bræður, þá talsvert fullorðnir, ásamt uppkomnum börnum og öðru fólki. Eiginkvenna þeirra er eigi getið. Þessir bræður voru Þormóður og Ketill Bresasynir, bornir og barnfæddir á Írlandi, en af norskum ættum. Bresasynir námu Akranes allt, Þormóður sunnan Akrafjalls og Ketill norðan. …  Og hver skyldi hafa skrifað textann í þessari 23 síðna ljósmyndabók, sem heitir reyndar Akranes: saga og samtíð og kom út 1998? Enginn annar en okkar góði söguritari, Gunnlaugur Haraldsson.

Meira að segja Jón Böðvarsson, sem ekki þótti þó skila góðu verki, skrifaði í sína útgáfu af sögu Akraness að það væri alls ekkert víst að Bresasynir væru írskir, þeir hefðu líklegast komið frá norrænu-gelísku svæði og svo telur hann nokkra möguleika, þ.á.m. Suðureyjar, Orkneyjar og Skotland. Svoleiðis að nútímaþjóðsagan um að Ketill og Þormóður hafi verið bornir og barnfæddir á Írlandi verður ekki rakin til hans og þá ekki heldur ferðamannahúllumhæið Írskir dagar. Sem hljóta að breytast í Suðureyska daga eftir að Stórvirkið birtist og þá getum við látið unglingana okkar leika Þórgunnu, Hrapp og Þjóstólf, í stað grænna írskra álfa og veifað máttugri hlutum en grænum og appelsínugulum blöðrum 😉

Þetta er orðin svo löng færsla að ég geymi mér umfjöllun um staðhæfinguna geymir yfirgripsmikla og þaulunna lýsingu á samfélagi bænda og sjómanna á átakatímum, þegar sjóþorpið Akranes byggðist upp (tilv. í fyrrnefnda auglýsingu Uppheima), þótt ég hafi verið búin að finna nokkur ansi skemmtileg dæmi um orðið sjóþorp (sem er sem sagt ekki nýyrði sem Gunnlaugur hefur fundið upp, eins og mér var sagt í dag). Sú færsla býður líka upp á spennandi tengingu við skólamál, sem er jú alltaf jafngaman að fjalla um.  

Og Saga Sögu Akraness er kapítuli útaf fyrir sig. Reyni að gera henni nokkur skil fljótlega. Biskupsglófar og útprjónaðar svissneskar dýrlingaskjóður frá miðöldum verða að bíða um stund.

  

Facebook, goðsagnir og notkun

Ég hef undanfarið lesið bloggið hennar Evu Haukdsdóttur, Sápuóperu, mér til mikillar ánægju. Því fer fjarri að ég sé alltaf sammála henni en hún skrifar ákaflega góðan texta  og skoðar oftast mál frá ýmsum hliðum. Síðustu tvær færslur Evu fjalla um Facebook, annars vegar “Þú ert með nauðgara á vinalistanum þínum” og hins vegar “Er facebook að gera okkur sjálfhverfari?” Í þeirri síðarnefndu vísar hún í höfundarlausan pistil á Róstrum, “Tengsl milli sjálfsdýrkunar og Facebook-notkunar“. Loks sá ég að Sölvi Tryggvason rær á sömu mið enda heldur hann sig auðvitað í þeim umræðuefnum sem hann telur í tísku hverju sinni, í pistlinum “Fall Fésbókar” í dag en Sölvi stenst náttúrlega engan veginn samanburð við Evu og er í rauninni óþarfi að lesa þá stuttu bullfærslu. Hún minnir mjög á bölsýnisraddir um að internetið væri bara bóla og í versta falli til óþurftar, sem heyrðust víða laust fyrir 1990, hér á landi. Kannski eru orð gömlu frúarinnar í Downtown Abbey (var að horfa á síðasta þáttinn á danska, í dag): “Fyrst kemur rafmagnið, svo sími; Mér finnst ég vera persóna í skáldsögu eftir H.G. Wells!” dálítið lýsandi fyrir viðhorf Sölva,  fyrrum andstæðinga internetsins og bænda þegar leggja átti símalínur forðum. 

Hundur á FBSvo við byrjum á Róstur-greininni þá hefst hún svona: “Facebook-notendur eru almennt úthverfari og uppfullari af sjálfsást en þeir sem ekki nota síðuna samkvæmt rannsókn sem gerð var í Ástralíu, en niðurstöður hennar voru gerðar opinberar í tímaritinu Computers in Human Behavior nú á dögunum.” Málfarið gefur strax tóninn um gæði greinarinnar (þótt ég sé ekki málfarsfasisti að upplagi þá þekki ég orðið unglingaþýðingar hvort sem Pjattrófurnar eða aðrir standa að þeim). Önnur gullkorn fylgja fljótlega: “Spurningar snéru að þáttum á borð við úthverfu, geðfeldni, vandvirkni, taugaveiklunar og opins huga gagnvart því að upplifa nýja reynslu. Einnig tilhneigingar til sjálfsdýrkunar, feimni, einmannaleika, og að lokum því sem einkenndi Facebook-notkun hvers og eins.”

Ég kíkti á rannsóknina sjálfa, “Who uses Facebook? An investigation into the relationship between the Big Five, shyness, narcissims, loneliness, and Facebook usage” og sá að greinarhöfundur Róstra var ekki bara illa máli farinn í sínu móðurmáli heldur illa fær um að skilja enskan texta því það sem eftir er haft er sumt rangt og sumt oftúlkað. T.d. eru höfundarnir ekki prófessorar heldur önnur dósent og hin nemandi. Og þetta er ekki einstæð rannsókn af því flestar svona rannsóknir hafi verið unnar af háskólanemum áður heldur vegna þess að notendahópar sem hafa verið rannsakaðir hafa oftast verið háskólanemar. Í þessari rannsókn var hluti úrtaksins utan háskóla og eldra fólk en háskólanemar (í hópunum var fólk á aldrinum 18-44 ára).

Niðurstöður rannsakenda eru varlega orðaðar, bent er á að úrtakið hafi verið afar lítið og að val þátttakenda kunni að hafa verið mislukkað; jafnvel hafi menn logið til að komast að í rannsókninni. Jafnframt sé hætta á að vægi þeirra sem nota internetið sérstaklega mikið hafi verið of hátt í rannsókninni því allir þátttakendur voru valdir af netinu. Að vísu kom fram að þeir sem hafa sérstaklega sterka sjálfsdýrkunarpersónuleikadrætti nota FB umfram aðra en bent var á að þeir þekkust vel úr af því að þeir leggi ofuráherslu á myndbirtingar. Feimið fólk reyndist ekki nota FB meir en hver annar en fólk sem skoraði hátt á hugsýkiskvarða (höfundur í Róstrum kallar það taugaveiklað) skoðaði FB meir en aðrir, oft án beinnar þátttöku á FB. Einsemd meðal þeirra sem ekki notuðu FB mældist meiri en einsemd þeirra sem notuðu FB. O.s.fr. Það sem einkum stingur í augu í þessari rannsókn sem sýndi “sláandi niðurstöður”, að mati Róstrapennans, er að úrtakið var einungis 1158 FB-notendur og 166 manns sem ekki notuðu FB. Leikmaður eins og ég setur stórt spurningarmerki við fámennið, einkum í samanburðarhópnum, og spyr hvort þetta geti mögulega talist marktæk rannsókn.

Ég hef samt litlar áhyggjur af unglingunum sem lepja vitlaust upp rannsóknarniðurstöður og greina ekki milli vel og illa unninna rannsókna því hver les svo sem Róstur?

Eva Hauksdóttir veltir upp mörgum spurningum í sambandi við þessa grein og vitnar í eigin FB, þar sem henni gengur illa að finna áberandi sjálfsdýrkendur eða “taugaveiklað” lið. Ég hugsa að ég myndi lenda í sömu vandræðum. Aftur á móti nota ég sjálf FB mikið vegna einangrunar og pappírslega séð fell ég undir “taugaveiklaða” fólkið (vegna sjúkdómsins þunglyndis) þótt ég telji mig fremur úthverfan persónuleika að öllu jöfnu (vonandi samt ekki með sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun). Augljóslega notar fólk sem ekki kemst út úr húsi dögum, vikum eða mánuðum saman þau verkfæri sem bjóðast til að eiga samskipti við fólk. Auk þess á ég oft erfitt með tal, sérstaklega í síma, þegar ég er mikið lasin.

Hundur á kattalistaHin færslan hennar Evu, “Þú ert með nauðgara á vinalistanum þínum” fannst mér enn betri. Þar er annars vegar fjallað um vinalista – hins vegar hið áhugaverða sjónarmið að suma glæpi megi fyrirgefa eða a.m.k. líta fram hjá (sýna miskunnsemi) eftir að afplánun lýkur en aðrir fyrnist aldrei í huga fólks. Ég er mjög sammála umfjöllun Evu en finnst þó að hún gleymi ákveðnum hluta fólks, cyberpaths, þ.e. siðblindum, sem eignast hafa víðar veiðilendur með tilkomu samskiptasíðna á netinu, ekki hvað síst FB.

Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að hafa kynferðisafbrotamann eða ofbeldismann á mínum vinalista ef ég er viss um að viðkomandi hefur iðrast og afplánað og sé ólíklegur til að endurtaka leikinn. Oft stafar glæpurinn af stjórnleysi sem fylgir fylleríi eða vímuefnamisnotkun, eins og Eva bendir á, og fyllibyttur geta orðið ágætis manneskjur þegar þær verða edrú og ná tökum á lífi sínu.

Öðru máli gegnir um siðblinda. Ég kæri mig ekki um að skaffa álitlegan vinkonulista sem svoleiðis menn geta notað til að húkka næsta fórnarlamb. Eini kosturinn við siðblinda er að þeir eru svo fáir, um eða innan við 1% af körlum, miklu færri konur og þótt þeir svífist einskis er auðvelt að sjá við þeim þekki maður einkennin, því trixin eru þau sömu og aðferðir afar fyrirsjáanlegar. Gallinn er sá að af því svo lítið hefur verið talað um þessa alvarlegu geðröskun hér á landi vara sennilega fáir / fáar konur sig á manngerðinni.

Illgirni á FBTalandi um vini: Ég hef þá stefnu að halda í tiltölulega fáa vini (talan 99 er óskatala). Um daginn tók ég til og eyddi uppundir 40 manns af listanum. Þetta var fólk af ýmsu tagi, t.d. fólk sem ég þekkti lítið sem ekkert og hafði aldrei nein samskipti við, fólk sem var að drekkja mér í rósum og leikföngum og öðru FB-drasli, fólk sem skrifaði ótal statusa á dag um æseif eða hneykslisfærslur um hvað þessi eða hinn stjórnmálamaðurinn, leiðtoginn, verkalýðsforinginn eða bara einhver í fréttum þann daginn væri heimskur, spilltur o.s.fr., þ.e. fólk sem virtist hafa einstaklega neikvæða sýn á lífið og vera afar upptekið af því að hneykslast á öðrum. Síðarnefnda hópnum fylgdi síðan iðulega dræsa af kommenterum sem stundum fóru langt langt yfir strikið í skikkanlegri framkomu. Ég hugsaði með mér að ef ég sæktist eftir svonalöguðu gæti ég náttúrlega alveg eins legið yfir fésbókarkommentum við DV “fréttir”, moggabloggum um fréttir eða skítkast kommentera á Eyjunni. Eða lesið DV-blogg. Og af því ég sækist ekki eftir illmælgi sérstaklega þá kastaði ég þessum vinum fyrir róða. Það þýðir hins vegar ekki að það megi ekki minnast á pólitík svo ég sjái á minni FB. Það sem skiptir máli er hvernig það er gert.

Ég var orðin hundleið á að skruna kannski meir en skjáfylli niður fésbókina mína á morgnana til að reyna að finna eitthvað sem mig langaði að lesa eða kommentera við, einhvers staðar innan um draslið. Svo það var grisjað.

Ég hélt eftir fjölbreyttum hópi FB-vina; ættingjum, góðum vinum, fyndnu fólki, fólki sem mér finnst ég eiga eitthvað sameiginlegt með, fólki sem mér finnst gaman að vera ósammála, fólki sem ég þekki í kjötheimum og fólki sem er einstaklega jákvætt og gleður mig oft með jákvæðri lífssýn þótt ég sé ekki sammála þeim um alla hluti. Fólkið sem ég á sitthvað sameiginlegt með er ekkert endilega fyndið, orðheppið eða jákvætt en það er nú vegna þess að margir þeirra hafa sinn djöful að draga. Það fólk er raunsætt og gefur mér mikið.

Ein fyrrum FB-vinkona mín (sem mér fannst sjálf oft skemmtileg en þessi kommenterahirð í kringum hana hefði gert dýrling að grátkonu eða púka!) benti á að maður gæti “falið” vini sem maður vildi ekki sjá stöðuuppfærslur frá. Þeir sem eiga yfir þúsund vini, jafnvel mörg þúsund, hljóta að grípa til einhverra svoleiðis ráða. Þetta að “fela” vini minnti mig svolítið á óhreinu börnin hennar Evu. Átti ég að eiga fullan fésbókarskáp af álfum? Mér finnst þetta dálítið óheiðarleg aðferð en sjálfsagt eru margir ósammála mér um það.

En hver sníður sína FB að sínum þörfum. Það þýðir ekkert að vera að væla yfir hvernig FB er, hvort þar séu aðallega sjálfhverfir, úthverfir sjálfsdýrkendur, taugaveiklað, einmana fólk eða að maður geti ekki losnað við fésbókina sína nema brjóta tölvuna. Það þýðir ekkert að væla yfir að maður eigi svo marga vini að aldrei sé neitt bitastætt að finna á fésbókinni manns. Það þýðir ekkert að pósta bréf út og suður til að tilkynna einhverju fólki að það geymi óæskilegan vin í sínu vinasafni. Það eina sem maður getur gert er að passa sína eigin FB, velja sér sína eigin vini og leyfa öðrum að lifa sínu FB lífi eins og hverjum og einum finnst réttast.

Alveg eins og maður passar sitt eigið blogg og sinn eigin tölvupóst. Af hverju ætti annað að gilda um Facebook?

“Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar”

Þetta er bein tilvitnun í opnuviðtal við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness, sem birtist í nýjasta Skessuhorni (13. apríl 2011). Ég hef hugsað mér að gera þessi orð að mínum en ekki að gera vinnulagið að mínu.

HöfrungurÍ rauninni er þetta ótrúlegt viðtal, svo ekki sé meira sagt! Eins og alþjóð veit er blaðsíðan í Sögu Akraness þyngdar sinnar virði í gjaldeyri, gott ef hún var ekki verðlögð á 10.000 kall síðast þegar ég vissi, miðað við hvað búið er að greiða söguritanda sem engu skilaði af sér fyrr en um miðjan janúar á þessu ári. Hann hóf verkið 1997 og enn hefur ekkert komið út, kemur þó fram í lok viðtals að bráðlega muni fyrri tvö bindin (af þremur) birtast í firnastóru broti”.

Sem sagt: Liðin eru 14 ár og það eina sem Skagamenn hafa séð eru firnamargar fundargerðir Ritnefndar Sögu Akraness (heitir í greininni sögunefnd Akraness) og núna mynd af söguritara með margar möppur í baksýn, sem ku fullar af dýrmætum ljósritum sem nýtast hafa (munu?) við söguritunina. … hátt í 200 bréfabindi … um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.” Ja, ég skal segja ykkur það! Úr dönsku!

Borið saman við simpla doktorsritgerð þá eru ætluð 3- 4 ár til að klára svoleiðis í Hugvísindadeild (t.d. er í sagnfræði- og heimspekideild  miðað við 3 ára vinnu en 4 ár í íslenskudeild), má sækja tvisvar um framlengingu í eitt ár ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Ég kíkti á tvær svoleiðis ritgerðir uppi í hillu, önnur er um 270 síður, hin tæpar 500 síður (sú er í heldur stærra broti en gerist og gengur). Hvorug er myndskreytt. Af heimildalista verður ekki betur séð en höfundarnir hafi verið duglegir að leita, pæla o.s.fr. á skjalasöfnum og þýtt úr talsvert fleiri málum en dönsku. Saga Akraness verður rúmlega 1100 síður og brotið eins og áður sagði firnastórt. En vonandi er talsvert af myndum á þessum síðum, a.m.k. ef einhver von á að verða til þess að ímyndaður lesandi komist í gegnum hana. Raunar hef ég aldrei skilið þegar fólk gumar af lengd sinna ritsmíða. Það er líklega afleiðing af margra ára kennsluferli þar sem kennari vann stöðugt að því að fá nemendur til að bulla minna, vera kjarnyrtari og halda sig við efnið í stað þess að einblína á síðufjölda. Eða afleiðing af vefsíðugerð í meir en 15 ár þar sem maður lærir þá gullnu reglu Less is more”. (Ekki að ég brjóti hana ekki hikstalaust ef því er að skipta … og álít að hún eigi ekki við um blogg af mínu tagi þótt hún eigi kannski eitthvað við vefina sem ég slæ.)

Það má því ætla að Saga Akraness verði ígildi svona fjögurra doktorsritgerða í efnisöflun og efnistökum, miðað við þá gífurlega vinnu sem höfundur tíundar í þessu viðtali.

Í viðtalinu er slegið upp kortum af Ljóðhúsum og Akranesi + Kjalarnesi og nánast látið að því liggja að höfundurinn hafi uppgötvað samsvaranir í örnefnum og dregið af því þá ályktun að þeir Bresasynir hafi komið af þeim slóðum. Um Ljóðhús segir að hún sé stærst hinna fjölmörgu eyja í klasanum vestur af Skotlandi”. Ég held að flestir hafi heyrt talað um Suðureyjar (a.m.k. þeir sem hafa verið nemendur mínir) og óþarfi sé að kalla þær klasann vestur af Skotlandi”. Þessi örnefnasamsvörun hefur verið þekkt lengi, í fljótu bragði man ég eftir Gísla Sigurðssyni og Helga Guðmundssyni sem hafa fjallað um þetta en líklega einnig Svavar Sigmundsson og eflaust fleiri. Svo þetta er nú ekki nein stórkostleg uppgötvun Gunnlaugs! Og ályktunin um uppruna landnámsmanna á Akranesi og Kjalarnesi hefur margoft komið fram einmitt í tengslum við samsvaranir örnefnanna. En kortið í Skessuhorninu er sérteiknað og sjálfsagt nýborgað og algerlega ólæsilegt svo kannski halda einhverjir lesendur að þetta séu glæný merkistíðindi.

Höfnin á AkranesiÉg veit ekki hvaða tilgangi viðtal á heilli opnu átti að þjóna. Aflát? Það hefur a.m.k. mistekist því viðtalið einkennist af gorgeir. Þeim sem hafa nasasjón af fræðilegum vinnubrögðum finnst það e.t.v. fyndið? En ég forhertist enn í þeirri skoðun að þetta rit skuli aldrei inn fyrir mínar dyr. Það er nóg að hafa þegar greitt sinn part í þessum 100 milljónum sem bærinn er búinn að spreða í verkið, með útsvarinu sínu. (Leiðréttið mig í kommenti ef talan er röng, hugsanlega hefur Jón Bö. fengið eitthvað af þessum peningum fyrir bindin af Sögu Akraness sem hann skrifaði ekki.) Mér er ekki kunnugt hvað bærinn hefur svo blætt í myndirnar sem væntanlega skreyta verkið eða hversu mikið hann borgar Uppheimum fyrir að gefa verkið út. (Uppheimamenn eru skynsamir og gera sér örugglega grein fyrir því að þessi bók selst ekki svo varla taka þeir fjárhagslega ábyrgð sjálfir.) Þeir Skagamenn sem ég hef heyrt tjá sig um framtakið eru fjúkandi reiðir yfir þessu gæluverkefni bæjarins(nema einn, sem var í ritnefndinni árum saman, gott ef ekki formaður á tímabili,  og hefur sjálfsagt átt sinn þátt í að skaffa Gunnlaugi þetta verkefni) og ég veit ekki um neinn sem gæti hugsað sér að kaupa þetta. En bæjarapparatið fær líklega  megnið af lagernum sem einstakar stofnanir geta svo spreðað í merkisafmælisgjafir eða aðrar merkisgjafir næstu hálfu öldina.

Nú er ég sjálf að skrifa sögu, ekki Skagans heldur prjóns. Svei mér ef ég þýði ekki af ensku, dönsku og þýsku við verkið og hugsanlega verð ég að droppa á skjalasafn þegar á líður, vona þó ekki því nokkrar framfarir hafa orðið í að gera gamalt íslenskt efni aðgengilegt á vefnum og miklu meiri framfarir í að gera álíka útlent efni aðgengilegt á sama stað. Ég hef safnað heimildum á aðskiljanlegum bókasöfnum en reyndar þurft að kaupa nokkrar bækur að utan því þær eru ekki til hér á landi.

Prjónaður riddariAf heilsufarsástæðum vinnst mér hægt. En tíminn sem mun taka að skrifa um sögu prjóns frá upphafi verður þó aðeins brotabrot af þeim tíma sem tók að skrifa sögu svæðisins hér og þeirra örreytiskota sem hér voru. Og kannski er aðalmunurinn sá að ég tek ekki krónu fyrir verkið, það verður öllum aðgengilegt og hvorki hægt að mæla í blaðsíðum né broti því það birtist á vef. En að sjálfsögðu mun ég hafa  það þýðir ekkert hér um bil …” að leiðarljósi þótt ég kunni betur við að orða það svo að vel skuli vanda það sem lengi á að standa eða maður verði sæll af verkum vel.

Prjónasöguvefurinn er í fæðingu – sjá http://this.is/harpa/saga_prjons/index.html. Athugasemdir eru vel þegnar.

  

OMG, skjaldarmerki og annað snakk

OMGSíðan ég hætti að skoða umræður um Æseif, vonda karla, góðar konur sem eru fótum troðnar í karlasamfélagi, Ómægod-hneykslunarblogg kerlinga af báðum kynjum, illa þjóðhöfðingja sem teljast réttdræpir (soldið mismunandi eftir bloggurum og effbéurum hverjir það nákvæmlega eru og sýnist reyndar sitt hverjum) og annað af sama tagi finn ég stóran mun á mér! Reyndar eru ekki nema rétt tveir sólarhringar sem ég hef staðið við þetta (hef oft ákveðið svona áður en dett alltaf “óvart” og “óforvarendis” í sorann) en það er greinilega gott fyrir sálina að slökkva á vælinu og úthúðuninni og hneyksluninni. 

Sumt blogg og sumir umræðuþræðir á FB minna mig samt skemmtilega mikið á ekta Raufarhafnarbúa (þ.m.t. skyldmenni) sem tala í ekta Raufarhafnartónfalli. Hef tekið eftir að ég les þau blogg ósjálfrátt (inni í mér) með slíkri norðlenskri syngjandi, þar sem málsgrein endar jafnvel áttund hærra, sem gerir hneykslun og skítkast miklu skemmtilegra. Kannski ég ætti að lesa þau upphátt? (Ef ég dett aftur í sorann …). Lesendum færslunnar er bent á að ég hef hvergi heyrt þetta tónfall og þessa ítónun nema á Raufarhöfn, heyrist t.d. ekki á ættingjum frá Kópaskeri, hvað þá þegar vestar dregur.

Mér finnst ég vera dálítið að hressast. Kannski er það ímyndun en það er þá ágætis ímyndun. Kannski virkar lyfið sem ég et núna (hef reyndar ekki mikla trú á því), kannski virka nálastungurnar, kannski er bara helvítis kastið að láta undan síga af eigin líffræðilegum ástæðum?

En ég sætti mig við það að gera allt óendanlega hægt og óendanlega lítið í einu. Þetta lærist. Núna er ég t.d. að dunda mér við að klippa runna í garðinum og tek einn runna á dag, það hentar prýðilega og ég næ örugglega að klippa fyrir maíbyrjun 🙂  Skipti helgarþrifum á þrjá daga (þegar ég var frísk, fyrir löngu, skveraði ég þeim af með annarri hendi á tveimur tímum), les pínulítið, skrifa pínulítið og geri yfirleitt allt í örskömmtum. Enda hef ég loksins fengið kort upp á að ég eigi að ör-yrkja. Það er miklu fínna að eiga svona kort heldur bara einhverja pappírsbleðla í möppu, skal ég segja ykkur. Og það er fínt að geta þó gert sitt lítið af hverju.

Sem stendur er ég aðallega að setja mig inn í tákn, byrja náttúrlega á að komast inn í kirkjuleg tákn enda hangir það saman við heimildaleit um biskupshanska og jafnvel biskupssokka. Ofan á það bættust svo litafræði um biskupshanska og kardínálahanska og jafnvel prestahanska frá því laust fyrir 1000 og frameftir. Í leiðinni tók ég eftir hvað þessir biskupar hafa verið ansi hlýlega klæddir, í hverju fatinu yfir öðru svo nútíma útivistarfræðingur hefði orðið hreykinn af! (Allir sem eitthvað hafa stundað göngur og fjallgöngur vita hvað er óskaplega mikilvægt að vera í mörgum spjörum hverri yfir annarri … þetta virðast kaþólskir biskupar hafa uppgötvað fyrir löngu enda eflaust skítkalt í kirkjum fyrr á tímum). Í dag fann ég mynd af biskupssokkum sem mér finnst dálítið hæpin – vissulega er þetta gamalt prjónles en ég á bágt með að trúa að kaþólskur biskup hafi látið sig hafa það að ganga með “Blessun Allah”, prjónað út með kúfísku letri um ökklann. Þótt islömsk blessunarorð hafi ekki truflað spænska konungaætt er kannski doldið annað mál með kirkjuna … en e.t.v. var biskupinn einföld og góð sál og hélt að þarna væri kominn smart munsturborði gerður með hinni spánnýju tækni?

Skjaldarmerki de la CerdaSkjaldamerki de la Cerda hvenærSvo ætlaði ég að teikna upp munstur af frægum “líksvæflum” (er ekki enn komin með tækniorðið á hreint en þessir tveir svæflar voru undir höfðum líka í kistu í steinþró …) en lenti í vandræðum því heimildum ber ekki saman um litina. Ég hef áttað mig á því að þessi lita-ágreiningur hlýtur að stafa af skjaldarmerki ættarinnar. Og nú er ég að reyna að finna út hvunær kastelíska konungsættin breytti úr rauðum ljónum yfir í fjólublá ljón. Svona getur áhuga á hannyrðum skaffað manni alls konar aukaáhugamál. 

Einhvern tíma var ég búin að setja mig svolítið inn í þessa ætt og datt þá í hin og þessi drömu sem ekki gefa Íslendingasögunum neitt eftir en því miður hef ég gleymt því mestöllu og þarf að endurlesa. 

Það hjálpaði reyndar svolítið til þegar mér datt í hug í dag að athuga hvað fleira hefði verið í steinþrónum og fann út að hann Fernando de la Cerda (dáinn 1275) var klæddur í ljómandi fínan ofinn kyrtil (eiginlega kaftan) munstraðan með skjaldarmerkinu, með perlusaumaðan hatt með bútum úr skjaldarmerkinu og perlusaumað belti með … giskið! En vefnaðurinn er voðalega upplitaður og sker svo sem ekki úr um hvort ljónin hafa einhvern tíma verið fjólublá eða rauð. Síðast þegar ég var að skoða þetta datt ég svo í forvera hans, Alfonso X af Kastelíu, sem var óskaplega merkilegur kóngur; þýddi stjörnufræði úr arabísku og einhverja heimspeki líka o.s.fr. … en kemur því miður ekki hannyrðum neitt við. Fernando de la Cerda var einhvers konar óekta barn, átti samt að taka við ríkinu en dó á besta aldri og varð aldrei kóngur. Þetta slekti var svo einhvern veginn skylt henni Elenor sem var móðir Ríkharðs ljónshjarta … og mig minnir að a.m.k. ein verulega vond kona hafi verið með í ættardrömunum.

Hvergi nokkurs staðar á hinum víða veraldarvef eða í bókum sem ég hef skoðað finn ég myndir af hönskunum Maföldu litlu, sem var holað í aðra steinþróna með hinum Fernandó-inum og öðrum svæflinum. Lýsing bendir til að þetta hafi verið ómerkilegir hvítir prjónaðir línhanskar og auk þess einstaklega illa farnir en það væri samt gaman að berja þá augum.  

Lífið er sem sagt skárra en verið hefur um langt skeið. Að vísu er ég kramaraumingi líkamlega og verð að leggja mig á daginn eins og litlu börnin. Og nætursvefn er alltaf jafn spennandi ófyrirsjáanlegur – sumar nætur eru OK, aðrar nætur ekki.

Fegursta tvíbanda silkiprjónið og vangaveltur um brugðið prjón

Saga prjóns I

Ath. að umfjöllun um þetta efni hefur verið færð á vef, sjá Sögu prjóns.

Ég ætlaði reyndar að halda beint áfram í fyrstu prjónuðu sokkana en snérist hugur og ákvað að gera grein fyrir tveimur merkilegum prjónabútum fyrst.

Richard Rutt telur í bók sinni The History of Hand Knitting langlíklegast að prjón sé upprunnið í hinu islamska Egyptalandi. Árið 641 náði Amr ibn al-As völdum í Egyptalandi og ríkti þar í umboði kalífans í Medína (sem hét Umar og var persónulegur vinur og ráðgjafi Múhameðs spámanns, þótt það komi prjónasögu kannski ekki mikið við). Amr ibn al-As gerði Fustat að höfuðborg ríkisins en þar er nú Kaíró.1

Silkiprjón Fritz IkléMunstur silkiprjón Fritz IkléÍ Fustat fannst prjónabútur sem komst í eigu Dr. Fritz Iklé (1877-1946) sem bjó í Basel í Sviss. Iklé átti stórt einkasafn austurlenskra muna, sérstaklega gott úrval af glervörum og austurlenskum ofnum mottum og teppum en einnig annan textíl. Þessi merkilegi prjónabútur er nú glataður en varðveist hefur góð lýsing á honum í Mary Thomas’s Knitting Book, útg. 1938, og svarthvít ljósmynd.

Búturinn var aðeins 6,5 cm breiður, prjónaður úr silki og prjónið afar fíngert, u.þ.b. 15 lykkjur á cm. Munstrið var dökk-vínrautt á gullnum bakgrunni og prjónið austrænt snúið prjón. Aðferðin er hefðbundið tvíbandaprjón sem sást vel á röngunni. Mary Thomas segir að munstrið hafi verið prjónað á hvolfi, þannig hafi lykkjurnar snúið, en litla ljósmyndin sem hún birtir í sinni bók snýr rétt. „Ekkert glæsilegra sýnishorn af tvíbanda silkiprjóni hefur fundist: Þetta ber af öllu enn þann dag í dag“, skrifar hún.2

Iklé aldursgreindi prjónlesið frá 7.-9. öld. Rutt bendir á að engar leifar af islömsku prjónlesi hafi verið taldar yngri en frá því um 1100 en auðvitað er ekki hægt að ganga úr skugga um hvort greining Iklé var rétt því stykkið er nú týnt og tröllum gefið.

Til hægri sést litla svarthvíta ljósmyndin sem bók Mary Thomas varðveitir. Til vinstri er lítil mynd af munstrinu, sé smellt á hana opnast miklu stærri mynd. Ég teiknaði munstrið upp eftir svarthvítri smágerðri munsturteikningu Richard Rutt á s. 33 í bók hans en reyndi að sýna litina rétta, miðað við lýsingu Mary Thomas.

Þótt menn hafi komist upp á lagið með að prjóna tvíbanda munstur fyrir um 900 árum, jafnvel fyrr, þá virðist nánast allt prjónles hafa verið prjónað í hring, þ.e.a.s. menn kunnu einungis að prjóna slétt prjón. Elstu dæmi um brugðnar lykkjur eru á sokkum Elenoru af Toledo, frá 1562 eða fáum árum fyrr. Á sokkunum hennar eru brugðnu lykkjurnar til skrauts. E.t.v. hafa menn komist upp á lag með að prjóna slétt og brugðið fram og til baka til prjóna hæl á sokk en engin sönnun þess hefur fundist. Frá því prjón varð til var því allt prjónles lengi vel rörlaga og ætti stykkið að vera flatt þurfti að klippa prjónlesið í sundur (líkt og menn gera við opnar lopapeysur nú á tímum). Yfirleitt sjást skil milli umferða vel á þeim stykkjum sem hafa varðveist en þau elstu eru reyndar flest sokkar. Ekki er vitað hve margir prjónar voru notaðir til að byrja með og ekki heldur hvers konar prjónar. Ýmislegt bendir til þess að þeir hafi haft króka á öðrum eða báðum endum, svipað því áhaldi sem nú er notað við tyrkneskt hekl og margir kannast við, en um það er þó ekkert vitað með vissu.

mynsturprjón � egypskum bútRutt nefnir samt dæmi af þremur bútum sem virðast hafa verið prjónaðir fram og til baka, sem þýðir þá auðvitað að kenningunni um að brugðið prjón sé miklu yngra en slétt er þar með kollvarpað eða hann geri ráð fyrir að menn hafi prjónað slétt fram og til baka. (Líkt og Kaffe Fassett hefur kynnt svo rækilega nú á tímum, í myndprjóni. Mig minnir að Fassett hafi sagst hafa lært aðferðina af júgóslavískum sveitakonum.) 

Dæmin sem Rutt nefnir eru tveir bútar í safni Carl Johann Lamm í Kulturhistoriska Museet í Lundi í Svíþjóð og einn bútur í Victoria & Albert safninu í London. Í The History of Hand Knitting er svarthvít mynd af öðrum bútnum í sænska safninu, á réttunni og röngunni. Sænsk-varðveittu prjónabútarnir eru í mörgum litum og prjónaðir úr ullargarni, með tvíbandaprjóni. En einnig eru íprjónuð munstur úr ólituðu bómullargarni. Á röngunni virðist að hvíta bómullargarnið sé notað í myndprjón (intarsia) en ekki tvíbandaprjón. Alveg eins er búturinn í safni Victoriu og Alberts, segir Rutt, hann er prjónaður með tvíbandaprjóni úr marglitu ullargarni en ólituð bómull einnig notuð og þeir hluta mynstursins prjónaðir með myndprjóni fram og til baka.3

Myndin er skönnuð úr bók Rutt og litla myndin krækir í miklu stærri mynd. Með því að rýna í stóru myndina af röngunni má skilja hvað Rutt á við.
 

Næst vind ég mér örugglega í islömsku sokkana 🙂 Og enn og aftur auglýsi ég eftir leiðréttingum á tækniorðaforða, t.d. íslenskun á „Cross Eastern Stitch“ og „intarsia“ þýði ég þetta rangt. Er til eitthvert íslenskt prjónaorðasafn?


 1 Rutt, Richard. 1989. The History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado,  s. 32-33. (Bókin kom fyrst út 1987.)

Sjá einnig „History of Muslim Egypt“ á Wikipedia hafi lesendur almennan sögulegan áhuga.
 

2 Thomas, Mary. Mary Thomas’s Knitting Book. Dover Publications, New York 1972, s. 19. (Bókin var fyrst gefin út af Hodder and Stoughton, Ltd., London 1938.)
 

3 Rutt, Richard. 1989, s. 36-39. Mér finnst þetta dálítið ótrúlegt því þetta þýðir að hefðbundið tvíbandaprjón er prjónað fram og til baka og mynsturprjón á stöku stað; Af hverju er ekki allt stykkið prjónað með mynsturprjóni? En ég þarf að verða mér út um litmynd sem til er af sambærilegu plaggi á V&A safninu til að sjá hvort þetta hafi verið praktísk aðferð því það ræðst auðvitað af því hversu símynstrað stykkið er.
 

Upphaf prjóns – Dura stykkin og koptísku sokkarnir

Saga prjóns I

Athugið að umfjöllun um þetta efni hefur nú verið flutt á vef, sjá Sögu prjóns

Ég stefni á að gera vef um sögu prjóns. Það gafst ágætlega að birta síðasta greinaflokk sem mun enda á vef (þennan um siðblindu) á bloggi, til að fá athugasemdir og ábendingar svo ég ætla að fara sömu leið með þetta umfjöllunarefni.

Undanfarna mánuði hef ég verið að viða að mér heimildum, sem er svo sem ekki áhlaupsverk hér uppi á Íslandi. En ég hef þó náð í þær tvær bækur sem teljast merkastar heimilda um prjónasögu, þ.e. bók Richard Rutt, A History of Handknitting (útg. 1987) og bók Irene Turnau, History of Knitting before Mass Production (útg. 1991). Þær eru aðalheimildir mínar en auk þess leita ég í aðrar bækur, greinar og vefsíður. Svo er bara að sjá hverju fram vindur.

Það er nokkuð á reiki hvað er talið upphaf prjóns. Þar veldur m.a. að sumir, einkum í eldri heimildum, vilja telja nálbragð/vattarsaum til prjónaskapar, þótt aðferðir við slíkt séu talsvert ólíkar prjóni. Almennt telja menn að prjón eins og við þekkjum það í dag hafi verið fundið upp í Mið-Austurlöndum, þ.e. löndum araba, jafnvel hugsanlega Austurlöndum. Elstu prjónastykkin eru oftast taldir egypskir sokkar en þeir eru augljóslega ekki byrjendaverk. Egyptaland var löngum suðupottur ýmissa þjóðarbrota og því ómögulegt að segja hvaðan tæknin gæti verið upprunnin.

Líklegt er að prjónakunnátta hafi borist til landanna við Miðjarðarhaf frá Mið-Austurlöndum enda mikil verslunarsamskipti þar á milli. Bein tengsl virðast milli egypsku sokkanna og spænskra svæfla enda er talið að Márar á Spáni hafi prjónað þá. Þessir spænsku svæflar voru löngum taldir elstu dæmi um prjón í Evrópu en Irene Turnau og fleiri hafa seinna borið það til baka og nefnt önnur dæmi. Fyrir þessu verður gerð grein síðar.
 
 

Bútarnir frá Dura Europos

Austrænt snúið prjónEðlilega varðveitist textíll fremur illa og þau fáu elstu stykki sem hafa fundist í fornleifauppgreftri víða um heim hafa varðveist vegna einstaklega heppilegra jarðvegsskilyrða eða  loftlags og flest hafa fundist í lokuðum gröfum. Oft hafa 3 tutlur sem fundust  í uppgreftri í Sýrlandi, í hinni fornu borg Dura Europos, verið taldar elsta varðveitta prjónlesið, frá 250 fyrir Krist, en bæði Richard Rutt og Irene Turnau eru sannfærð um að þessir bútar séu nálbrugðnir. Á öndverðum meiði er Nancy Bush sem, eins og fornleifafræðingar sem rannsakað hafa bútana, telur þá prjónaða með „Cross Eastern Stitch“ (Væri gott ef einhver gæti upplýst mig um íslenskt heiti þessarar aðferðar. Gæti hún kallast „austrænt snúið prjón“? Þess ber að geta að Elsa E. Guðjónsson telur að lengst af hafi tíðkast á Íslandi að prjóna brugðnar lykkjur á svipaðan hátt, reyndar „austrænt ósnúið prjón“, en ég veit ekki hvað hún kallar aðferðina á íslensku.)

Þessir bútar frá Dura eru nú varðveittir í safni Yale háskólans í Connecticut og má skoða myndir af þeim á síðu safnsins

Einnig héldu menn um tíma að tveir smábútar (um 2 cm á kant) sem fundust í gröf í Esch, í suðurhluta Hollands, væru prjónaðir enda fundust einnig tveir bronsprjónar (20 cm langir) í sérstöku boxi í gröfinni. Þessir bútar voru nær alveg eyðilagðir í rannsókn árið 1973 og verður sjálfsagt aldrei úr því skorið hvernig þeir voru unnir. En bæði Rutt og Turnau telja þá líklegast nálbrugðna og Rutt bendir á að bronsprjónarnir hefðu allt eins getað verið skartgripir, auk þess sem þeir voru alltof grófir til að hafa verið notaðir í hið hugsanlega hollenska prjónles.
 

Vattarsaumur eða nálbragð
 

Vötturinn frá ArnheiðarstöðumNálbragð hefur verið þekkt frá því a.m.k. 1000 f. Kr. og notað víða um heim. Hér á landi hefur fundist 10. aldar vettlingur gerður með nálbragði, á Arnheiðarstöðum í Fljótsdalshéraði. Myndin til hægri sýnir þennan fræga vött. Vilji menn fræðast meira um hann er bent á stutta grein eftir Margrethe Hald sem fjallar bæði um íslenska vöttinn og notkun nálbragðs víða um heim, „Vötturinn frá Arnheiðastöðum“ í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1949.

Til gamans má nefna að sumir telja sig sjá röndótta nálbrugðna sokka á nautabana einum á mínóskri fresku í Knossos, Krít. Sú freska er talin máluð um 1500 f. Kr. Nærmynd af nautabananum má sjá hér, á síðunni Caldendar House, 2. Into the Labyrinth.

Nálbragð hefur þann ótvíræða kost að það er mjög sterkt og raknar ekki upp. Ókosturinn er hins vegar sá að erfitt er að gera sæmilega teygjanlegar flíkur með nálbragði (kannski þess vegna sem menn hafa ekki brugðið nema rúmlega ökklaháa sokka) og einnig er þetta fremur seinleg aðferð, a.m.k. miðað við prjón.

Til að halda sig við hefð í prjónasögu byrja ég á umfjöllun um koptísku sokkana sem þó eru alls ekki prjónaðir heldur nálbrugðnir, skv. rannsókn Dorothy Burnham 1972 sem víða er vísað í, t.d. í bókum Rutt, Turnau og Nancy Bush. Til þess tíma héldu menn að sokkarnir væru prjónaðir með „austrænu snúnu prjóni“ eins og bútarnir frá Dura Europos.
 
 

Koptísku sokkarnir
 

kopt�skir vattarsaumaðir barnasokkarNokkur pör af svona sokkum fundust í gröfum í Egyptalandi og eru taldir frá 3.- 5. öld. Egyptaland þeirra tíma var suðupottur ýmissa þjóðarbrota. Frá því um 30. f. Kr. varð Egyptland rómverskt skattland. Samt sem áður var gríska stjórnsýslumál skattlandsins og latína náði aldrei góðri fótfestu. Markús guðspjallamaður boðaði kristni í Egyptalandi og stofnaði patríarkadæmi árið 33. e. Kr. í Alexandríu, sem nú er næst stærsta borg Egyptalands og var frá fyrstu tíð ein mikilvægasta hafnarborg landsins. Koptíska kirkjan er einmitt talin með elstu kirkjudeildum í heimi. Eftir að Rómaveldi klofnaði (árið 395) varð Egyptaland hluti af Austrómverska ríkinu (Býsanska ríkinu), allt til þess að arabar hertóku landið á 7. öld.

Með kristnum áhrifum komst á sú tíska að grafa lík fullklædd og vafin í sjöl og ábreiður, jafnvel hengi og veggteppi, í stað þess að gera úr þeim múmíur. Nýir greftrunarsiðir og hið þurra loftslag Egyptalands varð til þess að óvenju mikið af textíl hefur fundist frá 1.-6. öld.

Tungumálið koptíska, sem var runnið af forn-egypsku, var ríkjandi tungumál á 3.-5. öld og þaðan er nafn sokkanna dregið. Koptíska varð líka mál kirkjunnar og gríska stafrófið var notað til að skrifa koptíska texta. Þetta sýnir kannski vel hve áhrif Grikkja voru mikil en auk þeirra bjuggu Sýrlendingar, Assýringar, gyðingar, Rómverjar og alls kyns þjóðarbrot í Egyptalandi á tímum koptísku sokkanna. Svo það er næsta ómögulegt að giska á hvaðan aðferðin við sokkagerðina er upprunnin en grísk og persnesk áhrif eru oft nefnd.

Myndin að ofan til vinstri sýnir koptískan vattarsaumaðan / nálbrugðinn barnssokk. Hann er bersýnilega úr frekar grófu ullargarni. Sokkurinn fannst í Oxyrhyncus í Egyptalandi og er talinn frá því á 2. öld e. Kr. (Mér finnst líklegra að hann sé frá 3.-5. öld eins og aðrir svipaðir sokkar þótt heimildin, World Textiles. A Concise History segi annað.) Hann er nú varðveittur á safni háskólans í Manchester. Litla myndin krækir í stærri mynd af sokknum. Á undirsíðu bloggsins Sock It! er hægt að horfa á myndband sem sýnir aðferðina við nálbragðið og önnur undirsíða krækir í fjölda síðna með mismunandi útlistunum á hvernig skuli vinna slíka sokka (sjá krækjulista til hægri á þeirri síðu).    

Kopt�skir sokkarKoptísku sokkarnir hér til hægri eru fullorðinssokkar, nálbrugðnir úr ullarþræði og eru taldir frá 3.-5. öld. Sokkarnir eru tásokkar að því leyti að hlutinn fyrir stórutá er brugðinn sér og hlutinn fyrir hinar tærnar sér. Þetta skýrist af því að Egyptar gengu í sandölum. Flestir telja að þeir séu nálbrugðnir frá tám og upp. Þannig voru líka elstu sokkar prjónaðir.

Myndin er af sokkapari sem er varðveitt á safni Viktoríu og Alberts, í London. Litla myndin krækir í risastóra mynd þar sem sjá má hverja lykkju mætavel. Myndirnar eru birtar með leyfi safnsins.
 

Í færslunni „Life of a Coptic sock“ er gerð grein fyrir fundarstöðum nokkurra koptískra sokka, og gerð þeirra. Og uppskrift að koptískum sokki með smávegis útskýringum á nálbragði má finna hér.
 

Japanskir tabi sokkarÍ rauninni er sniðið á koptísku sokkunum nauðalíkt japönskum tabi sokkum (sem tíðkast víst enn í Japan og eiga sér langa sögu þótt ekki hafi þeir verið prjónaðir) – sjá mynd af svoleiðis sokkum hér til hægri eða smelltu á krækjuna.
 

Ég flokka þessar færslur undir nýjum bloggfærsluflokki, saga prjóns.


Heimildir:Bush, Nancy. 1994. Folk Socks. The History & Techniques of Handknitted Footwear. Interweave Press, Colorado 1994, s. 11-13.Rutt, Richard. 1989. A History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado 1989 (fyrst gefin út 1987), s. 28-32

Schoeser, Mary. 2003. World Textiles. A Concise History. Thames & Hudson, London, s. 62.

Turnau, Irene. 1991. History of Knitting before Mass Production. (Agnieszka Szonert þýddi). Polska Akademia Nauk. Institut Historii Kultury Mareialnej. Varsjá 1991, s. 13-19.
 
 
 

Aegyptus (rómverskt skattland), http://is.wikipedia.org/wiki/Aegyptus_(r%C3%B3mverskt_skattland)

Dempsey, Jack. 2010.  „Caldendar House, 2. Into the Labyrinth“. Clues to Minoan Time from Knossos Labyrinth

„Egypt, 1–500 a.d.“ á HEILBRUNN TIMELINE OF ART HISTORYhttp://www.metmuseum.org/toah/ht/?period=05®ion=afe

 „Historical socks“, Sock Museum, http://www.sockmuseum.com/historical-socks

Kang, Jun-suk. 2009. A History of Textiles in Egypt. Nemendaritgerð í AP European History Class, í Korean Minjok Leadership Academy. http://www.zum.de/whkmla/sp/1011/ignoramus/igno2.html#III

Sock It! http://ancientegyptiansock.blogspot.com/
 

Í aðrar heimildir er krækt beint úr texta.

Leikfimi

Leikfimikennari barst aðeins í tal á fésinu í gær … og svo horfði ég á hinar flinku fimleikastúlkur Skagans hoppa og skoppa á æfingu áðan, meðan ég beið eftir manninum sem stakk í mig nálum. Svoleiðis að ég fór að hugsa um leikfimi – eins og hún var.

Svo háttaði til á Laugarvatni á mínum uppvaxtarárum þar (og gerir kannski enn) að nemendur í öllum hinum skólunum voru æfingafóður fyrir íþróttakennaranema. Í þá tíð var Íþróttakennaraskólinn eins árs nám og þurfti ekki stúdentspróf til að komast inn í hann. (Sem leiddi auðvitað til botnlausrar fyrirlitningar menntskælinga á Þrótturum, nema þeirra menntskælinga sem höfðu hugsað sér að fara í Þróttó eftir stúdentspróf. Enda praktískt að þurfa bara eitt ár til að fá full kennararéttindi á báðum skólastigum, sérstaklega fyrir þá sem hefðu kannski átt erfitt uppdráttar í háskólanámi.). En svo ég spæli ekki elskulega bekkjarbræður mína frá því í denn held ég mig að mestu við árin í Héró, þ.e. í 2. bekk (samsvarar 8./9. bekk grunnskóla) og landsprófi (samsvarar 9./10. bekk), í lýsingunni. Ég stundaði nám í Héraðsskólanum 1972-74 og svo tók Menntó við. Leikfimikennslan breyttist ekkert.

Það þótti ekki við hæfi á áttunda áratugnum að karlmenn kenndu stelpum íþróttir. Þess vegna sáum við einungis karl-þróttara í árlegum gömludansa-námskeiðum, sem hugsanlega voru bara tíðkuð á menntaskólaaldri. Þess meir sást af Þróttóstelpum. Þær sprönguðu um í einhvers konar tvískiptum fimleikagöllum,rauðum og svörtum, í sérhönnuðum leikfimitátiljum.  Líklega var þetta að rússneskri fyrirmynd. Í hverjum tíma kenndu svona 3-4 af tegundinni. Við nemendurnar áttum að vera í “leikfimibol”, teygjuflík sem líktist helst viktoríönskum sundbol með stuttum ermum og skálmarlausum. Svo voru allar berfættar (ekki búið að finna upp fótsveppi á þessum árum).

Í upphafi tíma sátum við upp við rimlana meðan Þróttóstelpur lásu kladda. Það var bannað að kíkja í kladdann. Það var bannað að segjast vera með hausverk af því Þróttó hafði ákveðið að þetta héti “höfuðverkur”. Eina leyfilega orðalagið yfir að vera á túr var “ég er forfölluð”. Ég átti afar bágt með að fara ekki að hlæja á fullorðinsárum þegar karlmenn tilkynntu forföll á fund eða álíka … Hefði stelpa höfuðverk eða var forfölluð sat hún alklædd og horfði á. (Það var ekki búið að finna upp þá skoðun að konur / unglingsstúlkur gætu hreyft sig verandi á blæðingum.) Hinar forfölluðu pössuðu úr og hringi hinna og var sérstök kúnst að halda úrunum aðskildum svo þau “segulmögnuðust” ekki.

Leikfimitímar hófust á að mynda beina röð eftir hæð. Ég var venjulega næstminnst og því næstfremst í röðinni. Svo kallaði ein Þróttóstelpan skipandi: “Standið rétt, fætur saman, áfram gakk, einn-tveir, einn-tveir” o.s.fr. Sem sagt hergöngulag. Og ekki gleyma að horfa í hnakkann á þeirri sem var fyrir framan. (Svo við hljótum að hafa verið aðeins niðurlútar, svona eftir á séð). Ýmis varíantar voru á hringöngum um salinn, eins og að ganga á tánum, ganga á jörkunum (þarna lærði ég orðið “jarki”, sem ég hef aldrei heyrt notað utan íþróttasalarins á Laugarvatni). Svo voru hlaupnir nokkrir hringir. Og Þróttóstelpurnar höfðu dómaraflautur sem þær brúkuðu óspart.

Að því búnu demonstreruðu Þróttstelpurnar í fimleikagöllunum sínum nokkrar gólfæfingar og við áttum svo að gera eins. Þetta voru þessar dæmigerðu æfingar, gerðar til að fá harðan maga, grennra mitti, styrkari læri og fleira kvenlegt. Bannað að segja voff í hundastellingunni – þá var rekið út. Svo voru dregin fram áhöld og byrjað að hoppa yfir hest og yfir kistu (bannað að segja “ég þori því ekki” – í Þróttó höfðu menn ekki heyrt af staðbundinni norðlenskri málvenju og ég mátti þakka fyrir að vera ekki rekin út, það átti nefnilega að segja “ég þori það ekki”.) Yfirleitt var algerlega bannað að segja nokkurn skapaðan hlut við þessar Þróttóstelpur. Og uppi á svölum sat sjálf Mínerva og beindi hvössum sjónum að þeim og okkur undirsátunum. Mátti ekki á milli sjá hvorar voru hræddari við hana.  … Kollhnísar á dýnu voru fastur liður, líka að standa á höfði (af því “haus” fannst ekki í orðaforða leikfiminnar) eða á höndum. Ég var vonlaus í þessu öllu, með grindhoraða handleggi og alger veimiltíta. Var líka of horuð til að uppfylla “standið rétt, fætur saman” herskylduna.

Einstaka sinnum var boltaleikur. Það var alltaf blak. Mikið ofboðslega hata ég blak! Fyrrnefndir handleggir og píanófingur og gleraugu fyrir mínus 7 eru ekki gott veganesti í blaki. Í menntó söfnuðum við undirskriftum og heimtuðum að fá körfubolta eins og strákarnir. Körfubolti var mun skárri. Já, og það var kosið í lið og það er ekkert gaman að vera alltaf kosin síðust. Reyndar grunaði mig þó alltaf innst inni að blakhæfileikar væru heldur lítils virði, í námi og í lífinu, en þetta var samt leiðinlegt.

Sumar Þróttóstelpurnar reyndu að vera almennilegar svo lítið bæri á en þær þurftu að fara sérlega vel með það til að lækka ekki í einkunn fyrir æfingakennsluna hjá Mínervu. Aðrar Þróttóstelpur beinlínis nutu þess að leika herforingja; mér er sérstaklega ein minnisstæð enda var hún, í nemendastelpnahópnum, aldrei kölluð annað en Gribban. Hún fékk svo síðar enn meir krassandi viðurnefni í öðru starfi.

Að koma inn í þennan herskóla, úr litlum sveitaskóla þar sem allir voru saman í leikfimi og yfirleitt farið í einhverja skemmtilega leiki, eins og skota (afbrigði af brennó) eða slagbolta eða Tarzan-leik eða  bara farið út og búið til snjóhús eða risasnjókerling … og ég spilaði fótbolta með hinum krökkunum … var auðvitað horror.

Árangurinn af kennslunni var að ég lét mig hafa það að taka stúdentspróf í leikfimi (man að eitt prófatriðið var að hoppa jafnfætis yfir körfubolta, sem var pís of keik en eitt helvítis atriðið var að standa á höndum sem ég gat náttúrlega ekki – en hvenær í ósköpunum nýtist það manni að standa á höndum?). Svoleiðis að ég er sem sagt stúdent í leikfimi. Aftur á móti varð  ég mér út um vottorði í sundi, sem var enn verra upplifelsi en leikfimikennslanþví þar var ég nánast blind og sá hvorki leikin sundtök fimleikaklæddu Þróttóstelpnanna á bakkanum, né sundlaugarbakkann, með ofnæmi fyrir klórpollinum sem aktaði sem sundlaug og sá fram á að meðaleinkunn á stúdentsprófi myndi hrapa gífurlega ef ég tæki stúdentspróf í sundi. Þannig að ég er illa menntað kvikindi án stúdentsprófs í sundi.

Aðalárangurinn af þessari kennslu var þó að ég fékk æfilangt ógeð á lyktinni í íþróttasölum, læt mig ekki dreyma um að stíga tá oní sundlaug og hef mikla fordóma í garð íþróttakennara, sérstaklega hvað varðar vitsmuni þeirra. Samt hef ég kynnst íþróttakennurum síðar meir sem voru alls ekki algerlega dúmm.

Sem betur fer hefur íþróttakennsla skánað heilmikið frá gullaldarárum Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni 😉 En ég velti því stundum fyrir mér hvað hafi orðið af öllum þessum Þróttóstelpum. Lifðu þær af venjulegt skólaumhverfi og íþróttaumhverfi utan Laugarvatns?